Trúarjátningar eru nauðsynlegar hverjum manni. Segja má að hver maður hafi í huga sínum eigin játningar ef hann hugsar um trúna á annað borð. Það eru persónulegar játningar og koma engum öðrum við í sjálfu sér nema viðkomandi kjósi að viðra þær á góðum stundum.

Líta má á játningarnar sem kjörstað trúarlegra tilfinninga. Frægasti efasemdarmaður sögunnar játaði trú sína á magnaðri tilfinningastund með þessum orðum: „Drottinn minn og Guð minn“ (Jóhannesarguðspjall 20.28).

Gömlu trúarjátningarnar eru að mörgu leyti guðfræðilegur skemmtilestur. Þær endurspegla tilraunir manna til að koma kjarnaatriðum trúarinnar fyrir í stuttu máli fólki til glöggvunar og upprifjunar – eiginlega útdráttur úr prédikun postulanna.

Það er auðvitað önnur heimsmynd sem er dregin upp í gömlu játningunum en sú sem blasir við nútímamanninum á öld gervigreindar. Þekktar persónur trúarsögunnar eru kynntar til leiks og hlutverk þeirra mörgum kunnugt sem lesið hafa trúartexta og lært á ýmsum skeiðum ævinnar. Þar er að sjálfsögðu frelsarinn fremstur í flokki og jarðnesk saga hans ásamt himneskri viðbót. Guðsmóðirin er sömuleiðis á sviðinu og hlutverki hennar gerð skil: að fæða soninn í heiminn. Grimmd veraldar kemur við sögu í Pontíusi Pílatusi. Krossfestingin er á sínum stað og upprisan. Allt auðvitað kjarnaatriði trúarinnar sem ekki verða afskrifuð þó að túlka megi á ýmsa lund. Eða sem sé fegurð lífsins í barni og móðurást. Stutt og snörp ævi með kærleika sem harður heimur þjarmaði að og tortímdi. Upprisan sneri á heiminn og þess vegna lifir kristin trú sem orða má á ýmsa vegu eins og játningarnar sýna, nýjar og gamlar.

Sumar þessara játninga eru öðrum kunnari en aðrar. Postullega trúarjátningin er flestum kunn enda farið með hana í flestum guðsþjónustum. Hún er hluti af helgihaldinu og söfnuðurinn tekur undir hana án þess kannski að velta innihaldi hennar fyrir sér í smáatriðum. Sumir þættir hennar höfða sennilega til flestra þegar um er að ræða almennt orðalag, eins og að lýsa því yfir að trúað sé á Guð almáttugan, skapara himins og jarðar, Jesú Krist, heilagan anda og upprisu frá dauðum. Fyrirgefning syndanna hittir eflaust marga fyrir í hjartastað og þykir mörgum sjálfsagt að taka undir þá frómu játningu enda kannski ekki vanþörf á. Önnur atriði láta menn fram hjá sér fara eins og að frelsarinn hafi stigið niður til heljar og sitji við hægri hönd almættisins. Skemmtilega orðað og fallegar líkingar.

Og sennilega er endurkoman ekki ofarlega á lista enda kannski ekki eftirsóknarverð í hugum allra þegar sverði dómsins verður sveiflað á loft og hvorki lifendum né dauðum þyrmt frá eggjum þess. Trú á eilíft líf einstaklingsins er enda orðuð í lokin og kannski ekki seinna vænna. Hvað annað.

Þjóðkirkjan gengst við postullegu trúarjátningunni, Níkeujátningunni og Aþanasíusar-játningunni sem sönnum skilgreiningum á trú kirkjunnar. Deila má að sjálfsögðu um hversu sannar þær eru en orði þær trúartilfinningu einhvers þá eru þær sannar í huga viðkomandi. Öðrum kemur það svo ekki við.

Þá skal Ágsborgarjátningunni frá 1530 ekki gleymt en hún er stórmerkilegt plagg, hreinn og klár vitnisburður um boðskap kristinnar trúar og margt auðvitað fært í orð samkvæmt hugsunarhætti þess tíma eins og gefur að skilja – til dæmis eru „Múhameðstrúarmenn“ foræmdir og aðrir þeir sem ekki samþykkkja þrenningarlærdóminn. Nútíma trúfrelsishugsun tekur náttúrlega slíkt ekki í mál – né heldur Samtök trú- og lífsskoðunarfélaga. En fjölmargt annað er vel orðað og getur alveg gengið í nútímanum hafi nútíminn á annað borð áhuga.

Níkeujátningin fagnar 1700 ára afmæli um þessar mundir. Hún hefur lifað í kirkjunni og lifir enn. Falleg játning og hana á víst að syngja þó að lítið hafi farið fyrir því hér á landi hjá lútherskum en þeir í Landakoti gera það. Játningin er skáldleg og hrífandi þar sem persóna frelsara er færð til bókar svo í orðum:

„…af föðurnum fæddur frá eilífð, Guð af Guði, ljós af ljósi, sannur Guð af Guði sönnum, fæddur, eigi gjörður, samur föðurnum. Fyrir hann er allt skapað.“

Ekki skortir dulúðina sem fangar hjarta margra og ekki síst þegar verið er að ræða efni þar sem orðin eru í eðli sínu fátæklegur umbúnaður mannshugans. En ekkert er gefið eftir og hispurslaust sagt að á ríki hans verði enginn endir sem játandinn tekur undir þó að sverð dómsins vofi yfir þá væntir hann:

„…upprisu dauðra og lífs hinnar komandi aldar.“

Svo sem kunnugt er heyrast miklir kveinstafir um að lestur fólks hafi dregist saman. Hvað eftir annað berast fréttir af illa læsum skólabörnum eða torlæsum. Margir prestar kvarta iðulega yfir því að mörg fermingarbörn séu lítt fyrir bókina og seinlæs og því þýði ekkert að ota að þeim einhverjum fermingarkverum sem svo eru nefnd en það eru bækur um undirstöðuatriði kristinnar trúar í ljósi evangelískrar-lútherskrar kristni. Þá er brugðið á ýmis ráð sem hér verða ekki nefnd en sum þeirra virðast vera hálfgerð kjánaóráð.

Það er hins vegar spurning hvort kjarni uppfræðslustarfsins eigi ekki að vera umræða um gömlu trúarjátningarnar og ekki síst þegar tímamóta þeirra er fagnað. Ræða þær, læra jafnvel utan bókar ef einhver dirfist að orða slíka kúnst.

Hver getur svo búið til sína eigin játningu og eftir atvikum lagt hana fyrir aðra til umþenkingar og frjálsra athugasemda. Játningarnar bjóða örugglega upp á líflegar umræður og vangaveltur. Svo má læra lagið við Níkeujátninguna og syngja hana bara á latínu – það gæti verið spennandi í huga margra!

Sem sé. Áfram í nafni játninganna og hins frjálsa anda einstaklingsins sem túlkar þær til þess að ná andlegu flugi en lætur þær hins vegar ekki binda sig sem hvern annan þurs. Síðan getur áhugi vaknað á lesa trúartexta ritninganna. Hver veit?

Hér má hlýða á flutning Níkeujátningarinnar.

Níkeujátningin

Ég trúi á einn Guð, föður almáttugan, skapara himins og jarðar, alls hins sýnilega og ósýnilega.
Og á einn Drottin Jesú Krist, Guðs einkason, sem er af föðurnum fæddur frá eilífð,
Guð af Guði, ljós af ljósi, sannur Guð af Guði sönnum, fæddur, eigi gjörður, samur föðurnum.
Fyrir hann er allt skapað.
Vegna vor mannanna og vorrar sáluhjálpar steig hann niður af himni,
klæddist holdi fyrir heilagan anda af Maríu meyju og gjörðist maður.
Hann var og krossfestur fyrir oss á dögum Pontíusar Pílatusar, píndur og grafinn.
Hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum og steig upp til himna,
situr við hægri hönd föðurins og mun aftur koma í dýrð að dæma lifendur og dauða.
Á ríki hans mun enginn endir verða.
Og á heilagan anda, Drottin og lífgjafann sem út gengur af föður og syni
og með föður og syni er tilbeðinn og ávallt dýrkaður og mælti af munni spámannanna.
Og á eina, heilaga, almenna og postullega kirkju.
Ég játa að ein sé skírn til fyrirgefningar syndanna
og vænti upprisu dauðra og lífs hinnar komandi aldar.
Amen.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Trúarjátningar eru nauðsynlegar hverjum manni. Segja má að hver maður hafi í huga sínum eigin játningar ef hann hugsar um trúna á annað borð. Það eru persónulegar játningar og koma engum öðrum við í sjálfu sér nema viðkomandi kjósi að viðra þær á góðum stundum.

Líta má á játningarnar sem kjörstað trúarlegra tilfinninga. Frægasti efasemdarmaður sögunnar játaði trú sína á magnaðri tilfinningastund með þessum orðum: „Drottinn minn og Guð minn“ (Jóhannesarguðspjall 20.28).

Gömlu trúarjátningarnar eru að mörgu leyti guðfræðilegur skemmtilestur. Þær endurspegla tilraunir manna til að koma kjarnaatriðum trúarinnar fyrir í stuttu máli fólki til glöggvunar og upprifjunar – eiginlega útdráttur úr prédikun postulanna.

Það er auðvitað önnur heimsmynd sem er dregin upp í gömlu játningunum en sú sem blasir við nútímamanninum á öld gervigreindar. Þekktar persónur trúarsögunnar eru kynntar til leiks og hlutverk þeirra mörgum kunnugt sem lesið hafa trúartexta og lært á ýmsum skeiðum ævinnar. Þar er að sjálfsögðu frelsarinn fremstur í flokki og jarðnesk saga hans ásamt himneskri viðbót. Guðsmóðirin er sömuleiðis á sviðinu og hlutverki hennar gerð skil: að fæða soninn í heiminn. Grimmd veraldar kemur við sögu í Pontíusi Pílatusi. Krossfestingin er á sínum stað og upprisan. Allt auðvitað kjarnaatriði trúarinnar sem ekki verða afskrifuð þó að túlka megi á ýmsa lund. Eða sem sé fegurð lífsins í barni og móðurást. Stutt og snörp ævi með kærleika sem harður heimur þjarmaði að og tortímdi. Upprisan sneri á heiminn og þess vegna lifir kristin trú sem orða má á ýmsa vegu eins og játningarnar sýna, nýjar og gamlar.

Sumar þessara játninga eru öðrum kunnari en aðrar. Postullega trúarjátningin er flestum kunn enda farið með hana í flestum guðsþjónustum. Hún er hluti af helgihaldinu og söfnuðurinn tekur undir hana án þess kannski að velta innihaldi hennar fyrir sér í smáatriðum. Sumir þættir hennar höfða sennilega til flestra þegar um er að ræða almennt orðalag, eins og að lýsa því yfir að trúað sé á Guð almáttugan, skapara himins og jarðar, Jesú Krist, heilagan anda og upprisu frá dauðum. Fyrirgefning syndanna hittir eflaust marga fyrir í hjartastað og þykir mörgum sjálfsagt að taka undir þá frómu játningu enda kannski ekki vanþörf á. Önnur atriði láta menn fram hjá sér fara eins og að frelsarinn hafi stigið niður til heljar og sitji við hægri hönd almættisins. Skemmtilega orðað og fallegar líkingar.

Og sennilega er endurkoman ekki ofarlega á lista enda kannski ekki eftirsóknarverð í hugum allra þegar sverði dómsins verður sveiflað á loft og hvorki lifendum né dauðum þyrmt frá eggjum þess. Trú á eilíft líf einstaklingsins er enda orðuð í lokin og kannski ekki seinna vænna. Hvað annað.

Þjóðkirkjan gengst við postullegu trúarjátningunni, Níkeujátningunni og Aþanasíusar-játningunni sem sönnum skilgreiningum á trú kirkjunnar. Deila má að sjálfsögðu um hversu sannar þær eru en orði þær trúartilfinningu einhvers þá eru þær sannar í huga viðkomandi. Öðrum kemur það svo ekki við.

Þá skal Ágsborgarjátningunni frá 1530 ekki gleymt en hún er stórmerkilegt plagg, hreinn og klár vitnisburður um boðskap kristinnar trúar og margt auðvitað fært í orð samkvæmt hugsunarhætti þess tíma eins og gefur að skilja – til dæmis eru „Múhameðstrúarmenn“ foræmdir og aðrir þeir sem ekki samþykkkja þrenningarlærdóminn. Nútíma trúfrelsishugsun tekur náttúrlega slíkt ekki í mál – né heldur Samtök trú- og lífsskoðunarfélaga. En fjölmargt annað er vel orðað og getur alveg gengið í nútímanum hafi nútíminn á annað borð áhuga.

Níkeujátningin fagnar 1700 ára afmæli um þessar mundir. Hún hefur lifað í kirkjunni og lifir enn. Falleg játning og hana á víst að syngja þó að lítið hafi farið fyrir því hér á landi hjá lútherskum en þeir í Landakoti gera það. Játningin er skáldleg og hrífandi þar sem persóna frelsara er færð til bókar svo í orðum:

„…af föðurnum fæddur frá eilífð, Guð af Guði, ljós af ljósi, sannur Guð af Guði sönnum, fæddur, eigi gjörður, samur föðurnum. Fyrir hann er allt skapað.“

Ekki skortir dulúðina sem fangar hjarta margra og ekki síst þegar verið er að ræða efni þar sem orðin eru í eðli sínu fátæklegur umbúnaður mannshugans. En ekkert er gefið eftir og hispurslaust sagt að á ríki hans verði enginn endir sem játandinn tekur undir þó að sverð dómsins vofi yfir þá væntir hann:

„…upprisu dauðra og lífs hinnar komandi aldar.“

Svo sem kunnugt er heyrast miklir kveinstafir um að lestur fólks hafi dregist saman. Hvað eftir annað berast fréttir af illa læsum skólabörnum eða torlæsum. Margir prestar kvarta iðulega yfir því að mörg fermingarbörn séu lítt fyrir bókina og seinlæs og því þýði ekkert að ota að þeim einhverjum fermingarkverum sem svo eru nefnd en það eru bækur um undirstöðuatriði kristinnar trúar í ljósi evangelískrar-lútherskrar kristni. Þá er brugðið á ýmis ráð sem hér verða ekki nefnd en sum þeirra virðast vera hálfgerð kjánaóráð.

Það er hins vegar spurning hvort kjarni uppfræðslustarfsins eigi ekki að vera umræða um gömlu trúarjátningarnar og ekki síst þegar tímamóta þeirra er fagnað. Ræða þær, læra jafnvel utan bókar ef einhver dirfist að orða slíka kúnst.

Hver getur svo búið til sína eigin játningu og eftir atvikum lagt hana fyrir aðra til umþenkingar og frjálsra athugasemda. Játningarnar bjóða örugglega upp á líflegar umræður og vangaveltur. Svo má læra lagið við Níkeujátninguna og syngja hana bara á latínu – það gæti verið spennandi í huga margra!

Sem sé. Áfram í nafni játninganna og hins frjálsa anda einstaklingsins sem túlkar þær til þess að ná andlegu flugi en lætur þær hins vegar ekki binda sig sem hvern annan þurs. Síðan getur áhugi vaknað á lesa trúartexta ritninganna. Hver veit?

Hér má hlýða á flutning Níkeujátningarinnar.

Níkeujátningin

Ég trúi á einn Guð, föður almáttugan, skapara himins og jarðar, alls hins sýnilega og ósýnilega.
Og á einn Drottin Jesú Krist, Guðs einkason, sem er af föðurnum fæddur frá eilífð,
Guð af Guði, ljós af ljósi, sannur Guð af Guði sönnum, fæddur, eigi gjörður, samur föðurnum.
Fyrir hann er allt skapað.
Vegna vor mannanna og vorrar sáluhjálpar steig hann niður af himni,
klæddist holdi fyrir heilagan anda af Maríu meyju og gjörðist maður.
Hann var og krossfestur fyrir oss á dögum Pontíusar Pílatusar, píndur og grafinn.
Hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum og steig upp til himna,
situr við hægri hönd föðurins og mun aftur koma í dýrð að dæma lifendur og dauða.
Á ríki hans mun enginn endir verða.
Og á heilagan anda, Drottin og lífgjafann sem út gengur af föður og syni
og með föður og syni er tilbeðinn og ávallt dýrkaður og mælti af munni spámannanna.
Og á eina, heilaga, almenna og postullega kirkju.
Ég játa að ein sé skírn til fyrirgefningar syndanna
og vænti upprisu dauðra og lífs hinnar komandi aldar.
Amen.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir