Það gerðist bara þegar ég var í grunnskólanum. Kennarinn bað mig um að lesa upphátt. Án þess að vita hvaðan á mig stóð veðrið fylltist ég hræðslu sem heltók mig allan. Ég nánast hvarf inn í hræðsluna og rann saman við hana. Ég stóð upp og hljóp út úr skólastofunni.

Ég tók eftir því að nemendurnir ráku upp stór augu og kennarinn líka – þau fylgdu mér út úr skólastofunni.

Síðar reyndi ég að útskýra þessa hegðun mína með því að ég hafi þurft að fara á salernið. Ég sá það vel á andlitum þeirra að þau trúðu mér ekki. Og sennilega héldu þau að ég væri að ganga af vitinu og væri að verða vitlaus.

Óttinn við að lesa upphátt fylgdi mér. Smám saman fékk ég kjark til að biðja kennarana um að sleppa mér við að lesa upphátt því að ég væri svo smeykur við það. Sumir trúðu mér og leystu mig undan þessari kvöð en aðrir héldu að ég væri eitthvað að grínast með þá.

Ég dró nokkra mikilvæga lærdóma um fólk af þessari reynslu minni.

Og ég lærði líka margt annað.

Já, mjög líklega eitthvað sem gerir mér fært að standa hér í dag og lesa upphátt fyrir framan áheyrendur. Og nú nær því alveg óttalaust.

Hvað var það sem ég lærði?

Það var eins og hræðslan tæki með einhverjum hætti málið frá mér og ég þyrfti svo að segja að sækja það aftur. Og ef það ætti að takast þá gat það ekki farið samkvæmt því sem aðrir vildu heldur aðeins eftir mínum leiðum.

Ég tók upp á því að skrifa mína eigin texta, lítil ljóð og stuttar frásagnir.

Og ég komst að raun um að þessi iðja mín fyllti mig trausti, veitti mér andstæðu óttans.

Það var eins og ég fyndi stað inni í sjálfum mér sem aðeins var minn. Á þeim stað gat ég skrifað það sem ég einn átti.

Nú um hálfri öld síðar sit ég enn við skriftir og skrifa enn þá frá þessum leynda stað innra með mér, stað sem ég veit sannast sagna ekkert meira um en það eitt að hann er til.

Norska skáldið Olav H. Hauge[1] hefur skrifað ljóð þar sem hann líkir því að yrkja við að vera barn og reisa laufskýli í skóginum, skríða um inni í þeim, og kveikja á kertum. Sitja þar og finna til öryggis á dimmum haustkvöldum.

Mér finnst þetta vera vel orðað um upplifun mína af því að skrifa. Nú – um hálfri öld síðar.

Og ég lærði meira. Ég lærði að það er að minnsta kosti hvað mig snertir mikill munur á hinu talaða máli og því ritaða, eða milli hins talaða máls og bókmenntamálsins.

Talað mál er oft einræða þar sem boðskap er miðlað um að eitthvað sé með þessum hætti eða öðrum, eða miðlun boðskapar í búningi mælskulistar sem ætlað er að telja einhverjum hughvarf eða sannfæra.

Bókmenntamálið er aldrei með þessum hætti. Það miðlar ekki. Miklu fremur er það merking en samskipti. Það býr yfir eigin tilveru.

Þess vegna eru gott ljóð og allar leiðir miðlunar augljósar í mótsögn hver við aðra hvort heldur miðlunin er trúarlegs eðlis eða úr ranni stjórnmála – eða hvar sem hún kann nú að eiga rætur sínar.

Af ótta við að lesa upphátt gekk ég inn í einsemdina sem er meira og minna hluti af lífi þeirrar manneskju sem fæst við skriftir. Og þar hef ég dvalist síðan.

Ég hef skrifað heilmikið af prósatexta og leikritum.

Og auðvitað er einkenni leikrita ritað talmál þar sem skoðanaskipti, samtalið, eða oft tilraun til samtals, og einhverjar einræður, er hluti af tilbúnum heimi. Já, hluti sem ekki miðlar heldur á sér sjálfstæða tilveru. Þess sem er.

Þegar kemur að prósatexta þá hefur Mikhail Bakhtin[2] rétt fyrir sér í því að sjálf tjáningin, það að segja frá, geymi tvær raddir.

Til að útskýra það aðeins: Rödd sem tilheyrir þeim sem talar, þeim sem skrifar, og rödd sem tilheyrir þeim sem sagt er frá. Þessar raddir renna stundum saman í eitt svo að það er ómögulegt að segja til um hver það er sem talar.

Það verður hreint út sagt til tvöföld rödd, skrifrödd ef svo má segja – og hún er að sjálfsögðu líka hluti af hinni tilbúnu veröld og er rökvísin í henni.

Hvert einasta verk sem ég hef skrifað er svo að segja sinn eigin ímyndaði alheimur, tilbúin veröld. Nýr heimur í hverju leikriti, hverri sögu.

En gott ljóð – ég hef nefnilega ort mörg ljóð – er líka heimur út af fyrir sig – það tengist fyrst og fremst sjálfu sér. Síðan getur hver sem les ljóðið stigið inn í heim þess – já, það er miklu frekar nokkurs konar samfélag heldur en samskipti.

Í raun og veru á þetta við um allt sem ég hef skrifað.

Eitt er næsta víst, ég hef aldrei skrifað neitt til að tjá mig eins og það er orðað, heldur miklu fremur til þess að komast undan sjálfum mér.

Nú, ég varð á endanum leikritahöfundur, já og hvað skyldi ég geta sagt um það?

Ég skrifaði skáldsögur og orti, hafði enga löngun til að skrifa fyrir leikhús. Tilraun á vegum þess opinbera var ýtt úr vör og hún snerist um að fá fólk til að skrifa fleiri ný norsk leikrit. Og ég fékk tilboð, þá fátækur rithöfundur, um að skrifa fyrir væna fúlgu upphafsatriði í leikrit sem lauk með því að ég skrifaði heilt leikrit. Það var mitt fyrsta leikrit og enn það mest leikna, Einhver ætlar að koma.[3]

Ekkert kom mér eins á óvart á öllum rithöfundarferli mínum eins og það að skrifa leikrit í fyrsta sinn. Ég hafði reynt að skrifa hvort tveggja prósatexta og ljóð það sem yfirleitt – á hversdagslegu máli – er ekki hægt að segja með orðum. Ég reyndi að tjá það sem er ósegjanlegt en það var ein ástæðan fyrir því að ákveðið var að veita mér Nóbelsverðlaunin.

Það mikilvægasta í lífinu er ekki hægt að tjá í orðum, heldur aðeins með því að skrifa það – svo leikið sé með fræga tilvitnun í Jacques Derrida.[4]

Ég reyndi sem sé að gefa hinni þöglu ræðu mál.

Þegar ég skrifaði leikrit gat ég notað hina þögulu ræðu, þögnina, með allt öðrum hætti en í prósatexta og ljóðum. Ég þurfti bara að skrifa orðið þögn og þar með var hin þögula ræða komin. Í leikritum mínum er orðið þögn án nokkurs vafa mikilvægasta og algengasta orðið – löng þögn, stutt þögn eða bara þögn.

Þessar þagnir geta falið í sér svo mikið – eða lítið. Eitthvað sem ekki er hægt að segja, eitthvað sem ekki er vilji til að segja, eða verður best orðað án þess að segja nokkuð.

Samt er ég nokkuð viss um að það sem tali mest í þögnunum sé kyrrðin.

Í prósatextum mínum gegna endurtekningar kannski því hlutverki sem er líkast þögnunum i leikritunum.

Eða kannski hugsa ég um þetta svona að á meðan þögul ræða er í leikritinu þá sé þögult tungumál bak við hið skrifaða tungumál í skáldsögunum. Og ef ég ætla að skrifa góðar bókmenntir þá verður líka að tjá þessa þögulu ræðu, til dæmis í Septology[5]; þar er þetta þögula tungumál svo notuð séu einföld dæmi, en þó raunveruleg, að fyrsti Asla og annar Asla,[6] geta vel verið sama persónan, og að öll þessi langa skáldsaga, um tólf hundruð blaðsíður, sé kannski þegar öllu er á botninn hvolft lýsing á víðáttumiklu núi.

En þögult ávarp, eða þögult tungumál, talar út frá heildinni í ritverki. Hvort sem það er skáldsaga eða leikrit, eða leikhúsverk, þá eru það ekki einstakir hlutar sem skipta máli, það er heildin sem einnig verður að vera í hverju einasta smáatriði – eða kannski voga ég mér að tala um anda heildarinnar, anda sem talar eins og bæði úr nálægð og fjarlægð.

Og hvað heyrum við ef hlustað er nógu vel?

Við heyrum þögnina.

Eins og sagt er þá er aðeins hægt að heyra rödd Guðs í þögninni.

Kannski.

Til þess að koma aftur til jarðarinnar þá ætla ég að nefna dálítið annað sem skrif fyrir leikhúsið hafa gefið mér. Skrif eru sem sé einmanaleg iðja, og einsemdin er góð – svo lengi sem leiðin til baka til annarra er opin – svo vitnað sé til annars ljóðs eftir Olav H. Hauge.[7]

Og það sem greip mig fyrst þegar ég sá verk á sviði sem ég hafði skrifað var einmitt það andstæða við einsemdina, það var samfélag, já, að skapa list með því að deila list – og það veitti mér gleði og öryggi.

Þessi tilfinning hefur síðan fylgt mér. Hún hefur gert það að verkum að ég hef ekki aðeins með kyrrlátum huga lifað af heldur hef ég líka haft einhvers konar gleði af jafnvel lélegum uppfærslum á verkum mínum.

Leikhús er eiginlega risastór hlustun – leikstjóri á, eða ætti í öllu falli, að hlusta á textann á sama hátt og leikarinn hlustar á hann og mótleikarann og leikstjórann – eins og áhorfendur hlusta á alla sýninguna.

Skrif fyrir mér eru það sama og að hlusta: þegar ég skrifa undirbý ég mig aldrei, skipulegg ekkert, ég hlusta mig áfram og í gegn. Eigi ég nota líkingu fyrir það að skrifa þá væri það sem sé að hlusta.

Þess vegna minnir ljóðagerð einna mest á tónlist. Á vissu skeiði táningsáranna þegar hugur minn var upptekinn við tónlist stefndi ég svo að segja beint frá henni til þess að skrifa. Eiginlega hætti ég algerlega bæði að leika tónlist og hlusta á tónlist og byrjaði að skrifa. Í skrifum mínum reyndi ég að skapa eitthvað af þeirri reynslu sem hljóðfæraleikurinn hafði gefið mér. Það er þetta sem ég gerði þá og geri enn.

Svo er eitt enn, kannski dálítið merkilegt. Ég fæ alltaf þá tilfinningu að textinn sem ég skrifa hafi þegar verið skrifaður. Hann sé til þarna fyrir utan eða á einhverjum öðrum stað, ekki inni í mér, og að þetta snúist aðeins um að skrifa textann upp áður en hann hverfur.

Stundum næ ég því án þess að breyta nokkru. Í öðrum tilvikum verð ég eins og að leiða sjálfan mig áfram að textanum með því að umskrifa hann, strika út, reyna af fyllstu varúð að koma textanum til skila sem þegar hefur verið skrifaður.

Það fór svo að ég sem vildi ekki skrifa fyrir leikhús gerði ekkert annað í ein fimmtán ár.

Leikritin sem ég skrifaði voru meira að segja sett á svið og síðar meir voru fjölmargar uppfærslur á þeim í mörgum löndum.

Ég skil það ekki enn.

Lífið er ekki gert til þess að skilja það.

Á sama hátt og ég skil ekki að ég skuli standa hérna núna og reyna að segja eitt og annað misgáfulegt um hvað felist í því að fást við skriftir vegna þess að Nóbelsverðlaunin hafa komið í hlut minn.

Eftir því sem mér skilst þá er ástæða þess að mér var sýndur þessi heiður tengd bæði leikritun minni og prósagerð. Eftir að hafa skrifað svo að segja bara leikrit í mörg ár þá fannst mér skyndilega verið nóg komið og meira en það. Ég hætti að skrifa leikrit.

Skrif hafa orðið að vana og maður getur ekki hugsað sér lífið án þess að skrifa – kannski má kalla það sjúkdóm eins og Marguerite Duras[8] gerði – og þess vegna ákvað ég að snúa aftur til upphafsins, skrifa prósa og stöku ljóð af og til eins og ég hafði gert meira og minna í um áratug áður en ég reyndi fyrir mér sem leikritahöfundur.

Og það hef ég gert síðastliðin tíu-fimmtán ár. Þegar ég byrjaði af alvöru að skrifa prósatexta aftur var ég ekki viss um hvort ég kynni það enn þá. Fyrst skrifaði ég Þríleikinn[9] – og upplifði það sem mikla staðfestingu á því að ég hefði enn eitthvað fram að færa sem prósahöfundur þegar ég fékk bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs[10] fyrir það skáldverk.

Þá skrifaði ég Septology.[11]

Meðan á þeirri vinnu stóð lifði ég nokkrar af mínum hamingjusömustu stundum sem rithöfundur eins og til dæmis þegar Asle finnur tvífara sinn, Asle[12] liggjandi í snjónum og bjargar þar með lífi hans. Eða við sögulok þegar Asle, aðalpersónan, siglir út í sína hinstu för, í gömlum og lúnum báti, með Åsleik[13], sem var besti vinur hans og sá eini, til að halda jólin hátíðleg með systur Åsleiks.

Ég hafði ekki hugsað mér að skrifa langa skáldsögu en sagan skrifaði sig svo að segja sjálf. Og það varð löng skáldsaga, margir hlutar hennar runnu svo ljúflega meðan ég skrifaði svo engu þurfti að breyta.

Og þetta held ég að sé það sem komist næst því sem kallast hamingja.

Allt Sjöbindaverkið (Septology)[14]minnir mjög svo á annað sem ég hef skrifað áður – en þó í öðru ljósi.

Það er ekki neitt uppátæki þó að það sé ekki einn einasti punktur í þessari löngu skáldsögu. Sagan skrifaði sig bara sjálf með þessum hætti, streymdi fram, iðuköst sem þurftu ekki á neinum punktum að halda.

Ég sagði einhvern tímann í viðtali að ljóðagerð væri nokkurs konar bænamál. Og ég skammaðist mín alveg hræðilega þegar ég sá það á prenti. Seinna las ég mér til huggunar að Frans Kafka[15] hefði sagt það sama. Nú, kannski – þrátt fyrir allt?

Fyrstu bækur mínar fengu nokkuð slæma gagnrýni og ég ákvað að hlusta ekki á gagnrýnendurna heldur stóla á sjálfan mig, já, halda fast við mitt. Hefði ég ekki gert það, já, þá hefði ég hætt að skrifa eftir að fyrsta skáldsagan mín, Raudt, svart,[16] kom út fyrir fjörutíu árum.

Seinna fékk ég oftast góða gagnrýni og fór meira að segja að hreppa verðlaun. Ég hugsaði með mér að það væri mikilvægt að halda sér fast við sömu skoðun: ef ég hlustaði ekki á slæma gagnrýni þá skyldi meðvindurinn ekki heldur trufla mig. Ég ætlaði bara að standa fast við mitt og ekkert annað.

Og ég tel að mér hafi tekist það. Svo sannarlega trúi ég því einlæglega að ég muni sömuleiðis ekki hvika frá því því jafnvel eftir að hafa fengið Nóbelsverðlaunin.

Þegar tilkynnt var að ég fengi Nóbelsverðlaunin í bókmenntum fékk ég fjöldann allan af tölvupóstum og hamingjuóskum og það gladdi mig að sjálfsögðu. Flestar kveðjurnar voru jarðbundnar og fylltar gleði. Nokkrir skrifuðu að þeir hefðu hrópað upp af gleði, aðrir að þeir hefðu farið að gráta. Það snart mig mikið.

Það eru mörg sjálfsvíg í ljóðum mínum. Fleiri en mér er bærilegt að hugsa um. Ég hef óttast að með því hafi ég tekið þátt í því að lögleiða sjálfsvíg. Þess vegna gat ekkert haft eins djúp áhrif á mig eins og þau sem skrifuðu mér af hreinskilni og sögðu að ljóð mín hefðu í einu orði sagt bjargað lífi þeirra.

Ég hef alltaf vitað að ljóð geta bjargað lífi. Kannski hefur það bjargað lífi mínu. Og ef ljóð mín geta bjargað lífi annarra, já, þá getur ekkert annað glatt mig meira en það.

Þakkir til sænsku akademíunnar fyrir að veita mér Nóbelsverðlaunin í bókmenntum.

Og þakkir til Guðs.


© NOBELSTIFTELSEN 2023


Jon Fosse flytur fyrirlestur sinn hjá sænsku akademíunni 7. desember sl. Mynd: Anna Svanberg

Hér er fyrirlesturinn tiltækur á norsku, ensku og sænsku.

Nýr Nóbelsverðlaunahafi á brýnt erindi við samtímann – RÚV.is (ruv.is)

Tilvísanir þýðanda:

[1] F. 1908 og d. 1994.

[2] Rússneskur heimspekingur og bókmenntagagnrýnandi, f. 1895 og d. 1975.

[3] Hann lauk við það 1992. Á norsku: Nokon kjem til å komme.

[4] Franskur heimspekingur, f. 1930 og d. 2004. Tilvitnunin er: „Það sem ekki er hægt að segja má umfram allt ekki þegja um heldur skrifa.“

[5] Sjöbindaverkið (Septology), skáldsaga eftir Jon Fosse í sjö bindum, hans stærsta verk.

[6] Asle er aðalpersóna sögunnar, málari, ekkjumaður. Hann á sér tvífara með sama nafni og báðir glíma við verufræðilegar spurningar lífsins um dauða, ást, trú og vonleysi.

[7] F. 1908 og d. 1994.

[8] Frönsk skáldkona, skrifaði meðal annars leikrit. F. 1914 og d. 1996.

[9] Kom út 2015/2016 á íslensku í þýðingu Hjalta Rögnvaldssonar: Andvaka, Draumar Ólafs og Kvöldsyfja.

[10] Hann fékk verðlaunin 2015.

[11] Sjöbindaverkið (Septology), skáldsaga eftir Jon Fosse í sjö bindum, hans stærsta verk.

[12] Asle er aðalpersóna Sjöbindaverksins (Septoloygy), málari, ekkjumaður. Hann á sér tvífara með sama nafni og báðir glíma við verufræðilegar spurningar lífsins um dauða, ást, trú og vonleysi.

[13] Åsleik er annar tveggja vina Asle, og er venjulegur fiskimaður. Hinn er Beyer sem rekur gallerí í borginni.

[14] Sjöbindaverkið (Septology), skáldsaga eftir Jon Fosse í sjö bindum, hans stærsta verk.

[15] Tékkneskur rithöfundur af gyðingaættum, skrifaði á þýsku, f. 1883 og d. 1924. Frægustu verk hans eru Hamskiptin og Réttarhöldin.

[16] Kom út 1983.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Það gerðist bara þegar ég var í grunnskólanum. Kennarinn bað mig um að lesa upphátt. Án þess að vita hvaðan á mig stóð veðrið fylltist ég hræðslu sem heltók mig allan. Ég nánast hvarf inn í hræðsluna og rann saman við hana. Ég stóð upp og hljóp út úr skólastofunni.

Ég tók eftir því að nemendurnir ráku upp stór augu og kennarinn líka – þau fylgdu mér út úr skólastofunni.

Síðar reyndi ég að útskýra þessa hegðun mína með því að ég hafi þurft að fara á salernið. Ég sá það vel á andlitum þeirra að þau trúðu mér ekki. Og sennilega héldu þau að ég væri að ganga af vitinu og væri að verða vitlaus.

Óttinn við að lesa upphátt fylgdi mér. Smám saman fékk ég kjark til að biðja kennarana um að sleppa mér við að lesa upphátt því að ég væri svo smeykur við það. Sumir trúðu mér og leystu mig undan þessari kvöð en aðrir héldu að ég væri eitthvað að grínast með þá.

Ég dró nokkra mikilvæga lærdóma um fólk af þessari reynslu minni.

Og ég lærði líka margt annað.

Já, mjög líklega eitthvað sem gerir mér fært að standa hér í dag og lesa upphátt fyrir framan áheyrendur. Og nú nær því alveg óttalaust.

Hvað var það sem ég lærði?

Það var eins og hræðslan tæki með einhverjum hætti málið frá mér og ég þyrfti svo að segja að sækja það aftur. Og ef það ætti að takast þá gat það ekki farið samkvæmt því sem aðrir vildu heldur aðeins eftir mínum leiðum.

Ég tók upp á því að skrifa mína eigin texta, lítil ljóð og stuttar frásagnir.

Og ég komst að raun um að þessi iðja mín fyllti mig trausti, veitti mér andstæðu óttans.

Það var eins og ég fyndi stað inni í sjálfum mér sem aðeins var minn. Á þeim stað gat ég skrifað það sem ég einn átti.

Nú um hálfri öld síðar sit ég enn við skriftir og skrifa enn þá frá þessum leynda stað innra með mér, stað sem ég veit sannast sagna ekkert meira um en það eitt að hann er til.

Norska skáldið Olav H. Hauge[1] hefur skrifað ljóð þar sem hann líkir því að yrkja við að vera barn og reisa laufskýli í skóginum, skríða um inni í þeim, og kveikja á kertum. Sitja þar og finna til öryggis á dimmum haustkvöldum.

Mér finnst þetta vera vel orðað um upplifun mína af því að skrifa. Nú – um hálfri öld síðar.

Og ég lærði meira. Ég lærði að það er að minnsta kosti hvað mig snertir mikill munur á hinu talaða máli og því ritaða, eða milli hins talaða máls og bókmenntamálsins.

Talað mál er oft einræða þar sem boðskap er miðlað um að eitthvað sé með þessum hætti eða öðrum, eða miðlun boðskapar í búningi mælskulistar sem ætlað er að telja einhverjum hughvarf eða sannfæra.

Bókmenntamálið er aldrei með þessum hætti. Það miðlar ekki. Miklu fremur er það merking en samskipti. Það býr yfir eigin tilveru.

Þess vegna eru gott ljóð og allar leiðir miðlunar augljósar í mótsögn hver við aðra hvort heldur miðlunin er trúarlegs eðlis eða úr ranni stjórnmála – eða hvar sem hún kann nú að eiga rætur sínar.

Af ótta við að lesa upphátt gekk ég inn í einsemdina sem er meira og minna hluti af lífi þeirrar manneskju sem fæst við skriftir. Og þar hef ég dvalist síðan.

Ég hef skrifað heilmikið af prósatexta og leikritum.

Og auðvitað er einkenni leikrita ritað talmál þar sem skoðanaskipti, samtalið, eða oft tilraun til samtals, og einhverjar einræður, er hluti af tilbúnum heimi. Já, hluti sem ekki miðlar heldur á sér sjálfstæða tilveru. Þess sem er.

Þegar kemur að prósatexta þá hefur Mikhail Bakhtin[2] rétt fyrir sér í því að sjálf tjáningin, það að segja frá, geymi tvær raddir.

Til að útskýra það aðeins: Rödd sem tilheyrir þeim sem talar, þeim sem skrifar, og rödd sem tilheyrir þeim sem sagt er frá. Þessar raddir renna stundum saman í eitt svo að það er ómögulegt að segja til um hver það er sem talar.

Það verður hreint út sagt til tvöföld rödd, skrifrödd ef svo má segja – og hún er að sjálfsögðu líka hluti af hinni tilbúnu veröld og er rökvísin í henni.

Hvert einasta verk sem ég hef skrifað er svo að segja sinn eigin ímyndaði alheimur, tilbúin veröld. Nýr heimur í hverju leikriti, hverri sögu.

En gott ljóð – ég hef nefnilega ort mörg ljóð – er líka heimur út af fyrir sig – það tengist fyrst og fremst sjálfu sér. Síðan getur hver sem les ljóðið stigið inn í heim þess – já, það er miklu frekar nokkurs konar samfélag heldur en samskipti.

Í raun og veru á þetta við um allt sem ég hef skrifað.

Eitt er næsta víst, ég hef aldrei skrifað neitt til að tjá mig eins og það er orðað, heldur miklu fremur til þess að komast undan sjálfum mér.

Nú, ég varð á endanum leikritahöfundur, já og hvað skyldi ég geta sagt um það?

Ég skrifaði skáldsögur og orti, hafði enga löngun til að skrifa fyrir leikhús. Tilraun á vegum þess opinbera var ýtt úr vör og hún snerist um að fá fólk til að skrifa fleiri ný norsk leikrit. Og ég fékk tilboð, þá fátækur rithöfundur, um að skrifa fyrir væna fúlgu upphafsatriði í leikrit sem lauk með því að ég skrifaði heilt leikrit. Það var mitt fyrsta leikrit og enn það mest leikna, Einhver ætlar að koma.[3]

Ekkert kom mér eins á óvart á öllum rithöfundarferli mínum eins og það að skrifa leikrit í fyrsta sinn. Ég hafði reynt að skrifa hvort tveggja prósatexta og ljóð það sem yfirleitt – á hversdagslegu máli – er ekki hægt að segja með orðum. Ég reyndi að tjá það sem er ósegjanlegt en það var ein ástæðan fyrir því að ákveðið var að veita mér Nóbelsverðlaunin.

Það mikilvægasta í lífinu er ekki hægt að tjá í orðum, heldur aðeins með því að skrifa það – svo leikið sé með fræga tilvitnun í Jacques Derrida.[4]

Ég reyndi sem sé að gefa hinni þöglu ræðu mál.

Þegar ég skrifaði leikrit gat ég notað hina þögulu ræðu, þögnina, með allt öðrum hætti en í prósatexta og ljóðum. Ég þurfti bara að skrifa orðið þögn og þar með var hin þögula ræða komin. Í leikritum mínum er orðið þögn án nokkurs vafa mikilvægasta og algengasta orðið – löng þögn, stutt þögn eða bara þögn.

Þessar þagnir geta falið í sér svo mikið – eða lítið. Eitthvað sem ekki er hægt að segja, eitthvað sem ekki er vilji til að segja, eða verður best orðað án þess að segja nokkuð.

Samt er ég nokkuð viss um að það sem tali mest í þögnunum sé kyrrðin.

Í prósatextum mínum gegna endurtekningar kannski því hlutverki sem er líkast þögnunum i leikritunum.

Eða kannski hugsa ég um þetta svona að á meðan þögul ræða er í leikritinu þá sé þögult tungumál bak við hið skrifaða tungumál í skáldsögunum. Og ef ég ætla að skrifa góðar bókmenntir þá verður líka að tjá þessa þögulu ræðu, til dæmis í Septology[5]; þar er þetta þögula tungumál svo notuð séu einföld dæmi, en þó raunveruleg, að fyrsti Asla og annar Asla,[6] geta vel verið sama persónan, og að öll þessi langa skáldsaga, um tólf hundruð blaðsíður, sé kannski þegar öllu er á botninn hvolft lýsing á víðáttumiklu núi.

En þögult ávarp, eða þögult tungumál, talar út frá heildinni í ritverki. Hvort sem það er skáldsaga eða leikrit, eða leikhúsverk, þá eru það ekki einstakir hlutar sem skipta máli, það er heildin sem einnig verður að vera í hverju einasta smáatriði – eða kannski voga ég mér að tala um anda heildarinnar, anda sem talar eins og bæði úr nálægð og fjarlægð.

Og hvað heyrum við ef hlustað er nógu vel?

Við heyrum þögnina.

Eins og sagt er þá er aðeins hægt að heyra rödd Guðs í þögninni.

Kannski.

Til þess að koma aftur til jarðarinnar þá ætla ég að nefna dálítið annað sem skrif fyrir leikhúsið hafa gefið mér. Skrif eru sem sé einmanaleg iðja, og einsemdin er góð – svo lengi sem leiðin til baka til annarra er opin – svo vitnað sé til annars ljóðs eftir Olav H. Hauge.[7]

Og það sem greip mig fyrst þegar ég sá verk á sviði sem ég hafði skrifað var einmitt það andstæða við einsemdina, það var samfélag, já, að skapa list með því að deila list – og það veitti mér gleði og öryggi.

Þessi tilfinning hefur síðan fylgt mér. Hún hefur gert það að verkum að ég hef ekki aðeins með kyrrlátum huga lifað af heldur hef ég líka haft einhvers konar gleði af jafnvel lélegum uppfærslum á verkum mínum.

Leikhús er eiginlega risastór hlustun – leikstjóri á, eða ætti í öllu falli, að hlusta á textann á sama hátt og leikarinn hlustar á hann og mótleikarann og leikstjórann – eins og áhorfendur hlusta á alla sýninguna.

Skrif fyrir mér eru það sama og að hlusta: þegar ég skrifa undirbý ég mig aldrei, skipulegg ekkert, ég hlusta mig áfram og í gegn. Eigi ég nota líkingu fyrir það að skrifa þá væri það sem sé að hlusta.

Þess vegna minnir ljóðagerð einna mest á tónlist. Á vissu skeiði táningsáranna þegar hugur minn var upptekinn við tónlist stefndi ég svo að segja beint frá henni til þess að skrifa. Eiginlega hætti ég algerlega bæði að leika tónlist og hlusta á tónlist og byrjaði að skrifa. Í skrifum mínum reyndi ég að skapa eitthvað af þeirri reynslu sem hljóðfæraleikurinn hafði gefið mér. Það er þetta sem ég gerði þá og geri enn.

Svo er eitt enn, kannski dálítið merkilegt. Ég fæ alltaf þá tilfinningu að textinn sem ég skrifa hafi þegar verið skrifaður. Hann sé til þarna fyrir utan eða á einhverjum öðrum stað, ekki inni í mér, og að þetta snúist aðeins um að skrifa textann upp áður en hann hverfur.

Stundum næ ég því án þess að breyta nokkru. Í öðrum tilvikum verð ég eins og að leiða sjálfan mig áfram að textanum með því að umskrifa hann, strika út, reyna af fyllstu varúð að koma textanum til skila sem þegar hefur verið skrifaður.

Það fór svo að ég sem vildi ekki skrifa fyrir leikhús gerði ekkert annað í ein fimmtán ár.

Leikritin sem ég skrifaði voru meira að segja sett á svið og síðar meir voru fjölmargar uppfærslur á þeim í mörgum löndum.

Ég skil það ekki enn.

Lífið er ekki gert til þess að skilja það.

Á sama hátt og ég skil ekki að ég skuli standa hérna núna og reyna að segja eitt og annað misgáfulegt um hvað felist í því að fást við skriftir vegna þess að Nóbelsverðlaunin hafa komið í hlut minn.

Eftir því sem mér skilst þá er ástæða þess að mér var sýndur þessi heiður tengd bæði leikritun minni og prósagerð. Eftir að hafa skrifað svo að segja bara leikrit í mörg ár þá fannst mér skyndilega verið nóg komið og meira en það. Ég hætti að skrifa leikrit.

Skrif hafa orðið að vana og maður getur ekki hugsað sér lífið án þess að skrifa – kannski má kalla það sjúkdóm eins og Marguerite Duras[8] gerði – og þess vegna ákvað ég að snúa aftur til upphafsins, skrifa prósa og stöku ljóð af og til eins og ég hafði gert meira og minna í um áratug áður en ég reyndi fyrir mér sem leikritahöfundur.

Og það hef ég gert síðastliðin tíu-fimmtán ár. Þegar ég byrjaði af alvöru að skrifa prósatexta aftur var ég ekki viss um hvort ég kynni það enn þá. Fyrst skrifaði ég Þríleikinn[9] – og upplifði það sem mikla staðfestingu á því að ég hefði enn eitthvað fram að færa sem prósahöfundur þegar ég fékk bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs[10] fyrir það skáldverk.

Þá skrifaði ég Septology.[11]

Meðan á þeirri vinnu stóð lifði ég nokkrar af mínum hamingjusömustu stundum sem rithöfundur eins og til dæmis þegar Asle finnur tvífara sinn, Asle[12] liggjandi í snjónum og bjargar þar með lífi hans. Eða við sögulok þegar Asle, aðalpersónan, siglir út í sína hinstu för, í gömlum og lúnum báti, með Åsleik[13], sem var besti vinur hans og sá eini, til að halda jólin hátíðleg með systur Åsleiks.

Ég hafði ekki hugsað mér að skrifa langa skáldsögu en sagan skrifaði sig svo að segja sjálf. Og það varð löng skáldsaga, margir hlutar hennar runnu svo ljúflega meðan ég skrifaði svo engu þurfti að breyta.

Og þetta held ég að sé það sem komist næst því sem kallast hamingja.

Allt Sjöbindaverkið (Septology)[14]minnir mjög svo á annað sem ég hef skrifað áður – en þó í öðru ljósi.

Það er ekki neitt uppátæki þó að það sé ekki einn einasti punktur í þessari löngu skáldsögu. Sagan skrifaði sig bara sjálf með þessum hætti, streymdi fram, iðuköst sem þurftu ekki á neinum punktum að halda.

Ég sagði einhvern tímann í viðtali að ljóðagerð væri nokkurs konar bænamál. Og ég skammaðist mín alveg hræðilega þegar ég sá það á prenti. Seinna las ég mér til huggunar að Frans Kafka[15] hefði sagt það sama. Nú, kannski – þrátt fyrir allt?

Fyrstu bækur mínar fengu nokkuð slæma gagnrýni og ég ákvað að hlusta ekki á gagnrýnendurna heldur stóla á sjálfan mig, já, halda fast við mitt. Hefði ég ekki gert það, já, þá hefði ég hætt að skrifa eftir að fyrsta skáldsagan mín, Raudt, svart,[16] kom út fyrir fjörutíu árum.

Seinna fékk ég oftast góða gagnrýni og fór meira að segja að hreppa verðlaun. Ég hugsaði með mér að það væri mikilvægt að halda sér fast við sömu skoðun: ef ég hlustaði ekki á slæma gagnrýni þá skyldi meðvindurinn ekki heldur trufla mig. Ég ætlaði bara að standa fast við mitt og ekkert annað.

Og ég tel að mér hafi tekist það. Svo sannarlega trúi ég því einlæglega að ég muni sömuleiðis ekki hvika frá því því jafnvel eftir að hafa fengið Nóbelsverðlaunin.

Þegar tilkynnt var að ég fengi Nóbelsverðlaunin í bókmenntum fékk ég fjöldann allan af tölvupóstum og hamingjuóskum og það gladdi mig að sjálfsögðu. Flestar kveðjurnar voru jarðbundnar og fylltar gleði. Nokkrir skrifuðu að þeir hefðu hrópað upp af gleði, aðrir að þeir hefðu farið að gráta. Það snart mig mikið.

Það eru mörg sjálfsvíg í ljóðum mínum. Fleiri en mér er bærilegt að hugsa um. Ég hef óttast að með því hafi ég tekið þátt í því að lögleiða sjálfsvíg. Þess vegna gat ekkert haft eins djúp áhrif á mig eins og þau sem skrifuðu mér af hreinskilni og sögðu að ljóð mín hefðu í einu orði sagt bjargað lífi þeirra.

Ég hef alltaf vitað að ljóð geta bjargað lífi. Kannski hefur það bjargað lífi mínu. Og ef ljóð mín geta bjargað lífi annarra, já, þá getur ekkert annað glatt mig meira en það.

Þakkir til sænsku akademíunnar fyrir að veita mér Nóbelsverðlaunin í bókmenntum.

Og þakkir til Guðs.


© NOBELSTIFTELSEN 2023


Jon Fosse flytur fyrirlestur sinn hjá sænsku akademíunni 7. desember sl. Mynd: Anna Svanberg

Hér er fyrirlesturinn tiltækur á norsku, ensku og sænsku.

Nýr Nóbelsverðlaunahafi á brýnt erindi við samtímann – RÚV.is (ruv.is)

Tilvísanir þýðanda:

[1] F. 1908 og d. 1994.

[2] Rússneskur heimspekingur og bókmenntagagnrýnandi, f. 1895 og d. 1975.

[3] Hann lauk við það 1992. Á norsku: Nokon kjem til å komme.

[4] Franskur heimspekingur, f. 1930 og d. 2004. Tilvitnunin er: „Það sem ekki er hægt að segja má umfram allt ekki þegja um heldur skrifa.“

[5] Sjöbindaverkið (Septology), skáldsaga eftir Jon Fosse í sjö bindum, hans stærsta verk.

[6] Asle er aðalpersóna sögunnar, málari, ekkjumaður. Hann á sér tvífara með sama nafni og báðir glíma við verufræðilegar spurningar lífsins um dauða, ást, trú og vonleysi.

[7] F. 1908 og d. 1994.

[8] Frönsk skáldkona, skrifaði meðal annars leikrit. F. 1914 og d. 1996.

[9] Kom út 2015/2016 á íslensku í þýðingu Hjalta Rögnvaldssonar: Andvaka, Draumar Ólafs og Kvöldsyfja.

[10] Hann fékk verðlaunin 2015.

[11] Sjöbindaverkið (Septology), skáldsaga eftir Jon Fosse í sjö bindum, hans stærsta verk.

[12] Asle er aðalpersóna Sjöbindaverksins (Septoloygy), málari, ekkjumaður. Hann á sér tvífara með sama nafni og báðir glíma við verufræðilegar spurningar lífsins um dauða, ást, trú og vonleysi.

[13] Åsleik er annar tveggja vina Asle, og er venjulegur fiskimaður. Hinn er Beyer sem rekur gallerí í borginni.

[14] Sjöbindaverkið (Septology), skáldsaga eftir Jon Fosse í sjö bindum, hans stærsta verk.

[15] Tékkneskur rithöfundur af gyðingaættum, skrifaði á þýsku, f. 1883 og d. 1924. Frægustu verk hans eru Hamskiptin og Réttarhöldin.

[16] Kom út 1983.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir