Sumar bækur eru þannig að maður spyr sjálfan sig hvort rétt sé að skrifa um þær. Hvort maður hafi vit og þroska til þess. Já, hvort maður eigi bara ekki að íhuga þær með sjálfum sér og taka á móti efni þeirra sem viskubrunni og lærdómi.

Segir maður ekki einhverja vitleysu þegar farið er út á þann hála ís að skrifa um ljóðabækur? Eflaust hafa bókmenntafræðingar einhverjar verkfæratöskur í geymslum sínum sem þeir grafa í þegar fjalla skal um ljóð. Verkfærataska þess sem slær hér lyklaborð er aðeins full af skrúfjárnum og skiptilyklum ásamt hinu og þessu sem ekki dugar til að skrúfa í sundur ljóð með spekingssvip.

En hvað um það. Það er svo sem ekki viturlegt að skrúfa ljóð í sundur. Ljóð þarf að skynja, skilja, upplifa. Ljóð er listaverk.

Ljóðið er tilvistarlegt form sem er í raun yfir alla bókmenntalega gagnrýni hafið svo lengi sem höfundurinn gengur þar fram af einlægni og trúmennsku við sjálfan sig. Ljóðið er eins og ástrík manneskja sem rækir skyldur sínar við höfundinn og lífsviðhorf hans. Það er farvegur innstu hugsana hans – er kannski í raun hjarta hans sem lesendur leggja eyrun við og nema slátt þess. Ljóðið hefur enda verið bjarghringur karla og kvenna svo öldum skiptir.

Nú, að þessum formála virtum, eins og sagt er á máli lagatækninnar, skal játað að sumar ljóðabækur eru einfaldlega með þeim hætti að það er nánast siðferðileg skylda að vekja athygli á þeim. Gefa öðrum sem ekki vita af þeim tækifæri til að kynnast ljóðum þeirra og læra af þeim.

Ljóðabækurnar sem eru kveikjan að þessum stutta pistli eru eftir tvær konur. Ljóð þeirra segja sögu sem má nota ýmis orð um. Harmsaga, vísdómssaga þar sem glímt er við sorg, lífsbrotasaga, kærleikssaga til lífsins, átakasaga þar sem tilvistarhjarta höfunda tekst á við það sem enginn óskar sér að knýi dyra í lífi þeirra. Það er eitthvað sem gerist. Eitthvað sem setur mark sitt á lífið – eitthvað sem er. Ljóðformið opnar faðm sinn fyrir öllum þessum tilfinningum sem ýmist brjótast fram sem þungur straumur sem þrífur fullur örvæntingar í árbakkann. Eða þá sem kyrrlát læna. Líka tilfinningar í klakaböndum – eða sem lokkandi og ilmandi vatn á sumardegi – eða lagt viðsjárverðri íshellu. Það er öll tilfinningasinfónía lífsins.

En straumur andrárinnar, líðandi stundar, er farvegur tilvistarinnar. Angistar, ástar, söknuðar, kvíða, vonar – farvegur hversdagsins sem er öðru vísi en hann átti að vera.

Ljóðabækur þeirra Sonju B. Jónsdóttur og Hönnu Óladóttur segja tilvistarsögu. Ljóðin rekja nokkuð samfellda sögu sem grípa lesandann.

Það er ekki hægt að setja sig í spor þeirrar manneskju sem missir barnið sitt. Í myrkrinu fór ég til Maríu, heitir bók Sonju. Hún er skrifuð til þess að dóttir hennar, Harpa Rut Sonjudóttir, sem fórst í slysi aðeins nítján ára gömul, gleymist ekki. Ljóðin segja sögu hennar og móðurinnar með fögrum og áhrifaríkum hætti.

Þegar hún kveður dóttur sína á líkbörunum:

ísaldarkuldi heltók mig

(bls. 27)

Lesandinn verður snortinn af trega ljóðafrásagnarinnar og andlegum heilindum höfundarins. Þar er ekkert undan dregið. Um stund stígur lesandinn inn í tilvist höfundarins og er þar áhorfandi. Í sjálfu sér getur hann ekkert gert því brotthvarf dóttur höfundar af þessum heimi er ekki lesandans. Hann finnur vissulega til samlíðunar en er nokkuð hjálparvana. Ljóðsagan getur verið honum vísdómur því hún er sett fram af mannviti og yfirvegun lífsreyndrar manneskju.

Tilveran er ofin úr mörgum þáttum. Sonja slær vef minninganna án allra undanbragða svo saga dóttur hennar sem er líka saga hennar birtist lesandanum í mildum og skærum litum í senn. Eins og lífið er. Saga dótturinnar gleymist því ekki lesandanum.

En hvert leitar fólk í myrkri tilverunnar?

Bókartitill segir frá því að höfundur hafi leitað til Maríu í myrkrinu sem lagðist skyndilega yfir líf hennar:

konunnar í bláa kjólnum

hinnar heilögu
guðsmóður

(bls. 45)

Guðsmóðirin er sterkt tákn í trú og menningu. María móðir Jesú stendur enn styrkum fótum í vestrænni menningu hvað sem fólk kann að segja um trú og kirkju. Hún er kannski í raun og veru tilvistarlegt tákn í trú og veraldarhyggju – eða kraftur sem fólk skynjar í nístandi verufræðilegum aðstæðum.

lokaði augunum
og skreið
upp í fang
hennar

hún vafði mig
örmum og
vaggaði mér

(bls. 45)

Sonja bregður upp sterkum myndum í glímu sinni við dótturmissinn. Eins og:

nú leiðast þær systur
sorgin og gleðin
um hjarta mitt

sem hefur stækkað
nógu mikið til að
rúma þær báðar

(bls. 76)

Ljóðabók Hönnu Óladóttur heitir Bakland.

Ljóðin tefla fram sögu þriggja kvenna sem allar bera nafn guðsmóðurinnar, Maríu. Kannski er það tilviljun – kannski tilvísun til þeirrar er bar guðssoninn í heiminn. Eru ekki öll börn guðsættar?

Þessar þrjár konur koma úr sitt hverri áttinni en um stund liggja leiðir þeirra um grýtta braut þar sem dætur þeirra eru í fjötrum fíkniefna.

Ljóðið Þrjár Maríur (bls. 13) er með fyrstu ljóðum bókarinnar:

höfum í upphafi
ímugust hver á annarri

snýst seinna
yfir í fáleika

neyðumst loks
til að játast
örlögunum

Á sama hátt og það er ekki hægt að setja sig í spor þess sem missir barn sitt er ekki heldur hægt að setja sig í spor þeirra sem missa barnið sitt í eiturklær fíknar og eymdar sem henni fylgir. Það er líka dauði. Missir.

Ljóðin eru sem vörður á leið þeirrar baráttu sem snýst um að heimta börnin úr helju fíknarinnar. Það er barátta upp á líf og dauða. Barátta sem setur mark sitt á þau sem í henni standa. Það er vígvöllur þessara kvenna, Maríanna þriggja, og ekki síður dætra þeirra þó með öðrum hætti sé:

dætur okkar í annarlegu ástandi
teknar með neysluskammta

börn í áhættuhegðun

(bls. 86)

Enginn veit hver kemur heill af þeim vígvelli. Eitt er víst að allir koma vígmóðir hvort sem þeir unnu sigur eða lutu í gras.

Samfélag og uppeldi sníða manneskjuna til og búa til sviðsmynd hugarins sem fylgir henni meira og minna alla tíð. Eins og löndin eru hvert öðru ólík með kostum sínum og göllum þá er bakland hverrar manneskju aldrei nákvæmlega hið sama og samferðafólksins. Öll eigum við okkar bakland sem er nokkurs konar andleg ættjörð. Þetta á við um Maríurnar þrjár í ljóðabókinni Bakland.

Þær hugsa ekki eins og augljóslega er gjá menningarmunarins á milli þeirra. En kærleikur þeirra til dætranna yfirstígur allan menningarmun því móðurástin er ekki af þessum heimi. Kannski er móðurástin hið eina sameiginlega bakland sem þær eiga. Þetta kvæði Hönnu heitir Móðurást (bls. 100):

hún vellur
hún kraumar
hún brýst fram

yfir öllu
mótlætinu
óréttlætinu
tómlætinu

óáþreifanleg
ómælanleg
ósýnileg

orka sem flytur fjöll

Allar þessar Maríur horfa í raun til þess baklands sem trúartextar og helgihefðir hafa ofið í kringum þá konu sem fæddi guðssoninn í heiminn. Sú sem var sælust meyja eins og allar mæður en hennar biðu þau örlög að horfa upp á son sinn líflátinn. Son sem gekk um kring og gjörði gott. Son sem varð tákn fyrir kærleika mæðra og allra þeirra er láta sér annt um annað fólk.

Báðar þessar ljóðabækur, Í myrkrinu fór ég til Maríu og Bakland, glíma við það sem lífið færir fólki en það eru býsna misjöfn kjör. Ljóðabækurnar eru sem gluggi inn í veruleika ljóðskáldanna og lesendum er boðið að fylgjast með hvernig skáldin nálgast örlög og lífssársauka. Það er ekki gert til að svala forvitni lesandans heldur kannski miklu fremur til að mennta hann – gera hann að betri manneskju. Bæði ljóðskáldin, Sonja og Hanna, gera það með næmum og hófstilltum hætti hinnar ljóðgáfuðu og vitru konu sem hefur horfst í augu við hið óskiljanlega í lífinu.

Kirkjublaðið.is mælir eindregið með þessum tveimur ljóðabókum og telur að þær gætu komið sér vel í safnaðarstarfi þar sem fjallað er um sorg, missi, og hvernig hægt er að takast á við hörð örlög en halda reisn sinni sem manneskja. Bækurnar báðar geta verið traust hjálparhella og kærleiksrík leiðsögn fyrir fólk sem lífið hefur ekki alltaf farið mjúkum höndum um. Sjálft ljóðformið er styrkur slíkrar leiðsagnar vegna þess að hvorki skraf né málæði rúmast innan hins knappa form þess. Þess vegna eru ljóð þeirra Sonju og Hönnu gulls ígildi fyrir lesandann.

Í myrkrinu fór ég til Maríu, eftir Sonju B. Jónsdóttur. Veröld gaf út, 2023, 80 bls.

Bakland, eftir Hönnu Óladóttur. Mál og menning gaf út, 2023, 108 bls.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Sumar bækur eru þannig að maður spyr sjálfan sig hvort rétt sé að skrifa um þær. Hvort maður hafi vit og þroska til þess. Já, hvort maður eigi bara ekki að íhuga þær með sjálfum sér og taka á móti efni þeirra sem viskubrunni og lærdómi.

Segir maður ekki einhverja vitleysu þegar farið er út á þann hála ís að skrifa um ljóðabækur? Eflaust hafa bókmenntafræðingar einhverjar verkfæratöskur í geymslum sínum sem þeir grafa í þegar fjalla skal um ljóð. Verkfærataska þess sem slær hér lyklaborð er aðeins full af skrúfjárnum og skiptilyklum ásamt hinu og þessu sem ekki dugar til að skrúfa í sundur ljóð með spekingssvip.

En hvað um það. Það er svo sem ekki viturlegt að skrúfa ljóð í sundur. Ljóð þarf að skynja, skilja, upplifa. Ljóð er listaverk.

Ljóðið er tilvistarlegt form sem er í raun yfir alla bókmenntalega gagnrýni hafið svo lengi sem höfundurinn gengur þar fram af einlægni og trúmennsku við sjálfan sig. Ljóðið er eins og ástrík manneskja sem rækir skyldur sínar við höfundinn og lífsviðhorf hans. Það er farvegur innstu hugsana hans – er kannski í raun hjarta hans sem lesendur leggja eyrun við og nema slátt þess. Ljóðið hefur enda verið bjarghringur karla og kvenna svo öldum skiptir.

Nú, að þessum formála virtum, eins og sagt er á máli lagatækninnar, skal játað að sumar ljóðabækur eru einfaldlega með þeim hætti að það er nánast siðferðileg skylda að vekja athygli á þeim. Gefa öðrum sem ekki vita af þeim tækifæri til að kynnast ljóðum þeirra og læra af þeim.

Ljóðabækurnar sem eru kveikjan að þessum stutta pistli eru eftir tvær konur. Ljóð þeirra segja sögu sem má nota ýmis orð um. Harmsaga, vísdómssaga þar sem glímt er við sorg, lífsbrotasaga, kærleikssaga til lífsins, átakasaga þar sem tilvistarhjarta höfunda tekst á við það sem enginn óskar sér að knýi dyra í lífi þeirra. Það er eitthvað sem gerist. Eitthvað sem setur mark sitt á lífið – eitthvað sem er. Ljóðformið opnar faðm sinn fyrir öllum þessum tilfinningum sem ýmist brjótast fram sem þungur straumur sem þrífur fullur örvæntingar í árbakkann. Eða þá sem kyrrlát læna. Líka tilfinningar í klakaböndum – eða sem lokkandi og ilmandi vatn á sumardegi – eða lagt viðsjárverðri íshellu. Það er öll tilfinningasinfónía lífsins.

En straumur andrárinnar, líðandi stundar, er farvegur tilvistarinnar. Angistar, ástar, söknuðar, kvíða, vonar – farvegur hversdagsins sem er öðru vísi en hann átti að vera.

Ljóðabækur þeirra Sonju B. Jónsdóttur og Hönnu Óladóttur segja tilvistarsögu. Ljóðin rekja nokkuð samfellda sögu sem grípa lesandann.

Það er ekki hægt að setja sig í spor þeirrar manneskju sem missir barnið sitt. Í myrkrinu fór ég til Maríu, heitir bók Sonju. Hún er skrifuð til þess að dóttir hennar, Harpa Rut Sonjudóttir, sem fórst í slysi aðeins nítján ára gömul, gleymist ekki. Ljóðin segja sögu hennar og móðurinnar með fögrum og áhrifaríkum hætti.

Þegar hún kveður dóttur sína á líkbörunum:

ísaldarkuldi heltók mig

(bls. 27)

Lesandinn verður snortinn af trega ljóðafrásagnarinnar og andlegum heilindum höfundarins. Þar er ekkert undan dregið. Um stund stígur lesandinn inn í tilvist höfundarins og er þar áhorfandi. Í sjálfu sér getur hann ekkert gert því brotthvarf dóttur höfundar af þessum heimi er ekki lesandans. Hann finnur vissulega til samlíðunar en er nokkuð hjálparvana. Ljóðsagan getur verið honum vísdómur því hún er sett fram af mannviti og yfirvegun lífsreyndrar manneskju.

Tilveran er ofin úr mörgum þáttum. Sonja slær vef minninganna án allra undanbragða svo saga dóttur hennar sem er líka saga hennar birtist lesandanum í mildum og skærum litum í senn. Eins og lífið er. Saga dótturinnar gleymist því ekki lesandanum.

En hvert leitar fólk í myrkri tilverunnar?

Bókartitill segir frá því að höfundur hafi leitað til Maríu í myrkrinu sem lagðist skyndilega yfir líf hennar:

konunnar í bláa kjólnum

hinnar heilögu
guðsmóður

(bls. 45)

Guðsmóðirin er sterkt tákn í trú og menningu. María móðir Jesú stendur enn styrkum fótum í vestrænni menningu hvað sem fólk kann að segja um trú og kirkju. Hún er kannski í raun og veru tilvistarlegt tákn í trú og veraldarhyggju – eða kraftur sem fólk skynjar í nístandi verufræðilegum aðstæðum.

lokaði augunum
og skreið
upp í fang
hennar

hún vafði mig
örmum og
vaggaði mér

(bls. 45)

Sonja bregður upp sterkum myndum í glímu sinni við dótturmissinn. Eins og:

nú leiðast þær systur
sorgin og gleðin
um hjarta mitt

sem hefur stækkað
nógu mikið til að
rúma þær báðar

(bls. 76)

Ljóðabók Hönnu Óladóttur heitir Bakland.

Ljóðin tefla fram sögu þriggja kvenna sem allar bera nafn guðsmóðurinnar, Maríu. Kannski er það tilviljun – kannski tilvísun til þeirrar er bar guðssoninn í heiminn. Eru ekki öll börn guðsættar?

Þessar þrjár konur koma úr sitt hverri áttinni en um stund liggja leiðir þeirra um grýtta braut þar sem dætur þeirra eru í fjötrum fíkniefna.

Ljóðið Þrjár Maríur (bls. 13) er með fyrstu ljóðum bókarinnar:

höfum í upphafi
ímugust hver á annarri

snýst seinna
yfir í fáleika

neyðumst loks
til að játast
örlögunum

Á sama hátt og það er ekki hægt að setja sig í spor þess sem missir barn sitt er ekki heldur hægt að setja sig í spor þeirra sem missa barnið sitt í eiturklær fíknar og eymdar sem henni fylgir. Það er líka dauði. Missir.

Ljóðin eru sem vörður á leið þeirrar baráttu sem snýst um að heimta börnin úr helju fíknarinnar. Það er barátta upp á líf og dauða. Barátta sem setur mark sitt á þau sem í henni standa. Það er vígvöllur þessara kvenna, Maríanna þriggja, og ekki síður dætra þeirra þó með öðrum hætti sé:

dætur okkar í annarlegu ástandi
teknar með neysluskammta

börn í áhættuhegðun

(bls. 86)

Enginn veit hver kemur heill af þeim vígvelli. Eitt er víst að allir koma vígmóðir hvort sem þeir unnu sigur eða lutu í gras.

Samfélag og uppeldi sníða manneskjuna til og búa til sviðsmynd hugarins sem fylgir henni meira og minna alla tíð. Eins og löndin eru hvert öðru ólík með kostum sínum og göllum þá er bakland hverrar manneskju aldrei nákvæmlega hið sama og samferðafólksins. Öll eigum við okkar bakland sem er nokkurs konar andleg ættjörð. Þetta á við um Maríurnar þrjár í ljóðabókinni Bakland.

Þær hugsa ekki eins og augljóslega er gjá menningarmunarins á milli þeirra. En kærleikur þeirra til dætranna yfirstígur allan menningarmun því móðurástin er ekki af þessum heimi. Kannski er móðurástin hið eina sameiginlega bakland sem þær eiga. Þetta kvæði Hönnu heitir Móðurást (bls. 100):

hún vellur
hún kraumar
hún brýst fram

yfir öllu
mótlætinu
óréttlætinu
tómlætinu

óáþreifanleg
ómælanleg
ósýnileg

orka sem flytur fjöll

Allar þessar Maríur horfa í raun til þess baklands sem trúartextar og helgihefðir hafa ofið í kringum þá konu sem fæddi guðssoninn í heiminn. Sú sem var sælust meyja eins og allar mæður en hennar biðu þau örlög að horfa upp á son sinn líflátinn. Son sem gekk um kring og gjörði gott. Son sem varð tákn fyrir kærleika mæðra og allra þeirra er láta sér annt um annað fólk.

Báðar þessar ljóðabækur, Í myrkrinu fór ég til Maríu og Bakland, glíma við það sem lífið færir fólki en það eru býsna misjöfn kjör. Ljóðabækurnar eru sem gluggi inn í veruleika ljóðskáldanna og lesendum er boðið að fylgjast með hvernig skáldin nálgast örlög og lífssársauka. Það er ekki gert til að svala forvitni lesandans heldur kannski miklu fremur til að mennta hann – gera hann að betri manneskju. Bæði ljóðskáldin, Sonja og Hanna, gera það með næmum og hófstilltum hætti hinnar ljóðgáfuðu og vitru konu sem hefur horfst í augu við hið óskiljanlega í lífinu.

Kirkjublaðið.is mælir eindregið með þessum tveimur ljóðabókum og telur að þær gætu komið sér vel í safnaðarstarfi þar sem fjallað er um sorg, missi, og hvernig hægt er að takast á við hörð örlög en halda reisn sinni sem manneskja. Bækurnar báðar geta verið traust hjálparhella og kærleiksrík leiðsögn fyrir fólk sem lífið hefur ekki alltaf farið mjúkum höndum um. Sjálft ljóðformið er styrkur slíkrar leiðsagnar vegna þess að hvorki skraf né málæði rúmast innan hins knappa form þess. Þess vegna eru ljóð þeirra Sonju og Hönnu gulls ígildi fyrir lesandann.

Í myrkrinu fór ég til Maríu, eftir Sonju B. Jónsdóttur. Veröld gaf út, 2023, 80 bls.

Bakland, eftir Hönnu Óladóttur. Mál og menning gaf út, 2023, 108 bls.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir