Útialtarið á Esjubergi á Kjalarnesi er dæmi um hvernig samtakamáttur fólks um menningu, sögu og trú, getur komið góðu verkefni í höfn. Þó langan tíma taki þá er það ekki aðalatriðið heldur hitt að hugmynd lifir áfram hjá fólkinu og bíður síns tíma.

Orð eru nú til alls fyrst, svo er sagt. Það á við um Esjuberg.

Það var árið 1983 sem héraðsfundur Kjalarnessprófastsdæmis samþykkti að unnið yrði í samráði við sóknarnefndir Brautarholts- og Saurbæjarsókna, að koma upp minnismerki í tilefni þess að sagnir herma að þar hafi verið reist fyrsta kirkjan á Íslandi og þá þegar fyrir kristnitöku árið 1000. Fundað var síðar með heimafólki og niðurstaðan varð sú að kanna möguleika á því að koma upp að Esjubergi minnismerki úr steini um hina fyrstu kirkju. Á þessum fundi var og varpað fram þeirri tillögu að síðar yrði kannski reist kirkja á staðnum. „Munu menn íhuga þetta nánar,“ voru lokaorðin í fundargerð þessa fundar.

Liðu nú þrjátíu ár sem er ekki langur tími í kirkjusögunni en var annars ágætur íhugunartími.

Árið 2014 var flutt tillaga á kirkjuþingi þjóðkirkjunnar af tveimur Kjalnesingum um að reist yrði útialtari að Esjubergi. Tillögunni var vel tekið en henni vísað heim í hérað.

Nokkru eftir kirkjuþing hafði formaður Sögufélagsins Steina, Hrefna Sigríður Bjartmarsdóttir, þjóðfræðingur, samband við flutningsmenn tillögunnar og spurðist fyrir um málið. Fékk hún tillöguna í hendur og greinargerð hennar.

Þetta varð til þess að hjólin tóku að snúast. Hin gamla góða hugmynd frá 1983 um einhvers konar minnismerki á Esjubergi um kirkjuna fornu sem vakin hafði verið upp á kirkjuþinginu var komin í góðar hendur. Sögufélagið Steini tók verkefnið að sér og hefur haft forystu um það með miklum glæsibrag í góðri samvinnu við jarðareiganda.

Það hefur verið einstakt að fylgjast með uppbyggingu útialtarins og þeim mikla áhuga og einlægu framkvæmdagleði sem hefur einkennt verkið frá fyrsta degi. Eins og allar framkvæmdir þá reynast þær umfangsmeiri en ætlað er í upphafi. En sögufélagsfólk lét engan bilbug á sér finna. Vann verkið jafnt og þétt og mörg voru þau er lögðu því lið fjárhagslega, þjóðkirkjan, almenningur í gegnum Karolina Fund, einstök félög og samtök sem veittu verkinu góða styrki. Ótaldar eru þær vinnustundir í sjálfboðamennsku sem fjöldi fólks hefur lagt af mörkum til þess að útialtarið yrði sem fegurst.

Nú er vígsludagur runninn upp. Það er stór stund. Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, mun vígja altarið við hátíðlega athöfn á morgun, sunnudaginn 20. júní, kl. 14.00. Þegar vígslu er lokið verður boðið upp á hressingu á staðnum.

Útialtarið á Esjubergi, er kristið minnismerki um að þar hafi verið eftir því sem sagnir herma reist fyrsta kirkja á Íslandi, um 900, eða hundrað árum áður en kristnitaka fór fram á Alþingi árið 1000. Þessi forna kirkja sem getið er um í Landnámu (Sturlubók) hefur ekki fundist og skýringin líkast til sú að skriðuföll hafa verið mikil á umliðnum öldum úr Esju og menjar um hana hafa því horfið. En sagan um kirkjuna sem var eða var ekki hefur lifað með kynslóðunum og það er í raun og veru saga út af fyrir sig.

Sá sem sagan segir að reist hafi kirkju á Esjubergi, þá fyrstu á Íslandi, var Örlygur nokkur Hrappsson. Hann var af írskum ættum og fékk þau fyrirmæli frá Patreki biskupi á Suðureyjum að kirkjan skyldi helguð hinum írska dýrlingi Kolumba (eða Kólumkilla). Keltar eða Írar voru kristnir og miklir hagleikssmiðir, steinkrossar þeirra voru kunnir en höfuðeinkenni þeirra er hringur milli krossarmanna. Kristni Kelta var mjög náttúrtengd og þess vegna er altarið á Esjubergi tilvalið til að minnast þessara róta og tengist meðal annars áhuga nútímamanna á náttúrunni.

Megineinkenni útialtarisins er veglegur keltneskur tveggja metra kross sem rís upp úr níu tonna altarissteininum, prýddur ýmsum trúarlegum táknum úr keltneskri kristni. Umhverfis krossinn er hlaðinn hringur með dyrum sem vísa í höfuðáttir, og altarið snýr að sjálfsögðu í austur, mót sólu og upprisu. Steinum úr fjörunni á Kjalarnesi, Iona og Lindisfarne á Skotlandi, var þrýst ofan í fram- og afturhlið krossins.

Íslensk náttúra vefur grænum örmum sínum um útialtarið á Esjubergi. Þau sem sitja á hlöðnum sætum inni í altarishringnum sjá Esjuna á aðra hönd og borgina á hina. Fjallið Reykvíkinga, Esja, er skjólið góða fyrir mann og náttúru, og gleður augað með fegurð sinni, bláma, mýkt og festu, náttúrperla sem menn hafa lengi dáðst að.

Útialtarið á Esjubergi verður notað í margvíslegum tilgangi sem samræmist kristinni trú. Menn geta setið þar úti og íhugað lífið og tilveruna – eða gert bæn sína áður en lagt er á fjallið eða komið ofan. Þar hafa nú þegar verið haldnar útiguðsþjónustur. Auðvelt er að skíra þar og gefa fólk saman.

Esjubergsaltarið er þar sem gengið er upp á Kerhólakamb Esju. Það er vel merkt við Vesturlandsveginn með nafni og slaufuskilti sem bendir á merkilegan sögustað.

Útialtarið á Esjubergi mun eflaust hafa mikið aðdráttarafl í framtíðinni enda einstakt minnismerki um menningu, sögu og trú, sem fólkið í landinu hefur lyft upp.

 

Útialtarið er í landi Esjubergs á Kjalarnesi og er innan borgarmarka Reykjavíkur

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Útialtarið á Esjubergi á Kjalarnesi er dæmi um hvernig samtakamáttur fólks um menningu, sögu og trú, getur komið góðu verkefni í höfn. Þó langan tíma taki þá er það ekki aðalatriðið heldur hitt að hugmynd lifir áfram hjá fólkinu og bíður síns tíma.

Orð eru nú til alls fyrst, svo er sagt. Það á við um Esjuberg.

Það var árið 1983 sem héraðsfundur Kjalarnessprófastsdæmis samþykkti að unnið yrði í samráði við sóknarnefndir Brautarholts- og Saurbæjarsókna, að koma upp minnismerki í tilefni þess að sagnir herma að þar hafi verið reist fyrsta kirkjan á Íslandi og þá þegar fyrir kristnitöku árið 1000. Fundað var síðar með heimafólki og niðurstaðan varð sú að kanna möguleika á því að koma upp að Esjubergi minnismerki úr steini um hina fyrstu kirkju. Á þessum fundi var og varpað fram þeirri tillögu að síðar yrði kannski reist kirkja á staðnum. „Munu menn íhuga þetta nánar,“ voru lokaorðin í fundargerð þessa fundar.

Liðu nú þrjátíu ár sem er ekki langur tími í kirkjusögunni en var annars ágætur íhugunartími.

Árið 2014 var flutt tillaga á kirkjuþingi þjóðkirkjunnar af tveimur Kjalnesingum um að reist yrði útialtari að Esjubergi. Tillögunni var vel tekið en henni vísað heim í hérað.

Nokkru eftir kirkjuþing hafði formaður Sögufélagsins Steina, Hrefna Sigríður Bjartmarsdóttir, þjóðfræðingur, samband við flutningsmenn tillögunnar og spurðist fyrir um málið. Fékk hún tillöguna í hendur og greinargerð hennar.

Þetta varð til þess að hjólin tóku að snúast. Hin gamla góða hugmynd frá 1983 um einhvers konar minnismerki á Esjubergi um kirkjuna fornu sem vakin hafði verið upp á kirkjuþinginu var komin í góðar hendur. Sögufélagið Steini tók verkefnið að sér og hefur haft forystu um það með miklum glæsibrag í góðri samvinnu við jarðareiganda.

Það hefur verið einstakt að fylgjast með uppbyggingu útialtarins og þeim mikla áhuga og einlægu framkvæmdagleði sem hefur einkennt verkið frá fyrsta degi. Eins og allar framkvæmdir þá reynast þær umfangsmeiri en ætlað er í upphafi. En sögufélagsfólk lét engan bilbug á sér finna. Vann verkið jafnt og þétt og mörg voru þau er lögðu því lið fjárhagslega, þjóðkirkjan, almenningur í gegnum Karolina Fund, einstök félög og samtök sem veittu verkinu góða styrki. Ótaldar eru þær vinnustundir í sjálfboðamennsku sem fjöldi fólks hefur lagt af mörkum til þess að útialtarið yrði sem fegurst.

Nú er vígsludagur runninn upp. Það er stór stund. Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, mun vígja altarið við hátíðlega athöfn á morgun, sunnudaginn 20. júní, kl. 14.00. Þegar vígslu er lokið verður boðið upp á hressingu á staðnum.

Útialtarið á Esjubergi, er kristið minnismerki um að þar hafi verið eftir því sem sagnir herma reist fyrsta kirkja á Íslandi, um 900, eða hundrað árum áður en kristnitaka fór fram á Alþingi árið 1000. Þessi forna kirkja sem getið er um í Landnámu (Sturlubók) hefur ekki fundist og skýringin líkast til sú að skriðuföll hafa verið mikil á umliðnum öldum úr Esju og menjar um hana hafa því horfið. En sagan um kirkjuna sem var eða var ekki hefur lifað með kynslóðunum og það er í raun og veru saga út af fyrir sig.

Sá sem sagan segir að reist hafi kirkju á Esjubergi, þá fyrstu á Íslandi, var Örlygur nokkur Hrappsson. Hann var af írskum ættum og fékk þau fyrirmæli frá Patreki biskupi á Suðureyjum að kirkjan skyldi helguð hinum írska dýrlingi Kolumba (eða Kólumkilla). Keltar eða Írar voru kristnir og miklir hagleikssmiðir, steinkrossar þeirra voru kunnir en höfuðeinkenni þeirra er hringur milli krossarmanna. Kristni Kelta var mjög náttúrtengd og þess vegna er altarið á Esjubergi tilvalið til að minnast þessara róta og tengist meðal annars áhuga nútímamanna á náttúrunni.

Megineinkenni útialtarisins er veglegur keltneskur tveggja metra kross sem rís upp úr níu tonna altarissteininum, prýddur ýmsum trúarlegum táknum úr keltneskri kristni. Umhverfis krossinn er hlaðinn hringur með dyrum sem vísa í höfuðáttir, og altarið snýr að sjálfsögðu í austur, mót sólu og upprisu. Steinum úr fjörunni á Kjalarnesi, Iona og Lindisfarne á Skotlandi, var þrýst ofan í fram- og afturhlið krossins.

Íslensk náttúra vefur grænum örmum sínum um útialtarið á Esjubergi. Þau sem sitja á hlöðnum sætum inni í altarishringnum sjá Esjuna á aðra hönd og borgina á hina. Fjallið Reykvíkinga, Esja, er skjólið góða fyrir mann og náttúru, og gleður augað með fegurð sinni, bláma, mýkt og festu, náttúrperla sem menn hafa lengi dáðst að.

Útialtarið á Esjubergi verður notað í margvíslegum tilgangi sem samræmist kristinni trú. Menn geta setið þar úti og íhugað lífið og tilveruna – eða gert bæn sína áður en lagt er á fjallið eða komið ofan. Þar hafa nú þegar verið haldnar útiguðsþjónustur. Auðvelt er að skíra þar og gefa fólk saman.

Esjubergsaltarið er þar sem gengið er upp á Kerhólakamb Esju. Það er vel merkt við Vesturlandsveginn með nafni og slaufuskilti sem bendir á merkilegan sögustað.

Útialtarið á Esjubergi mun eflaust hafa mikið aðdráttarafl í framtíðinni enda einstakt minnismerki um menningu, sögu og trú, sem fólkið í landinu hefur lyft upp.

 

Útialtarið er í landi Esjubergs á Kjalarnesi og er innan borgarmarka Reykjavíkur

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?