Dr. Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor emeritus, skrifar hér um nýútkomið prédikanasafn dr. Sigurðar Árna Þórðarsonar

Lestur ítarlegs prédikanasafns dr. Sigurðar Árna Þórðarsonar sem jafnframt er afmælisrit hans var mér ánægjuefni. Ritið ber vitni um fjölþætta lífs- og starfsreynslu höfundarog góða menntun. Leiðarstefið er að finna í heiti ritsins, Ástinni, hugtaki sem hann kýs að nota frekar en kærleikshugtakið hefðbundna. Mæramenning er áhugavert hugtak sem hann hefur búið til og lýsir viðbrögðum íslenskra kynslóða við vá, lífi og dauða.

Höfundur prédikar og skrifar af ástríðu. Hann fjallar um efni sem honum er hjartfólgið og leitast við að tjá það á þann hátt sem svo það nái sem best til samtímans. Nýstárlegt orðalag kann á stundum að stinga í augu einhverra. En viðleitni hans að tala inn í aðstæður líðandi stundar er ekki á kostnað hefðbundins kristindóms. Þar stendur höfundur traustum fótum, hefur í framhaldsnámi sínu í Bandaríkjunum einmitt lagt sig eftir því hvað einkenndi íslenska kristni gegnum aldirnar.  Hann skynjar vel að vestræn samfélög séu að breytast og spyr hvort trúin sé að hverfa. „Nei. Guð hættir ekki að vera til þótt fólk og samfélög ruglist,“ svarar hann (bls. 320). Þar segir hann jafnframt að eðli trúar sé að lifa í minningu sögunnar, „en líka að þora að ganga til móts við opna framtíð.“ Fylgni hans við kirkjuárið tryggir að mörg hinna fjölþættu stefja kristninnar skila sér. Hann kýs þó að víkja frá kirkjuárinu á þann hátt að byrja í upphafi almanaksársins.

Í umfjölluninni um þetta áhugaverða rit er staldrað við nokkrar prédikanir sem virðast lýsandi fyrir boðskap Sigurðar Árna. Hann leyfir sér að vera persónulegur á köflum og það er styrkur frekar en veikleiki, hann dregur ekki dul yfir að hann hefur, eins og við öll, orðið fyrir áföllum í lífinu. Ræðurnar voru fluttar í Neskirkju og Hallgrímskirkju á árunum 2001-2023.

Við Hallgrímskirkju störfuðu lengi feðgarnir og biskuparnir Sigurbjörn Einarsson (1911-2008) og Karl Sigurbjörnsson, sem eiga það sameiginlegt að hafa gefið út mikið lesin prédikanasöfn enda báðir afbragðs prédikarar.  Sigurbjörn hefur raunar notið þess álits lengi að vera einstakur í sinni röð. Það er því ánægjulegt að einn eftirmanna þeirra í Hallgrímskirkju hafi fetað í fótspor þeirra og sent frá sér veglegt prédikanasafn.

Erfið bernskureynsla

Sigurður Árni varð sjö ára að aldri fyrir erfiðri reynslu sem hann hefur ekki gleymt. Eldri strákar fengu hann til að klifra inn í skott á bíl inni í bílskúr og skelltu svo lokinu aftur sem og bílskúrshurðinni þar sem bíllinn stóð. Á nokkrum mínútum hrundi tilvera hans, óp hans skiluðu engu. Honum var seint og um síðir hleypt út, þegar hann hafði sannfærst um að engin útgönguleið væri úr líflausri og illa lyktandi farangursgeymslunni. Eina sem hann gat gert var að biðja til Guðs. Í útleggingu sinni af þessari sáru reynslu minnir hann á að innilokun geti valdið fólki djúptækum sálarskaða. Nútímahús séu þannig byggð að fólk eigi ekki að geta lokast inni. En hvað um það þegar við rötum í andlegar ógöngur? spyr Sigurður Árni og trú hans sér í Jesú Kristi leiðina úr höftunum. „Ekkert myrkur er honum of myrkt og engin sálarkreppa er honum ofraun … Hann er við hlið fólks í skotum lífsins, í hellum sorgarinnar…“ (bls. 113). Sár bernskureynsla verður Sigurði Árna efniviður í eina af minnisstæðustu prédikunum hans.

Veislan mikla

Á öðrum sunnudegi eftir þrenningarhátíð er yfirskrift prédikunar Sigurðar Árna: „Veislan mikla.“ Þar gerir hann að umtalsefni kvikmynd sem lengi hefur verið mér kær og ég hef skrifað um. Það er danska kvikmyndin „Gesaboð Babettu“ (1987) um veislu sem var kraftaverk eins og Sigurður Árni orðar það. Myndin hefur augljósa skírskotun til kvöldmáltíðar kirkjunnar.  Sigurður Árni segir að Jesús hafi notað máltíðir til að vera með fólki. Hann segist hafa orðið sannfærður um að  „við þurfum að temja okkur hugarfar veislunnar til að við getum lifað vel“ og við getum valið „hvort lífið er og verður litríkt eða grátt“ (bls. 194). Orðin minna á páskadagsprédikun hans er hann nefnir „Föstudagsfólk eða sunnudagsfólk.“ Þar segir m.a. „Ef við temjum okkur jákvæðni í lífinu höfum við lært lífsleikni sem hjálpar í þrautum og þegar eitthvað verður okkur  mótdrægt. Við verðum þar með sunnudagsfólk,“ segir hann og bætir við: „Frásögn páskanna umbreytti veröldinni,“ og hvetur lesendur, áheyrendur og lesendur til að leyfa þeim boðskap að umbylta lífi sínu (bls. 117).

Skyldleiki Sinaí og Þingvalla – Samræður við Peres

Prédikun sem talaði til mín segir af fundi Sigurðar Árna með þeim merka stjórnmálaleiðtoga Ísraels Shimon Peres (1923-2016) á Þingvöllum í Íslandsheimsókn hans 1993. (Ekki voru allir þingmenn sem sýndu Peres þann sóma heldur neituðu að snæða með honum kvöldverð. Ekki er þess getið í bókinni, en það skammarlega háttalag þingmanna situr fast mér í minni). Hef sjálfur lesið margar bóka Peresar þar sem leynir sér ekki að trúarlegar spurningar og málefni hinna hebresku ritninga eru honum afar hugleikin. Segir Sigurður Árni hve Peres hafi þótt áhugavert að bera saman  sögu Íslendinga og Ísraels til forna. Það hafi lokist upp fyrir honum að sögur Íslands og Ísraels rímuðu og að Þingvellir væru Sínaí norðursins. Friðarsýn Peresar kemur og ágætlega fram í þessari prédikun sem og spurningin um æðsta boðorðið í ljósi gyðingdóms og kristni. Sigurður Árni talar um boðorðin „sem umferðarreglur lífsins og meginreglur laga og samskipta fólks um aldir.“ Í því sambandi er það mér gleðiefni að hann er fjarri því að sniðganga hið fyrra testamenti Biblíunnar, þ.e. hinar hebresku ritningar. Nafnaskráin í lokin sýnir að meðal persóna þaðan sem Sigurður Árni gerir að umtalsefni eru Sara, Abraham,  Jósef, Móse, Samúel, Jesaja, Job og Elía.

Hallgrímskirkja og mæramenning

Sú prédikun Sigurðar Árna sem dregur best saman boðskap hans ber yfirskriftina „Íkon Íslands“ og hefst á tilvitnun í ferðabæn Hallgríms Péturssonar: „Ég byrja reisu mín.“ Þar fjallar hann um Hallgrímskirkju sem hann segir orðna í hugum útlendinga samnefnari þess sem er íslenskt og tákn fyrir land og þjóð. Íkon Íslands. Þar segir Sigurður Árni einnig frá framhaldsnámi sínu í Nashville í Tennesee í Bandaríkjunum. Þar fékk hann nýjan sjónarhól við rannsókn íslenskrar kristnisögu, höfunda eins og Hallgrím og Jón Vídalín. Þar fann hann „andvörp menningar Íslands“ eins og hann orðar það. „Íslensk þjóð glímdi við fæðuskort, sjúkdóma, ógnir náttúru og óréttlæti.“  Íslendingar hafi brugðist við með menningu sem hann kallar „mæramenningu“ og hún hafi haft að geyma skýra siðfræði. Einstaklingurinn var einn af mörgum og skyldi vera til hags samfélagi sínu. Hinn kristni boðskapur hafi fléttast saman við lífsreynslu fólksins. „Samábyrgð, kærleikur, hófstilling og trúmennska og auðmjúk ráðsmennska var til stuðnings í almannavarnarhugsun fortíðar“ (bls. 300-301). Í þessari viskuhefð okkar Íslendinga séu fyrirmyndir um hvernig taka eigi áföllum og hvernig unnt sé að lifa við mæri og lifa af með reisn. Um Hallgrímskirkju segir hann síðan að erindi hennar sé að segja góða sögu gegn allri vá heimsins.

Mikilvæg prédikun sannarlega sem veitir góða innsýn í meginboðskap þeirrar bókar sem hér var gerð að umtalsefni og hefur veitt þeim sem hér ritar innblástur og ánægju.

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Dr. Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor emeritus, skrifar hér um nýútkomið prédikanasafn dr. Sigurðar Árna Þórðarsonar

Lestur ítarlegs prédikanasafns dr. Sigurðar Árna Þórðarsonar sem jafnframt er afmælisrit hans var mér ánægjuefni. Ritið ber vitni um fjölþætta lífs- og starfsreynslu höfundarog góða menntun. Leiðarstefið er að finna í heiti ritsins, Ástinni, hugtaki sem hann kýs að nota frekar en kærleikshugtakið hefðbundna. Mæramenning er áhugavert hugtak sem hann hefur búið til og lýsir viðbrögðum íslenskra kynslóða við vá, lífi og dauða.

Höfundur prédikar og skrifar af ástríðu. Hann fjallar um efni sem honum er hjartfólgið og leitast við að tjá það á þann hátt sem svo það nái sem best til samtímans. Nýstárlegt orðalag kann á stundum að stinga í augu einhverra. En viðleitni hans að tala inn í aðstæður líðandi stundar er ekki á kostnað hefðbundins kristindóms. Þar stendur höfundur traustum fótum, hefur í framhaldsnámi sínu í Bandaríkjunum einmitt lagt sig eftir því hvað einkenndi íslenska kristni gegnum aldirnar.  Hann skynjar vel að vestræn samfélög séu að breytast og spyr hvort trúin sé að hverfa. „Nei. Guð hættir ekki að vera til þótt fólk og samfélög ruglist,“ svarar hann (bls. 320). Þar segir hann jafnframt að eðli trúar sé að lifa í minningu sögunnar, „en líka að þora að ganga til móts við opna framtíð.“ Fylgni hans við kirkjuárið tryggir að mörg hinna fjölþættu stefja kristninnar skila sér. Hann kýs þó að víkja frá kirkjuárinu á þann hátt að byrja í upphafi almanaksársins.

Í umfjölluninni um þetta áhugaverða rit er staldrað við nokkrar prédikanir sem virðast lýsandi fyrir boðskap Sigurðar Árna. Hann leyfir sér að vera persónulegur á köflum og það er styrkur frekar en veikleiki, hann dregur ekki dul yfir að hann hefur, eins og við öll, orðið fyrir áföllum í lífinu. Ræðurnar voru fluttar í Neskirkju og Hallgrímskirkju á árunum 2001-2023.

Við Hallgrímskirkju störfuðu lengi feðgarnir og biskuparnir Sigurbjörn Einarsson (1911-2008) og Karl Sigurbjörnsson, sem eiga það sameiginlegt að hafa gefið út mikið lesin prédikanasöfn enda báðir afbragðs prédikarar.  Sigurbjörn hefur raunar notið þess álits lengi að vera einstakur í sinni röð. Það er því ánægjulegt að einn eftirmanna þeirra í Hallgrímskirkju hafi fetað í fótspor þeirra og sent frá sér veglegt prédikanasafn.

Erfið bernskureynsla

Sigurður Árni varð sjö ára að aldri fyrir erfiðri reynslu sem hann hefur ekki gleymt. Eldri strákar fengu hann til að klifra inn í skott á bíl inni í bílskúr og skelltu svo lokinu aftur sem og bílskúrshurðinni þar sem bíllinn stóð. Á nokkrum mínútum hrundi tilvera hans, óp hans skiluðu engu. Honum var seint og um síðir hleypt út, þegar hann hafði sannfærst um að engin útgönguleið væri úr líflausri og illa lyktandi farangursgeymslunni. Eina sem hann gat gert var að biðja til Guðs. Í útleggingu sinni af þessari sáru reynslu minnir hann á að innilokun geti valdið fólki djúptækum sálarskaða. Nútímahús séu þannig byggð að fólk eigi ekki að geta lokast inni. En hvað um það þegar við rötum í andlegar ógöngur? spyr Sigurður Árni og trú hans sér í Jesú Kristi leiðina úr höftunum. „Ekkert myrkur er honum of myrkt og engin sálarkreppa er honum ofraun … Hann er við hlið fólks í skotum lífsins, í hellum sorgarinnar…“ (bls. 113). Sár bernskureynsla verður Sigurði Árna efniviður í eina af minnisstæðustu prédikunum hans.

Veislan mikla

Á öðrum sunnudegi eftir þrenningarhátíð er yfirskrift prédikunar Sigurðar Árna: „Veislan mikla.“ Þar gerir hann að umtalsefni kvikmynd sem lengi hefur verið mér kær og ég hef skrifað um. Það er danska kvikmyndin „Gesaboð Babettu“ (1987) um veislu sem var kraftaverk eins og Sigurður Árni orðar það. Myndin hefur augljósa skírskotun til kvöldmáltíðar kirkjunnar.  Sigurður Árni segir að Jesús hafi notað máltíðir til að vera með fólki. Hann segist hafa orðið sannfærður um að  „við þurfum að temja okkur hugarfar veislunnar til að við getum lifað vel“ og við getum valið „hvort lífið er og verður litríkt eða grátt“ (bls. 194). Orðin minna á páskadagsprédikun hans er hann nefnir „Föstudagsfólk eða sunnudagsfólk.“ Þar segir m.a. „Ef við temjum okkur jákvæðni í lífinu höfum við lært lífsleikni sem hjálpar í þrautum og þegar eitthvað verður okkur  mótdrægt. Við verðum þar með sunnudagsfólk,“ segir hann og bætir við: „Frásögn páskanna umbreytti veröldinni,“ og hvetur lesendur, áheyrendur og lesendur til að leyfa þeim boðskap að umbylta lífi sínu (bls. 117).

Skyldleiki Sinaí og Þingvalla – Samræður við Peres

Prédikun sem talaði til mín segir af fundi Sigurðar Árna með þeim merka stjórnmálaleiðtoga Ísraels Shimon Peres (1923-2016) á Þingvöllum í Íslandsheimsókn hans 1993. (Ekki voru allir þingmenn sem sýndu Peres þann sóma heldur neituðu að snæða með honum kvöldverð. Ekki er þess getið í bókinni, en það skammarlega háttalag þingmanna situr fast mér í minni). Hef sjálfur lesið margar bóka Peresar þar sem leynir sér ekki að trúarlegar spurningar og málefni hinna hebresku ritninga eru honum afar hugleikin. Segir Sigurður Árni hve Peres hafi þótt áhugavert að bera saman  sögu Íslendinga og Ísraels til forna. Það hafi lokist upp fyrir honum að sögur Íslands og Ísraels rímuðu og að Þingvellir væru Sínaí norðursins. Friðarsýn Peresar kemur og ágætlega fram í þessari prédikun sem og spurningin um æðsta boðorðið í ljósi gyðingdóms og kristni. Sigurður Árni talar um boðorðin „sem umferðarreglur lífsins og meginreglur laga og samskipta fólks um aldir.“ Í því sambandi er það mér gleðiefni að hann er fjarri því að sniðganga hið fyrra testamenti Biblíunnar, þ.e. hinar hebresku ritningar. Nafnaskráin í lokin sýnir að meðal persóna þaðan sem Sigurður Árni gerir að umtalsefni eru Sara, Abraham,  Jósef, Móse, Samúel, Jesaja, Job og Elía.

Hallgrímskirkja og mæramenning

Sú prédikun Sigurðar Árna sem dregur best saman boðskap hans ber yfirskriftina „Íkon Íslands“ og hefst á tilvitnun í ferðabæn Hallgríms Péturssonar: „Ég byrja reisu mín.“ Þar fjallar hann um Hallgrímskirkju sem hann segir orðna í hugum útlendinga samnefnari þess sem er íslenskt og tákn fyrir land og þjóð. Íkon Íslands. Þar segir Sigurður Árni einnig frá framhaldsnámi sínu í Nashville í Tennesee í Bandaríkjunum. Þar fékk hann nýjan sjónarhól við rannsókn íslenskrar kristnisögu, höfunda eins og Hallgrím og Jón Vídalín. Þar fann hann „andvörp menningar Íslands“ eins og hann orðar það. „Íslensk þjóð glímdi við fæðuskort, sjúkdóma, ógnir náttúru og óréttlæti.“  Íslendingar hafi brugðist við með menningu sem hann kallar „mæramenningu“ og hún hafi haft að geyma skýra siðfræði. Einstaklingurinn var einn af mörgum og skyldi vera til hags samfélagi sínu. Hinn kristni boðskapur hafi fléttast saman við lífsreynslu fólksins. „Samábyrgð, kærleikur, hófstilling og trúmennska og auðmjúk ráðsmennska var til stuðnings í almannavarnarhugsun fortíðar“ (bls. 300-301). Í þessari viskuhefð okkar Íslendinga séu fyrirmyndir um hvernig taka eigi áföllum og hvernig unnt sé að lifa við mæri og lifa af með reisn. Um Hallgrímskirkju segir hann síðan að erindi hennar sé að segja góða sögu gegn allri vá heimsins.

Mikilvæg prédikun sannarlega sem veitir góða innsýn í meginboðskap þeirrar bókar sem hér var gerð að umtalsefni og hefur veitt þeim sem hér ritar innblástur og ánægju.

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir