Þessi örsögubók Kristínar Arngrímsdóttur er skrifuð af mikilli list og ljóðrænni mýkt. Texti bókarinnar rennur fagurlega og höfundur bregður upp hverri eftirminnilegri myndinni á fætur annarri. Hún leiðir okkur inn í veröld sem löngu er horfin og lesandinn fær augu hennar lánuð til að fylgjast með liðnum atburðum.

Knappt form örsögunnar reynir á hæfni sögukonunnar og ekki verður annað sagt en að hún komist frá því með sóma. Frásögnin er sannfærandi og samfelld en sú hætta fylgir alltaf örsögum að símskeytastíll taki yfir. Í raun kallar örsagan á prósaform en það hentar mjög vel skáldlegri tjáningu þar sem brugðið er upp leifturmyndum frá liðinni tíð. Þá segir ljóðrænn texti örsögunnar meira en þúsund orð. Prósinn gefur nefnilega frelsi og andrými. Barnið skoðar heiminn í frelsi sínu og með því; býður lesendum að horfa á það sem minningarnar setja á svið vitundarinnar í andránni. Þess vegna hæfir prósa-örsöguformið þessum minningaleiftrum.

Í örsögum sínum fer skáldkonan með augum barnsins um bernsku sína í Odda á Rangárvöllum. Þar er faðir hennar prestur og barnið fylgist með störfum hans og milli þeirra er einstaklega fallegt samband. Móðuramma höfundarins er atkvæðamikil í bernsku hennar og augljóst að stúlkan er henni hjartfólgin.

Höfundur gengur um æskuslóðir sínar asalaus og heillar lesandann með kyrrð frásagnanna en þó ekki svo að skilja að fátt gerist. Það gerist nefnilega margt í hversdeginum sem er vettvangur manneskjunnar. Æskan geymir myndir og atburði við hvert fótmál:

Það eru allir að drepa hver annan í þessari bók, segi ég og hækka aðeins róminn.
Ertu að lesa Gamla testamentið? Lestu frekar það nýja, tautar pabbi annars hugar. (Bls. 7).

Hún varpar upp sterkum myndum af sveitaprestinum, föður sínum. Hann átti síðar eftir að verða sérfræðingur í helgisiðum innan þjóðkirkjunnar:

Pabbi stendur við gluggann á kontórnum, treður tóbaki í pípuna og syngur Gregorsöng. Röddin líður um herbergið, dimm og áreynslulaus.  (Bls. 9).

Hún fær að vera inni á kontórnum hjá honum þegar hann er að skrifa prédikun en þá verður hún líka að vera hljóð. Hugur barnsins sér myndir í öllu eins og:

Hekla er með hatt úr köngulóarvef og Gammabrekka er fagurlega útskorin. (Bls. 17).

Þó faðirinn sé hinn upptekni prestur og kannski ögn hinn fjarlægi faðir þá er samband þeirra fallegt; hann gefur hann sér tíma til að greiða hár dóttur sinnar, slétta peysu hennar og reima skóna. Og svo hleypur hún út í sólskinið. Hann vill sýna henni það fallegasta og hleypur út á hlað og hún á eftir honum: það var sólsetur og hún skrifar:

„Ég horfi á hann horfa á það fallegasta sem er til.“ (Bls. 38).

Barnið er léttstígt og hugur þess opinn. Það fer ekkert fram hjá litlu stúlkunni. Hversdagurinn er sem ævintýri og móðuramma hennar lætur í sér hvína en er mild og ástrík. Henni er ekki sama um barnið né staðinn, Odda.

Móðuramma hennar er sterkur persónuleiki í örsögunum. Ákveðin kona og vinnusöm. Stúlkubarninu líst ekkert á ömmu sína þar sem hún reitir hænu í kjöltu sér og æpir á hana að koma og hjálpa sér, otar blóðugum fingri að henni. En stúlka litla læðist hljóðlega frá henni. En amman flytur líka spekiorð. Hún segir að eilífðin sé endalaus eins og himinninn og þangað hverfi allt að lokum, „sveimi um og verði sinnulaust.“ (Bls. 11). Hún  vill eiga hlut í uppeldi stúlkunnar og gefur henni ýmis heilræði eins og það að stara ekki á fólk, liggja ekki á gægjum, og lesa hollt efni. Stúlkan má ekki blístra því að amman segir að þá hópist púkarnir að. Stúlkan hefur það eftir prestinum, pabba sínum, að það séu engir púkar þarna á bænum.  Og amman svarar: „Nú, nú segir það já. Það var þá!“ (Bls. 21). Hún bætir því við að munnurinn á henni verði eins og „gat á ullarsokk, illa rimpað saman“ ef hún blístri svona:

„Viltu það? Viltu líta þannig út í gröfinni þegar þar að kemur?“ (Bls. 21).

Svo rigsar hún inn til prestsins – og lætur hann sennilega heyra það!

En það eru fleiri sem koma við örsögu Kristínar. Móðir hennar leikur á orgel og stjórnar kirkjukórsæfingum. Á prestskonunni mæða líka sveitahúsfreyjustörfin:

„Hún heldur á lurk sem hún sveiflar þegar hún hreyfir við þvottinum.“ (Bls. 16).

Þegar gestir koma eftir messu inn í bæ í messukaffi sest hún líka við orgelið og fólk þenur raustina. Stúlkan tekur vel eftir fólkinu eins og konu sem heldur „sparilega á kaffibolla“ en þá er litlifingur teygður út í loftið. Önnur sveitakonan starir á smáköku eins og undur. Presturinn býður í staupinu. Og enn gengur stúlkan út í sólskinið sem fylgir æskunni. Móðirin vill að hún læri á orgel en það gengur eitthvað brösuglega.

Kátbrosleg er örsagan af því þegar stúlkan aðstoðar ömmu sína við að komast í lífstykkið svo hún geti klætt sig í peysufötin. Það tókst og amman sigldi eins og „drottning“ út herberginu. (Bls. 26). En þessi athöfn tók á. Amman segir líka barnabarni sínu magnaðar sögur frá því hún var lítil stúlka:

„…þá hrundu ánamaðkar úr þekjunni ofan á rúmin í vorleysingum, lítil börn drukknuðu við sokkaþvott … hendur drukknandi sjómanna stóðu upp úr hafinu eins og tré í skógi…“ (Bls. 30).

Það gerist eitt og annað á prestsheimilinu. Presturinn þarf eitt sinn að storma í kaupstað til að kaupa kopp því að biskupinn yfir Íslandi var að koma að vísitera:

„Pabbi kemur askvaðandi og stillir glænýjum koppnum í gluggakistuna þar sem sólin skín á hann.“ (Bls. 34).

Heimilisfólkið virti um stund fyrir sér koppinn. Amman tók síðan af skarið:

„…skellir í góm, þrífur koppinn og kemur honum fyrir undir rúmi biskups.“ (Bls. 34).

Stúlkan læðist líka út í kirkju þar sem lík stendur uppi og síðan er kistan borin út:

„Grafararnir tauta og spýta mórauðu. Þeir baksa við kaðlana sem þeir hafa brugðið um kistuna … Pabbi minn kastar rekunum og kolsvört hempan flaksast í vindinum.“ (Bls. 35).

Fram kemur í bókinni að hún er tileinkuð minningu foreldra höfundarins, þeim sr. Arngrími Jónssyni, Guðrúnu Sigríði Hafliðadóttur og ömmu hennar, Matthildi Jónsdóttur.

Sr. Arngrímur Jónsson, dr. theol. var sóknarprestur í Odda á Rangárvöllum 1946-1964. Síðar í Háteigskirkju í Reykjavík þar til hann fór á eftirlaun. Dóttir hans, höfundurinn, Kristín, ólst upp í Odda til ellefu ára aldurs. Hún er rithöfundur og myndlistarkona.

Niðurstaða

Einstaklega falleg og hugnæm frásögn, stillt og prúð, sem geymir sögu fólks sem gengið er um garða. Allar örsögurnar rekja í knöppu formi mjög svo læsilegar og sterkar minningar um hversdagslegt líf þar sem lesandinn stendur nánast við hlið höfundarins. Bók sem er mannbætandi.

Glampar, eftir Kristínu Arngrímsdóttur, Blekfjelagið gaf út, Reykjavík 2023, 57 bls.

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Þessi örsögubók Kristínar Arngrímsdóttur er skrifuð af mikilli list og ljóðrænni mýkt. Texti bókarinnar rennur fagurlega og höfundur bregður upp hverri eftirminnilegri myndinni á fætur annarri. Hún leiðir okkur inn í veröld sem löngu er horfin og lesandinn fær augu hennar lánuð til að fylgjast með liðnum atburðum.

Knappt form örsögunnar reynir á hæfni sögukonunnar og ekki verður annað sagt en að hún komist frá því með sóma. Frásögnin er sannfærandi og samfelld en sú hætta fylgir alltaf örsögum að símskeytastíll taki yfir. Í raun kallar örsagan á prósaform en það hentar mjög vel skáldlegri tjáningu þar sem brugðið er upp leifturmyndum frá liðinni tíð. Þá segir ljóðrænn texti örsögunnar meira en þúsund orð. Prósinn gefur nefnilega frelsi og andrými. Barnið skoðar heiminn í frelsi sínu og með því; býður lesendum að horfa á það sem minningarnar setja á svið vitundarinnar í andránni. Þess vegna hæfir prósa-örsöguformið þessum minningaleiftrum.

Í örsögum sínum fer skáldkonan með augum barnsins um bernsku sína í Odda á Rangárvöllum. Þar er faðir hennar prestur og barnið fylgist með störfum hans og milli þeirra er einstaklega fallegt samband. Móðuramma höfundarins er atkvæðamikil í bernsku hennar og augljóst að stúlkan er henni hjartfólgin.

Höfundur gengur um æskuslóðir sínar asalaus og heillar lesandann með kyrrð frásagnanna en þó ekki svo að skilja að fátt gerist. Það gerist nefnilega margt í hversdeginum sem er vettvangur manneskjunnar. Æskan geymir myndir og atburði við hvert fótmál:

Það eru allir að drepa hver annan í þessari bók, segi ég og hækka aðeins róminn.
Ertu að lesa Gamla testamentið? Lestu frekar það nýja, tautar pabbi annars hugar. (Bls. 7).

Hún varpar upp sterkum myndum af sveitaprestinum, föður sínum. Hann átti síðar eftir að verða sérfræðingur í helgisiðum innan þjóðkirkjunnar:

Pabbi stendur við gluggann á kontórnum, treður tóbaki í pípuna og syngur Gregorsöng. Röddin líður um herbergið, dimm og áreynslulaus.  (Bls. 9).

Hún fær að vera inni á kontórnum hjá honum þegar hann er að skrifa prédikun en þá verður hún líka að vera hljóð. Hugur barnsins sér myndir í öllu eins og:

Hekla er með hatt úr köngulóarvef og Gammabrekka er fagurlega útskorin. (Bls. 17).

Þó faðirinn sé hinn upptekni prestur og kannski ögn hinn fjarlægi faðir þá er samband þeirra fallegt; hann gefur hann sér tíma til að greiða hár dóttur sinnar, slétta peysu hennar og reima skóna. Og svo hleypur hún út í sólskinið. Hann vill sýna henni það fallegasta og hleypur út á hlað og hún á eftir honum: það var sólsetur og hún skrifar:

„Ég horfi á hann horfa á það fallegasta sem er til.“ (Bls. 38).

Barnið er léttstígt og hugur þess opinn. Það fer ekkert fram hjá litlu stúlkunni. Hversdagurinn er sem ævintýri og móðuramma hennar lætur í sér hvína en er mild og ástrík. Henni er ekki sama um barnið né staðinn, Odda.

Móðuramma hennar er sterkur persónuleiki í örsögunum. Ákveðin kona og vinnusöm. Stúlkubarninu líst ekkert á ömmu sína þar sem hún reitir hænu í kjöltu sér og æpir á hana að koma og hjálpa sér, otar blóðugum fingri að henni. En stúlka litla læðist hljóðlega frá henni. En amman flytur líka spekiorð. Hún segir að eilífðin sé endalaus eins og himinninn og þangað hverfi allt að lokum, „sveimi um og verði sinnulaust.“ (Bls. 11). Hún  vill eiga hlut í uppeldi stúlkunnar og gefur henni ýmis heilræði eins og það að stara ekki á fólk, liggja ekki á gægjum, og lesa hollt efni. Stúlkan má ekki blístra því að amman segir að þá hópist púkarnir að. Stúlkan hefur það eftir prestinum, pabba sínum, að það séu engir púkar þarna á bænum.  Og amman svarar: „Nú, nú segir það já. Það var þá!“ (Bls. 21). Hún bætir því við að munnurinn á henni verði eins og „gat á ullarsokk, illa rimpað saman“ ef hún blístri svona:

„Viltu það? Viltu líta þannig út í gröfinni þegar þar að kemur?“ (Bls. 21).

Svo rigsar hún inn til prestsins – og lætur hann sennilega heyra það!

En það eru fleiri sem koma við örsögu Kristínar. Móðir hennar leikur á orgel og stjórnar kirkjukórsæfingum. Á prestskonunni mæða líka sveitahúsfreyjustörfin:

„Hún heldur á lurk sem hún sveiflar þegar hún hreyfir við þvottinum.“ (Bls. 16).

Þegar gestir koma eftir messu inn í bæ í messukaffi sest hún líka við orgelið og fólk þenur raustina. Stúlkan tekur vel eftir fólkinu eins og konu sem heldur „sparilega á kaffibolla“ en þá er litlifingur teygður út í loftið. Önnur sveitakonan starir á smáköku eins og undur. Presturinn býður í staupinu. Og enn gengur stúlkan út í sólskinið sem fylgir æskunni. Móðirin vill að hún læri á orgel en það gengur eitthvað brösuglega.

Kátbrosleg er örsagan af því þegar stúlkan aðstoðar ömmu sína við að komast í lífstykkið svo hún geti klætt sig í peysufötin. Það tókst og amman sigldi eins og „drottning“ út herberginu. (Bls. 26). En þessi athöfn tók á. Amman segir líka barnabarni sínu magnaðar sögur frá því hún var lítil stúlka:

„…þá hrundu ánamaðkar úr þekjunni ofan á rúmin í vorleysingum, lítil börn drukknuðu við sokkaþvott … hendur drukknandi sjómanna stóðu upp úr hafinu eins og tré í skógi…“ (Bls. 30).

Það gerist eitt og annað á prestsheimilinu. Presturinn þarf eitt sinn að storma í kaupstað til að kaupa kopp því að biskupinn yfir Íslandi var að koma að vísitera:

„Pabbi kemur askvaðandi og stillir glænýjum koppnum í gluggakistuna þar sem sólin skín á hann.“ (Bls. 34).

Heimilisfólkið virti um stund fyrir sér koppinn. Amman tók síðan af skarið:

„…skellir í góm, þrífur koppinn og kemur honum fyrir undir rúmi biskups.“ (Bls. 34).

Stúlkan læðist líka út í kirkju þar sem lík stendur uppi og síðan er kistan borin út:

„Grafararnir tauta og spýta mórauðu. Þeir baksa við kaðlana sem þeir hafa brugðið um kistuna … Pabbi minn kastar rekunum og kolsvört hempan flaksast í vindinum.“ (Bls. 35).

Fram kemur í bókinni að hún er tileinkuð minningu foreldra höfundarins, þeim sr. Arngrími Jónssyni, Guðrúnu Sigríði Hafliðadóttur og ömmu hennar, Matthildi Jónsdóttur.

Sr. Arngrímur Jónsson, dr. theol. var sóknarprestur í Odda á Rangárvöllum 1946-1964. Síðar í Háteigskirkju í Reykjavík þar til hann fór á eftirlaun. Dóttir hans, höfundurinn, Kristín, ólst upp í Odda til ellefu ára aldurs. Hún er rithöfundur og myndlistarkona.

Niðurstaða

Einstaklega falleg og hugnæm frásögn, stillt og prúð, sem geymir sögu fólks sem gengið er um garða. Allar örsögurnar rekja í knöppu formi mjög svo læsilegar og sterkar minningar um hversdagslegt líf þar sem lesandinn stendur nánast við hlið höfundarins. Bók sem er mannbætandi.

Glampar, eftir Kristínu Arngrímsdóttur, Blekfjelagið gaf út, Reykjavík 2023, 57 bls.

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir