Kirkjur hafa hýst listina svo öldum skiptir. Sterk og náin tengsl hafa ætíð verið milli lista og kirkju eins og öllum er kunnugt um. Tónlist er þar að sjálfsögðu efst á blaði en þar er líka myndlist og byggingarlist – svo dæmi séu nefnd.

Kirkja og list eru systur.

Það færist sífellt meira í vöxt að kirkjur séu notaðar sem listsýningasalir. Húsnæði margra kirkna er rúmgott og er í sumum tilvikum upplagt sýningarrými. Stundum þarf ekki nema að breyta því lítillega svo það geti þjónað listinni með prýðilegum hætti. Hér er að sjálfsögðu ekki verið að tala um kirkjurýmið sjálft enda þótt það hafi stundum verið notað fyrir listsýningar eða listviðburði af ýmsu tagi um lengri eða skemmri tíma. Einkum er horft til safnaðarheimilanna, tengibygginga og rýmis í forkirkjum.

Áður en lengra er haldið skal tekið fram að sýningarrými er að finna í nokkrum kirkjum á höfuðborgarsvæðinu og er það til fyrirmyndar. Í nokkrum þeirra þyrfti hins vegar að bæta sýningaraðstöðuna.

Það ætti að vera kappsmál sóknarnefnda og presta að huga að því að koma upp með formlegum hætti sýningaraðstöðu í safnaðarheimilum/kirkjurými og leita eftir fulltingi menntaðra listsýningarstjóra í því efni. Rýmið þarf heldur ekki að vera flennistórt. Mörg lítil gallerí eru starfrækt og gefa þeim stærri ekki eftir heldur velja sér verkefni sem rýminu hæfa. Á sama hátt og kirkjur myndu gera. Þessi rými öll gera ekki kröfu um að verða fyllt af trúarlegri list sem svo er kölluð heldur fyrst og fremst af list. List í öllum regnbogans litum.

Hvers vegna er verið að fjalla um þetta hér?

Það er ekki aðeins heilnæmt fyrir sál og líkama að sækja helgihald í kirkjum. Rannsóknir hafa til að mynda bent á að bænalíf fólks hefur jákvæð áhrif á heilsu þess sem og fyrirbænir. Altaristöflur kirkna og önnur trúarleg myndverk hafa einnig sín áhrif þegar fólk virðir þær fyrir sér og sekkur sér ofan í myndefni þeirra. Lengi vel sá alþýða manna hvergi list nema í kirkjunum. Stundum var altaristaflan fyrsta listaverkið sem fólk sá á ævi sinni.

Rannsóknir sýna að það hefur jákvæð áhrif á heilastarfsemina og almenna líðan fólks að skoða listaverk. Og meira en að skoða: vera í líkamlegri nánd við þau um tíma og nýta öll skilningarvit til að upplifa þau. Heyrn, sjón, ilman og smekk. Ganga á milli verka. Lifa sig inn í þau. Snerta þau (þ. e. a. s. þau sem má snerta) eða taka þátt í þeim – svokölluð þátttökulistaverk. Hvers vegna ætti kirkjan ekki einmitt að notfæra sér niðurstöður slíkra rannsókna og opna húsakynni sín fyrir listinni í miklu ríkari mæli en áður hefur verið gert? Með því að gefa listinni aukið rými í kirkjunum væri kirkjan að stuðla að betri andlegri líðan fólks.

Listasöfn í kirkjum, lítil eða stór, þurfa ekki að trufla helgihald. Þvert á móti. Þau geta eflt þátttöku í því og laðað fólk að kirkjunni sem menningar- og trúarstað. Sumar kirkjur í útlöndum eiga dágóðan safnkost listaverka og sýna þau reglulega í kirkjunni. Listaverk geta líka styrkt boðunina og talað með öðrum hætti til fólks heldur en prestur af stól.

Heimsóknir á hvers konar söfn og þá ekki síst listasöfn hafa sem sé heilsueflandi áhrif á fólk. Vellíðunartilfinning kemur yfir fólk sem nýtur listar og í heilabúinu losnar um taugaboðefnið dópamín, hið náttúrulega efni sem veldur þægindum. Sá sem skoðar listaverk hugsar þar með vel um heilsu sína. Þetta á ekki síst við um á þeim tíma ársins þegar skammdegismyrkrið grúfir yfir og vetrarharka þorra og góu liggur á landanum.

Stundum þarf að leiðbeina fólki við að njóta listarinnar. Þetta er ekki sagt af neinu yfirlæti. List þarf sinn tíma og hún er að mörgu leyti ólík asasjúku sjálfhverfu samfélagi nútímans. Hún kallar á að listneytandinn nemi staðar. Horfi, hlusti og skynji. Finni hvíld sálar og hugar í því að horfa og njóta sköpunar annarrar manneskju í listaverki. Hefji samtal í huganum við listaverkið – tengi það við sitt eigið líf og lífsviðhorf. Listaverkið er nefnilega mannlegt – gert með höndum og huga – og jafnvel þótt það sé með öðrum hætti gert þá er þar á bak við mannlegur hugur og sköpunarþrá. Sum listaverk krefjast þess að vera skoðuð lengi á sama hátt og það tekur mislangan tíma að kynnast fólki. Það þarf að koma aftur og aftur að þeim. Brjóta þau til mergjar í heilanum.

Listasafn í hverja kirkju!

Sumar kirkjur eiga marga listmuni og stundum er þeim dreift um húsakynni kirkjunnar. Gömul altaristafla er geymd uppi á lofti. Annars staðar er tafla þar sem fáir verða hennar varir eða hún er á stað sem er blindur blettur augans. Messuklæði margra kirkna eru listaverk og ættu að vera til sýnis – til dæmis eins og í Grafarvogskirkju. En það er nóg að hafa listaverk á vegg og til sýnis annars staðar í kirkjurýminu. Það verður að tala um þau. Vekja athygli á þeim, fá listfróða til að lesa úr þeim ef með þarf. Nota listmunina við fræðslu barna og fullorðinna. Svo er líka ráð að færa listmuni til í kirkjum til að vekja athygli á þeim. Hví ekki að setja upp annað listaverk og þá tímabundið í stað altaristöflunnar sem fólk er kannski hætt að sjá?

Það er engin lognmolla yfir listinni. Það sýnir og sannar listasagan. Listin hefur tekið í lurginn á samfélögum og kollvarpað skilningi þeirra á ýmsum málum. Búið til ný sjónarhorn og aukið víðsýni. Listin hefur gengið til liðs við þjáð mannkyn á mörgum vígstöðvum – talað máli manneskjunnar. Og kirkjulistin hefur talað máli Guðs í aldaraðir. Hún hefur líka verið fjörug og knúin áfram af ást til manneskjunnar. Líka farið nýjar ótroðnar slóðir og hrist upp í staðnaðri menningu þar sem ánægja með yfirstandandi eymd var andlegur dauði. Listin smýgur eins og guðorðiðið í gegnum allt – og er beittari hverju tvíeggjaðra sverði! Og það er líka hægt að leggja út af listaverkum. Glæsilegar altaristöflur gefa fullt tilefni til að út af þeim sé lagt í hinni lúthersku kirkju sem er kirkja orðsins fyrst og síðast.

Listsköpun manneskjunnar er partur af því að glíma við ráðgátu lífsins og leita lausna, finna jafnvægi í tilverunni og takt hennar. Jafnvel að komast í samband við alheiminn – völund veraldar. Í mörgum tilvikum hvílir dulúð yfir listsköpun og kraftur hennar er jafnvel talinn vera úr annarri vídd alheimsins. Ímyndunarafl og list eru nátengd. Engin list er til án ímyndunaraflsins sem er eiginleiki manneskjunnar til að hefja sig upp úr grámósku hversdagsins eða innihaldslausu glanslífi líðandi stundar. Þess vegna er listin eins konar vettvangur pælinga lífsins, heimspekinnar, guðfræðinnar, hverdagsfræðinnar og þannig mætti lengi telja. Allir eiga því erindi við listina og hinna fjölbreyttu birtingamynda hennar í verkunum sem listamennirnir rétta að fólki.

Í kirkjunni hleypur líka listin í farvegi helgihaldsins, tóna og orðs, táknmáls, athafna og hreyfinga. Helgisiðalist er ein tegund listarinnar. Listin er samofin manneskjunni og menningunni – kirkjunni.

Kirkjan þarf að efla anda listarinnar hjá sér og njóta starfskrafta og þjónustu hennar eins og fyrr á öldum. Nú þarf hún bara að opna húsakynni sín. Bjóða listafólki að sýna – bæði menntuðum listamönnum sem og áhugafólki. List skapar umræðu og samfélag. Betra samfélag og betri kirkju.

Nú er tími til að stilla klukku þjóðkirkjunnar!

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Kirkjur hafa hýst listina svo öldum skiptir. Sterk og náin tengsl hafa ætíð verið milli lista og kirkju eins og öllum er kunnugt um. Tónlist er þar að sjálfsögðu efst á blaði en þar er líka myndlist og byggingarlist – svo dæmi séu nefnd.

Kirkja og list eru systur.

Það færist sífellt meira í vöxt að kirkjur séu notaðar sem listsýningasalir. Húsnæði margra kirkna er rúmgott og er í sumum tilvikum upplagt sýningarrými. Stundum þarf ekki nema að breyta því lítillega svo það geti þjónað listinni með prýðilegum hætti. Hér er að sjálfsögðu ekki verið að tala um kirkjurýmið sjálft enda þótt það hafi stundum verið notað fyrir listsýningar eða listviðburði af ýmsu tagi um lengri eða skemmri tíma. Einkum er horft til safnaðarheimilanna, tengibygginga og rýmis í forkirkjum.

Áður en lengra er haldið skal tekið fram að sýningarrými er að finna í nokkrum kirkjum á höfuðborgarsvæðinu og er það til fyrirmyndar. Í nokkrum þeirra þyrfti hins vegar að bæta sýningaraðstöðuna.

Það ætti að vera kappsmál sóknarnefnda og presta að huga að því að koma upp með formlegum hætti sýningaraðstöðu í safnaðarheimilum/kirkjurými og leita eftir fulltingi menntaðra listsýningarstjóra í því efni. Rýmið þarf heldur ekki að vera flennistórt. Mörg lítil gallerí eru starfrækt og gefa þeim stærri ekki eftir heldur velja sér verkefni sem rýminu hæfa. Á sama hátt og kirkjur myndu gera. Þessi rými öll gera ekki kröfu um að verða fyllt af trúarlegri list sem svo er kölluð heldur fyrst og fremst af list. List í öllum regnbogans litum.

Hvers vegna er verið að fjalla um þetta hér?

Það er ekki aðeins heilnæmt fyrir sál og líkama að sækja helgihald í kirkjum. Rannsóknir hafa til að mynda bent á að bænalíf fólks hefur jákvæð áhrif á heilsu þess sem og fyrirbænir. Altaristöflur kirkna og önnur trúarleg myndverk hafa einnig sín áhrif þegar fólk virðir þær fyrir sér og sekkur sér ofan í myndefni þeirra. Lengi vel sá alþýða manna hvergi list nema í kirkjunum. Stundum var altaristaflan fyrsta listaverkið sem fólk sá á ævi sinni.

Rannsóknir sýna að það hefur jákvæð áhrif á heilastarfsemina og almenna líðan fólks að skoða listaverk. Og meira en að skoða: vera í líkamlegri nánd við þau um tíma og nýta öll skilningarvit til að upplifa þau. Heyrn, sjón, ilman og smekk. Ganga á milli verka. Lifa sig inn í þau. Snerta þau (þ. e. a. s. þau sem má snerta) eða taka þátt í þeim – svokölluð þátttökulistaverk. Hvers vegna ætti kirkjan ekki einmitt að notfæra sér niðurstöður slíkra rannsókna og opna húsakynni sín fyrir listinni í miklu ríkari mæli en áður hefur verið gert? Með því að gefa listinni aukið rými í kirkjunum væri kirkjan að stuðla að betri andlegri líðan fólks.

Listasöfn í kirkjum, lítil eða stór, þurfa ekki að trufla helgihald. Þvert á móti. Þau geta eflt þátttöku í því og laðað fólk að kirkjunni sem menningar- og trúarstað. Sumar kirkjur í útlöndum eiga dágóðan safnkost listaverka og sýna þau reglulega í kirkjunni. Listaverk geta líka styrkt boðunina og talað með öðrum hætti til fólks heldur en prestur af stól.

Heimsóknir á hvers konar söfn og þá ekki síst listasöfn hafa sem sé heilsueflandi áhrif á fólk. Vellíðunartilfinning kemur yfir fólk sem nýtur listar og í heilabúinu losnar um taugaboðefnið dópamín, hið náttúrulega efni sem veldur þægindum. Sá sem skoðar listaverk hugsar þar með vel um heilsu sína. Þetta á ekki síst við um á þeim tíma ársins þegar skammdegismyrkrið grúfir yfir og vetrarharka þorra og góu liggur á landanum.

Stundum þarf að leiðbeina fólki við að njóta listarinnar. Þetta er ekki sagt af neinu yfirlæti. List þarf sinn tíma og hún er að mörgu leyti ólík asasjúku sjálfhverfu samfélagi nútímans. Hún kallar á að listneytandinn nemi staðar. Horfi, hlusti og skynji. Finni hvíld sálar og hugar í því að horfa og njóta sköpunar annarrar manneskju í listaverki. Hefji samtal í huganum við listaverkið – tengi það við sitt eigið líf og lífsviðhorf. Listaverkið er nefnilega mannlegt – gert með höndum og huga – og jafnvel þótt það sé með öðrum hætti gert þá er þar á bak við mannlegur hugur og sköpunarþrá. Sum listaverk krefjast þess að vera skoðuð lengi á sama hátt og það tekur mislangan tíma að kynnast fólki. Það þarf að koma aftur og aftur að þeim. Brjóta þau til mergjar í heilanum.

Listasafn í hverja kirkju!

Sumar kirkjur eiga marga listmuni og stundum er þeim dreift um húsakynni kirkjunnar. Gömul altaristafla er geymd uppi á lofti. Annars staðar er tafla þar sem fáir verða hennar varir eða hún er á stað sem er blindur blettur augans. Messuklæði margra kirkna eru listaverk og ættu að vera til sýnis – til dæmis eins og í Grafarvogskirkju. En það er nóg að hafa listaverk á vegg og til sýnis annars staðar í kirkjurýminu. Það verður að tala um þau. Vekja athygli á þeim, fá listfróða til að lesa úr þeim ef með þarf. Nota listmunina við fræðslu barna og fullorðinna. Svo er líka ráð að færa listmuni til í kirkjum til að vekja athygli á þeim. Hví ekki að setja upp annað listaverk og þá tímabundið í stað altaristöflunnar sem fólk er kannski hætt að sjá?

Það er engin lognmolla yfir listinni. Það sýnir og sannar listasagan. Listin hefur tekið í lurginn á samfélögum og kollvarpað skilningi þeirra á ýmsum málum. Búið til ný sjónarhorn og aukið víðsýni. Listin hefur gengið til liðs við þjáð mannkyn á mörgum vígstöðvum – talað máli manneskjunnar. Og kirkjulistin hefur talað máli Guðs í aldaraðir. Hún hefur líka verið fjörug og knúin áfram af ást til manneskjunnar. Líka farið nýjar ótroðnar slóðir og hrist upp í staðnaðri menningu þar sem ánægja með yfirstandandi eymd var andlegur dauði. Listin smýgur eins og guðorðiðið í gegnum allt – og er beittari hverju tvíeggjaðra sverði! Og það er líka hægt að leggja út af listaverkum. Glæsilegar altaristöflur gefa fullt tilefni til að út af þeim sé lagt í hinni lúthersku kirkju sem er kirkja orðsins fyrst og síðast.

Listsköpun manneskjunnar er partur af því að glíma við ráðgátu lífsins og leita lausna, finna jafnvægi í tilverunni og takt hennar. Jafnvel að komast í samband við alheiminn – völund veraldar. Í mörgum tilvikum hvílir dulúð yfir listsköpun og kraftur hennar er jafnvel talinn vera úr annarri vídd alheimsins. Ímyndunarafl og list eru nátengd. Engin list er til án ímyndunaraflsins sem er eiginleiki manneskjunnar til að hefja sig upp úr grámósku hversdagsins eða innihaldslausu glanslífi líðandi stundar. Þess vegna er listin eins konar vettvangur pælinga lífsins, heimspekinnar, guðfræðinnar, hverdagsfræðinnar og þannig mætti lengi telja. Allir eiga því erindi við listina og hinna fjölbreyttu birtingamynda hennar í verkunum sem listamennirnir rétta að fólki.

Í kirkjunni hleypur líka listin í farvegi helgihaldsins, tóna og orðs, táknmáls, athafna og hreyfinga. Helgisiðalist er ein tegund listarinnar. Listin er samofin manneskjunni og menningunni – kirkjunni.

Kirkjan þarf að efla anda listarinnar hjá sér og njóta starfskrafta og þjónustu hennar eins og fyrr á öldum. Nú þarf hún bara að opna húsakynni sín. Bjóða listafólki að sýna – bæði menntuðum listamönnum sem og áhugafólki. List skapar umræðu og samfélag. Betra samfélag og betri kirkju.

Nú er tími til að stilla klukku þjóðkirkjunnar!

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?