Það er svo sem margt skrifað í fjölmiðlum. Sumt er gott og annað er miður. Fólk tekur til máls um álitamál eða vill koma einhverjum sérstökum skoðunum á framfæri. Vill kannski vekja athygli á einhverjum góðum málstað.

Orðaflaumurinn fer í stríðum straumi og þungum í nútímanum. Þar er frá mörgu sagt rétt en öðru rangt. Jafnvel vísvitandi.

Fjölmiðlar reyna að vera vandir að virðingu sinni. Eðlileg sjálfsvirðing eykur andlegan styrkleika og leggur grunn að góðum samskiptum við lesendur og samfélag. Það er fjölmiðlum kappsmál. Hluti af þessari sjálfsvirðingu er að fara satt og rétt með, sýna ábyrgð og aðhald í allri samfélagsumræðu.

Þekking og skilningur eru mikilvægar stoðir hjá fjölmiðlum. Sé þekking af skornum skammti er stutt í fordóma en þeir byggjast á því að dæmt er fyrir fram og ályktað út frá röngum staðhæfingum. Fordómar bindast gjarnan ákveðnum málaflokkum eins og útlendingamálum og trúmálum.

Fréttablaðið er annað tveggja dagblaða sem gefið er út hvoru tveggja á pappír og í rafrænu formi. Útbreiðsla þess er mikil enda því dreift ókeypis. Það er opið fyrir alls konar skoðanaskiptum og margar aðsendar greinar þar eru áhugaverðar.

Í blaðinu er einhvers konar leiðaraígildi sem kallast Skoðun. Ýmsir rita þennan pistil eða leiðara. Þar kennir ýmissa grasa eins og gengur.

Sá sem skrifaði þennan skoðanaleiðara í Fréttablaðið í gær (28. desember) var fremur stúrinn og fullyrti býsna margt sem ekki stenst skoðun. Ályktanir sem hann dregur virðast fremur mótast af fyrir fram gefnum skoðunum hans en röklegri niðurstöðu. Þetta er nú svo sem allt kunnugt þegar mönnum er heitt í hamsi og þeir láta fyrir fram óvild sína á tilteknum málstað ráða för. Og geta ekki leynt henni.

Tilefni þessara furðuskrifa var prédikun sem biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, flutti í Grafarvogskirkju, á aðfangadag. Nú er það alltaf gott þegar prédikun vekur athygli en það er miður þegar farið er að kasta ónotum í prédikarann og grýta þjóðkirkjuna. Sjálfur titill skoðanaleiðarans, Aurasálir, er fyrsta grjótið sem flýgur.

Biskupinn viðurkenndi að hafa skoðun í ágætri prédikun og fékk bágt fyrir hjá þeim sem skrifar leiðaraígildið undir skoðunarflaggi Fréttablaðsins. Ekki bara fer leiðarahöfundurinn með rangt mál heldur og snýr út úr. Útúrsnúningar eru kunnugt leiðarstef í fordómum.

Þjóðkirkjan er stærsta félag landsins. Í stóru félagi sem slíku getur margt gerst. Skoðanahöfundurinn segir að þjóðkirkjan sé yfirleitt áberandi vegna væringa, illinda og jafnvel hreinna ofbeldismála innan hennar sjálfrar. Þetta er svo sem öllum kunnugt og hefur þjóðkirkjan tekið mjög faglega á þeim málum og fráleitt reynt að draga fjöður yfir þau. En að fullyrða að þessi mál séu meira áberandi heldur en útbreiðsla fagnaðarerindisins er bara ekki rétt. Þarflaust er að taka það fram þegar slík hneykslismál skjóta upp kolli þá eiga þau sviðið um stund. Slíkt gerist alltaf og þarf engan að undra. Það er eðlilegt og nauðsynlegt. En þegar slík mál íþyngja þjóðkirkjunni hefur kannski aldrei verið brýnna en einmitt þá að boða kærleik fagnaðarerindisins meðal fólks. Það hefur sannarlega verið mjög svo áberandi í hverri sókn landsins og víðar allar tíðir og það vita þau sem sótt hafa kirkjur.

Skoðanahöfundinum eykst ásmegin í miðjum pistli sínum og fullyrðir með ákveðnum hroka að þjóðkirkjan sé slæmur sendiherra málstaðar síns ásamt því að vera glötuð auglýsing fyrir kristna trú. Gaman væri nú að vita á hve mikilli reynslu og þekkingu á starfi þjóðkirkjunnar þessi fullyrðing er byggð. Þetta eru einfaldlega rakalaus gífuryrði sem eru ljóður á öllum skrifum.

Síðan hleypur peningaglýja í augu hins skoðanadjarfa riddara gegn ranglæti heims og kirkju þegar hann talar um milljarða framlög ríkisins til þjóðkirkjunnar og sóknargjöld. Hér hefði betur hinn vandaði fjölmiðlamaður átt að kynna sér grunnstaðreyndir. Það sem hann kallar framlög eru ekki svo. Um er að ræða gagngjald fyrir eigur kirkjunnar sem ríkið hefur tekið yfir með samningi. Það er sanngjarnt að greiða fyrir afnot af annarra eigum. Býst við að viðskiptablað Fréttablaðsins, Markaðurinn, sé því sammála. Og sóknargjöldin eru ekki annað en lögbundin gjöld til sókna og trúar- og lífsskoðanafélaga sem ríkið innheimtir. Skoðanahöfundurinn hefur ekki kynnt sér heldur fallið í fen fordómsins.

Í lok skoðanaleiðarans kemur svo hin svívirðilega vangavelta um heilindi. Áhyggjur biskups Íslands eru settar í lævíslegt og fordómafullt samhengi þar sem gefið er í skyn án þess þó að fullyrða (og það er hluti af rætni) að áhyggjurnar snúist hugsanlega fremur um fjármál en sálarheill barna. Það er bara til eitt orð um svona röksemdafærslu sem er: hún er andstyggileg. Hún á ekki heima í upplýstu samfélagi þekkingar og fordómaleysis.

Svo gott blað sem Fréttablaðið er ætti nú að sjá sóma sinn í því að biðjast afsökunar á þessum óhróðri skoðanaleiðarans nema ef jólakötturinn hafi búið um sig á ritstjórnarskrifstofum þess. Þá er fátt til ráða gagnvart slíkum óvætti.

Hér má lesa skoðanaleiðarann í Fréttablaðinu frá því gær:

(Skjáskot: Kirkjublaðið.is)

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Það er svo sem margt skrifað í fjölmiðlum. Sumt er gott og annað er miður. Fólk tekur til máls um álitamál eða vill koma einhverjum sérstökum skoðunum á framfæri. Vill kannski vekja athygli á einhverjum góðum málstað.

Orðaflaumurinn fer í stríðum straumi og þungum í nútímanum. Þar er frá mörgu sagt rétt en öðru rangt. Jafnvel vísvitandi.

Fjölmiðlar reyna að vera vandir að virðingu sinni. Eðlileg sjálfsvirðing eykur andlegan styrkleika og leggur grunn að góðum samskiptum við lesendur og samfélag. Það er fjölmiðlum kappsmál. Hluti af þessari sjálfsvirðingu er að fara satt og rétt með, sýna ábyrgð og aðhald í allri samfélagsumræðu.

Þekking og skilningur eru mikilvægar stoðir hjá fjölmiðlum. Sé þekking af skornum skammti er stutt í fordóma en þeir byggjast á því að dæmt er fyrir fram og ályktað út frá röngum staðhæfingum. Fordómar bindast gjarnan ákveðnum málaflokkum eins og útlendingamálum og trúmálum.

Fréttablaðið er annað tveggja dagblaða sem gefið er út hvoru tveggja á pappír og í rafrænu formi. Útbreiðsla þess er mikil enda því dreift ókeypis. Það er opið fyrir alls konar skoðanaskiptum og margar aðsendar greinar þar eru áhugaverðar.

Í blaðinu er einhvers konar leiðaraígildi sem kallast Skoðun. Ýmsir rita þennan pistil eða leiðara. Þar kennir ýmissa grasa eins og gengur.

Sá sem skrifaði þennan skoðanaleiðara í Fréttablaðið í gær (28. desember) var fremur stúrinn og fullyrti býsna margt sem ekki stenst skoðun. Ályktanir sem hann dregur virðast fremur mótast af fyrir fram gefnum skoðunum hans en röklegri niðurstöðu. Þetta er nú svo sem allt kunnugt þegar mönnum er heitt í hamsi og þeir láta fyrir fram óvild sína á tilteknum málstað ráða för. Og geta ekki leynt henni.

Tilefni þessara furðuskrifa var prédikun sem biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, flutti í Grafarvogskirkju, á aðfangadag. Nú er það alltaf gott þegar prédikun vekur athygli en það er miður þegar farið er að kasta ónotum í prédikarann og grýta þjóðkirkjuna. Sjálfur titill skoðanaleiðarans, Aurasálir, er fyrsta grjótið sem flýgur.

Biskupinn viðurkenndi að hafa skoðun í ágætri prédikun og fékk bágt fyrir hjá þeim sem skrifar leiðaraígildið undir skoðunarflaggi Fréttablaðsins. Ekki bara fer leiðarahöfundurinn með rangt mál heldur og snýr út úr. Útúrsnúningar eru kunnugt leiðarstef í fordómum.

Þjóðkirkjan er stærsta félag landsins. Í stóru félagi sem slíku getur margt gerst. Skoðanahöfundurinn segir að þjóðkirkjan sé yfirleitt áberandi vegna væringa, illinda og jafnvel hreinna ofbeldismála innan hennar sjálfrar. Þetta er svo sem öllum kunnugt og hefur þjóðkirkjan tekið mjög faglega á þeim málum og fráleitt reynt að draga fjöður yfir þau. En að fullyrða að þessi mál séu meira áberandi heldur en útbreiðsla fagnaðarerindisins er bara ekki rétt. Þarflaust er að taka það fram þegar slík hneykslismál skjóta upp kolli þá eiga þau sviðið um stund. Slíkt gerist alltaf og þarf engan að undra. Það er eðlilegt og nauðsynlegt. En þegar slík mál íþyngja þjóðkirkjunni hefur kannski aldrei verið brýnna en einmitt þá að boða kærleik fagnaðarerindisins meðal fólks. Það hefur sannarlega verið mjög svo áberandi í hverri sókn landsins og víðar allar tíðir og það vita þau sem sótt hafa kirkjur.

Skoðanahöfundinum eykst ásmegin í miðjum pistli sínum og fullyrðir með ákveðnum hroka að þjóðkirkjan sé slæmur sendiherra málstaðar síns ásamt því að vera glötuð auglýsing fyrir kristna trú. Gaman væri nú að vita á hve mikilli reynslu og þekkingu á starfi þjóðkirkjunnar þessi fullyrðing er byggð. Þetta eru einfaldlega rakalaus gífuryrði sem eru ljóður á öllum skrifum.

Síðan hleypur peningaglýja í augu hins skoðanadjarfa riddara gegn ranglæti heims og kirkju þegar hann talar um milljarða framlög ríkisins til þjóðkirkjunnar og sóknargjöld. Hér hefði betur hinn vandaði fjölmiðlamaður átt að kynna sér grunnstaðreyndir. Það sem hann kallar framlög eru ekki svo. Um er að ræða gagngjald fyrir eigur kirkjunnar sem ríkið hefur tekið yfir með samningi. Það er sanngjarnt að greiða fyrir afnot af annarra eigum. Býst við að viðskiptablað Fréttablaðsins, Markaðurinn, sé því sammála. Og sóknargjöldin eru ekki annað en lögbundin gjöld til sókna og trúar- og lífsskoðanafélaga sem ríkið innheimtir. Skoðanahöfundurinn hefur ekki kynnt sér heldur fallið í fen fordómsins.

Í lok skoðanaleiðarans kemur svo hin svívirðilega vangavelta um heilindi. Áhyggjur biskups Íslands eru settar í lævíslegt og fordómafullt samhengi þar sem gefið er í skyn án þess þó að fullyrða (og það er hluti af rætni) að áhyggjurnar snúist hugsanlega fremur um fjármál en sálarheill barna. Það er bara til eitt orð um svona röksemdafærslu sem er: hún er andstyggileg. Hún á ekki heima í upplýstu samfélagi þekkingar og fordómaleysis.

Svo gott blað sem Fréttablaðið er ætti nú að sjá sóma sinn í því að biðjast afsökunar á þessum óhróðri skoðanaleiðarans nema ef jólakötturinn hafi búið um sig á ritstjórnarskrifstofum þess. Þá er fátt til ráða gagnvart slíkum óvætti.

Hér má lesa skoðanaleiðarann í Fréttablaðinu frá því gær:

(Skjáskot: Kirkjublaðið.is)

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir