Umsögn um: Sjö goðsagnir um Lúther, eftir Frederik Stjernfelt, ísl. þýðing: Ásmundur Stefánsson, Ormstunga 2021, 147 bls.

———————————————-

Sveitastúlkan kom að norðan til að læra á harmóníum. Organistinn sem tók á móti henni hafði aldrei áður hitt stúlku sem aðhylltist lútherstrú. Og hún spurði hikandi um leið og hún nefndi nafn Lúthers: „Er hann ekki okkar?“

Þetta var hún Ugla í Atómstöðinni. Og djúpvitri organistinn, nánast af öðrum heimi ef ekki jafnvel dýrlingur, skvetti á Lúther því að hann væri talinn vera klæmnasti rithöfundur heimsbókmenntanna. Hann hafði þetta eftir sálfræðingi nokkrum. Og ritgerð eftir hann „um páfagreyið“ sem var þýdd fékkst ekki prentuð af velsæmisástæðum. Þegar organistinn var búinn á þessum fyrsta fundi sínum með nemandanum, henni Uglu, að sá fræjum efasemda um Lúther, segir hún:

„…kanski hætti ég að spila fyrir Lúther skömmina úr því hann væri þessi dóni, og tæki þá ákvörðun að spila fyrir sjálfa mig…“ (Atómstöðin, R. 1961, bls. 20).

Ormstunga skaut inn á jólabókamarkaðinn þýðingu á bók danska prófessorsins Frederik Stjernfelt: Sjö goðsagnir um Lúther. Ásmundur Stefánsson þýddi.

Þar fær Lúther gamli ærlega á baukinn svo ætla mætti að allir heimsins lútherskir organistar hætti að spila fyrir Lúther skömmina eins og hin saklausa Ugla. Og fari að spila fyrir sjálfa sig.

Þessi bók kom út í Danmörku á siðbótarárinu 2017 og vakti mikla athygli. Betra hefði verið að bókin hefði komið út á íslensku á siðbótarárinu, verið þá rjúkandi heit en ekki eins og köld pizza fjórum árum síðar.

Siðbótarafmælisárið staldraði fyrst og fremst við allt það jákvæða er snerti Lúther og siðbótina. Einhver varð að draga fram neikvæðu hliðina og tók Friðrik Stjernfelt sér fyrir hendur.

Kjarni bókarinnar er snörp gagnrýni á siðbótarfrömuðinn. Svo sem ekki í fyrst sinn sem hann er harðlega gagnrýndur enda af nógu að taka þar sem liggja 122 stór bindi á þýsku og latínu í Weimarútgáfu verka hans – eða ríflega 80.000 þúsund blaðsíður. Maðurinn stór í sniðum, stóryrtur, indæll, og dóni, skáld, lagasmiður, guðfræðingur, heimspekingur, byltingarmaður … og mætti bæta mörgu við. Enginn hægindastólsguðfræðingur.

Eins og við var að búast þá risu margir upp til varnar Lúther, prestar, guðfræðingar og guðfræðiprófessorar – þó flestir á hinum mjúku nótum. Þeir vildu verja sinn mann, hvað annað. Guðleysingjarnir tóku bókinni  að sjálfsögðu fagnandi og sigri hrósandi. Allnokkur blaðaskrif urðu um bókina, umræðuþættir hér og þar. Höfundur sagði að bókin ætti að vera mótvægi við þeirri lofræðu sem hæfist á siðbótarári um siðbótarfrömuðinn Lúther.

Sá sem þetta ritar tók sér fyrir hendur á Lúthersárinu fræga, 2017, að þýða sitthvað úr borðræðum Lúthers og birti það á Facebókarsíðu sinni til gamans og ánægju. Ein þýðing á dag, samtals 365. Þar lét Lúther kallinn margt flakka og sumt gat verið býsna stóryrt. Margt var það svarralegt að ekki þótt við hæfi að birta. Annað hvort hafði Lúther kallinn verið sauðdrukkinn eða sá er nóteraði niður borðræðuna illa við hann: sem sé uppdiktaði hana eða jók við. Borðræðurnar voru sum sé ekki ritaðar af Lúther sjálfum heldur borðnautum hans sem sátu og skrifuðu því Lúther var skapandi maður, talandi skáld og lét oft vaða á súðum. Þær síðan gefnar út og vöktu hrifningu sem og hneykslan – og einnig deilu um höfundarrétt, að sjálfsögðu. Sumar tilvitnanir voru því tilbúningur og samdar til að koma höggi á Lúther. Allar má þær þó lesa í Weimarútgáfunni. Almennt eru borðræðurnar því ekki taldar í hæsta máta öruggar heimildir og verður að taka þær með vissum fyrirvara – sem Stjernfelt gerir ekki og vitnar hikstalaust í þær.

Það er gaman að sjá þessa bókarþýðingu á íslensku og auðvitað sérstakt að fyrrum verkalýðsleiðtogi og bankastjóri taki sér fyrir hendur að þýða ritling af þessu tagi. Hann er hugsanlega áhugamaður um Lúther og siðaskiptin og vill halda öllu til haga. Nema honum sé í nöp við Lúther skömmina og vilji hnykkja á því með því að verja tíma sínum í að þýða ritlinginn. Afhjúpa Lúther. Hver veit. En það er nú ekki kjarni málsins þó vel megi velta fyrir sér ástæðum þess þar sem þýdd rit eða kver um Lúther eru ekki daglegt brauð í bókmenningu okkar og almennt talin lítt söluvænleg. Auk þess sem þessi ritlingur var  gefinn út í því skyni að vera mótsvar við dönskum dýrðaróði sem kveðinn yrði um Lúther á 500 ára afmæli siðbótarinnar 2017 og er því fremur seint á ferðinni hér norður við Dumbshaf en þó er ekki farið að slá í hann alvarlega eins og danska mélið á einokunartímabilinu.

Bókin hefur fengið nokkra opinberlega athygli hér á landi.

Morgunblaðið birti allítarlegt viðtal við þýðandann þann 19. september og eins var umfjöllun á RÚV í þætti hinn 3. október. Þá var rætt við þýðandann á Bylgjunni skömmu fyrir jól.

Höfundur goðsagnabókarinnar, hugmyndasagnfræðingurinn Stjernfelt, hefur lagst yfir Lúther og styðst við aragrúa tilvitnana sem hann sækir beint í rit Lúthers, Weimarútgáfu verka hans. Það eru 122 bindi og meira en 80.000 blaðsíður. Af nægu er að taka. Margir efuðust nú um að Stjernfelt prófessor hefði gefið sér tíma til að lesa allt samhengisins vegna. Lestur hans hefði verið sá er fellur undir „cherry picking“ sem þýðir að hann tíndi safaríkustu berin hér og þar af kökunni sem þjónuðu röksemdafærslu hans sjálfs en lét önnur vera. Í þessa gryfju geta menn fallið.

Hér gefst ekki rými né öllu heldur tími til að fara yfir hverja goðsögn heldur drepa aðeins á nokkur atriði. Í raun eru þessar goðsagnir sem höfundur kýs að kalla svo ekki nýjar af nálinni, um þær og skyld efni hefur verið fjallað í Lúthersrannsóknum. En hvaða goðsagnir eru þetta?

Þær eru þessar í örstuttu máli:

…að Lúther hafi komið á trúfrelsi, tjáningarfrelsi og frjálsri hugsun: Sannarlega ekki að mati höfundar sem telur rót þessarar goðsagnar liggja í kveri Lúthers Um frelsi kristins manns. Síðan eru raktar ýmsar tilvitnanir þar sem Lúther lætur vaða á súðum um málfrelsi þeirra sem kunna að vera á móti honum og útleggingu hans og vitnað til dæmis í borðræðu: „Sá sem gengur gegn mér í einhverjum atriðum og gefur sig ekki, skal og hlýtur að glatast .“ (Bls. 41). Allt honum öndvert sagt væri frá djöflinum komið og dauðarefsing væri þeim vís er snerust gegn honum. Lúther hefði fengið hina einu og réttu túlkun beint frá Guði. (Bls. 35).

Stutt athugasemd: Lútherskir hér á landi hafa svo sem ekki hampað því að Lúther hafi komið á trúfrelsi eða frjálsri hugsun enda kannski á báðum áttum um það eins og svo margt – kannski svo hafi verið í Danmörku. En öðru máli gegnir ef til vill um tjáningarfrelsið – það kann að hann hafi orðið ýmsum fyrirmynd í því og fordæmi sem hinn hugrakki einstaklingur er stígur fram og býður valdi birginn. Kverið Lúther: Um frelsi kristins manns kann að hafa haft áhrif hér í þessu efni. Það kom hins vegar ekki út á íslensku fyrr en 1967. Þar leitast Lúther við að rökstyðja hinn almenna prestsdóm (þýðandi notar um þetta hugtak orðin „almennt prestdæmi“) með því að trúin sé persónulegt samband milli Guðs og manns. Sannfæring um það gæti aukið mönnum kjark. Sú hugsun hefur verið allrík og menn talið sig styðjast við Biblíuskilning Lúthers að mikilvægt væri að lesa heilagt orð og túlka. (Sjá: Sigurbjörn Einarsson, Coram Deo: Heilög ritning: Lúther og Biblían, R. 1981, bls. 87-89).  

… að Lúther hafi skilið á milli ríkis og kirkju: Þetta er undarlegasta goðsögnin að mati höfundar og hann segir að skýr skil hafi verið milli ríkis og kirkju í hinni kaþólsku Evrópu miðalda. Prestar urðu embættismenn ríkisins með siðbreytingunni og jafnframt prédikarar orðsins. Enginn aðskilnaður heldur fyrst og fremst einhvers samsuða milli ríkis og kirkju. Hann hafi fundið upp ríkiskirkjuna“. Kóngurinn varð eins konar erkibiskup“.

Stutt athugasemd: Lútherskir hér á landi hafa ekki haft hátt um að kirkjuskipan hans hafi orðið til þess að skilið væri á milli ríkis og kirkju de facto. Enda sá aðskilnaður til þess að gera nýorðinn, samanber ný þjóðkirkjulög. Flestir hafa talið að hin lútherska kirkjuskipan væri vissulega í höfuðdráttum kirkjuskipan furstanna, ríkisvaldsins. 

…að Lúther hafi stuðlað að því að lýðræði sprytti fram: Höfundur segir þá fullyrðingu danskra yfirvalda súrrealíska um að Lúther sé einn af feðrum lýðræðisins þar í landi. Fáir hafi talað jákvætt um lýðræði á 16. öld og skilningur þá annar á því hugtaki en nú. Dregin fer fram áhersla Lúthers á að sýna yfirvöldum hlýðni og vísað til Ritningarinnar í því sambandi. Hlýðni við Guð og yfirvald var nánast af sama toga. Í slíku sambandi er lítið rúm fyrir það sem lýðræði kallast. Inn í þessa umfjöllun fléttast bændauppreisnin og afstaða Lúthers til hennar. En lýðræðið er fjarri góðu gamni.

Stutt athugasemd: Lútherskir hér á landi hafa ekki talið Lúther hafa sérstaklega greitt götu lýðræðis í nútímaskilningi þess orðs. Hvað hlýðni við yfirvöld snertir þá hefur afstaða til þess verið með ýmsum hætti. Orð Lúthers hafa svo sem ekki verið nein kennivaldsorð í kirkjunni. Auk þess hafa allir lútherskir fráleitt verið ánægðir með afstöðu Lúthers til bændauppreisnarinnar eins og hún birtist í bæklingi hans: „Gegn morðóðum og ruplandi óaldarflokkum bænda“. Bændauppreisnin var einhvers konar alþýðuuppreisn sem varð all svarraleg í lokin. Þar urðu mikil skil og eftir það haf Lúther hvergi höfði sínu að að halla nema hjá furstunum.  

 … að nornamálin voru lúthersk en ekki kaþólsk: Fullyrt er að nornabrennur hafi byrjað með lútherskunni og að Lúther hafi verið mjög upptekinn af nornaofsóknum. En höfundur segir reyndar að sunnar á meginlandinu hafi nornaofsóknir hafist á undan siðbótinni. Nú. Vitnað er í Lúther þar sem hann segir um nornirnar: „Með göldrum geta þær skaðað augu fólks og blindað það, sýkt það, skotið pílum í fætur þess…“ (bls. 67). Sjúkdómar Lúthers voru að áliti hans verk galdra. (bls. 70). Kenning siðbótarfrömuðarins um nornir hafi skilið eftir sig blóðug spor um aldir.

Stutt athugasemd: Það verður ekki annað sagt en að Stjernfelt fari ögn fram úr sér í sambandi við nornamálin. Ekki þarf annað en að lesa Galdrafárið í Evrópu eftir Hugh Trevor-Roper (ísl. útg. 1977) til að sjá hvernig Stjernfelt einfaldar málin. Galdrafárið var mjög flókið samfélagslegt fyrirbæri, hófst á 12. öld, sjá verður sögu þess sem „hugmyndasögu og samfélagssögu.“ (Bls. 181).

 … að gyðingahatur Lúthers hafi engin áhrif haft: Í fyrstu hafi Lúther alið með sér þá von að hægt væri að snúa Gyðingum til kristni en hann gefst upp á því. Andúð hans á Gyðingum leynir sér ekki eftir það og hefur uppi stór orð um þá og siði þeirra. Þekktasta rit hans er: Um Gyðingana og lygar þeirra. Í því ægir af alls konar hatursfullum lýsingum á Gyðingum og þeim úthýst sem okrurum, þjófum og djöflum. Og lokasetning hjá Stjernfelt í þessum kafla er: „En Lúther tókst að gegnumsýra lútherskuna af mergjuðu gyðingahatri.“ (Bls. 82).

Stutt athugasemd: Það verður ekki litið fram hjá andúð Lúthers á Gyðingum og engin bót í máli þó samfélag hans hafi verið gegnsýrt af því – sem og fyrir og eftir. Fylgismenn hans nú á dögum líta á gyðingaandúð hans með vanþóknun og telja hana viðurstyggð. En það er staðreynd og svartur blettur á sögu siðbótarmannsins. Góða úttekt á gyðingahatri Lúthers má lesa í bók dr. Gunnars Kristjánssonar: Marteinn Lúther – svipmyndir úr siðbótarsögu, R. 2015, bls. 384-388.

 … að skuggahliðar Lúthers voru í takt við tíðarandann: Höfundur telur þessi rök mikla einföldun og það sé varla réttmætt að eyða tíma í þau. Það er athyglisverð yfirlýsing út af fyrir sig hvort líðandi stund, aldarfar, geti verið einhver skýring á hátterni manna, eða ekki. Í þessum kafla er Lúther dreginn upp sem hinn versti maður, öfgamaður og mannhatari. Fylgismenn hans geti ekki skotið sér á bak við tíðarandann.

Stutt athugasemd: Það er ætíð gott umræðuefni út af fyrir í hvaða mæli hægt er að slá siðferðilegum mælikvörðum okkar nútímamanna á skoðanir fyrri tíðar manna. Það síðastnefnda kallar Stjernfelt „staðalsvar“ (bls. 82) – þ.e. segi menn að Lúther hafi verið barns síns tíma. Þau orð eru til fárra fiska metin af hinum danska prófessor.

 … að skuggahliðar Lúthers hafi engin áhrif haft: Höfundur segir að það sé ekki margt í guðfræði Lúthers sem tengist lýðræði, mannréttindum, réttarríkinu eða nútímalegri hugsun. Lútherskur rétttrúnaður er höfundi ekki að skapi. Afleiðingar hans hafi verið slæmar, harðar refsingar fyrir guðlast, trúvillu og fleira slæmt. Upplýsingarstefnan mýkti rétttrúnaðinn að mati höfundar. Höfundur finnur það lútherskunni til foráttu að henni hafi ekki tekist að koma á fót lýðræði undir ofurvaldi sovétsins í Austur-Þýskalandi og það hafi ekki gerst fyrr en í umbyltingunni 1989. Nútímagyðingahatur á sér að sjálfsögðu rætur hjá lútherskum hirðprédikara og sömuleiðis hafi hópur lútherskra presta lagt sig fram um að bræða saman nasisma og kristindóm – og milli lútherskunnar og nasisma sé sterk taug. Enda voru nasistar fundvísir á margt í ritum Lúthers sem stutt gat málstað þeirra.

Stutt athugasemd: Fáir telja að skuggahliðar áhrifafólks hafi engin samfélagsleg áhrif. Skuggahliðar allra hafa  einhver áhrif einhvers staðar. Sér í lagi þegar framáfólk í samfélaginu dregur taum einhvers hóps sem telst vera fjandsamlegur lýðræðislegu samfélagi. Stundum koma skuggahliðar skjótt fram, í öðrum tilvikum malla þær hægt og rólega, fara sem skriðjökull. Fara hljóðlega en eru síðan afhjúpaðar og oft með miklum hvelli. Hvað lýðræðisbaráttu í Austur-Þýskalandi og hlut lútherskunnar þar hefði höfundi verið í lófa lagið að geta hjartastaðar þeirrar byltingar sem var Nikolajkirkjan í Leipzig. Kirkjan sú varð griðland þeirra er mótmæltu múrnum og tóku þátt í að fella hann í nafni lýðræðis og mannréttinda.

Friðriki Stjernfelt er ekki hlýtt til Lúthers og skoðanir hans mótast af því og byrgja honum sýn. Ritlingurinn flytur enda andófsrödd (bls. 12).

En hvað skal segja, svona almennt?

Það má benda á að munur er annars vegar á því að vera beinn áhrifavaldur í sögunni og hins á því að einhver taki sér fyrir hendur að búa til goðsagnir á grundvelli skoðana þinna. Áhrifavaldar geta að sönnu búið til goðsögn (og jafnvel sjálfir orðið slík) en heitir fylgismenn öld fram af öld eru þeir sem prjóna hana saman eins og hverjir aðrir almannatenglar. Þá er sá löngu dauður sem lagði grunn að henni eða einhver annar óumbeðinn fyrir hans hönd eða ýjaði að henni hvort heldur í alvöru eða kæruleysi. Og þá er ekki gerður munur á hvort það er snemma á ferli viðkomandi þegar hann er ungur og lætur allt vaða eða þá hann er orðinn eldri og sér hlutina í öðru ljósi; sum sé hinn ungi Lúther, sá róttæki, og hinn gamli, sá hægfara.

Síðan stíga menn á sviðið, eins og Friðrik Stjernfelt, og flysjar goðsagnirnar af manneskjunni. Það getur verið hið mesta nauðsynjamál hverju sinni en óþurftarverk ef öðrum goðsögnum og ranghugmyndum er tyllt upp í stað hinna flysjuðu.

Það er flókinn sögulegur veruleiki frá því að vera atkvæðamikil manneskja á sögusviðinu og láta til sín taka, hafa skoðanir og móta samfélagið í lifanda lífi – og búa jafnvel til ritmál í leiðinni, nema það sé líka goðsögn. Lengra nær það ekki. Vart einhamir menn. Kannski bara lifandi goðsagnir. Einhverjir koma í þínu nafni og tala fyrir áhrifavaldinn öld eftir öld. Síðan ert þú jafnvel orðinn töluverð goðsögn og oft án þess að vita það enda ertu dauður. Myndir ekki kannast við sjálfan þig ef þú hitir þig á sögusviðinu eða hvað þá í leikhléi á barnum. Áhrifafólk í sögunni birtist síðar með ýmsum hætti í tímans rás. Ólíkum myndum er varpað upp á söguskjáinn og fer auðvitað eftir því hver er þar að baki. Staðreyndin er hins vegar sú að myndirnar eru margar og hver þeirra er réttust kann að vera mikið álitamál. Er það hetjan? Skúrkurinn? Hugsjónamaðurinn? Eða er það: Kirkjufaðirinn Marteinn Lúther? Lúther, maður Ritningarinnar? Kirkjuleiðtoginn Lúther? Þjóðernisleiðtoginn Marteinn Lúther? (Sjá til dæmis: Trú, von og þjóð – sjálfsmynd og staðleysur, eftir dr. Sigurjón Árna Eyjólfsson, R. 2014, bls. 341-356).

Hinn frægi dómur sögunnar er felldur hér með morgunkaffinu og vínarbrauðinu danska. Ekki mikið mál.

Ekkert gott frá honum komið?

Ekki margt svo sem að mati Stjernfelts. Eitthvað sem kom óbeint frá honum, var gott. Eins og áhersla hans á að auka lestrargetu fólks – meðal annars til að geta lesið guðsorð. Það er „mögulegt“ segir hann að starfsemi klaustra sem laut að hjúkrun og umönnun og fluttist yfir til ríkisins hafi verið fyrstu skref í átt til velferðarsamfélags.

Hver er heimur sakborningsins – hins dæmda? Á Lúther sér málsbætur?

Veröld riðar til falls, hinn efsti dagur í nánd, barátta upp á líf og dauða. Hann bannfærður og réttdræpur. Trúarlíf hans er sterkt, nánd Guðs, sem oft á tíðum er hinn reiði Guð, og svo nánd djöfulsins. Rís upp gegn sölubraski rómversku kirkjunnar – það er reyndar engin goðsögn, rís upp gegn stórveldi síns tíma og fær að kenna á því – hlutverk kirkjunnar var eitt: að boða fagnaðarerindið. Minna verður á að ganga Lúthers var ekki nein sigurganga – hann var í raun ófrjáls maður frá 1520 og til dauðadags, 1546. Rómversk-kaþólska kirkjan var á eftir honum. Og það var ekki aðeins hin rómverska kirkja sem snerist gegn honum heldur og margir samverkamenn hans sem áttu rætur í siðbótarhreyfingunni en töldu önnur atriði skipta meira máli en boðunina. Þessa kallaði Lúther kallaði vingltrúarmenn.

Nú getur það  verið álitamál að hve miklu leyti þessi sjö goðsagnadæmi eigi við um Ísland eins og vikið var lauslega að í hinum stuttu athugasemdum. Þetta þyrfti að rannsaka sérstaklega. Til gamans má skjóta hér að orðum frá sr. Matthíasi Jochumssyni, rituð 1916 – árið 1917 voru 400 ár liðin frá siðbótinni:

„Loks tilkynnti biskup, að í haust skyldi minnast siðabótar Lúthers, og urðu merkilega daufar undirtektir undir það mál; bárum við Har. Nielsson henni hálfilla söguna, enda álit okkar að sú siðbót hefði verið siðaspilling hér, enda dáið í fæðingunni …“ (Bréf Matthíasar Jochumssonar, 1935, bls. 474).

Hægt er að spyrja sig hvort kristið fólk á Íslandi hafi haft einhverja þessara hugmynda um Lúther sem Stjernfelt dregur fram. Í ágætri ritgerð dr. Jóns Thors Haraldssonar í bókinni Lúther og íslenskt þjóðlíf, frá 1989, er grein eftir hann sem heitir Lúther í íslenskri sagnfræði og þar segir meðal annars:

„Þeir virðast mjög svo snemma hafa sett hann (Lúther, innsk. höf.) sem hvert annað goð á stall þar sem hann haggaðist ekki öldum saman.“ (Bls. 35).

Auk þess má tilfæra orð úr ævisögu Lúthers eftir Jón Árnason, frá 1852, en hann segir (og er að tala um Lúther) að sjá megi

„hvílík hetja hann var í trúarefnum, og oss liggur við að segja, að hann verið víkingur í þeim. … Eins og hann var hreinn á svipinn, eins var sál hans hrein og skír…“ (Bls. 100).

Svo sannarlega goð á stalli.

Danir voru býsna duglegir að gefa út rit Lúthers en hlutur hans hér á landi reyndist hins vegar rýr í roðinu og hefur það hugsanlega átt þátt í að landinn hafði aðra skoðun á Lúther – ef nokkra. Það er líka rannsóknarefni eins og svo margt annað í okkar sögu. Fræðin minni voru það rit Lúthers sem var kunnast hér á landi og útbreiddast og um þau hressilega getið í kirkjuskipan Kristjáns þriðja sem send var Lúther til yfirlestrar og skoðunar. Og;

„langsamlega lífseigasta kennslubók í íslenskri fræðslusögu.“ (Lúther og íslenskt þjóðlíf, 1989, Loftur Guttormsson, bls. 176).

Fræðin minni voru höfuðritið í kristinni fræðslu hér á landi frá 17. öld og stafrófið prentað svo framan við textann í útgáfu frá lokum aldarinnar: Stutt stafrófskver ásamt Lúthers litlu fræðum. Utanaðbókarkunnátta í kverinu var mikilvæg og líklegt að talið bóklæsi hafi aukist með tilkomu kversins – og það hefur oft verið þakkað Lúther gamla, tja með réttu eða röngu. Annars hefur almenningur sennilega lítið þekkt til hugmynda Lúthers fyrir utan þær sem fram koma í kverinu, biblíuformálum Lúthers til og með Steinsbiblíu 1728. Svo hafa eflaust einstaka prestar greint frá í prédikunum sínum og hugleiðingum helstu trúarsetningum siðbótarmannsins.

Þessar goðsagnir „eptir Lúters lærdómi“ hafa því sennilega verið að mestu ókunnar Íslendingum. En greinilega hafa Danir setið uppi með þær. Eða?

Svo má auðvitað velta því fyrir sér í lokin hvað það merkir að kirkjan sé lúthersk sé þessi voðalegi maður, Marteinn Lúther, óalandi og óferjandi, og slaufaður af tíðarandanum. Þýðir það að hún gjaldi jáyrði við hverjum þeim stafkróki sem eignaður er Lúther og sitji föst í díki þessara hugsanlegu goðsagna? Svo sannarlega ekki.

Þjóðkirkjan er lúthersk í þeim skilningi að hún er sammála nokkrum meginatriðum í kenningum Lúthers og um fyrirkomulag kirkjunnar. Í játningasafni hennar eru Ágsborgarjátningin og Fræði Lúthers hin minni – og sitthvað fleira. Allar játningar eru á vissan hátt trúarsögulegar minjar og hægt að túlka með ýmsu móti. Annað ekki.

Lútherstrúarmenn eru ekki til eins og staglast er á í ritlingi Stjernfelts, enginn trúir á Lúther. Ekki frekar en Múhameðstrúarmenn, þau sem aðhyllast islam, trúa ekki á Múhameð, heldur Allah.

Þýðing Ásmundar er vel læsileg en almennt er það um texta höfundar að segja að hann er um of þrútinn af upplýsingum (oft óþarfa) og kemur það niður á flæði hans. Sérstök er forsíðumyndin og á rætur sínar hjá Hans Holbein yngri (1497-1543). Mynd sem ekki sést oft. Aðrar myndir af Lúther eftir ýmsa samtíðarmenn hans eru sterkari og glæstari – draga betur fram persónueinkenni hans heldur en þessi luntalega mynd af honum. En eflaust þjónar hún útgáfunni.

Lokaorð

Gagnrýni á sögulegar persónur er sjálfsögð og nauðsynleg. Því áhrifameiri sem þessar sögulegu persónur eru því meiri þörf er á gagnrýnni umfjöllun um þær.

Marteinn Lúther er þar engin undantekning. Og hann hefur svo sannarlega verið gagnrýndur og fengið það óþvegið. Hann hefur líka verið mærður í hástert.

Hann stóð djarflega að ýmsu í lífi sínu. Það þurfti hugrekki til að gagnrýna valdakerfi kaþólskunnar. Hann var uppreisnarmaður. Margslunginn maður, margir menn.

Afstaða hans til bændanna olli vonbrigðum og margur hefur gagnrýnt hann fyrir bæklinginn sem hann skrifaði gegn bændum. Það er staðreynd að bæklingurinn „Gegn morðóðum og ruplandi óaldarflokkum bænda“, kom út eftir að furstarnir voru byrjaðir að slátra bændum en það afsakar ekki afstöðu Lúthers. Rétt skal þó vera rétt.

Þá er hann og gagnrýndur fyrir að hafa hneppt Þjóðverja í einhvers konar hlýðnisfetisma sem greiddi nasistum leið að hjörtum þeirra með hörmulegum afleiðingum. Lúther varð postuli Germana í augum margra nasista. Ritlingur Lúthers frá 1543: Um Gyðingana og lygi þeirra, varð nasistum gott efni í fóður. Gyðingar líta ekki með góðhug til siðbótarfrömuðarins fyrir þau skrif. Hins vegar eiga Gyðingar góð samskipti við kirkjur mótmælenda.

Allt kallar á stöðugt mat á Marteini Lúther og rannsókn á þeim sem gerðu Lúther að sínum manni. Það kallar á ýmsar spurningar, spennandi spurningar og ögrandi. Til dæmis:

Getur kirkjan búið undir sama þaki og Lúther eða þarf hún að hrista af sér persónu hans og halda áfram að vera öflug og framsýn mótmælendakirkja?

Og svo er það spurningin hennar Uglu: „Er hann ekki okkar?“

Sem sé af nógu er að taka. Ekkert einfalt mál. En spennandi – og skemmtilegt.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Umsögn um: Sjö goðsagnir um Lúther, eftir Frederik Stjernfelt, ísl. þýðing: Ásmundur Stefánsson, Ormstunga 2021, 147 bls.

———————————————-

Sveitastúlkan kom að norðan til að læra á harmóníum. Organistinn sem tók á móti henni hafði aldrei áður hitt stúlku sem aðhylltist lútherstrú. Og hún spurði hikandi um leið og hún nefndi nafn Lúthers: „Er hann ekki okkar?“

Þetta var hún Ugla í Atómstöðinni. Og djúpvitri organistinn, nánast af öðrum heimi ef ekki jafnvel dýrlingur, skvetti á Lúther því að hann væri talinn vera klæmnasti rithöfundur heimsbókmenntanna. Hann hafði þetta eftir sálfræðingi nokkrum. Og ritgerð eftir hann „um páfagreyið“ sem var þýdd fékkst ekki prentuð af velsæmisástæðum. Þegar organistinn var búinn á þessum fyrsta fundi sínum með nemandanum, henni Uglu, að sá fræjum efasemda um Lúther, segir hún:

„…kanski hætti ég að spila fyrir Lúther skömmina úr því hann væri þessi dóni, og tæki þá ákvörðun að spila fyrir sjálfa mig…“ (Atómstöðin, R. 1961, bls. 20).

Ormstunga skaut inn á jólabókamarkaðinn þýðingu á bók danska prófessorsins Frederik Stjernfelt: Sjö goðsagnir um Lúther. Ásmundur Stefánsson þýddi.

Þar fær Lúther gamli ærlega á baukinn svo ætla mætti að allir heimsins lútherskir organistar hætti að spila fyrir Lúther skömmina eins og hin saklausa Ugla. Og fari að spila fyrir sjálfa sig.

Þessi bók kom út í Danmörku á siðbótarárinu 2017 og vakti mikla athygli. Betra hefði verið að bókin hefði komið út á íslensku á siðbótarárinu, verið þá rjúkandi heit en ekki eins og köld pizza fjórum árum síðar.

Siðbótarafmælisárið staldraði fyrst og fremst við allt það jákvæða er snerti Lúther og siðbótina. Einhver varð að draga fram neikvæðu hliðina og tók Friðrik Stjernfelt sér fyrir hendur.

Kjarni bókarinnar er snörp gagnrýni á siðbótarfrömuðinn. Svo sem ekki í fyrst sinn sem hann er harðlega gagnrýndur enda af nógu að taka þar sem liggja 122 stór bindi á þýsku og latínu í Weimarútgáfu verka hans – eða ríflega 80.000 þúsund blaðsíður. Maðurinn stór í sniðum, stóryrtur, indæll, og dóni, skáld, lagasmiður, guðfræðingur, heimspekingur, byltingarmaður … og mætti bæta mörgu við. Enginn hægindastólsguðfræðingur.

Eins og við var að búast þá risu margir upp til varnar Lúther, prestar, guðfræðingar og guðfræðiprófessorar – þó flestir á hinum mjúku nótum. Þeir vildu verja sinn mann, hvað annað. Guðleysingjarnir tóku bókinni  að sjálfsögðu fagnandi og sigri hrósandi. Allnokkur blaðaskrif urðu um bókina, umræðuþættir hér og þar. Höfundur sagði að bókin ætti að vera mótvægi við þeirri lofræðu sem hæfist á siðbótarári um siðbótarfrömuðinn Lúther.

Sá sem þetta ritar tók sér fyrir hendur á Lúthersárinu fræga, 2017, að þýða sitthvað úr borðræðum Lúthers og birti það á Facebókarsíðu sinni til gamans og ánægju. Ein þýðing á dag, samtals 365. Þar lét Lúther kallinn margt flakka og sumt gat verið býsna stóryrt. Margt var það svarralegt að ekki þótt við hæfi að birta. Annað hvort hafði Lúther kallinn verið sauðdrukkinn eða sá er nóteraði niður borðræðuna illa við hann: sem sé uppdiktaði hana eða jók við. Borðræðurnar voru sum sé ekki ritaðar af Lúther sjálfum heldur borðnautum hans sem sátu og skrifuðu því Lúther var skapandi maður, talandi skáld og lét oft vaða á súðum. Þær síðan gefnar út og vöktu hrifningu sem og hneykslan – og einnig deilu um höfundarrétt, að sjálfsögðu. Sumar tilvitnanir voru því tilbúningur og samdar til að koma höggi á Lúther. Allar má þær þó lesa í Weimarútgáfunni. Almennt eru borðræðurnar því ekki taldar í hæsta máta öruggar heimildir og verður að taka þær með vissum fyrirvara – sem Stjernfelt gerir ekki og vitnar hikstalaust í þær.

Það er gaman að sjá þessa bókarþýðingu á íslensku og auðvitað sérstakt að fyrrum verkalýðsleiðtogi og bankastjóri taki sér fyrir hendur að þýða ritling af þessu tagi. Hann er hugsanlega áhugamaður um Lúther og siðaskiptin og vill halda öllu til haga. Nema honum sé í nöp við Lúther skömmina og vilji hnykkja á því með því að verja tíma sínum í að þýða ritlinginn. Afhjúpa Lúther. Hver veit. En það er nú ekki kjarni málsins þó vel megi velta fyrir sér ástæðum þess þar sem þýdd rit eða kver um Lúther eru ekki daglegt brauð í bókmenningu okkar og almennt talin lítt söluvænleg. Auk þess sem þessi ritlingur var  gefinn út í því skyni að vera mótsvar við dönskum dýrðaróði sem kveðinn yrði um Lúther á 500 ára afmæli siðbótarinnar 2017 og er því fremur seint á ferðinni hér norður við Dumbshaf en þó er ekki farið að slá í hann alvarlega eins og danska mélið á einokunartímabilinu.

Bókin hefur fengið nokkra opinberlega athygli hér á landi.

Morgunblaðið birti allítarlegt viðtal við þýðandann þann 19. september og eins var umfjöllun á RÚV í þætti hinn 3. október. Þá var rætt við þýðandann á Bylgjunni skömmu fyrir jól.

Höfundur goðsagnabókarinnar, hugmyndasagnfræðingurinn Stjernfelt, hefur lagst yfir Lúther og styðst við aragrúa tilvitnana sem hann sækir beint í rit Lúthers, Weimarútgáfu verka hans. Það eru 122 bindi og meira en 80.000 blaðsíður. Af nægu er að taka. Margir efuðust nú um að Stjernfelt prófessor hefði gefið sér tíma til að lesa allt samhengisins vegna. Lestur hans hefði verið sá er fellur undir „cherry picking“ sem þýðir að hann tíndi safaríkustu berin hér og þar af kökunni sem þjónuðu röksemdafærslu hans sjálfs en lét önnur vera. Í þessa gryfju geta menn fallið.

Hér gefst ekki rými né öllu heldur tími til að fara yfir hverja goðsögn heldur drepa aðeins á nokkur atriði. Í raun eru þessar goðsagnir sem höfundur kýs að kalla svo ekki nýjar af nálinni, um þær og skyld efni hefur verið fjallað í Lúthersrannsóknum. En hvaða goðsagnir eru þetta?

Þær eru þessar í örstuttu máli:

…að Lúther hafi komið á trúfrelsi, tjáningarfrelsi og frjálsri hugsun: Sannarlega ekki að mati höfundar sem telur rót þessarar goðsagnar liggja í kveri Lúthers Um frelsi kristins manns. Síðan eru raktar ýmsar tilvitnanir þar sem Lúther lætur vaða á súðum um málfrelsi þeirra sem kunna að vera á móti honum og útleggingu hans og vitnað til dæmis í borðræðu: „Sá sem gengur gegn mér í einhverjum atriðum og gefur sig ekki, skal og hlýtur að glatast .“ (Bls. 41). Allt honum öndvert sagt væri frá djöflinum komið og dauðarefsing væri þeim vís er snerust gegn honum. Lúther hefði fengið hina einu og réttu túlkun beint frá Guði. (Bls. 35).

Stutt athugasemd: Lútherskir hér á landi hafa svo sem ekki hampað því að Lúther hafi komið á trúfrelsi eða frjálsri hugsun enda kannski á báðum áttum um það eins og svo margt – kannski svo hafi verið í Danmörku. En öðru máli gegnir ef til vill um tjáningarfrelsið – það kann að hann hafi orðið ýmsum fyrirmynd í því og fordæmi sem hinn hugrakki einstaklingur er stígur fram og býður valdi birginn. Kverið Lúther: Um frelsi kristins manns kann að hafa haft áhrif hér í þessu efni. Það kom hins vegar ekki út á íslensku fyrr en 1967. Þar leitast Lúther við að rökstyðja hinn almenna prestsdóm (þýðandi notar um þetta hugtak orðin „almennt prestdæmi“) með því að trúin sé persónulegt samband milli Guðs og manns. Sannfæring um það gæti aukið mönnum kjark. Sú hugsun hefur verið allrík og menn talið sig styðjast við Biblíuskilning Lúthers að mikilvægt væri að lesa heilagt orð og túlka. (Sjá: Sigurbjörn Einarsson, Coram Deo: Heilög ritning: Lúther og Biblían, R. 1981, bls. 87-89).  

… að Lúther hafi skilið á milli ríkis og kirkju: Þetta er undarlegasta goðsögnin að mati höfundar og hann segir að skýr skil hafi verið milli ríkis og kirkju í hinni kaþólsku Evrópu miðalda. Prestar urðu embættismenn ríkisins með siðbreytingunni og jafnframt prédikarar orðsins. Enginn aðskilnaður heldur fyrst og fremst einhvers samsuða milli ríkis og kirkju. Hann hafi fundið upp ríkiskirkjuna“. Kóngurinn varð eins konar erkibiskup“.

Stutt athugasemd: Lútherskir hér á landi hafa ekki haft hátt um að kirkjuskipan hans hafi orðið til þess að skilið væri á milli ríkis og kirkju de facto. Enda sá aðskilnaður til þess að gera nýorðinn, samanber ný þjóðkirkjulög. Flestir hafa talið að hin lútherska kirkjuskipan væri vissulega í höfuðdráttum kirkjuskipan furstanna, ríkisvaldsins. 

…að Lúther hafi stuðlað að því að lýðræði sprytti fram: Höfundur segir þá fullyrðingu danskra yfirvalda súrrealíska um að Lúther sé einn af feðrum lýðræðisins þar í landi. Fáir hafi talað jákvætt um lýðræði á 16. öld og skilningur þá annar á því hugtaki en nú. Dregin fer fram áhersla Lúthers á að sýna yfirvöldum hlýðni og vísað til Ritningarinnar í því sambandi. Hlýðni við Guð og yfirvald var nánast af sama toga. Í slíku sambandi er lítið rúm fyrir það sem lýðræði kallast. Inn í þessa umfjöllun fléttast bændauppreisnin og afstaða Lúthers til hennar. En lýðræðið er fjarri góðu gamni.

Stutt athugasemd: Lútherskir hér á landi hafa ekki talið Lúther hafa sérstaklega greitt götu lýðræðis í nútímaskilningi þess orðs. Hvað hlýðni við yfirvöld snertir þá hefur afstaða til þess verið með ýmsum hætti. Orð Lúthers hafa svo sem ekki verið nein kennivaldsorð í kirkjunni. Auk þess hafa allir lútherskir fráleitt verið ánægðir með afstöðu Lúthers til bændauppreisnarinnar eins og hún birtist í bæklingi hans: „Gegn morðóðum og ruplandi óaldarflokkum bænda“. Bændauppreisnin var einhvers konar alþýðuuppreisn sem varð all svarraleg í lokin. Þar urðu mikil skil og eftir það haf Lúther hvergi höfði sínu að að halla nema hjá furstunum.  

 … að nornamálin voru lúthersk en ekki kaþólsk: Fullyrt er að nornabrennur hafi byrjað með lútherskunni og að Lúther hafi verið mjög upptekinn af nornaofsóknum. En höfundur segir reyndar að sunnar á meginlandinu hafi nornaofsóknir hafist á undan siðbótinni. Nú. Vitnað er í Lúther þar sem hann segir um nornirnar: „Með göldrum geta þær skaðað augu fólks og blindað það, sýkt það, skotið pílum í fætur þess…“ (bls. 67). Sjúkdómar Lúthers voru að áliti hans verk galdra. (bls. 70). Kenning siðbótarfrömuðarins um nornir hafi skilið eftir sig blóðug spor um aldir.

Stutt athugasemd: Það verður ekki annað sagt en að Stjernfelt fari ögn fram úr sér í sambandi við nornamálin. Ekki þarf annað en að lesa Galdrafárið í Evrópu eftir Hugh Trevor-Roper (ísl. útg. 1977) til að sjá hvernig Stjernfelt einfaldar málin. Galdrafárið var mjög flókið samfélagslegt fyrirbæri, hófst á 12. öld, sjá verður sögu þess sem „hugmyndasögu og samfélagssögu.“ (Bls. 181).

 … að gyðingahatur Lúthers hafi engin áhrif haft: Í fyrstu hafi Lúther alið með sér þá von að hægt væri að snúa Gyðingum til kristni en hann gefst upp á því. Andúð hans á Gyðingum leynir sér ekki eftir það og hefur uppi stór orð um þá og siði þeirra. Þekktasta rit hans er: Um Gyðingana og lygar þeirra. Í því ægir af alls konar hatursfullum lýsingum á Gyðingum og þeim úthýst sem okrurum, þjófum og djöflum. Og lokasetning hjá Stjernfelt í þessum kafla er: „En Lúther tókst að gegnumsýra lútherskuna af mergjuðu gyðingahatri.“ (Bls. 82).

Stutt athugasemd: Það verður ekki litið fram hjá andúð Lúthers á Gyðingum og engin bót í máli þó samfélag hans hafi verið gegnsýrt af því – sem og fyrir og eftir. Fylgismenn hans nú á dögum líta á gyðingaandúð hans með vanþóknun og telja hana viðurstyggð. En það er staðreynd og svartur blettur á sögu siðbótarmannsins. Góða úttekt á gyðingahatri Lúthers má lesa í bók dr. Gunnars Kristjánssonar: Marteinn Lúther – svipmyndir úr siðbótarsögu, R. 2015, bls. 384-388.

 … að skuggahliðar Lúthers voru í takt við tíðarandann: Höfundur telur þessi rök mikla einföldun og það sé varla réttmætt að eyða tíma í þau. Það er athyglisverð yfirlýsing út af fyrir sig hvort líðandi stund, aldarfar, geti verið einhver skýring á hátterni manna, eða ekki. Í þessum kafla er Lúther dreginn upp sem hinn versti maður, öfgamaður og mannhatari. Fylgismenn hans geti ekki skotið sér á bak við tíðarandann.

Stutt athugasemd: Það er ætíð gott umræðuefni út af fyrir í hvaða mæli hægt er að slá siðferðilegum mælikvörðum okkar nútímamanna á skoðanir fyrri tíðar manna. Það síðastnefnda kallar Stjernfelt „staðalsvar“ (bls. 82) – þ.e. segi menn að Lúther hafi verið barns síns tíma. Þau orð eru til fárra fiska metin af hinum danska prófessor.

 … að skuggahliðar Lúthers hafi engin áhrif haft: Höfundur segir að það sé ekki margt í guðfræði Lúthers sem tengist lýðræði, mannréttindum, réttarríkinu eða nútímalegri hugsun. Lútherskur rétttrúnaður er höfundi ekki að skapi. Afleiðingar hans hafi verið slæmar, harðar refsingar fyrir guðlast, trúvillu og fleira slæmt. Upplýsingarstefnan mýkti rétttrúnaðinn að mati höfundar. Höfundur finnur það lútherskunni til foráttu að henni hafi ekki tekist að koma á fót lýðræði undir ofurvaldi sovétsins í Austur-Þýskalandi og það hafi ekki gerst fyrr en í umbyltingunni 1989. Nútímagyðingahatur á sér að sjálfsögðu rætur hjá lútherskum hirðprédikara og sömuleiðis hafi hópur lútherskra presta lagt sig fram um að bræða saman nasisma og kristindóm – og milli lútherskunnar og nasisma sé sterk taug. Enda voru nasistar fundvísir á margt í ritum Lúthers sem stutt gat málstað þeirra.

Stutt athugasemd: Fáir telja að skuggahliðar áhrifafólks hafi engin samfélagsleg áhrif. Skuggahliðar allra hafa  einhver áhrif einhvers staðar. Sér í lagi þegar framáfólk í samfélaginu dregur taum einhvers hóps sem telst vera fjandsamlegur lýðræðislegu samfélagi. Stundum koma skuggahliðar skjótt fram, í öðrum tilvikum malla þær hægt og rólega, fara sem skriðjökull. Fara hljóðlega en eru síðan afhjúpaðar og oft með miklum hvelli. Hvað lýðræðisbaráttu í Austur-Þýskalandi og hlut lútherskunnar þar hefði höfundi verið í lófa lagið að geta hjartastaðar þeirrar byltingar sem var Nikolajkirkjan í Leipzig. Kirkjan sú varð griðland þeirra er mótmæltu múrnum og tóku þátt í að fella hann í nafni lýðræðis og mannréttinda.

Friðriki Stjernfelt er ekki hlýtt til Lúthers og skoðanir hans mótast af því og byrgja honum sýn. Ritlingurinn flytur enda andófsrödd (bls. 12).

En hvað skal segja, svona almennt?

Það má benda á að munur er annars vegar á því að vera beinn áhrifavaldur í sögunni og hins á því að einhver taki sér fyrir hendur að búa til goðsagnir á grundvelli skoðana þinna. Áhrifavaldar geta að sönnu búið til goðsögn (og jafnvel sjálfir orðið slík) en heitir fylgismenn öld fram af öld eru þeir sem prjóna hana saman eins og hverjir aðrir almannatenglar. Þá er sá löngu dauður sem lagði grunn að henni eða einhver annar óumbeðinn fyrir hans hönd eða ýjaði að henni hvort heldur í alvöru eða kæruleysi. Og þá er ekki gerður munur á hvort það er snemma á ferli viðkomandi þegar hann er ungur og lætur allt vaða eða þá hann er orðinn eldri og sér hlutina í öðru ljósi; sum sé hinn ungi Lúther, sá róttæki, og hinn gamli, sá hægfara.

Síðan stíga menn á sviðið, eins og Friðrik Stjernfelt, og flysjar goðsagnirnar af manneskjunni. Það getur verið hið mesta nauðsynjamál hverju sinni en óþurftarverk ef öðrum goðsögnum og ranghugmyndum er tyllt upp í stað hinna flysjuðu.

Það er flókinn sögulegur veruleiki frá því að vera atkvæðamikil manneskja á sögusviðinu og láta til sín taka, hafa skoðanir og móta samfélagið í lifanda lífi – og búa jafnvel til ritmál í leiðinni, nema það sé líka goðsögn. Lengra nær það ekki. Vart einhamir menn. Kannski bara lifandi goðsagnir. Einhverjir koma í þínu nafni og tala fyrir áhrifavaldinn öld eftir öld. Síðan ert þú jafnvel orðinn töluverð goðsögn og oft án þess að vita það enda ertu dauður. Myndir ekki kannast við sjálfan þig ef þú hitir þig á sögusviðinu eða hvað þá í leikhléi á barnum. Áhrifafólk í sögunni birtist síðar með ýmsum hætti í tímans rás. Ólíkum myndum er varpað upp á söguskjáinn og fer auðvitað eftir því hver er þar að baki. Staðreyndin er hins vegar sú að myndirnar eru margar og hver þeirra er réttust kann að vera mikið álitamál. Er það hetjan? Skúrkurinn? Hugsjónamaðurinn? Eða er það: Kirkjufaðirinn Marteinn Lúther? Lúther, maður Ritningarinnar? Kirkjuleiðtoginn Lúther? Þjóðernisleiðtoginn Marteinn Lúther? (Sjá til dæmis: Trú, von og þjóð – sjálfsmynd og staðleysur, eftir dr. Sigurjón Árna Eyjólfsson, R. 2014, bls. 341-356).

Hinn frægi dómur sögunnar er felldur hér með morgunkaffinu og vínarbrauðinu danska. Ekki mikið mál.

Ekkert gott frá honum komið?

Ekki margt svo sem að mati Stjernfelts. Eitthvað sem kom óbeint frá honum, var gott. Eins og áhersla hans á að auka lestrargetu fólks – meðal annars til að geta lesið guðsorð. Það er „mögulegt“ segir hann að starfsemi klaustra sem laut að hjúkrun og umönnun og fluttist yfir til ríkisins hafi verið fyrstu skref í átt til velferðarsamfélags.

Hver er heimur sakborningsins – hins dæmda? Á Lúther sér málsbætur?

Veröld riðar til falls, hinn efsti dagur í nánd, barátta upp á líf og dauða. Hann bannfærður og réttdræpur. Trúarlíf hans er sterkt, nánd Guðs, sem oft á tíðum er hinn reiði Guð, og svo nánd djöfulsins. Rís upp gegn sölubraski rómversku kirkjunnar – það er reyndar engin goðsögn, rís upp gegn stórveldi síns tíma og fær að kenna á því – hlutverk kirkjunnar var eitt: að boða fagnaðarerindið. Minna verður á að ganga Lúthers var ekki nein sigurganga – hann var í raun ófrjáls maður frá 1520 og til dauðadags, 1546. Rómversk-kaþólska kirkjan var á eftir honum. Og það var ekki aðeins hin rómverska kirkja sem snerist gegn honum heldur og margir samverkamenn hans sem áttu rætur í siðbótarhreyfingunni en töldu önnur atriði skipta meira máli en boðunina. Þessa kallaði Lúther kallaði vingltrúarmenn.

Nú getur það  verið álitamál að hve miklu leyti þessi sjö goðsagnadæmi eigi við um Ísland eins og vikið var lauslega að í hinum stuttu athugasemdum. Þetta þyrfti að rannsaka sérstaklega. Til gamans má skjóta hér að orðum frá sr. Matthíasi Jochumssyni, rituð 1916 – árið 1917 voru 400 ár liðin frá siðbótinni:

„Loks tilkynnti biskup, að í haust skyldi minnast siðabótar Lúthers, og urðu merkilega daufar undirtektir undir það mál; bárum við Har. Nielsson henni hálfilla söguna, enda álit okkar að sú siðbót hefði verið siðaspilling hér, enda dáið í fæðingunni …“ (Bréf Matthíasar Jochumssonar, 1935, bls. 474).

Hægt er að spyrja sig hvort kristið fólk á Íslandi hafi haft einhverja þessara hugmynda um Lúther sem Stjernfelt dregur fram. Í ágætri ritgerð dr. Jóns Thors Haraldssonar í bókinni Lúther og íslenskt þjóðlíf, frá 1989, er grein eftir hann sem heitir Lúther í íslenskri sagnfræði og þar segir meðal annars:

„Þeir virðast mjög svo snemma hafa sett hann (Lúther, innsk. höf.) sem hvert annað goð á stall þar sem hann haggaðist ekki öldum saman.“ (Bls. 35).

Auk þess má tilfæra orð úr ævisögu Lúthers eftir Jón Árnason, frá 1852, en hann segir (og er að tala um Lúther) að sjá megi

„hvílík hetja hann var í trúarefnum, og oss liggur við að segja, að hann verið víkingur í þeim. … Eins og hann var hreinn á svipinn, eins var sál hans hrein og skír…“ (Bls. 100).

Svo sannarlega goð á stalli.

Danir voru býsna duglegir að gefa út rit Lúthers en hlutur hans hér á landi reyndist hins vegar rýr í roðinu og hefur það hugsanlega átt þátt í að landinn hafði aðra skoðun á Lúther – ef nokkra. Það er líka rannsóknarefni eins og svo margt annað í okkar sögu. Fræðin minni voru það rit Lúthers sem var kunnast hér á landi og útbreiddast og um þau hressilega getið í kirkjuskipan Kristjáns þriðja sem send var Lúther til yfirlestrar og skoðunar. Og;

„langsamlega lífseigasta kennslubók í íslenskri fræðslusögu.“ (Lúther og íslenskt þjóðlíf, 1989, Loftur Guttormsson, bls. 176).

Fræðin minni voru höfuðritið í kristinni fræðslu hér á landi frá 17. öld og stafrófið prentað svo framan við textann í útgáfu frá lokum aldarinnar: Stutt stafrófskver ásamt Lúthers litlu fræðum. Utanaðbókarkunnátta í kverinu var mikilvæg og líklegt að talið bóklæsi hafi aukist með tilkomu kversins – og það hefur oft verið þakkað Lúther gamla, tja með réttu eða röngu. Annars hefur almenningur sennilega lítið þekkt til hugmynda Lúthers fyrir utan þær sem fram koma í kverinu, biblíuformálum Lúthers til og með Steinsbiblíu 1728. Svo hafa eflaust einstaka prestar greint frá í prédikunum sínum og hugleiðingum helstu trúarsetningum siðbótarmannsins.

Þessar goðsagnir „eptir Lúters lærdómi“ hafa því sennilega verið að mestu ókunnar Íslendingum. En greinilega hafa Danir setið uppi með þær. Eða?

Svo má auðvitað velta því fyrir sér í lokin hvað það merkir að kirkjan sé lúthersk sé þessi voðalegi maður, Marteinn Lúther, óalandi og óferjandi, og slaufaður af tíðarandanum. Þýðir það að hún gjaldi jáyrði við hverjum þeim stafkróki sem eignaður er Lúther og sitji föst í díki þessara hugsanlegu goðsagna? Svo sannarlega ekki.

Þjóðkirkjan er lúthersk í þeim skilningi að hún er sammála nokkrum meginatriðum í kenningum Lúthers og um fyrirkomulag kirkjunnar. Í játningasafni hennar eru Ágsborgarjátningin og Fræði Lúthers hin minni – og sitthvað fleira. Allar játningar eru á vissan hátt trúarsögulegar minjar og hægt að túlka með ýmsu móti. Annað ekki.

Lútherstrúarmenn eru ekki til eins og staglast er á í ritlingi Stjernfelts, enginn trúir á Lúther. Ekki frekar en Múhameðstrúarmenn, þau sem aðhyllast islam, trúa ekki á Múhameð, heldur Allah.

Þýðing Ásmundar er vel læsileg en almennt er það um texta höfundar að segja að hann er um of þrútinn af upplýsingum (oft óþarfa) og kemur það niður á flæði hans. Sérstök er forsíðumyndin og á rætur sínar hjá Hans Holbein yngri (1497-1543). Mynd sem ekki sést oft. Aðrar myndir af Lúther eftir ýmsa samtíðarmenn hans eru sterkari og glæstari – draga betur fram persónueinkenni hans heldur en þessi luntalega mynd af honum. En eflaust þjónar hún útgáfunni.

Lokaorð

Gagnrýni á sögulegar persónur er sjálfsögð og nauðsynleg. Því áhrifameiri sem þessar sögulegu persónur eru því meiri þörf er á gagnrýnni umfjöllun um þær.

Marteinn Lúther er þar engin undantekning. Og hann hefur svo sannarlega verið gagnrýndur og fengið það óþvegið. Hann hefur líka verið mærður í hástert.

Hann stóð djarflega að ýmsu í lífi sínu. Það þurfti hugrekki til að gagnrýna valdakerfi kaþólskunnar. Hann var uppreisnarmaður. Margslunginn maður, margir menn.

Afstaða hans til bændanna olli vonbrigðum og margur hefur gagnrýnt hann fyrir bæklinginn sem hann skrifaði gegn bændum. Það er staðreynd að bæklingurinn „Gegn morðóðum og ruplandi óaldarflokkum bænda“, kom út eftir að furstarnir voru byrjaðir að slátra bændum en það afsakar ekki afstöðu Lúthers. Rétt skal þó vera rétt.

Þá er hann og gagnrýndur fyrir að hafa hneppt Þjóðverja í einhvers konar hlýðnisfetisma sem greiddi nasistum leið að hjörtum þeirra með hörmulegum afleiðingum. Lúther varð postuli Germana í augum margra nasista. Ritlingur Lúthers frá 1543: Um Gyðingana og lygi þeirra, varð nasistum gott efni í fóður. Gyðingar líta ekki með góðhug til siðbótarfrömuðarins fyrir þau skrif. Hins vegar eiga Gyðingar góð samskipti við kirkjur mótmælenda.

Allt kallar á stöðugt mat á Marteini Lúther og rannsókn á þeim sem gerðu Lúther að sínum manni. Það kallar á ýmsar spurningar, spennandi spurningar og ögrandi. Til dæmis:

Getur kirkjan búið undir sama þaki og Lúther eða þarf hún að hrista af sér persónu hans og halda áfram að vera öflug og framsýn mótmælendakirkja?

Og svo er það spurningin hennar Uglu: „Er hann ekki okkar?“

Sem sé af nógu er að taka. Ekkert einfalt mál. En spennandi – og skemmtilegt.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir