Það þarf ekki að fara mörgum orðum um að drýgstur hluti íslenskrar menningar hvílir á kristnum gildum. Þessi gildi umvefja okkur bæði í uppeldi og umhverfi. Enda þótt samfélagið verði veraldlegra og veraldlegra þá eru þessi gildi þarna og við könnumst við þau. Já, veröldin umvefur þau og gerir að sínum sem er í sjálfu sér ekkert athugavert við svo lengi sem uppruni þeirra gleymist ekki.

Þjóðkirkjan sem stofnun er á vissan hátt í forsvari fyrir þessi gildi og ber að vernda þau, koma þeim til skila og árétta. Grunngildin felast í kærleiksboðskap Jesú Krists, túlkun á lífi hans og starfi, upprisu og siðaboðskap. Þess vegna hefur þjóðkirkjan lögum samkvæmt þá skyldu að sjá til þess að þjónusta hennar standi öllum til boða.

Það er öllum ljóst að hallað hefur heldur á kirkjuna á undanförnum áratugum. Meðlimum hennar fækkar og svo mun halda áfram í einhverjum mæli. Við búum enda í fjölmenningarsamfélagi og vitund einstaklingsins um frelsi sitt hefur aldrei verið sterkari sem nú og hann telur sig ekki þurfa að vera bundinn neinum stofnunum þess eins og til dæmis trúfélagi. Það þarf þó ekkert að gefa til kynna að hann sé andsnúinn þeim. Hann vill bara frelsi undan einhvers konar kerfi. Nútímaeinstaklingurinn er frjáls enda þótt hann gangi iðulega samhliða samfélaginu í meginatriðum þegar kemur að siðum og venjum ýmissa stofnana þess.

Þjóðkirkjan verður að horfast í augu við nýja samfélagsumgjörð og láta að sér kveða með skýrari hætti á opinberum vettvangi í ræðu og riti. Eiga samtal við samfélagið sem prédikunarstóllinn býður ekki upp á því hann er staður einræðunnar. Nútíminn er samtal.

Þess vegna er gleðiefni að vita til þess að í bígerð er að halda kirkjudaga í anda þeirra sem haldnir voru á Skólavörðuholti 2005 (það var í annað sinn og skyldu þeir haldnir á fjögurra ára fresti). Kirkjudagarnir tókust ljómandi vel og hleyptu kappi í kinnar kirkjufólks. Undirritaður tók þátt í þeim og kynnti starf kirkjunnar í fangelsum landsins og var sú kynning ágætlega sótt. Hið sama gegndi um aðrar kynningar. Kirkjudagarnir voru kröftug kynning á kirkjustarfi og hlutu jákvæðar undirtektir. Ýmis áföll sem dundu á þjóðkirkjunni drógu úr henni mátt og þor; hún var lengi vel skömmustuleg og óupplitsdjörf. Og fjármálavíkingar höfðu gert strandhögg í efnahagskerfi þjóðarinnar. Kirkjudagarnir hurfu í djúpið – að sinni.

Sem sé. Kirkjudagar eru nú í deiglunni og því ber svo sannarlega að fagna. Á þessu ári hefst undirbúningur þeirra ef marka má fræðslustefnu þjóðkirkjunnar (bls. 13):

„Þar mun Þjóðkirkjan vekja athygli á fjölbreytilegu starfi og þjónustu og benda á það hlutverk sem hún gegnir í samfélaginu. Vandað þarf til verkefnisins og hefja undirbúning á fyrsta gildisári þessarar fræðslustefnu. Gert er ráð fyrir að um sé að ræða samstarfsverkefni Þjónustumiðstöðvar kirkjunnar og prófastsdæma um allt land,“ segir í fræðslustefnunni sem ber reyndar fremur drungalegt nafn, „Frá vöggu til grafar.“ Ætti auðvitað að vera „Frá vöggu til upprisu.“ En það er nú önnur saga.

Komandi kirkjudagar eru mikil gleðitíðindi og spennandi verður að sjá hvernig til tekst. Nú þurfa allir að leggjast á árarnar svo vel fari. Þjóðkirkjan þarf nefnilega að vera sýnilegri í samfélaginu á öllum vígstöðvum þess – hún má ekki einangrast inni í kirkjuhúsunum!

Trúarlæsi er afar mikilvægt í samfélaginu. Hér skal því skotið að hvort komandi kirkjudagar ættu ekki að beina sjónum sínum að almennu trúarlæsi í samfélaginu.

Morgunblaðið sagði frá því í gær að nemendur við Verzlunarskóla Íslands hafi búið til spil, „Aur og áhætta.“ Markmiðið með því er að kenna fjármálalæsi – en þó minnug þess að margur verður af aurum api. Nú mætti halda að þessir ágætu nemendur og hugmyndaríku væru sérstakir vinir mammóns en um það veit undirritaður ekki og kemur í sjálfu sér ekkert við. Mammón gamli á víða lærisveina og er hér og þar að störfum í samfélaginu, innan kirkju sem utan. Hann stendur fyrir hið kapítalíska samfélag sem hríslast um allt og við erum bara nokkuð ánægð með þó svo við rekum upp annað slagið mótmælagól gegn honum. Við munum svo sem orð meistarans um að ekki sé hægt að þjóna tveimur herrum, Guði og mammón – og þar getur mammón eflaust staðið fyrir hitt og þetta. En spurning er hvort ekki sé hægt að læra eitthvað af mammóni hinum síunga?

Hvers vegna ekki trúarlæsisspil?

Orðið útskýrir sig sjálft. Hve læs eru þau sem taka þátt í spilinu á trúarlegan vef samfélagsins? Uppruna orða og tengsla? Siðferðis og framkomu? Stofnana og félagslegra atburða? Ekki þarf að spyrja um sálmvers í þessu sambandi enda stórlega dregið úr utanaðbókalærdómi í kirkju- og skólakerfi. Svo er spurning hvort biblíusöguþekkingu hafi farið fram.

Trúarlæsisspil gæti verið gott veganesti af komandi kirkjudögum.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um að drýgstur hluti íslenskrar menningar hvílir á kristnum gildum. Þessi gildi umvefja okkur bæði í uppeldi og umhverfi. Enda þótt samfélagið verði veraldlegra og veraldlegra þá eru þessi gildi þarna og við könnumst við þau. Já, veröldin umvefur þau og gerir að sínum sem er í sjálfu sér ekkert athugavert við svo lengi sem uppruni þeirra gleymist ekki.

Þjóðkirkjan sem stofnun er á vissan hátt í forsvari fyrir þessi gildi og ber að vernda þau, koma þeim til skila og árétta. Grunngildin felast í kærleiksboðskap Jesú Krists, túlkun á lífi hans og starfi, upprisu og siðaboðskap. Þess vegna hefur þjóðkirkjan lögum samkvæmt þá skyldu að sjá til þess að þjónusta hennar standi öllum til boða.

Það er öllum ljóst að hallað hefur heldur á kirkjuna á undanförnum áratugum. Meðlimum hennar fækkar og svo mun halda áfram í einhverjum mæli. Við búum enda í fjölmenningarsamfélagi og vitund einstaklingsins um frelsi sitt hefur aldrei verið sterkari sem nú og hann telur sig ekki þurfa að vera bundinn neinum stofnunum þess eins og til dæmis trúfélagi. Það þarf þó ekkert að gefa til kynna að hann sé andsnúinn þeim. Hann vill bara frelsi undan einhvers konar kerfi. Nútímaeinstaklingurinn er frjáls enda þótt hann gangi iðulega samhliða samfélaginu í meginatriðum þegar kemur að siðum og venjum ýmissa stofnana þess.

Þjóðkirkjan verður að horfast í augu við nýja samfélagsumgjörð og láta að sér kveða með skýrari hætti á opinberum vettvangi í ræðu og riti. Eiga samtal við samfélagið sem prédikunarstóllinn býður ekki upp á því hann er staður einræðunnar. Nútíminn er samtal.

Þess vegna er gleðiefni að vita til þess að í bígerð er að halda kirkjudaga í anda þeirra sem haldnir voru á Skólavörðuholti 2005 (það var í annað sinn og skyldu þeir haldnir á fjögurra ára fresti). Kirkjudagarnir tókust ljómandi vel og hleyptu kappi í kinnar kirkjufólks. Undirritaður tók þátt í þeim og kynnti starf kirkjunnar í fangelsum landsins og var sú kynning ágætlega sótt. Hið sama gegndi um aðrar kynningar. Kirkjudagarnir voru kröftug kynning á kirkjustarfi og hlutu jákvæðar undirtektir. Ýmis áföll sem dundu á þjóðkirkjunni drógu úr henni mátt og þor; hún var lengi vel skömmustuleg og óupplitsdjörf. Og fjármálavíkingar höfðu gert strandhögg í efnahagskerfi þjóðarinnar. Kirkjudagarnir hurfu í djúpið – að sinni.

Sem sé. Kirkjudagar eru nú í deiglunni og því ber svo sannarlega að fagna. Á þessu ári hefst undirbúningur þeirra ef marka má fræðslustefnu þjóðkirkjunnar (bls. 13):

„Þar mun Þjóðkirkjan vekja athygli á fjölbreytilegu starfi og þjónustu og benda á það hlutverk sem hún gegnir í samfélaginu. Vandað þarf til verkefnisins og hefja undirbúning á fyrsta gildisári þessarar fræðslustefnu. Gert er ráð fyrir að um sé að ræða samstarfsverkefni Þjónustumiðstöðvar kirkjunnar og prófastsdæma um allt land,“ segir í fræðslustefnunni sem ber reyndar fremur drungalegt nafn, „Frá vöggu til grafar.“ Ætti auðvitað að vera „Frá vöggu til upprisu.“ En það er nú önnur saga.

Komandi kirkjudagar eru mikil gleðitíðindi og spennandi verður að sjá hvernig til tekst. Nú þurfa allir að leggjast á árarnar svo vel fari. Þjóðkirkjan þarf nefnilega að vera sýnilegri í samfélaginu á öllum vígstöðvum þess – hún má ekki einangrast inni í kirkjuhúsunum!

Trúarlæsi er afar mikilvægt í samfélaginu. Hér skal því skotið að hvort komandi kirkjudagar ættu ekki að beina sjónum sínum að almennu trúarlæsi í samfélaginu.

Morgunblaðið sagði frá því í gær að nemendur við Verzlunarskóla Íslands hafi búið til spil, „Aur og áhætta.“ Markmiðið með því er að kenna fjármálalæsi – en þó minnug þess að margur verður af aurum api. Nú mætti halda að þessir ágætu nemendur og hugmyndaríku væru sérstakir vinir mammóns en um það veit undirritaður ekki og kemur í sjálfu sér ekkert við. Mammón gamli á víða lærisveina og er hér og þar að störfum í samfélaginu, innan kirkju sem utan. Hann stendur fyrir hið kapítalíska samfélag sem hríslast um allt og við erum bara nokkuð ánægð með þó svo við rekum upp annað slagið mótmælagól gegn honum. Við munum svo sem orð meistarans um að ekki sé hægt að þjóna tveimur herrum, Guði og mammón – og þar getur mammón eflaust staðið fyrir hitt og þetta. En spurning er hvort ekki sé hægt að læra eitthvað af mammóni hinum síunga?

Hvers vegna ekki trúarlæsisspil?

Orðið útskýrir sig sjálft. Hve læs eru þau sem taka þátt í spilinu á trúarlegan vef samfélagsins? Uppruna orða og tengsla? Siðferðis og framkomu? Stofnana og félagslegra atburða? Ekki þarf að spyrja um sálmvers í þessu sambandi enda stórlega dregið úr utanaðbókalærdómi í kirkju- og skólakerfi. Svo er spurning hvort biblíusöguþekkingu hafi farið fram.

Trúarlæsisspil gæti verið gott veganesti af komandi kirkjudögum.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?