Á morgun lýkur seinni umferð kosningar til biskups Íslands. Klukkan tólf á hádegi verður rafrænum kjörstað lokað.

Kirkjublaðið.is hefur fylgst með frambjóðendum úr fjarska. Ekki verður annað sagt en að frammistaða þeirra hafi verið þeim sjálfum til mikils sóma og sömuleiðis þjóðkirkjunni. Bæði eru þau búin góðum kostum til að gegna starfi biskups. Í ljós kemur á morgun hvort þeirra verður valið.

Margt hefur komið ánægjulega á óvart í kosningaferlinu og þá er með talin fyrri umferð. Lífleg og jákvæð umræða um þjóðkirkjuna, hlutverk hennar og framtíðarsýn. Mannauður kirkjunnar er mikill þar sem á annað hundrað vígðir þjónar, prestar og djáknar, eru annars vegar að störfum sem og kirkjufólk í sjálfboðastörfum og launuðum. Sá drjúgi hópur þjóðkirkjufólks sem er virkur í kirkjunni með ýmsu móti hefur einnig látið sjónarmið sín í ljós í tengslum við biskupskosningarnar. Augljóst er að væntingar eru miklar meðal allra og að nú verði slegið hressilega í klárinn. Átak verði gert í því að ná sambandi við þjóðina.

Gaman var að sjá hve margir héldu út á ritvöllinn í tilefni biskupskosninga. Sjálf hafa biskupsefnin sent frá sér vandaðar og læsilegar greinar um viðhorf sín til þjóðkirkjunnar, hlutverks hennar og biskups. Kirkjufólk hefur skrifað greinar um biskupsefnið sem fellur þeim best að skapi eða látið fara frá sér almennar hugleiðingar um kirkju og starf hennar. Þetta hafa verið ljómandi góðar greinar og innihaldsríkar sem komið hafa ýmsum kirkjulegum sjónarmiðum á framfæri í nútímanum. Sýnt að fólki er ekki sama um þjóðkirkjuna.

Þessi greinaskrif hafa verið mjög svo ánægjuleg. Nú er það svo að almennt hefur skrifuðum greinum starfsfólks kirkjunnar fækkað mjög. Í raun og veru telst það nánast viðburður ef grein um kirkjuleg málefni eftir kirkjufólk birtist á opinberum vettvangi. Kirkjuritið sem gefið var út frá árinu 1935 liggur í dvala, kannski er búið að leggja það niður. Kirkjublaðið.is er hins vegar opinn vettvangur fyrir kirkjuumræðu og er allt kirkjufólk hvatt til að nota hann. Þess vegna er tækifærið notað nú og fólk hvatt til að leggja ekki frá sér pennann eða ýta frá sér lyklaborðinu heldur halda áfram sínum góðu skrifum.

Vissulega eru margir starfsmenn þjóðkirkjunnar nokkuð virkir á samfélagsmiðlum. Það er gott. Þar koma þeir auðvitað fyrst og fremst á framfæri hversdagslegum athugasemdum sínum um lífið og tilveruna og líka um hin stærri mál.

Þjóðkirkjan þarf að vera sýnileg í samfélagi hversdagsins og má ekki loka sig af inni í kirkjuhúsunum. Hversdagurinn er í raun og veru hátíð allra með fullri virðingu fyrir hátíðis- og tyllidögum.

Það sem brennur á fólki eru að sjálfsögðu málefni líðandi stundar og andleg mál og eftir þeim síðarnefndu verður sérstaklega að hlusta. Af nægu er að taka til að ræða og skrifa um. Stundum koma tilefnin í gusum og svo hljóðnar af einhverjum ástæðum umræða innan þjóðkirkjunnar og í samfélaginu, til dæmis má nefna útlendingamálin í þessu sambandi. Það er kannski eðlilegt að kirkjufólk sé gripið hverju sinni af þeim upphrópsbylgjum sem einkenna íslenskt samfélag að nokkru leyti.

Með skrifum sínum býr kirkjufólk til lifandi samtalsvettvang utan kirkju sem innan um málefni trúar, kirkju, menningar og samfélags. Þessi samtalsvettvangur er aldrei eins mikilvægur og í samfélagi sem er mótað af sterkri veraldarhyggju eins og okkar.

En aftur að kjörseðlinum sem fylgir þessum orðum. Hann er fyrir útvalda og það er auðvitað ljóður á skipulagi innan þjóðkirkjunnar að kosning til biskups Íslands skuli ekki vera í höndum allra þeirra sem eru átján ára og eldri og skráðir eru í þjóðkirkjuna. Biskup er ekki biskup prestanna heldur þjóðkirkjunnar.

Það er tregða til að hleypa lýðræðinu að innan þjóðkirkjunnar og því þarf að breyta. Auðvitað hefur það verið rætt á vettvangi kirkjunnar að breyta þurfi skipulaginu en hugrekki hefur skort til að stíga skrefið til fullnustu. Það hefur svo sem lengi loðað við þjóðkirkjuna að hún sé prestakirkja þó að dregið hafi sem betur fer úr prestadýrkun og kirkjusnobbi sem var áberandi fyrr á árum. Presturinn er ekki stjarna heldur þjónn safnaðarins og verkstjóri í sínu prestakalli. Þjóðkirkja verður aldrei þjóðkirkja nema hún komi til fólksins í landinu og sé með því á jafnréttisgrundvelli. Fólkið er kirkjan.

Nú er bara að bretta upp ermar.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Á morgun lýkur seinni umferð kosningar til biskups Íslands. Klukkan tólf á hádegi verður rafrænum kjörstað lokað.

Kirkjublaðið.is hefur fylgst með frambjóðendum úr fjarska. Ekki verður annað sagt en að frammistaða þeirra hafi verið þeim sjálfum til mikils sóma og sömuleiðis þjóðkirkjunni. Bæði eru þau búin góðum kostum til að gegna starfi biskups. Í ljós kemur á morgun hvort þeirra verður valið.

Margt hefur komið ánægjulega á óvart í kosningaferlinu og þá er með talin fyrri umferð. Lífleg og jákvæð umræða um þjóðkirkjuna, hlutverk hennar og framtíðarsýn. Mannauður kirkjunnar er mikill þar sem á annað hundrað vígðir þjónar, prestar og djáknar, eru annars vegar að störfum sem og kirkjufólk í sjálfboðastörfum og launuðum. Sá drjúgi hópur þjóðkirkjufólks sem er virkur í kirkjunni með ýmsu móti hefur einnig látið sjónarmið sín í ljós í tengslum við biskupskosningarnar. Augljóst er að væntingar eru miklar meðal allra og að nú verði slegið hressilega í klárinn. Átak verði gert í því að ná sambandi við þjóðina.

Gaman var að sjá hve margir héldu út á ritvöllinn í tilefni biskupskosninga. Sjálf hafa biskupsefnin sent frá sér vandaðar og læsilegar greinar um viðhorf sín til þjóðkirkjunnar, hlutverks hennar og biskups. Kirkjufólk hefur skrifað greinar um biskupsefnið sem fellur þeim best að skapi eða látið fara frá sér almennar hugleiðingar um kirkju og starf hennar. Þetta hafa verið ljómandi góðar greinar og innihaldsríkar sem komið hafa ýmsum kirkjulegum sjónarmiðum á framfæri í nútímanum. Sýnt að fólki er ekki sama um þjóðkirkjuna.

Þessi greinaskrif hafa verið mjög svo ánægjuleg. Nú er það svo að almennt hefur skrifuðum greinum starfsfólks kirkjunnar fækkað mjög. Í raun og veru telst það nánast viðburður ef grein um kirkjuleg málefni eftir kirkjufólk birtist á opinberum vettvangi. Kirkjuritið sem gefið var út frá árinu 1935 liggur í dvala, kannski er búið að leggja það niður. Kirkjublaðið.is er hins vegar opinn vettvangur fyrir kirkjuumræðu og er allt kirkjufólk hvatt til að nota hann. Þess vegna er tækifærið notað nú og fólk hvatt til að leggja ekki frá sér pennann eða ýta frá sér lyklaborðinu heldur halda áfram sínum góðu skrifum.

Vissulega eru margir starfsmenn þjóðkirkjunnar nokkuð virkir á samfélagsmiðlum. Það er gott. Þar koma þeir auðvitað fyrst og fremst á framfæri hversdagslegum athugasemdum sínum um lífið og tilveruna og líka um hin stærri mál.

Þjóðkirkjan þarf að vera sýnileg í samfélagi hversdagsins og má ekki loka sig af inni í kirkjuhúsunum. Hversdagurinn er í raun og veru hátíð allra með fullri virðingu fyrir hátíðis- og tyllidögum.

Það sem brennur á fólki eru að sjálfsögðu málefni líðandi stundar og andleg mál og eftir þeim síðarnefndu verður sérstaklega að hlusta. Af nægu er að taka til að ræða og skrifa um. Stundum koma tilefnin í gusum og svo hljóðnar af einhverjum ástæðum umræða innan þjóðkirkjunnar og í samfélaginu, til dæmis má nefna útlendingamálin í þessu sambandi. Það er kannski eðlilegt að kirkjufólk sé gripið hverju sinni af þeim upphrópsbylgjum sem einkenna íslenskt samfélag að nokkru leyti.

Með skrifum sínum býr kirkjufólk til lifandi samtalsvettvang utan kirkju sem innan um málefni trúar, kirkju, menningar og samfélags. Þessi samtalsvettvangur er aldrei eins mikilvægur og í samfélagi sem er mótað af sterkri veraldarhyggju eins og okkar.

En aftur að kjörseðlinum sem fylgir þessum orðum. Hann er fyrir útvalda og það er auðvitað ljóður á skipulagi innan þjóðkirkjunnar að kosning til biskups Íslands skuli ekki vera í höndum allra þeirra sem eru átján ára og eldri og skráðir eru í þjóðkirkjuna. Biskup er ekki biskup prestanna heldur þjóðkirkjunnar.

Það er tregða til að hleypa lýðræðinu að innan þjóðkirkjunnar og því þarf að breyta. Auðvitað hefur það verið rætt á vettvangi kirkjunnar að breyta þurfi skipulaginu en hugrekki hefur skort til að stíga skrefið til fullnustu. Það hefur svo sem lengi loðað við þjóðkirkjuna að hún sé prestakirkja þó að dregið hafi sem betur fer úr prestadýrkun og kirkjusnobbi sem var áberandi fyrr á árum. Presturinn er ekki stjarna heldur þjónn safnaðarins og verkstjóri í sínu prestakalli. Þjóðkirkja verður aldrei þjóðkirkja nema hún komi til fólksins í landinu og sé með því á jafnréttisgrundvelli. Fólkið er kirkjan.

Nú er bara að bretta upp ermar.

Viltu deila þessari grein með fleirum?