Það hefur verið ánægjulegt að sjá hve kynning á biskupsefnunum þremur hefur farið vel fram. Þar hefur prúðmennska og og einlægni verið í fyrirrúmi á fundum og mannamótum. Þau hafa komið fram sem traustir og skörulegir fulltrúar þjóðkirkjunnar sem hún getur verið stolt af. Greinaskrif þeirra hafa verið upplýsandi og laus við allt skrum. Kynningar á samfélagsmiðlum hafa einnig verið til sóma en þeir miðlar eru hvað öflugastir þegar koma þarf góðum málstað áleiðis. Samfélagsmiðlarnir geta margeflst fyrir það eitt þegar fólk deilir því sem þar kemur fram.

Kirkjublaðið.is hefur fylgst nokkuð vel með biskupsefnunum þremur á Facebook og Instagram. Það er gaman að sjá hve allt er unnið fagmannlega og af mikilli alúð. Slíkt viðhorf til sterkustu miðla samtímans gefur svo sannarlega fyrirheit um að það biskupsefnanna sem valið verður til biskups muni láta hendur standa fram úr ermum og rétta við Facebókarsíðu biskups Íslands sem og Instagram-reikning þjóðkirkjunnar. Bæði þessi kröftugu boðtæki nútímans hafa meira og minna legið niðri og hreyfing verið þar lítil. Það hefur sætt undrun meðal margra að þessir liðugu samskiptamiðlar skuli ekki hafa verið nýttir sem skyldi innan kirkjunnar. Þegar biskupsefnin þrjú nýta sér miðlana af færni og skynsemi eins og raunin hefur verið veit það á gott þegar ljóst verður hvert þeirra nær kjöri. Ekki er að efa að það þeirra sem sigrar muni blása til sóknar í notkun samfélagsmiðla í nafni þjóðkirkjunnar. Kynning biskupsefnanna hefur svo sannarlega vakið upp sterkar væntingar í þessa veru.

Hvers vegna er verið að tala um samfélagsmiðla og áhrif þeirra?

Svona til gamans má nefna að meira en 4,7 milljarðar manns nota samfélagsmiðla á heimsvísu. Meira en 90% Íslendinga 18 ára og eldri nota Facebook og 65% þeirra Instagram. Samfélagsmiðlarnir opna samskiptagátt. Þeir skapa ímynd eða ásýnd viðkomandi félags eða stofnunar. Ótaldir eru kostir þeirra með því að deila myndum og myndböndum. Búa til viðburði sem vekja áhuga fólks og grípa athygli þess. Þá er hægt að skilgreina áhuga fólks, þarfir og markhópa.

Ekkert svið samfélagsins er ósnortið af áhrifum samfélagsmiðlanna. Þar er trúarlíf ekki undanskilið og þau félög og þær stofnanir sem mynda ákveðinn ramma um trúariðkun fólks. Miklu fleiri söfnuðir þurfa að taka samfélagsmiðlana í sína þjónustu og þá með skipulögðum hætti til að hafa gagnkvæm samskipti við fólk. Vel nýttur samfélagsmiðill er í raun og veru prédikunarstóll kirkjunnar í nútímanum og hann má ekki standa auður.

Koma þarf á fót samfélagsmiðlateymi innan þjóðkirkjunnar sem tekur þau mál föstum tökum vegna þess að vinna við miðlana krefst síns tíma og það þarf að vanda til verka. Slíkt teymi þarf að skipuleggja fram í tímann það efni sem setja á inn á miðlana. Færslur sem settar eru inn með höppum og glöppum skila ekki miklum árangri. Rannsóknir sýna að fólk les miklu síður miðla sem birta efni með stopulum hætti og taka svo á sprett um tíma en lognast síðar snöggt út af þegar allur vindur er úr þeim rokinn. Notkun miðlanna á að vera þaulhugsað langhlaup og samstarfsverkefni.

Auk samfélagsmiðalanna er hlaðvarp kraftmikill farvegur fyrir fræðslu og kynningar af ýmsu tagi. Hlaðvarp þjóðkirkjunnar hefur nánast minnt á segulbandasafn útvarpsins og lítið framboð verið af nýju efni. Biblíusögur voru þó settar þar inn í febrúar síðastliðnum og er það vel. Fræðslustefna þjóðkirkjunnar getur um hlaðvarpsmiðilinn:

„Einnig þarf að hlúa að fjölbreytilegu hlaðvarpi kirkjunnar þannig að þangað safnist áfram fjölbreytilegt og áhugavert fræðsluefni bæði fyrir starfsfólk kirkjunnar og fyrir almenning.“ (Bls. 13.)

Þetta er vel sagt en bretta þarf upp ermar og hefja stórsókn. Mikilvægasti þátturinn í hlaðvarpi er samtal um áhugaverð mál og af þeim er nóg að taka þegar um er að ræða söfnuði landsins, kirkjumál, guðfræði og sögu. Í hlaðvarpi þjóðkirkjunnar mætti til dæmis fá sóknarnefndarfólk til að ræða um starf í söfnuðum og í kringum kirkjuþing væri ráð að ræða við kirkjuþingsfólk um þau mál sem liggja þar fyrir hverju sinni. Með þeim hætti væri hlaðvarp kirkjunnar í brennipunkti líðandi stundar. Og hví ekki hlaðvarpsþáttur um presta- og djáknastefnu Íslands sem hefst á morgun? Hvað er þar annars á dagskrá? Þannig mætti lengi telja.

Lifandi hlaðvörp eru í einu orði sagt frábær vettvangur til að kynna stefnu og málstað kirkju og kristni. Þar þarf að vera fólk sem kann til verka því að góð hlaðvörp verða aldrei unnin á hlaupum.

Gott og vandað hlaðvarp er sem sé ein af þeim góðu leiðum sem nútíminn býður upp á til að koma kirkjunni til fólksins. Fólkið er kirkjan.

Þau þrjú sem eru í kjöri til biskups eru hvert og eitt meira en fullfær til að leiða nýja sókn þjóðkirkjunnar í notkun á samfélagsmiðlum nútímans. Framtíð þjóðkirkjunnar er full af tækifærum og hún er björt.

Svo er gott að minna á stefnumótun þjóðkirkjunnar sem var unnin fyrir nokkru en í hana fór dýrmætur tími, mikil vinna og fjármunir. Stefnumótunarvinnunni verður fram haldið svo því sé haldið til haga.

Niðurstaða stefnumótunarvinnunnar var sett fram í sjö liðum. Af þessum sjö liðum valdi hundrað manna fundur þjóðkirkjufólks þrjú forgangsmál og eru þau númeruð frá 1 til 3. 

1) Efla og bæta æskulýðsstarf.
2) Endurskoða stjórnskipun kirkjunnar.
3) Efla til muna kynningarstarf.
4) Tryggja fjárhagslegt öryggi og gæta að ráðdeild.
5) Efla mannauð kirkjunnar.
6) Efla stuðning við einstaka þætti í starfsemi söfnuða.
7) Efla aðsókn að kirkjunni.

Kynningarstarfið lenti í þriðja sæti eins og sjá má. Samfélagsmiðlar eru lykill í öllu kynningarstarfi og verður nú vonandi gengið þar rösklega til verka.

Svona í lokin.

Vefsíða Kirkjublaðsins.is hefði hugsanlega hrunið ef fyrirsögnin hefði verið: Biskupsefnin þrjú og miðlarnir. Stutt og laggóð fyrirsögn. En ekki rétt. Voru biskupsefnin annars nokkuð spurð út í miðla og andatrú? Sennilega ekki. Í stórmerkilegri könnun sem gerð var í fyrra á vegum Háskóla Íslands kom meðal annars fram að um 30% þátttakenda töldu skyggni (að sjá framliðna manneskju) vera mögulega. Þessi könnun tekur einnig til trúarlífs og ættu þau sem veljast til forystu í kirkjumálum að kynna sér hana vel. En það er nú önnur saga.

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Það hefur verið ánægjulegt að sjá hve kynning á biskupsefnunum þremur hefur farið vel fram. Þar hefur prúðmennska og og einlægni verið í fyrirrúmi á fundum og mannamótum. Þau hafa komið fram sem traustir og skörulegir fulltrúar þjóðkirkjunnar sem hún getur verið stolt af. Greinaskrif þeirra hafa verið upplýsandi og laus við allt skrum. Kynningar á samfélagsmiðlum hafa einnig verið til sóma en þeir miðlar eru hvað öflugastir þegar koma þarf góðum málstað áleiðis. Samfélagsmiðlarnir geta margeflst fyrir það eitt þegar fólk deilir því sem þar kemur fram.

Kirkjublaðið.is hefur fylgst nokkuð vel með biskupsefnunum þremur á Facebook og Instagram. Það er gaman að sjá hve allt er unnið fagmannlega og af mikilli alúð. Slíkt viðhorf til sterkustu miðla samtímans gefur svo sannarlega fyrirheit um að það biskupsefnanna sem valið verður til biskups muni láta hendur standa fram úr ermum og rétta við Facebókarsíðu biskups Íslands sem og Instagram-reikning þjóðkirkjunnar. Bæði þessi kröftugu boðtæki nútímans hafa meira og minna legið niðri og hreyfing verið þar lítil. Það hefur sætt undrun meðal margra að þessir liðugu samskiptamiðlar skuli ekki hafa verið nýttir sem skyldi innan kirkjunnar. Þegar biskupsefnin þrjú nýta sér miðlana af færni og skynsemi eins og raunin hefur verið veit það á gott þegar ljóst verður hvert þeirra nær kjöri. Ekki er að efa að það þeirra sem sigrar muni blása til sóknar í notkun samfélagsmiðla í nafni þjóðkirkjunnar. Kynning biskupsefnanna hefur svo sannarlega vakið upp sterkar væntingar í þessa veru.

Hvers vegna er verið að tala um samfélagsmiðla og áhrif þeirra?

Svona til gamans má nefna að meira en 4,7 milljarðar manns nota samfélagsmiðla á heimsvísu. Meira en 90% Íslendinga 18 ára og eldri nota Facebook og 65% þeirra Instagram. Samfélagsmiðlarnir opna samskiptagátt. Þeir skapa ímynd eða ásýnd viðkomandi félags eða stofnunar. Ótaldir eru kostir þeirra með því að deila myndum og myndböndum. Búa til viðburði sem vekja áhuga fólks og grípa athygli þess. Þá er hægt að skilgreina áhuga fólks, þarfir og markhópa.

Ekkert svið samfélagsins er ósnortið af áhrifum samfélagsmiðlanna. Þar er trúarlíf ekki undanskilið og þau félög og þær stofnanir sem mynda ákveðinn ramma um trúariðkun fólks. Miklu fleiri söfnuðir þurfa að taka samfélagsmiðlana í sína þjónustu og þá með skipulögðum hætti til að hafa gagnkvæm samskipti við fólk. Vel nýttur samfélagsmiðill er í raun og veru prédikunarstóll kirkjunnar í nútímanum og hann má ekki standa auður.

Koma þarf á fót samfélagsmiðlateymi innan þjóðkirkjunnar sem tekur þau mál föstum tökum vegna þess að vinna við miðlana krefst síns tíma og það þarf að vanda til verka. Slíkt teymi þarf að skipuleggja fram í tímann það efni sem setja á inn á miðlana. Færslur sem settar eru inn með höppum og glöppum skila ekki miklum árangri. Rannsóknir sýna að fólk les miklu síður miðla sem birta efni með stopulum hætti og taka svo á sprett um tíma en lognast síðar snöggt út af þegar allur vindur er úr þeim rokinn. Notkun miðlanna á að vera þaulhugsað langhlaup og samstarfsverkefni.

Auk samfélagsmiðalanna er hlaðvarp kraftmikill farvegur fyrir fræðslu og kynningar af ýmsu tagi. Hlaðvarp þjóðkirkjunnar hefur nánast minnt á segulbandasafn útvarpsins og lítið framboð verið af nýju efni. Biblíusögur voru þó settar þar inn í febrúar síðastliðnum og er það vel. Fræðslustefna þjóðkirkjunnar getur um hlaðvarpsmiðilinn:

„Einnig þarf að hlúa að fjölbreytilegu hlaðvarpi kirkjunnar þannig að þangað safnist áfram fjölbreytilegt og áhugavert fræðsluefni bæði fyrir starfsfólk kirkjunnar og fyrir almenning.“ (Bls. 13.)

Þetta er vel sagt en bretta þarf upp ermar og hefja stórsókn. Mikilvægasti þátturinn í hlaðvarpi er samtal um áhugaverð mál og af þeim er nóg að taka þegar um er að ræða söfnuði landsins, kirkjumál, guðfræði og sögu. Í hlaðvarpi þjóðkirkjunnar mætti til dæmis fá sóknarnefndarfólk til að ræða um starf í söfnuðum og í kringum kirkjuþing væri ráð að ræða við kirkjuþingsfólk um þau mál sem liggja þar fyrir hverju sinni. Með þeim hætti væri hlaðvarp kirkjunnar í brennipunkti líðandi stundar. Og hví ekki hlaðvarpsþáttur um presta- og djáknastefnu Íslands sem hefst á morgun? Hvað er þar annars á dagskrá? Þannig mætti lengi telja.

Lifandi hlaðvörp eru í einu orði sagt frábær vettvangur til að kynna stefnu og málstað kirkju og kristni. Þar þarf að vera fólk sem kann til verka því að góð hlaðvörp verða aldrei unnin á hlaupum.

Gott og vandað hlaðvarp er sem sé ein af þeim góðu leiðum sem nútíminn býður upp á til að koma kirkjunni til fólksins. Fólkið er kirkjan.

Þau þrjú sem eru í kjöri til biskups eru hvert og eitt meira en fullfær til að leiða nýja sókn þjóðkirkjunnar í notkun á samfélagsmiðlum nútímans. Framtíð þjóðkirkjunnar er full af tækifærum og hún er björt.

Svo er gott að minna á stefnumótun þjóðkirkjunnar sem var unnin fyrir nokkru en í hana fór dýrmætur tími, mikil vinna og fjármunir. Stefnumótunarvinnunni verður fram haldið svo því sé haldið til haga.

Niðurstaða stefnumótunarvinnunnar var sett fram í sjö liðum. Af þessum sjö liðum valdi hundrað manna fundur þjóðkirkjufólks þrjú forgangsmál og eru þau númeruð frá 1 til 3. 

1) Efla og bæta æskulýðsstarf.
2) Endurskoða stjórnskipun kirkjunnar.
3) Efla til muna kynningarstarf.
4) Tryggja fjárhagslegt öryggi og gæta að ráðdeild.
5) Efla mannauð kirkjunnar.
6) Efla stuðning við einstaka þætti í starfsemi söfnuða.
7) Efla aðsókn að kirkjunni.

Kynningarstarfið lenti í þriðja sæti eins og sjá má. Samfélagsmiðlar eru lykill í öllu kynningarstarfi og verður nú vonandi gengið þar rösklega til verka.

Svona í lokin.

Vefsíða Kirkjublaðsins.is hefði hugsanlega hrunið ef fyrirsögnin hefði verið: Biskupsefnin þrjú og miðlarnir. Stutt og laggóð fyrirsögn. En ekki rétt. Voru biskupsefnin annars nokkuð spurð út í miðla og andatrú? Sennilega ekki. Í stórmerkilegri könnun sem gerð var í fyrra á vegum Háskóla Íslands kom meðal annars fram að um 30% þátttakenda töldu skyggni (að sjá framliðna manneskju) vera mögulega. Þessi könnun tekur einnig til trúarlífs og ættu þau sem veljast til forystu í kirkjumálum að kynna sér hana vel. En það er nú önnur saga.

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?