Snjöll  bók

Petrína Mjöll Jóhannesdóttir. Mynd: Edda Möller

Það er snjöll leið sem Petrína Mjöll Jóhannesdóttir, prestur í Árbæjarprestakalli, fer með því að velja ýmsar tilvitnanir úr Biblíunni og leggja út af þeim í fáeinum orðum og skilja lesendur eftir með nokkrar spurningar  til íhugunar. Texti hverrar umfjöllunar er hæfilega langur og vel úr garði gerður. Þessi bók hennar heitir: Hundrað og þrjú ráð – gagnlegar ráðleggingar úr Biblíunni til að lifa góðu lífi.

Petrína Mjöll hefur sýnt það og sannað með bókum sínum að hún er hugmyndaríkur höfundur á trúarlega vængnum og fer þar um af skynsemi og hófsemi án þess að glata erindi sínu sem er að koma fagnaðarerindi trúarinnar til skila eftir nýjum leiðum. Þetta er ein leið af mörgum til að koma boðskap Biblíunnar áleiðis og fyrir hugmyndaauðgi og kraft á Petrína Mjöll þakkir skyldar.

Í þessum hollráðum sem byggja á viturlegum tilvitnunum úr sagnabrunni helgra texta og hafa slípast til í deiglu aldanna er að finna leiðsögn sem hæfir jafn vel nú á dögum sem fyrr. Manneskjan breytist í sjálfu sér ekki mikið frá einni öld til annarrar. Spekiorðin eiga rætur sínar í eðli mannskepnunnar og ná að fanga hugsanir hennar og gjörðir á öllum tímum. Nútíminn er leiddur fram fyrir þessa fornu speki og í ljós kemur að hún er sígild – hún er tímalaus. Margir sitja um nútímamanneskjuna í hversdagsleikanum og vilja eiga við hana orð, stýra henni og móta. Í hugleiðingum sínum nær Petrína Mjöll afar vel að tefla fram erilsömu lífi nútímans og spegla það í ljósi heilráðanna fornu. Hver hugleiðing er á vissan hátt skemmtilestur og þá er vel. Gjarnan hefst hún á einhverri glettnislegri tilvitnun sem nær athygli lesandans, gamalt og gott ráð, og síðan er listilega prjónað við enda vön prjónakona sem heldur utan um garn og prjóna.

Það er vissulega mikið í fang færst að skrifa í þessum dúr rúmlega eitt hundrað ráð. Alltaf er hætta á að höfundur slíkra texta fatist flugið þegar fram í sækir. Svo er ekki með Petrínu Mjöll. Hún gefur ekkert eftir því lengra sem líður á ráðin. Engrar ráðaþreytu gætir. Það sýnir og að bókin hefur verið unnin jafnt og þétt án nokkurs asa.

Traustur þáttur í hugleiðingunum er einlæg guðstrú höfundar og henni er komið á framfæri með mjög svo eðlilegum hætti og án einhvers trúarlegs yfirlætis. Hver sem tekur sér þessa bók í hönd þarf ekki að velkjast í vafa um grunnur heilráðanna 103 hvílir á einlægri trú.

Þarflaust er að taka það fram að bókin er byggð upp með þeim hætti að hægt er að skjótast á milli ráða ef svo má segja. Ekki þarf endilega að lesa frá fyrsta ráði og út.

Flestu kirkjufólki er ljóst að Biblían er almennt lítt lesin enda þótt hún sé í eigu flestra. Hún er því miður minnst lesna bók landsmanna og þyrfti að gefa út Biblíukjarna eða Biblíusögur handa almenningu.

Þess vegna þarf að finna leiðir til að koma boðskap hennar til skila í öðru en prédikunum og annarri umfjöllun. Þetta er ein leið og hún snjöll sem áður sagði – og til fyrirmyndar.

Vel valin vonarorð

Löngum hafa bækur með snjöllum tilvitnunum verið vinsælar og ekkert lát á útgáfu slíkra bóka. Sumar eru hnausþykkar og aðrar meðalþykkar. Öll þau sem gripið hafa til bóka af þessu tagi þekkja þá tilfinningu að mettast fljótt af speki og snilliyrðum karla og kvenna. Stundum getur verið ráð að ganga fram með hófstilltari hætti og gefa út styttri bók með þess háttar speki og sér í lagi í ljósi þess að enginn skortur er á gamalli speki sem og nýrri. Betri er speki í hófi en óhófi, svo nýju spekiyrði sé varpað fram að gefnu tilefni.

Þorvaldur Víðisson, prestur í Fossvogsprestakalli, hefur þýtt og tekið saman spakmæli – eða kjarnyrði sem hann kýs að kalla svo – sem snúast um vonina. Það er vel til fundið. Bókin ber titilinn: Vonin – akkeri fyrir sálina.

Þorvaldur Víðisson. Mynd: Edda Möller

Kápu bókarinnar prýða myndir af akkerum. Öll eru þau hvít nema þrjú sem eru bleik, blá og gul. Litirnir vísa til bleiks októbers, guls septembers og Bláa naglans. Er þar um að ræða mánuð baráttu og samstöðu með þeim sem fengið hafa brjóstakrabbamein; mánuð þeirra sem taka höndum saman um sjálfsvígsforvarnir, og mánuð þeirra karlmanna sem greinst hafa með blöðruhálskrabbamein. Í öllum þessu tilvikum skipar vonin öndvegi.

Vonartilvitnanirnar eru úr ýmsum áttum og því fjölbreytilegar. Það er mikill kostur því að þau sem eru í leit á ögurstundum lífsins að haldreipi í knöppu máli sem talar hispurslaust inn í aðstæður þeirra  er mjög svo víðfeðmur hópur. Þessi bók nær til hans. Ekki aðeins trúarlegar tilvísanir – sem þó eru flestar – heldur og veraldlegar. Það er alkunna að þau sem standa andspænis miklum lífsvanda þurfa ekki á að halda löngum ræðum og stöðugum faðmlögum. Eitt vonarorð, snjallt og skarpt, getur hitt í sálarmark og er á við langt samtal. Með þessu er ekki verið að gera lítið úr ráðgjöf, samúðarfaðmlögum og samtali, heldur aðeins bent á að stundum þarf að nesta fólk með góðum vonarorðum sem það getur íhugað og haft sem bæn sé tilvitnunin af trúarlegri rót.

Ekki verður annað séð en að Þorvaldi hafi tekist vel með val á styrkjandi vonarorðum. Hann leitar á fengsæl mið Biblíunnar, í sjóð skálda og spekinga. Tilvitnanir þær sem Þorvaldur þýðir eru hnökralausar og vel orðaðar. Öll þau sem fengist hafa við þýðingar vita að oft getur verið snöggt um erfiðara að þýða spakmæli í fáum orðum en heila blaðsíðu af hefðbundnum texta svo vel fari.

Vonin – akkeri fyrir sálina, er bók sem getur verið hverjum þeim er tekur hana sér í hönd nærandi sálarhressing. Þá hafa og þau sem starfa við sálusorgun fengið hér tilvalda bók til að rétta að fólki sem er í þörf fyrir von, kjark og trú.

Skálholtsútgáfan – útgáfufélag þjóðkirkjunnar, gaf út báðar bækurnar.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Snjöll  bók

Petrína Mjöll Jóhannesdóttir. Mynd: Edda Möller

Það er snjöll leið sem Petrína Mjöll Jóhannesdóttir, prestur í Árbæjarprestakalli, fer með því að velja ýmsar tilvitnanir úr Biblíunni og leggja út af þeim í fáeinum orðum og skilja lesendur eftir með nokkrar spurningar  til íhugunar. Texti hverrar umfjöllunar er hæfilega langur og vel úr garði gerður. Þessi bók hennar heitir: Hundrað og þrjú ráð – gagnlegar ráðleggingar úr Biblíunni til að lifa góðu lífi.

Petrína Mjöll hefur sýnt það og sannað með bókum sínum að hún er hugmyndaríkur höfundur á trúarlega vængnum og fer þar um af skynsemi og hófsemi án þess að glata erindi sínu sem er að koma fagnaðarerindi trúarinnar til skila eftir nýjum leiðum. Þetta er ein leið af mörgum til að koma boðskap Biblíunnar áleiðis og fyrir hugmyndaauðgi og kraft á Petrína Mjöll þakkir skyldar.

Í þessum hollráðum sem byggja á viturlegum tilvitnunum úr sagnabrunni helgra texta og hafa slípast til í deiglu aldanna er að finna leiðsögn sem hæfir jafn vel nú á dögum sem fyrr. Manneskjan breytist í sjálfu sér ekki mikið frá einni öld til annarrar. Spekiorðin eiga rætur sínar í eðli mannskepnunnar og ná að fanga hugsanir hennar og gjörðir á öllum tímum. Nútíminn er leiddur fram fyrir þessa fornu speki og í ljós kemur að hún er sígild – hún er tímalaus. Margir sitja um nútímamanneskjuna í hversdagsleikanum og vilja eiga við hana orð, stýra henni og móta. Í hugleiðingum sínum nær Petrína Mjöll afar vel að tefla fram erilsömu lífi nútímans og spegla það í ljósi heilráðanna fornu. Hver hugleiðing er á vissan hátt skemmtilestur og þá er vel. Gjarnan hefst hún á einhverri glettnislegri tilvitnun sem nær athygli lesandans, gamalt og gott ráð, og síðan er listilega prjónað við enda vön prjónakona sem heldur utan um garn og prjóna.

Það er vissulega mikið í fang færst að skrifa í þessum dúr rúmlega eitt hundrað ráð. Alltaf er hætta á að höfundur slíkra texta fatist flugið þegar fram í sækir. Svo er ekki með Petrínu Mjöll. Hún gefur ekkert eftir því lengra sem líður á ráðin. Engrar ráðaþreytu gætir. Það sýnir og að bókin hefur verið unnin jafnt og þétt án nokkurs asa.

Traustur þáttur í hugleiðingunum er einlæg guðstrú höfundar og henni er komið á framfæri með mjög svo eðlilegum hætti og án einhvers trúarlegs yfirlætis. Hver sem tekur sér þessa bók í hönd þarf ekki að velkjast í vafa um grunnur heilráðanna 103 hvílir á einlægri trú.

Þarflaust er að taka það fram að bókin er byggð upp með þeim hætti að hægt er að skjótast á milli ráða ef svo má segja. Ekki þarf endilega að lesa frá fyrsta ráði og út.

Flestu kirkjufólki er ljóst að Biblían er almennt lítt lesin enda þótt hún sé í eigu flestra. Hún er því miður minnst lesna bók landsmanna og þyrfti að gefa út Biblíukjarna eða Biblíusögur handa almenningu.

Þess vegna þarf að finna leiðir til að koma boðskap hennar til skila í öðru en prédikunum og annarri umfjöllun. Þetta er ein leið og hún snjöll sem áður sagði – og til fyrirmyndar.

Vel valin vonarorð

Löngum hafa bækur með snjöllum tilvitnunum verið vinsælar og ekkert lát á útgáfu slíkra bóka. Sumar eru hnausþykkar og aðrar meðalþykkar. Öll þau sem gripið hafa til bóka af þessu tagi þekkja þá tilfinningu að mettast fljótt af speki og snilliyrðum karla og kvenna. Stundum getur verið ráð að ganga fram með hófstilltari hætti og gefa út styttri bók með þess háttar speki og sér í lagi í ljósi þess að enginn skortur er á gamalli speki sem og nýrri. Betri er speki í hófi en óhófi, svo nýju spekiyrði sé varpað fram að gefnu tilefni.

Þorvaldur Víðisson, prestur í Fossvogsprestakalli, hefur þýtt og tekið saman spakmæli – eða kjarnyrði sem hann kýs að kalla svo – sem snúast um vonina. Það er vel til fundið. Bókin ber titilinn: Vonin – akkeri fyrir sálina.

Þorvaldur Víðisson. Mynd: Edda Möller

Kápu bókarinnar prýða myndir af akkerum. Öll eru þau hvít nema þrjú sem eru bleik, blá og gul. Litirnir vísa til bleiks októbers, guls septembers og Bláa naglans. Er þar um að ræða mánuð baráttu og samstöðu með þeim sem fengið hafa brjóstakrabbamein; mánuð þeirra sem taka höndum saman um sjálfsvígsforvarnir, og mánuð þeirra karlmanna sem greinst hafa með blöðruhálskrabbamein. Í öllum þessu tilvikum skipar vonin öndvegi.

Vonartilvitnanirnar eru úr ýmsum áttum og því fjölbreytilegar. Það er mikill kostur því að þau sem eru í leit á ögurstundum lífsins að haldreipi í knöppu máli sem talar hispurslaust inn í aðstæður þeirra  er mjög svo víðfeðmur hópur. Þessi bók nær til hans. Ekki aðeins trúarlegar tilvísanir – sem þó eru flestar – heldur og veraldlegar. Það er alkunna að þau sem standa andspænis miklum lífsvanda þurfa ekki á að halda löngum ræðum og stöðugum faðmlögum. Eitt vonarorð, snjallt og skarpt, getur hitt í sálarmark og er á við langt samtal. Með þessu er ekki verið að gera lítið úr ráðgjöf, samúðarfaðmlögum og samtali, heldur aðeins bent á að stundum þarf að nesta fólk með góðum vonarorðum sem það getur íhugað og haft sem bæn sé tilvitnunin af trúarlegri rót.

Ekki verður annað séð en að Þorvaldi hafi tekist vel með val á styrkjandi vonarorðum. Hann leitar á fengsæl mið Biblíunnar, í sjóð skálda og spekinga. Tilvitnanir þær sem Þorvaldur þýðir eru hnökralausar og vel orðaðar. Öll þau sem fengist hafa við þýðingar vita að oft getur verið snöggt um erfiðara að þýða spakmæli í fáum orðum en heila blaðsíðu af hefðbundnum texta svo vel fari.

Vonin – akkeri fyrir sálina, er bók sem getur verið hverjum þeim er tekur hana sér í hönd nærandi sálarhressing. Þá hafa og þau sem starfa við sálusorgun fengið hér tilvalda bók til að rétta að fólki sem er í þörf fyrir von, kjark og trú.

Skálholtsútgáfan – útgáfufélag þjóðkirkjunnar, gaf út báðar bækurnar.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir