Það var athyglisvert að fylgjast með sálumessu Frans páfa og margar spurningar sem vakna í kringum svona heimsviðburð.

Frans páfi (1936-2025) hafði beðið um látlausa útför og gera má ráð fyrir því að við þeirri beiðni hafi verið orðið. Ekki er það svo sem í glöggu minni áhorfenda hvernig sálumessa síðasta páfa fór fram en eflaust hefur verið hægt að hafa meira umleikis við þessa útför hefði vilji til þess staðið.

Sem fyrr gat fólk vottað páfa virðingu með því að fara í röð og ganga fram hjá opinni kistu hans nokkrum dögum fyrir sálumessuna. Það leið varla sólarhringur frá því að fólk á Péturstorginu hafði séð hann veikburða á páskadegi og tók á móti blessun hans og þar til hann var allur. Og nú lá hann þarna blessaður, andaður, í trékistu að hætti páfa.

Rauðir páfaskór eru nettir og gerðir úr mjúku leðri – liturinn táknar blóð píslarvottanna og Krists

Þegar kista hans var borin inn í Péturskirkjuna var Frans páfi í sínum svörtu skóm. Hann notaði aldrei hina rauðu páfaskó eins og forverar hans. Svörtu skórnir voru hluti af þeim einfaldleika sem hann vildi tileinka sér sem páfi. Til dæmis bar hann silfurkross en ekki gullkross eins og flestir, ef ekki allir, fyrirrennarar hans. Enda var hann páfi fólksins. Sérstök athygli var vakin á því að hann væri í sínum gömlu, svörtu hvunndagsskóm sem hann hefði kunnað ætíð vel við. Í fyrstu kann þetta að virðast smáatriði en við nánari athugun er það ekki svo. Sá sem axlar byrði páfaembættisins glatar persónulegu frelsi sínu að miklu leyti og má sín lítils gegn hefðum og siðum þessarar aldagömlu stofnunar sem steypa hann í sama mót og aðra páfa. Kannski hefur það kostað þó nokkra baráttu hjá Frans páfa að fá að klæðast sínum svörtu skóm og gefa páfaskónum rauðu langt nef. Svörtu skórnir voru tákn um auðmýkt hans og hógværð og þessi hugsun hans um skó tengdist því að páfanafn hans var komið frá Frans frá Assisi (1182-1226), stofnanda betlimunkareglunnar sem kennd var við hann, og munkar reglunnar gengu yfirleitt um berfættir eða í mjög svo einföldum söndulum sem merki um lítillæti og mjúklyndi.

Það verður fróðlegt fyrir þau sem áhuga hafa á skómerkjafræði að sjá hver verður liturinn á skóm næsta páfa.

Fleira forvitnilegt

Þegar fyrirmenni heimsins eru jarðsungin eins og konungborið fólk og forsetar, eru nánustu ættingjar viðkomandi jafnan fremstir í flokki. Það er enda hin almenna venja.

Það voru tugir forystumanna heimsins sem voru viðstaddir sálumessuna við Péturskirkjuna auk alls kennilýðsins, kardinála, biskupa, presta, djákna og fólks sem gegnir ábyrgðarstörfum í Vatíkaninu. Eins og gengur beindust augu sjónvarpsvélanna að leiðtogum hins vestræna heims og þar var að sjálfsögðu forseti Bandaríkjanna alloft í sviðsljósinu sem hann kvartar sennilega ekki undan.

Líkmenn voru fjórtán vaskir karlar úr röðum sérstakra embættismanna Páfagarðs. Segja má að allnokkuð hafi mætt á þeim eins og vel sást þegar þeir báru kistuna upp tröppurnar í Santa Maria Maggiore- kirkju þar sem Frans páfi var lagður til hinstu hvílu. Líkkista páfa var einföld trékista en klædd að innan með sinki. Þess háttar kista var gerð að ósk Frans páfa og telst einföld en forverar hans hafa verið grafnir í þremur kistum sem falla hver ofan í aðra: úr kýprusviði, blýi og eikarviði.

Sú spurning hefur kannski vaknað í huga einhverra sem horfðu á sálumessuna í beinni útsendingu hverjir væru nánustu aðstandendur Frans páfa, tengdir honum fjölskylduböndum – fyrir utan hina rómversk-kaþólsku hjörð. Fá fjölskyldumeðlimir ekki að halda undir þó að ekki væri nema eitt kistuhorn? Í raun virðist það vera svo að kirkjan eigi páfann og hafi eignarrétt sinn á honum lifandi sem dauðum.

En auðvitað á dauðlegur páfinn sem við hin ættingja. Hann átti tvo bræður og tvær systur. Ein systir lifir hann, María Elena. Frans páfi, eða Jorge Mario Bergoglio, var mikill fjölskyldumaður, en það var fyrir utan allt umstangið sem fylgdi páfastarfinu. Ekki er ólíklegt að einhverjir ættingjar, systir hans, frænkur og frændur, hafi verið viðstaddir þegar hann var lagður til hinstu hvílu í Santa Maria Maggiore-kirkjunni en sú athöfn var ekki opinber heldur einkaathöfn.

Það eru ótrúlega margir sem telja sig eiga hlut í andlegum leiðtogum eins og þeim sem sitja á páfastóli í Róm. Páfinn er tákn sem fólk les úr með misjöfnum hætti. Í augum sumra er hann sameiningartákn kristinna manna er teljast til rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Í augum annarra er hann merki um afturhaldssemi og er fulltrúi trúarstofnunar sem vill stýra lífi fólks í krafti fornra trúartexta. En hann er líka menningarlegt tákn á Vesturlöndum sem stendur fyrir hefð og siði, fer fyrir stofnun sem býr yfir gríðarlega öflugri menningararfleifð sem nær allir virða. Vald páfans er af trúarlegum toga, menningarlegum og pólitískum. Hver sá sem situr á páfastóli mótar hann með sínum hætti innan ramma hefðarinnar sem er þrátt fyrir allt mjög framsýn og tilbúin til aðlögunar en þó ekki í neinu hasti. Allt tekur tíma og kannski margt til í orðum Henry Kissingers (1923-2023) að þeir í Vatíkaninu láti aldir líða uns þeir taka ákvarðanir í málum sem eru ofarlega á baugi í samfélaginu hverju sinni.

Senn fer fram páfakjör. Það er ekki lýðræðislegt kjör eins og almenningur á að venjast heldur hafa þar karlar einungis atkvæðisrétt, 135 kardinálar. Andstæðingar lýðræðis hljóta að vera mjög ánægðir með svona fyrirkomulag. Því verður sennilega seint breytt og kannski eru kaþólikkar bara sáttir við þetta. En af þessum 135 kardinálum eru 108 sem Frans páfi valdi í páfatíð sinni. Kannski vakir andi hans yfir þeim en það er þó óvíst.

Páfakjör hefur sennilega alltaf tekist nokkuð vel en þó með nokkrum undantekningum sem óþarfi er að rifja upp og því má við bæta að yfirleitt eru eldri borgarar í kardinálastétt valdir til starfsins og sitja ekki alltaf lengi. Þetta eru margir lífsreyndir menn og ekki aðeins komnir til ára sinna heldur og til vits sem er þó nokkurt. Láta ekki nútímann og trúarlegt glens hans hræra mikið í sér en vilja þess heldur standa föstum fótum í hefð og kenningu – og kannski er það galdragripið hjá móðurkirkjunni sem lútherskir kalla stundum svo. Hins vegar er það líka álitamál hvort páfar skuli sitja dauðsjúkir á páfastóli eins og Jóhannes Páll II. og reyndar líka Frans páfi. Það er ekki góð meðferð á gamalmennum – en þeir ráða. Benedikt páfi XVI dró sig hins vegar óvænt í hlé og benti þar með á að ekki væri nauðsynlegt að sitja sem límdur væri í sæti Péturs postula. Það væri útgönguleið og nóg væri af frambærilegum karlmönnum sem sæktust eftir lyklavöldum í Páfagarði.

Nú verður spennandi að sjá hver tekur við hirðisstafnum í rómversk-kaþólsku kirkjunni.

Hér er stutt kynning á fjölskyldu Frans páfa

 

Hér fyrir neðan er myndskeið úr kvikmyndinni, Conclave, en hún fjallar um páfakjör og var sýnd í kvikmyndahúsum fyrir nokkru. Mögnuð kvikmynd og vel gerð.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Það var athyglisvert að fylgjast með sálumessu Frans páfa og margar spurningar sem vakna í kringum svona heimsviðburð.

Frans páfi (1936-2025) hafði beðið um látlausa útför og gera má ráð fyrir því að við þeirri beiðni hafi verið orðið. Ekki er það svo sem í glöggu minni áhorfenda hvernig sálumessa síðasta páfa fór fram en eflaust hefur verið hægt að hafa meira umleikis við þessa útför hefði vilji til þess staðið.

Sem fyrr gat fólk vottað páfa virðingu með því að fara í röð og ganga fram hjá opinni kistu hans nokkrum dögum fyrir sálumessuna. Það leið varla sólarhringur frá því að fólk á Péturstorginu hafði séð hann veikburða á páskadegi og tók á móti blessun hans og þar til hann var allur. Og nú lá hann þarna blessaður, andaður, í trékistu að hætti páfa.

Rauðir páfaskór eru nettir og gerðir úr mjúku leðri – liturinn táknar blóð píslarvottanna og Krists

Þegar kista hans var borin inn í Péturskirkjuna var Frans páfi í sínum svörtu skóm. Hann notaði aldrei hina rauðu páfaskó eins og forverar hans. Svörtu skórnir voru hluti af þeim einfaldleika sem hann vildi tileinka sér sem páfi. Til dæmis bar hann silfurkross en ekki gullkross eins og flestir, ef ekki allir, fyrirrennarar hans. Enda var hann páfi fólksins. Sérstök athygli var vakin á því að hann væri í sínum gömlu, svörtu hvunndagsskóm sem hann hefði kunnað ætíð vel við. Í fyrstu kann þetta að virðast smáatriði en við nánari athugun er það ekki svo. Sá sem axlar byrði páfaembættisins glatar persónulegu frelsi sínu að miklu leyti og má sín lítils gegn hefðum og siðum þessarar aldagömlu stofnunar sem steypa hann í sama mót og aðra páfa. Kannski hefur það kostað þó nokkra baráttu hjá Frans páfa að fá að klæðast sínum svörtu skóm og gefa páfaskónum rauðu langt nef. Svörtu skórnir voru tákn um auðmýkt hans og hógværð og þessi hugsun hans um skó tengdist því að páfanafn hans var komið frá Frans frá Assisi (1182-1226), stofnanda betlimunkareglunnar sem kennd var við hann, og munkar reglunnar gengu yfirleitt um berfættir eða í mjög svo einföldum söndulum sem merki um lítillæti og mjúklyndi.

Það verður fróðlegt fyrir þau sem áhuga hafa á skómerkjafræði að sjá hver verður liturinn á skóm næsta páfa.

Fleira forvitnilegt

Þegar fyrirmenni heimsins eru jarðsungin eins og konungborið fólk og forsetar, eru nánustu ættingjar viðkomandi jafnan fremstir í flokki. Það er enda hin almenna venja.

Það voru tugir forystumanna heimsins sem voru viðstaddir sálumessuna við Péturskirkjuna auk alls kennilýðsins, kardinála, biskupa, presta, djákna og fólks sem gegnir ábyrgðarstörfum í Vatíkaninu. Eins og gengur beindust augu sjónvarpsvélanna að leiðtogum hins vestræna heims og þar var að sjálfsögðu forseti Bandaríkjanna alloft í sviðsljósinu sem hann kvartar sennilega ekki undan.

Líkmenn voru fjórtán vaskir karlar úr röðum sérstakra embættismanna Páfagarðs. Segja má að allnokkuð hafi mætt á þeim eins og vel sást þegar þeir báru kistuna upp tröppurnar í Santa Maria Maggiore- kirkju þar sem Frans páfi var lagður til hinstu hvílu. Líkkista páfa var einföld trékista en klædd að innan með sinki. Þess háttar kista var gerð að ósk Frans páfa og telst einföld en forverar hans hafa verið grafnir í þremur kistum sem falla hver ofan í aðra: úr kýprusviði, blýi og eikarviði.

Sú spurning hefur kannski vaknað í huga einhverra sem horfðu á sálumessuna í beinni útsendingu hverjir væru nánustu aðstandendur Frans páfa, tengdir honum fjölskylduböndum – fyrir utan hina rómversk-kaþólsku hjörð. Fá fjölskyldumeðlimir ekki að halda undir þó að ekki væri nema eitt kistuhorn? Í raun virðist það vera svo að kirkjan eigi páfann og hafi eignarrétt sinn á honum lifandi sem dauðum.

En auðvitað á dauðlegur páfinn sem við hin ættingja. Hann átti tvo bræður og tvær systur. Ein systir lifir hann, María Elena. Frans páfi, eða Jorge Mario Bergoglio, var mikill fjölskyldumaður, en það var fyrir utan allt umstangið sem fylgdi páfastarfinu. Ekki er ólíklegt að einhverjir ættingjar, systir hans, frænkur og frændur, hafi verið viðstaddir þegar hann var lagður til hinstu hvílu í Santa Maria Maggiore-kirkjunni en sú athöfn var ekki opinber heldur einkaathöfn.

Það eru ótrúlega margir sem telja sig eiga hlut í andlegum leiðtogum eins og þeim sem sitja á páfastóli í Róm. Páfinn er tákn sem fólk les úr með misjöfnum hætti. Í augum sumra er hann sameiningartákn kristinna manna er teljast til rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Í augum annarra er hann merki um afturhaldssemi og er fulltrúi trúarstofnunar sem vill stýra lífi fólks í krafti fornra trúartexta. En hann er líka menningarlegt tákn á Vesturlöndum sem stendur fyrir hefð og siði, fer fyrir stofnun sem býr yfir gríðarlega öflugri menningararfleifð sem nær allir virða. Vald páfans er af trúarlegum toga, menningarlegum og pólitískum. Hver sá sem situr á páfastóli mótar hann með sínum hætti innan ramma hefðarinnar sem er þrátt fyrir allt mjög framsýn og tilbúin til aðlögunar en þó ekki í neinu hasti. Allt tekur tíma og kannski margt til í orðum Henry Kissingers (1923-2023) að þeir í Vatíkaninu láti aldir líða uns þeir taka ákvarðanir í málum sem eru ofarlega á baugi í samfélaginu hverju sinni.

Senn fer fram páfakjör. Það er ekki lýðræðislegt kjör eins og almenningur á að venjast heldur hafa þar karlar einungis atkvæðisrétt, 135 kardinálar. Andstæðingar lýðræðis hljóta að vera mjög ánægðir með svona fyrirkomulag. Því verður sennilega seint breytt og kannski eru kaþólikkar bara sáttir við þetta. En af þessum 135 kardinálum eru 108 sem Frans páfi valdi í páfatíð sinni. Kannski vakir andi hans yfir þeim en það er þó óvíst.

Páfakjör hefur sennilega alltaf tekist nokkuð vel en þó með nokkrum undantekningum sem óþarfi er að rifja upp og því má við bæta að yfirleitt eru eldri borgarar í kardinálastétt valdir til starfsins og sitja ekki alltaf lengi. Þetta eru margir lífsreyndir menn og ekki aðeins komnir til ára sinna heldur og til vits sem er þó nokkurt. Láta ekki nútímann og trúarlegt glens hans hræra mikið í sér en vilja þess heldur standa föstum fótum í hefð og kenningu – og kannski er það galdragripið hjá móðurkirkjunni sem lútherskir kalla stundum svo. Hins vegar er það líka álitamál hvort páfar skuli sitja dauðsjúkir á páfastóli eins og Jóhannes Páll II. og reyndar líka Frans páfi. Það er ekki góð meðferð á gamalmennum – en þeir ráða. Benedikt páfi XVI dró sig hins vegar óvænt í hlé og benti þar með á að ekki væri nauðsynlegt að sitja sem límdur væri í sæti Péturs postula. Það væri útgönguleið og nóg væri af frambærilegum karlmönnum sem sæktust eftir lyklavöldum í Páfagarði.

Nú verður spennandi að sjá hver tekur við hirðisstafnum í rómversk-kaþólsku kirkjunni.

Hér er stutt kynning á fjölskyldu Frans páfa

 

Hér fyrir neðan er myndskeið úr kvikmyndinni, Conclave, en hún fjallar um páfakjör og var sýnd í kvikmyndahúsum fyrir nokkru. Mögnuð kvikmynd og vel gerð.

Viltu deila þessari grein með fleirum?