Þau eru mörg skrefin sem tekin hafa verið í sögu lýðveldisins sem nú fyllir áttunda tuginn.

Það er öllum hollt að hugsa til þeirra skrefa sem tekin hafa verið í sögu lands og þjóðar frá lýðveldisárinu 1944. Skrefin mörgu hafa flest verið til gæfu þegar upp er staðið þó að deilur kunni að hafa verið miklar um sum þeirra. Allir vita að skref sem tekið er í hugsunarleysi getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Lýðræðið býður upp á hispurslausar umræður um hvert skref og öllum er boðið að taka til máls um þær þó að valdið sé löggjafans sem þjóðin hefur valið. Umfram allt verður umræðan að fara fram og vera vönduð. Heiðarleg og sanngjörn. Það er lýðræðisleg umræða.

Hvert skref segir sína sögu og upplýsir okkur um hvar við erum stödd á vegi lífsins. Skrefin segja líka hvert hugur okkar og vilji stefna. Gæfuspor ilma og þau veita ekki einasta þeim er það stígur gæfu og yndi heldur einnig öðrum sem nær standa. Þau eru líka öðrum hvatning að ganga sömu braut.

Í þessu eins og í svo mörgu öðru gildir að hver maður hafi gát á sjálfum og hafi vit fyrir þeim sem eru að taka sín fyrstu skref út í lífið. Mörg eru gæfusporin sem við höfum stigið á lífsleiðinni og fyrir þau ber að þakka. Eitt þeirra var stofnun lýðveldis á Þingvöllum 17. júní 1944.

Stundum er spurt um þjóðkirkjuna og lýðræðið.

Þjóðkirkjan er sennilega þrátt fyrir allt ákveðin kjölfesta í sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar. Kjölfesta sem allt kristið fólk verður að standa vörð um eftir því sem hægt er í umróti nútímasamfélags. Lýðræði og þjóðkirkja fara saman.

Það er trúfrelsi í landinu eins og öllum er kunnugt um:

Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu (63. gr.).

En þjóðkirkjan nýtur sérstöðu umfram önnur trúfélög og hennar er getið í stjórnarskrá:

Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda (62. gr.).

Stjórnarskrárákvæðið er ekki aðeins sögulegs eðlis heldur má líka skoða það sem þakklæti til kristinnar kirkju fyrir að hafa staðið við hlið landsmanna á liðnum öldum sem og nú. Þjóðkirkjan og önnur kristin trúfélög hafa enda reynst þjóðinni mikil gæfa og veitt fólki andlega og trúarlega leiðsögn og menntun; hið sama má segja um önnur trúfélög sem staldrað hafa styttra við í landinu en kristin kirkja.

Sérstaða þjóðkirkjunnar á sér sögulegar rætur, trúar- og menningarlegar. Þess vegna má ekki gleyma því að það eru gerðar ríkari kröfur af hálfu löggjafans til þjóðkirkjunnar en annarra trúfélaga:

Þjóðkirkjunni ber að halda úti vígðri þjónustu á landinu öllu og tryggja að allir landsmenn geti átt kost á henni (Lög um þjóðkirkjuna frá 2021, 3. gr.).

Þjóðkirkjan virðir lýðræðið hvort heldur beint lýðræði eða fulltrúalýðræði. Það er mjög svo sterk undiralda í kirkjunni og samfélaginu í þá veru að opna dyrnar fyrir aðkomu alls þjóðkirkjufólks að kosningu biskups Íslands svo dæmi sé tekið. Enginn vafi er á því að sú stund kemur að öllu skráðu þjóðkirkjufólki átján ára og eldri gefist kostur á að taka þátt í slíkri kosningu. Það myndi efla kirkjuna og gera meðlimi hennar ánægða sem og fylla þá meiri ábyrgð. Kannski það verði komið í gegn þegar lýðveldið Ísland fagnar aldarafmæli sínu árið 2044?

Gleðilega þjóðhátíð!

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Þau eru mörg skrefin sem tekin hafa verið í sögu lýðveldisins sem nú fyllir áttunda tuginn.

Það er öllum hollt að hugsa til þeirra skrefa sem tekin hafa verið í sögu lands og þjóðar frá lýðveldisárinu 1944. Skrefin mörgu hafa flest verið til gæfu þegar upp er staðið þó að deilur kunni að hafa verið miklar um sum þeirra. Allir vita að skref sem tekið er í hugsunarleysi getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Lýðræðið býður upp á hispurslausar umræður um hvert skref og öllum er boðið að taka til máls um þær þó að valdið sé löggjafans sem þjóðin hefur valið. Umfram allt verður umræðan að fara fram og vera vönduð. Heiðarleg og sanngjörn. Það er lýðræðisleg umræða.

Hvert skref segir sína sögu og upplýsir okkur um hvar við erum stödd á vegi lífsins. Skrefin segja líka hvert hugur okkar og vilji stefna. Gæfuspor ilma og þau veita ekki einasta þeim er það stígur gæfu og yndi heldur einnig öðrum sem nær standa. Þau eru líka öðrum hvatning að ganga sömu braut.

Í þessu eins og í svo mörgu öðru gildir að hver maður hafi gát á sjálfum og hafi vit fyrir þeim sem eru að taka sín fyrstu skref út í lífið. Mörg eru gæfusporin sem við höfum stigið á lífsleiðinni og fyrir þau ber að þakka. Eitt þeirra var stofnun lýðveldis á Þingvöllum 17. júní 1944.

Stundum er spurt um þjóðkirkjuna og lýðræðið.

Þjóðkirkjan er sennilega þrátt fyrir allt ákveðin kjölfesta í sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar. Kjölfesta sem allt kristið fólk verður að standa vörð um eftir því sem hægt er í umróti nútímasamfélags. Lýðræði og þjóðkirkja fara saman.

Það er trúfrelsi í landinu eins og öllum er kunnugt um:

Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu (63. gr.).

En þjóðkirkjan nýtur sérstöðu umfram önnur trúfélög og hennar er getið í stjórnarskrá:

Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda (62. gr.).

Stjórnarskrárákvæðið er ekki aðeins sögulegs eðlis heldur má líka skoða það sem þakklæti til kristinnar kirkju fyrir að hafa staðið við hlið landsmanna á liðnum öldum sem og nú. Þjóðkirkjan og önnur kristin trúfélög hafa enda reynst þjóðinni mikil gæfa og veitt fólki andlega og trúarlega leiðsögn og menntun; hið sama má segja um önnur trúfélög sem staldrað hafa styttra við í landinu en kristin kirkja.

Sérstaða þjóðkirkjunnar á sér sögulegar rætur, trúar- og menningarlegar. Þess vegna má ekki gleyma því að það eru gerðar ríkari kröfur af hálfu löggjafans til þjóðkirkjunnar en annarra trúfélaga:

Þjóðkirkjunni ber að halda úti vígðri þjónustu á landinu öllu og tryggja að allir landsmenn geti átt kost á henni (Lög um þjóðkirkjuna frá 2021, 3. gr.).

Þjóðkirkjan virðir lýðræðið hvort heldur beint lýðræði eða fulltrúalýðræði. Það er mjög svo sterk undiralda í kirkjunni og samfélaginu í þá veru að opna dyrnar fyrir aðkomu alls þjóðkirkjufólks að kosningu biskups Íslands svo dæmi sé tekið. Enginn vafi er á því að sú stund kemur að öllu skráðu þjóðkirkjufólki átján ára og eldri gefist kostur á að taka þátt í slíkri kosningu. Það myndi efla kirkjuna og gera meðlimi hennar ánægða sem og fylla þá meiri ábyrgð. Kannski það verði komið í gegn þegar lýðveldið Ísland fagnar aldarafmæli sínu árið 2044?

Gleðilega þjóðhátíð!

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir