Það er ekki langt síðan að Kirkjublaðið.is sá eftirprentun af Sjöunda degi í Paradís eftir Guðmund Thorsteinsson, Mugg, til sölu í Góða hirðinum. Hún lá ekki í myndastöflunum innan um myndir misfærra áhugamálara; staflarnir halla að veggnum og fólk rótar í þeim, dregur sumar upp, skellir aftur ofan í stæðuna. Nei, mynd Muggs var gert hærra undir höfði, hún hékk á veggnum, þó fremur skökk. Ramminn var gullinn en ögn rispaður og á honum grænn miði sem á stóð kr. 550 en starfsmaður sagði að eitt núll vantaði, ætti að vera kr. 5.500. Um stund skaut þeirri hugsun upp hvort ekki ætti að kaupa myndina en ekki var slegið til heldur smellt mynd af henni. Ritstjóri Kirkjublaðsins.is hafði alist upp við þessa mynd en hún var á vegg hjá frænku hans í æsku. Frænkan talaði stundum um þessa mynd, eða öllu heldur höfund hennar, hvað hann hefði verið merkilegur maður og dáið ungur. Leikið í Sögu Borgarættarinnar. Fallegur maður, sagði hún. Hún sagði að þetta væri klippt mynd en drengurinn áttaði sig ekki almennilega á því.  Þetta var eftirprentun. Ein af hinum mörgu eftirprentunum sem Ragnar í Smára lét gera og var verk Muggs gefið út í lok sjötta áratugar síðustu aldar.

Þessi var til í Góða hirðinum – kr. 5.500

Myndir draga til sín mismikla athygli. Það er engin speki. Sjöundi dagur í Paradís er ein þeirra. Myndin er samklipp og túss á pappír. Þrjár guðdómlegar persónur sjást í verkinu, tveir englar og Drottinn allsherjar. Fremstur gengur skaparinn og englarnir í humátt. Þeir horfa yfir vatn á gróður og fugla. Hvorki virðist vera dagur eða nótt. Þetta er sjöundi dagurinn og merkilegur fyrir þær sakir að þá lauk Guð verki sínu og hvíldist. Blessaði daginn og helgaði.[1]

Eftirprentanir á listaverkum er liður í því að koma listinni til fólksins. Frumgerðir listaverka eru flestar í eigu safna, stofnana og einstaklinga. Eftirprentun er talin síðri en frumgerð. Ástæður fyrir því eru margar. Sú augljósa er að það er aðeins til ein frumgerð, eitt eintak, sem listamaðurinn vann að. Þar má sjá handbragð hans sem eitt sinn fór um léreftið, marmarann eða útskurðinn – klippiverkið – eða hvaða efni sem hann kann að hafa notað í listsköpun sinni. Önnur augljós ástæða er verðmyndun listaverka, handbragð listamanna, sem taldir eru misgóðir og miseftirsóttir, og verð ræðst af framboði og eftirspurn. Tengsl eru milli verðs og einstakra listaverka – að minnsta kosti í langflestum tilvikum.

En tækni nútímans við fjölföldun og endurgerð listaverka er mögnuð. Hversu snilldarleg sem hún kann að vera nær hún aldrei að búa til hið upphaflega listaverk – þó skal ekki fullyrt um of ef að framfarir verða svo í prenttækni – sem þegar eru orðnar með því að prenta „hluti“, að misþykk pensilför sjáist í þrívídd svo dæmi sé tekið. Tíminn leiðir það í ljós. En sem sé hið upprunalega verk stendur hvað sem tækniframförum líður þá kemur ekkert í stað þess. Hvað veldur?

Það er áran. Svo sagði menningarfrömuðurinn Walter Benjamin.[2] Yfir frumverkinu er ára, eitthvað sem tæknin nær ekki tökum á. Í raun má skilja Walter svo að áran sé með einhverjum hætti yfirnáttúrulegt fyrirbæri sem fylgi frumverki. Nánast eins og fylgja úr þjóðsögum. Frumverkið er hér og nú, eins og hann segir, einstök tilvist á tilteknum stað. Um leið og fjöldaframleiðsla á verki hefst „kemur eintakafjöldi í stað einstæðrar tilvistar.“ En hún er ekki neikvæð í sjálfu sér því að sá sem á eftirprentun nýtur verksins og frumgerðin fær aukið gildi.

Þegar ritstjóri Kirkjublaðsins.is fór á sýningu á verkum Muggs í Listasafni Íslands var hann nokkuð spenntur fyrir því hvort hann myndi finna fyrir áru þeirri er Walter Benjamins talar um. Hann velti því fyrir sér hvernig hann ætti að nálgast verkið. Hvort hann ætti að flana beint að því eða láta það birtast skyndilega – hann vissi svo sem ekki hvar það væri í sýningarsalnum sem er reyndar ekki stór. Eða horfa á það úr fjarska og ganga virðulega að því með rósemdarsvip og láta það birtast – opinberast, hvorki meira né minna!

Salurinn var í nokkrum hólfum og fyrsta sem bar við augu er sýningarborð með ýmsum ljósmyndum og munum úr eigu Muggs.

Síðan var gengið inn og augum skotrað eftir veggjum yfir myndir sem þar voru. Gengið að þeim og þær skoðaðar. En viti menn. Þegar gesturinn snýr sér við frá einum veggnum kemur Sjöundi dagurinn í Paradís nánast í fangið á honum og veldur dálitlu listrænu uppnámi eins og hann hafi opnað einhverjar forboðnar dyr. Það fyrsta sem flaug um huga hans var kannski fremur ólistræn hugsun, nefnilega sú að myndin væri miklu stærri en eftirprentunin sem frænka hans átti á sínum tíma og sú sem hafði verið til sölu í Góða hirðinum. Hann var þó ekki viss. Myndin í Listasafninu var á hvítu kartoni en mynd frænkunnar eins og myndin í Góða hirðinum var stífrömmuð, horn í horn. Þessi tilfinning truflaði hann dálítið í leit að árunni frægu. Stærðarhugsunin reyndist hins vegar ekki vera rétt því að eftirprentun Sjöunda dagsins var í sömu stærð og frummyndin – hann gekk úr skugga um það þegar heim var komið.[3]

En áran? Horft var ákveðið á verkið frá ýmsum hliðum, og fjarlægð. Ekki laust við að gestinum fyndist eftirprentunin vera ögn mattari en frumgerðin. Þó var hann ekki viss því að frumgerðin var í spegilfríu gleri eins og það heitir víst og virtist gefa skarpari sýn á verkið. Þegar komið var nálægt verkinu, alveg upp að því, mátti sjá hvað var klippt og límt, hvað var tússað og teiknað. Og ýmis konar pappír hefur verið notaður. Á einum stað undir glerinu hafði lím gefið sig og eitt horn lyfst upp. En að öllu virtu eins og segir í dómum þá mátti sjá handbragð listamannsins, sjá brúnir þess sem klippt var og límt, raðað saman og litað.

Englarnir tveir í fylgd skaparans – fínlegar línur, klipp, teikning og túss


Hér sést klippimyndin vel, brúnir og upplyft horn – og tússið 

Þessa stund sem staðið var við verkið og framansagðar hugsanir og athuganir fóru um hugann má kannski nefna stund árunnar. Hið einstaka við verkið, að vera við hlið listaverksins, horfa beint á það gaumgæfilega, upplifa það. Virða persónurnar í myndinni fyrir sér í nálægð eins og á grófkornóttri ljósmynd og ganga í fjarlægð frá því og sjá verkið raða sér í listaverk. Anda því að sér. Þetta var frumgerðin, listaverkið, ósvikið sem skapandi hendur Muggs höfðu farið um. Einvíddar eftirprentun stóð því ekki á sporði. Alls ekki. Þetta var verkið og áran kraumaði yfir því á meðan naprir vetrarvindar börðu húsakynni Listasafnsins að utan. Það var mjúkt logn yfir Sjöunda degi í Paradís. Eða þannig.

Heimsóknin í Listasafn Íslands var mjög eftirminnileg vegna þessara vangaveltna og þess tækifæris að sjá þetta einstaka verk sem drengurinn sá fyrir margt löngu hjá frænku sinni og gleymdi aldrei. Í raun var þetta og ákveðin listræn tilraun hvað leit að árunni snertir. Í gamni og alvöru.

Sýningu Muggs lýkur 13. febrúar n.k.

Tilvísanir:

[1] Biblían 2007, (11. íslenska útgáfan), 1. Mósebók 2.2-3.

[2] Benjamin, Walter: Fagurfræði og miðlun, úrval greina og bókakafla, aðalþýðandi Benedikt Hjartarson, Listaverkið á tímum fjöldaframleiðslu sinnar, Árni Óskarsson og Örnólfur Thorsson, þýddu, R. 2008,  bls. 549-579.

[3] Karólína Ósk Þórsdóttir, Eftirprentanir Ragnars í Smára, aðdragandi, tilurð, tilgangur, BA-ritgerð, maí 2015, bls. 20.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Það er ekki langt síðan að Kirkjublaðið.is sá eftirprentun af Sjöunda degi í Paradís eftir Guðmund Thorsteinsson, Mugg, til sölu í Góða hirðinum. Hún lá ekki í myndastöflunum innan um myndir misfærra áhugamálara; staflarnir halla að veggnum og fólk rótar í þeim, dregur sumar upp, skellir aftur ofan í stæðuna. Nei, mynd Muggs var gert hærra undir höfði, hún hékk á veggnum, þó fremur skökk. Ramminn var gullinn en ögn rispaður og á honum grænn miði sem á stóð kr. 550 en starfsmaður sagði að eitt núll vantaði, ætti að vera kr. 5.500. Um stund skaut þeirri hugsun upp hvort ekki ætti að kaupa myndina en ekki var slegið til heldur smellt mynd af henni. Ritstjóri Kirkjublaðsins.is hafði alist upp við þessa mynd en hún var á vegg hjá frænku hans í æsku. Frænkan talaði stundum um þessa mynd, eða öllu heldur höfund hennar, hvað hann hefði verið merkilegur maður og dáið ungur. Leikið í Sögu Borgarættarinnar. Fallegur maður, sagði hún. Hún sagði að þetta væri klippt mynd en drengurinn áttaði sig ekki almennilega á því.  Þetta var eftirprentun. Ein af hinum mörgu eftirprentunum sem Ragnar í Smára lét gera og var verk Muggs gefið út í lok sjötta áratugar síðustu aldar.

Þessi var til í Góða hirðinum – kr. 5.500

Myndir draga til sín mismikla athygli. Það er engin speki. Sjöundi dagur í Paradís er ein þeirra. Myndin er samklipp og túss á pappír. Þrjár guðdómlegar persónur sjást í verkinu, tveir englar og Drottinn allsherjar. Fremstur gengur skaparinn og englarnir í humátt. Þeir horfa yfir vatn á gróður og fugla. Hvorki virðist vera dagur eða nótt. Þetta er sjöundi dagurinn og merkilegur fyrir þær sakir að þá lauk Guð verki sínu og hvíldist. Blessaði daginn og helgaði.[1]

Eftirprentanir á listaverkum er liður í því að koma listinni til fólksins. Frumgerðir listaverka eru flestar í eigu safna, stofnana og einstaklinga. Eftirprentun er talin síðri en frumgerð. Ástæður fyrir því eru margar. Sú augljósa er að það er aðeins til ein frumgerð, eitt eintak, sem listamaðurinn vann að. Þar má sjá handbragð hans sem eitt sinn fór um léreftið, marmarann eða útskurðinn – klippiverkið – eða hvaða efni sem hann kann að hafa notað í listsköpun sinni. Önnur augljós ástæða er verðmyndun listaverka, handbragð listamanna, sem taldir eru misgóðir og miseftirsóttir, og verð ræðst af framboði og eftirspurn. Tengsl eru milli verðs og einstakra listaverka – að minnsta kosti í langflestum tilvikum.

En tækni nútímans við fjölföldun og endurgerð listaverka er mögnuð. Hversu snilldarleg sem hún kann að vera nær hún aldrei að búa til hið upphaflega listaverk – þó skal ekki fullyrt um of ef að framfarir verða svo í prenttækni – sem þegar eru orðnar með því að prenta „hluti“, að misþykk pensilför sjáist í þrívídd svo dæmi sé tekið. Tíminn leiðir það í ljós. En sem sé hið upprunalega verk stendur hvað sem tækniframförum líður þá kemur ekkert í stað þess. Hvað veldur?

Það er áran. Svo sagði menningarfrömuðurinn Walter Benjamin.[2] Yfir frumverkinu er ára, eitthvað sem tæknin nær ekki tökum á. Í raun má skilja Walter svo að áran sé með einhverjum hætti yfirnáttúrulegt fyrirbæri sem fylgi frumverki. Nánast eins og fylgja úr þjóðsögum. Frumverkið er hér og nú, eins og hann segir, einstök tilvist á tilteknum stað. Um leið og fjöldaframleiðsla á verki hefst „kemur eintakafjöldi í stað einstæðrar tilvistar.“ En hún er ekki neikvæð í sjálfu sér því að sá sem á eftirprentun nýtur verksins og frumgerðin fær aukið gildi.

Þegar ritstjóri Kirkjublaðsins.is fór á sýningu á verkum Muggs í Listasafni Íslands var hann nokkuð spenntur fyrir því hvort hann myndi finna fyrir áru þeirri er Walter Benjamins talar um. Hann velti því fyrir sér hvernig hann ætti að nálgast verkið. Hvort hann ætti að flana beint að því eða láta það birtast skyndilega – hann vissi svo sem ekki hvar það væri í sýningarsalnum sem er reyndar ekki stór. Eða horfa á það úr fjarska og ganga virðulega að því með rósemdarsvip og láta það birtast – opinberast, hvorki meira né minna!

Salurinn var í nokkrum hólfum og fyrsta sem bar við augu er sýningarborð með ýmsum ljósmyndum og munum úr eigu Muggs.

Síðan var gengið inn og augum skotrað eftir veggjum yfir myndir sem þar voru. Gengið að þeim og þær skoðaðar. En viti menn. Þegar gesturinn snýr sér við frá einum veggnum kemur Sjöundi dagurinn í Paradís nánast í fangið á honum og veldur dálitlu listrænu uppnámi eins og hann hafi opnað einhverjar forboðnar dyr. Það fyrsta sem flaug um huga hans var kannski fremur ólistræn hugsun, nefnilega sú að myndin væri miklu stærri en eftirprentunin sem frænka hans átti á sínum tíma og sú sem hafði verið til sölu í Góða hirðinum. Hann var þó ekki viss. Myndin í Listasafninu var á hvítu kartoni en mynd frænkunnar eins og myndin í Góða hirðinum var stífrömmuð, horn í horn. Þessi tilfinning truflaði hann dálítið í leit að árunni frægu. Stærðarhugsunin reyndist hins vegar ekki vera rétt því að eftirprentun Sjöunda dagsins var í sömu stærð og frummyndin – hann gekk úr skugga um það þegar heim var komið.[3]

En áran? Horft var ákveðið á verkið frá ýmsum hliðum, og fjarlægð. Ekki laust við að gestinum fyndist eftirprentunin vera ögn mattari en frumgerðin. Þó var hann ekki viss því að frumgerðin var í spegilfríu gleri eins og það heitir víst og virtist gefa skarpari sýn á verkið. Þegar komið var nálægt verkinu, alveg upp að því, mátti sjá hvað var klippt og límt, hvað var tússað og teiknað. Og ýmis konar pappír hefur verið notaður. Á einum stað undir glerinu hafði lím gefið sig og eitt horn lyfst upp. En að öllu virtu eins og segir í dómum þá mátti sjá handbragð listamannsins, sjá brúnir þess sem klippt var og límt, raðað saman og litað.

Englarnir tveir í fylgd skaparans – fínlegar línur, klipp, teikning og túss


Hér sést klippimyndin vel, brúnir og upplyft horn – og tússið 

Þessa stund sem staðið var við verkið og framansagðar hugsanir og athuganir fóru um hugann má kannski nefna stund árunnar. Hið einstaka við verkið, að vera við hlið listaverksins, horfa beint á það gaumgæfilega, upplifa það. Virða persónurnar í myndinni fyrir sér í nálægð eins og á grófkornóttri ljósmynd og ganga í fjarlægð frá því og sjá verkið raða sér í listaverk. Anda því að sér. Þetta var frumgerðin, listaverkið, ósvikið sem skapandi hendur Muggs höfðu farið um. Einvíddar eftirprentun stóð því ekki á sporði. Alls ekki. Þetta var verkið og áran kraumaði yfir því á meðan naprir vetrarvindar börðu húsakynni Listasafnsins að utan. Það var mjúkt logn yfir Sjöunda degi í Paradís. Eða þannig.

Heimsóknin í Listasafn Íslands var mjög eftirminnileg vegna þessara vangaveltna og þess tækifæris að sjá þetta einstaka verk sem drengurinn sá fyrir margt löngu hjá frænku sinni og gleymdi aldrei. Í raun var þetta og ákveðin listræn tilraun hvað leit að árunni snertir. Í gamni og alvöru.

Sýningu Muggs lýkur 13. febrúar n.k.

Tilvísanir:

[1] Biblían 2007, (11. íslenska útgáfan), 1. Mósebók 2.2-3.

[2] Benjamin, Walter: Fagurfræði og miðlun, úrval greina og bókakafla, aðalþýðandi Benedikt Hjartarson, Listaverkið á tímum fjöldaframleiðslu sinnar, Árni Óskarsson og Örnólfur Thorsson, þýddu, R. 2008,  bls. 549-579.

[3] Karólína Ósk Þórsdóttir, Eftirprentanir Ragnars í Smára, aðdragandi, tilurð, tilgangur, BA-ritgerð, maí 2015, bls. 20.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir