Athyglisverða bók rak á fjörur Kirkjublaðsins.is fyrir skömmu. Bók sem vekur upp ýmsar hugsanir um hvernig staðið er við stóru orðin um umhverfismál og alþjóðlegar yfirlýsingar sem fjöldi fólks hefur ferðast um víða veröld til að liggja yfir. Skrifar svo undir með bros á vör. Allt góð og göfug markmið í sjálfu sér sem margir reyna að standa við en aðrir tvístíga og hafa kannski lofað upp í ermina á sér.

Umhverfismál eru ekki aðeins mikilvæg á heimsvísu heldur og heima í hlaði hjá hverjum og einum.

Samfélög, stofnanir og einstaklingar eru veik fyrir svokölluðum meginstraumum sem taka fólk iðulega hressilega í fangið og enginn er maður með mönnum nema hann sigli hraðbyri í straumnum í augsýn sem flestra.

Allir vilja vera umhverfisvænir. Fyrirtæki og stofnanir koma sér upp umhverfisstefnu og láta vita af henni þegar tækifæri gefast. Færri sögum fer hins vegar um hvernig stefnurnar eru virtar og í hve miklum mæli þeim er í raun og veru hrundið í framkvæmd.

Þessi bók sem barst inn á borð Kirkjublaðsins.is heitir Götulist á tíma loftslagsvár (þ. Street art – in Zeiten der Klimakrise) – Midas Verlag gaf út í fyrra, 127 blaðsíður. Formálann skrifar götulistamaðurinn Xavier Tapies. Hann segir götulistamennina vera frjálsari en aðra listamenn því að þeir velji sjálfir myndfletina til að koma skilaboðum áleiðis í formi listaverka. Verk götulistamanna tilheyra borgarsamfélaginu. Stórir veggir í miðborgum freista listamannanna. Í sumum tilvikum fá listaverkin að vera óáreitt nokkuð lengi enda þá oftast gerð með tímabundnu leyfi borgaryfirvalda. Önnur verk eru hins vegar fljótlega fjarlægð. Markmið götulistamannanna er að verk þeirra komist í augsýn sem flestra til þess að skilaboðin sem þau flytja nái í gegn. Verkin eru vissulega flest umhverfispólitísk. Þau hvetja til umhugsunar – þau ydda boðskapinn til að vekja borgarbúann til umhugsunar og til andsvara.

Götulistamenn gagnrýna neysluhyggju samtímans, hæðast líka að henni og sýna fram á tvöfeldni einstaklinga og hópa í umhverfismálum. Síðast en ekki síst afhjúpa þau mörg grænþvott (e. greenwashing) í umhverfismálum. En grænþvottur er einfaldlega það að varpa ryki í augu fólks svo það haldi að viðkomandi sé óskaplega umhverfisvænn og mikill náttúruverndarsinni. Annað kemur í ljós þegar mál eru skoðuð nánar. Mörg dæmi eru um grænþvott í umhverfismálum. Einstaklingar og fyrirtæki hafa verið afhjúpuð fyrir að leika tveimur skjöldum í umhverfismálum hvort heldur vitandi eða óafvitandi.

Gamla sagan er sú að fegra sig til að hljóta umbun og aðdáun fyrir.

Þess vegna er mjög mikilvægt að þau sem gefa sig út fyrir að vinna eftir grænni hugmyndafræði geri það af heiðarleika og árvekni. Svo sannarlega hafa mörg fyrirtæki, margir skólar, kirkjur og stofnanir leitast við að framfylgja vandaðri umhverfisstefnu með það að markmiði að allir axli ábyrgð og taki virkan þátt í henni. Sé svo gert stenst allt skoðun.

Aftur að bókinni. Hún geymir myndir af fimmtíu götulistaverkum sem hefur mátt finna í ýmsum borgum heimsins. Öll verkin eiga það sammerkt að þau andæfa vinnslu jarðefnaeldsneytis. Þetta eru kröftug listaverk sem hafa áhrif í almannarými borgarsamfélagsins. Götulistaverk eru oft groddaleg og litrík enda eru þau nátengd veggjalist eða graffi (e. graffity). Sum verkanna geta verið óhugnanleg og táknmál þeirra firnasterkt. Götulistamenn sem vinna að umhverfislistaverkum eru knúnir áfram af listrænni þörf og væntumþykju fyrir umhverfinu og vita líka að sum verka þeirra standa stundum stutt við. Þess vegna leggja margir þeirra sig fram um að láta verkin flytja skerandi skilaboð sem hrista ærlega upp í fólki.

Ekki er hægt að segja að trúarlegur tónn sé í þeim verkum sem bókin kynnir. Þó eru tvær Maríumyndir sem flytja umhverfisboðskap. Aðrar leggja áherslu á viðkvæmni náttúrunnar, samhengi manns og náttúru og misnotkun mannsins á náttúrunni. Yfir sumum verkanna er dómsdagsandi – nú eða aldrei.

Hér eru myndir af nokkrum verkanna og er óhætt að segja að þau séu áhugaverð:

Stuðningur við lífið, eftir dr. Love. Í Bristol, Englandi

Ég trúi ekki á hlýnun jarðar, eftir Banksy. Í London, Englandi

Móðir jörð, eftir Elle. Í Almere, Hollandi

Horft á skóginn, eftir Jorge Rodriguez Gerafda. Í, Madríd, Spáni

Orkukreppan, eftir OSH (Otto Schade). Í Shoreditch, Í London, Englandi

Hlýnun jarðar, Sabotaje al Montaje, Í Toledo, Spáni

Hvernig dirfist þú? eftir RNST. Í París, Frakklandi

Ský, eftir Padure. Í Porto, Portúgal

Kjarni málsins, eftir Millo. Í Amman, Jórdaníu

Sorg á sumri, eftir TP. Í Léon á Spáni

Engin tónlist á dauðri plánetu, eftir Withington Walls. Í Manchester, Englandi.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Athyglisverða bók rak á fjörur Kirkjublaðsins.is fyrir skömmu. Bók sem vekur upp ýmsar hugsanir um hvernig staðið er við stóru orðin um umhverfismál og alþjóðlegar yfirlýsingar sem fjöldi fólks hefur ferðast um víða veröld til að liggja yfir. Skrifar svo undir með bros á vör. Allt góð og göfug markmið í sjálfu sér sem margir reyna að standa við en aðrir tvístíga og hafa kannski lofað upp í ermina á sér.

Umhverfismál eru ekki aðeins mikilvæg á heimsvísu heldur og heima í hlaði hjá hverjum og einum.

Samfélög, stofnanir og einstaklingar eru veik fyrir svokölluðum meginstraumum sem taka fólk iðulega hressilega í fangið og enginn er maður með mönnum nema hann sigli hraðbyri í straumnum í augsýn sem flestra.

Allir vilja vera umhverfisvænir. Fyrirtæki og stofnanir koma sér upp umhverfisstefnu og láta vita af henni þegar tækifæri gefast. Færri sögum fer hins vegar um hvernig stefnurnar eru virtar og í hve miklum mæli þeim er í raun og veru hrundið í framkvæmd.

Þessi bók sem barst inn á borð Kirkjublaðsins.is heitir Götulist á tíma loftslagsvár (þ. Street art – in Zeiten der Klimakrise) – Midas Verlag gaf út í fyrra, 127 blaðsíður. Formálann skrifar götulistamaðurinn Xavier Tapies. Hann segir götulistamennina vera frjálsari en aðra listamenn því að þeir velji sjálfir myndfletina til að koma skilaboðum áleiðis í formi listaverka. Verk götulistamanna tilheyra borgarsamfélaginu. Stórir veggir í miðborgum freista listamannanna. Í sumum tilvikum fá listaverkin að vera óáreitt nokkuð lengi enda þá oftast gerð með tímabundnu leyfi borgaryfirvalda. Önnur verk eru hins vegar fljótlega fjarlægð. Markmið götulistamannanna er að verk þeirra komist í augsýn sem flestra til þess að skilaboðin sem þau flytja nái í gegn. Verkin eru vissulega flest umhverfispólitísk. Þau hvetja til umhugsunar – þau ydda boðskapinn til að vekja borgarbúann til umhugsunar og til andsvara.

Götulistamenn gagnrýna neysluhyggju samtímans, hæðast líka að henni og sýna fram á tvöfeldni einstaklinga og hópa í umhverfismálum. Síðast en ekki síst afhjúpa þau mörg grænþvott (e. greenwashing) í umhverfismálum. En grænþvottur er einfaldlega það að varpa ryki í augu fólks svo það haldi að viðkomandi sé óskaplega umhverfisvænn og mikill náttúruverndarsinni. Annað kemur í ljós þegar mál eru skoðuð nánar. Mörg dæmi eru um grænþvott í umhverfismálum. Einstaklingar og fyrirtæki hafa verið afhjúpuð fyrir að leika tveimur skjöldum í umhverfismálum hvort heldur vitandi eða óafvitandi.

Gamla sagan er sú að fegra sig til að hljóta umbun og aðdáun fyrir.

Þess vegna er mjög mikilvægt að þau sem gefa sig út fyrir að vinna eftir grænni hugmyndafræði geri það af heiðarleika og árvekni. Svo sannarlega hafa mörg fyrirtæki, margir skólar, kirkjur og stofnanir leitast við að framfylgja vandaðri umhverfisstefnu með það að markmiði að allir axli ábyrgð og taki virkan þátt í henni. Sé svo gert stenst allt skoðun.

Aftur að bókinni. Hún geymir myndir af fimmtíu götulistaverkum sem hefur mátt finna í ýmsum borgum heimsins. Öll verkin eiga það sammerkt að þau andæfa vinnslu jarðefnaeldsneytis. Þetta eru kröftug listaverk sem hafa áhrif í almannarými borgarsamfélagsins. Götulistaverk eru oft groddaleg og litrík enda eru þau nátengd veggjalist eða graffi (e. graffity). Sum verkanna geta verið óhugnanleg og táknmál þeirra firnasterkt. Götulistamenn sem vinna að umhverfislistaverkum eru knúnir áfram af listrænni þörf og væntumþykju fyrir umhverfinu og vita líka að sum verka þeirra standa stundum stutt við. Þess vegna leggja margir þeirra sig fram um að láta verkin flytja skerandi skilaboð sem hrista ærlega upp í fólki.

Ekki er hægt að segja að trúarlegur tónn sé í þeim verkum sem bókin kynnir. Þó eru tvær Maríumyndir sem flytja umhverfisboðskap. Aðrar leggja áherslu á viðkvæmni náttúrunnar, samhengi manns og náttúru og misnotkun mannsins á náttúrunni. Yfir sumum verkanna er dómsdagsandi – nú eða aldrei.

Hér eru myndir af nokkrum verkanna og er óhætt að segja að þau séu áhugaverð:

Stuðningur við lífið, eftir dr. Love. Í Bristol, Englandi

Ég trúi ekki á hlýnun jarðar, eftir Banksy. Í London, Englandi

Móðir jörð, eftir Elle. Í Almere, Hollandi

Horft á skóginn, eftir Jorge Rodriguez Gerafda. Í, Madríd, Spáni

Orkukreppan, eftir OSH (Otto Schade). Í Shoreditch, Í London, Englandi

Hlýnun jarðar, Sabotaje al Montaje, Í Toledo, Spáni

Hvernig dirfist þú? eftir RNST. Í París, Frakklandi

Ský, eftir Padure. Í Porto, Portúgal

Kjarni málsins, eftir Millo. Í Amman, Jórdaníu

Sorg á sumri, eftir TP. Í Léon á Spáni

Engin tónlist á dauðri plánetu, eftir Withington Walls. Í Manchester, Englandi.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir