Allir þekkja bækur um einstaka listamenn og verk þeirra þar sem saga þeirra er rakin og þeir settir inn í listsögulegt samhengi. Bækur af þessu tagi koma út á hverju ári og oft í tengslum við listsýningar, vandaðar bækur og býsna dýrar. Þessar bækur verða svo partur af íslenskri listasögu, endurnýjaðri. Síðasta heildarútgáfa íslenskrar listasögu kom út 2011 í fimm bindum undir heitinu Íslensk listasaga.
Það eru ekki margar fræðibækur sem koma út um listfræði eina og sér. Nú hefur list- og guðfræðingurinn dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson bætt úr þessu með bók sinni Abstraktmálverkið á helgimynd íslenskrar menningar á 20. öld? Bókin byggir að mestu leyti á meistaraprófsritgerð dr. Sigurjóns Árna sem áhugasamir um efnið geta fundið hér.
Segja má að hér sé um að ræða hugmyndafræðilega rannsókn á abstraktlistinni þar sem dr. Sigurjón Árni kallar sér til fulltingis nokkra menningarstólpa, listfræðinga, sem kafað hafa ofan í mótunarár abstraktsins. Jafnframt er leitast við að draga fram sögulegt yfirlit yfir abstraktlistina en þó innan vissra marka sem vel er skiljanlegt þá í mikið verk er ráðist. Höfundur styðst við sýningarskrár, umsagnir um sýningar og umfjöllun listasögunnar íslensku frá 2011. Hann leggur fræðihönd sína sérstaklega á tengsl abstraktlistar við nútímavæðingu og „jafnvel veraldarvæðingu“ (bls. 18) en enginn íslenskur listfræðingur hefur að mati hans fjallað um það síðastnefnda, veraldarvæðinguna (e. secularization).
Dr. Sigurjón Árni telur að hugtökin veraldarvæðing (veraldarhyggja/e. secularization) og afhelgun (e. disenchantment) tengist abstraktmálverkinu og það „sterkum böndum“ (bls. 20) og sýnir fram á það í verki sínu.
Hin kunna ritgerð Þorvaldar Skúlasonar, Nonfígúratív list, sem prentuð var í tímaritinu Birtingi á sínum tíma, ritskýrir dr. Sigurjón og veltir því fyrir sér hvort hún sé stefnuyfirlýsing abstraktsinna og nefnir hana sem trúarjátningu fyrir íslenska abstraktlist.
Eins og fram kemur þá hafa ýmsir listfræðingar ritað um abstraktlistina í tengslum við sýningar og einstaka listamenn. Þessir listfræðingar eru Ólafur Kvaran, Guðbjörg Kristjánsdóttir, Gunnar Kvaran, Halldór Björn Runólfsson, Júlíana Gottskálksdóttir, Gunnar J. Árnason, Jón Proppé, Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir, Ásdís Ólafsdóttir, Kristín G. Guðnadóttir, Ólafur Gíslason og Aðalsteinn Ingólfsson. Skrif flestra þeirra rekur dr. Sigurjón Árni á bls. 23-59 í mislöngu máli sem er hin prýðilegasta samantekt á því hvernig listfræðingarnir hafa á umliðnum áratugum metið þróun abstraktsins hér á landi og skerf hennar til íslenskrar menningarsögu. Þó má ekki skilja að listfræðingarnir séu allir sammála í einu og öllu enda eru áherslur þeirra ólíkar þótt megintúlkun þeirra renni eftir sama farvegi. Þeir hafa hins vegar ekki gefið sérstakan gaum að veraldarvæðingu í tengslum við abstraktverkið en úr því bætir höfundur með margvíslegum hætti.
Það er listsöguleg staðreynd að fimmti áratugur síðustu aldar markaði djúp spor í sögu abstraktlistar þegar Svavar Guðnason og Þorvaldur Skúlason stigu fram með sín abstraktverk og ryðja módernismanum braut. Septembersýningarnar (1947–1952) voru róttækar hvað það snerti að þær ögruðu fígúratífri og þjóðernislegri hefð í myndlist. Í huga margra abstraktlistamanna var hinn strangi flötur vettvangur hins algilda forms og sjónræns sjálfstæðis. Lítill gaumur var gefinn hvort abstraktverkin geymdu einhverjar andlegar eða trúarlegar skírskotanir – til gamans má skjóta því að í þessu sambandi hvað Jóhannes Geir listmálari sagði um fund sem haldinn var meðal listamanna 1953 þar sem abstraktið var hafið upp til skýjanna: „Þetta var beinlínis eins og trúarsöfnuður með tilheyrandi dellumakeríi. Verst fannst mér hvað menn rugluðu með ýmsar kenningar og hugmyndir um tjáningarfrelsi einstaklingsins … Ég hafði aldrei neitt við afstraktlistina sjálfa að athuga, heldur alla áróðursstarfsemina í kringum hana“ (Sigurjón Björnsson og Aðalsteinn Ingólfsson, Jóhannes Geir, Lögberg, 1985 bls. 65). Sverrir Haraldsson talaði um tíma abstraktlistarinnar hjá sér sem ófrjóa tímabilið í listsköpun sinni þar sem sem félagarnir sungu saman hallelúja og Fram þjáðir menn… . (Matthías Johannessen, Sverrir Haraldsson, Útgefendur, 1977, bls. 49).
Listamenn eins og aðrir geta verið ófeimnir við að skipa sér í sveit með ráðandi öflum innan listgeirans. Sigurjón Árni segir: „Staða abstraktlistarinnar var að lokum innsigluð með sterkri stöðu fulltrúa hennar í valdakerfi íslenska listasamfélagsins sem tryggði tengslanet fulltrúa þess innan lands og utan“ (bls. 36). Þetta er hárrétt. Þetta þarf þó engan veginn að einskorðast við abstraktlistina þótt það sé nefnt í þessu samhengi heldur á við allan listheiminn sem þarf iðulega að sækja fjármuni til opinberra aðila og skipa sér í ólíka hópa (pólitíska/listræna) til að ná áheyrn þeirra sem deila út fjármunum til lista og menningar.
En það voru ekki allir sem féllu fyrir abstraktinu: Yngri menn sem vildu ekki beygja sig undir abstraktið „voru bara dæmdir úr leik“ segir til dæmis Hringur Jóhannesson: „Á árinu 1950 –1960 var abstraktlist grimmilega ríkjandi … ég reyndi en féll ekki. Þá varð ég að vinna venjulega vinnu“ (Aðalsteinn Ingólfsson, Hringur Jóhannesson, Lögberg, 1989, bls. 14).
Höfundur telur að abstraktlistin hafi tekið þátt í því að færa íslenska myndlist inn í nútímann (bls. 46). Sannarlega er það rétt enda abstrakthreyfingin milli 1950 og 1970 hluti af umbrotum nútímans sem birtast með margvíslegu móti. Hann fullyrðir að þeir listamenn sem hallir voru undir abstrakt hafi talið sig vera í „framvarðarsveit þeirra breytinga sem íslenskt þjóðfélag var þá að ganga í gegnum í átt að nútímasamfélagi“ (bls. 58). Kannski er kveðið fullsterkt að orði hér enda ekki víst að listamennirnir hafi fundið svo fyrir umbrotum í samfélaginu enda þótt þeir væru að fást við list af þessu tagi – þeir voru að reyna að lifa frá degi til dags. Listfræðingar fjalli um tengsl abstraktlistar og módernismans en sjaldan um „birtingarform“ hennar andspænis veraldarvæðingunni sem blasti við íslensku þjóðfélagi á umræddum tíma (bls. 59). Veraldarvæðing hefur svo sem lengi staðið yfir í þjóðfélögum Vesturlanda og hefur lengst af malað hægt og örugglega – í raun frá fornu fari. Í listsögulegu samhengi er abstrakthreyfingin sannarlega hluti af módernismanum – á löngu skeiði sínu, ef miðað er við 1860 – 1970, hafa margar stefnur í myndlist og bókmenntum lent undir hrammi módernismans. Módernisminn birtist sennilega hvað skýrast einmitt í listsýningum Septemberhópsins frá 1947-1952 – abstraktlistin (geómetrían) var sem glóandi vígahnöttur módernismans sem brá fyrir í íslenskum menningarheimi.
Abstraktlistin fann sér innan módernismans ýmis pólitísk skjól, vinstrisinnuð, borgaraleg og andleg með guðspekilegu ívafi.
Sigurjón Árni telur það býsna vandasamt að svara því fyrir hvað nútíminn og veraldarvæðing (veraldarhyggja) standi. Margar leiðir séu til að svara því. Hann fjallar um nútímahyggjuna, veraldarvæðingu og myndlist og styðst við skema ættað frá Max Weber; sem sé hvernig nútíminn er skilgreindur og greindur, hvernig veraldarvæðing (veraldarhyggja) grefur um sig og breytir samfélaginu. Hér styðst hann við Weber sem greinanda og jafnframt líka ákveðið kennivald. Nútímahyggja hvað myndlistina áhrærir er lifandi fyrirbæri en ekki eitthvað sem stendur stöðugt á einhverri tímalínu, heldur er í fullu fjöri ætíð, ef svo má segja, þar sem tekist er á við hefð og hugmyndir einlægt með nýjum hætti í anda avant-garde (framúrstefnunnar) sem enn lifir! Einhvers konar kraftur sem knýr menningarvitund og hugsun áfram þar sem eitthvað nýtt blómgast. Nútímalistin er í augnablikinu, andránni sem er horfin í þann mund er hún birtist. Nútíminn er búinn að hrista af sér byrði hefðarinnar, trúarkerfi og fleira í þeim dúr. Maðurinn horfist í augu við það að vera myndugur, eins og sagt er. Hugtakið aftöfrun (M. Weber)/afhelgun/afgoðun (e. disenchantment) heimsins er í bakgrunni. Nútíminn er ekki töfraveröld heldur vettvangur mannsins til að skoða og rannsaka. Þar verður listin eitt af tækjunum (bls. 86). Í þessu sambandi þvælist hugtakið frásaga dálítið fyrir og virðist vera ákveðinn klafi í menningunni sem er nú dálítið merkilegt því að stysta leið á milli manna er saga og frásagan hefur borið uppi menningu liðinna alda – og svo sem enn í dag. Hvað um það. Abstraktið er prísað fyrir það að hafa hrist af sér frásagnarlistaverkin (t.d. landslagsmálverkin) – nú, kannski var einmitt skammvinnt skeið abstraktsins í listasögunni vegna þess að það hafði frá engu að segja? Eða hvað? Kannski: Það sagði ekkert annað en það sem hver og einn las úr því með sínum hætti. Höfundur er hins vegar á því að abstraktið hafi haft margt að segja og verið skurðpunktur handanveru og íveru í nýrri heimsmynd.
Í þriðja kafla rekur Sigurjón Árni listsöguhugmyndir bandaríska listfræðingsins í tengslum við veraldarvæðingu og list – Clement Greenberg en hann var og er mjög umdeildur. Í því sambandi ræðir hann hina kunnu umræðu um litstlíki og list, avant-garde hreyfinguna fyrrnefndu sem var stórmerkileg og á rætur allt til fyrri hluta 19. aldar. Einnig hvernig málverkið verður sögustund hvers kyns frásagna úr þessum heimi og öðrum uns raunsæismálverkið bankar upp á og fangar nýjar stéttir í nýju samfélagi. Röksemdafærsla Greenbergs er í sjálfu sér ekki flókin þar sem hann gengur út frá veraldarvæðingunni sem sögulegu fyrirbæri dofnar heldur betur yfir siðferði (sem merkir þó ekki svikult siðleysi) sem rætur í trú, trúarleg tákn verða sögulegar menjar og hefðin rykfellur. Eða með öðrum orðum: forn grunnur listarinnar hrynur og hún verður að leita á önnur mið og leita sjálfstæðis frá fornum táknheimi, bæði trúarlegum og veraldlegum. Abstraktmálverkið í deiglu módernismans er skýr yfirlýsing um sjálfstæði eins og það birtist á léreftinu. Kannski sjálfstæðisyfirlýsing listarinnar enda er hið konkreta verk með enga tilvísun til hins ytri veruleika og einhver spyr: Stendur það ekki bara úti á einhverjum næðingssömum mel? Hvað sem því líður þá er það – og hvað skiptir meira máli en að vera? Í lok kaflans segir Sigurjón Árni að Greenberg telji að málverkið hafi hjálpræðislegu hlutverki að gegna gagnvart manninum sem er athyglisverð hugsun hjá bandaríska listhugmyndafræðingnum. Hugsunin er sú að málverkið sé lokaður heimur út af fyrir sig og geti þar af leiðandi veitt listneytandanum sálarfróun. Hér er örugglega átt við að hið veraldarvædda hlutverk málverksins hafi að einhverju leyti komið í stað hjálpræðis, sem er býsna mikið álitamál. Hins vegar er Greenberg ekki á því að listin/málverkið gegni einhverju trúarlegu hlutverki í veröldinni þó svo hún standi berstrípuð og hafi misst hugmyndir, hefð og trúarleg tákn, út í vind sögulegrar þróunar. Módernisminn hefur breytt veraldarsögunni og það þýðir ekkert að láta menningarlega fortíðarhyggju stýra för heldur taka á móti því sem kemur skeiðandi hratt líðandi stund. Já, svo er Greenberg náttúrlega maður elítunnar: „…góð málverk grípa strax upplýstan áhorfanda“ (bls. 102). Sauðsvartur almúginn er náttúrlega úti á þekju. Þetta er látið fjúka hér því að almenningur var ögn ráðvilltur þegar abstraktið hóf innreið sína.
Stundum finnst manni höfundur færast á fáum blaðsíðum fullmikið í fang eins og: „Hér verður spurt hverjar rætur þessa nútímalega mannskilnings séu og með hvaða hætti hann hafi þróast“ og til að svara þeirri spurningu leitar hann í 1200 blaðsíðna verki Charles Taylor (A Secular Age) sem hann segir að sé tímamótaverk manns sem kann sína vestrænu hugmynda- og listasögu. Eflaust rétt. Þetta er kaflinn: Abstraktmálverkið og heimsskipanin. Þar er fullyrt meðal annars að abstraktmálverkið hafi verið iðulega talið birtingarmynd breyttrar heimsmyndar úr kviði vestrænnar menningar og verið nánast sem aðalsmerki hennar gagnvart samfélagslegu raunsæi kommúnistanna í austri (bls. 105-106). Mér sýnist meginpælingin vera sú að abstraktmálverkið innbyrði á veraldlega vísu fyrri menningarleg gildi með sínum hætti (þ.e. á sjálfstæðan hátt og lausan úr viðjum menningar- og trúarlegra goðsagna sem áður voru ákveðinn hornsteinn vestrænnar menningar) og setji þau fram í veraldlegu rými verksins sjálfs sem einn og óskiptur heimur væri – kannski með einhverri óljósri tilvísun til kjarna tilverunnar í skynjun lita og forms – en að sjálfsögðu án skírskotunar til hefðbundinna trúarlegra mótífa. Abstraktmálverkið tefli fram í raun og veru heimsmynd eða öllu heldur einhvers konar líkani af heiminum sem í sjálfu sér felli enga dóma um völund heimsins og hans hirð, pæli í lífinu og tilgangi þess án þess að hafa einhverja guðfræði í farteskinu. Abstraktformið eitt og sér ber með sér dýptir lífsins án þess að styðjast við fyrri hugmyndir. Lengra skal nú ekki farið út í þessa þanka höfundar en túlkunartækin sækir hann meðal annars í smiðju fyrrnefnds Taylors (til dæmis hvernig Taylor greinir kosmós, immanent transcendence: handanveru innan hérveru. Þessar setningar vekja lesanda til umhugsunar í hinu listfræðilega samhengi: „Í afhelguðu samfélagi nútímans er ekki litið svo á að maðurinn sé tengslavera, heldur er hann skilgreindur í afmörkuðu samhengi gagnvart ytri veruleika sínum“ (bls. 113) og einnig á sömu blaðsíðu: „Sem vitund er maðurinn utan náttúrunnar og hann nálgast allt utan frá.“ Ég hygg reyndar að flestir líti á manneskjuna sem tengslaveru og sérstaklega í allri neyslu á list.
Höfundur fjallar um abstraktmálverkið og nokkra fulltrúa þess hér á landi í 5. kafla sem og fræg afskipti Jónasar Jónssonar frá Hriflu af listum en um það síðarnefnda hefur margt verið skrifað. Einnig deilur við kommúnistann Kristin E. Andrésson en sá taldi sig vera ákveðið listrænt kennivald í búðum vinstrimanna. Þeir fulltrúar abstraktsins sem Sigurjón Árni kallar fram á svið eru Þorvaldur Skúlason, Valtýr Pétursson, Hörður Ágústsson, Svavar Guðnason og Nína Tryggvadóttir. Hann birtir orðrétt mjög kunna ræðu Harðar Ágústssonar sem haldin var í Listamannaskálanum (sem höfundur kallast „helgidóm“, bls. 130) við opnun sýningar á abstraktlist (geómetrískum abstraktverkum). Segir hann ræðu Harðar ekki ólíka prédikun, já, stólræðu (bls. 135) og í Listamannaskálanum séu sýndar helgimyndir á veggjum (bls. 131). Fræga grein Þorvaldar Skúlasonar sem bar heitið Nonfígúratív list (Birtingur 2/1955: 5–6) lítur höfundur á út frá þverfaglegu sjónarhorni sem pistil til safnaðar svo kirkjumál sé notað (þó ekki til trúboðs) heldur til að: „dýpka þann skilning sem þegar er til staðar á trúarsannindum safnaðarins“ (bls. 137). Greinina megi einnig skoða sem stefnuyfirlýsingu (bls. 136) eins helsta fulltrúa abstraktsins hér á landi á þeim tíma þar sem hann fjallar um hlutverk myndlistar – hún er persónuleg yfirlitssýning listamannsins sjálfs (bls. 185). Listamenn voru kunnir af því að leggja fram stefnuyfirlýsingar (sjá til dæmis bókina Yfirlýsingar – Evrópska framúrstefnan, HÍB, 2001) þar sem menn fóru oft mikinn eða voru djúpir í listhugsun sinni.
Höfundur tekur sér fyrir hendur að ritskýra fyrrnefnda grein Þorvalds Skúlasonar, Nonfígúratív list, og ætlar sér að kafa ofan í hugmyndafræðilegt umhverfi sem Þorvaldur drepur á. Þetta er metnaðarfull andleg og listræn dýfing sem er mjög athyglisverð og hægt væri að ræða um hana í löngu máli. Ritskýringin bendir til þess að höfundur telji þurfa að brjóta greinina til mergjar (kannski sem trúartexta?) sem er, eins og áður sagði, stutt og hún er gagnyrt, skýr og umhugsunarverð. Sigurjón Árni þenur svo að segja þessa stuttu grein út með skemmtilegum ákafahætti og afar fróðlegum með því að tengja hana við listhugsun samtímans sem og sögulegar tilvísanir, heimspekilegar og listfræðilegar, guðfræðilegar og félagslegar. Stórskotaliðið sem hann kallaði á sér til fulltingis við mótun ritgerðarhugmyndarinnar, þeir Max Weber, Clement Greenberg og Charles Taylor, reynist honum vel þegar hann les í texta Þorvalds með þá á öxlum sér og kemst að þeirri niðurstöðu að abstraktverkið haldi stöðu sinni sem fyrr og ávarpi listunnandann milliliðalaust ( bls. 267) og sé því ákveðinn ás í nútímanum og hann megi skilja sem veraldlega altaristöflu þar sem handanvera og hérvera skerast í tilverufræðilegum punkti öllum til ánægju og yndisauka. Abstraktverkið er að mati Sigurjóns Árna sem sé birtingarmynd nýrrar heimsmyndar þar sem rými er fyrir handanveru og hérveru. Hann svarar því sem spurt er í undirtitli bókarinnar: abstraktverkið sé helgimynd 20. aldar eins og með þeim hugmyndafræðilegu áhöldum sem hann hefur sótt sér í ýmsar verkfærakistur nokkurra valinna spekinga. Hins vegar hefur abstraktverkið að mati hans ekki sömu stöðu sem helgimynd og frumkvöðlarnir töldu að það ætti að vera (bls. 266). Og abstraktverkið lifir enn góðu lífi að sögn höfundar án þess að skýra það nánar.
Það fjaraði undan abstraktmálverkinu eins og mörgu öðru. Sumir listamenn yfirgáfu það snemma og einhverjir hópi höfðu meira segja sest á þann vagn vegna þess að hann var í tísku. Aðrir héldu fastar í abstraktið og gáfu hægt og bítandi eftir – og fáeinir sögðu í hjarta sínu aldrei skilið við það. Hafi abstraktmálverkið verið einhvers konar helgimynd 20. aldar þá stóð það skeið stutt yfir.
Það má hins vegar á móti spyrja hvort önnur helgimynd hafi tekið við þar sem abstraktmálverkið hvarf nokkuð skjótt af listasviðinu og listamenn brutu ný lönd. Nú, kannski er engin helgimynd sjáanleg lengur; og er hennar þörf? Kannski er það efni í aðra bók.
Niðurstaða: Bók dr. Sigurjóns Árna er metnaðarfullt verk þar sem sett er fram athyglisverð kenning og hún rökstudd með fjölmörgum tilvísunum. Verkið er afar uppfræðandi lestur fyrir þau sem unna fögrum listum, hugmyndafræðisögu og andlegum málefnum.
Dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson, héraðsprestur, er afkastamestur íslenskra guðfræðinga á ritvellinum en þetta er tólfta bókin sem kemur frá hans hendi.
Sigurjón Árni Eyjólfsson: Abstraktmálverkið – Helgimynd íslenskrar menningar á 20. öld? Hið íslenska bókmenntafélag 2025, 303 blaðsíður.
Allir þekkja bækur um einstaka listamenn og verk þeirra þar sem saga þeirra er rakin og þeir settir inn í listsögulegt samhengi. Bækur af þessu tagi koma út á hverju ári og oft í tengslum við listsýningar, vandaðar bækur og býsna dýrar. Þessar bækur verða svo partur af íslenskri listasögu, endurnýjaðri. Síðasta heildarútgáfa íslenskrar listasögu kom út 2011 í fimm bindum undir heitinu Íslensk listasaga.
Það eru ekki margar fræðibækur sem koma út um listfræði eina og sér. Nú hefur list- og guðfræðingurinn dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson bætt úr þessu með bók sinni Abstraktmálverkið á helgimynd íslenskrar menningar á 20. öld? Bókin byggir að mestu leyti á meistaraprófsritgerð dr. Sigurjóns Árna sem áhugasamir um efnið geta fundið hér.
Segja má að hér sé um að ræða hugmyndafræðilega rannsókn á abstraktlistinni þar sem dr. Sigurjón Árni kallar sér til fulltingis nokkra menningarstólpa, listfræðinga, sem kafað hafa ofan í mótunarár abstraktsins. Jafnframt er leitast við að draga fram sögulegt yfirlit yfir abstraktlistina en þó innan vissra marka sem vel er skiljanlegt þá í mikið verk er ráðist. Höfundur styðst við sýningarskrár, umsagnir um sýningar og umfjöllun listasögunnar íslensku frá 2011. Hann leggur fræðihönd sína sérstaklega á tengsl abstraktlistar við nútímavæðingu og „jafnvel veraldarvæðingu“ (bls. 18) en enginn íslenskur listfræðingur hefur að mati hans fjallað um það síðastnefnda, veraldarvæðinguna (e. secularization).
Dr. Sigurjón Árni telur að hugtökin veraldarvæðing (veraldarhyggja/e. secularization) og afhelgun (e. disenchantment) tengist abstraktmálverkinu og það „sterkum böndum“ (bls. 20) og sýnir fram á það í verki sínu.
Hin kunna ritgerð Þorvaldar Skúlasonar, Nonfígúratív list, sem prentuð var í tímaritinu Birtingi á sínum tíma, ritskýrir dr. Sigurjón og veltir því fyrir sér hvort hún sé stefnuyfirlýsing abstraktsinna og nefnir hana sem trúarjátningu fyrir íslenska abstraktlist.
Eins og fram kemur þá hafa ýmsir listfræðingar ritað um abstraktlistina í tengslum við sýningar og einstaka listamenn. Þessir listfræðingar eru Ólafur Kvaran, Guðbjörg Kristjánsdóttir, Gunnar Kvaran, Halldór Björn Runólfsson, Júlíana Gottskálksdóttir, Gunnar J. Árnason, Jón Proppé, Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir, Ásdís Ólafsdóttir, Kristín G. Guðnadóttir, Ólafur Gíslason og Aðalsteinn Ingólfsson. Skrif flestra þeirra rekur dr. Sigurjón Árni á bls. 23-59 í mislöngu máli sem er hin prýðilegasta samantekt á því hvernig listfræðingarnir hafa á umliðnum áratugum metið þróun abstraktsins hér á landi og skerf hennar til íslenskrar menningarsögu. Þó má ekki skilja að listfræðingarnir séu allir sammála í einu og öllu enda eru áherslur þeirra ólíkar þótt megintúlkun þeirra renni eftir sama farvegi. Þeir hafa hins vegar ekki gefið sérstakan gaum að veraldarvæðingu í tengslum við abstraktverkið en úr því bætir höfundur með margvíslegum hætti.
Það er listsöguleg staðreynd að fimmti áratugur síðustu aldar markaði djúp spor í sögu abstraktlistar þegar Svavar Guðnason og Þorvaldur Skúlason stigu fram með sín abstraktverk og ryðja módernismanum braut. Septembersýningarnar (1947–1952) voru róttækar hvað það snerti að þær ögruðu fígúratífri og þjóðernislegri hefð í myndlist. Í huga margra abstraktlistamanna var hinn strangi flötur vettvangur hins algilda forms og sjónræns sjálfstæðis. Lítill gaumur var gefinn hvort abstraktverkin geymdu einhverjar andlegar eða trúarlegar skírskotanir – til gamans má skjóta því að í þessu sambandi hvað Jóhannes Geir listmálari sagði um fund sem haldinn var meðal listamanna 1953 þar sem abstraktið var hafið upp til skýjanna: „Þetta var beinlínis eins og trúarsöfnuður með tilheyrandi dellumakeríi. Verst fannst mér hvað menn rugluðu með ýmsar kenningar og hugmyndir um tjáningarfrelsi einstaklingsins … Ég hafði aldrei neitt við afstraktlistina sjálfa að athuga, heldur alla áróðursstarfsemina í kringum hana“ (Sigurjón Björnsson og Aðalsteinn Ingólfsson, Jóhannes Geir, Lögberg, 1985 bls. 65). Sverrir Haraldsson talaði um tíma abstraktlistarinnar hjá sér sem ófrjóa tímabilið í listsköpun sinni þar sem sem félagarnir sungu saman hallelúja og Fram þjáðir menn… . (Matthías Johannessen, Sverrir Haraldsson, Útgefendur, 1977, bls. 49).
Listamenn eins og aðrir geta verið ófeimnir við að skipa sér í sveit með ráðandi öflum innan listgeirans. Sigurjón Árni segir: „Staða abstraktlistarinnar var að lokum innsigluð með sterkri stöðu fulltrúa hennar í valdakerfi íslenska listasamfélagsins sem tryggði tengslanet fulltrúa þess innan lands og utan“ (bls. 36). Þetta er hárrétt. Þetta þarf þó engan veginn að einskorðast við abstraktlistina þótt það sé nefnt í þessu samhengi heldur á við allan listheiminn sem þarf iðulega að sækja fjármuni til opinberra aðila og skipa sér í ólíka hópa (pólitíska/listræna) til að ná áheyrn þeirra sem deila út fjármunum til lista og menningar.
En það voru ekki allir sem féllu fyrir abstraktinu: Yngri menn sem vildu ekki beygja sig undir abstraktið „voru bara dæmdir úr leik“ segir til dæmis Hringur Jóhannesson: „Á árinu 1950 –1960 var abstraktlist grimmilega ríkjandi … ég reyndi en féll ekki. Þá varð ég að vinna venjulega vinnu“ (Aðalsteinn Ingólfsson, Hringur Jóhannesson, Lögberg, 1989, bls. 14).
Höfundur telur að abstraktlistin hafi tekið þátt í því að færa íslenska myndlist inn í nútímann (bls. 46). Sannarlega er það rétt enda abstrakthreyfingin milli 1950 og 1970 hluti af umbrotum nútímans sem birtast með margvíslegu móti. Hann fullyrðir að þeir listamenn sem hallir voru undir abstrakt hafi talið sig vera í „framvarðarsveit þeirra breytinga sem íslenskt þjóðfélag var þá að ganga í gegnum í átt að nútímasamfélagi“ (bls. 58). Kannski er kveðið fullsterkt að orði hér enda ekki víst að listamennirnir hafi fundið svo fyrir umbrotum í samfélaginu enda þótt þeir væru að fást við list af þessu tagi – þeir voru að reyna að lifa frá degi til dags. Listfræðingar fjalli um tengsl abstraktlistar og módernismans en sjaldan um „birtingarform“ hennar andspænis veraldarvæðingunni sem blasti við íslensku þjóðfélagi á umræddum tíma (bls. 59). Veraldarvæðing hefur svo sem lengi staðið yfir í þjóðfélögum Vesturlanda og hefur lengst af malað hægt og örugglega – í raun frá fornu fari. Í listsögulegu samhengi er abstrakthreyfingin sannarlega hluti af módernismanum – á löngu skeiði sínu, ef miðað er við 1860 – 1970, hafa margar stefnur í myndlist og bókmenntum lent undir hrammi módernismans. Módernisminn birtist sennilega hvað skýrast einmitt í listsýningum Septemberhópsins frá 1947-1952 – abstraktlistin (geómetrían) var sem glóandi vígahnöttur módernismans sem brá fyrir í íslenskum menningarheimi.
Abstraktlistin fann sér innan módernismans ýmis pólitísk skjól, vinstrisinnuð, borgaraleg og andleg með guðspekilegu ívafi.
Sigurjón Árni telur það býsna vandasamt að svara því fyrir hvað nútíminn og veraldarvæðing (veraldarhyggja) standi. Margar leiðir séu til að svara því. Hann fjallar um nútímahyggjuna, veraldarvæðingu og myndlist og styðst við skema ættað frá Max Weber; sem sé hvernig nútíminn er skilgreindur og greindur, hvernig veraldarvæðing (veraldarhyggja) grefur um sig og breytir samfélaginu. Hér styðst hann við Weber sem greinanda og jafnframt líka ákveðið kennivald. Nútímahyggja hvað myndlistina áhrærir er lifandi fyrirbæri en ekki eitthvað sem stendur stöðugt á einhverri tímalínu, heldur er í fullu fjöri ætíð, ef svo má segja, þar sem tekist er á við hefð og hugmyndir einlægt með nýjum hætti í anda avant-garde (framúrstefnunnar) sem enn lifir! Einhvers konar kraftur sem knýr menningarvitund og hugsun áfram þar sem eitthvað nýtt blómgast. Nútímalistin er í augnablikinu, andránni sem er horfin í þann mund er hún birtist. Nútíminn er búinn að hrista af sér byrði hefðarinnar, trúarkerfi og fleira í þeim dúr. Maðurinn horfist í augu við það að vera myndugur, eins og sagt er. Hugtakið aftöfrun (M. Weber)/afhelgun/afgoðun (e. disenchantment) heimsins er í bakgrunni. Nútíminn er ekki töfraveröld heldur vettvangur mannsins til að skoða og rannsaka. Þar verður listin eitt af tækjunum (bls. 86). Í þessu sambandi þvælist hugtakið frásaga dálítið fyrir og virðist vera ákveðinn klafi í menningunni sem er nú dálítið merkilegt því að stysta leið á milli manna er saga og frásagan hefur borið uppi menningu liðinna alda – og svo sem enn í dag. Hvað um það. Abstraktið er prísað fyrir það að hafa hrist af sér frásagnarlistaverkin (t.d. landslagsmálverkin) – nú, kannski var einmitt skammvinnt skeið abstraktsins í listasögunni vegna þess að það hafði frá engu að segja? Eða hvað? Kannski: Það sagði ekkert annað en það sem hver og einn las úr því með sínum hætti. Höfundur er hins vegar á því að abstraktið hafi haft margt að segja og verið skurðpunktur handanveru og íveru í nýrri heimsmynd.
Í þriðja kafla rekur Sigurjón Árni listsöguhugmyndir bandaríska listfræðingsins í tengslum við veraldarvæðingu og list – Clement Greenberg en hann var og er mjög umdeildur. Í því sambandi ræðir hann hina kunnu umræðu um litstlíki og list, avant-garde hreyfinguna fyrrnefndu sem var stórmerkileg og á rætur allt til fyrri hluta 19. aldar. Einnig hvernig málverkið verður sögustund hvers kyns frásagna úr þessum heimi og öðrum uns raunsæismálverkið bankar upp á og fangar nýjar stéttir í nýju samfélagi. Röksemdafærsla Greenbergs er í sjálfu sér ekki flókin þar sem hann gengur út frá veraldarvæðingunni sem sögulegu fyrirbæri dofnar heldur betur yfir siðferði (sem merkir þó ekki svikult siðleysi) sem rætur í trú, trúarleg tákn verða sögulegar menjar og hefðin rykfellur. Eða með öðrum orðum: forn grunnur listarinnar hrynur og hún verður að leita á önnur mið og leita sjálfstæðis frá fornum táknheimi, bæði trúarlegum og veraldlegum. Abstraktmálverkið í deiglu módernismans er skýr yfirlýsing um sjálfstæði eins og það birtist á léreftinu. Kannski sjálfstæðisyfirlýsing listarinnar enda er hið konkreta verk með enga tilvísun til hins ytri veruleika og einhver spyr: Stendur það ekki bara úti á einhverjum næðingssömum mel? Hvað sem því líður þá er það – og hvað skiptir meira máli en að vera? Í lok kaflans segir Sigurjón Árni að Greenberg telji að málverkið hafi hjálpræðislegu hlutverki að gegna gagnvart manninum sem er athyglisverð hugsun hjá bandaríska listhugmyndafræðingnum. Hugsunin er sú að málverkið sé lokaður heimur út af fyrir sig og geti þar af leiðandi veitt listneytandanum sálarfróun. Hér er örugglega átt við að hið veraldarvædda hlutverk málverksins hafi að einhverju leyti komið í stað hjálpræðis, sem er býsna mikið álitamál. Hins vegar er Greenberg ekki á því að listin/málverkið gegni einhverju trúarlegu hlutverki í veröldinni þó svo hún standi berstrípuð og hafi misst hugmyndir, hefð og trúarleg tákn, út í vind sögulegrar þróunar. Módernisminn hefur breytt veraldarsögunni og það þýðir ekkert að láta menningarlega fortíðarhyggju stýra för heldur taka á móti því sem kemur skeiðandi hratt líðandi stund. Já, svo er Greenberg náttúrlega maður elítunnar: „…góð málverk grípa strax upplýstan áhorfanda“ (bls. 102). Sauðsvartur almúginn er náttúrlega úti á þekju. Þetta er látið fjúka hér því að almenningur var ögn ráðvilltur þegar abstraktið hóf innreið sína.
Stundum finnst manni höfundur færast á fáum blaðsíðum fullmikið í fang eins og: „Hér verður spurt hverjar rætur þessa nútímalega mannskilnings séu og með hvaða hætti hann hafi þróast“ og til að svara þeirri spurningu leitar hann í 1200 blaðsíðna verki Charles Taylor (A Secular Age) sem hann segir að sé tímamótaverk manns sem kann sína vestrænu hugmynda- og listasögu. Eflaust rétt. Þetta er kaflinn: Abstraktmálverkið og heimsskipanin. Þar er fullyrt meðal annars að abstraktmálverkið hafi verið iðulega talið birtingarmynd breyttrar heimsmyndar úr kviði vestrænnar menningar og verið nánast sem aðalsmerki hennar gagnvart samfélagslegu raunsæi kommúnistanna í austri (bls. 105-106). Mér sýnist meginpælingin vera sú að abstraktmálverkið innbyrði á veraldlega vísu fyrri menningarleg gildi með sínum hætti (þ.e. á sjálfstæðan hátt og lausan úr viðjum menningar- og trúarlegra goðsagna sem áður voru ákveðinn hornsteinn vestrænnar menningar) og setji þau fram í veraldlegu rými verksins sjálfs sem einn og óskiptur heimur væri – kannski með einhverri óljósri tilvísun til kjarna tilverunnar í skynjun lita og forms – en að sjálfsögðu án skírskotunar til hefðbundinna trúarlegra mótífa. Abstraktmálverkið tefli fram í raun og veru heimsmynd eða öllu heldur einhvers konar líkani af heiminum sem í sjálfu sér felli enga dóma um völund heimsins og hans hirð, pæli í lífinu og tilgangi þess án þess að hafa einhverja guðfræði í farteskinu. Abstraktformið eitt og sér ber með sér dýptir lífsins án þess að styðjast við fyrri hugmyndir. Lengra skal nú ekki farið út í þessa þanka höfundar en túlkunartækin sækir hann meðal annars í smiðju fyrrnefnds Taylors (til dæmis hvernig Taylor greinir kosmós, immanent transcendence: handanveru innan hérveru. Þessar setningar vekja lesanda til umhugsunar í hinu listfræðilega samhengi: „Í afhelguðu samfélagi nútímans er ekki litið svo á að maðurinn sé tengslavera, heldur er hann skilgreindur í afmörkuðu samhengi gagnvart ytri veruleika sínum“ (bls. 113) og einnig á sömu blaðsíðu: „Sem vitund er maðurinn utan náttúrunnar og hann nálgast allt utan frá.“ Ég hygg reyndar að flestir líti á manneskjuna sem tengslaveru og sérstaklega í allri neyslu á list.
Höfundur fjallar um abstraktmálverkið og nokkra fulltrúa þess hér á landi í 5. kafla sem og fræg afskipti Jónasar Jónssonar frá Hriflu af listum en um það síðarnefnda hefur margt verið skrifað. Einnig deilur við kommúnistann Kristin E. Andrésson en sá taldi sig vera ákveðið listrænt kennivald í búðum vinstrimanna. Þeir fulltrúar abstraktsins sem Sigurjón Árni kallar fram á svið eru Þorvaldur Skúlason, Valtýr Pétursson, Hörður Ágústsson, Svavar Guðnason og Nína Tryggvadóttir. Hann birtir orðrétt mjög kunna ræðu Harðar Ágústssonar sem haldin var í Listamannaskálanum (sem höfundur kallast „helgidóm“, bls. 130) við opnun sýningar á abstraktlist (geómetrískum abstraktverkum). Segir hann ræðu Harðar ekki ólíka prédikun, já, stólræðu (bls. 135) og í Listamannaskálanum séu sýndar helgimyndir á veggjum (bls. 131). Fræga grein Þorvaldar Skúlasonar sem bar heitið Nonfígúratív list (Birtingur 2/1955: 5–6) lítur höfundur á út frá þverfaglegu sjónarhorni sem pistil til safnaðar svo kirkjumál sé notað (þó ekki til trúboðs) heldur til að: „dýpka þann skilning sem þegar er til staðar á trúarsannindum safnaðarins“ (bls. 137). Greinina megi einnig skoða sem stefnuyfirlýsingu (bls. 136) eins helsta fulltrúa abstraktsins hér á landi á þeim tíma þar sem hann fjallar um hlutverk myndlistar – hún er persónuleg yfirlitssýning listamannsins sjálfs (bls. 185). Listamenn voru kunnir af því að leggja fram stefnuyfirlýsingar (sjá til dæmis bókina Yfirlýsingar – Evrópska framúrstefnan, HÍB, 2001) þar sem menn fóru oft mikinn eða voru djúpir í listhugsun sinni.
Höfundur tekur sér fyrir hendur að ritskýra fyrrnefnda grein Þorvalds Skúlasonar, Nonfígúratív list, og ætlar sér að kafa ofan í hugmyndafræðilegt umhverfi sem Þorvaldur drepur á. Þetta er metnaðarfull andleg og listræn dýfing sem er mjög athyglisverð og hægt væri að ræða um hana í löngu máli. Ritskýringin bendir til þess að höfundur telji þurfa að brjóta greinina til mergjar (kannski sem trúartexta?) sem er, eins og áður sagði, stutt og hún er gagnyrt, skýr og umhugsunarverð. Sigurjón Árni þenur svo að segja þessa stuttu grein út með skemmtilegum ákafahætti og afar fróðlegum með því að tengja hana við listhugsun samtímans sem og sögulegar tilvísanir, heimspekilegar og listfræðilegar, guðfræðilegar og félagslegar. Stórskotaliðið sem hann kallaði á sér til fulltingis við mótun ritgerðarhugmyndarinnar, þeir Max Weber, Clement Greenberg og Charles Taylor, reynist honum vel þegar hann les í texta Þorvalds með þá á öxlum sér og kemst að þeirri niðurstöðu að abstraktverkið haldi stöðu sinni sem fyrr og ávarpi listunnandann milliliðalaust ( bls. 267) og sé því ákveðinn ás í nútímanum og hann megi skilja sem veraldlega altaristöflu þar sem handanvera og hérvera skerast í tilverufræðilegum punkti öllum til ánægju og yndisauka. Abstraktverkið er að mati Sigurjóns Árna sem sé birtingarmynd nýrrar heimsmyndar þar sem rými er fyrir handanveru og hérveru. Hann svarar því sem spurt er í undirtitli bókarinnar: abstraktverkið sé helgimynd 20. aldar eins og með þeim hugmyndafræðilegu áhöldum sem hann hefur sótt sér í ýmsar verkfærakistur nokkurra valinna spekinga. Hins vegar hefur abstraktverkið að mati hans ekki sömu stöðu sem helgimynd og frumkvöðlarnir töldu að það ætti að vera (bls. 266). Og abstraktverkið lifir enn góðu lífi að sögn höfundar án þess að skýra það nánar.
Það fjaraði undan abstraktmálverkinu eins og mörgu öðru. Sumir listamenn yfirgáfu það snemma og einhverjir hópi höfðu meira segja sest á þann vagn vegna þess að hann var í tísku. Aðrir héldu fastar í abstraktið og gáfu hægt og bítandi eftir – og fáeinir sögðu í hjarta sínu aldrei skilið við það. Hafi abstraktmálverkið verið einhvers konar helgimynd 20. aldar þá stóð það skeið stutt yfir.
Það má hins vegar á móti spyrja hvort önnur helgimynd hafi tekið við þar sem abstraktmálverkið hvarf nokkuð skjótt af listasviðinu og listamenn brutu ný lönd. Nú, kannski er engin helgimynd sjáanleg lengur; og er hennar þörf? Kannski er það efni í aðra bók.
Niðurstaða: Bók dr. Sigurjóns Árna er metnaðarfullt verk þar sem sett er fram athyglisverð kenning og hún rökstudd með fjölmörgum tilvísunum. Verkið er afar uppfræðandi lestur fyrir þau sem unna fögrum listum, hugmyndafræðisögu og andlegum málefnum.
Dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson, héraðsprestur, er afkastamestur íslenskra guðfræðinga á ritvellinum en þetta er tólfta bókin sem kemur frá hans hendi.
Sigurjón Árni Eyjólfsson: Abstraktmálverkið – Helgimynd íslenskrar menningar á 20. öld? Hið íslenska bókmenntafélag 2025, 303 blaðsíður.





