Margir hafa haft á orði að forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, hafi flutt áhrifamikla og athyglisverða ræðu á síðustu Hólahátíð. Kirkjublaðið.is fékk góðfúslegt leyfi forseta til að birta ræðuna og þakkar fyrir það. 

Ávarp forseta Íslands Höllu Tómasdóttur á Hólahátíð að Hólum í Hjaltadal 17. ágúst 2025

 

Biskup Íslands, vígslubiskup, kæru gestir.

Það er mér sérstakt ánægjuefni að taka þátt í Hólahátíð að þessu sinni. Hátíðin hófst, sem kunnugt er, í gær með Hólahátíð barnanna sem ég fagna, enda eru staða og líðan barna og ungs fólks mér sérstaklega hugleikin. Við mættum oftar gera ráð fyrir æskunni í opinberu lífi og viðburðum.

Sjálf kom ég oft heim að Hólum þegar ég dvaldi nokkur sumur í sveit hér í Hjaltadalnum sem barn. Það vill svo til að nýlega deildi gömul vinkona mín með mér handskrifuðum bréfum sem ég hafði sent henni úr sveitinni. Ég gat frætt hana um að ég hefði skírt tvo heimalninga á Kjarvalsstöðum í höfuðið á skemmtikröftunum Halla og Ladda sem börn af okkar kynslóð dáðu óspart. Og ræturnar standa enn dýpra hér í Skagafirði. Faðir minn fæddist að Hofi og í kirkjugarðinum hér utan við dómkirkjuna eru afi minn og amma jarðsett.

Pabbi missti foreldra sína ungur að árum og ólst að mestu upp á Kolkuósi þar sem hann þurfti að vinna hörðum höndum sem barn og unglingur og leggja mikið á sig til að njóta skólagöngu. Hann gekk daglega fram og til baka margra kílómetra leið í skólann og sinnti fjölbreyttum bústörfum fyrir og eftir skólasetuna. Dagarnir voru langir og strembnir og honum þótti ákjósanlegt að ég fengi áþekka eldskírn.

Ég kom til minnar fyrstu sumardvalar að Kjarvalsstöðum þegar ég var sjö ára gömul. Það ár og þau næstu á eftir tók ég virkan þátt í sveitastörfum, allt frá sauðburði til rétta. Á unglingsárum flutti ég mig um set og starfaði meðal annars í tvö sumur við fiskvinnslu á Austurlandi. Ég er þakklát fyrir þessi ár þótt ekki hafi alltaf verið auðvelt að dvelja mánuðum saman fjarri fjölskyldu og vinum. Og þó að lífið hér í Skagafirði væri ekki eins krefjandi fyrir mig og föður minn er óhætt að segja að mér hafi lærst að vinna, oft langan vinnudag, og harka ýmislegt af mér. Ég bý enn að þeirri reynslu og neita því ekki að ég hef stundum minnt mín eigin börn á hversu auðvelt líf þeirra sé, ekki síst í samanburði við reynslu föður míns og eldri kynslóða.

En samt sem áður má spyrja: Er líf barna og ungs fólks nú um stundir í raun auðveldara en það var þegar við, sem erum á miðjum aldri, vorum ung?

Unnt er að svara því með ýmsu móti. Nú eru vitanlega í gildi lög sem kveða á um það á hvaða aldri ráða megi börn í vinnu og hversu langur vinnudagur þeirra má vera. Á okkar dögum njóta flest, en þó alls ekki öll, börn þess að eiga fleiri og fjölbreyttari föt en fyrri kynslóðir Íslendinga. Mörgum krökkum þykir það vera réttindamál að fá sérherbergi á heimilinu, skólaskylda er talin sjálfsögð, sem og margskonar þátttaka í íþróttum og öðru tómstundastarfi. Fleiri og yngri börn hafa heimsótt fjarlægar slóðir en algengt var á mínum æskuárum. Og ég er líka sannfærð um að hrossabjúgun sem oft voru elduð á Kjarvalsstöðum, og mér þóttu ekkert ýkja spennandi, séu ekki á diskum margra íslenskra barna þessa dagana.

Margt af þessu má vafalaust segja að sé til bóta og til marks um framfarir í okkar samfélagi. En það er líka ýmislegt sem börn og unglingar fara á mis við núorðið og einnig ýmsar nýjar áskoranir sem þau þurfa að takast á við. Mér er ofarlega í huga sú staðreynd að við höfum líklega aldrei verið sítengdari við tæki og upplýsingar en nú, og um leið í minni tengslum við sumt af því sem skiptir sköpum fyrir heilbrigði manneskjunnar og samfélagsins. Eins og ég hef áður rætt, tel ég að alvarlegt tengslarof hafi átt sér stað eftir að snjalltæki og samfélagsmiðlar tóku yfir lófa okkar og líf. Athyglissamfélagið, eins og farið er að kalla þá þjóðfélagsgerð sem við búum nú við, hefur að mínu mati rænt okkur innri og ytri ró, aukið bilið milli kynslóða, rofið tengsl okkar hvert við annað og snertinguna við náttúruna í kringum okkur. Við leggjum jafnvel meiri rækt við skjáinn en velferð okkar sjálfra og nánustu ættingja.

Alþjóðlegar rannsóknir hafa sýnt að ungt fólk á aldrinum 13 til 16 ára ver að meðaltali níu klukkustundum á dag við skjá, þar af fimm klukkustundum á samfélagsmiðlum. Dæmigerður unglingur fær að meðaltali yfir 220 tilkynningar í lófann daglega. Getur verið að þessi kynslóð sé enn sligaðri af vinnu en við sem þurftum að mjólka kýr, smala kindum og flaka fisk? Má ekki líta svo á að æskufólk sé nánast í fullu starfi í rafheimum meðfram skólagöngunni og að það sem þau sjá og gera á stafrænum vettvangi útskýri að einhverju marki aukinn kvíða, þunglyndi og vanlíðan? Ég tel að svo sé.

Á liðnu ári, því fyrsta í mínu embætti, hef ég lagt mig fram um að hitta og hlusta á ungt fólk. Ég heyri að þau eru mér sammála um alvarleika vandamálanna sem löng dvöl í stafræna hliðarveruleikanum getur haft í för með sér. Þau lýsa fyrir mér vaxandi einmanaleika og hafa sum sterklega á tilfinningunni að þau sjálf séu ekki í lagi eins og þau eru, séu ekki nóg. Þau segja að þær glansmyndir af lífi annarra sem birtast á samfélagsmiðlum láti þeim stundum líða eins og þeirra eigið líf sé ekki nógu spennandi. Þau segja mér frá vaxandi fíkn sinnar kynslóðar í tölvuleiki, klám og fjárhættuspil, efni sem sé öllum aðgengilegt og hannað á útsmoginn hátt til að halda athygli notenda svo fanginni að það er átak að taka eftir bláum himni og hækkandi sól, lesa bók eða hreinlega beina huganum í annan farveg. Þau segja mér líka frá ólíkum birtingarmyndum ofbeldis í stafrænum heimi, allt frá grimmum athugasemdum á samfélagsmiðlum til slagsmála í beinni útsendingu.

Ég gæti lengi haldið áfram en kjarni málsins er sá að mér finnst ungt fólk beinlínis vera að hrópa á hjálp. Þau eru að biðla til okkar sem eldri erum um að vera betri fyrirmyndir og setja okkur, þeim og samfélaginu skynsamleg og heilbrigð mörk. Við eigum sannarlega að reyna að njóta þess sem tæknin hefur fram að færa en okkur ber líka skylda til að lágmarka þann skaða sem af henni getur hlotist og endurheimta það sem hún hefur nú þegar rænt okkur. Hér er ég öðru fremur að tala um kærleika og frið, sem sannarlega eru lykilhugtök í boðskap kirkjunnar.

Undanfarin misseri hefur staða þjóðkirkjunnar í breyttu samfélagi verið nokkuð til umræðu. Það er bent á að fleiri kjósi nú að standa utan trúfélaga en áður. Löngum hefur mannkynið háð styrjaldir í nafni trúar, jafnvel þótt flest trúarbrögð leggi höfuðáherslu á kærleika, bræðralag, mannhelgi og frið. Við lifum á tímum sem kalla á samræðu, samstarf og úrlausn flókinna vandamála þvert á trúardeildir, trúarbrögð, tungumál og landamæri. Því miður eru mörg teikn á lofti um að vaxandi einmanaleiki og vansæld – skortur á innri friði, leyfi ég mér að kalla þessa líðan – séu að kynda undir átökum og ófriði, hér í okkar litla samfélagi ekki síður en úti í hinum stóra heimi. Kirkjan, með sinn friðar- og kærleiksboðskap, hefur stóru og afar mikilvægu hlutverki að gegna í þessu sambandi.

Mig langar til að rifja hér upp áhrifarík orð Páls postula úr Fyrra Korintubréfi sem við kunnum mörg utanbókar:

„Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.

Og þótt ég hefði spádómsgáfu, og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking, og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt.

Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum, og þótt ég framseldi líkama minn til þess að verða brenndur, en hefði ekki kærleika, væri ég engu bættari.

Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki.

Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.

Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.

Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum.

Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.

Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.“

Postulinn Páll vissi hvað hann söng. Um kærleikann tel ég að við getum öll sameinast, hver sem trú okkar er, kyn og uppruni. Og ég er jafnframt sannfærð um að í kærleikanum felst sá eini kraftur sem er yfirsterkari því hatri og ótta sem víða skjóta nú rótum og leiða af sér vaxandi átök og ófrið. Með því að lyfta kærleikanum trúi ég að við getum stuðlað að innri friði, friði í samfélaginu og friði í heiminum.

Þessi trú er grundvöllur hreyfingarinnar Riddarar kærleikans sem ég er stolt af því að styðja og vernda og minni á við mörg tækifæri. Innan þeirrar hreyfingar, sem er fyrst og fremst leidd af ungu fólki sem langar til að vinna gegn vaxandi vanlíðan og ofbeldi með kærleika, er pláss fyrir alla sem vilja láta gott af sér leiða. Þessi hreyfing og allt það góða sem hún hefur þegar áorkað hefur yljað mér um hjartarætur ítrekað undanfarin misseri.

Unglingsstúlkur héðan úr nágrenninu, nemendur í Grunnskólanum á Hofsósi, sömdu ásamt GDRN dásamlegt lag og texta sem þær nefndu „Riddarar kærleikans“. Þar skora þær á okkur að vera sól fyrir þá sem sjá ekki birtuna og að veita þeim hugrekki sem það skortir. Ungt fólk í skólum um allt land klæddist ítrekað bleiku á liðnum vetri til að minnast Bryndísar Klöru Birgisdóttur sem lét lífið fyrir ári síðan vegna ofbeldisverks. Barn varð þar öðru barni að bana. Þessi mikli harmleikur virtist mörgum vera til marks um óhugsanlega þróun hér á Íslandi, þróun sem unga fólkið sjálft ákvað að sporna gegn með kærleikann að leiðarljósi. Fjölda góðgerðarverkefna hefur verið ýtt úr vör í skólum um allt land og fyrirtæki hafa einnig lagst á árarnar. Ungir og aldnir, jafnt nemendur sem þingmenn, hafa tekið höndum saman í kærleikshringjum. Síðast í gær hnýttu konur kærleikskrans úr blómum í Hveragerði. Taka mætti ótal fleiri dæmi sem sanna að fólk á öllum aldri og af öllu tagi tekur við sér þegar minnt er á að kærleikurinn er alltaf í boði, og alltaf bestur.

Ég biðla til ykkar sem hér eruð gestir á Hólahátíð að vera riddarar kærleikans, að leita allra leiða til að tala um kærleikann og sýna hann í verki. Þannig tel ég að við aukum frið í sálum okkar, í samfélaginu okkar og vonandi í heiminum öllum. Um þetta þarf ekki að deila.

Ég var í febrúarmánuði viðstödd stofnun Samtaka trú- og lífskoðunarfélaga í ráðhúsi Reykjavíkur en þau höfðu áður haft með sér óformlegan samráðsvettvang um árabil. Stofnaðilar í vetur voru 27 talsins. Samtökin hyggjast standa vörð um trúfrelsi og önnur mannréttindi. Þau eru tákn breyttra samfélagsaðstæðna og nýrra tíma. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan ég var barn, skoppandi hér milli þúfnanna í Hjaltadal ásamt guðslömbunum Halla og Ladda. Þá tilheyrðu velflestir landsmenn þjóðkirkjunni. Nú er þjóðin sannarlega fjölmennari og fjölbreyttari en um leið er svo ótalmargt sem við eigum sameiginlegt. Ég fann það vel og heyrði þegar fulltrúar ólíkra safnaða og lífsskoðunarfélaga hittust í Ráðhúsinu í vetur. Í brjósti allra bjó ástríðan fyrir viðgangi og vexti kærleikans. Ég vil ítreka þau orð postulans að kærleikurinn falli aldrei úr gildi. Hann er það afl sem brætt getur banvæn vopn, mildað bitrustu reiði, brúað dýpstu gjár og opnað hjörtu okkar hvert fyrir öðru.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Margir hafa haft á orði að forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, hafi flutt áhrifamikla og athyglisverða ræðu á síðustu Hólahátíð. Kirkjublaðið.is fékk góðfúslegt leyfi forseta til að birta ræðuna og þakkar fyrir það. 

Ávarp forseta Íslands Höllu Tómasdóttur á Hólahátíð að Hólum í Hjaltadal 17. ágúst 2025

 

Biskup Íslands, vígslubiskup, kæru gestir.

Það er mér sérstakt ánægjuefni að taka þátt í Hólahátíð að þessu sinni. Hátíðin hófst, sem kunnugt er, í gær með Hólahátíð barnanna sem ég fagna, enda eru staða og líðan barna og ungs fólks mér sérstaklega hugleikin. Við mættum oftar gera ráð fyrir æskunni í opinberu lífi og viðburðum.

Sjálf kom ég oft heim að Hólum þegar ég dvaldi nokkur sumur í sveit hér í Hjaltadalnum sem barn. Það vill svo til að nýlega deildi gömul vinkona mín með mér handskrifuðum bréfum sem ég hafði sent henni úr sveitinni. Ég gat frætt hana um að ég hefði skírt tvo heimalninga á Kjarvalsstöðum í höfuðið á skemmtikröftunum Halla og Ladda sem börn af okkar kynslóð dáðu óspart. Og ræturnar standa enn dýpra hér í Skagafirði. Faðir minn fæddist að Hofi og í kirkjugarðinum hér utan við dómkirkjuna eru afi minn og amma jarðsett.

Pabbi missti foreldra sína ungur að árum og ólst að mestu upp á Kolkuósi þar sem hann þurfti að vinna hörðum höndum sem barn og unglingur og leggja mikið á sig til að njóta skólagöngu. Hann gekk daglega fram og til baka margra kílómetra leið í skólann og sinnti fjölbreyttum bústörfum fyrir og eftir skólasetuna. Dagarnir voru langir og strembnir og honum þótti ákjósanlegt að ég fengi áþekka eldskírn.

Ég kom til minnar fyrstu sumardvalar að Kjarvalsstöðum þegar ég var sjö ára gömul. Það ár og þau næstu á eftir tók ég virkan þátt í sveitastörfum, allt frá sauðburði til rétta. Á unglingsárum flutti ég mig um set og starfaði meðal annars í tvö sumur við fiskvinnslu á Austurlandi. Ég er þakklát fyrir þessi ár þótt ekki hafi alltaf verið auðvelt að dvelja mánuðum saman fjarri fjölskyldu og vinum. Og þó að lífið hér í Skagafirði væri ekki eins krefjandi fyrir mig og föður minn er óhætt að segja að mér hafi lærst að vinna, oft langan vinnudag, og harka ýmislegt af mér. Ég bý enn að þeirri reynslu og neita því ekki að ég hef stundum minnt mín eigin börn á hversu auðvelt líf þeirra sé, ekki síst í samanburði við reynslu föður míns og eldri kynslóða.

En samt sem áður má spyrja: Er líf barna og ungs fólks nú um stundir í raun auðveldara en það var þegar við, sem erum á miðjum aldri, vorum ung?

Unnt er að svara því með ýmsu móti. Nú eru vitanlega í gildi lög sem kveða á um það á hvaða aldri ráða megi börn í vinnu og hversu langur vinnudagur þeirra má vera. Á okkar dögum njóta flest, en þó alls ekki öll, börn þess að eiga fleiri og fjölbreyttari föt en fyrri kynslóðir Íslendinga. Mörgum krökkum þykir það vera réttindamál að fá sérherbergi á heimilinu, skólaskylda er talin sjálfsögð, sem og margskonar þátttaka í íþróttum og öðru tómstundastarfi. Fleiri og yngri börn hafa heimsótt fjarlægar slóðir en algengt var á mínum æskuárum. Og ég er líka sannfærð um að hrossabjúgun sem oft voru elduð á Kjarvalsstöðum, og mér þóttu ekkert ýkja spennandi, séu ekki á diskum margra íslenskra barna þessa dagana.

Margt af þessu má vafalaust segja að sé til bóta og til marks um framfarir í okkar samfélagi. En það er líka ýmislegt sem börn og unglingar fara á mis við núorðið og einnig ýmsar nýjar áskoranir sem þau þurfa að takast á við. Mér er ofarlega í huga sú staðreynd að við höfum líklega aldrei verið sítengdari við tæki og upplýsingar en nú, og um leið í minni tengslum við sumt af því sem skiptir sköpum fyrir heilbrigði manneskjunnar og samfélagsins. Eins og ég hef áður rætt, tel ég að alvarlegt tengslarof hafi átt sér stað eftir að snjalltæki og samfélagsmiðlar tóku yfir lófa okkar og líf. Athyglissamfélagið, eins og farið er að kalla þá þjóðfélagsgerð sem við búum nú við, hefur að mínu mati rænt okkur innri og ytri ró, aukið bilið milli kynslóða, rofið tengsl okkar hvert við annað og snertinguna við náttúruna í kringum okkur. Við leggjum jafnvel meiri rækt við skjáinn en velferð okkar sjálfra og nánustu ættingja.

Alþjóðlegar rannsóknir hafa sýnt að ungt fólk á aldrinum 13 til 16 ára ver að meðaltali níu klukkustundum á dag við skjá, þar af fimm klukkustundum á samfélagsmiðlum. Dæmigerður unglingur fær að meðaltali yfir 220 tilkynningar í lófann daglega. Getur verið að þessi kynslóð sé enn sligaðri af vinnu en við sem þurftum að mjólka kýr, smala kindum og flaka fisk? Má ekki líta svo á að æskufólk sé nánast í fullu starfi í rafheimum meðfram skólagöngunni og að það sem þau sjá og gera á stafrænum vettvangi útskýri að einhverju marki aukinn kvíða, þunglyndi og vanlíðan? Ég tel að svo sé.

Á liðnu ári, því fyrsta í mínu embætti, hef ég lagt mig fram um að hitta og hlusta á ungt fólk. Ég heyri að þau eru mér sammála um alvarleika vandamálanna sem löng dvöl í stafræna hliðarveruleikanum getur haft í för með sér. Þau lýsa fyrir mér vaxandi einmanaleika og hafa sum sterklega á tilfinningunni að þau sjálf séu ekki í lagi eins og þau eru, séu ekki nóg. Þau segja að þær glansmyndir af lífi annarra sem birtast á samfélagsmiðlum láti þeim stundum líða eins og þeirra eigið líf sé ekki nógu spennandi. Þau segja mér frá vaxandi fíkn sinnar kynslóðar í tölvuleiki, klám og fjárhættuspil, efni sem sé öllum aðgengilegt og hannað á útsmoginn hátt til að halda athygli notenda svo fanginni að það er átak að taka eftir bláum himni og hækkandi sól, lesa bók eða hreinlega beina huganum í annan farveg. Þau segja mér líka frá ólíkum birtingarmyndum ofbeldis í stafrænum heimi, allt frá grimmum athugasemdum á samfélagsmiðlum til slagsmála í beinni útsendingu.

Ég gæti lengi haldið áfram en kjarni málsins er sá að mér finnst ungt fólk beinlínis vera að hrópa á hjálp. Þau eru að biðla til okkar sem eldri erum um að vera betri fyrirmyndir og setja okkur, þeim og samfélaginu skynsamleg og heilbrigð mörk. Við eigum sannarlega að reyna að njóta þess sem tæknin hefur fram að færa en okkur ber líka skylda til að lágmarka þann skaða sem af henni getur hlotist og endurheimta það sem hún hefur nú þegar rænt okkur. Hér er ég öðru fremur að tala um kærleika og frið, sem sannarlega eru lykilhugtök í boðskap kirkjunnar.

Undanfarin misseri hefur staða þjóðkirkjunnar í breyttu samfélagi verið nokkuð til umræðu. Það er bent á að fleiri kjósi nú að standa utan trúfélaga en áður. Löngum hefur mannkynið háð styrjaldir í nafni trúar, jafnvel þótt flest trúarbrögð leggi höfuðáherslu á kærleika, bræðralag, mannhelgi og frið. Við lifum á tímum sem kalla á samræðu, samstarf og úrlausn flókinna vandamála þvert á trúardeildir, trúarbrögð, tungumál og landamæri. Því miður eru mörg teikn á lofti um að vaxandi einmanaleiki og vansæld – skortur á innri friði, leyfi ég mér að kalla þessa líðan – séu að kynda undir átökum og ófriði, hér í okkar litla samfélagi ekki síður en úti í hinum stóra heimi. Kirkjan, með sinn friðar- og kærleiksboðskap, hefur stóru og afar mikilvægu hlutverki að gegna í þessu sambandi.

Mig langar til að rifja hér upp áhrifarík orð Páls postula úr Fyrra Korintubréfi sem við kunnum mörg utanbókar:

„Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.

Og þótt ég hefði spádómsgáfu, og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking, og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt.

Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum, og þótt ég framseldi líkama minn til þess að verða brenndur, en hefði ekki kærleika, væri ég engu bættari.

Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki.

Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.

Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.

Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum.

Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.

Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.“

Postulinn Páll vissi hvað hann söng. Um kærleikann tel ég að við getum öll sameinast, hver sem trú okkar er, kyn og uppruni. Og ég er jafnframt sannfærð um að í kærleikanum felst sá eini kraftur sem er yfirsterkari því hatri og ótta sem víða skjóta nú rótum og leiða af sér vaxandi átök og ófrið. Með því að lyfta kærleikanum trúi ég að við getum stuðlað að innri friði, friði í samfélaginu og friði í heiminum.

Þessi trú er grundvöllur hreyfingarinnar Riddarar kærleikans sem ég er stolt af því að styðja og vernda og minni á við mörg tækifæri. Innan þeirrar hreyfingar, sem er fyrst og fremst leidd af ungu fólki sem langar til að vinna gegn vaxandi vanlíðan og ofbeldi með kærleika, er pláss fyrir alla sem vilja láta gott af sér leiða. Þessi hreyfing og allt það góða sem hún hefur þegar áorkað hefur yljað mér um hjartarætur ítrekað undanfarin misseri.

Unglingsstúlkur héðan úr nágrenninu, nemendur í Grunnskólanum á Hofsósi, sömdu ásamt GDRN dásamlegt lag og texta sem þær nefndu „Riddarar kærleikans“. Þar skora þær á okkur að vera sól fyrir þá sem sjá ekki birtuna og að veita þeim hugrekki sem það skortir. Ungt fólk í skólum um allt land klæddist ítrekað bleiku á liðnum vetri til að minnast Bryndísar Klöru Birgisdóttur sem lét lífið fyrir ári síðan vegna ofbeldisverks. Barn varð þar öðru barni að bana. Þessi mikli harmleikur virtist mörgum vera til marks um óhugsanlega þróun hér á Íslandi, þróun sem unga fólkið sjálft ákvað að sporna gegn með kærleikann að leiðarljósi. Fjölda góðgerðarverkefna hefur verið ýtt úr vör í skólum um allt land og fyrirtæki hafa einnig lagst á árarnar. Ungir og aldnir, jafnt nemendur sem þingmenn, hafa tekið höndum saman í kærleikshringjum. Síðast í gær hnýttu konur kærleikskrans úr blómum í Hveragerði. Taka mætti ótal fleiri dæmi sem sanna að fólk á öllum aldri og af öllu tagi tekur við sér þegar minnt er á að kærleikurinn er alltaf í boði, og alltaf bestur.

Ég biðla til ykkar sem hér eruð gestir á Hólahátíð að vera riddarar kærleikans, að leita allra leiða til að tala um kærleikann og sýna hann í verki. Þannig tel ég að við aukum frið í sálum okkar, í samfélaginu okkar og vonandi í heiminum öllum. Um þetta þarf ekki að deila.

Ég var í febrúarmánuði viðstödd stofnun Samtaka trú- og lífskoðunarfélaga í ráðhúsi Reykjavíkur en þau höfðu áður haft með sér óformlegan samráðsvettvang um árabil. Stofnaðilar í vetur voru 27 talsins. Samtökin hyggjast standa vörð um trúfrelsi og önnur mannréttindi. Þau eru tákn breyttra samfélagsaðstæðna og nýrra tíma. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan ég var barn, skoppandi hér milli þúfnanna í Hjaltadal ásamt guðslömbunum Halla og Ladda. Þá tilheyrðu velflestir landsmenn þjóðkirkjunni. Nú er þjóðin sannarlega fjölmennari og fjölbreyttari en um leið er svo ótalmargt sem við eigum sameiginlegt. Ég fann það vel og heyrði þegar fulltrúar ólíkra safnaða og lífsskoðunarfélaga hittust í Ráðhúsinu í vetur. Í brjósti allra bjó ástríðan fyrir viðgangi og vexti kærleikans. Ég vil ítreka þau orð postulans að kærleikurinn falli aldrei úr gildi. Hann er það afl sem brætt getur banvæn vopn, mildað bitrustu reiði, brúað dýpstu gjár og opnað hjörtu okkar hvert fyrir öðru.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir