Nú hafa fjórir prestar lýst því yfir að þeir óski eftir því að verða tilnefndir í fyrri umferð biskupskjörsins sem verður nú innan skamms. Þrjár konur og einn karl. Eflaust eiga einhverjir fleiri eftir að bætast við.

Samkvæmt lögum um þjóðkirkjuna er starfsheitið biskup Íslands og fer hann með yfirstjórn þjóðkirkjunnar eftir því sem kirkjuþing ákveður nánar um. Bein starfslýsing biskupsstarfsins liggur ekki fyrir nema að því leyti sem byggir á hefð og skipurit þjóðkirkjunnar segir til um. Enn á eftir að setja starfsreglur.

Það bar margt á góma í áramótaboði sem Kirkjublaðið.is sótti. Vangaveltur um kirkjuna og framtíð hennar. Og umræður um hver verði næsti biskup. Einn spurði hvort ekki væri sniðugast að láta Gallup spyrja þjóðina um það hvern hún vildi sem biskup. Kannski á það ágæta fyrirtæki eftir að spyrja um það og fleira í kringum biskupsstarfið og þjóðkirkjuna.

Starfsmaður ráðningarskrifstofu velti því fyrir sér hvort biskup væri ekki bara forstjóri þjóðkirkjunnar og hann ætti að ráða í djobbið eftir auglýsingu og ruddi síðan út úr sér þeim kostum sem ættu að prýða viðkomandi:

„framúrskarandi leiðtogahæfni, góðir samskiptahæfileikar, drifkraftur, brennandi áhugi og jákvætt viðhorf, forysta af kærleika og hvatningu, frumkvæði, metnaður, gagnrýnin og lausnamiðuð hugsun, sveigjanleiki, gott vald á íslensku og ensku og einu Norðurlandamáli í rituðu og mæltu máli.“

Í áramótaboðinu supu nokkrir hveljur (eftir að hafa reyndar sopið á öðru betra) þegar þau heyrðu hvernig staðið væri að vali á biskupi Íslands. Einn spurði kímileitur á svip hvort ekki þyrfti alþjóðlega kosningaeftirlitsstofnun til að hafa auga með þessu og gera viðeigandi athugasemdir.

„Er þetta ekki biskup þjóðarinnar?“ spurði einhver digri röddu og stakk mjúkum nautabita á spjóti í sósuna. „Liggur ekki í því að allir ættu að fá að kjósa?“ Honum var svarað að bragði að meðan meirihluti þjóðarinnar væri í þjóðkirkjunni þá væri þetta auðvitað þjóðkirkja en það virtist fjara undan kirkjunni og félagafjöldinn færi innan tíðar undir fimmtíu prósent. „Og hvað þá?“ var sagt með spurnarþunga og litið í kringum sig og nærstaddir rukkaðir um svar. „Tja, er ekki Þjóðleikhúsið alltaf leikhús þjóðarinnar þó minnihluti hennar sæki sýningar?“ sagði ein kona með bjartri jákvæðni í röddinni.

Enn er nefnilega við lýði það athyglisverða form að hafa tvær umferðir þegar velja skal biskup Íslands. Rétt til þátttöku í fyrri umferð hafa aðeins vígðir þjónar kirkjunnar. Þeir tilnefna þrjá presta og af þeim skal velja einn í seinni umferð sem biskup Íslands en í henni hefur ákveðinn hópur leikmanna kosningarétt ásamt hinum vígðu þjónum.  

„Þetta fyrirkomulag er náttúrlega mjög svo andlýðræðislegt,“ sagði kona ein sem var menntaður stjórnmálafræðingur, „og ljóst að klerkar hafa reist sér varnarmúr innan kirkjunnar.“ Hún sagði þetta vera púra forræðishyggju. Saup svo vel á glóandi drykk úr glasi á flúruðum fæti.

Einn hress ungur náungi í hvítri skyrtu með lakkrísbindi glotti svo flissandi þegar hann áttaði sig á ferlinu og sagði þetta minna sig á hvíta reykinn sem stigi upp úr Vatíkaninu þegar búið væri að velja páfa. „Þegar prestarnir eru búnir að velja þrjá sem þeir telja hæfasta í biskupsstólinn senda þeir upp hvítan reyk til merkis um að nú megi hinir koma að hinu endanlega vali,“ sagði hann hlæjandi. „Þetta gengur náttúrlega ekki.“ Það kumraði í nokkrum við þessi orð og einn hnakkakerrtur miðaldra maður sem kunnur var af stofuróttækni sagði að þegar væri talað um hina í þessu sambandi þá væri það grímulaus stofnanarasismi. „Góðir þessir laukhringir,“ sagði einhver og þá gleymdust ummæli gamla róttæklingsins. „Hvaðan eru þessar veitingar?“

Síðan hófust almennar umræður um að auðvitað þyrfti að breyta þessu til lýðræðislegrar áttar og gefa öllum sem rétt hafa á að kjósa að taka þátt í fyrstu umferð og sömuleiðis í þeirri seinni: „Best er náttúrlega að hafa eina umferð og vera ekki að flækja þetta,“ sagði einn lausnamiðaður hvellt. Í raun og veru væri þetta hálf vandræðaleg staða fyrir þjóðkirkjuna að bauka við svona elítulega kosningu í nútímanum þegar hún ætti lögum samkvæmt að hafa í heiðri grundvallarreglur jafnréttis og lýðræðis.

Guðfræðingurinn í hópnum sagði svo kirkjunni til málsbótar að sumir biskupar og prestar hefðu reyndar sagst jafnvel vera hlynntir því að öll þjóðin, allt þjóðkirkjufólk, kysi biskup.

„Því verr gefast heimskra manna ráð, sem fleiri koma saman,“ hvein í einni konu sem þoldi illa guðs kristni.“

Hófsamir gestir báðu konuna í guðanna bænum að fara ekki í vantrúargírinn því að flestir í samkvæminu væru heiðarlegt þjóðkirkjufólk og þætti vænt um kirkjuna. Guðfræðingurinn hélt áfram og sagði þó að það hafi verið haft á orði á kirkjuþingi og annars staðar að fleiri kæmu að kosningu þá hefði það ekki sést enn á borði. Einhverjir sögðu það nú bara vera gömlu söguna – skríktu og litu hver á annan til stuðnings og samþykkis. Eitt sagt og annað gert. „Svo lengi sem biskup á að kallast biskup Íslands, biskup þjóðkirkjunnar, verða sem flestir í því trúfélagi að koma að kosningu hans,“ sagði roskinn maður sem hafði setið í sóknarnefnd til áratuga. Þetta var ein af þessum sanngjörnu og augljósu athugasemdum sem allir gátu tekið undir í sjálfu sér án þess að þurfa svo sem að færa hana til bókar vitandi að fátt gerðist að sinni.

„Er það rétt skilið hjá mér,“ sagði ungur maður með kjúklingaspjót í hendi, „á biskup ekki að vera trúarlegur leiðtogi?“

„Hverjum dytti í hug að auglýsa eftir trúarlegum leiðtoga?“ flissaði stæðilegur karl rauðþrútinn í kinnum um leið og hann kyngdi sushibita. Benti svo vínhásri röddu á að þá myndu allir rugludallar landsins sækja um. „Trúarlegir leiðtogar verða bara til í djúpi þjóðarinnar en ekki í háskólum.“ Enginn gerði athugasemd við þetta og héldu að setningin væri skrásett spakmæli en voru ekki vissir hver ætti það en þó flaug Mahatma Gandhi um huga einhverra.

Flestir voru því sammála að vanda þyrfti valið á nýjum biskupi því að þjóðkirkjan væri ákveðin kjölfesta í íslensku samfélagi þó að á ýmsu hefði gengið í kirkjunni.

„Kirkjan er fólkið,“ sagði einhver stólræðulega og vel var tekið undir það.

Guðfræðingurinn dró fram að sannarlega væri biskup starfsmaður kirkjunnar og hefði ákveðnu hlutverki að gegna sem kæmi hvort tveggja inn á trúarlega þætti og veraldlega.

„Biskupinn prédikar, hann flytur fagnaðarerindið og boðar trú,“ sagði hann. „Best væri að biskupinn væri sem snjallastur prédikari og næði vel til fólks í ræðum sínum.“

Þessi orð um prédikunina kveiktu þó nokkra elda og komu ótal sögur á færibandi um prédikanir presta. Hversu ómögulegar þær væru sumar en aðrar frábærar. Og allt þar á milli.

„Væri ekki best að velja biskupinn eftir því hvernig prédikari hann er?“ sagði íturvaxinn ungur maður sem var meistari í líkamsrækt. Hann spurði síðan áhugasamur hvar væri hægt að lesa prédikanir prestanna sem gæfu kost á sér. Enginn gat svarað því. En líkamsræktarmeistarinn vildi ekki gefast upp í pælingum sínum og sagði að prédikarinn væri sennilega ekkert ólíkur vaxtaræktarmönnum á stórmóti sem stæðu frammi fyrir áhorfendum sem byggjust við því besta hjá honum. „Prédikarinn horfist í augu við söfnuðinn, jafnvel þjóðina ef svo má segja þegar prédikað er á jólum í útvarpi og sjónvarpi,“ sagði hann upptendraður og bætti því við að prédikarinn þyrfti að taka á öllu sínu. „Kýla á það, auðvitað,“ skaut einn að og guðfræðingurinn renndi því inn í umræðuna að ekki mætti falla í gryfju trúarlegra frasa, heldur túlka fagnaðarerindið inn í nútímann. „Jesús minn, það er mikið verk og ekki auðvelt,” sagði áhyggjufull kona lágt en bætti svo við í uppörvunarskyni: „Þá verður viðkomandi að sjálfsögðu að fá einhverja þjálfun í því að koma fram í sjónvarpi.“

Gamli sögukennarinn með tjúguskeggið sagði að biskupar væru yfirleitt til vandræða og komst ekki að með framhaldið því svo margir jánkuðu sárhneykslaðir með hummi og „seggðu.“ Svo komu upprifjanir í stríðum straumi á misvitrum orðum þeirra og gjörðum. Þungir dómar felldir. Sumir áttu ekki til orð jafnvel þótt vínandinn væri búinn að lausbeisla talandann.

„Mér finnst bara svo mannlegt að heyra af öllum þessum átökum í kirkjunni,“ sagði aldurhnigin kona og hnykkti svo á því að öll værum við syndarar. Þögn sló á hópinn um leið og syndararnir voru dregnir fram á sviðið en hún var svo rofin af mjóróma röddu sem sagði að það væri nú alltaf djúsí að heyra af alls konar átökum í kirkjunni. Lögfræðingurinn í hópnum kinkaði kolli en til þess að girða fyrir misskilning um að hann tæki undir þessi síðustu orð sagði hann að ágreining á kirkjulegum vettvangi þyrfti að leysa í viðeigandi stofnunum kirkjunnar. Það fannst gestunum ekki svo fráleitt og einn skaut því að hvort ekki væri heppilegra að biskupinn væri kristinn lögfræðingur frekar en guðfræðingur. Nokkrir nýttu sér þessa umræðuíkveikjutilraun til að smeygja sér á snyrtinguna.

„Hvernig er það annars,“ spurði ung kona blátt áfram, „standa þessir biskupar eitthvað nær almættinu en við hérna í opna vinnurýminu?“ Það kom smá hikbylgja yfir samkvæmið og sumir notfærðu sér seigfljótandi kyrrðina til að bæta í glös sín og súrsuðum bollum og spjótum í servíettuna. Það var þetta með opna vinnurýmið sem skildist ekki alveg og var að auki umdeilt hjá sumum. Vinnustaðasálfræðingurinn hrökk hins vegar við upp úr kínversku veganrúllunni sinni þegar hann heyrði minnst á opna vinnurýmið en hann hafði haldið nokkur námskeið á vegum opinberrar þjónustustofnunar um hvernig starfa skyldi i þeim flóknu aðstæðum. Honum fannst nú vera komið að sér að leggja orð í belg og sagði:

„Stundum vottar fyrir þeirri hneigð að hefja biskupa upp yfir sauðsvartan almúgann en rót þess er sennilega minnimáttarkennd – æskutengd. Það á svo sem líka við um presta og djákna. Þeir sjálfir ýta jafnvel undir þetta með eilífum séringum, snobbuðum frúunum og herrunum, en það síðarnefnda er löngu hætt að nota eins og til dæmis um forseta landsins. En eins og aðrir vígðir þjónar kirkjunnar eru biskupar fyrst og fremst manneskjur. Með kostum og göllum.“

„Vel mælt hjá þér og þið sálarnir sjáið þá auðvitað út,“ sagði miðaldra kona með glettni í auga og bætti því við að sálfræðingarnir væru margir þessir líka fínu prestar.

„Ég er nú bara almennur þjóðkirkjukall eins og svo margir aðrir hérna og fer sjaldan í kirkju nema í jarðarfarir,“ heyrðist bak við fjallháan haug af djúpsteiktum rækjum. „En þegar einhverjir fara að tala um útvalningu í mín eyru þá lokast þau.“ Um leið og hann sporðrenndi nokkrum brakandi volgum rækjum sagðist hann vera trúaður maður og enginn tæki frá honum barnatrúna.

„Kennilýður kirkjunnar er fyrst og fremst þjónar, þjónar fólksins í kirkjunni,“ sagði guðfræðingurinn og lyfti glasi til að skála.

Einn í hópnum sagðist hafa heyrt einhvern prest segja að það væri mikilvægt að skoða hvað Ágsborgarjátningin hefði um þetta að segja. Ýmsir hváðu þegar þeir heyrðu minnst á játninguna og spurðu hvort það væri þessi venjulega sem væri þulin í messunum. Enginn gat svarað því. Og þessi sem nefndi Ágsborgarjátninguna var spurður að því með beittu augnaráði hvaða prestur hefði nefnt hana eins og verið væri að leita að sökudólgi. Nafn hans var svo hvíslað og sumur drógu andann djúpt um leið og þeir sögðu: „Já, hann. Ég skil.“

„Ég gúgglaði þessa játningu“ kallaði ung kona inn í hópinn, „þetta er stöff frá 1530.“ Nokkrir stundu þegar þeir heyrðu þetta og aðrir veinuðu upp kræst eða kom on.

Síðan sneri fólkið sér að öðru. „Og Guðni Th. bara að hætta,“ sagði einhver mjúkum og syndandi rómi sem vildi setja kirkjuumræðuna í nýtt samhengi, „þjóðin kýs forseta og fáir útvaldir kjósa biskupinn.“

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Nú hafa fjórir prestar lýst því yfir að þeir óski eftir því að verða tilnefndir í fyrri umferð biskupskjörsins sem verður nú innan skamms. Þrjár konur og einn karl. Eflaust eiga einhverjir fleiri eftir að bætast við.

Samkvæmt lögum um þjóðkirkjuna er starfsheitið biskup Íslands og fer hann með yfirstjórn þjóðkirkjunnar eftir því sem kirkjuþing ákveður nánar um. Bein starfslýsing biskupsstarfsins liggur ekki fyrir nema að því leyti sem byggir á hefð og skipurit þjóðkirkjunnar segir til um. Enn á eftir að setja starfsreglur.

Það bar margt á góma í áramótaboði sem Kirkjublaðið.is sótti. Vangaveltur um kirkjuna og framtíð hennar. Og umræður um hver verði næsti biskup. Einn spurði hvort ekki væri sniðugast að láta Gallup spyrja þjóðina um það hvern hún vildi sem biskup. Kannski á það ágæta fyrirtæki eftir að spyrja um það og fleira í kringum biskupsstarfið og þjóðkirkjuna.

Starfsmaður ráðningarskrifstofu velti því fyrir sér hvort biskup væri ekki bara forstjóri þjóðkirkjunnar og hann ætti að ráða í djobbið eftir auglýsingu og ruddi síðan út úr sér þeim kostum sem ættu að prýða viðkomandi:

„framúrskarandi leiðtogahæfni, góðir samskiptahæfileikar, drifkraftur, brennandi áhugi og jákvætt viðhorf, forysta af kærleika og hvatningu, frumkvæði, metnaður, gagnrýnin og lausnamiðuð hugsun, sveigjanleiki, gott vald á íslensku og ensku og einu Norðurlandamáli í rituðu og mæltu máli.“

Í áramótaboðinu supu nokkrir hveljur (eftir að hafa reyndar sopið á öðru betra) þegar þau heyrðu hvernig staðið væri að vali á biskupi Íslands. Einn spurði kímileitur á svip hvort ekki þyrfti alþjóðlega kosningaeftirlitsstofnun til að hafa auga með þessu og gera viðeigandi athugasemdir.

„Er þetta ekki biskup þjóðarinnar?“ spurði einhver digri röddu og stakk mjúkum nautabita á spjóti í sósuna. „Liggur ekki í því að allir ættu að fá að kjósa?“ Honum var svarað að bragði að meðan meirihluti þjóðarinnar væri í þjóðkirkjunni þá væri þetta auðvitað þjóðkirkja en það virtist fjara undan kirkjunni og félagafjöldinn færi innan tíðar undir fimmtíu prósent. „Og hvað þá?“ var sagt með spurnarþunga og litið í kringum sig og nærstaddir rukkaðir um svar. „Tja, er ekki Þjóðleikhúsið alltaf leikhús þjóðarinnar þó minnihluti hennar sæki sýningar?“ sagði ein kona með bjartri jákvæðni í röddinni.

Enn er nefnilega við lýði það athyglisverða form að hafa tvær umferðir þegar velja skal biskup Íslands. Rétt til þátttöku í fyrri umferð hafa aðeins vígðir þjónar kirkjunnar. Þeir tilnefna þrjá presta og af þeim skal velja einn í seinni umferð sem biskup Íslands en í henni hefur ákveðinn hópur leikmanna kosningarétt ásamt hinum vígðu þjónum.  

„Þetta fyrirkomulag er náttúrlega mjög svo andlýðræðislegt,“ sagði kona ein sem var menntaður stjórnmálafræðingur, „og ljóst að klerkar hafa reist sér varnarmúr innan kirkjunnar.“ Hún sagði þetta vera púra forræðishyggju. Saup svo vel á glóandi drykk úr glasi á flúruðum fæti.

Einn hress ungur náungi í hvítri skyrtu með lakkrísbindi glotti svo flissandi þegar hann áttaði sig á ferlinu og sagði þetta minna sig á hvíta reykinn sem stigi upp úr Vatíkaninu þegar búið væri að velja páfa. „Þegar prestarnir eru búnir að velja þrjá sem þeir telja hæfasta í biskupsstólinn senda þeir upp hvítan reyk til merkis um að nú megi hinir koma að hinu endanlega vali,“ sagði hann hlæjandi. „Þetta gengur náttúrlega ekki.“ Það kumraði í nokkrum við þessi orð og einn hnakkakerrtur miðaldra maður sem kunnur var af stofuróttækni sagði að þegar væri talað um hina í þessu sambandi þá væri það grímulaus stofnanarasismi. „Góðir þessir laukhringir,“ sagði einhver og þá gleymdust ummæli gamla róttæklingsins. „Hvaðan eru þessar veitingar?“

Síðan hófust almennar umræður um að auðvitað þyrfti að breyta þessu til lýðræðislegrar áttar og gefa öllum sem rétt hafa á að kjósa að taka þátt í fyrstu umferð og sömuleiðis í þeirri seinni: „Best er náttúrlega að hafa eina umferð og vera ekki að flækja þetta,“ sagði einn lausnamiðaður hvellt. Í raun og veru væri þetta hálf vandræðaleg staða fyrir þjóðkirkjuna að bauka við svona elítulega kosningu í nútímanum þegar hún ætti lögum samkvæmt að hafa í heiðri grundvallarreglur jafnréttis og lýðræðis.

Guðfræðingurinn í hópnum sagði svo kirkjunni til málsbótar að sumir biskupar og prestar hefðu reyndar sagst jafnvel vera hlynntir því að öll þjóðin, allt þjóðkirkjufólk, kysi biskup.

„Því verr gefast heimskra manna ráð, sem fleiri koma saman,“ hvein í einni konu sem þoldi illa guðs kristni.“

Hófsamir gestir báðu konuna í guðanna bænum að fara ekki í vantrúargírinn því að flestir í samkvæminu væru heiðarlegt þjóðkirkjufólk og þætti vænt um kirkjuna. Guðfræðingurinn hélt áfram og sagði þó að það hafi verið haft á orði á kirkjuþingi og annars staðar að fleiri kæmu að kosningu þá hefði það ekki sést enn á borði. Einhverjir sögðu það nú bara vera gömlu söguna – skríktu og litu hver á annan til stuðnings og samþykkis. Eitt sagt og annað gert. „Svo lengi sem biskup á að kallast biskup Íslands, biskup þjóðkirkjunnar, verða sem flestir í því trúfélagi að koma að kosningu hans,“ sagði roskinn maður sem hafði setið í sóknarnefnd til áratuga. Þetta var ein af þessum sanngjörnu og augljósu athugasemdum sem allir gátu tekið undir í sjálfu sér án þess að þurfa svo sem að færa hana til bókar vitandi að fátt gerðist að sinni.

„Er það rétt skilið hjá mér,“ sagði ungur maður með kjúklingaspjót í hendi, „á biskup ekki að vera trúarlegur leiðtogi?“

„Hverjum dytti í hug að auglýsa eftir trúarlegum leiðtoga?“ flissaði stæðilegur karl rauðþrútinn í kinnum um leið og hann kyngdi sushibita. Benti svo vínhásri röddu á að þá myndu allir rugludallar landsins sækja um. „Trúarlegir leiðtogar verða bara til í djúpi þjóðarinnar en ekki í háskólum.“ Enginn gerði athugasemd við þetta og héldu að setningin væri skrásett spakmæli en voru ekki vissir hver ætti það en þó flaug Mahatma Gandhi um huga einhverra.

Flestir voru því sammála að vanda þyrfti valið á nýjum biskupi því að þjóðkirkjan væri ákveðin kjölfesta í íslensku samfélagi þó að á ýmsu hefði gengið í kirkjunni.

„Kirkjan er fólkið,“ sagði einhver stólræðulega og vel var tekið undir það.

Guðfræðingurinn dró fram að sannarlega væri biskup starfsmaður kirkjunnar og hefði ákveðnu hlutverki að gegna sem kæmi hvort tveggja inn á trúarlega þætti og veraldlega.

„Biskupinn prédikar, hann flytur fagnaðarerindið og boðar trú,“ sagði hann. „Best væri að biskupinn væri sem snjallastur prédikari og næði vel til fólks í ræðum sínum.“

Þessi orð um prédikunina kveiktu þó nokkra elda og komu ótal sögur á færibandi um prédikanir presta. Hversu ómögulegar þær væru sumar en aðrar frábærar. Og allt þar á milli.

„Væri ekki best að velja biskupinn eftir því hvernig prédikari hann er?“ sagði íturvaxinn ungur maður sem var meistari í líkamsrækt. Hann spurði síðan áhugasamur hvar væri hægt að lesa prédikanir prestanna sem gæfu kost á sér. Enginn gat svarað því. En líkamsræktarmeistarinn vildi ekki gefast upp í pælingum sínum og sagði að prédikarinn væri sennilega ekkert ólíkur vaxtaræktarmönnum á stórmóti sem stæðu frammi fyrir áhorfendum sem byggjust við því besta hjá honum. „Prédikarinn horfist í augu við söfnuðinn, jafnvel þjóðina ef svo má segja þegar prédikað er á jólum í útvarpi og sjónvarpi,“ sagði hann upptendraður og bætti því við að prédikarinn þyrfti að taka á öllu sínu. „Kýla á það, auðvitað,“ skaut einn að og guðfræðingurinn renndi því inn í umræðuna að ekki mætti falla í gryfju trúarlegra frasa, heldur túlka fagnaðarerindið inn í nútímann. „Jesús minn, það er mikið verk og ekki auðvelt,” sagði áhyggjufull kona lágt en bætti svo við í uppörvunarskyni: „Þá verður viðkomandi að sjálfsögðu að fá einhverja þjálfun í því að koma fram í sjónvarpi.“

Gamli sögukennarinn með tjúguskeggið sagði að biskupar væru yfirleitt til vandræða og komst ekki að með framhaldið því svo margir jánkuðu sárhneykslaðir með hummi og „seggðu.“ Svo komu upprifjanir í stríðum straumi á misvitrum orðum þeirra og gjörðum. Þungir dómar felldir. Sumir áttu ekki til orð jafnvel þótt vínandinn væri búinn að lausbeisla talandann.

„Mér finnst bara svo mannlegt að heyra af öllum þessum átökum í kirkjunni,“ sagði aldurhnigin kona og hnykkti svo á því að öll værum við syndarar. Þögn sló á hópinn um leið og syndararnir voru dregnir fram á sviðið en hún var svo rofin af mjóróma röddu sem sagði að það væri nú alltaf djúsí að heyra af alls konar átökum í kirkjunni. Lögfræðingurinn í hópnum kinkaði kolli en til þess að girða fyrir misskilning um að hann tæki undir þessi síðustu orð sagði hann að ágreining á kirkjulegum vettvangi þyrfti að leysa í viðeigandi stofnunum kirkjunnar. Það fannst gestunum ekki svo fráleitt og einn skaut því að hvort ekki væri heppilegra að biskupinn væri kristinn lögfræðingur frekar en guðfræðingur. Nokkrir nýttu sér þessa umræðuíkveikjutilraun til að smeygja sér á snyrtinguna.

„Hvernig er það annars,“ spurði ung kona blátt áfram, „standa þessir biskupar eitthvað nær almættinu en við hérna í opna vinnurýminu?“ Það kom smá hikbylgja yfir samkvæmið og sumir notfærðu sér seigfljótandi kyrrðina til að bæta í glös sín og súrsuðum bollum og spjótum í servíettuna. Það var þetta með opna vinnurýmið sem skildist ekki alveg og var að auki umdeilt hjá sumum. Vinnustaðasálfræðingurinn hrökk hins vegar við upp úr kínversku veganrúllunni sinni þegar hann heyrði minnst á opna vinnurýmið en hann hafði haldið nokkur námskeið á vegum opinberrar þjónustustofnunar um hvernig starfa skyldi i þeim flóknu aðstæðum. Honum fannst nú vera komið að sér að leggja orð í belg og sagði:

„Stundum vottar fyrir þeirri hneigð að hefja biskupa upp yfir sauðsvartan almúgann en rót þess er sennilega minnimáttarkennd – æskutengd. Það á svo sem líka við um presta og djákna. Þeir sjálfir ýta jafnvel undir þetta með eilífum séringum, snobbuðum frúunum og herrunum, en það síðarnefnda er löngu hætt að nota eins og til dæmis um forseta landsins. En eins og aðrir vígðir þjónar kirkjunnar eru biskupar fyrst og fremst manneskjur. Með kostum og göllum.“

„Vel mælt hjá þér og þið sálarnir sjáið þá auðvitað út,“ sagði miðaldra kona með glettni í auga og bætti því við að sálfræðingarnir væru margir þessir líka fínu prestar.

„Ég er nú bara almennur þjóðkirkjukall eins og svo margir aðrir hérna og fer sjaldan í kirkju nema í jarðarfarir,“ heyrðist bak við fjallháan haug af djúpsteiktum rækjum. „En þegar einhverjir fara að tala um útvalningu í mín eyru þá lokast þau.“ Um leið og hann sporðrenndi nokkrum brakandi volgum rækjum sagðist hann vera trúaður maður og enginn tæki frá honum barnatrúna.

„Kennilýður kirkjunnar er fyrst og fremst þjónar, þjónar fólksins í kirkjunni,“ sagði guðfræðingurinn og lyfti glasi til að skála.

Einn í hópnum sagðist hafa heyrt einhvern prest segja að það væri mikilvægt að skoða hvað Ágsborgarjátningin hefði um þetta að segja. Ýmsir hváðu þegar þeir heyrðu minnst á játninguna og spurðu hvort það væri þessi venjulega sem væri þulin í messunum. Enginn gat svarað því. Og þessi sem nefndi Ágsborgarjátninguna var spurður að því með beittu augnaráði hvaða prestur hefði nefnt hana eins og verið væri að leita að sökudólgi. Nafn hans var svo hvíslað og sumur drógu andann djúpt um leið og þeir sögðu: „Já, hann. Ég skil.“

„Ég gúgglaði þessa játningu“ kallaði ung kona inn í hópinn, „þetta er stöff frá 1530.“ Nokkrir stundu þegar þeir heyrðu þetta og aðrir veinuðu upp kræst eða kom on.

Síðan sneri fólkið sér að öðru. „Og Guðni Th. bara að hætta,“ sagði einhver mjúkum og syndandi rómi sem vildi setja kirkjuumræðuna í nýtt samhengi, „þjóðin kýs forseta og fáir útvaldir kjósa biskupinn.“

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir