Það er sannarlega ánægjuefni að fólk hafi skoðun á kirkjugörðum og ýmsu sem þá snertir. Kirkjugarðar koma nefnilega öllum við því í þeim hvíla ástvinir allra og fyrr eða síðar verða þeir hvílustaðir okkar sem nú lifum.
Umræðan sem spratt upp í gær um kirkjugarða sýnir að fólki er svo sannarlega ekki sama um þá.
Nú er það svo að flestir Íslendingar aðhyllast kristna trú og fjölmennasta trúfélagið er þjóðkirkjan. Þegar helsta tákn kristinnar trúar er tekið úr merki Kirkjugarða Reykjavíkur bregður fólki óneitanlega í brún.
Samkvæmt fundargerð aðalfundar Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma í maímánuði síðastliðnum var framkvæmdastjórn þeirra falið að ganga frá merki kirkjugarðanna. Í stað krossins er komið laufblað. Ekki er vitað hvort efnt var til samkeppni um þetta merki eða ekki. Laufblað er fagurt í sjálfu sér og hægt að lesa margvíslega merkingu í það. Sennilega er laufblaðið hins vegar eitt mest notaða tákn hjá stofnunum og fyrirtækjum og því í sjálfu sér ekki frumlegt þó að það hafi sterka skírskotun til gróðurmikilla kirkjugarða. Landbúnaðarháskóli Íslands er til dæmis með laufblað í einkennismerki sínu svo dæmi sé nefnt. Sömuleiðis er UMFÍ með laufblað í sínu einkennismerki. Hvað um það. Kristið fólk sér að sjálfsögðu eftir því að krossinn er tekinn út. Hvað annað?
Í þessari fyrrnefndu fundargerð má lesa mjög svo kostulega setningu:
„Kirkjugarðarnir eru að þróast úr því að vera algjörlega formfastir út í að vera multicultural og multifunctional garðar.“
Þar kemur og fram að fólk sé farið að nýta garðana á mismunandi hátt án þess að dæmi séu nefnd um það.
Framkvæmdastjóri Kirkjugarða Reykjavíkur, Ingvar Stefánsson, nefndi í sjónvarpsviðtali að viðburðir verði haldnir í görðunum. Allt er þetta náttúrlega afskaplega nútímalegt.
Svo er að sjá að kirkjugarðarnir verði bara opnaðir fyrir alls konar skralli, götubitahátíð væri til dæmis upplagður viðburður. Sem og gjörningar við að vekja fólk upp frá dauðum. Svo má skella upp Parísarhjólinu í Hólavallagarð áður en það ryðgar niður við höfnina. Þetta er ný sýn á friðsæla sælureiti borgarinnar þar sem fólk hefur notið kyrrðar og andlegrar hvíldar.
Þá eru viðraðar hugmyndir um að hætta að nota orðið kirkjugarður og leita eftir hlutlausara nafni eins og það er orðað: grafreitur, minningarreitur – jafnvel greftrunarsvæði. Sem betur fer koma slíkar hugmyndir til kasta Alþingis sem setur lög um kirkjugarða og þau sem nú eru í gildi eru frá 1993. Í sjónvarpsviðtali sagði biskup Íslands, sr. Guðrún Karls Helgudóttir, vilja halda í orðið kirkjugarður og er það vel.
Það er undarlegt að ekki megi nota orðið kirkjugarður sem yfirhugtak um þessi svæði þar sem látnir hvíla en innan þess eru sérstakir reitir fráteknir fyrir fólk sem aðhyllist önnur trúarbrögð eða vill hvíla í óvígðri mold. Svo er þeirri hugmynd skotið fram að gera kirkjugarða óháða trúarbrögðum. Það er sérstakt vegna þess að öll trúarbrögð hafa sitthvað um dauðann að segja og um afdrif holdsins.
Auðvitað er ljóst að orðið kirkjugarður verður ekki tekið frá þeim kirkjum sem hafa slíka garða í kringum sig.
Kirkjugarðar eða hvað sem fólki dettur í hug að kalla þá munu lengi bera þess merki að þar hvíli kristið fólk. Krossmerki á leiðum er líklega algengasta trúartáknið í görðunum.
Orðið kirkja fellur ekki öllum í geð. Margir vilja koma því sennilega helst úr tungumálinu. Kristin trúfélög verða að standa vörð um það sem og helsta tákn kristinnar trúar, krossinn. Biskup Íslands, sr. Guðrún Karls Helgudóttir, sagði í fyrrnefndu sjónvarpsviðtali vilja hafa krossa sem víðast.
Svona í lokin má minna á vers frá séra Hallgrími Péturssyni. Kannski geta bara allir sameinast um að kalla kirkjugarðana jurtagarða? Hver leggur svo sinn skilning í það.
Jurtagarður er herrans hér
helgra guðs barna legstaðir.
Þegar þú gengur um þennan reit,
þín sé til reiðu bænin heit.
Andláts þíns gæt, og einnig þá
upprisudaginn minnstu á.(Passíusálmur 2.7)
Það er sannarlega ánægjuefni að fólk hafi skoðun á kirkjugörðum og ýmsu sem þá snertir. Kirkjugarðar koma nefnilega öllum við því í þeim hvíla ástvinir allra og fyrr eða síðar verða þeir hvílustaðir okkar sem nú lifum.
Umræðan sem spratt upp í gær um kirkjugarða sýnir að fólki er svo sannarlega ekki sama um þá.
Nú er það svo að flestir Íslendingar aðhyllast kristna trú og fjölmennasta trúfélagið er þjóðkirkjan. Þegar helsta tákn kristinnar trúar er tekið úr merki Kirkjugarða Reykjavíkur bregður fólki óneitanlega í brún.
Samkvæmt fundargerð aðalfundar Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma í maímánuði síðastliðnum var framkvæmdastjórn þeirra falið að ganga frá merki kirkjugarðanna. Í stað krossins er komið laufblað. Ekki er vitað hvort efnt var til samkeppni um þetta merki eða ekki. Laufblað er fagurt í sjálfu sér og hægt að lesa margvíslega merkingu í það. Sennilega er laufblaðið hins vegar eitt mest notaða tákn hjá stofnunum og fyrirtækjum og því í sjálfu sér ekki frumlegt þó að það hafi sterka skírskotun til gróðurmikilla kirkjugarða. Landbúnaðarháskóli Íslands er til dæmis með laufblað í einkennismerki sínu svo dæmi sé nefnt. Sömuleiðis er UMFÍ með laufblað í sínu einkennismerki. Hvað um það. Kristið fólk sér að sjálfsögðu eftir því að krossinn er tekinn út. Hvað annað?
Í þessari fyrrnefndu fundargerð má lesa mjög svo kostulega setningu:
„Kirkjugarðarnir eru að þróast úr því að vera algjörlega formfastir út í að vera multicultural og multifunctional garðar.“
Þar kemur og fram að fólk sé farið að nýta garðana á mismunandi hátt án þess að dæmi séu nefnd um það.
Framkvæmdastjóri Kirkjugarða Reykjavíkur, Ingvar Stefánsson, nefndi í sjónvarpsviðtali að viðburðir verði haldnir í görðunum. Allt er þetta náttúrlega afskaplega nútímalegt.
Svo er að sjá að kirkjugarðarnir verði bara opnaðir fyrir alls konar skralli, götubitahátíð væri til dæmis upplagður viðburður. Sem og gjörningar við að vekja fólk upp frá dauðum. Svo má skella upp Parísarhjólinu í Hólavallagarð áður en það ryðgar niður við höfnina. Þetta er ný sýn á friðsæla sælureiti borgarinnar þar sem fólk hefur notið kyrrðar og andlegrar hvíldar.
Þá eru viðraðar hugmyndir um að hætta að nota orðið kirkjugarður og leita eftir hlutlausara nafni eins og það er orðað: grafreitur, minningarreitur – jafnvel greftrunarsvæði. Sem betur fer koma slíkar hugmyndir til kasta Alþingis sem setur lög um kirkjugarða og þau sem nú eru í gildi eru frá 1993. Í sjónvarpsviðtali sagði biskup Íslands, sr. Guðrún Karls Helgudóttir, vilja halda í orðið kirkjugarður og er það vel.
Það er undarlegt að ekki megi nota orðið kirkjugarður sem yfirhugtak um þessi svæði þar sem látnir hvíla en innan þess eru sérstakir reitir fráteknir fyrir fólk sem aðhyllist önnur trúarbrögð eða vill hvíla í óvígðri mold. Svo er þeirri hugmynd skotið fram að gera kirkjugarða óháða trúarbrögðum. Það er sérstakt vegna þess að öll trúarbrögð hafa sitthvað um dauðann að segja og um afdrif holdsins.
Auðvitað er ljóst að orðið kirkjugarður verður ekki tekið frá þeim kirkjum sem hafa slíka garða í kringum sig.
Kirkjugarðar eða hvað sem fólki dettur í hug að kalla þá munu lengi bera þess merki að þar hvíli kristið fólk. Krossmerki á leiðum er líklega algengasta trúartáknið í görðunum.
Orðið kirkja fellur ekki öllum í geð. Margir vilja koma því sennilega helst úr tungumálinu. Kristin trúfélög verða að standa vörð um það sem og helsta tákn kristinnar trúar, krossinn. Biskup Íslands, sr. Guðrún Karls Helgudóttir, sagði í fyrrnefndu sjónvarpsviðtali vilja hafa krossa sem víðast.
Svona í lokin má minna á vers frá séra Hallgrími Péturssyni. Kannski geta bara allir sameinast um að kalla kirkjugarðana jurtagarða? Hver leggur svo sinn skilning í það.
Jurtagarður er herrans hér
helgra guðs barna legstaðir.
Þegar þú gengur um þennan reit,
þín sé til reiðu bænin heit.
Andláts þíns gæt, og einnig þá
upprisudaginn minnstu á.(Passíusálmur 2.7)