Bíó-Paradís ber í raun nafn með rentu. Kvikmyndirnar sem þar eru sýndar vísa áhorfendum inn í annan heim sem þó er þegar vel er að gáð mjög svo skyldur þeim heimi sem við lifum í.

Kirkjublaðið.is brá sér í bíó í gær og fyrir valinu varð Perfect Days. 

Leikstjóri myndarinnar er þýskur, Wim Wenders (f. 1945) og er fremstur meðal þýskra jafningja í kvikmyndagerð. Auk þess er hann leikskáld. Hann var beðinn um að gera heimildamynd um arkitektúr japanskra almenningssalerna í Tókýó en mörg þeirra eru mikil listaverk og kemur mörgum á óvart að kallaðir séu til snjallir arkitektar og frægir til að teikna náðhús borgarinnar. Eitt salernanna lítur út eins og snotur sveitakofi, annað eins og geimskip og enn annað úr gagnsæju gleri og er svo búið að þegar lokað er að sér verður glerið ógagnsætt. Leikstjórinn fékk hins vegar aðra hugmynd og sú var að gera mynd um líf þeirra sem halda salernunum hreinum.

Myndin beinir sjónum sínum að hversdeginum í lífi manns sem hefur þann starfa að þrífa almenningssalerni borgarinnar. Hann lifir mjög svo taktföstu lífi og því eru gerð góð skil í myndinni enda ákveðinn lykill að henni. Hreingerningarmaðurinn Hirayama er leikinn af japanska stórleikaranum Kōji Yakusho og gerir hann það með glæsibrag.

Hver dagur í lífi salernisþrifilsins Hirayama er öðrum líkur. Hann vaknar glaður til dagsins í fábreyttum húsakynnum sínum. Klippir skegg sitt og rakar. Vökvar af mikilli alúð plöntur sínar sem hann ræktar. Klæðir sig í vinnugallann og í útidyrunum dregur hann andann djúpt og lítur til himins. Gengur síðan að sjálfsala fyrir utan húsið og fær sér goskaffi.

Þegar hann sest inn í bílinn í morgunskímunni velur hann tónlist til að hlusta á. Hún er spiluð af gömlum kassettum eða hljóðsnældum eins og málvöndunarfólk kallaði þess háttar segulbandsþráð í litlu plasthylki. Þetta eru lög frá sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar og laglisti hans er athyglisverður. Lögin eru aldrei leikin til enda en þau eru meðal annars House of the Rising Sun með The Animals, Sunny Afternoon með The Kinks, Redondo Beach með Patti Smith, og Perfect Day með Lou Reed.

Tónlistin leikur stórt hlutverk í myndinni og er þýðingarmikill hluti af myndrænni frásögn; talar á vissan hátt fyrir hinn fámála salernishreingerningarmann.

Hirayama ekur svo hamingjusamur á svip út í daginn á litla hreingerningabílnum merktum: The Tokyo Toilet en vinnugalli hans er líka merktur svo

Síðan hefst vinnan. Hirayama er mjög svo vandvirkur í öllum störfum sínum svo af ber. Nákvæmur, velvirkur og hraðvirkur. Í matarhléinu sest hann á bekk úti í garði og fær sér brauðsneið. Hann tekur myndir á gamla ljósmyndavél. Horfir til himins gegnum kórónu eins trésins sem síðar kemur í ljós að hann lítur á sem vin sinn. Tré eru honum hugfólgin og hann bjargar lítilli trjáplöntu og fer með hana heim til sín og setur í pott. Auga hans eltir hið smáa og fagra sem hversdagurinn býður upp á. Eftir vinnu borðar hann á ákveðnum veitingastað og fer að því búnu heim til sín. Hann les sig í svefn, höfunda á borð við William Faulkner, Patricia Highsmith og Aya Kōda. Gleðin og ánægja eru hans lífsfylling.

Það mætti halda að Hirayama væri einmana maður en svo er reyndar ekki. Hann er að mestu leyti sjálfum sér nægur. Samstarfsmaður hans er ekki upp á marga fiska og staldrar ekki lengi við. Hefðbundinn taktur hversdagsleikans er rofinn nokkrum sinnum. Niko, systurdóttir hans, leikin af Arisa Nakano, bankar upp á hjá honum eftir að hafa lent í útistöðum við móður sína. Hirayama flytur sig úr svefnstað sínum og í geymsluna meðan hún gistir hjá honum. Þau ná vel saman og hún er forvitin um líf hans. Móðir hennar sækir hana og segir Hirayama í leiðinni að elliglöp föður þeirra hafi ágerst svo að hann þekki  hana ekki lengur og spyr hvort Hirayma ætli sér að heimsækja hann en svar hans er nei. Tilfinningarót truflar hann líka því í ljós kemur að ber vináttuhug til konu einnar. Vonbrigði verða ekki dulin en þau sigra hann ekki. Hversdagssaga hans sækir svo hægt og bítandi í sama farið og hinn dásamlegi taktur hversdagsins tekur við. Myndinni lýkur á því að hann ekur á nýjum morgni mót sólarupprás og lagið Feeling Good er sungið af Nínu Simone.

Allar manneskjur lifa í hversdeginum og það líf er harla ólíkt. En hversu ólíkt sem það er annars þá má alltaf finna þræði sem eru sameiginlegir. Þræði sem koma aftur og aftur. Þetta þekkja allir. Og stundum skjótast inn þræðir sem ekki tilheyra hversdeginum og sumir þeirra geta raskað ró hins hversdagslega og rofið taktinn. Það má líta á myndina sem lofsöng til hversdagsins og yfir hann er varpað ljóma og jafnvel helgi. Hirayama er glaður maður og sáttur og jafnvel þótt öllum þyki ekki mikið til starfa hans koma. Kannski veit hann betur en aðrir að salernisþrif eru störf sem þarf að sinna og svo hefur ætíð verið. Kamarsmokarar fyrri tíðar voru ekki hátt skrifaðir eins og alkunnugt er. Það er þess vegna umhugsunarvert að sjá hversu fallegar salernisbyggingarnar eru og ljóst að arkitektúrinn lyftir þeim upp í borgarsamfélaginu. Fegrar og upphefur þá náttúru mannsins að ganga örna sinna. Eitthvað sem manneskjan þarf ekki að skammast sín fyrir og ætti að sýna þeim virðingu í orði og verki sem sjá um að halda hægðarskrínum heimsins hreinum.

Hirayama er fámáll maður. Hann lætur þó frá sér fara athyglisverða setningu sem flytur býsna mikinn sannleika: Heimurinn er gerður úr mörgum heimum. Hann sér þessa heima og gerir ekki upp á milli þeirra. Allt metur hann með sama hætti, virðingu og elskusemi.

Það má líta á Hirayma sem þjón í samfélaginu. Hann sinnir þeirri vinnu sem fáir sækjast eftir en er þó nauðsynleg. Starfið er lítilmótlegt í augum flestra og fólk lætur sem það sjái hann ekki og finnst nærvera hans óþægileg. En hann sýnir starfi sínu virðingu og er þakklátur fyrir hvern dag sem honum er gefinn. Lifir í andrá líðandi stundar, núna er núna. Hann er auðmjúkur maður, hreykir sér ekki upp, veitir öðrum hjálp sem eru í þrengingum og mætti því teljast sannkristinn maður án þess að vita af því.

Myndskeið úr Perfect Days.

Myndin hlaut verðlaun kvikmyndagerðarmanna og Kôji Yakusho var valinn besti leikarinn á Cannes kvikmyndahátíðinni 2023.

Myndin var tilnefnd til Óskarsverðlaunanna sem besta erlenda myndin 2024.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Bíó-Paradís ber í raun nafn með rentu. Kvikmyndirnar sem þar eru sýndar vísa áhorfendum inn í annan heim sem þó er þegar vel er að gáð mjög svo skyldur þeim heimi sem við lifum í.

Kirkjublaðið.is brá sér í bíó í gær og fyrir valinu varð Perfect Days. 

Leikstjóri myndarinnar er þýskur, Wim Wenders (f. 1945) og er fremstur meðal þýskra jafningja í kvikmyndagerð. Auk þess er hann leikskáld. Hann var beðinn um að gera heimildamynd um arkitektúr japanskra almenningssalerna í Tókýó en mörg þeirra eru mikil listaverk og kemur mörgum á óvart að kallaðir séu til snjallir arkitektar og frægir til að teikna náðhús borgarinnar. Eitt salernanna lítur út eins og snotur sveitakofi, annað eins og geimskip og enn annað úr gagnsæju gleri og er svo búið að þegar lokað er að sér verður glerið ógagnsætt. Leikstjórinn fékk hins vegar aðra hugmynd og sú var að gera mynd um líf þeirra sem halda salernunum hreinum.

Myndin beinir sjónum sínum að hversdeginum í lífi manns sem hefur þann starfa að þrífa almenningssalerni borgarinnar. Hann lifir mjög svo taktföstu lífi og því eru gerð góð skil í myndinni enda ákveðinn lykill að henni. Hreingerningarmaðurinn Hirayama er leikinn af japanska stórleikaranum Kōji Yakusho og gerir hann það með glæsibrag.

Hver dagur í lífi salernisþrifilsins Hirayama er öðrum líkur. Hann vaknar glaður til dagsins í fábreyttum húsakynnum sínum. Klippir skegg sitt og rakar. Vökvar af mikilli alúð plöntur sínar sem hann ræktar. Klæðir sig í vinnugallann og í útidyrunum dregur hann andann djúpt og lítur til himins. Gengur síðan að sjálfsala fyrir utan húsið og fær sér goskaffi.

Þegar hann sest inn í bílinn í morgunskímunni velur hann tónlist til að hlusta á. Hún er spiluð af gömlum kassettum eða hljóðsnældum eins og málvöndunarfólk kallaði þess háttar segulbandsþráð í litlu plasthylki. Þetta eru lög frá sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar og laglisti hans er athyglisverður. Lögin eru aldrei leikin til enda en þau eru meðal annars House of the Rising Sun með The Animals, Sunny Afternoon með The Kinks, Redondo Beach með Patti Smith, og Perfect Day með Lou Reed.

Tónlistin leikur stórt hlutverk í myndinni og er þýðingarmikill hluti af myndrænni frásögn; talar á vissan hátt fyrir hinn fámála salernishreingerningarmann.

Hirayama ekur svo hamingjusamur á svip út í daginn á litla hreingerningabílnum merktum: The Tokyo Toilet en vinnugalli hans er líka merktur svo

Síðan hefst vinnan. Hirayama er mjög svo vandvirkur í öllum störfum sínum svo af ber. Nákvæmur, velvirkur og hraðvirkur. Í matarhléinu sest hann á bekk úti í garði og fær sér brauðsneið. Hann tekur myndir á gamla ljósmyndavél. Horfir til himins gegnum kórónu eins trésins sem síðar kemur í ljós að hann lítur á sem vin sinn. Tré eru honum hugfólgin og hann bjargar lítilli trjáplöntu og fer með hana heim til sín og setur í pott. Auga hans eltir hið smáa og fagra sem hversdagurinn býður upp á. Eftir vinnu borðar hann á ákveðnum veitingastað og fer að því búnu heim til sín. Hann les sig í svefn, höfunda á borð við William Faulkner, Patricia Highsmith og Aya Kōda. Gleðin og ánægja eru hans lífsfylling.

Það mætti halda að Hirayama væri einmana maður en svo er reyndar ekki. Hann er að mestu leyti sjálfum sér nægur. Samstarfsmaður hans er ekki upp á marga fiska og staldrar ekki lengi við. Hefðbundinn taktur hversdagsleikans er rofinn nokkrum sinnum. Niko, systurdóttir hans, leikin af Arisa Nakano, bankar upp á hjá honum eftir að hafa lent í útistöðum við móður sína. Hirayama flytur sig úr svefnstað sínum og í geymsluna meðan hún gistir hjá honum. Þau ná vel saman og hún er forvitin um líf hans. Móðir hennar sækir hana og segir Hirayama í leiðinni að elliglöp föður þeirra hafi ágerst svo að hann þekki  hana ekki lengur og spyr hvort Hirayma ætli sér að heimsækja hann en svar hans er nei. Tilfinningarót truflar hann líka því í ljós kemur að ber vináttuhug til konu einnar. Vonbrigði verða ekki dulin en þau sigra hann ekki. Hversdagssaga hans sækir svo hægt og bítandi í sama farið og hinn dásamlegi taktur hversdagsins tekur við. Myndinni lýkur á því að hann ekur á nýjum morgni mót sólarupprás og lagið Feeling Good er sungið af Nínu Simone.

Allar manneskjur lifa í hversdeginum og það líf er harla ólíkt. En hversu ólíkt sem það er annars þá má alltaf finna þræði sem eru sameiginlegir. Þræði sem koma aftur og aftur. Þetta þekkja allir. Og stundum skjótast inn þræðir sem ekki tilheyra hversdeginum og sumir þeirra geta raskað ró hins hversdagslega og rofið taktinn. Það má líta á myndina sem lofsöng til hversdagsins og yfir hann er varpað ljóma og jafnvel helgi. Hirayama er glaður maður og sáttur og jafnvel þótt öllum þyki ekki mikið til starfa hans koma. Kannski veit hann betur en aðrir að salernisþrif eru störf sem þarf að sinna og svo hefur ætíð verið. Kamarsmokarar fyrri tíðar voru ekki hátt skrifaðir eins og alkunnugt er. Það er þess vegna umhugsunarvert að sjá hversu fallegar salernisbyggingarnar eru og ljóst að arkitektúrinn lyftir þeim upp í borgarsamfélaginu. Fegrar og upphefur þá náttúru mannsins að ganga örna sinna. Eitthvað sem manneskjan þarf ekki að skammast sín fyrir og ætti að sýna þeim virðingu í orði og verki sem sjá um að halda hægðarskrínum heimsins hreinum.

Hirayama er fámáll maður. Hann lætur þó frá sér fara athyglisverða setningu sem flytur býsna mikinn sannleika: Heimurinn er gerður úr mörgum heimum. Hann sér þessa heima og gerir ekki upp á milli þeirra. Allt metur hann með sama hætti, virðingu og elskusemi.

Það má líta á Hirayma sem þjón í samfélaginu. Hann sinnir þeirri vinnu sem fáir sækjast eftir en er þó nauðsynleg. Starfið er lítilmótlegt í augum flestra og fólk lætur sem það sjái hann ekki og finnst nærvera hans óþægileg. En hann sýnir starfi sínu virðingu og er þakklátur fyrir hvern dag sem honum er gefinn. Lifir í andrá líðandi stundar, núna er núna. Hann er auðmjúkur maður, hreykir sér ekki upp, veitir öðrum hjálp sem eru í þrengingum og mætti því teljast sannkristinn maður án þess að vita af því.

Myndskeið úr Perfect Days.

Myndin hlaut verðlaun kvikmyndagerðarmanna og Kôji Yakusho var valinn besti leikarinn á Cannes kvikmyndahátíðinni 2023.

Myndin var tilnefnd til Óskarsverðlaunanna sem besta erlenda myndin 2024.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir