Prédikun orðsins er megineinkenni lútherskrar kirkju og eitt aðalhlutverk prestsins samkvæmt vígsluheiti hans. Á hverjum sunnudegi má hlýða á prédikanir presta vítt og breitt um landið. Prédikunin er undirbúin af kostgæfni og sums staðar eru prédikunarklúbbar þar sem prestarnir koma saman og ræða texta næsta dags. Í samvinnu brjóta þeir hann til mergjar í þeirri von að prédikunin verði skýr og áhrifarík.

Nú fyrir jólin mátti sjá á annað hundrað messuauglýsingar í Morgunblaðinu á Þorláksmessu. Ekki auglýsa allar kirkjur í blöðum eins og gefur að skilja. Gera má ráð fyrir að um jólin hafi farið fram hátt í þrjú hundruð guðsþjónustur á öllu landinu. Líklegt má telja að í þeim öllum hafi verið flutt prédikun eða hugleiðing. Guðsþjónustuhald er reyndar ekki eins umfangsmikið á gamlársdag og nýársdag eins og á jólunum sjálfum. Áramótahelgihald er þó að sjálfsögðu haft um hönd víðast hvar.

Gera má ráð fyrir að nær tvö hundruð guðfræðimenntaðir starfsmenn þjóðkirkjunnar, vígðir þjónar, karlar og konur, prédiki í kirkjum landsins um jól og áramót. Til sjávar og sveita. Í borg og bæjum.

Kirkjublaðið.is hugðist skoða nokkrar jóla- og áramótaprédikanir presta og sjá hvaða leiðir þeir hefðu farið í prédikunum sínum til að koma fagnaðarerindinu til skila. Hvernig nálgun þeirra hafi verið, áherslur og helstu boðunarþættir. Prédikunaraðferð, flutningur o.s.frv. Það er gamalkunnug spurning sem hefur verið lögð býsna oft fyrir kirkjugesti: Hvernig mæltist klerki?

Langflestar kirkjur hafa heimasíður og Feisbókarsíður. Þetta eru málgögn viðkomandi kirkna og upplýsingaveitur. Þær þurfa að vera lifandi og í sífelldri endurnýjun til þess að fólki fari inn á þær eins og sagt er.

Nú brá svo við að Kirkjublaðið.is greip svo að segja í tómt þegar farið var að skyggnast eftir jóla- og áramótaprédikunum á heimasíðum kirkna. Á langflestum þeirra er hvergi gefið rými fyrir þær. Það er í raun merkilegt vegna þess að það er ákaflega auðvelt. Af hverju er þetta svo? Eru prestarnir/djáknarnir hættir að flytja skrifaðar prédikanir og farnir að tala beint upp úr sér – eða eftir minnispunktum? Kannski einhverjir en ekki allir. Enda er það býsna erfið leið að tala beint til safnaðarins og aðeins fyrir presta og djákna sem hafa þann hæfileika. Sumar kirknanna sem höfðu rými á heimasíðu sinni fyrir prédikanir hafði láðst að uppfæra þær. Þar var aðeins gamalt efni á ferð.

Eflaust er ekkert eitt svar við þessu. En gaman væri að heyra hvað þessu veldur. Er fólk hrætt við að birting prédikunar á heimasíðu kirkjunnar dragi úr messusókn? Eða eru prestar feimnir við að birta prédikanir sínar jafnharðan? Segir teljari síðunnar um það að þær séu lítið lesnar? Þannig má spyrja.

Á heimasíðu þjóðkirkjunnar, kirkjan.is, er að finna dálkinn Hugvekjur. Það er farvegur fyrir presta og djákna til að koma hugleiðingum og prédikunum á framfæri. Þar hafa þeir eigið val um að birta prédikanir sínar sem þeir telja að eigi erindi til fleiri en þeirra sem sátu á kirkjubekk þegar hún var flutt. Prédikanir sem þeir eru jafnvel afar ánægðir með, telja vera vel lukkaðar. Skemmst er frá því að segja að mikill meirihluti kennilýðsins nýtir augljóslega ekki þennan dálk og fleytir þar ekki prédikunum sínum áfram. Nokkrir vaskir prestar halda honum uppi svo sómi er af. Engu að síður vaknar spurningin: Af hverju leggja ekki fleiri lóð á þessar vogarskál? Kirkjan.is er flaggskip þjóðkirkjunnar í miðlun með nútímalegum hætti.

Á þetta er bent einfaldlega vegna þess að heimasíður og Feisbókarsíður geta verið öflug og heppileg leið til fólks.

En það er líka hægt að leiða hugann að þessu:

Getur verið að þetta sé merki um kreppu prédikunarinnar? Eru prédikararnir smeykir við að þeir séu að endurtaka sig? Eða hafa þeir það kannski á tilfinningunni að lítið sé hlustað? Að þeir tali ofar höfðum fólks? Það sé ekki áhugi á þessum þætti helgihaldsins? Þeir hafi jafnvel lítið að segja og finnist þeir vera andlausir? Þá eiga þeir að lesa skáldskap og guðfræði. Gefst þeim kannski ekki tími til að sinna prédikunarsamningu vegna anna á öðrum póstum starfsins? Síðustu áratugi hefur verið lagður gríðarlegur þungi á sálgæslu í kirkjustarfi og getur verið að það hafi bitnað á prédikuninni? Eða finnst prestum og djáknum dýrmætum tíma betur varið í annað en að undirbúa sig vel fyrir prédikun vegna þess að svo fáir mæta til kirkju? Af hverju eru prédikanirnar ekki birtar svo að áhugasamir geti lesið þær? Og jafnvel líka þau sem komu í kirkju og hugsanlega dottuðu í einhverjum tilvikum undir prédikuninni? Prédikun hvers sunnudags er ekki hægt að bera saman til dæmis við útvarpsprédikanir þar sem fólk leggur sig fram af miklum metnaði við samningu og flutning hinnar síðarnefndu þar sem alþjóð gefst tækifæri til að hlusta. En hvað er verið að prédika hina sunnudagana þegar söfnuðurinn hefur ekki útvarpsmessuna á sinni könnu?

Kirkjublaðið.is nefnir þetta í ábendingarskyni á nýbyrjuðu ári. Nú getur hinn ágæti kennilýður íslenskrar þjóðkirkju tekið sér gott lútherskt tak og komið útleggingum sínum á fagnaðarerindinu til skila á heimasíðum kirknanna og á kirkjan.is. Og sagt frá því! Það væri rafræn húspostilla kirkjunnar.

Það er kannski fullt tilefni til að huga að stöðu prédikunarinnar í þjóðkirkjunni. Hefur staða hennar styrkst eða veikst? Leysir eitthvað annað hana af hólmi? Eru kannski komnar nýjar leiðir til að brúa hið fræga bil frá fornum trúartexta og yfir til nútímans? Ef gengi prédikunarinnar hefur fallið má spyrja hvort það sé veigalítill þáttur eða veigamikill í dalandi gengi þjóðkirkjunnar í íslensku þjóðlífi? Hér fyrrum voru kröftugir prédikarar hver með sínum hætti. Sr. Sigurbjörn Einarsson, biskup, var kraftmikill prédikari og dró marga að. Eins sr. Jón Auðuns. Sr. Sigurður Haukur Guðjónsson. Þá sr. Arngrímur Jónsson og sr. Árelíus Níelsson. Og sr. Þorbergur Kristjánsson. Hver með sína guðfræði en þjóðkunnir fyrir eldmóð og prédikunarkraft. Og fleiri mætti vissulega telja.

Það væri vissulega spennandi rannsóknarefni fyrir guðfræðikandídata og heppilegt doktorsverkefni að rannsaka prédikun vígðra þjóna þjóðkirkjunnar.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Prédikun orðsins er megineinkenni lútherskrar kirkju og eitt aðalhlutverk prestsins samkvæmt vígsluheiti hans. Á hverjum sunnudegi má hlýða á prédikanir presta vítt og breitt um landið. Prédikunin er undirbúin af kostgæfni og sums staðar eru prédikunarklúbbar þar sem prestarnir koma saman og ræða texta næsta dags. Í samvinnu brjóta þeir hann til mergjar í þeirri von að prédikunin verði skýr og áhrifarík.

Nú fyrir jólin mátti sjá á annað hundrað messuauglýsingar í Morgunblaðinu á Þorláksmessu. Ekki auglýsa allar kirkjur í blöðum eins og gefur að skilja. Gera má ráð fyrir að um jólin hafi farið fram hátt í þrjú hundruð guðsþjónustur á öllu landinu. Líklegt má telja að í þeim öllum hafi verið flutt prédikun eða hugleiðing. Guðsþjónustuhald er reyndar ekki eins umfangsmikið á gamlársdag og nýársdag eins og á jólunum sjálfum. Áramótahelgihald er þó að sjálfsögðu haft um hönd víðast hvar.

Gera má ráð fyrir að nær tvö hundruð guðfræðimenntaðir starfsmenn þjóðkirkjunnar, vígðir þjónar, karlar og konur, prédiki í kirkjum landsins um jól og áramót. Til sjávar og sveita. Í borg og bæjum.

Kirkjublaðið.is hugðist skoða nokkrar jóla- og áramótaprédikanir presta og sjá hvaða leiðir þeir hefðu farið í prédikunum sínum til að koma fagnaðarerindinu til skila. Hvernig nálgun þeirra hafi verið, áherslur og helstu boðunarþættir. Prédikunaraðferð, flutningur o.s.frv. Það er gamalkunnug spurning sem hefur verið lögð býsna oft fyrir kirkjugesti: Hvernig mæltist klerki?

Langflestar kirkjur hafa heimasíður og Feisbókarsíður. Þetta eru málgögn viðkomandi kirkna og upplýsingaveitur. Þær þurfa að vera lifandi og í sífelldri endurnýjun til þess að fólki fari inn á þær eins og sagt er.

Nú brá svo við að Kirkjublaðið.is greip svo að segja í tómt þegar farið var að skyggnast eftir jóla- og áramótaprédikunum á heimasíðum kirkna. Á langflestum þeirra er hvergi gefið rými fyrir þær. Það er í raun merkilegt vegna þess að það er ákaflega auðvelt. Af hverju er þetta svo? Eru prestarnir/djáknarnir hættir að flytja skrifaðar prédikanir og farnir að tala beint upp úr sér – eða eftir minnispunktum? Kannski einhverjir en ekki allir. Enda er það býsna erfið leið að tala beint til safnaðarins og aðeins fyrir presta og djákna sem hafa þann hæfileika. Sumar kirknanna sem höfðu rými á heimasíðu sinni fyrir prédikanir hafði láðst að uppfæra þær. Þar var aðeins gamalt efni á ferð.

Eflaust er ekkert eitt svar við þessu. En gaman væri að heyra hvað þessu veldur. Er fólk hrætt við að birting prédikunar á heimasíðu kirkjunnar dragi úr messusókn? Eða eru prestar feimnir við að birta prédikanir sínar jafnharðan? Segir teljari síðunnar um það að þær séu lítið lesnar? Þannig má spyrja.

Á heimasíðu þjóðkirkjunnar, kirkjan.is, er að finna dálkinn Hugvekjur. Það er farvegur fyrir presta og djákna til að koma hugleiðingum og prédikunum á framfæri. Þar hafa þeir eigið val um að birta prédikanir sínar sem þeir telja að eigi erindi til fleiri en þeirra sem sátu á kirkjubekk þegar hún var flutt. Prédikanir sem þeir eru jafnvel afar ánægðir með, telja vera vel lukkaðar. Skemmst er frá því að segja að mikill meirihluti kennilýðsins nýtir augljóslega ekki þennan dálk og fleytir þar ekki prédikunum sínum áfram. Nokkrir vaskir prestar halda honum uppi svo sómi er af. Engu að síður vaknar spurningin: Af hverju leggja ekki fleiri lóð á þessar vogarskál? Kirkjan.is er flaggskip þjóðkirkjunnar í miðlun með nútímalegum hætti.

Á þetta er bent einfaldlega vegna þess að heimasíður og Feisbókarsíður geta verið öflug og heppileg leið til fólks.

En það er líka hægt að leiða hugann að þessu:

Getur verið að þetta sé merki um kreppu prédikunarinnar? Eru prédikararnir smeykir við að þeir séu að endurtaka sig? Eða hafa þeir það kannski á tilfinningunni að lítið sé hlustað? Að þeir tali ofar höfðum fólks? Það sé ekki áhugi á þessum þætti helgihaldsins? Þeir hafi jafnvel lítið að segja og finnist þeir vera andlausir? Þá eiga þeir að lesa skáldskap og guðfræði. Gefst þeim kannski ekki tími til að sinna prédikunarsamningu vegna anna á öðrum póstum starfsins? Síðustu áratugi hefur verið lagður gríðarlegur þungi á sálgæslu í kirkjustarfi og getur verið að það hafi bitnað á prédikuninni? Eða finnst prestum og djáknum dýrmætum tíma betur varið í annað en að undirbúa sig vel fyrir prédikun vegna þess að svo fáir mæta til kirkju? Af hverju eru prédikanirnar ekki birtar svo að áhugasamir geti lesið þær? Og jafnvel líka þau sem komu í kirkju og hugsanlega dottuðu í einhverjum tilvikum undir prédikuninni? Prédikun hvers sunnudags er ekki hægt að bera saman til dæmis við útvarpsprédikanir þar sem fólk leggur sig fram af miklum metnaði við samningu og flutning hinnar síðarnefndu þar sem alþjóð gefst tækifæri til að hlusta. En hvað er verið að prédika hina sunnudagana þegar söfnuðurinn hefur ekki útvarpsmessuna á sinni könnu?

Kirkjublaðið.is nefnir þetta í ábendingarskyni á nýbyrjuðu ári. Nú getur hinn ágæti kennilýður íslenskrar þjóðkirkju tekið sér gott lútherskt tak og komið útleggingum sínum á fagnaðarerindinu til skila á heimasíðum kirknanna og á kirkjan.is. Og sagt frá því! Það væri rafræn húspostilla kirkjunnar.

Það er kannski fullt tilefni til að huga að stöðu prédikunarinnar í þjóðkirkjunni. Hefur staða hennar styrkst eða veikst? Leysir eitthvað annað hana af hólmi? Eru kannski komnar nýjar leiðir til að brúa hið fræga bil frá fornum trúartexta og yfir til nútímans? Ef gengi prédikunarinnar hefur fallið má spyrja hvort það sé veigalítill þáttur eða veigamikill í dalandi gengi þjóðkirkjunnar í íslensku þjóðlífi? Hér fyrrum voru kröftugir prédikarar hver með sínum hætti. Sr. Sigurbjörn Einarsson, biskup, var kraftmikill prédikari og dró marga að. Eins sr. Jón Auðuns. Sr. Sigurður Haukur Guðjónsson. Þá sr. Arngrímur Jónsson og sr. Árelíus Níelsson. Og sr. Þorbergur Kristjánsson. Hver með sína guðfræði en þjóðkunnir fyrir eldmóð og prédikunarkraft. Og fleiri mætti vissulega telja.

Það væri vissulega spennandi rannsóknarefni fyrir guðfræðikandídata og heppilegt doktorsverkefni að rannsaka prédikun vígðra þjóna þjóðkirkjunnar.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir