Öllum er innrætt það frá blautu barnsbeini að ekki sé fagurt né siðferðilega rétt að hefna sín. Þó hafa sennilega allir fundið fyrir löngun til að hefna sína á einhverjum fyrir eitthvað sem viðkomandi gerði á hluta hans eða hennar. Þetta er mannleg tilfinning sem er neikvæð vegna þess að hún meiðir aðrar manneskjur. Hefnigirni er missterk hjá fólki eins og aðrar tilfinningar. Sumum nægir að hugsa eingöngu um hefnd en sem betur fer kemst hún aldrei í verk. En þegar einhver hyggur á hefndir í verki þá er hætta á ferð.

Hefnd ber iðulega á góma í fréttum um þær stríðshörmungar sem nú geisa í Úkraínu og Mið-Austurlöndum. Þær þjóðir sem eiga þar í átökum telja sig vera í fullum rétti til að hefna fyrir árásir andstæðinganna. Hefndin er gjarnan keðjuverkandi og á henni enginn endir. Stríðsátök eru líka fólgin í því að gjalda líku líkt og helst meira.

Fórnarlömb stríðandi fylkinga eru ekki aðeins hermenn heldur og almennir borgarar. Myndir af fólki sem heldur á látnum eða særðum börnum sínum birtast fyrir augum okkar og sýna djöfulskap átakanna. Í augum fólksins má lesa hryggð heimsins og hefndarhugur er vakinn í brjósti þess. „Þið sem drápuð barnið mitt skulu gjalda fyrir það.“ Er það ekki réttlát hefnd?

Í hefndinni sjáum við fyrir okkur þann sem gerði okkur miska fá makleg málagjöld. Í huga þess sem fullur er hefndarlöngunar er hefndin einhvers konar einka-réttlæti sem hann eða hún vill að náist. Hefndin veldur þjáningu eða tjóni. Sá sem hefnir fær vissa útrás þegar hann sér eða finnur að hefndin hefur náð fram að ganga. Hefndin kallar fram vellíðan og viðkomandi finnst sem réttlætið hafi sigrað. Réttlæti hans eða hennar. Vellíðan yfir þjáningum annarra og miska getur meira að segja varað lengi – jafnvel hægt að hugsa til hefndarinnar síðar á ævinni og fá vissa hugsvölun. Þessi tilfinning getur verið hvort tveggja bundin við einstaklinga og þjóðir.

Sá sem hefnir tekur sér ákveðið vald í hendur og hefndin er dómurinn sem hann fellir. Eitt er nokkuð víst að sá dómur er ekki hlutlaus og þaðan af síður kveðinn upp af réttsýni og frekar ólíklegt að hefndin sé í einhverju réttu hlutfalli við þann miska sem henni er ætlað að gjalda fyrir. Öll vitum við að enginn er dómari í sjálfs sín sök einfaldlega vegna þess að sá dómur er hlutdrægur og þar með óréttlátur. Hin hliðin á dóminum er svo tilfinningalegs eðlis og hana ber einnig að virða.

Það sem knýr hefndina oft áfram er ískaldur hugur eða tilfinningalegt uppnám þar sem ekki einasta er kveðinn upp dómur heldur honum líka hrint í framkvæmd. Sá sem hefndin bitnar á veit ekki alltaf hvaðan miskinn sem hún veldur er upprunninn. En hefndin er ekki aðeins oft myrkvaverk heldur er hún líka goldin fyrir opnum tjöldum og hefnandinn lýsir verkinu á hendur sér stoltur á svip.

Hefnd kallar á hefnd. Þannig getur orðið til vítahringur hefnda eins og við þekkjum til dæmis úr Íslendingasögum – Njáli á Bergþórshvoli var boðin útganga úr brennunni en þáði ekki vegna þess að hann taldi sig ekki geta hefnt sona sinna fyrir elli sakir og vildi ekki „lifa við skömm.“ (129. kafli).

Til er kínverskt orðatiltæki sem segir að sá sem hyggur á hefndir skuli ætíð taka tvær grafir – aðra fyrir þann sem á að hefna sín á og hina fyrir hann sjálfan. Hefnd af þessu tagi á sér því engan endi og elur af sér hvert fólskuverkið á fætur öðru sem magnast eftir því sem vítahringurinn verður stærri. Þegar hefndin er komin á þetta stig fer hún í síauknum mæli að bitna á þeim sem saklausir eru og hafa þeir því ekki minnstu hugmynd um hvað hratt hefndarógninni af stað.

Í hversdagslegu lífi okkar koma oft upp atvik sem við erum ósátt við. Við teljum kannski að einhver hafi sýnt okkur yfirgang eða vanvirðu í orði eða verki. Sem betur fer eru daglegir árekstrar manna í milli leystir oftast á farsælan hátt enda við mótuð allt frá fyrstu tíð af því sjónarhorni að siðferðilega þroskað fólk og skynsamt leysi hversdagsleg deilumál sín með sómasamlegum hætti og án þess að grípa til hefndarráðstafana. Við reynum að átta okkur á aðstæðum sem leiða til árekstra, skilja hvernig mál þróast og hvar er farið út af spori. Samtal er góð leið til að leysa úr samskiptahnútum sem og fyrirgefning hafi eitthvað verið gert eða sagt sem kveikti ósætti.

Það er þyngra en tárum tekur að horfa upp á stríðshörmungarnar í Úkraínu og Mið-Austurlöndum. Þar rekur hver hefndin aðra. Líf fólks er til fárra fiska metið og og viðurstyggð eyðileggingarinnar blasir við. Stundum vaknar sú spurning í huganum hvort þetta sé martröð mannkynsins. Hvers vegna er ekki hægt að stöðva dráp og eyðileggingu? Getur verið að mannkynið sé ekki komið lengra?

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Öllum er innrætt það frá blautu barnsbeini að ekki sé fagurt né siðferðilega rétt að hefna sín. Þó hafa sennilega allir fundið fyrir löngun til að hefna sína á einhverjum fyrir eitthvað sem viðkomandi gerði á hluta hans eða hennar. Þetta er mannleg tilfinning sem er neikvæð vegna þess að hún meiðir aðrar manneskjur. Hefnigirni er missterk hjá fólki eins og aðrar tilfinningar. Sumum nægir að hugsa eingöngu um hefnd en sem betur fer kemst hún aldrei í verk. En þegar einhver hyggur á hefndir í verki þá er hætta á ferð.

Hefnd ber iðulega á góma í fréttum um þær stríðshörmungar sem nú geisa í Úkraínu og Mið-Austurlöndum. Þær þjóðir sem eiga þar í átökum telja sig vera í fullum rétti til að hefna fyrir árásir andstæðinganna. Hefndin er gjarnan keðjuverkandi og á henni enginn endir. Stríðsátök eru líka fólgin í því að gjalda líku líkt og helst meira.

Fórnarlömb stríðandi fylkinga eru ekki aðeins hermenn heldur og almennir borgarar. Myndir af fólki sem heldur á látnum eða særðum börnum sínum birtast fyrir augum okkar og sýna djöfulskap átakanna. Í augum fólksins má lesa hryggð heimsins og hefndarhugur er vakinn í brjósti þess. „Þið sem drápuð barnið mitt skulu gjalda fyrir það.“ Er það ekki réttlát hefnd?

Í hefndinni sjáum við fyrir okkur þann sem gerði okkur miska fá makleg málagjöld. Í huga þess sem fullur er hefndarlöngunar er hefndin einhvers konar einka-réttlæti sem hann eða hún vill að náist. Hefndin veldur þjáningu eða tjóni. Sá sem hefnir fær vissa útrás þegar hann sér eða finnur að hefndin hefur náð fram að ganga. Hefndin kallar fram vellíðan og viðkomandi finnst sem réttlætið hafi sigrað. Réttlæti hans eða hennar. Vellíðan yfir þjáningum annarra og miska getur meira að segja varað lengi – jafnvel hægt að hugsa til hefndarinnar síðar á ævinni og fá vissa hugsvölun. Þessi tilfinning getur verið hvort tveggja bundin við einstaklinga og þjóðir.

Sá sem hefnir tekur sér ákveðið vald í hendur og hefndin er dómurinn sem hann fellir. Eitt er nokkuð víst að sá dómur er ekki hlutlaus og þaðan af síður kveðinn upp af réttsýni og frekar ólíklegt að hefndin sé í einhverju réttu hlutfalli við þann miska sem henni er ætlað að gjalda fyrir. Öll vitum við að enginn er dómari í sjálfs sín sök einfaldlega vegna þess að sá dómur er hlutdrægur og þar með óréttlátur. Hin hliðin á dóminum er svo tilfinningalegs eðlis og hana ber einnig að virða.

Það sem knýr hefndina oft áfram er ískaldur hugur eða tilfinningalegt uppnám þar sem ekki einasta er kveðinn upp dómur heldur honum líka hrint í framkvæmd. Sá sem hefndin bitnar á veit ekki alltaf hvaðan miskinn sem hún veldur er upprunninn. En hefndin er ekki aðeins oft myrkvaverk heldur er hún líka goldin fyrir opnum tjöldum og hefnandinn lýsir verkinu á hendur sér stoltur á svip.

Hefnd kallar á hefnd. Þannig getur orðið til vítahringur hefnda eins og við þekkjum til dæmis úr Íslendingasögum – Njáli á Bergþórshvoli var boðin útganga úr brennunni en þáði ekki vegna þess að hann taldi sig ekki geta hefnt sona sinna fyrir elli sakir og vildi ekki „lifa við skömm.“ (129. kafli).

Til er kínverskt orðatiltæki sem segir að sá sem hyggur á hefndir skuli ætíð taka tvær grafir – aðra fyrir þann sem á að hefna sín á og hina fyrir hann sjálfan. Hefnd af þessu tagi á sér því engan endi og elur af sér hvert fólskuverkið á fætur öðru sem magnast eftir því sem vítahringurinn verður stærri. Þegar hefndin er komin á þetta stig fer hún í síauknum mæli að bitna á þeim sem saklausir eru og hafa þeir því ekki minnstu hugmynd um hvað hratt hefndarógninni af stað.

Í hversdagslegu lífi okkar koma oft upp atvik sem við erum ósátt við. Við teljum kannski að einhver hafi sýnt okkur yfirgang eða vanvirðu í orði eða verki. Sem betur fer eru daglegir árekstrar manna í milli leystir oftast á farsælan hátt enda við mótuð allt frá fyrstu tíð af því sjónarhorni að siðferðilega þroskað fólk og skynsamt leysi hversdagsleg deilumál sín með sómasamlegum hætti og án þess að grípa til hefndarráðstafana. Við reynum að átta okkur á aðstæðum sem leiða til árekstra, skilja hvernig mál þróast og hvar er farið út af spori. Samtal er góð leið til að leysa úr samskiptahnútum sem og fyrirgefning hafi eitthvað verið gert eða sagt sem kveikti ósætti.

Það er þyngra en tárum tekur að horfa upp á stríðshörmungarnar í Úkraínu og Mið-Austurlöndum. Þar rekur hver hefndin aðra. Líf fólks er til fárra fiska metið og og viðurstyggð eyðileggingarinnar blasir við. Stundum vaknar sú spurning í huganum hvort þetta sé martröð mannkynsins. Hvers vegna er ekki hægt að stöðva dráp og eyðileggingu? Getur verið að mannkynið sé ekki komið lengra?

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir