Inngangur

Í þessari grein verður fjallað um þann hluta af einkennisklæðnaði,[1] eða vinnuklæðnaði, þjóðkirkjupresta sem kallast prestaskyrta og svo kallaðan prestaflibba.[2] Kynntar verða nokkrar tegundir af umræddum flibba, hvaða merkingu hann kann að hafa í kirkjulegu samhengi; hvenær hann er notaður og hvort einhverjar reglur gildi um hann eða ekki. Einnig verður vikið að því hvað og hvort prestar hafi notað áður eitthvert svipað fataeinkenni hversdagslega. Tekið skal fram að hér er ekki um tæmandi athugun að ræða á þessu tiltekna  einkennisfati sem kalla má stéttarauðkenni prestastéttarinnar. Þess vegna eru allar viðbótarupplýsingar vel þegnar og leiðréttingar ef því er að skipta. Þá er og þess að geta að djáknar íklæðast grænum djáknaskyrtum við störf sín og gildir þessi umfjöllun um þær einnig að breyttu breytanda.

Hér verður jöfnum höndum talað um (presta) flibba (sem er laus kragi) og prestaskyrtu,en slík skyrta er ýmist með lausum heilkraga/hálfkraga eða hvítum flipa sem er smeygt undir skyrtukragann. Prestaskyrtan er hið stéttarlega einkenni prestanna. Annars skýrir samhengið hverju sinni um hvað er að ræða þegar það skiptir máli.

Einkennisföt

Enska orðið yfir einkennisföt er uniform (lat. uniformis). Það merkir eitt form og segir í raun að allir eigi að vera í einu formi, sama klæðnaði. Þetta er sérstaklega mikilvægt innan ákveðinna stofnana samfélagsins sem eiga að gæta laga og reglna til að skapa liðsheild og einn anda.

Einstaklingshyggja er rík á okkar tímum. Henni getur fylgt sá ókostur að ekki ganga allir í sama takti en það er stundum nauðsynlegt eins og í her og lögreglu. Í augum stofnana þar sem agi og samstaða er mikilvæg óttast menn að vilji einstaklingsins skapi ókyrrð.[3]

Einkennisföt hafa því jákvætt markmið í sambandi við eðli og umfang starfa þar sem eining og samstaða á að vera sýnileg.

Einkennisklæðnaður fylgir gjarnan þeim er gegna þjónustustörfum í samfélaginu. Öll þekkjum við úr önnum hversdagsleikans einkennisklæðnað starfsfólks í stórmörkuðum Krónunnar og Bónuss sem á að auðvelda viðskiptavinunum að komi auga á það í versluninni til að spyrja einhvers. Það er hin almenna þjónusta. Embættismenn ríkisins eru í þjónustuhlutverkum eins og lögregluþjónar. Lögreglubúningurinn sker þá út frá fjöldanum og auk þess segir hann til um að þar fari embættismaður ríkisins sem gegnir ákveðinni þjónustu fyrir almenning. Um leið og hann er kominn í búninginn er hann þessi embættismaður og persóna hans eða hennar víkur ögn  til hliðar. Enda er orðið embætti dregið af þýska orðinu Amt og merkir auðmýkt – skylt orðinu ambátt.[4]

Þessi táknfræði einkennisklæða kemur vel heim og saman við hvernig litið er á starfsklæðnað presta og breytir í raun engu þótt þeir séu ekki lengur embættismenn heldur starfsmenn kirkjunnar. Hið einfaldasta form hans er prestaskyrtan með flipa eða prestaflibbinn sem segir að hér sé á ferð einstaklingur sem gegni ákveðinni andlegri þjónustu, prestsþjónustu. Hann er frátekinn (á kirkjumáli: vígður) til þessarar þjónustu og stendur fyrir hana. Prestaflibbinn er ytra tákn fyrir þjónustu kirkjunnar.

Hvaðan kemur hvíti embættiskraginn?

Mynd 1. Ýmsar tegundir flibba. Skjáskot úr: Mitchell, J. Jno. J., Men´s Fashion Illustrations from the Turn of the Century. Dover Publications: New York 1990. 

Lausir flibbar sem festir voru við skyrtukraga voru mjög svo í tísku á 19. öld  og voru af margvíslegum gerðum. Í kolasótugum borgum voru þeir heppilegar vegna þess að þeir voru teknir af skyrtunni og þvegnir og stífaðir – ekki þurfti að þvo alla skyrtuna. Þeir voru notaðir líka af prestum á sínum tíma án þess að vera í sjálfu sér einhver hluti af einkennisklæðnaði þeirra. Þetta má greina á gömlum myndum af prestum með pípukraga og undir er almennur borgarlegur flibbi, hvítur. Á sama hátt og prestar brugðu sér í hempu yfir hvíta skyrtuna og settu upp pípukragann.

Mynd 2. Bómullarflibbi 

Það var skoski presturinn dr. Donald McLeod (1794–1868) sem fyrst kom fram með hugmyndina um að bregða hvítum bómullarborða (plastborðinn kom síðar) undir skyrtukraga og þá sögu má rekja til ársins 1865. Áður höfðu spaðar (sjá mynd 4 og 5) verið algengastir meðal kennilýðsins. Þetta bragð skoska klerksins var mjög hagkvæmt því að ef prestur vildi ekki láta vita af því að hann væri í þessari þjónustu þá gat hann kippt borðanum út. Með þessu varð prestaskyrtan til. Ef stóð svo á að hann þyrfti með skjótum hætti að gefa til kynna í hvaða þjónustu hann væri þá gat hann með lítilli fyrirhöfn sett borðann aftur á sinn stað. Þar með var presturinn mættur á svipstundu!

Prestar á 18. og 19. öld gengu venjulega um í hempum eða prestakjólum með háum svörtum krögum en undir voru þeir sumir í hvítri ölbu og kom það þá svo út í hálsmálinu að þar væri hvít rönd.[5]

Mynd 3. Ekki er ólíklegt að einhverjir prestar fyrir aldamótin 1900 og nokkru eftir, hafi verið með svona lausa skyrtuflibba við skyrtur sínar og í hempu með pípukraga – skjáskot úr Vintage men´s collars – Etsy

Sem sé prestaskyrtan er skosk hugmynd og hún er notuð af kirkjudeildum mótmælenda og einnig rómversk-kaþólskum prestum.

Nánar um einkennisklæði presta

Kristinn kennilýður hefur allt frá fjórðu öld notast við sérstök klæði í helgihaldi sínu.[6]

Gerður er munur á messuklæðum og ígangsfötum kennilýðsins. Messuklæði teljast vera þau klæði sem notuð eru í helgihaldi: alba, hökull, stóla og eftir atvikum rykkilín. Hempa sem prestar klæðast telst ekki til messuklæða enda þótt prestur kunni að vera í henni við helgihald og hið sama á við um pípukragann. Hempa og pípukragi eru leifar af daglegum fatnaði menntamanna á 16. öld í Þýskalandi frá tíma Marteins Lúthers. Pípukraginn kom til á sínum tíma sem hlíf fyrir hvítt púður sem menn stráðu yfir hárkollur sínar.

Almennt þurftu prestar að verða sér sjálfir út um hempu og þótti það því sérstakt þegar Brynjólfur biskups Sveinsson gaf séra Hallgrími Péturssyni nývígðum „þokkaleg föt, prestshempu og hest með reiðtygjum svo að hann gæti með fullri virðingu horfið á fund sóknarbarna sinn.“[7]

Enda þótt siðbótarmaðurinn Marteinn Lúther vildi halda í hefðbundin messuklæði[8] þá fór margt á flot á róstusömum siðbótartímum í sambandi við almennan klæðaburð kennilýðsins. Klæðnaður breyttist mjög og hneigðist þá til samruna við tísku líðandi stundar. Gegn þessu reyndi svo lútherska kirkjan að sporna þegar hún var farin að festast í sessi. Embættisbúningur þjóna kirkjunnar var sniðinn eftir kápu siðbótarmannsins Lúthers, sem sé hempan. Hér á landi gaf kirkjuhöfðinginn Guðbrandur tóninn í fatamálum kennilýðsins: klæði óháð tísku, siðsamleg, dökk og víð, aðgreining frá leikmönnum. Þetta stóð svo næstu aldir.[9]

Forveri prestaflibbans – prestaskyrtunnar

Mynd 4. Sr. Tómas Sæmundsson (1807-1841) – með spaða, jarðarför á Breiðabólsstað í Fljótshlíð – skjáskot

Til er mynd frá jarðarför á Breiðabólstað í Fljótshlíð þar sem Fjölnismaðurinn og presturinn sr. Tómas Sæmundsson (1807-1841) jarðsetur. Hann er með svo kallaða spaða um hálsinn en það var sú prestakragategund meðal lútherskra kennimanna sem algengust var fram á 19. öld.[10] Spaðar[11] eru leifar af hvítum hálsklút sem hnýttur var að framan.

Enn tíðkast spaðanotkun meðal kanadískra lögmanna og enskra kórdrengja.[12] Spaðar eru notaðir af fáeinum prestum hér á landi. Þessi prestakragategund, spaðar, er einnig notuð i Þýskalandi meðal mótmælendapresta í helgihaldi sem og í Svíþjóð.

Mynd 5. Spaðar

Mynd 6. Spaðar – mynd frá Lútherska heimssambandinu (LWF) – 2023.

Uppruna spaðanna má leita til hálsklútatísku fyrri alda. Ekki var talið æskilegt að kirkjunnar þjónar fylgdu tískunni hvað gæði klúta og litaval snerti og því fór svo að prestarnir urðu að nota ódýra hvíta hálsklúta[13] sem síðar hafa þróast yfir í spaða.

Karlmenn í enskri borgarastétt á árabilinu 1900-1910 höfðu hálstau af ýmsu tagi: harðir uppháir flibbar, heill hringur, eða hringur með broti að framan, hálsklútar utan um hring og með nælu, beinan kraga eða upp á brotinn. Sýndi það fjölbreytileikann meðal borgaranna. Í ljósi þessa er alls ekki fráleitt að tengja saman tilurð prestaflibbans við þróun í hálsklæðabúnaði karlmanna í lok 19. aldar og við upphaf þeirrar 20stu.[14]

Í einu jólalagi er sungið um það að heimilisfaðirinn eigi í „ógnarbasli með flibbann sinn,“ og sonurinn er beðinn um að finna „flibbahnappinn“.[15] En þessi tiltekni hnappur var notaður til að hneppa hálslíninu, flibbanum, að framan. Sumir prestaflibbar þurfa og hnapp en aðrir eru með þá fasta við kragann svo þeir týnist ekki á ögurstundu. Þeim er hneppt að aftan og framan. Flibbi var sem sé skyrtukragi, laus eða fastur við skyrtuna, hálslín.[16]

Hvenær kom prestaflibbi – prestaskyrta til sögunnar hér á landi?

Flestir íslenskir prestar klæðast nú svokölluðum prestaskyrtum[17]en einkenni þeirra er hvít kragarönd úr plasti, mislöng, sem stungið er inn í hálsfald á skyrtu. Stundum heill hvítur hringur, eða hvítur hringur með kragastalli og fremst lítið bil. Eða hvítt bil á skyrtu sem getur verið í ýmsum litum. Þá er og til skyrtubrjóst eða brjósthlíf, svört og með hvítum kraga, fest um bak með teygju.

Svo virðist sem um efnið sjálft, prestsflibbann/prestaskyrtuna, séu takmarkaðar heimildir nema þá í óbeinum tengslum við önnur kirkjuleg málefni. Ekkert hefur til dæmis verið ritað á íslensku um sögu flibbans eða prestaskyrtunnar eða uppruna hans eftir því sem höfundur þessarar greinar veit best. Nánari rannsókn bíður síns tíma.

Mynd 7. Þrjár myndir af hinum merka klerki sr. Oddi V. Gíslasyni (1836-1911). Sú til vinstri er elst og tekin líklega þá hann var prestur í Kanada. Á miðmyndinni er sr. Oddur hempuklæddur í prestsþjónustu á Íslandi. Myndin hér til hægri er frá 1890 og er minnst á hana í meginmáli. – Bjarmi, kristilegt heimilisrit, VIII., árg. Séra Oddur V. Gíslason. (Hlutafélag í Reykjavík: Reykjavík 15. júlí 1914, 15. tbl.) Forsíðumynd. Ægir – mánaðarrit Fiskifélags Íslands, 29. árg., nr. 4. (Fiskifélag Íslands: Reykjavík 1936), forsíðumynd. Sarpur – Biskup, Farþegaskip, Fornfræðingur, Hópmynd, Sótt 15. desember 2023 – Skjáskot

Elsta mynd sem undirritaður hefur fundið af íslenskum presti með prestaflibba, og það heilhring, er af sr. Oddi V. Gíslasyni (1836-1911).[18] Umrædd mynd af sr. Oddi er eflaust tekin af honum þá hann þjónaði sem prestur í Kanada en þar virðist prestakragi, flibbi, hafa verið notaður allmikið ef dæma má af myndum.

Sr. Oddur var prestur lengst af á Íslandi, Lundi í Borgarfirði og Stað í Grindavík, eða í tæpa tvo áratugi. Hélt til Kanada árið 1894 og þjónaði þar meðal annars íslenskum söfnuðum.[19] Hér heima var hann fyrst og fremst kunnur fyrir frumkvöðlastarf við sjóslysavarnir: „Hann ferðaðist verstöð úr verstöð til að vekja sjómenn til meðvitundar um nauðsyn öryggisútbúnaðar á skipum.“[20]

Skjáskot úr Sarpi

Mynd 8. Um borð í skipinu Thyru 1890 – Skjáskot úr Sarpi  

Ólíklegt verður að teljast að sr. Oddur hafi borið prestaflibbann þá hann gegndi prestsskap hér á landi. Myndir sem teknar voru af honum og sjá má aftast í greininni sýna hann í hempu eða hempulausan. Hér á myndinni[21] til hægri situr hann lengst til hægri og við hlið hans biskupinn yfir Íslandi, sr. Hallgrímur Sveinsson. Hvorugur er með prestaflibba en aðrir embættismenn eru í sínum búningum, við hlið biskupsins landshöfðinginn Magnús Stephensen, svo póstmeistarinn, og lengst til vinstri er forstöðumaður forngripasafnsins. Myndin er frá 1890. Álykta má svo með varfærnum hætti að hefðu prestarnir á myndinni átt slíka prestaflibba eða skoska prestaskyrtu hefði verið heppilegt tækifæri til að skarta þeim á þessari stundu.

Mynd 10. Sr. Haraldur Níelsson (1868-1928) með myndarlegan prestakraga. Þetta er með eldri myndum af presti með prestakraga. Hér kann að gæta enskra áhrifa en sr. Haraldur dvaldist um hríð í Englandi. [22b] Skjáskot úr: Þegar draugur íslensks prests birtist á breskri ljósmynd | Lemúrinn (lemurinn.is)

En til að kanna nánar notkun prestaflibbans/prestaskyrtunnar var farið í gegnum guðfræðingatalið frá 1947 og myndir af prestum kannaðar sem eru með prestakraga. Vissulega er það takmörkuð heimild þar sem ekki er víst að sá sem var með fyrstu mönnum til að nota prestaflibbann hafi birt mynd af sér með hann. Eins var flett í gegnum úrval af ævisögum presta og sú elsta gefin út árið 1953.[22]

Mynd 9. Sr. Jóhann Hannesson (1910-1976), prófessor – skjáskot úr guðfræðingatali gefnu út 1947. Skjáskot: Björn Magnússon. Guðfræðingatal 1847-1976. (Prentsmiðjan Leiftur: Reykjavík 1976), 358 (myndhluti). 

Þegar myndir eru skoðaðar af prestum í guðfræðingatalinu frá 1947 sem geymir myndir þá er svo að sjá að flestir þeirra séu í venjulegri skyrtu og með bindi. Sumir með hvítan harðan flibba (ekki prestaflibba). Aðrir hafa látið birta mynd af sér í hempu og með pípukraga. Í nefndu guðfræðingatali er aðeins einn með svokallaðan prestaflibba, þá tegund sem er heill hvítur hringur (festur í bak með flibbahnappi). Þetta er séra Jóhann Hannesson (1910-1976), prófessor við Háskóla Íslands. Hann var trúboðsprestur í Kína 1939-1946, menntaður í Noregi, London, Kína og víðar.[23] Ekki er hins vegar vitað hvenær myndin er tekin – að minnsta kosti fyrir 1947.

Mynd 11. Sr. Sigurbjörn Einarsson (1911-2008) með prestakraga – myndin til hægri gæti verið frá því um 1941 en hún er tekin á Skógarströnd, Snæfellsnesi, þar sem hann var prestur 1938-1941. Mynd úr: Sigurður A. Magnússon. Sigurbjörn Einarsson – ævisaga, (Setberg: Reykjavík 1988), 113 (myndasíða). 

Þá er til mynd af sr. Sigurbirni Einarssyni, síðar biskupi, tekin á vígsludegi hans 11. september 1938, þar sem hann er augljóslega með prestaflibba.[24] Það er með eldri myndum af íslenskum presti með umræddan flibba sem undirritaður hefur rekist á. Ekki er ósennilegt að Sigurbjörn hafi kynnst prestaflibbanum í Svíþjóð þar sem hann nam klassísk fræði um árabil. Mikið átti eftir að kveða að Sigurbirni í kirkju og þjóðlífi á næstu áratugum og hann varð biskup Íslands 1959 og allt til 1981. Hann var jafnan með hvítan prestaflibba um hálsinn í störfum sínum og í sænskum prestajakka (s. kaftan).[25] Þessi ímynd kann að hafa orðið fyrirmynd presta sem hann vígði sem og kirkjustefna hans sem biskups þar sem kirkjan fékk „greinilegri afmörkun innan íslensks samfélags en lengst af hafði verið í lútherskum sið. Þetta undirstrikaði séra Sigurbjörn einnig með þeim biskupsbúnaði sem hann tók upp: meðal annars mítur. Með þessu verður kirkjan nánast ríki í ríkinu, stefnan er tekin til aðgreiningar.“[26] Kannski var aukin notkun prestaflibba og prestaskyrtu liður í þessari stefnu og afmörkun. Allur einkennisklæðnaður dregur fram afmörkun og aðgreiningu – sem sé prestinum teflt fram sem presti.

Myndband sem er frá árinu 1952 sýnir sr. Eirík Brynjólfsson (1902-1962), sóknarprest á Útskálum, með prestakraga.

Til vinstri: Prestaskyrta með svörtum kraga sem er lægri en hvíti flibbinn. Miðmynd: Venjuleg prestaskyrta – þær eru til í ýmsum litum en djáknar nota grænar, biskupar rauðar og rauðfjólubláar. Til hægri: Lausir plastflibbar

Mynd 12. Til vinstri: Prestaskyrta með svörtum kraga sem er lægri en hvíti flibbinn. Miðmynd: Venjuleg prestaskyrta – þær eru til í ýmsum litum en djáknar nota grænar, biskupar rauðar og rauðfjólubláar. Til hægri: Lausir plastflibbar. Skjáskot.

Á sjöunda áratug síðustu aldar fór einmitt að bera meira en áður á því að nývígðir prestar væru með prestaflibba og í prestaskyrtum. Guðfræðingatal var gefið út 1976. Þegar því er flett sést að talsverð aukning hefur orðið í notkun prestaflibba og prestaskyrtu[27] og þá einkum meðal hinna yngri presta. Nýjasta guðfræðingatalið frá 2002 gefur til kynna að þróunin í notkun þessa fats hafi verið býsna hröð meðal vígðra þjóna.[28]

Árið 1973 var sérstök verslun sett á laggirnar sem sérhæfði sig í ýmsu er tengdist kirkjulegu starfi og prestastétt. Messuklæði og margvíslegir kirkjumunir fengust í þessari verslun. Líklegt má telja að verslunin hafi og flutt inn prestaskyrtu og flibba enda var annar eigenda hennar prestur.[29] Verslunin Kirkjuhúsið sér um þessa þjónustu nú; og vitaskuld er hægt að kaupa prestaskyrtur í útlöndum í kirkjubúðum.

Menningarsögulega gagnasafnið, Sarpur, gefur ekkert upp ef slegið er inn orðið prestaflibbi eða prestaskyrta. Hins vegar ef slegið er inn prestakragi þá koma upp hempuklæddir klerkar með pípukraga. Undir pípukraganum má sjá að flestir eru með harðan venjulegan flibba, hvítan. Tveir eru með prestaflibba og einn í prestaskyrtu. Þeir eru yngstir þeirra sem þar eru sýndir, fæddir á bilinu 1911-1949. Hinir eru allir fæddir fyrir aldamótin eða um.[30]

Eins og fram hefur komið eru í raun ekki við margar ritaðar heimildir að styðjast um efni greinarinnar.

Ómaksins vert væri að gera könnun meðal kennilýðsins um hvaða áhrif þeir telji að umræddur flibbi eða prestaskyrta hafa á sjálfsmynd þeirra og hugmyndir annarra um þau.

Kveðið á um notkun prestaflibba – prestaskyrtu

„Þegar vígður þjónn kirkjunnar kemur fram í embættisnafni getur hann klæðst skyrtu og flibba. Prestar að öllu jöfnu svörtum, gráum, bláum eða hvítum, djáknar grænum, biskupar rauðum eða fjólubláum,“ segir í Samþykktum um innri málefni þjóðkirkjunnar.[31] Þetta er það fyrsta opinberlega sem fram kemur frá kirkjunni um notkun prestaskyrtu og prestaflibba.[32] Nokkuð föst hefð er fyrir því að prestar klæðist gjarnan dökkum fötum og í prestaskyrtu. Þó hafa margir brugðið út frá þeirri venju og fjölbreytni í klæðaburði hefur vaxið til muna. Hins vegar er prestur jafnan í prestaskyrtu undir messuklæðum. Flibbi skyrtunnar er hvítur en nokkrir prestar hafa tekið upp á því að nota flibba í regnbogalitunum í kringum Gleðigönguna. Þannig hefur hvíti plastflipinn verið gerður að baráttuvettvangi. Þá hefur sést flibbi í litum palestínska fánans.

Áður var getið um sænskan prestajakka (s. kaftan) sem sr. Sigurbjörn Einarsson notaði iðulega í störfum sínum sem biskup og einnig sr. Pétur Sigurgeirsson. Þá tóku kvenbiskuparnir, sr. Agnes M. Sigurðardóttir og sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir upp á því að klæðast í störfum sínum finnskum kvenprestajakka.[33]

Merking prestaflibbans

Þau eru mörg táknin sem tengjast kirkju og kristni. Í raun og veru hefur nánast allt í hinu kirkjulega samhengi sínu einhverja merkingu.[34] Klæði þau sem notuð eru hafa merkingu. Hökull sem prestur skrýðist táknar Krist, stólan er tákn ok Krists og þannig mætti lengi telja.[35]

Prestaflibbinn er hvítur á lit og sá litur merkir hreinleika. Þess vegna er það athugandi fyrir presastefnu og kirkjustjórnina hvort kveða eigi skýrar á um einkennisklæði stéttarinnar en nú er gert svo þau ( t.d. litur þeirra) séu ekki háð samfélagslegum skoðunum og jafnvel duttlungum einstakra kennimanna. Eins og minnst var á hér í upphafi er ein ástæða sérstaks einkennisklæðnaðar hvatning til einingar viðkomandi stéttar og stofnunar.

Dulin áminning

Prestaflibbinn minnir ekki aðeins á hvaða starfi viðkomandi einstaklingur gegnir hann getur líka í sumum tilvikum verið dulin áminning um píslir.

Í kristinni hefð er að finna sjálfspyntingarmótíf sem á stöðugt að minna viðkomandi á píslir meistarans frá Nasaret. Það er fyrst og fremst kaþólska hreyfingin Opus Dei sem hefur stundað slíka iðju. Í þessu er ýmsum aðferðum beitt.[36] Aðrir hafa litið svo á að prestaflibbinn, þá heill hringur, sé merki um að þeir séu þrælar Krists (á sama hátt og þrælarnir voru með járnhring um hálsinn) og að auki sé hann óþægilegur, þeir finni sífellt fyrir hörðu plastinu.[37]

Einkennisklæðnaður og vald

Fyrr á öldum giltu ákveðnar reglur um hvers konar fatnaði fólk mátti klæðast og hafði yfirstéttin og þar með valdastéttin hönd í bagga með það. Dró það allt dám af stétt og stöðu viðkomandi. Þessi fatnaður hefur varðveist en ekki fatnaður alþýðunnar sem gegnsleit honum.[38] Valdastéttin, yfirstéttin, hafði fjölda manns í þjónustu sinni, og margt af því fólki var í ákveðnum einkennisbúningum.

Einkennisklæðnaður er ekki aðeins tákn um hlutverk heldur og í mörgum tilvikum um vald. Merki um vald sem einkennisbúningar gefa er mjög augljóst í hernaði en þar er hægt að lesa um stöðu viðkomandi innan hers út frá búningi. Búningnum er auk þess ætlað að efla samstöðu.[39] Hið sama á við um lögreglumenn en þeir standa borgurunum vissulega nær en liðsmenn hers. Eru sýnilegri. Lögreglumaður hefur heimild til að beita ákveðnu valdi við ákveðnar aðstæður. Það er öllum ljóst. Sérstakur fatnaður sem notaður er við helgihald endurspeglar líka stöðu, vald og tilbúna virðingarröð innan kirkjunnar – til dæmis biskupskápur.[40] Prestaflibbi er endurómur af valdi. „Einkennisklæðnaður er aðeins framlenging á vilja einhvers annar,“ er haft eftir ameríska félagsfræðingnum Philip Slater.[41]

Þrátt fyrir misjafnt álit á kennilýðunum meðal landsmanna fyrr á tímum (og reyndar líka nú) þá segir svo í Íslenzkum þjóðháttum: „Í kirkjunni og í prestsverkunum voru þeir (prestarnir, innsk.) hinir vígðu menn sem höfðu ráð á guðlegu valdi, guðlegri huggun, og guðlegum dómi.“[42] Hvort svo er enn skal ósagt látið en engu að síður telur margur kennilýðinn vera í sérstöku sambandi við almættið og hafi jafnvel greiðari aðgang að því en Pétur og Páll sem er náttúrlega misskilningur. Hér gæti og komið til sem er reyndar fyrir utan þessu stuttu grein viðhorf til hins heilaga sem kennilýðurinn fæst við í helgihaldinu. Sá sem er í tengslum við hið heilaga er oft litinn öðrum augum en annað fólk eins og hann sé hálf guðlegur. Þetta gengur hins vegar þvert á lútherska kenningu um samband manns og Guðs.[43]

Einkennisklæðnaður presta stendur líka fyrir vald. Hann minnir á kirkjuvald. Vald sem er líka vandmeðfarið. En hann stendur ekki aðeins fyrir vald heldur líka umhyggju og öryggi. Sá sem þekkir einkennisklæðnaðinn á að geta treyst viðkomandi og veit hvers hann má vænta af honum eða henni. Sama er um lögreglumanninn að segja og prestinn.

Í trúarlegu tilliti líta margir prestar svo á að prestaflibbinn segi þeim að gleyma því ekki hver köllun þeirra sé og starf. Hann getur verið ákveðin sjálfstamning. Presturinn veit að hann er með tákn þess að hann er vígður prestur og það ætti að girða fyrir það að hann geri einhvern óskunda sem ekki er sæmandi stöðu hans og stétt. Þetta á líka við um lögreglumanninn og einkennisklæðnað hans. En þar með er einkennisfatið ekki nein trygging fyrir sómasamlegri hegðun starfsmannsins eins og dæmin sanna.

Einkennisklæðnaði getur líka fylgt sú hætta að viðkomandi hreyki sér upp. „Búningurinn,“ getur fengið svo mikið vægi að hann einn og sér skyggir á persónuna og hefur sig upp fyrir hana. Í krafti einkennisklæðnaðar geta menn stigið fram með þjósti og hroka. Jafnvel beitt þeim tækjum sem starfinu fylgja. Lögreglumaður hefur kylfu til lofts og prestur sendir einhverjum eitraða sendingu með tilvitnun í helga trúartexta til að hnykkja á sendingunni.

Krafist er að virðing sé sýnd einkennisklæðnaði. Auk þess má ekki fara með einkennisbúnað eins og hvern annan klæðnað – til dæmis: „Óheimilt er að nota einkennisbúninginn við aðstæður sem teljast augljóslega vanvirðandi fyrir Landhelgisgæsluna.“[44] Hið sama segir um einkennisbúnað lögreglumanna.[45]

Með þessu er litið á einkennisbúning sem ígildi tákns þeirrar stofnunar sem hann tilheyrir. Óvirðing við búninginn er óvirðing við stofnunina. Lögreglumaður leggst ekki upp við girðingu í búningi sínum þótt þreyttur sé á eftirlitsgöngu sinni og ekki heldur skyldi prestur leggjast flötum beinum við grátur í kirkju sinni í hempu og hökli þó örmagna sé eftir að hafa fermt fjölda barna.

Einkennisklæðnaður dregur mörk á milli borgaranna og þeirra er gegna þjónustu sem krefst slíks fatnaðar. Klæðnaðurinn dregur líka fram stéttamun. Prestur í jakkafötum og í prestaskyrtu er ákveðið tákn fyrir kirkjustofnunina; hann er menntamaður og nýtur oftast einhvers konar virðingar og er að minnsta kosti nú um stundir ágætlega launaður. Prestar í bæjum og borgum skáru sig hér fyrrum frá almennum borgurum í lægri stétt enda þótt þeir ættu að þjóna þeim. En þeir voru ekki eini stéttarhópurinn sem gerði slíkt. Föt draga fram ýmislegt í manneskjunum og sýna stétt og stöðu. Segja má að prestastéttin hafi á vissan hátt skipað sér við hlið efri stétta hvað þetta varðar.[46]

Þó að að prestaflibbinn sé ótvírætt merki um stöðu prestsins og stétt, fyllir prestinn stolti yfir hlutverki sínu, þá veit hann líka að hann getur fengið óvægna gagnrýni stöðu sinnar vegna sem flibbinn gefur merki um.

Tengt þessu er ávarpstitill kennilýðsins, séra, sem flestir prestar halda fast í. Hann er til þess að minna kennimanninn á það hver starfi hans sé og í hvers umboði hann starfar. Það er nefnilega auðvelt fyrir alla að gleyma um stund hver starfi þeirra er í raun og veru. En séra-titillinn er líka merking um aðgreiningu frá öðrum. Það kastar tólfunum þegar prestar ávarpa sjálfa sig með að setja sr-titilinn við undirskrift sína í bréfum. Þá ávísanir tíðkuðust hér fyrrum ritaði einn prestur ætíð undir þær með séra-titlinum fyrir framan nafn sitt. Hvort honum fannst það auka á trú handhafa hennar á að innistæði væri fyrir hendi skal ósagt látið.

Niðurstaða

Hér hefur verið farið nokkrum orðum um prestaflibbann og það sem honum tengist. Lögð hefur verið áhersla á að þetta er frumathugun.

Uppruni prestaflibbans/prestaskyrtunnar hefur verið rakin/n, merking hans og hlutverk. Leitast var við að reyna að átta sig á því hvenær prestaflibbinn kemur til sögunnar meðal íslenskra kennimanna. Engin ákveðin ártöl er hægt að nefna í því sambandi aðeins að það hafi verið á 20. öld. Leiddar voru þó líkur að því að á biskupstíma sr. Sigurbjörns Einarssonar hafi notkun prestaflibbans aukist meðal annars vegna kirkjustefnu hans.

Þá var rætt um einkennisfatnað og vald. Prestaskyrta sem hluti af einkennisbúningnum ber með sér ákveðna tilvísun til stofnunar sem hefur haft töluverð áhrif í samfélaginu – og hefur enn þrátt fyrir að dregið hafi úr þeim.

Prestaflibbinn er sem sé merkilegt fat sem lítill gaumur hefur verið gefinn enda þótt fjöldi presta í nútímanum gangi um í prestaskyrtu.

Þá skal það tekið fram að víðtæk rannsókn á sögu og þróun notkunar á prestaflibba/prestaskyrtu meðal kennilýðs á Íslandi bíður síns tíma.

Uppfært 18. júlí 2024.

Tilvísanir

[1] J. G. Davies, ritstj.,  A Dictionary of Liturgy and Worship (London: SCM, 1972), 365.

[2] Stundum kallað hundaband (e. dog collar). Fleiri kristnar kirkjudeildir notast við prestaskyrtur en þjóðkirkjan.

[3] Bill Dunn, Uniforms (London: Laurence King Publishing, 2009), 6-7.

[4] Einar Sigurbjörnsson, Embættisgjörð – guðfræði þjónustunnar í sögu og samtíð (Reykjavík: Skálholtsútgáfan: Reykjavík 1996), 49.

[5] Viola, Frank og George Barna. Pagan Christianity? Exploring the roots of our church practices (Illinois: Tyndale Publishing House, 2012), 152. Og: The Concise Lexicon of Christianity: Vestments Glossary: from the Concise Lexicon of Christianity (kencollins.com) Sótt 15. desember 2023

[6] F.L. Cross, ritstj., The Oxford Dictionary of the Christian Church (Oxford: Oxford University Press,  1974), 1434 „Vestment.“ Og: Arngrímur Jónsson, Lítúrgía, þættir úr sögu messunnar (Reykjavík: Bjartur, 2007,) 93.

[7] Helgi Skúli Kjartansson. Hallgrímur Pétursson – menn í öndvegi (Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, 1974), 88.

[8] Arngrímur Jónsson, Lítúrgía, þættir úr sögu messunnar (Reykjavík: Bjartur, 2007,) 465.

[9] Æsa Sigurjónsdóttir. Klæðaburður íslenskra karla á 16., 17. og 18. öld – ritröð Sagnfræðistofnunar 13 (Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, 1985), 26-28.

[10] Hjalti Hugason. „Kristnir trúarhættir,” í Íslensk þjóðmenning V. Trúarhættir, ritstj. Frosti Jóhannsson (Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1988), 277.

[11] „hvítur spaði á lausakraga sem prestar nota í stað pípukraga,” Íslensk orðabók, M-Ö, ritstj., Mörður Árnason, (Reykjavík: Edda, 2002), „prestaspaði,“ 1142.

[12] Sigurður Pálsson. Saga og efni messunnar (Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1981), 266.

[13] Karl Sigurbjörnsson, Táknmál trúarinnar (Reykjavík: Skálholtsútgáfan, 1993), 135-136.

[14] Jno. J. Mithell, Men´s Fashion Illustrations from the Turn of the Century (New York: Dover Publications, 1990) 1-102 (um er að ræða myndasíður af karlmönnum í tískuklæðnaði 1900-1910).

[15] Nú er Gunna á nýju skónum | Glatkistan Sótt 15. desember 2023.

[16] Íslensk orðabók, A-L, ritstj., Mörður Árnason (Reykjavík: Edda, 2002), „flibbi,“ 353.

[17] Þess skal og getið að djáknar ganga í samskonar skyrtum nema hvað þær eru ljósgrænar. Biskupar ganga í fjólubláum eða rauðum prestaskyrtum.

[18] „Séra Oddur V. Gíslason,“ Bjarmi, kristilegt heimilisrit, VIII., árg., 15. tbl., 15. júlí 1914, 1-2.

[19] Gunnlaugur Halldórsson, Guðfræðingatal II., 1947-2002 (Reykjavík: Prestafélag Íslands, 2002), 669.

[20] Ólafur Einarsson, „Upphaf verkalýðsbaráttu 1887-1901,“ Saga – tímarit Sögufélags, VII., 1969,  48.

[21] Sarpur – Biskup, Farþegaskip, Fornfræðingur, Hóp… Sótt 15. apríl 2023

[22] Halldór Jónsson, Ljósmyndir I. -II. (Reykjavík: Átthagafélag Kjósverja, 1953 og 1954). Sr. Halldór var f. 1873.

[22b] Pétur Pétursson, Trúmaður á tímamótum (Reykjavík: HÍB, 2011),259-263, 275-278.

[23] Benjamín Kristjánsson, Íslenzkir guðfræðingar 1847-1947 – Kandidatatal. II. bindi (Reykjavík: Leiftur, 1947), 133.

[24] Sigurður A. Magnússon. Sigurbjörn Einarsson – ævisaga (Reykjavík: Setberg, 1988), 113 (myndasíða).

[25] Sigurður A. Magnússon. Sigurbjörn Einarsson – ævisaga (Reykjavík: Setberg, 1988), myndasíður á milli 320-321.

[26] Gunnar Kristjánsson, „Kirkjan í keng,“ Andvari, 1. tbl., 2000, 125. árg., 73.

[27] Björn Magnússon, Guðfræðingatal 1847-1976 (Reykjavík: Prentsmiðjan Leiftur hf., 1976).

[28] Gunnlaugur Halldórsson, Guðfræðingatal I og II., 1947-2002, (Prestafélag Íslands: Reykjavík 2002). Það skal tekið fram að þetta er fyrst og fremst tilfinning þegar umræddum tölum er flett. Nánari rannsókn bíður seinni tíma.

[29] Verzlunin Kirkjufell, Vísir 17. nóvember 1973.

[30] Sarpur – sótt 4. apríl 2023.

[31] „Samþykktir um innri málefni þjóðkirkjunnar,“ í Gerðir kirkjuþings, 40. árg., 2. tbl. 2009, (Kirkjuráð: Reykjavík 2009), 77.

[32] Í Handbók íslensku kirkjunnar frá 1981 eru fyrirmæli um það með hvaða hætti prestur skuli vera skrýddur í kirkjulegum athöfnum.

[33] Sjá: kirkjan.is: Nýr einkennisklæðnaður (kirkjan.is)

[34] Karl Sigurbjörnsson, Táknmál trúarinnar (Reykjavík: Skálholtsútgáfan, 1993), 134-138.

[35] Einar Sigurbjörnsson, Embættisgjörð – guðfræði þjónustunnar í sögu og samtíð (Reykjavík: Skálholtsútgáfan: 1996), 158-163.

[36]„Hann leit niður og virti fyrir sér gaddabeltið sem spennt var um læri hans. …. Áminning um kvöl og pínu Krists.“   Dan Brown, Da Vincy lykillinn, ísl. þýð., Ásta S. guðbjartsdóttir (Reykjavík: Bjartur, 2004), 18. Einnig: „Sá ber kross Krists og fylgir honum, er fyr hans sakar hirtir líkman sinn …“ Íslensk hómilíubók – fornar stólræður (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1993), 54.

[37] Meaning behind Roman Collar –Aleteia – sótt 3. desember 2023. Minna má á Da Vinci Code í þessu sambandi en Sílas munkur bar svo kallað cilice-belti sem sett er göddum er stingast inn í hold. Sjá: Dan Brown, Da Vinci lykillinn, ísl. þýð., Ásta S. Guðbjartsdóttir (Bjartur: Reykjavík, 2004), 299.

[38] Ásdís Jóelsdóttir. Saga hönnunar – frá Egyptum til vorra daga (Reykjavík: IÐNÚ, 2013), 251-252,

[39] Kai S. Nielsen, „Hvorfor uniformer?“ í Dragt og magt, ritstj. Anne Hedeager Krag (Kaupmannahöfn: Museum Tusculanums Forlag, Kaupmannahafnarháskóli, 2003), 227.

[40] Hanne Frøsig Dalgaard, „Bispekåben for Dansk Kirke i Udlandet – kåben som magtsymbol,“ Dragt og magt, ritstj. Anne Hedeager Krag (Kaupmannahöfn: Museum Tusculanums Forlag, Kaupmannahafnarháskóli, 2003), 148. Hér má til gamans vitna til orða Marteins Lúthers þegar hann var spurður hvers vegna hann væri ekki í kórkápu í prédikunarstólnum: „Ég hef ekki lagt kórkápuna til hliðar og myndi óska þess að hún væri enn í notkun og þá sérstaklega í smábæjum og úti á landsbyggðinni þar sem fátækir prestar klæðast kyrtli sem er svo slitinn að enginn veit hvort þetta er prestur, borgari eða bóndi. Þá vildi ég frekar að presturinn væri í kórkápu svo hann hlyti meiri virðingu af.“ Og síðan bætti við í samtalinu: „Þið vitið  að munkakuflarnir voru svo heilagir að munkarnir þurftu ekki neina kórkápu. Þegar ég prédikaði ekki í kórkápu eins og venja var í klaustrinu, tóku sumir það upp eftir mér þegar þeir sáu það. Lögðu kórkápuna frá sér. En þeir vissu ekki hver ástæðan var að ég klæddist ekki kórkápunni. Þannig er nú þessi saga og ekki til eftirbreytni. Ég gæti sannarlega samþykkt að flík eins og kórkápa væri notuð í kirkjunni ef engin misnotkun tengist henni og menn fari ekki að setja traust sitt á hana og telja nauðsynlega hjálpræðinu – og binda samviskuna við hana.“ P. Severinsen, De rette messeklæder – bidrag til kirkeklædernes historie (Kaupmannahöfn: I Kommisson hos G.E.C. GAD, 1924), 44-45. Greinarhöfundur þýddi.

[41] Bill Dunn, Uniforms (London: Laurence King Publishing, 2009), 7.

[42] Jónas Jónsson frá Hrafnagili, Íslenzkir þjóðhættir (Reykjavík: Opna, 2011), 381.

[43] Sjá til dæmis Fræðin minni eftir Martein Lúther, Einar Sigurbjörnsson þýddi. (Reykjavík: Skálholtsútgáfan, 1993), 50. (Dagleg syndajátning).

[44] 1169/2008 – Reglugerð um einkennisbúninga og merki Landhelgisgæslu Íslands. (island.is) – sótt 4. desember 2023.

[45] Reglugerð um einkennisbúninga og merki lögreglunnar. – Brottfallin | Dóms- og kirkjumálaráðuneyti | Reglugerðasafn (reglugerd.is) – sótt 5. desember 2023.

[46] Jonas Frykman og Orvar Löfgren. Culture builders – a historical anthropology of middle-class life, ensk þýðing Alan Crozier, úr sænsku: Den kultiverade människan (New Brunswick: Rutgers University Press:  2008), 259-260.

 Heimildaskrá

Arngrímur Jónsson. Lítúrgía, þættir úr sögu messunnar, Reykjavík: Reykjavík, 2007.

Ásdís Jóelsdóttir. Saga hönnunar – frá Egyptum til vorra daga. Reykjavík: IÐNÚ, 2013.

Benjamín Kristjánsson. Íslenzkir guðfræðingar 1847-1947 – Kandidatatal. II. bindi. Reykjavík: Leiftur, 1947.

Bjarmi, kristilegt heimilisrit, VIII., árg., Séra Oddur V. Gíslason. Hlutafélag í Reykjavík: Reykjavík 15. júlí 1914, 15. tbl., 1 og 2.

Björn Magnússon. Guðfræðingatal 1847-1976. Reykjavík: Prentsmiðjan Leiftur, Reykjavík 1976.

Bands (neckwear) – Wikipedia – sótt 20. nóvember 2023.

Brown, Dan. Da Vinci lykillinn, ísl. þýð., Ásta S. Guðbjartsdóttir. Reykjavík: Bjartur, 2004.

clerical collar – Bing images – sótt 20. nóvember 2023.

A Dictionary of Liturgy and Worship, ritstj., J. G. Davies. London: SCM, 1972.

Dunn, Bill. Uniforms. London: Laurence King Publishing, 2009.

Einar Sigurbjörnsson, Embættisgjörð – guðfræði þjónustunnar í sögu og samtíð. Reykjavík: Skálholtsútgáfan, 1996.

Frykman, Jonas og Orvar Löfgren. Culture builders – a historical anthropology of middle-class life, ensk þýðing Alan Crozier, úr sænsku: Den kultiverade människan. New Brunswick: Rutgers University Press, 2008.

Gunnlaugur Halldórsson, Guðfræðingatal I og II., 1947-2002. Reykjavík: Prestafélag Íslands, 2002.

Helgi Skúli Kjartansson. Hallgrímur Pétursson – menn í öndvegi. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, 1974.

Hjalti Hugason. „Kristnir trúarhættir,” í Íslensk þjóðmenning V. Trúarhættir, ritstj. Frosti Jóhannsson. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1988.

Íslensk hómilíubók – fornar stólræður. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1993.

Íslensk orðabók, ritstj., Mörður Árnason. Reykjavík: Edda, 2002.

Jónas Jónsson frá Hrafnagili, Íslenzkir þjóðhættir. Reykjavík, Opna, 2011.

Karl Sigurbjörnsson, Táknmál trúarinnar. Reykjavík: Skálholtsútgáfan, 1993.

Krag, Anne Hedeager Krag Dragt og magt, ritstj. (Museum Tusculanums Forlag, Kaupmannahafnarháskóli: Kaupmannahöfn 2003).

Mitchell, J. Jno. J., Men´s Fashion Illustrations from the Turn of the Century. New York: Dover Publications, 1990.

Meaning behind Roman Collar –Aleteia – sótt 3. desember 2023.

Nú er Gunna á nýju skónum | Glatkistan Sótt 15. desember 2023.

 The Oxford Dictionary of the Christian Church, ritstj. F.L. Cross. Oxford: Oxford University Press, 1974.

Ólafur Einarsson, „Upphaf verkalýðsbaráttu 1887-1901,“ Saga – tímarit Sögufélags, VII., 1969, Reykjavík, 1969.

Pétur Pétursson, Trúmaður á tímamótum – ævisaga Haralds Níelssonar. Reykjavík: HÍB, 2011.

1169/2008 – Reglugerð um einkennisbúninga og merki Landhelgisgæslu Íslands. (island.is) – sótt 4. desember 2023.

Reglugerð um einkennisbúninga og merki lögreglunnar. – Brottfallin | Dóms- og kirkjumálaráðuneyti | Reglugerðasafn (reglugerd.is) – sótt 4. desember 2023.

„Samþykktir um innri málefni þjóðkirkjunnar,“ í Gerðir kirkjuþings, 40. árg., 2. tbl. 2009. Reykjavík: Kirkjuráð, 2009.

Sarpur – Biskup, Farþegaskip, Fornfræðingur, Hóp… Sótt 15. desemberl 2023.

Sarpur – sótt 4. desember 2023.

Severinsen, P (eder). De rette messeklæder – bidrag til kirkeklædernes historie. Kaupmannahöfn: I Kommisson hos G.E.C. GAD, 1924).

Sigurður Pálsson. Saga og efni messunnar. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1981.

Sigurður A. Magnússon. Sigurbjörn Einarsson – ævisaga. Reykjavík: Setberg, 1988.

Vestments Glossary: from the Concise Lexicon of Christianity (kencollins.com) Sótt 15. apríl 2023

Verzlunin Kirkjufell, Vísir 17. nóvember 1973.

Vintage mens collars – Etsy – sótt 20. desember 2023.

Viola, Frank og George Barna. Pagan Christianity? Exploring the roots of our church practices. Illinois: Tyndale Publishing House, 2012.

White Recycled Plastic Clerical Collar Insert (lotties-eco.co.uk) – sótt 20. desember 2023.

Þegar draugur íslensks prests birtist á breskri ljósmynd | Lemúrinn (lemurinn.is) – sótt 15. desember 2023.

Þórunn Valdimarsdóttir, Pétur  Pétursson. Kristni á Íslandi IV., Til móts við nútímann. Reykjavík: Alþingi, 2000.

Ægir – mánaðarrit Fiskifélags Íslands, 29. árg., nr. 4. Fiskifélag Íslands: Reykjavík 1936, forsíðumynd.

Æsa Sigurjónsdóttir. Klæðaburður íslenskra karla á 16., 17. og 18. öld – ritröð Sagnfræðistofnunar 13. Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, 1985.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Inngangur

Í þessari grein verður fjallað um þann hluta af einkennisklæðnaði,[1] eða vinnuklæðnaði, þjóðkirkjupresta sem kallast prestaskyrta og svo kallaðan prestaflibba.[2] Kynntar verða nokkrar tegundir af umræddum flibba, hvaða merkingu hann kann að hafa í kirkjulegu samhengi; hvenær hann er notaður og hvort einhverjar reglur gildi um hann eða ekki. Einnig verður vikið að því hvað og hvort prestar hafi notað áður eitthvert svipað fataeinkenni hversdagslega. Tekið skal fram að hér er ekki um tæmandi athugun að ræða á þessu tiltekna  einkennisfati sem kalla má stéttarauðkenni prestastéttarinnar. Þess vegna eru allar viðbótarupplýsingar vel þegnar og leiðréttingar ef því er að skipta. Þá er og þess að geta að djáknar íklæðast grænum djáknaskyrtum við störf sín og gildir þessi umfjöllun um þær einnig að breyttu breytanda.

Hér verður jöfnum höndum talað um (presta) flibba (sem er laus kragi) og prestaskyrtu,en slík skyrta er ýmist með lausum heilkraga/hálfkraga eða hvítum flipa sem er smeygt undir skyrtukragann. Prestaskyrtan er hið stéttarlega einkenni prestanna. Annars skýrir samhengið hverju sinni um hvað er að ræða þegar það skiptir máli.

Einkennisföt

Enska orðið yfir einkennisföt er uniform (lat. uniformis). Það merkir eitt form og segir í raun að allir eigi að vera í einu formi, sama klæðnaði. Þetta er sérstaklega mikilvægt innan ákveðinna stofnana samfélagsins sem eiga að gæta laga og reglna til að skapa liðsheild og einn anda.

Einstaklingshyggja er rík á okkar tímum. Henni getur fylgt sá ókostur að ekki ganga allir í sama takti en það er stundum nauðsynlegt eins og í her og lögreglu. Í augum stofnana þar sem agi og samstaða er mikilvæg óttast menn að vilji einstaklingsins skapi ókyrrð.[3]

Einkennisföt hafa því jákvætt markmið í sambandi við eðli og umfang starfa þar sem eining og samstaða á að vera sýnileg.

Einkennisklæðnaður fylgir gjarnan þeim er gegna þjónustustörfum í samfélaginu. Öll þekkjum við úr önnum hversdagsleikans einkennisklæðnað starfsfólks í stórmörkuðum Krónunnar og Bónuss sem á að auðvelda viðskiptavinunum að komi auga á það í versluninni til að spyrja einhvers. Það er hin almenna þjónusta. Embættismenn ríkisins eru í þjónustuhlutverkum eins og lögregluþjónar. Lögreglubúningurinn sker þá út frá fjöldanum og auk þess segir hann til um að þar fari embættismaður ríkisins sem gegnir ákveðinni þjónustu fyrir almenning. Um leið og hann er kominn í búninginn er hann þessi embættismaður og persóna hans eða hennar víkur ögn  til hliðar. Enda er orðið embætti dregið af þýska orðinu Amt og merkir auðmýkt – skylt orðinu ambátt.[4]

Þessi táknfræði einkennisklæða kemur vel heim og saman við hvernig litið er á starfsklæðnað presta og breytir í raun engu þótt þeir séu ekki lengur embættismenn heldur starfsmenn kirkjunnar. Hið einfaldasta form hans er prestaskyrtan með flipa eða prestaflibbinn sem segir að hér sé á ferð einstaklingur sem gegni ákveðinni andlegri þjónustu, prestsþjónustu. Hann er frátekinn (á kirkjumáli: vígður) til þessarar þjónustu og stendur fyrir hana. Prestaflibbinn er ytra tákn fyrir þjónustu kirkjunnar.

Hvaðan kemur hvíti embættiskraginn?

Mynd 1. Ýmsar tegundir flibba. Skjáskot úr: Mitchell, J. Jno. J., Men´s Fashion Illustrations from the Turn of the Century. Dover Publications: New York 1990. 

Lausir flibbar sem festir voru við skyrtukraga voru mjög svo í tísku á 19. öld  og voru af margvíslegum gerðum. Í kolasótugum borgum voru þeir heppilegar vegna þess að þeir voru teknir af skyrtunni og þvegnir og stífaðir – ekki þurfti að þvo alla skyrtuna. Þeir voru notaðir líka af prestum á sínum tíma án þess að vera í sjálfu sér einhver hluti af einkennisklæðnaði þeirra. Þetta má greina á gömlum myndum af prestum með pípukraga og undir er almennur borgarlegur flibbi, hvítur. Á sama hátt og prestar brugðu sér í hempu yfir hvíta skyrtuna og settu upp pípukragann.

Mynd 2. Bómullarflibbi 

Það var skoski presturinn dr. Donald McLeod (1794–1868) sem fyrst kom fram með hugmyndina um að bregða hvítum bómullarborða (plastborðinn kom síðar) undir skyrtukraga og þá sögu má rekja til ársins 1865. Áður höfðu spaðar (sjá mynd 4 og 5) verið algengastir meðal kennilýðsins. Þetta bragð skoska klerksins var mjög hagkvæmt því að ef prestur vildi ekki láta vita af því að hann væri í þessari þjónustu þá gat hann kippt borðanum út. Með þessu varð prestaskyrtan til. Ef stóð svo á að hann þyrfti með skjótum hætti að gefa til kynna í hvaða þjónustu hann væri þá gat hann með lítilli fyrirhöfn sett borðann aftur á sinn stað. Þar með var presturinn mættur á svipstundu!

Prestar á 18. og 19. öld gengu venjulega um í hempum eða prestakjólum með háum svörtum krögum en undir voru þeir sumir í hvítri ölbu og kom það þá svo út í hálsmálinu að þar væri hvít rönd.[5]

Mynd 3. Ekki er ólíklegt að einhverjir prestar fyrir aldamótin 1900 og nokkru eftir, hafi verið með svona lausa skyrtuflibba við skyrtur sínar og í hempu með pípukraga – skjáskot úr Vintage men´s collars – Etsy

Sem sé prestaskyrtan er skosk hugmynd og hún er notuð af kirkjudeildum mótmælenda og einnig rómversk-kaþólskum prestum.

Nánar um einkennisklæði presta

Kristinn kennilýður hefur allt frá fjórðu öld notast við sérstök klæði í helgihaldi sínu.[6]

Gerður er munur á messuklæðum og ígangsfötum kennilýðsins. Messuklæði teljast vera þau klæði sem notuð eru í helgihaldi: alba, hökull, stóla og eftir atvikum rykkilín. Hempa sem prestar klæðast telst ekki til messuklæða enda þótt prestur kunni að vera í henni við helgihald og hið sama á við um pípukragann. Hempa og pípukragi eru leifar af daglegum fatnaði menntamanna á 16. öld í Þýskalandi frá tíma Marteins Lúthers. Pípukraginn kom til á sínum tíma sem hlíf fyrir hvítt púður sem menn stráðu yfir hárkollur sínar.

Almennt þurftu prestar að verða sér sjálfir út um hempu og þótti það því sérstakt þegar Brynjólfur biskups Sveinsson gaf séra Hallgrími Péturssyni nývígðum „þokkaleg föt, prestshempu og hest með reiðtygjum svo að hann gæti með fullri virðingu horfið á fund sóknarbarna sinn.“[7]

Enda þótt siðbótarmaðurinn Marteinn Lúther vildi halda í hefðbundin messuklæði[8] þá fór margt á flot á róstusömum siðbótartímum í sambandi við almennan klæðaburð kennilýðsins. Klæðnaður breyttist mjög og hneigðist þá til samruna við tísku líðandi stundar. Gegn þessu reyndi svo lútherska kirkjan að sporna þegar hún var farin að festast í sessi. Embættisbúningur þjóna kirkjunnar var sniðinn eftir kápu siðbótarmannsins Lúthers, sem sé hempan. Hér á landi gaf kirkjuhöfðinginn Guðbrandur tóninn í fatamálum kennilýðsins: klæði óháð tísku, siðsamleg, dökk og víð, aðgreining frá leikmönnum. Þetta stóð svo næstu aldir.[9]

Forveri prestaflibbans – prestaskyrtunnar

Mynd 4. Sr. Tómas Sæmundsson (1807-1841) – með spaða, jarðarför á Breiðabólsstað í Fljótshlíð – skjáskot

Til er mynd frá jarðarför á Breiðabólstað í Fljótshlíð þar sem Fjölnismaðurinn og presturinn sr. Tómas Sæmundsson (1807-1841) jarðsetur. Hann er með svo kallaða spaða um hálsinn en það var sú prestakragategund meðal lútherskra kennimanna sem algengust var fram á 19. öld.[10] Spaðar[11] eru leifar af hvítum hálsklút sem hnýttur var að framan.

Enn tíðkast spaðanotkun meðal kanadískra lögmanna og enskra kórdrengja.[12] Spaðar eru notaðir af fáeinum prestum hér á landi. Þessi prestakragategund, spaðar, er einnig notuð i Þýskalandi meðal mótmælendapresta í helgihaldi sem og í Svíþjóð.

Mynd 5. Spaðar

Mynd 6. Spaðar – mynd frá Lútherska heimssambandinu (LWF) – 2023.

Uppruna spaðanna má leita til hálsklútatísku fyrri alda. Ekki var talið æskilegt að kirkjunnar þjónar fylgdu tískunni hvað gæði klúta og litaval snerti og því fór svo að prestarnir urðu að nota ódýra hvíta hálsklúta[13] sem síðar hafa þróast yfir í spaða.

Karlmenn í enskri borgarastétt á árabilinu 1900-1910 höfðu hálstau af ýmsu tagi: harðir uppháir flibbar, heill hringur, eða hringur með broti að framan, hálsklútar utan um hring og með nælu, beinan kraga eða upp á brotinn. Sýndi það fjölbreytileikann meðal borgaranna. Í ljósi þessa er alls ekki fráleitt að tengja saman tilurð prestaflibbans við þróun í hálsklæðabúnaði karlmanna í lok 19. aldar og við upphaf þeirrar 20stu.[14]

Í einu jólalagi er sungið um það að heimilisfaðirinn eigi í „ógnarbasli með flibbann sinn,“ og sonurinn er beðinn um að finna „flibbahnappinn“.[15] En þessi tiltekni hnappur var notaður til að hneppa hálslíninu, flibbanum, að framan. Sumir prestaflibbar þurfa og hnapp en aðrir eru með þá fasta við kragann svo þeir týnist ekki á ögurstundu. Þeim er hneppt að aftan og framan. Flibbi var sem sé skyrtukragi, laus eða fastur við skyrtuna, hálslín.[16]

Hvenær kom prestaflibbi – prestaskyrta til sögunnar hér á landi?

Flestir íslenskir prestar klæðast nú svokölluðum prestaskyrtum[17]en einkenni þeirra er hvít kragarönd úr plasti, mislöng, sem stungið er inn í hálsfald á skyrtu. Stundum heill hvítur hringur, eða hvítur hringur með kragastalli og fremst lítið bil. Eða hvítt bil á skyrtu sem getur verið í ýmsum litum. Þá er og til skyrtubrjóst eða brjósthlíf, svört og með hvítum kraga, fest um bak með teygju.

Svo virðist sem um efnið sjálft, prestsflibbann/prestaskyrtuna, séu takmarkaðar heimildir nema þá í óbeinum tengslum við önnur kirkjuleg málefni. Ekkert hefur til dæmis verið ritað á íslensku um sögu flibbans eða prestaskyrtunnar eða uppruna hans eftir því sem höfundur þessarar greinar veit best. Nánari rannsókn bíður síns tíma.

Mynd 7. Þrjár myndir af hinum merka klerki sr. Oddi V. Gíslasyni (1836-1911). Sú til vinstri er elst og tekin líklega þá hann var prestur í Kanada. Á miðmyndinni er sr. Oddur hempuklæddur í prestsþjónustu á Íslandi. Myndin hér til hægri er frá 1890 og er minnst á hana í meginmáli. – Bjarmi, kristilegt heimilisrit, VIII., árg. Séra Oddur V. Gíslason. (Hlutafélag í Reykjavík: Reykjavík 15. júlí 1914, 15. tbl.) Forsíðumynd. Ægir – mánaðarrit Fiskifélags Íslands, 29. árg., nr. 4. (Fiskifélag Íslands: Reykjavík 1936), forsíðumynd. Sarpur – Biskup, Farþegaskip, Fornfræðingur, Hópmynd, Sótt 15. desember 2023 – Skjáskot

Elsta mynd sem undirritaður hefur fundið af íslenskum presti með prestaflibba, og það heilhring, er af sr. Oddi V. Gíslasyni (1836-1911).[18] Umrædd mynd af sr. Oddi er eflaust tekin af honum þá hann þjónaði sem prestur í Kanada en þar virðist prestakragi, flibbi, hafa verið notaður allmikið ef dæma má af myndum.

Sr. Oddur var prestur lengst af á Íslandi, Lundi í Borgarfirði og Stað í Grindavík, eða í tæpa tvo áratugi. Hélt til Kanada árið 1894 og þjónaði þar meðal annars íslenskum söfnuðum.[19] Hér heima var hann fyrst og fremst kunnur fyrir frumkvöðlastarf við sjóslysavarnir: „Hann ferðaðist verstöð úr verstöð til að vekja sjómenn til meðvitundar um nauðsyn öryggisútbúnaðar á skipum.“[20]

Skjáskot úr Sarpi

Mynd 8. Um borð í skipinu Thyru 1890 – Skjáskot úr Sarpi  

Ólíklegt verður að teljast að sr. Oddur hafi borið prestaflibbann þá hann gegndi prestsskap hér á landi. Myndir sem teknar voru af honum og sjá má aftast í greininni sýna hann í hempu eða hempulausan. Hér á myndinni[21] til hægri situr hann lengst til hægri og við hlið hans biskupinn yfir Íslandi, sr. Hallgrímur Sveinsson. Hvorugur er með prestaflibba en aðrir embættismenn eru í sínum búningum, við hlið biskupsins landshöfðinginn Magnús Stephensen, svo póstmeistarinn, og lengst til vinstri er forstöðumaður forngripasafnsins. Myndin er frá 1890. Álykta má svo með varfærnum hætti að hefðu prestarnir á myndinni átt slíka prestaflibba eða skoska prestaskyrtu hefði verið heppilegt tækifæri til að skarta þeim á þessari stundu.

Mynd 10. Sr. Haraldur Níelsson (1868-1928) með myndarlegan prestakraga. Þetta er með eldri myndum af presti með prestakraga. Hér kann að gæta enskra áhrifa en sr. Haraldur dvaldist um hríð í Englandi. [22b] Skjáskot úr: Þegar draugur íslensks prests birtist á breskri ljósmynd | Lemúrinn (lemurinn.is)

En til að kanna nánar notkun prestaflibbans/prestaskyrtunnar var farið í gegnum guðfræðingatalið frá 1947 og myndir af prestum kannaðar sem eru með prestakraga. Vissulega er það takmörkuð heimild þar sem ekki er víst að sá sem var með fyrstu mönnum til að nota prestaflibbann hafi birt mynd af sér með hann. Eins var flett í gegnum úrval af ævisögum presta og sú elsta gefin út árið 1953.[22]

Mynd 9. Sr. Jóhann Hannesson (1910-1976), prófessor – skjáskot úr guðfræðingatali gefnu út 1947. Skjáskot: Björn Magnússon. Guðfræðingatal 1847-1976. (Prentsmiðjan Leiftur: Reykjavík 1976), 358 (myndhluti). 

Þegar myndir eru skoðaðar af prestum í guðfræðingatalinu frá 1947 sem geymir myndir þá er svo að sjá að flestir þeirra séu í venjulegri skyrtu og með bindi. Sumir með hvítan harðan flibba (ekki prestaflibba). Aðrir hafa látið birta mynd af sér í hempu og með pípukraga. Í nefndu guðfræðingatali er aðeins einn með svokallaðan prestaflibba, þá tegund sem er heill hvítur hringur (festur í bak með flibbahnappi). Þetta er séra Jóhann Hannesson (1910-1976), prófessor við Háskóla Íslands. Hann var trúboðsprestur í Kína 1939-1946, menntaður í Noregi, London, Kína og víðar.[23] Ekki er hins vegar vitað hvenær myndin er tekin – að minnsta kosti fyrir 1947.

Mynd 11. Sr. Sigurbjörn Einarsson (1911-2008) með prestakraga – myndin til hægri gæti verið frá því um 1941 en hún er tekin á Skógarströnd, Snæfellsnesi, þar sem hann var prestur 1938-1941. Mynd úr: Sigurður A. Magnússon. Sigurbjörn Einarsson – ævisaga, (Setberg: Reykjavík 1988), 113 (myndasíða). 

Þá er til mynd af sr. Sigurbirni Einarssyni, síðar biskupi, tekin á vígsludegi hans 11. september 1938, þar sem hann er augljóslega með prestaflibba.[24] Það er með eldri myndum af íslenskum presti með umræddan flibba sem undirritaður hefur rekist á. Ekki er ósennilegt að Sigurbjörn hafi kynnst prestaflibbanum í Svíþjóð þar sem hann nam klassísk fræði um árabil. Mikið átti eftir að kveða að Sigurbirni í kirkju og þjóðlífi á næstu áratugum og hann varð biskup Íslands 1959 og allt til 1981. Hann var jafnan með hvítan prestaflibba um hálsinn í störfum sínum og í sænskum prestajakka (s. kaftan).[25] Þessi ímynd kann að hafa orðið fyrirmynd presta sem hann vígði sem og kirkjustefna hans sem biskups þar sem kirkjan fékk „greinilegri afmörkun innan íslensks samfélags en lengst af hafði verið í lútherskum sið. Þetta undirstrikaði séra Sigurbjörn einnig með þeim biskupsbúnaði sem hann tók upp: meðal annars mítur. Með þessu verður kirkjan nánast ríki í ríkinu, stefnan er tekin til aðgreiningar.“[26] Kannski var aukin notkun prestaflibba og prestaskyrtu liður í þessari stefnu og afmörkun. Allur einkennisklæðnaður dregur fram afmörkun og aðgreiningu – sem sé prestinum teflt fram sem presti.

Myndband sem er frá árinu 1952 sýnir sr. Eirík Brynjólfsson (1902-1962), sóknarprest á Útskálum, með prestakraga.

Til vinstri: Prestaskyrta með svörtum kraga sem er lægri en hvíti flibbinn. Miðmynd: Venjuleg prestaskyrta – þær eru til í ýmsum litum en djáknar nota grænar, biskupar rauðar og rauðfjólubláar. Til hægri: Lausir plastflibbar

Mynd 12. Til vinstri: Prestaskyrta með svörtum kraga sem er lægri en hvíti flibbinn. Miðmynd: Venjuleg prestaskyrta – þær eru til í ýmsum litum en djáknar nota grænar, biskupar rauðar og rauðfjólubláar. Til hægri: Lausir plastflibbar. Skjáskot.

Á sjöunda áratug síðustu aldar fór einmitt að bera meira en áður á því að nývígðir prestar væru með prestaflibba og í prestaskyrtum. Guðfræðingatal var gefið út 1976. Þegar því er flett sést að talsverð aukning hefur orðið í notkun prestaflibba og prestaskyrtu[27] og þá einkum meðal hinna yngri presta. Nýjasta guðfræðingatalið frá 2002 gefur til kynna að þróunin í notkun þessa fats hafi verið býsna hröð meðal vígðra þjóna.[28]

Árið 1973 var sérstök verslun sett á laggirnar sem sérhæfði sig í ýmsu er tengdist kirkjulegu starfi og prestastétt. Messuklæði og margvíslegir kirkjumunir fengust í þessari verslun. Líklegt má telja að verslunin hafi og flutt inn prestaskyrtu og flibba enda var annar eigenda hennar prestur.[29] Verslunin Kirkjuhúsið sér um þessa þjónustu nú; og vitaskuld er hægt að kaupa prestaskyrtur í útlöndum í kirkjubúðum.

Menningarsögulega gagnasafnið, Sarpur, gefur ekkert upp ef slegið er inn orðið prestaflibbi eða prestaskyrta. Hins vegar ef slegið er inn prestakragi þá koma upp hempuklæddir klerkar með pípukraga. Undir pípukraganum má sjá að flestir eru með harðan venjulegan flibba, hvítan. Tveir eru með prestaflibba og einn í prestaskyrtu. Þeir eru yngstir þeirra sem þar eru sýndir, fæddir á bilinu 1911-1949. Hinir eru allir fæddir fyrir aldamótin eða um.[30]

Eins og fram hefur komið eru í raun ekki við margar ritaðar heimildir að styðjast um efni greinarinnar.

Ómaksins vert væri að gera könnun meðal kennilýðsins um hvaða áhrif þeir telji að umræddur flibbi eða prestaskyrta hafa á sjálfsmynd þeirra og hugmyndir annarra um þau.

Kveðið á um notkun prestaflibba – prestaskyrtu

„Þegar vígður þjónn kirkjunnar kemur fram í embættisnafni getur hann klæðst skyrtu og flibba. Prestar að öllu jöfnu svörtum, gráum, bláum eða hvítum, djáknar grænum, biskupar rauðum eða fjólubláum,“ segir í Samþykktum um innri málefni þjóðkirkjunnar.[31] Þetta er það fyrsta opinberlega sem fram kemur frá kirkjunni um notkun prestaskyrtu og prestaflibba.[32] Nokkuð föst hefð er fyrir því að prestar klæðist gjarnan dökkum fötum og í prestaskyrtu. Þó hafa margir brugðið út frá þeirri venju og fjölbreytni í klæðaburði hefur vaxið til muna. Hins vegar er prestur jafnan í prestaskyrtu undir messuklæðum. Flibbi skyrtunnar er hvítur en nokkrir prestar hafa tekið upp á því að nota flibba í regnbogalitunum í kringum Gleðigönguna. Þannig hefur hvíti plastflipinn verið gerður að baráttuvettvangi. Þá hefur sést flibbi í litum palestínska fánans.

Áður var getið um sænskan prestajakka (s. kaftan) sem sr. Sigurbjörn Einarsson notaði iðulega í störfum sínum sem biskup og einnig sr. Pétur Sigurgeirsson. Þá tóku kvenbiskuparnir, sr. Agnes M. Sigurðardóttir og sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir upp á því að klæðast í störfum sínum finnskum kvenprestajakka.[33]

Merking prestaflibbans

Þau eru mörg táknin sem tengjast kirkju og kristni. Í raun og veru hefur nánast allt í hinu kirkjulega samhengi sínu einhverja merkingu.[34] Klæði þau sem notuð eru hafa merkingu. Hökull sem prestur skrýðist táknar Krist, stólan er tákn ok Krists og þannig mætti lengi telja.[35]

Prestaflibbinn er hvítur á lit og sá litur merkir hreinleika. Þess vegna er það athugandi fyrir presastefnu og kirkjustjórnina hvort kveða eigi skýrar á um einkennisklæði stéttarinnar en nú er gert svo þau ( t.d. litur þeirra) séu ekki háð samfélagslegum skoðunum og jafnvel duttlungum einstakra kennimanna. Eins og minnst var á hér í upphafi er ein ástæða sérstaks einkennisklæðnaðar hvatning til einingar viðkomandi stéttar og stofnunar.

Dulin áminning

Prestaflibbinn minnir ekki aðeins á hvaða starfi viðkomandi einstaklingur gegnir hann getur líka í sumum tilvikum verið dulin áminning um píslir.

Í kristinni hefð er að finna sjálfspyntingarmótíf sem á stöðugt að minna viðkomandi á píslir meistarans frá Nasaret. Það er fyrst og fremst kaþólska hreyfingin Opus Dei sem hefur stundað slíka iðju. Í þessu er ýmsum aðferðum beitt.[36] Aðrir hafa litið svo á að prestaflibbinn, þá heill hringur, sé merki um að þeir séu þrælar Krists (á sama hátt og þrælarnir voru með járnhring um hálsinn) og að auki sé hann óþægilegur, þeir finni sífellt fyrir hörðu plastinu.[37]

Einkennisklæðnaður og vald

Fyrr á öldum giltu ákveðnar reglur um hvers konar fatnaði fólk mátti klæðast og hafði yfirstéttin og þar með valdastéttin hönd í bagga með það. Dró það allt dám af stétt og stöðu viðkomandi. Þessi fatnaður hefur varðveist en ekki fatnaður alþýðunnar sem gegnsleit honum.[38] Valdastéttin, yfirstéttin, hafði fjölda manns í þjónustu sinni, og margt af því fólki var í ákveðnum einkennisbúningum.

Einkennisklæðnaður er ekki aðeins tákn um hlutverk heldur og í mörgum tilvikum um vald. Merki um vald sem einkennisbúningar gefa er mjög augljóst í hernaði en þar er hægt að lesa um stöðu viðkomandi innan hers út frá búningi. Búningnum er auk þess ætlað að efla samstöðu.[39] Hið sama á við um lögreglumenn en þeir standa borgurunum vissulega nær en liðsmenn hers. Eru sýnilegri. Lögreglumaður hefur heimild til að beita ákveðnu valdi við ákveðnar aðstæður. Það er öllum ljóst. Sérstakur fatnaður sem notaður er við helgihald endurspeglar líka stöðu, vald og tilbúna virðingarröð innan kirkjunnar – til dæmis biskupskápur.[40] Prestaflibbi er endurómur af valdi. „Einkennisklæðnaður er aðeins framlenging á vilja einhvers annar,“ er haft eftir ameríska félagsfræðingnum Philip Slater.[41]

Þrátt fyrir misjafnt álit á kennilýðunum meðal landsmanna fyrr á tímum (og reyndar líka nú) þá segir svo í Íslenzkum þjóðháttum: „Í kirkjunni og í prestsverkunum voru þeir (prestarnir, innsk.) hinir vígðu menn sem höfðu ráð á guðlegu valdi, guðlegri huggun, og guðlegum dómi.“[42] Hvort svo er enn skal ósagt látið en engu að síður telur margur kennilýðinn vera í sérstöku sambandi við almættið og hafi jafnvel greiðari aðgang að því en Pétur og Páll sem er náttúrlega misskilningur. Hér gæti og komið til sem er reyndar fyrir utan þessu stuttu grein viðhorf til hins heilaga sem kennilýðurinn fæst við í helgihaldinu. Sá sem er í tengslum við hið heilaga er oft litinn öðrum augum en annað fólk eins og hann sé hálf guðlegur. Þetta gengur hins vegar þvert á lútherska kenningu um samband manns og Guðs.[43]

Einkennisklæðnaður presta stendur líka fyrir vald. Hann minnir á kirkjuvald. Vald sem er líka vandmeðfarið. En hann stendur ekki aðeins fyrir vald heldur líka umhyggju og öryggi. Sá sem þekkir einkennisklæðnaðinn á að geta treyst viðkomandi og veit hvers hann má vænta af honum eða henni. Sama er um lögreglumanninn að segja og prestinn.

Í trúarlegu tilliti líta margir prestar svo á að prestaflibbinn segi þeim að gleyma því ekki hver köllun þeirra sé og starf. Hann getur verið ákveðin sjálfstamning. Presturinn veit að hann er með tákn þess að hann er vígður prestur og það ætti að girða fyrir það að hann geri einhvern óskunda sem ekki er sæmandi stöðu hans og stétt. Þetta á líka við um lögreglumanninn og einkennisklæðnað hans. En þar með er einkennisfatið ekki nein trygging fyrir sómasamlegri hegðun starfsmannsins eins og dæmin sanna.

Einkennisklæðnaði getur líka fylgt sú hætta að viðkomandi hreyki sér upp. „Búningurinn,“ getur fengið svo mikið vægi að hann einn og sér skyggir á persónuna og hefur sig upp fyrir hana. Í krafti einkennisklæðnaðar geta menn stigið fram með þjósti og hroka. Jafnvel beitt þeim tækjum sem starfinu fylgja. Lögreglumaður hefur kylfu til lofts og prestur sendir einhverjum eitraða sendingu með tilvitnun í helga trúartexta til að hnykkja á sendingunni.

Krafist er að virðing sé sýnd einkennisklæðnaði. Auk þess má ekki fara með einkennisbúnað eins og hvern annan klæðnað – til dæmis: „Óheimilt er að nota einkennisbúninginn við aðstæður sem teljast augljóslega vanvirðandi fyrir Landhelgisgæsluna.“[44] Hið sama segir um einkennisbúnað lögreglumanna.[45]

Með þessu er litið á einkennisbúning sem ígildi tákns þeirrar stofnunar sem hann tilheyrir. Óvirðing við búninginn er óvirðing við stofnunina. Lögreglumaður leggst ekki upp við girðingu í búningi sínum þótt þreyttur sé á eftirlitsgöngu sinni og ekki heldur skyldi prestur leggjast flötum beinum við grátur í kirkju sinni í hempu og hökli þó örmagna sé eftir að hafa fermt fjölda barna.

Einkennisklæðnaður dregur mörk á milli borgaranna og þeirra er gegna þjónustu sem krefst slíks fatnaðar. Klæðnaðurinn dregur líka fram stéttamun. Prestur í jakkafötum og í prestaskyrtu er ákveðið tákn fyrir kirkjustofnunina; hann er menntamaður og nýtur oftast einhvers konar virðingar og er að minnsta kosti nú um stundir ágætlega launaður. Prestar í bæjum og borgum skáru sig hér fyrrum frá almennum borgurum í lægri stétt enda þótt þeir ættu að þjóna þeim. En þeir voru ekki eini stéttarhópurinn sem gerði slíkt. Föt draga fram ýmislegt í manneskjunum og sýna stétt og stöðu. Segja má að prestastéttin hafi á vissan hátt skipað sér við hlið efri stétta hvað þetta varðar.[46]

Þó að að prestaflibbinn sé ótvírætt merki um stöðu prestsins og stétt, fyllir prestinn stolti yfir hlutverki sínu, þá veit hann líka að hann getur fengið óvægna gagnrýni stöðu sinnar vegna sem flibbinn gefur merki um.

Tengt þessu er ávarpstitill kennilýðsins, séra, sem flestir prestar halda fast í. Hann er til þess að minna kennimanninn á það hver starfi hans sé og í hvers umboði hann starfar. Það er nefnilega auðvelt fyrir alla að gleyma um stund hver starfi þeirra er í raun og veru. En séra-titillinn er líka merking um aðgreiningu frá öðrum. Það kastar tólfunum þegar prestar ávarpa sjálfa sig með að setja sr-titilinn við undirskrift sína í bréfum. Þá ávísanir tíðkuðust hér fyrrum ritaði einn prestur ætíð undir þær með séra-titlinum fyrir framan nafn sitt. Hvort honum fannst það auka á trú handhafa hennar á að innistæði væri fyrir hendi skal ósagt látið.

Niðurstaða

Hér hefur verið farið nokkrum orðum um prestaflibbann og það sem honum tengist. Lögð hefur verið áhersla á að þetta er frumathugun.

Uppruni prestaflibbans/prestaskyrtunnar hefur verið rakin/n, merking hans og hlutverk. Leitast var við að reyna að átta sig á því hvenær prestaflibbinn kemur til sögunnar meðal íslenskra kennimanna. Engin ákveðin ártöl er hægt að nefna í því sambandi aðeins að það hafi verið á 20. öld. Leiddar voru þó líkur að því að á biskupstíma sr. Sigurbjörns Einarssonar hafi notkun prestaflibbans aukist meðal annars vegna kirkjustefnu hans.

Þá var rætt um einkennisfatnað og vald. Prestaskyrta sem hluti af einkennisbúningnum ber með sér ákveðna tilvísun til stofnunar sem hefur haft töluverð áhrif í samfélaginu – og hefur enn þrátt fyrir að dregið hafi úr þeim.

Prestaflibbinn er sem sé merkilegt fat sem lítill gaumur hefur verið gefinn enda þótt fjöldi presta í nútímanum gangi um í prestaskyrtu.

Þá skal það tekið fram að víðtæk rannsókn á sögu og þróun notkunar á prestaflibba/prestaskyrtu meðal kennilýðs á Íslandi bíður síns tíma.

Uppfært 18. júlí 2024.

Tilvísanir

[1] J. G. Davies, ritstj.,  A Dictionary of Liturgy and Worship (London: SCM, 1972), 365.

[2] Stundum kallað hundaband (e. dog collar). Fleiri kristnar kirkjudeildir notast við prestaskyrtur en þjóðkirkjan.

[3] Bill Dunn, Uniforms (London: Laurence King Publishing, 2009), 6-7.

[4] Einar Sigurbjörnsson, Embættisgjörð – guðfræði þjónustunnar í sögu og samtíð (Reykjavík: Skálholtsútgáfan: Reykjavík 1996), 49.

[5] Viola, Frank og George Barna. Pagan Christianity? Exploring the roots of our church practices (Illinois: Tyndale Publishing House, 2012), 152. Og: The Concise Lexicon of Christianity: Vestments Glossary: from the Concise Lexicon of Christianity (kencollins.com) Sótt 15. desember 2023

[6] F.L. Cross, ritstj., The Oxford Dictionary of the Christian Church (Oxford: Oxford University Press,  1974), 1434 „Vestment.“ Og: Arngrímur Jónsson, Lítúrgía, þættir úr sögu messunnar (Reykjavík: Bjartur, 2007,) 93.

[7] Helgi Skúli Kjartansson. Hallgrímur Pétursson – menn í öndvegi (Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, 1974), 88.

[8] Arngrímur Jónsson, Lítúrgía, þættir úr sögu messunnar (Reykjavík: Bjartur, 2007,) 465.

[9] Æsa Sigurjónsdóttir. Klæðaburður íslenskra karla á 16., 17. og 18. öld – ritröð Sagnfræðistofnunar 13 (Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, 1985), 26-28.

[10] Hjalti Hugason. „Kristnir trúarhættir,” í Íslensk þjóðmenning V. Trúarhættir, ritstj. Frosti Jóhannsson (Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1988), 277.

[11] „hvítur spaði á lausakraga sem prestar nota í stað pípukraga,” Íslensk orðabók, M-Ö, ritstj., Mörður Árnason, (Reykjavík: Edda, 2002), „prestaspaði,“ 1142.

[12] Sigurður Pálsson. Saga og efni messunnar (Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1981), 266.

[13] Karl Sigurbjörnsson, Táknmál trúarinnar (Reykjavík: Skálholtsútgáfan, 1993), 135-136.

[14] Jno. J. Mithell, Men´s Fashion Illustrations from the Turn of the Century (New York: Dover Publications, 1990) 1-102 (um er að ræða myndasíður af karlmönnum í tískuklæðnaði 1900-1910).

[15] Nú er Gunna á nýju skónum | Glatkistan Sótt 15. desember 2023.

[16] Íslensk orðabók, A-L, ritstj., Mörður Árnason (Reykjavík: Edda, 2002), „flibbi,“ 353.

[17] Þess skal og getið að djáknar ganga í samskonar skyrtum nema hvað þær eru ljósgrænar. Biskupar ganga í fjólubláum eða rauðum prestaskyrtum.

[18] „Séra Oddur V. Gíslason,“ Bjarmi, kristilegt heimilisrit, VIII., árg., 15. tbl., 15. júlí 1914, 1-2.

[19] Gunnlaugur Halldórsson, Guðfræðingatal II., 1947-2002 (Reykjavík: Prestafélag Íslands, 2002), 669.

[20] Ólafur Einarsson, „Upphaf verkalýðsbaráttu 1887-1901,“ Saga – tímarit Sögufélags, VII., 1969,  48.

[21] Sarpur – Biskup, Farþegaskip, Fornfræðingur, Hóp… Sótt 15. apríl 2023

[22] Halldór Jónsson, Ljósmyndir I. -II. (Reykjavík: Átthagafélag Kjósverja, 1953 og 1954). Sr. Halldór var f. 1873.

[22b] Pétur Pétursson, Trúmaður á tímamótum (Reykjavík: HÍB, 2011),259-263, 275-278.

[23] Benjamín Kristjánsson, Íslenzkir guðfræðingar 1847-1947 – Kandidatatal. II. bindi (Reykjavík: Leiftur, 1947), 133.

[24] Sigurður A. Magnússon. Sigurbjörn Einarsson – ævisaga (Reykjavík: Setberg, 1988), 113 (myndasíða).

[25] Sigurður A. Magnússon. Sigurbjörn Einarsson – ævisaga (Reykjavík: Setberg, 1988), myndasíður á milli 320-321.

[26] Gunnar Kristjánsson, „Kirkjan í keng,“ Andvari, 1. tbl., 2000, 125. árg., 73.

[27] Björn Magnússon, Guðfræðingatal 1847-1976 (Reykjavík: Prentsmiðjan Leiftur hf., 1976).

[28] Gunnlaugur Halldórsson, Guðfræðingatal I og II., 1947-2002, (Prestafélag Íslands: Reykjavík 2002). Það skal tekið fram að þetta er fyrst og fremst tilfinning þegar umræddum tölum er flett. Nánari rannsókn bíður seinni tíma.

[29] Verzlunin Kirkjufell, Vísir 17. nóvember 1973.

[30] Sarpur – sótt 4. apríl 2023.

[31] „Samþykktir um innri málefni þjóðkirkjunnar,“ í Gerðir kirkjuþings, 40. árg., 2. tbl. 2009, (Kirkjuráð: Reykjavík 2009), 77.

[32] Í Handbók íslensku kirkjunnar frá 1981 eru fyrirmæli um það með hvaða hætti prestur skuli vera skrýddur í kirkjulegum athöfnum.

[33] Sjá: kirkjan.is: Nýr einkennisklæðnaður (kirkjan.is)

[34] Karl Sigurbjörnsson, Táknmál trúarinnar (Reykjavík: Skálholtsútgáfan, 1993), 134-138.

[35] Einar Sigurbjörnsson, Embættisgjörð – guðfræði þjónustunnar í sögu og samtíð (Reykjavík: Skálholtsútgáfan: 1996), 158-163.

[36]„Hann leit niður og virti fyrir sér gaddabeltið sem spennt var um læri hans. …. Áminning um kvöl og pínu Krists.“   Dan Brown, Da Vincy lykillinn, ísl. þýð., Ásta S. guðbjartsdóttir (Reykjavík: Bjartur, 2004), 18. Einnig: „Sá ber kross Krists og fylgir honum, er fyr hans sakar hirtir líkman sinn …“ Íslensk hómilíubók – fornar stólræður (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1993), 54.

[37] Meaning behind Roman Collar –Aleteia – sótt 3. desember 2023. Minna má á Da Vinci Code í þessu sambandi en Sílas munkur bar svo kallað cilice-belti sem sett er göddum er stingast inn í hold. Sjá: Dan Brown, Da Vinci lykillinn, ísl. þýð., Ásta S. Guðbjartsdóttir (Bjartur: Reykjavík, 2004), 299.

[38] Ásdís Jóelsdóttir. Saga hönnunar – frá Egyptum til vorra daga (Reykjavík: IÐNÚ, 2013), 251-252,

[39] Kai S. Nielsen, „Hvorfor uniformer?“ í Dragt og magt, ritstj. Anne Hedeager Krag (Kaupmannahöfn: Museum Tusculanums Forlag, Kaupmannahafnarháskóli, 2003), 227.

[40] Hanne Frøsig Dalgaard, „Bispekåben for Dansk Kirke i Udlandet – kåben som magtsymbol,“ Dragt og magt, ritstj. Anne Hedeager Krag (Kaupmannahöfn: Museum Tusculanums Forlag, Kaupmannahafnarháskóli, 2003), 148. Hér má til gamans vitna til orða Marteins Lúthers þegar hann var spurður hvers vegna hann væri ekki í kórkápu í prédikunarstólnum: „Ég hef ekki lagt kórkápuna til hliðar og myndi óska þess að hún væri enn í notkun og þá sérstaklega í smábæjum og úti á landsbyggðinni þar sem fátækir prestar klæðast kyrtli sem er svo slitinn að enginn veit hvort þetta er prestur, borgari eða bóndi. Þá vildi ég frekar að presturinn væri í kórkápu svo hann hlyti meiri virðingu af.“ Og síðan bætti við í samtalinu: „Þið vitið  að munkakuflarnir voru svo heilagir að munkarnir þurftu ekki neina kórkápu. Þegar ég prédikaði ekki í kórkápu eins og venja var í klaustrinu, tóku sumir það upp eftir mér þegar þeir sáu það. Lögðu kórkápuna frá sér. En þeir vissu ekki hver ástæðan var að ég klæddist ekki kórkápunni. Þannig er nú þessi saga og ekki til eftirbreytni. Ég gæti sannarlega samþykkt að flík eins og kórkápa væri notuð í kirkjunni ef engin misnotkun tengist henni og menn fari ekki að setja traust sitt á hana og telja nauðsynlega hjálpræðinu – og binda samviskuna við hana.“ P. Severinsen, De rette messeklæder – bidrag til kirkeklædernes historie (Kaupmannahöfn: I Kommisson hos G.E.C. GAD, 1924), 44-45. Greinarhöfundur þýddi.

[41] Bill Dunn, Uniforms (London: Laurence King Publishing, 2009), 7.

[42] Jónas Jónsson frá Hrafnagili, Íslenzkir þjóðhættir (Reykjavík: Opna, 2011), 381.

[43] Sjá til dæmis Fræðin minni eftir Martein Lúther, Einar Sigurbjörnsson þýddi. (Reykjavík: Skálholtsútgáfan, 1993), 50. (Dagleg syndajátning).

[44] 1169/2008 – Reglugerð um einkennisbúninga og merki Landhelgisgæslu Íslands. (island.is) – sótt 4. desember 2023.

[45] Reglugerð um einkennisbúninga og merki lögreglunnar. – Brottfallin | Dóms- og kirkjumálaráðuneyti | Reglugerðasafn (reglugerd.is) – sótt 5. desember 2023.

[46] Jonas Frykman og Orvar Löfgren. Culture builders – a historical anthropology of middle-class life, ensk þýðing Alan Crozier, úr sænsku: Den kultiverade människan (New Brunswick: Rutgers University Press:  2008), 259-260.

 Heimildaskrá

Arngrímur Jónsson. Lítúrgía, þættir úr sögu messunnar, Reykjavík: Reykjavík, 2007.

Ásdís Jóelsdóttir. Saga hönnunar – frá Egyptum til vorra daga. Reykjavík: IÐNÚ, 2013.

Benjamín Kristjánsson. Íslenzkir guðfræðingar 1847-1947 – Kandidatatal. II. bindi. Reykjavík: Leiftur, 1947.

Bjarmi, kristilegt heimilisrit, VIII., árg., Séra Oddur V. Gíslason. Hlutafélag í Reykjavík: Reykjavík 15. júlí 1914, 15. tbl., 1 og 2.

Björn Magnússon. Guðfræðingatal 1847-1976. Reykjavík: Prentsmiðjan Leiftur, Reykjavík 1976.

Bands (neckwear) – Wikipedia – sótt 20. nóvember 2023.

Brown, Dan. Da Vinci lykillinn, ísl. þýð., Ásta S. Guðbjartsdóttir. Reykjavík: Bjartur, 2004.

clerical collar – Bing images – sótt 20. nóvember 2023.

A Dictionary of Liturgy and Worship, ritstj., J. G. Davies. London: SCM, 1972.

Dunn, Bill. Uniforms. London: Laurence King Publishing, 2009.

Einar Sigurbjörnsson, Embættisgjörð – guðfræði þjónustunnar í sögu og samtíð. Reykjavík: Skálholtsútgáfan, 1996.

Frykman, Jonas og Orvar Löfgren. Culture builders – a historical anthropology of middle-class life, ensk þýðing Alan Crozier, úr sænsku: Den kultiverade människan. New Brunswick: Rutgers University Press, 2008.

Gunnlaugur Halldórsson, Guðfræðingatal I og II., 1947-2002. Reykjavík: Prestafélag Íslands, 2002.

Helgi Skúli Kjartansson. Hallgrímur Pétursson – menn í öndvegi. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, 1974.

Hjalti Hugason. „Kristnir trúarhættir,” í Íslensk þjóðmenning V. Trúarhættir, ritstj. Frosti Jóhannsson. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1988.

Íslensk hómilíubók – fornar stólræður. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1993.

Íslensk orðabók, ritstj., Mörður Árnason. Reykjavík: Edda, 2002.

Jónas Jónsson frá Hrafnagili, Íslenzkir þjóðhættir. Reykjavík, Opna, 2011.

Karl Sigurbjörnsson, Táknmál trúarinnar. Reykjavík: Skálholtsútgáfan, 1993.

Krag, Anne Hedeager Krag Dragt og magt, ritstj. (Museum Tusculanums Forlag, Kaupmannahafnarháskóli: Kaupmannahöfn 2003).

Mitchell, J. Jno. J., Men´s Fashion Illustrations from the Turn of the Century. New York: Dover Publications, 1990.

Meaning behind Roman Collar –Aleteia – sótt 3. desember 2023.

Nú er Gunna á nýju skónum | Glatkistan Sótt 15. desember 2023.

 The Oxford Dictionary of the Christian Church, ritstj. F.L. Cross. Oxford: Oxford University Press, 1974.

Ólafur Einarsson, „Upphaf verkalýðsbaráttu 1887-1901,“ Saga – tímarit Sögufélags, VII., 1969, Reykjavík, 1969.

Pétur Pétursson, Trúmaður á tímamótum – ævisaga Haralds Níelssonar. Reykjavík: HÍB, 2011.

1169/2008 – Reglugerð um einkennisbúninga og merki Landhelgisgæslu Íslands. (island.is) – sótt 4. desember 2023.

Reglugerð um einkennisbúninga og merki lögreglunnar. – Brottfallin | Dóms- og kirkjumálaráðuneyti | Reglugerðasafn (reglugerd.is) – sótt 4. desember 2023.

„Samþykktir um innri málefni þjóðkirkjunnar,“ í Gerðir kirkjuþings, 40. árg., 2. tbl. 2009. Reykjavík: Kirkjuráð, 2009.

Sarpur – Biskup, Farþegaskip, Fornfræðingur, Hóp… Sótt 15. desemberl 2023.

Sarpur – sótt 4. desember 2023.

Severinsen, P (eder). De rette messeklæder – bidrag til kirkeklædernes historie. Kaupmannahöfn: I Kommisson hos G.E.C. GAD, 1924).

Sigurður Pálsson. Saga og efni messunnar. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1981.

Sigurður A. Magnússon. Sigurbjörn Einarsson – ævisaga. Reykjavík: Setberg, 1988.

Vestments Glossary: from the Concise Lexicon of Christianity (kencollins.com) Sótt 15. apríl 2023

Verzlunin Kirkjufell, Vísir 17. nóvember 1973.

Vintage mens collars – Etsy – sótt 20. desember 2023.

Viola, Frank og George Barna. Pagan Christianity? Exploring the roots of our church practices. Illinois: Tyndale Publishing House, 2012.

White Recycled Plastic Clerical Collar Insert (lotties-eco.co.uk) – sótt 20. desember 2023.

Þegar draugur íslensks prests birtist á breskri ljósmynd | Lemúrinn (lemurinn.is) – sótt 15. desember 2023.

Þórunn Valdimarsdóttir, Pétur  Pétursson. Kristni á Íslandi IV., Til móts við nútímann. Reykjavík: Alþingi, 2000.

Ægir – mánaðarrit Fiskifélags Íslands, 29. árg., nr. 4. Fiskifélag Íslands: Reykjavík 1936, forsíðumynd.

Æsa Sigurjónsdóttir. Klæðaburður íslenskra karla á 16., 17. og 18. öld – ritröð Sagnfræðistofnunar 13. Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, 1985.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir