Þingi Lútherska heimssambandsins er nýlokið í Kraká í Póllandi.

Þjóðkirkjan gekk í Lútherska heimssambandið við stofnun þess í Lundi í Svíþjóð 3. júlí 1947.

Heimssambandið hefur þrjú markmið: skapa samvinnu milli kirkna sem standa á sama trúfræðilega grunni; reka víðtæka hjálparstarfsemi (hún er með þeim umsvifamestu í heiminum) og að reka sérhæft sjúkrahús í Jerúsalem.

Þau sem tilheyra lútherskum kirkjudeildum eru nú flest utan Evrópu. Það er mikil breyting frá því sem áður var. Fjölmennasta lútherska kirkjan er Mekane Yesuskirkjan í Eþíópíu með rúmar tíu milljónir safnaðarmeðlima.

Lútherskar kirkjur í Evrópu hafa verið á undanhaldi og þá sérstaklega í Þýskalandi, landi siðbótarinnar. Hið sama á við um systurkirkjur þeirra á Norðurlöndum þó fækkunin sé hægari þar en í Þýskalandi. Fjöldi þjóðkirkjumeðlima á Íslandi er kominn niður í 58,61%.

Margar afrískar kirkjur eru á mikilli siglingu og beita ýmsum aðferðum við að afla safnaðarmeðlima. Bættur efnahagur í sumum Afríkulöndum styrkir stöðu þeirra til muna. Lútherska kirkjan í Tansaníu er nú fjölmennari (8,3 milljónir meðlima) en kirkjurnar í Danmörku og Noregi til samans. Raddir heyrðust á nýloknu heimsþingi Lútherska heimssambandsins (LWF) að nú væri komið að öðrum kirkjum en þeim evrópsku að axla meiri fjárhagslega ábyrgð á rekstrinum. Rekstur heimssambandsins er umsvifamikill og kostar sitt en aðildakirkjur greiða meðal annars árgjald til þess.

Tónlist og söngur er hið alþjóðlega tungumál – frá þingi Lútherska heimssambandsins. Krossinn til hægri er gerður úr þráðum sem þátttakendur í heimsþinginu lögðu í hann á hverjum degi

Svipmót lútherskra kirkna í Evrópu og Afríku er ekki hið sama þó runnar séu af sömu rót. Trúboð er sterkt innan kirknanna í Afríku og þær eiga margar leiðtoga sem heilla fólk með framkomu sinni og heitri einlægri trú – eru karismatískir leiðtogar, eins og sagt er. Guðfræði evrópsku kirknanna er háskólagrein sem kirkjurnar standa svo fyrir á vissan hátt meðan Afríkukirkjurnar beita trú sinni og háskólaguðfræði í önnum dagsins þar sem við er að etja alnæmi, spillingu, óréttlæti og árekstra milli ólíkra þjóðarbrota, ætta og ættflokka. Bókstafstrú er líka aldrei langt undan og getur truflað umræðu um jafnréttismál og réttindi kynjanna. Karlarnir sitja flestir í kirkjulegum stjórnunarstöðum og störfum enda þótt nóg sé framboð af frambærilegum konum til að gegna þeim. Hefðbundin íhaldssöm fjölskyldugildi standa djúpum rótum í Afríku og því fylgir að ábyrgð konunnar er mikil gagnvart heimilinu meðan karlarnir hafa lausari taum. Þannig er feðraveldinu fleytt áfram í fjölskyldum, kirkju og samfélagi.

Sumar lútherskar kirkjur í Afríku eru mjög íhaldssamar og neita að vígja konur til prestsstarfa. Hið sama á við nokkrar þeirra í Evrópu. Alls eru þetta 20% lútherskra kirkna sem neita konum um vígslu. Þá hafa nokkrar þeirra sem voru farnar að vígja konur dregið að sér höndina í þeim efnum. Lútherska heimssambandið hefur jafnrétti í heiðri og þess vegna er háttalag þessara kirkna því þyrnir í augum.

Danskur biskup, Henrik Stubkjær, var kosinn nýr forseti Lútherska heimssambandsins. Hann mun leggja áherslu á loftslagsmál og jafnrétti. Á þinginu var þung undiralda fyrir því að kjósa ætti konu sem forseta Lútherska heimssambandsins. Það væri kominn tími til. Vel hefði tekist til með val framkvæmdastjórans, hinnar eistnesku dr. Önnu Burghardt. Fjöldi kvenna gæti gegnt starfi forseta sambandsins með sóma. En það gekk ekki eftir. Sagt var að þar hefði verið valin samstaða í stað kyns. Glerþakið var að minnsta kosti ekki rofið í þetta sinn.

Sex manna sendinefnd frá þjóðkirkjunni sótti þingið, undir forystu biskups Íslands, sr. Agnesar M. Sigurðardóttur.

Dr. Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor, tekur nú sæti í stjórn Lútherska heimssambandsins í stað sr. Þuríðar Bjargar Wiium Árnadóttur.

Þjóðkirkjan greiddi á síðasta ári til Lútherska heimssambandsins 2.180.000 kr.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Þingi Lútherska heimssambandsins er nýlokið í Kraká í Póllandi.

Þjóðkirkjan gekk í Lútherska heimssambandið við stofnun þess í Lundi í Svíþjóð 3. júlí 1947.

Heimssambandið hefur þrjú markmið: skapa samvinnu milli kirkna sem standa á sama trúfræðilega grunni; reka víðtæka hjálparstarfsemi (hún er með þeim umsvifamestu í heiminum) og að reka sérhæft sjúkrahús í Jerúsalem.

Þau sem tilheyra lútherskum kirkjudeildum eru nú flest utan Evrópu. Það er mikil breyting frá því sem áður var. Fjölmennasta lútherska kirkjan er Mekane Yesuskirkjan í Eþíópíu með rúmar tíu milljónir safnaðarmeðlima.

Lútherskar kirkjur í Evrópu hafa verið á undanhaldi og þá sérstaklega í Þýskalandi, landi siðbótarinnar. Hið sama á við um systurkirkjur þeirra á Norðurlöndum þó fækkunin sé hægari þar en í Þýskalandi. Fjöldi þjóðkirkjumeðlima á Íslandi er kominn niður í 58,61%.

Margar afrískar kirkjur eru á mikilli siglingu og beita ýmsum aðferðum við að afla safnaðarmeðlima. Bættur efnahagur í sumum Afríkulöndum styrkir stöðu þeirra til muna. Lútherska kirkjan í Tansaníu er nú fjölmennari (8,3 milljónir meðlima) en kirkjurnar í Danmörku og Noregi til samans. Raddir heyrðust á nýloknu heimsþingi Lútherska heimssambandsins (LWF) að nú væri komið að öðrum kirkjum en þeim evrópsku að axla meiri fjárhagslega ábyrgð á rekstrinum. Rekstur heimssambandsins er umsvifamikill og kostar sitt en aðildakirkjur greiða meðal annars árgjald til þess.

Tónlist og söngur er hið alþjóðlega tungumál – frá þingi Lútherska heimssambandsins. Krossinn til hægri er gerður úr þráðum sem þátttakendur í heimsþinginu lögðu í hann á hverjum degi

Svipmót lútherskra kirkna í Evrópu og Afríku er ekki hið sama þó runnar séu af sömu rót. Trúboð er sterkt innan kirknanna í Afríku og þær eiga margar leiðtoga sem heilla fólk með framkomu sinni og heitri einlægri trú – eru karismatískir leiðtogar, eins og sagt er. Guðfræði evrópsku kirknanna er háskólagrein sem kirkjurnar standa svo fyrir á vissan hátt meðan Afríkukirkjurnar beita trú sinni og háskólaguðfræði í önnum dagsins þar sem við er að etja alnæmi, spillingu, óréttlæti og árekstra milli ólíkra þjóðarbrota, ætta og ættflokka. Bókstafstrú er líka aldrei langt undan og getur truflað umræðu um jafnréttismál og réttindi kynjanna. Karlarnir sitja flestir í kirkjulegum stjórnunarstöðum og störfum enda þótt nóg sé framboð af frambærilegum konum til að gegna þeim. Hefðbundin íhaldssöm fjölskyldugildi standa djúpum rótum í Afríku og því fylgir að ábyrgð konunnar er mikil gagnvart heimilinu meðan karlarnir hafa lausari taum. Þannig er feðraveldinu fleytt áfram í fjölskyldum, kirkju og samfélagi.

Sumar lútherskar kirkjur í Afríku eru mjög íhaldssamar og neita að vígja konur til prestsstarfa. Hið sama á við nokkrar þeirra í Evrópu. Alls eru þetta 20% lútherskra kirkna sem neita konum um vígslu. Þá hafa nokkrar þeirra sem voru farnar að vígja konur dregið að sér höndina í þeim efnum. Lútherska heimssambandið hefur jafnrétti í heiðri og þess vegna er háttalag þessara kirkna því þyrnir í augum.

Danskur biskup, Henrik Stubkjær, var kosinn nýr forseti Lútherska heimssambandsins. Hann mun leggja áherslu á loftslagsmál og jafnrétti. Á þinginu var þung undiralda fyrir því að kjósa ætti konu sem forseta Lútherska heimssambandsins. Það væri kominn tími til. Vel hefði tekist til með val framkvæmdastjórans, hinnar eistnesku dr. Önnu Burghardt. Fjöldi kvenna gæti gegnt starfi forseta sambandsins með sóma. En það gekk ekki eftir. Sagt var að þar hefði verið valin samstaða í stað kyns. Glerþakið var að minnsta kosti ekki rofið í þetta sinn.

Sex manna sendinefnd frá þjóðkirkjunni sótti þingið, undir forystu biskups Íslands, sr. Agnesar M. Sigurðardóttur.

Dr. Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor, tekur nú sæti í stjórn Lútherska heimssambandsins í stað sr. Þuríðar Bjargar Wiium Árnadóttur.

Þjóðkirkjan greiddi á síðasta ári til Lútherska heimssambandsins 2.180.000 kr.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir