Það er forvitnilegt þegar samfélagsvenjur taka breytingum, svo að segja í allra augsýn. Sumir fyllast undrun en aðrir lyfta brúnum. Enn aðrir samþykkja þær með bros á vör eða andmæla þeim. Nú, eða láta þær ekki trufla okkur hætishót.
Skiptir nokkru máli hvort fólk er með hatta eða húfur á höfði í kirkjulegum athöfnum? Ræður það því ekki sjálft?
Það er enn óskráð venja að karlar taki höfuðföt sín ofan þegar þeir koma í kirkju. Og ekki bara hér á landi heldur víðast hvar í hinum vestræna heimi. Ljósasta dæmið er England í þessu efni. Við kirkjulegar athafnir eru fjörlegir hattar kvenna mjög svo áberandi en enginn karlmaður ber höfuðfat. Þessum sið er strákum innrætt frá blautu barnsbeini. Sá sem tekur höfuðfat sitt ofan sýnir virðingu og auðmýkt – og í þessu tilviki er það karlmaðurinn. Feðraveldið gaf körlum tilefni til að setja upp alls konar höfuðföt sem sýndu í lit og með borðum virðingarstöðu hlutaðeigandi. Þessum höfuðfötum var ætlað að draga fram veraldlega valdastöðu en í guðshúsi dugar hún skammt gagnvart almættinu og því voru þau ofan tekin.
En konurnar voru undir hæl feðraveldisins sem stýrði þeim með veraldlegum valdboðum og kirkjan með guðlegum. Rökstuðning fyrir því að þær skyldu bera höfuðföt var að finna í helgri bók og sömuleiðis höfuðfataleysi karlsins. Þó að allar kristnar kirkjur láti ekki forna trúartexta segja sér fyrir í þessu efni þá síaðist þessi texti inn í fólk að einhverju marki. En hvaða texti er þetta svo? Hann er að finna 1. Korintubréfi Páls postula, 11. kafla 4-7.
Sérhver sá karlmaður, sem biðst fyrir eða flytur spádóma Guðs og hefur á höfðinu, hann óvirðir höfuð sitt. En sérhver kona, sem biðst fyrir eða flytur spádóma Guðs berhöfðuð, óvirðir höfuð sitt. Það er hið sama sem hún hefði látið krúnuraka sig. Ef konan því vill ekki hylja höfuð sitt, þá láti hún klippa sig. En ef það er óvirðing fyrir konuna að láta klippa eða raka hár sitt, þá hafi hún á höfðinu. Karlmaður á ekki að hylja höfuð sitt því að hann er ímynd Guðs og endurspeglar dýrð hans en konan endurspeglar dýrð mannsins.
Sem sé. Gamli Páll að rexa og gefa línuna. Karlinn ímynd Guðs – konan endurspeglar dýrð mannsins. Það var og. Svona texti er líka gott dæmi um stjórnsemi og valdboð þeirra sem eru í forsvari fyrir trúarhreyfingar og ber að gjalda varhug við. Á dögum kynræns sjálfræðis er þessi texti líka orðinn máttlaus. Hvað um það.
Enginn gerir lengur athugasemd við það, með vísun til helgrar bókar, ef kona kemur án höfuðfats í kirkju. Hún ræður því sjálf – hvað annað! Alla jafna eru sennilega nú á dögum flestar konur án höfuðfats í kirkjum.
En hvað með karlana? Hvort heldur hárprúðir eða þunnhærðir? Eða með gljáandi skalla? Gerir einhver athugasemd þegar þeir ganga vasklega inn kirkjugólf með barðastóra hatta, fínlegar húfur, ullarhúfur, derhúfur og sixpensara? (Hér sleppa auðvitað hárkollur!)
Kirkjublaðið.is hefur það sterklega á tilfinningunni að hin síðari ár hafi notkun hatta og húfa meðal karlmanna farið vaxandi í kirkjum við ýmsa athafnir. Í sumum tilvikum hafa listamenn gefið tóninn þegar höfuðfatið er nánast hluti af útliti listamannsins sem vörumerki hans. KK er alltaf með húfu – Bjöggi býsna oft með hatt – og eflaust mætti telja fleiri.
„Gleymdu ekki Mugsion“, myndi einhver segja. Sannarlega er hann ekki gleymdur. Sá ágæti tónlistarmaður er nýbúinn að ljúka 100 kirkna tónleikamaraþoni í 100 póstnúmerum. Honum var vel fagnað og hann fyllti kirkjurnar leikandi létt og geri kennilýðurinn betur! Og alltaf var hann með hatt. Sat fyrir framan altarið með gítarinn og líka þennan flotta kúrekahatt á höfði. Söng og spilaði af hjartans lyst. Einhver kann að gefa þá skýringu að þá stundina hafi kirkjan verið meiri tónlistarsalur en kirkja – og því þyrfti ekki að amast við hattinum – en veraldlegur tónlistarviðburður hnikar ekki vígslu hússins.
Í gær var Kirkjublaðið.is viðstatt útför og taldi fimm karla með höfuðföt í kirkjunni. Flestir voru með fallega sixpensara og sumir þeirra kannski frá Stetson eða Kormáki og Skildi. Eða The Harris Tweed Authority. Fóru þeim einkar vel. Einn var með hatt. Þá var einn líkmannanna, karlmaður, með húfu á höfði þegar kista var borin úr kirkju – fannst Kirkjublaðinu.is það vera nýlunda enda ekki séð slíkt áður. Minntist þess að hafa séð gamlar myndir úr Reykjavík þar sem karlmenn tóku höfuðföt sín ofan þegar líkfylgd varð á vegi þeirra.
Áður en leiksýningar hefjast eða tónleikar eru gestir beðnir vinsamlegast um að slökkva á farsímum sínum vegna þess að skjábirta frá þeim og hljóð geta truflað gesti. Þetta þykir ekkert tiltökumál. Flestir taka þessa ábendingu sennilega til greina. Hvað ætli yrði sagt ef prestur beindi þeim tilmælum til karlmanna í kirkjum með hatta og húfur í athöfnum: „Vinsamlegast takið ofan hatta og húfur vegna þess að …“?
Nú er alls óvíst hvort nokkur í hópi kennilýðs hafi gert athugasemdir við þessi brot á venju í kirkjunum. Brot? Það er kannski fullsterkt að orði kveðið. Frekar ætti að segja frávik. Eða að ganga á svig við venju eins og þegar gengið er á svig við lögin. Reyndar var það kallað hér áður fyrri lagabrot – margt breytist.
Það er hins vegar athyglisvert að sjá samfélagsvenju sem þessa er tengist höfuðfötum breytast. Eða kannski ætti að kalla þetta fremur kirkjuvenju. Sjaldnar sjást karlar með barðastóra hatta og húfur í leikhúsum.
Sennilega er harla ólíklegt að forystufólk í kirkjunni fari að gera athugasemdir við karlmenn sem sitja á kirkjubekkjum með húfur eða hatta á höfði.
Þessu ræður hver og einn sjálfur – það er að segja: að virða venjuna eða ekki.
Fari þetta í taugarnar á einhverjum þá væri kannski hagkvæmt ráð að kynda hressilega upp í kirkjuhúsinu í guðsþjónustunni svo menn neyðist til að taka ofan þykka hatta, ullarhúfur og sixpensara.
Svo mætti náttúrlega spyrja karlana si sona: „Af hverju eru þið með hatta og húfur hér inni? Búnir að gleyma því sem Páll postuli sagði: Karlmaður á ekki að hylja höfuð sitt því að hann er ímynd Guðs…?“
Segi nú bara svona.
Það er forvitnilegt þegar samfélagsvenjur taka breytingum, svo að segja í allra augsýn. Sumir fyllast undrun en aðrir lyfta brúnum. Enn aðrir samþykkja þær með bros á vör eða andmæla þeim. Nú, eða láta þær ekki trufla okkur hætishót.
Skiptir nokkru máli hvort fólk er með hatta eða húfur á höfði í kirkjulegum athöfnum? Ræður það því ekki sjálft?
Það er enn óskráð venja að karlar taki höfuðföt sín ofan þegar þeir koma í kirkju. Og ekki bara hér á landi heldur víðast hvar í hinum vestræna heimi. Ljósasta dæmið er England í þessu efni. Við kirkjulegar athafnir eru fjörlegir hattar kvenna mjög svo áberandi en enginn karlmaður ber höfuðfat. Þessum sið er strákum innrætt frá blautu barnsbeini. Sá sem tekur höfuðfat sitt ofan sýnir virðingu og auðmýkt – og í þessu tilviki er það karlmaðurinn. Feðraveldið gaf körlum tilefni til að setja upp alls konar höfuðföt sem sýndu í lit og með borðum virðingarstöðu hlutaðeigandi. Þessum höfuðfötum var ætlað að draga fram veraldlega valdastöðu en í guðshúsi dugar hún skammt gagnvart almættinu og því voru þau ofan tekin.
En konurnar voru undir hæl feðraveldisins sem stýrði þeim með veraldlegum valdboðum og kirkjan með guðlegum. Rökstuðning fyrir því að þær skyldu bera höfuðföt var að finna í helgri bók og sömuleiðis höfuðfataleysi karlsins. Þó að allar kristnar kirkjur láti ekki forna trúartexta segja sér fyrir í þessu efni þá síaðist þessi texti inn í fólk að einhverju marki. En hvaða texti er þetta svo? Hann er að finna 1. Korintubréfi Páls postula, 11. kafla 4-7.
Sérhver sá karlmaður, sem biðst fyrir eða flytur spádóma Guðs og hefur á höfðinu, hann óvirðir höfuð sitt. En sérhver kona, sem biðst fyrir eða flytur spádóma Guðs berhöfðuð, óvirðir höfuð sitt. Það er hið sama sem hún hefði látið krúnuraka sig. Ef konan því vill ekki hylja höfuð sitt, þá láti hún klippa sig. En ef það er óvirðing fyrir konuna að láta klippa eða raka hár sitt, þá hafi hún á höfðinu. Karlmaður á ekki að hylja höfuð sitt því að hann er ímynd Guðs og endurspeglar dýrð hans en konan endurspeglar dýrð mannsins.
Sem sé. Gamli Páll að rexa og gefa línuna. Karlinn ímynd Guðs – konan endurspeglar dýrð mannsins. Það var og. Svona texti er líka gott dæmi um stjórnsemi og valdboð þeirra sem eru í forsvari fyrir trúarhreyfingar og ber að gjalda varhug við. Á dögum kynræns sjálfræðis er þessi texti líka orðinn máttlaus. Hvað um það.
Enginn gerir lengur athugasemd við það, með vísun til helgrar bókar, ef kona kemur án höfuðfats í kirkju. Hún ræður því sjálf – hvað annað! Alla jafna eru sennilega nú á dögum flestar konur án höfuðfats í kirkjum.
En hvað með karlana? Hvort heldur hárprúðir eða þunnhærðir? Eða með gljáandi skalla? Gerir einhver athugasemd þegar þeir ganga vasklega inn kirkjugólf með barðastóra hatta, fínlegar húfur, ullarhúfur, derhúfur og sixpensara? (Hér sleppa auðvitað hárkollur!)
Kirkjublaðið.is hefur það sterklega á tilfinningunni að hin síðari ár hafi notkun hatta og húfa meðal karlmanna farið vaxandi í kirkjum við ýmsa athafnir. Í sumum tilvikum hafa listamenn gefið tóninn þegar höfuðfatið er nánast hluti af útliti listamannsins sem vörumerki hans. KK er alltaf með húfu – Bjöggi býsna oft með hatt – og eflaust mætti telja fleiri.
„Gleymdu ekki Mugsion“, myndi einhver segja. Sannarlega er hann ekki gleymdur. Sá ágæti tónlistarmaður er nýbúinn að ljúka 100 kirkna tónleikamaraþoni í 100 póstnúmerum. Honum var vel fagnað og hann fyllti kirkjurnar leikandi létt og geri kennilýðurinn betur! Og alltaf var hann með hatt. Sat fyrir framan altarið með gítarinn og líka þennan flotta kúrekahatt á höfði. Söng og spilaði af hjartans lyst. Einhver kann að gefa þá skýringu að þá stundina hafi kirkjan verið meiri tónlistarsalur en kirkja – og því þyrfti ekki að amast við hattinum – en veraldlegur tónlistarviðburður hnikar ekki vígslu hússins.
Í gær var Kirkjublaðið.is viðstatt útför og taldi fimm karla með höfuðföt í kirkjunni. Flestir voru með fallega sixpensara og sumir þeirra kannski frá Stetson eða Kormáki og Skildi. Eða The Harris Tweed Authority. Fóru þeim einkar vel. Einn var með hatt. Þá var einn líkmannanna, karlmaður, með húfu á höfði þegar kista var borin úr kirkju – fannst Kirkjublaðinu.is það vera nýlunda enda ekki séð slíkt áður. Minntist þess að hafa séð gamlar myndir úr Reykjavík þar sem karlmenn tóku höfuðföt sín ofan þegar líkfylgd varð á vegi þeirra.
Áður en leiksýningar hefjast eða tónleikar eru gestir beðnir vinsamlegast um að slökkva á farsímum sínum vegna þess að skjábirta frá þeim og hljóð geta truflað gesti. Þetta þykir ekkert tiltökumál. Flestir taka þessa ábendingu sennilega til greina. Hvað ætli yrði sagt ef prestur beindi þeim tilmælum til karlmanna í kirkjum með hatta og húfur í athöfnum: „Vinsamlegast takið ofan hatta og húfur vegna þess að …“?
Nú er alls óvíst hvort nokkur í hópi kennilýðs hafi gert athugasemdir við þessi brot á venju í kirkjunum. Brot? Það er kannski fullsterkt að orði kveðið. Frekar ætti að segja frávik. Eða að ganga á svig við venju eins og þegar gengið er á svig við lögin. Reyndar var það kallað hér áður fyrri lagabrot – margt breytist.
Það er hins vegar athyglisvert að sjá samfélagsvenju sem þessa er tengist höfuðfötum breytast. Eða kannski ætti að kalla þetta fremur kirkjuvenju. Sjaldnar sjást karlar með barðastóra hatta og húfur í leikhúsum.
Sennilega er harla ólíklegt að forystufólk í kirkjunni fari að gera athugasemdir við karlmenn sem sitja á kirkjubekkjum með húfur eða hatta á höfði.
Þessu ræður hver og einn sjálfur – það er að segja: að virða venjuna eða ekki.
Fari þetta í taugarnar á einhverjum þá væri kannski hagkvæmt ráð að kynda hressilega upp í kirkjuhúsinu í guðsþjónustunni svo menn neyðist til að taka ofan þykka hatta, ullarhúfur og sixpensara.
Svo mætti náttúrlega spyrja karlana si sona: „Af hverju eru þið með hatta og húfur hér inni? Búnir að gleyma því sem Páll postuli sagði: Karlmaður á ekki að hylja höfuð sitt því að hann er ímynd Guðs…?“
Segi nú bara svona.