Dýrlingar kaþólskrar kirkju skipta þúsundum og alltaf bætast fleiri við hópinn. Ekki verður hver sem er dýrlingur eftir dauða sinn. Til þess að verða dýrlingsefni þarf að uppfylla nokkur skilyrði og síðan kemur dýrlingstignin í nokkrum þrepum.

Hver dýrlingur á sitt svið og stundum skarast þau. Segja má að svið þeirra nái yfir allt samfélagið í orði kveðnu þar sem kaþólska kirkjan starfar. Ekkert er undanskilið. Mótmælendakirkjur eins og þjóðkirkja Íslands viðurkenna ekki neina sérstaka stöðu þeirra einstaklinga sem kallast dýrlingar. Enda þótt Þorlákur helgi sé kallaður þjóðardýrlingur Íslendinga þá er það aðeins samkvæmt kaþólskri kenningu.[1]

Listmálarar fyrri alda hafa gert dýrlingum góð skil og enn eru einhverjir nútímalistamenn að festa ímyndir dýrlinganna í nánast alla listmiðla.

Hér verður fjallað um dýrlinginn Sebastían (lat. Sebastianus) og tengsl listaverka af honum við samkynhneigða. Spurt er:

Hvað í helgimyndum af dýrlingnum Sebastían varð til þess að samkynhneigðir karlar gerðu hann að sínum dýrlingi?

Sebastían í list

Það skýrir sig sjálft að í stuttri umfjöllun verða ekki öll verk af dýrlingnum Sebastían skoðuð. Þau eru feikimörg eins og sjá má á netinu.

Þess vegna er farin sú leið að ræða verk eitt af dýrlingnum sem var það fyrsta er tengt var við samkynhneigð á 19. öld og er eftir Guido Reni (1575-1642). En önnur verk verða nefnd samhengisins vegna og í lokin er myndasyrpa af nútímaverkum af dýrlingnum. Þá er og stuðst við rannsóknir á þessu sviði eftir því sem efni standa til.

Hver var þessi Sebastían? 

Ekkert er vita með sagnfræðilegri vissu um Sebastían (f. um 255 – d. 288) annað en það að hann var frá Mílanó. Helgisögnin segir hins vegar að hann hafi verið foringi í rómverska hernum á tíma Díókletíanusar keisara. Hafi hann verið dæmdur til dauða. Elstu myndir sem til eru af dýrlingnum sýna hann gamlan mann sem heldur á kórónu píslarvættisins. Með endurreisninni breytist hin sjónræna framsetning á honum: ungur maður með örvar í líkama sínum og gjarnan heldur hann á einni ör.[2] Hann snerist til kristinnar trúar og galt fyrir það með lífi sínu. Skyldi hann skotinn örvum en þær náðu ekki að vinna á honum og var hann því barinn til dauða.[3] Hann var tekinn í dýrlingatölu og er dýrlingur hermennsku, bogamanna, og baráttu gegn plágum.[4]

Endurreisnin fæst við Sebastían

Málverk og höggmyndir af Sebastían voru afar vinsælt efni hjá listamönnum endurreisnartímabilsins. Sú staðlaða mynd sem varð smám saman til af honum sýndi hann nánast nakinn, var aðeins með lendaskýlu, og svipurinn á honum var auðmjúkur, nánast undirgefinn. Með myndum af honum fengu listamenn endurreisnarinnar tækifæri til að gera listaverk af nánast nöktum karlmanni innan hins kirkjulega samhengis.[5] Reiðinnar býsn af myndum voru gerðar af Sebastían og var hann að vinsældum þriðji í röðinni frá sjálfum meistaranum frá Nasaret og guðsmóðurinni. Þessar myndir urðu ákveðinn grunnur að túlkun á dýrlingnum, útliti hans og umhverfi.

Örvarnar sem stungust í Sebastían deyddu hann ekki. Sú staðreynd varð einnig til að styrkja trú á dýrlinginn. Þegar kom að sjúkdómum og plágum hlyti að vera gott að heita á hann þar sem örvar felldu hann ekki. En örvarnar tákna líka óréttlátar ofsóknir og þær vísa einnig til ástarörva.[6]

Telja má að sakir þessarar myndar sem dregin var upp af Sebastían af listamönnum endurreisnar og kirkjunnar hafi samkynhneigðir fundið til samstöðu með honum. Ekki spillti að svipur hans var ögn kvenlegur og á mörgum myndanna vatt hann sér jafnvel á erótískan hátt undan örvunum og lét sér í raun hvergi bregða. Svipur hans var jafnvel á sumum myndum ljúfsár – vó salt á milli fegurðar og þjáningar. Nokkrir endurreisnarlistamenn voru í einkalífi sínu hugfangnir af fegurð karlmanna. [7]

Verk Guido Reni

„Örlög heilags Sebastíans íhuguð,“ eftir Guido Reni (1575-1642). Myndin gerð 1615. Sebastían bundinn við staur

Hér verður sérstaklega staðnæmst við verk Guido Reni (1575-1642) af dýrlingnum Sebastían bundnum við staur. Þetta verk var í miklum metum hjá rithöfundinum Oscari Wilde (1854-1900) og sagðist hann aldrei hafa séð fallegri mynd.[8] En hvað skyldi það vera við myndina sem dró hann að henni? Fagur og fínlegur æskusvipur leynir sér ekki á dýrlingnum og líkamsstaða hans er erótísk. Hendur hans eru bundnar. Hann er með þrjár örvar í sér, eina í síðunni, aðra í handarkrikanum og þá þriðju rétt fyrir ofan nára. Lendaklæði skýlir nekt hans. Fas hans gæti og kveikt hugmyndir um kynlífsleiki. Getur verið að auk þess séu vaktar upp hugrenningar kvala- og sjálfspíslarhvatar (e. sadomasochism)? Japanski rithöfundurinn Yukio Mishima (1925-1970) sagðist hafa fengið sína fyrstu kynferðislegu fullnægju með því að horfa á eftirmynd af þessu málverki Guidos.[9] Þá er eftirtektarvert að svo er ekki að sjá sem Sebastían þjáist í þessum aðstæðum sínum – getur verið jafnvel að hann njóti þeirra? Margar örvar í líkama hans geta bent til ástarörva Erosar og fjöllyndis.

Oscar Wilde kallaði sig Sebastían þegar hann var í Frakklandi og sömuleiðis franska ljóðskáldið, Marc-André Rafflovich (1864-1934).[10]

Nánar um myndir af  Sebastían dýrlingi

Listamenn endurreisnarinnar voru duglegir að gera verk af Sebastían og sýnir það hve spenntir þeir voru fyrir þessu viðfangi. Nefna má Gian Lorenzo Bernini (1598-1680), Sandro Botticelli (1445-1510), Andrea Mantegna (1431-1506), Perugino (1450-1523), Titian (1488-1576), og El Greco (1541-1614).

Í öllum þessum verkum má sjá örvar í líkama Sebastíans sem standa misdjúpt í honum. Hafa þrengt sér inn í líkama hans sem með táknrænum hætti gat gefið undir fótinn með þrá eftir innsetningu getnaðarlims.[11] Það skal strax tekið fram að saga hinsegin fólks er margradda og fellur því ekki alltaf í einn og breiðan farveg.[12] Ýmsar skoðanir og túlkanir kunna að vera uppi. Þannig getur einhver túlkað hinn staðlaða svip dýrlingsins Sebastíans með fyrrgreindum hætti meðan annar gerir það ekki. Það kann og að vera að listamennirnir hafa málað dýrlinginn Sebastaían með þessum hætti vegna þess að í þeim blundaði samkynhneigður karlmaður.[13] Kirkjan taldi sig hafa vald yfir túlkun á líkamanum og hlutverki hans (ýmsar kirkjudeildir eru enn við það heygarðshorn). Um líkamsvaldið giltu strangar kenningar og siðir. En eins og Foucault hefur bent á í sambandi við Viktoríutímann og tepruskapinn sem þá var ríkjandi gagnvart öllu því er laut að líkamanum þá kraumaði undir niðri öflug nautnaþrá sem valdafólk siðar og reglna réði í raun og veru ekki neitt við. Þannig gat sjálfgefið vald yfir líkamanum leitt af sér það sem því var ætlað að girða fyrir.[14] Það braust einhvers staðar út. Kemur í hug orðatiltækið íslenska: Þótt náttúran sé lamin með lurk þá leitar hún út um síðir.

Samkynhneigðum var mikið í mun að geta bent á fordæmi um samkynhneigð í bókmenntum og listum. Það var hluti af sjálfsmynd þeirra. Auðvitað þurfti ekki að fara langt til að finna samkynhneigðar fyrirmyndir. Þær voru í raun alls staðar. Leonardo Da Vinci (1452-1519) og Michelangelo Buonarroti (1475-1564) voru samkynhneigðir svo aðeins séu nefnd tvö dæmi úr myndlistinni.[15]

Áhrif mynda af Sebastían dýrlingi

Það hlýtur að hafa verið samkynhneigðum körlum léttir að sjá kynverund sína í myndum meistara endurreisnarinnar af Sebastían.

Að auki hafa margir samkynhneigðir karlar séð í honum bandamann sinn gagnvart trúarstofnunum. Á sama hátt og  rómverska trúarkerfið tók hann af lífi hefur hið kristna trúarkerfi reynst mörgum hinsegin einstaklingum harla erfitt og fjandsamlegt.

Uppgangur alnæmis hafði gríðarleg áhrif á samfélag samkynhneigðra. Þegar alnæmi breiddist út meðal samkynhneigðra litu margir þeirra til Sebastíans þar sem hann var dýrlingur baráttunnar gegn hvers kyns plágum. Margir snortnir trúarbrjálsemi töldu hins vegar alnæmisfaraldurinn vera refsingu æðri máttarvalda gagnvart hinu synduga samkynhneigða fólki og var meðal annars vitnað til harmkvælamannsins Jobs í því sambandi.[16] Eitraðar örvar voru enda hernaðarbragð[17]og notaðar til að breiða út plágur til forna eins og dæmin um gríska guðinn Apollón rekja.[18]

Samfélagið ýtti þeim út á jaðarinn, bæði hið opinbera og kirkjan. Þeir báru pláguna í sér og samfélaginu hraus hugur við þeim. Þetta viðhorf hafði þau áhrif að margir í hópi samkynhneigðra litu á Sebastían sem talsmann sinn og verndara.[19] Eitruð örvahríð gekk yfir samkynhneigða. Í fremstu víglínu í Bandaríkjunum stóðu mörg kristin öfgasamtök á hægri kantinum og létu mjög að sér kveða. Töldu sum alnæmi og menningu samkynhneigðra (hinsegin fólks) vera tákn um lok tímanna, dómsdag.[20]

Skáldið og dýrlingurinn

Það er undir lok 19. aldar sem rithöfundurinn Oscar Wilde verður til þess að augu samkynhneigðra beinast að Sebastían. Skáldið féll fyrir fyrrnefndu málverki Guido Reni af Sebastían þegar hann var á ferðalagi í Genúa á Ítalíu. Það er Oscar Wilde sem gerir Sebastían sem sé að dýrlingi eða velgjörðarmanni samkynhneigðra.[21] Að minnsta kosti má segja að afstaða hans hafi haft áhrif í þá átt svo ekki sé  dýpra í árinni tekið.

Segja má að með því að gera Sebastían að einhvers konar verndardýrlingi samkynhneigðra karla hafi þeir snúið á andstöðu kirkjunnar við samkynhneigð. Hins vegar verður að telja ólíklegt að þau sem líta á hann sem slíkan dýrling séu virkir kaþólikkar og komist ekki í guðfræðilega hrifningu í návist hans í anda kaþólskunnar. Líta mætti á þetta nýja svið dýrlingsins sem veraldlegt og hann því orðinn veraldlegur (e. secularized) í þessu tilliti. Hann er sem sé veraldlegt íkón í augum margra. Jafnvel mætti kalla þetta menningarlega tilfærslu.

Að lokum

Sagan segir hann vera karl. En í augum annarra gat hann í raun verið hvorki karl né kona heldur líkami sem fallið var fyrir. Judith Butler spyr skemmtilegrar spurningar í grein þar sem hún fjallar um kenningar Monique Wittig: „Er til efnislegur líkami á undan hinum skynrænt skynjaða líkama?“ Og hún svarar svo að það sé ómögulegt að segja nokkuð til um það. Kyn er bundið í tungumálinu, það er orðræðubundið, eins og hún segir. Og skynrænt.[22] Tungumálið er tæki sem notað er til að flokka allt í efnisheimi mannsins. Manneskjan er þannig séð flokkunarvél. Það er gífurlega flókinn veruleiki á bak við þessa flokkun og hún á sér djúpar rætur í sögu og menningu. Nú fyrst sést hilla undir að einhverjar breytingar verði á þessari flokkun. Skrefin voru stigin meðal annars á tíma endurreisnar þegar umræddar myndir af dýrlingnum Sebastían voru gerðar. Kannski var það ómeðvituð uppreisn gegn flokkun einstaklinga. En flokkun heldur áfram í nútímanum hvað kyn snertir – og er kannski tímaskekkja. Ætti ekki bara að vera eitt orð yfir kyn mannfólksins? Eða ekkert. Hvaða máli skiptir kyn?

Sem fyrr segir er til fjöldi listaverka sem sýna dýrlinginn Sebastían.

Margir listamenn á 20. og 21. öld hafa gert myndir af Sebastían dýrlingi. Það segir sína sögu þegar myndhefðin af dýrlingnum Sebastían er svo lifandi sem raun ber vitni.

Öll byggja þessi verk á hefðinni sem skapast hefur hvernig dýrlingurinn Sebastían skuli sýndur. Örvarnar eru á sínum stað, kynþokkinn, ekki að sjá þjáningarsvip á andliti hans, hann er bundinn við staur. Nær nakinn, lendaskýlan er ein fata. Segja má að þetta sé í raun hin staðlaða útgáfa af dýrlingi samkynhneigðra. Ekkert er vitað um persónulega hagi hans hvort hann var samkynhneigður eða ekki. Listamennirnir hafa búið til þessa ímynd af honum eins og fyrr er nefnt. Hefðin er sem sé sterk.

Hér má sjá nokkur dæmi:

[23]

Tilvísanir

[1] „með öllu þessu dýrlingatildri er ekki verið að hugsa um að heiðra Guð og betra hans hjörð…” segir Marteinn Lúther í riti sínu: Til hins kristna aðals þýskrar þjóðar, ísl. þýð.,Vilborg Auður Ísleifsdóttir, (Hið íslenska bókmenntafélag: Reykjavík 2012). 140-141.

[2] Encyclopedia of early Christianity, ritstj. Everett Ferguson, (Garland Publishing: New York og London 1990), 837.

[3] Heilagra manna sögur (stafsetning færð til nútíma): „Þá lét Diacletianus leiða Sebastianum á völl og binda og hafa að skotspæni. Þá var skotið á hann örum öllum megin, uns hann var utan sem bjarnígull. Og ætluðu allir hann dauðan og fóru á brott. En kona sú, er átt hafði Castulus, hún hét Herena, kom til um nóttina að grafa Sebastianum; og lifði hann, og leiddi hann heim með sér og tók hann heilsu eftir fáa daga. Þá báðu kristnir menn, að hann mundi flýja. … Sebastianum svaraði: Til  þess lét guð mig lifa, að ég segði það öllum lýð, að þér dæmið rangt, þá er þér látið pína þræla Krists. Þá lét Dicletianus berja Sebastianum stöngum til bana og kasta líki hans í keytu djúpa að eigi göfguðu kristnir menn hann.“ Heilagra mann søgur. Fortællingar og legender om hellige mænd og kvinder, ritstj. C. R. Unger, bindi II (Christiania [Osló]: B. M. Bentzen, 1877), 232-233.

[4] David Hugh Farmer, Oxford Dictionary of Saints, (New York: Oxford University Press, 2004, 470-471.

[5] David Hugh Farmer, Oxford Dictionary of Saints, (New York: Oxford University Press, 2004, 470-471.

[6] Stephan Goertz, „How Saint Sebastian became an LGBTQ icon,“ í Outreach – an LGBTQ Catholic reource, How Saint Sebastian became an LGBTQ icon – Outreach. Sótt 3. ágúst 2023. Dr. Stephan Goertz er siðfræðingur og prófessor við háskólann í Mainz í Þýskalandi – frá honum og Stephanine Höllinger er væntanleg bók um efnið: Sebastian – Märtyrer, Pestheiliger, Queere Ikone.

[7] Camille Paglia, Sexual personae – art and decadence from Neffertiti to Emily Dickinson, (Penguin books: London, 1990),157.

[8] Richard Ellmann, Oscar Wilde, (London: Hamish Hamilton, 1987), 68.

[9] Camille Paglia, Sexual personae – art and decadence from Neffertiti to Emily Dickinson, (Penguin books: London, 1990), 245-246.

[10] Richard Ellmann, Oscar Wilde, (London: Hamish Hamilton, 1987),68.

[11] Richard A. Kaye, „Losing his religion – Saint Sebastian as contemporary gay martyr,” í Outlooks – Lesbian and Gay Sexualities and Visual Culture, ritstj. Peter Horne og Reina Lewis. (Routledge: London, 1996), 88-89. Og: Camille Paglia, Sexual personae – art and decadence from Neffertiti to Emily Dickinson, (Penguin books: London, 1990), 112 en þar segir: „St. Sebastian, a beautiful seminude youth pierced by phallic arrows.”

[12] Íris Ellenberger, Fæðing hinnar íslensku lesbíu, fyrirlestur haldinn hjá Sagnfræðingafélagi Íslands, 27. janúar 2017.

[13] Erfitt getur verið að fullvissa nokkuð um það með öruggum hætti.

[14] Margo Demello, Body Studies – an introduction, London og New York: Rotuledge, 2014). 13, 235.

[15] Christopher Reed, Art and homosexuality – a history of ideas, (Oxford University Press: Oxford, 2011), 46-47. Og: Camille Paglia, Sexual personae – art and decadence from Neffertiti to Emily Dickinson, (Penguin books: London, 1990), 157.

[16] „Já, örvar Hins almáttka sitja í mér, andi minn drekkur eitur þeirra, ógnir Guðs steðja að mér.” (Jobsbók 6.4, Biblían 2007, 11. útgáfan.

[17] Óvíd, Publius Ovidius Naso, Ummyndanir: Metamorphoses, ísl. þýð. Kristján Árnason, (Mál og menning: Reykjavík 2009), 254, 453.

[18] Sjá: (99+) Rubber Intercessions: Saint Sebastian as Queer Communal Instigator during the AIDS Crisis | Rían Kearney – Academia.edu – bls. 16, sótt 6. ágúst 2023 og: Sigurbjörn Einarsson, Trúarbrögð mannkyns, (Skálholtsútgáfan: Reykjavík 1994), 107.

[19] Stephan Goertz, „How Saint Sebastian became an LGBTQ icon,“ í Outreach – an LGBTQ Catholic reource, How Saint Sebastian became an LGBTQ icon – Outreach. Sótt 3. ágúst 2023.

[20] (99+) Rubber Intercessions: Saint Sebastian as Queer Communal Instigator during the AIDS Crisis | Rían Kearney – Academia.edu – bls. 22. Sótt 6. ágúst 2023.

[21] Stephan Goertz, „How Saint Sebastian became an LGBTQ icon,“ í Outreach – an LGBTQ Catholic reource, How Saint Sebastian became an LGBTQ icon – Outreach. Sótt 6. ágúst 2023.

[22] Judith Butler, „Monique Wittig: Upplausn líkamans og uppspunið kyn,“ ísl. þýð. Vilborg Sigurðardóttir, í Ritið – tímarit Hugvísindastofnunar, 2/2002, (Hugvísindastofnun Háskóla Íslands: Reykjavík 2002), 167.

[23] Allar þessar níu myndir: Saint Sebastian: History’s first gay icon? (qspirit.net) – Sótt 7. ágúst 2023.

Heimildaskrá

Butler, Judith, „Monique Wittig: Upplausn líkamans og uppspunið kyn,“ ísl. þýð., Vilborg Sigurðardóttir, í Ritið – tímarit Hugvísindastofnunar, 2/2002. Reykjavík: Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, 2002.

Demello, Margo, Body Studies – an introduction. Rotuledge: London og New York, 2014.

Ellmann, Richard, Oscar Wilde. Hamish Hamilton: London: 1987.

Encyclopedia of early Christianity, ristj. Everett Ferguson. Garland Publishing: New York og London: 1990.

Farmer, David Hugh, Oxford Dictionary of Saints. New York: Oxford University Press, 2004.

Goertz, Stephan, „How Saint Sebastian became an LGBTQ icon,“ í Outreach – an LGBTQ Catholic reource, How Saint Sebastian became an LGBTQ icon – Outreach. Sótt 3. ágúst 2023.

Heilagra mann søgur. Fortællingar og legender om hellige mænd og kvinder, ritstj. C. R. Unger, bindi II. Christiania [Osló]: B. M. Bentzen: 1877.

 Íris Ellenberger, Fæðing hinnar íslensku lesbíu, fyrirlestur haldinn hjá Sagnfræðingafélagi Íslands, 27. janúar 2017.

Kaye, A. Richard A, „Losing his religion – Saint Sebastian as contemporary gay martyr,” í Outlooks – Lesbian and Gay Sexualities and Visual Culture, ritstj. Peter Horne og Reina Lewis. London: Routledge: 1996.

Marteinn Lúther, Til hins kristna aðals þýskrar þjóðar, ísl. þýð. Vilborg Auður Ísleifsdóttir. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2012.

Paglia, Camille, Sexual personae – art and decadence from Neffertiti to Emily Dickinson. London: Penguin books, 1990.

Óvíd, Publius Ovidius Naso, Ummyndanir: Metamorphoses, ísl. þýð. Kristján Árnason. Mál og menning: Reykjavík 2009.

Reed, Christopher, Art and homosexuality – a history of ideas. Oxford: Oxford University, 2011.

Saint Sebastian: History’s first gay icon? (qspirit.net) – Sótt 7. ágúst 2023.

Sigurbjörn Einarsson, Trúarbrögð mannkyns, Skálholtsútgáfan: Reykjavík 1994.

(99+) Rubber Intercessions: Saint Sebastian as Queer Communal Instigator during the AIDS Crisis | Rían Kearney – Academia.edu  Sótt 6. ágúst 2023.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

 

Dýrlingar kaþólskrar kirkju skipta þúsundum og alltaf bætast fleiri við hópinn. Ekki verður hver sem er dýrlingur eftir dauða sinn. Til þess að verða dýrlingsefni þarf að uppfylla nokkur skilyrði og síðan kemur dýrlingstignin í nokkrum þrepum.

Hver dýrlingur á sitt svið og stundum skarast þau. Segja má að svið þeirra nái yfir allt samfélagið í orði kveðnu þar sem kaþólska kirkjan starfar. Ekkert er undanskilið. Mótmælendakirkjur eins og þjóðkirkja Íslands viðurkenna ekki neina sérstaka stöðu þeirra einstaklinga sem kallast dýrlingar. Enda þótt Þorlákur helgi sé kallaður þjóðardýrlingur Íslendinga þá er það aðeins samkvæmt kaþólskri kenningu.[1]

Listmálarar fyrri alda hafa gert dýrlingum góð skil og enn eru einhverjir nútímalistamenn að festa ímyndir dýrlinganna í nánast alla listmiðla.

Hér verður fjallað um dýrlinginn Sebastían (lat. Sebastianus) og tengsl listaverka af honum við samkynhneigða. Spurt er:

Hvað í helgimyndum af dýrlingnum Sebastían varð til þess að samkynhneigðir karlar gerðu hann að sínum dýrlingi?

Sebastían í list

Það skýrir sig sjálft að í stuttri umfjöllun verða ekki öll verk af dýrlingnum Sebastían skoðuð. Þau eru feikimörg eins og sjá má á netinu.

Þess vegna er farin sú leið að ræða verk eitt af dýrlingnum sem var það fyrsta er tengt var við samkynhneigð á 19. öld og er eftir Guido Reni (1575-1642). En önnur verk verða nefnd samhengisins vegna og í lokin er myndasyrpa af nútímaverkum af dýrlingnum. Þá er og stuðst við rannsóknir á þessu sviði eftir því sem efni standa til.

Hver var þessi Sebastían? 

Ekkert er vita með sagnfræðilegri vissu um Sebastían (f. um 255 – d. 288) annað en það að hann var frá Mílanó. Helgisögnin segir hins vegar að hann hafi verið foringi í rómverska hernum á tíma Díókletíanusar keisara. Hafi hann verið dæmdur til dauða. Elstu myndir sem til eru af dýrlingnum sýna hann gamlan mann sem heldur á kórónu píslarvættisins. Með endurreisninni breytist hin sjónræna framsetning á honum: ungur maður með örvar í líkama sínum og gjarnan heldur hann á einni ör.[2] Hann snerist til kristinnar trúar og galt fyrir það með lífi sínu. Skyldi hann skotinn örvum en þær náðu ekki að vinna á honum og var hann því barinn til dauða.[3] Hann var tekinn í dýrlingatölu og er dýrlingur hermennsku, bogamanna, og baráttu gegn plágum.[4]

Endurreisnin fæst við Sebastían

Málverk og höggmyndir af Sebastían voru afar vinsælt efni hjá listamönnum endurreisnartímabilsins. Sú staðlaða mynd sem varð smám saman til af honum sýndi hann nánast nakinn, var aðeins með lendaskýlu, og svipurinn á honum var auðmjúkur, nánast undirgefinn. Með myndum af honum fengu listamenn endurreisnarinnar tækifæri til að gera listaverk af nánast nöktum karlmanni innan hins kirkjulega samhengis.[5] Reiðinnar býsn af myndum voru gerðar af Sebastían og var hann að vinsældum þriðji í röðinni frá sjálfum meistaranum frá Nasaret og guðsmóðurinni. Þessar myndir urðu ákveðinn grunnur að túlkun á dýrlingnum, útliti hans og umhverfi.

Örvarnar sem stungust í Sebastían deyddu hann ekki. Sú staðreynd varð einnig til að styrkja trú á dýrlinginn. Þegar kom að sjúkdómum og plágum hlyti að vera gott að heita á hann þar sem örvar felldu hann ekki. En örvarnar tákna líka óréttlátar ofsóknir og þær vísa einnig til ástarörva.[6]

Telja má að sakir þessarar myndar sem dregin var upp af Sebastían af listamönnum endurreisnar og kirkjunnar hafi samkynhneigðir fundið til samstöðu með honum. Ekki spillti að svipur hans var ögn kvenlegur og á mörgum myndanna vatt hann sér jafnvel á erótískan hátt undan örvunum og lét sér í raun hvergi bregða. Svipur hans var jafnvel á sumum myndum ljúfsár – vó salt á milli fegurðar og þjáningar. Nokkrir endurreisnarlistamenn voru í einkalífi sínu hugfangnir af fegurð karlmanna. [7]

Verk Guido Reni

„Örlög heilags Sebastíans íhuguð,“ eftir Guido Reni (1575-1642). Myndin gerð 1615. Sebastían bundinn við staur

Hér verður sérstaklega staðnæmst við verk Guido Reni (1575-1642) af dýrlingnum Sebastían bundnum við staur. Þetta verk var í miklum metum hjá rithöfundinum Oscari Wilde (1854-1900) og sagðist hann aldrei hafa séð fallegri mynd.[8] En hvað skyldi það vera við myndina sem dró hann að henni? Fagur og fínlegur æskusvipur leynir sér ekki á dýrlingnum og líkamsstaða hans er erótísk. Hendur hans eru bundnar. Hann er með þrjár örvar í sér, eina í síðunni, aðra í handarkrikanum og þá þriðju rétt fyrir ofan nára. Lendaklæði skýlir nekt hans. Fas hans gæti og kveikt hugmyndir um kynlífsleiki. Getur verið að auk þess séu vaktar upp hugrenningar kvala- og sjálfspíslarhvatar (e. sadomasochism)? Japanski rithöfundurinn Yukio Mishima (1925-1970) sagðist hafa fengið sína fyrstu kynferðislegu fullnægju með því að horfa á eftirmynd af þessu málverki Guidos.[9] Þá er eftirtektarvert að svo er ekki að sjá sem Sebastían þjáist í þessum aðstæðum sínum – getur verið jafnvel að hann njóti þeirra? Margar örvar í líkama hans geta bent til ástarörva Erosar og fjöllyndis.

Oscar Wilde kallaði sig Sebastían þegar hann var í Frakklandi og sömuleiðis franska ljóðskáldið, Marc-André Rafflovich (1864-1934).[10]

Nánar um myndir af  Sebastían dýrlingi

Listamenn endurreisnarinnar voru duglegir að gera verk af Sebastían og sýnir það hve spenntir þeir voru fyrir þessu viðfangi. Nefna má Gian Lorenzo Bernini (1598-1680), Sandro Botticelli (1445-1510), Andrea Mantegna (1431-1506), Perugino (1450-1523), Titian (1488-1576), og El Greco (1541-1614).

Í öllum þessum verkum má sjá örvar í líkama Sebastíans sem standa misdjúpt í honum. Hafa þrengt sér inn í líkama hans sem með táknrænum hætti gat gefið undir fótinn með þrá eftir innsetningu getnaðarlims.[11] Það skal strax tekið fram að saga hinsegin fólks er margradda og fellur því ekki alltaf í einn og breiðan farveg.[12] Ýmsar skoðanir og túlkanir kunna að vera uppi. Þannig getur einhver túlkað hinn staðlaða svip dýrlingsins Sebastíans með fyrrgreindum hætti meðan annar gerir það ekki. Það kann og að vera að listamennirnir hafa málað dýrlinginn Sebastaían með þessum hætti vegna þess að í þeim blundaði samkynhneigður karlmaður.[13] Kirkjan taldi sig hafa vald yfir túlkun á líkamanum og hlutverki hans (ýmsar kirkjudeildir eru enn við það heygarðshorn). Um líkamsvaldið giltu strangar kenningar og siðir. En eins og Foucault hefur bent á í sambandi við Viktoríutímann og tepruskapinn sem þá var ríkjandi gagnvart öllu því er laut að líkamanum þá kraumaði undir niðri öflug nautnaþrá sem valdafólk siðar og reglna réði í raun og veru ekki neitt við. Þannig gat sjálfgefið vald yfir líkamanum leitt af sér það sem því var ætlað að girða fyrir.[14] Það braust einhvers staðar út. Kemur í hug orðatiltækið íslenska: Þótt náttúran sé lamin með lurk þá leitar hún út um síðir.

Samkynhneigðum var mikið í mun að geta bent á fordæmi um samkynhneigð í bókmenntum og listum. Það var hluti af sjálfsmynd þeirra. Auðvitað þurfti ekki að fara langt til að finna samkynhneigðar fyrirmyndir. Þær voru í raun alls staðar. Leonardo Da Vinci (1452-1519) og Michelangelo Buonarroti (1475-1564) voru samkynhneigðir svo aðeins séu nefnd tvö dæmi úr myndlistinni.[15]

Áhrif mynda af Sebastían dýrlingi

Það hlýtur að hafa verið samkynhneigðum körlum léttir að sjá kynverund sína í myndum meistara endurreisnarinnar af Sebastían.

Að auki hafa margir samkynhneigðir karlar séð í honum bandamann sinn gagnvart trúarstofnunum. Á sama hátt og  rómverska trúarkerfið tók hann af lífi hefur hið kristna trúarkerfi reynst mörgum hinsegin einstaklingum harla erfitt og fjandsamlegt.

Uppgangur alnæmis hafði gríðarleg áhrif á samfélag samkynhneigðra. Þegar alnæmi breiddist út meðal samkynhneigðra litu margir þeirra til Sebastíans þar sem hann var dýrlingur baráttunnar gegn hvers kyns plágum. Margir snortnir trúarbrjálsemi töldu hins vegar alnæmisfaraldurinn vera refsingu æðri máttarvalda gagnvart hinu synduga samkynhneigða fólki og var meðal annars vitnað til harmkvælamannsins Jobs í því sambandi.[16] Eitraðar örvar voru enda hernaðarbragð[17]og notaðar til að breiða út plágur til forna eins og dæmin um gríska guðinn Apollón rekja.[18]

Samfélagið ýtti þeim út á jaðarinn, bæði hið opinbera og kirkjan. Þeir báru pláguna í sér og samfélaginu hraus hugur við þeim. Þetta viðhorf hafði þau áhrif að margir í hópi samkynhneigðra litu á Sebastían sem talsmann sinn og verndara.[19] Eitruð örvahríð gekk yfir samkynhneigða. Í fremstu víglínu í Bandaríkjunum stóðu mörg kristin öfgasamtök á hægri kantinum og létu mjög að sér kveða. Töldu sum alnæmi og menningu samkynhneigðra (hinsegin fólks) vera tákn um lok tímanna, dómsdag.[20]

Skáldið og dýrlingurinn

Það er undir lok 19. aldar sem rithöfundurinn Oscar Wilde verður til þess að augu samkynhneigðra beinast að Sebastían. Skáldið féll fyrir fyrrnefndu málverki Guido Reni af Sebastían þegar hann var á ferðalagi í Genúa á Ítalíu. Það er Oscar Wilde sem gerir Sebastían sem sé að dýrlingi eða velgjörðarmanni samkynhneigðra.[21] Að minnsta kosti má segja að afstaða hans hafi haft áhrif í þá átt svo ekki sé  dýpra í árinni tekið.

Segja má að með því að gera Sebastían að einhvers konar verndardýrlingi samkynhneigðra karla hafi þeir snúið á andstöðu kirkjunnar við samkynhneigð. Hins vegar verður að telja ólíklegt að þau sem líta á hann sem slíkan dýrling séu virkir kaþólikkar og komist ekki í guðfræðilega hrifningu í návist hans í anda kaþólskunnar. Líta mætti á þetta nýja svið dýrlingsins sem veraldlegt og hann því orðinn veraldlegur (e. secularized) í þessu tilliti. Hann er sem sé veraldlegt íkón í augum margra. Jafnvel mætti kalla þetta menningarlega tilfærslu.

Að lokum

Sagan segir hann vera karl. En í augum annarra gat hann í raun verið hvorki karl né kona heldur líkami sem fallið var fyrir. Judith Butler spyr skemmtilegrar spurningar í grein þar sem hún fjallar um kenningar Monique Wittig: „Er til efnislegur líkami á undan hinum skynrænt skynjaða líkama?“ Og hún svarar svo að það sé ómögulegt að segja nokkuð til um það. Kyn er bundið í tungumálinu, það er orðræðubundið, eins og hún segir. Og skynrænt.[22] Tungumálið er tæki sem notað er til að flokka allt í efnisheimi mannsins. Manneskjan er þannig séð flokkunarvél. Það er gífurlega flókinn veruleiki á bak við þessa flokkun og hún á sér djúpar rætur í sögu og menningu. Nú fyrst sést hilla undir að einhverjar breytingar verði á þessari flokkun. Skrefin voru stigin meðal annars á tíma endurreisnar þegar umræddar myndir af dýrlingnum Sebastían voru gerðar. Kannski var það ómeðvituð uppreisn gegn flokkun einstaklinga. En flokkun heldur áfram í nútímanum hvað kyn snertir – og er kannski tímaskekkja. Ætti ekki bara að vera eitt orð yfir kyn mannfólksins? Eða ekkert. Hvaða máli skiptir kyn?

Sem fyrr segir er til fjöldi listaverka sem sýna dýrlinginn Sebastían.

Margir listamenn á 20. og 21. öld hafa gert myndir af Sebastían dýrlingi. Það segir sína sögu þegar myndhefðin af dýrlingnum Sebastían er svo lifandi sem raun ber vitni.

Öll byggja þessi verk á hefðinni sem skapast hefur hvernig dýrlingurinn Sebastían skuli sýndur. Örvarnar eru á sínum stað, kynþokkinn, ekki að sjá þjáningarsvip á andliti hans, hann er bundinn við staur. Nær nakinn, lendaskýlan er ein fata. Segja má að þetta sé í raun hin staðlaða útgáfa af dýrlingi samkynhneigðra. Ekkert er vitað um persónulega hagi hans hvort hann var samkynhneigður eða ekki. Listamennirnir hafa búið til þessa ímynd af honum eins og fyrr er nefnt. Hefðin er sem sé sterk.

Hér má sjá nokkur dæmi:

[23]

Tilvísanir

[1] „með öllu þessu dýrlingatildri er ekki verið að hugsa um að heiðra Guð og betra hans hjörð…” segir Marteinn Lúther í riti sínu: Til hins kristna aðals þýskrar þjóðar, ísl. þýð.,Vilborg Auður Ísleifsdóttir, (Hið íslenska bókmenntafélag: Reykjavík 2012). 140-141.

[2] Encyclopedia of early Christianity, ritstj. Everett Ferguson, (Garland Publishing: New York og London 1990), 837.

[3] Heilagra manna sögur (stafsetning færð til nútíma): „Þá lét Diacletianus leiða Sebastianum á völl og binda og hafa að skotspæni. Þá var skotið á hann örum öllum megin, uns hann var utan sem bjarnígull. Og ætluðu allir hann dauðan og fóru á brott. En kona sú, er átt hafði Castulus, hún hét Herena, kom til um nóttina að grafa Sebastianum; og lifði hann, og leiddi hann heim með sér og tók hann heilsu eftir fáa daga. Þá báðu kristnir menn, að hann mundi flýja. … Sebastianum svaraði: Til  þess lét guð mig lifa, að ég segði það öllum lýð, að þér dæmið rangt, þá er þér látið pína þræla Krists. Þá lét Dicletianus berja Sebastianum stöngum til bana og kasta líki hans í keytu djúpa að eigi göfguðu kristnir menn hann.“ Heilagra mann søgur. Fortællingar og legender om hellige mænd og kvinder, ritstj. C. R. Unger, bindi II (Christiania [Osló]: B. M. Bentzen, 1877), 232-233.

[4] David Hugh Farmer, Oxford Dictionary of Saints, (New York: Oxford University Press, 2004, 470-471.

[5] David Hugh Farmer, Oxford Dictionary of Saints, (New York: Oxford University Press, 2004, 470-471.

[6] Stephan Goertz, „How Saint Sebastian became an LGBTQ icon,“ í Outreach – an LGBTQ Catholic reource, How Saint Sebastian became an LGBTQ icon – Outreach. Sótt 3. ágúst 2023. Dr. Stephan Goertz er siðfræðingur og prófessor við háskólann í Mainz í Þýskalandi – frá honum og Stephanine Höllinger er væntanleg bók um efnið: Sebastian – Märtyrer, Pestheiliger, Queere Ikone.

[7] Camille Paglia, Sexual personae – art and decadence from Neffertiti to Emily Dickinson, (Penguin books: London, 1990),157.

[8] Richard Ellmann, Oscar Wilde, (London: Hamish Hamilton, 1987), 68.

[9] Camille Paglia, Sexual personae – art and decadence from Neffertiti to Emily Dickinson, (Penguin books: London, 1990), 245-246.

[10] Richard Ellmann, Oscar Wilde, (London: Hamish Hamilton, 1987),68.

[11] Richard A. Kaye, „Losing his religion – Saint Sebastian as contemporary gay martyr,” í Outlooks – Lesbian and Gay Sexualities and Visual Culture, ritstj. Peter Horne og Reina Lewis. (Routledge: London, 1996), 88-89. Og: Camille Paglia, Sexual personae – art and decadence from Neffertiti to Emily Dickinson, (Penguin books: London, 1990), 112 en þar segir: „St. Sebastian, a beautiful seminude youth pierced by phallic arrows.”

[12] Íris Ellenberger, Fæðing hinnar íslensku lesbíu, fyrirlestur haldinn hjá Sagnfræðingafélagi Íslands, 27. janúar 2017.

[13] Erfitt getur verið að fullvissa nokkuð um það með öruggum hætti.

[14] Margo Demello, Body Studies – an introduction, London og New York: Rotuledge, 2014). 13, 235.

[15] Christopher Reed, Art and homosexuality – a history of ideas, (Oxford University Press: Oxford, 2011), 46-47. Og: Camille Paglia, Sexual personae – art and decadence from Neffertiti to Emily Dickinson, (Penguin books: London, 1990), 157.

[16] „Já, örvar Hins almáttka sitja í mér, andi minn drekkur eitur þeirra, ógnir Guðs steðja að mér.” (Jobsbók 6.4, Biblían 2007, 11. útgáfan.

[17] Óvíd, Publius Ovidius Naso, Ummyndanir: Metamorphoses, ísl. þýð. Kristján Árnason, (Mál og menning: Reykjavík 2009), 254, 453.

[18] Sjá: (99+) Rubber Intercessions: Saint Sebastian as Queer Communal Instigator during the AIDS Crisis | Rían Kearney – Academia.edu – bls. 16, sótt 6. ágúst 2023 og: Sigurbjörn Einarsson, Trúarbrögð mannkyns, (Skálholtsútgáfan: Reykjavík 1994), 107.

[19] Stephan Goertz, „How Saint Sebastian became an LGBTQ icon,“ í Outreach – an LGBTQ Catholic reource, How Saint Sebastian became an LGBTQ icon – Outreach. Sótt 3. ágúst 2023.

[20] (99+) Rubber Intercessions: Saint Sebastian as Queer Communal Instigator during the AIDS Crisis | Rían Kearney – Academia.edu – bls. 22. Sótt 6. ágúst 2023.

[21] Stephan Goertz, „How Saint Sebastian became an LGBTQ icon,“ í Outreach – an LGBTQ Catholic reource, How Saint Sebastian became an LGBTQ icon – Outreach. Sótt 6. ágúst 2023.

[22] Judith Butler, „Monique Wittig: Upplausn líkamans og uppspunið kyn,“ ísl. þýð. Vilborg Sigurðardóttir, í Ritið – tímarit Hugvísindastofnunar, 2/2002, (Hugvísindastofnun Háskóla Íslands: Reykjavík 2002), 167.

[23] Allar þessar níu myndir: Saint Sebastian: History’s first gay icon? (qspirit.net) – Sótt 7. ágúst 2023.

Heimildaskrá

Butler, Judith, „Monique Wittig: Upplausn líkamans og uppspunið kyn,“ ísl. þýð., Vilborg Sigurðardóttir, í Ritið – tímarit Hugvísindastofnunar, 2/2002. Reykjavík: Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, 2002.

Demello, Margo, Body Studies – an introduction. Rotuledge: London og New York, 2014.

Ellmann, Richard, Oscar Wilde. Hamish Hamilton: London: 1987.

Encyclopedia of early Christianity, ristj. Everett Ferguson. Garland Publishing: New York og London: 1990.

Farmer, David Hugh, Oxford Dictionary of Saints. New York: Oxford University Press, 2004.

Goertz, Stephan, „How Saint Sebastian became an LGBTQ icon,“ í Outreach – an LGBTQ Catholic reource, How Saint Sebastian became an LGBTQ icon – Outreach. Sótt 3. ágúst 2023.

Heilagra mann søgur. Fortællingar og legender om hellige mænd og kvinder, ritstj. C. R. Unger, bindi II. Christiania [Osló]: B. M. Bentzen: 1877.

 Íris Ellenberger, Fæðing hinnar íslensku lesbíu, fyrirlestur haldinn hjá Sagnfræðingafélagi Íslands, 27. janúar 2017.

Kaye, A. Richard A, „Losing his religion – Saint Sebastian as contemporary gay martyr,” í Outlooks – Lesbian and Gay Sexualities and Visual Culture, ritstj. Peter Horne og Reina Lewis. London: Routledge: 1996.

Marteinn Lúther, Til hins kristna aðals þýskrar þjóðar, ísl. þýð. Vilborg Auður Ísleifsdóttir. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2012.

Paglia, Camille, Sexual personae – art and decadence from Neffertiti to Emily Dickinson. London: Penguin books, 1990.

Óvíd, Publius Ovidius Naso, Ummyndanir: Metamorphoses, ísl. þýð. Kristján Árnason. Mál og menning: Reykjavík 2009.

Reed, Christopher, Art and homosexuality – a history of ideas. Oxford: Oxford University, 2011.

Saint Sebastian: History’s first gay icon? (qspirit.net) – Sótt 7. ágúst 2023.

Sigurbjörn Einarsson, Trúarbrögð mannkyns, Skálholtsútgáfan: Reykjavík 1994.

(99+) Rubber Intercessions: Saint Sebastian as Queer Communal Instigator during the AIDS Crisis | Rían Kearney – Academia.edu  Sótt 6. ágúst 2023.

Viltu deila þessari grein með fleirum?