Dr. Haraldur Hreinsson (f. 1985), lektor við Háskóla Íslands, greinir íslensk kirkjumál á líðandi stund  

Þjóðernishyggja, lýðræði og guðfræði vígslubiskupsembættisins

Í síðustu viku dró til eilítilla tíðinda í hinu kirkjupólitíska lífi á Íslandi. Fram eru komnir þrír frambjóðendur til vígslubiskups í Skálholti, en í því biskupssæti hefur Kristján Björnsson setið síðustu fimm ár. Samkvæmt gildandi reglum þurfa vígslubiskupar (og biskupar reyndar líka) að endurnýja umboð sitt. Áður var þetta ekki svo. Vígslubiskupar, alveg eins og biskupar yfir landinu öllu, sátu eins lengi og þeir kusu, yfirleitt þar til þeir hættu störfum fyrir aldurs sakir. Fyrir nokkrum vikum var tilkynnt á heimasíðu þjóðkirkjunnar að endurkjörsferli vígslubiskupsins í Skálholti væri fyrir höndum og kallað var eftir tilnefningum. Samkvæmt gildandi starfsreglum tilnefna vígðir þjónar kirkjunnar þrjá kandídata sem síðan stærri hópur kirkjufólks, vígðs og óvígðs, kýs á milli. Eins og við mátti búast fékk sitjandi vígslubiskup nægilega margar tilnefningar til að fara áfram í biskupskosningu. Það sem telst til tíðinda hins vegar er að tveir aðrir prestar, þ.m.t. sitjandi sóknarprestur í Skálholtsprestakalli, fengu bæði 19 tilnefningar, þ.e. einni tilnefningu meira en biskupinn sjálfur sem fékk 18 tilnefningar.

Án þess að gera of mikið úr þessum tölum má þó leika sér aðeins með túlkunarmöguleika eða þau „skilaboð“ sem í þeim eru fólgin. Tvennt skal hér nefnt. Annað er hið augljósa að hér er enn eitt dæmið um hnignandi boðvald (e. authority) biskupsembættisins. Biskupar, hvaða nöfnum sem þeir nefnast, geta ekki gengið að því vísu að fólk sýni þeim sérstaka virðingu umfram aðra. Upphefð biskupa byggist nú fyrst og fremst á frammistöðu þeirra sem forystufólks innan trúfélagsins sem þeir tilheyra, þ.e. íslensku þjóðkirkjunnar. Auðvitað fylgir völdum og ábyrgð á borð við þá sem hvílir á herðum biskups alltaf einhver upphefð en ekki í viðlíka mæli og áður þegar biskupsembættinu fylgdi allnokkuð trúarlegt boðvald. Í þessari tilnefningu virðist sitjandi vígslubiskup ekki geta gengið að því vísu að hann fái sjálfkrafa mikinn stuðning í krafti embættisins. Tilnefningarnar dreifast mjög víða, sennilega tilnefna margir prestar sjálfa sig sem er út af fyrir sig forvitnilegt í þessu samhengi.

Hitt sem má nefna er hið óvænta að tveir prestar fá jafnmargar tilnefningar, nítján hvor um sig. Einni fleiri en sitjandi vígslubiskup. Það er sóknarpresturinn í Skálholti, Dagur Fannar Magnússon, ungur maður sem er til þess að gera nýkominn á staðinn. Síður óvænt er tilnefning Örnu Grétarsdóttur, sóknarprestsins í Reynivallaprestakalli, en hún hefur verið í forystusveit kirkjunnar um nokkra hríð, setið í kirkjuráði og sem varamaður í framkvæmdanefnd kirkjunnar og verið áberandi í ræðustól kirkjuþings. Hennar tilnefningu má lesa sem viðurkenningu fyrir vel unnin störf auk þess sem mörgum þykir æskilegt að konur taki nú í auknum mæli við ábyrgðarstöðum í kirkjunni frekar en karlar.

Hvað varðar tilnefningu sóknarprestsins í Skálholti þá eru skilaboðin sem í henni eru fólgin ekki jafn augljós. Hann sjálfur kýs að lesa hana sem skilaboð um aukna breidd í forystu þjóðkirkjunnar sem er auðvitað einn túlkunarmöguleiki. Annar er sá, og öllu meira spennandi (með fullri virðingu fyrir tilkalli til áhrifa á forsendum æskuljóma), að hér séu fólgin skilaboð um fyrirkomulag vígslubiskupsembættisins. Það getur nefnilega verið að einhverjir hafi fylkt sér á bak við sóknarprestinn í Skálholti til þess að koma þeim skilaboðum á framfæri að sá einstaklingur sem því embætti gegnir geti líka verið vígslubiskup á sama tíma.

Þannig var það hér áður fyrr, þ.e. að vígslubiskupar á Hólum og í Skálholti voru einnig sóknarprestar í sínum prestaköllum. Fæstir vígslubiskupanna hafa því setið á hinum fornu biskupsstólum. Það var ekki fyrr en á tíunda áratug síðustu aldar að vígslubiskupsembætti varð að fullu starfi. Það var einnig á svipuðum tíma að vígslubiskupar fóru að „sitja staðinn“ eins og sagt er og fluttust búferlum á gömlu biskupsstólana. Þetta gerðist reyndar fyrr á Hólum þegar Sigurður Guðmundsson, sitjandi vígslubiskup en sóknarprestur á Grenjaðarstað, sótti um embætti sóknarprests á Hólum árið 1986, fékk og flutti á staðinn í kjölfarið.  Fyrsti vígslubiskupinn til að sitja í Skálholti var Jónas Gíslason sem fluttist þangað 1992.

Saga vígslubiskupsembættisins í núverandi mynd er þannig alls ekki löng og saga vígslubiskupsembættisins í öllum sínum myndum ekki heldur sérstaklega löng, a.m.k. ekki í kirkjusögulegu ljósi. Tíðindin af tilnefningunni í síðustu viku eru ekki verri ástæða en hver önnur til þess að velta henni aðeins fyrir sér og þ.m.t. því gildi sem embættið hefur. Sagan hefst formlega árið 1909 þegar embættið var sett á með lögum. Biskupinn yfir Íslandi hafði nokkru áður komið þeirri beiðni á framfæri við pólitíska forystu landsins að heppilegt væri að á Íslandi væri „varabiskup“, bæði til þess að sinna skyldum biskups í veikindum hans eða öðrum forföllum en líka til þess að ekki þyrfti að sækja vígslu fyrir nýjan biskup út fyrir landsteinana ef fyrri biskup gæti ekki séð um vígsluna, t.d. ef hann hefði dáið í embætti. Nú á dögum virðist þetta ekki sérstaklega góð ástæða en við upphaf 20. aldar þótti þetta þungavigtarástæða og ekki margir ef einhverjir sem voru á móti henni í þinginu þegar umræður um stofnun embættisins fóru fram. Á tímum logandi þjóðernishyggju og sjálfstæðisbaráttu þótti fólki illt til þess að hugsa að kalla þyrfti til danskan biskup til að vígja nýjan, íslenskan biskup. Þingmönnum þótti þessi ástæða vega svo þungt að þeir ásættust um að breyta titlinum „varabiskup“ í „vígslubiskup“ vegna þessarar þýðingar hins nýja embættis. Þeir ákváðu líka að ekki væri nóg að hafa einn vígslubiskup heldur skyldu þeir vera tveir, t.d. ef bæði biskup Íslands og annar tveggja vígslubiskupa væru ekki til taks þegar vígja skyldi nýjan biskup. Um þetta stóð reyndar meiri ágreiningur, þ.e. hvort vígslubiskuparnir ættu að vera einn eða tveir.

Vígslubiskupsembættið er þannig skilgetið afkvæmi þjóðernishyggjunnar sem var ráðandi afl í íslensku samfélagi og menningu á síðustu öld. Hún lifir enn ágætu lífi á landinu í mildri útgáfu ólíkt mörgum öðrum löndum Evrópu þar sem henni var úthýst í kjölfar síðari heimsstyrjaldar og þeirra hörmunga sem hún olli út um alla álfu. Embættið er afsprengi þeirrar hugmyndar að til sé íslensk kristni sem standa þurfi vörð um með þjóðlegri vígsluröð, að kristin trúarbrögð og íslenskt þjóðerni standi hvort öðru nærri, svo nærri að biskupsvígsla framkvæmd af íslenskum biskupi sé einhvern veginn öðruvísi en vígsla sem er framkvæmd af dönskum biskupi. Nú hefur samt margt breyst. Hin þjóðlegu rök vega ekki jafn þungt og áður. Ef svo ólíklega vill til að fráfarandi biskup er ekki til staðar til þess að vígja nýjan biskup þætti það sennilega ekki tiltökumál að kalla til biskupa úr mótmælendakirkjum erlendis til þess að annast biskupsvígslu á Íslandi. Yfirleitt eru líka biskupar annarra kirkna viðstaddir biskupsvígslu hvort eð er sem er í samræmi við samkirkjulegar áherslur sem hafa verið áberandi síðustu áratugi.

Það er áhugavert að á sama tíma og hið þjóðernislega inntak vígslubiskupsembættisins hefur fallið í skuggann, hefur umfang þess innan kirkjuskipanarinnar vaxið. Þeir kallast þó enn vígslubiskupar og reglulega heyrist vísað til þeirra þjóðerniskristilegu röksemda að viðvera biskups sé mikilvæg á hinum fornu biskupsstólum Skálholti og Hólum. Sú staðreynd að embættið hefur þanist út á síðustu fjórum áratugum er líka áhugaverð í því ljósi að einmitt á þessu sama tímabili hafa raddir um lýðræðisvæðingu innan kirkjunnar orðið sífellt háværari. Fyrir fram hefði e.t.v. mátt búast við því að viðbrögð við ákalli eftir lýðræði innan þjóðkirkjunnar hefðu verið að minnka vægi kirkjulegra embætta á borð við vígslubiskupsembættið (eins og lagt hefur verið til, t.d. á kirkjuþingi 2021-2022) eða jafnvel leggja þau alveg niður (eins og stundum heyrist líka). Í gegnum tíðina hefur biskupsembættið nefnilega ekki verið neitt sérstaklega lýðræðislegt fyrirbrigði og að því leyti haldist í hendur við tiltekna guðfræðilega hugsun sem hefur legið embættinu til grundvallar (sem hefur breyst og þróast með tímanum).

Í staðinn fyrir að lýðræðisvæða kirkjuskipan þjóðkirkjunnar með því að minnka vægi slíkra embætta hefur í staðinn verið farin sú leið að lýðræðisvæða biskupsembættið. Vígslubiskupar þurfa nú að endurnýja umboð sitt í þrepaskiptu ferli á sex ára fresti eins og sást af fréttum af tilnefningunni í síðustu viku. Þetta er áhugaverð tilraun sem hér hefur verið sett af stað en því miður þá hefur henni ekki verið fylgt úr hlaði með mikilli hugmyndafræðilegri eða guðfræðilegri umræðu. Hvaða skilningur á biskupsembættinu – í þessu tilviki vígslubiskupsembættinu – liggur til grundvallar þeim breytingum sem hér er verið að ráðast í? Hvað er það við þau forréttindi, þá ábyrgð og þær skyldur sem vígslubiskupum hlotnast samkvæmt nýjum starfsreglum um vígslubiskupa að það þurfi sérstaka biskupsvígslu til þess að sinna þeim? Meðal annarra orða: Hver er guðfræði vígslubiskupsembættis íslensku þjóðkirkjunnar?

Eitt af hlutverkum sagnfræðinnar er að setja atburði samtímans í samhengi og sýna fram á að það er ekkert sjálfsagt við það hvernig hlutirnir eru. Hún leitast við að sýna fram á að atburðir og fyrirbrigði eru almennt og yfirleitt komin fram í tilteknum sögulegum kringumstæðum en ekki dottin niður af himninum.

Vígslubiskupsembættið er eitt af þessum skrítnu fyrirbærum sem virðast stundum dottin niður af himni en það er þegar öllu er á botninn hvolft barn síns tíma. Það er til orðið í tilteknum sögulegum kringumstæðum og ef horft er til þeirra þjóðernislegu ástæðna sem lágu stofnun þess til grundvallar, þá virðast forsendur fyrir tilvist þess brostnar.

Nú hefur embættinu verið breytt í almennt tilsjónarhlutverk næstráðenda í hinu klerklega stigveldi íslensku þjóðkirkjunnar og fyrir því kunna að vera góðar og gildar ástæður. Á það skortir þó að þær séu gerðar lýðum ljósar. Það stendur upp á talsfólk kirkjunnar og sérstaklega frambjóðendur í þeim vígslubiskupskosningum sem fram undan eru að gera það með sannfærandi hætti.

(Grein uppfærð 10. maí. Í upprunalegu útgáfu stóð að vígslubiskupar þyrftu endurnýjað umboð á fimm ára fresti en hið rétt er á sex ára fresti.)

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Dr. Haraldur Hreinsson (f. 1985), lektor við Háskóla Íslands, greinir íslensk kirkjumál á líðandi stund  

Þjóðernishyggja, lýðræði og guðfræði vígslubiskupsembættisins

Í síðustu viku dró til eilítilla tíðinda í hinu kirkjupólitíska lífi á Íslandi. Fram eru komnir þrír frambjóðendur til vígslubiskups í Skálholti, en í því biskupssæti hefur Kristján Björnsson setið síðustu fimm ár. Samkvæmt gildandi reglum þurfa vígslubiskupar (og biskupar reyndar líka) að endurnýja umboð sitt. Áður var þetta ekki svo. Vígslubiskupar, alveg eins og biskupar yfir landinu öllu, sátu eins lengi og þeir kusu, yfirleitt þar til þeir hættu störfum fyrir aldurs sakir. Fyrir nokkrum vikum var tilkynnt á heimasíðu þjóðkirkjunnar að endurkjörsferli vígslubiskupsins í Skálholti væri fyrir höndum og kallað var eftir tilnefningum. Samkvæmt gildandi starfsreglum tilnefna vígðir þjónar kirkjunnar þrjá kandídata sem síðan stærri hópur kirkjufólks, vígðs og óvígðs, kýs á milli. Eins og við mátti búast fékk sitjandi vígslubiskup nægilega margar tilnefningar til að fara áfram í biskupskosningu. Það sem telst til tíðinda hins vegar er að tveir aðrir prestar, þ.m.t. sitjandi sóknarprestur í Skálholtsprestakalli, fengu bæði 19 tilnefningar, þ.e. einni tilnefningu meira en biskupinn sjálfur sem fékk 18 tilnefningar.

Án þess að gera of mikið úr þessum tölum má þó leika sér aðeins með túlkunarmöguleika eða þau „skilaboð“ sem í þeim eru fólgin. Tvennt skal hér nefnt. Annað er hið augljósa að hér er enn eitt dæmið um hnignandi boðvald (e. authority) biskupsembættisins. Biskupar, hvaða nöfnum sem þeir nefnast, geta ekki gengið að því vísu að fólk sýni þeim sérstaka virðingu umfram aðra. Upphefð biskupa byggist nú fyrst og fremst á frammistöðu þeirra sem forystufólks innan trúfélagsins sem þeir tilheyra, þ.e. íslensku þjóðkirkjunnar. Auðvitað fylgir völdum og ábyrgð á borð við þá sem hvílir á herðum biskups alltaf einhver upphefð en ekki í viðlíka mæli og áður þegar biskupsembættinu fylgdi allnokkuð trúarlegt boðvald. Í þessari tilnefningu virðist sitjandi vígslubiskup ekki geta gengið að því vísu að hann fái sjálfkrafa mikinn stuðning í krafti embættisins. Tilnefningarnar dreifast mjög víða, sennilega tilnefna margir prestar sjálfa sig sem er út af fyrir sig forvitnilegt í þessu samhengi.

Hitt sem má nefna er hið óvænta að tveir prestar fá jafnmargar tilnefningar, nítján hvor um sig. Einni fleiri en sitjandi vígslubiskup. Það er sóknarpresturinn í Skálholti, Dagur Fannar Magnússon, ungur maður sem er til þess að gera nýkominn á staðinn. Síður óvænt er tilnefning Örnu Grétarsdóttur, sóknarprestsins í Reynivallaprestakalli, en hún hefur verið í forystusveit kirkjunnar um nokkra hríð, setið í kirkjuráði og sem varamaður í framkvæmdanefnd kirkjunnar og verið áberandi í ræðustól kirkjuþings. Hennar tilnefningu má lesa sem viðurkenningu fyrir vel unnin störf auk þess sem mörgum þykir æskilegt að konur taki nú í auknum mæli við ábyrgðarstöðum í kirkjunni frekar en karlar.

Hvað varðar tilnefningu sóknarprestsins í Skálholti þá eru skilaboðin sem í henni eru fólgin ekki jafn augljós. Hann sjálfur kýs að lesa hana sem skilaboð um aukna breidd í forystu þjóðkirkjunnar sem er auðvitað einn túlkunarmöguleiki. Annar er sá, og öllu meira spennandi (með fullri virðingu fyrir tilkalli til áhrifa á forsendum æskuljóma), að hér séu fólgin skilaboð um fyrirkomulag vígslubiskupsembættisins. Það getur nefnilega verið að einhverjir hafi fylkt sér á bak við sóknarprestinn í Skálholti til þess að koma þeim skilaboðum á framfæri að sá einstaklingur sem því embætti gegnir geti líka verið vígslubiskup á sama tíma.

Þannig var það hér áður fyrr, þ.e. að vígslubiskupar á Hólum og í Skálholti voru einnig sóknarprestar í sínum prestaköllum. Fæstir vígslubiskupanna hafa því setið á hinum fornu biskupsstólum. Það var ekki fyrr en á tíunda áratug síðustu aldar að vígslubiskupsembætti varð að fullu starfi. Það var einnig á svipuðum tíma að vígslubiskupar fóru að „sitja staðinn“ eins og sagt er og fluttust búferlum á gömlu biskupsstólana. Þetta gerðist reyndar fyrr á Hólum þegar Sigurður Guðmundsson, sitjandi vígslubiskup en sóknarprestur á Grenjaðarstað, sótti um embætti sóknarprests á Hólum árið 1986, fékk og flutti á staðinn í kjölfarið.  Fyrsti vígslubiskupinn til að sitja í Skálholti var Jónas Gíslason sem fluttist þangað 1992.

Saga vígslubiskupsembættisins í núverandi mynd er þannig alls ekki löng og saga vígslubiskupsembættisins í öllum sínum myndum ekki heldur sérstaklega löng, a.m.k. ekki í kirkjusögulegu ljósi. Tíðindin af tilnefningunni í síðustu viku eru ekki verri ástæða en hver önnur til þess að velta henni aðeins fyrir sér og þ.m.t. því gildi sem embættið hefur. Sagan hefst formlega árið 1909 þegar embættið var sett á með lögum. Biskupinn yfir Íslandi hafði nokkru áður komið þeirri beiðni á framfæri við pólitíska forystu landsins að heppilegt væri að á Íslandi væri „varabiskup“, bæði til þess að sinna skyldum biskups í veikindum hans eða öðrum forföllum en líka til þess að ekki þyrfti að sækja vígslu fyrir nýjan biskup út fyrir landsteinana ef fyrri biskup gæti ekki séð um vígsluna, t.d. ef hann hefði dáið í embætti. Nú á dögum virðist þetta ekki sérstaklega góð ástæða en við upphaf 20. aldar þótti þetta þungavigtarástæða og ekki margir ef einhverjir sem voru á móti henni í þinginu þegar umræður um stofnun embættisins fóru fram. Á tímum logandi þjóðernishyggju og sjálfstæðisbaráttu þótti fólki illt til þess að hugsa að kalla þyrfti til danskan biskup til að vígja nýjan, íslenskan biskup. Þingmönnum þótti þessi ástæða vega svo þungt að þeir ásættust um að breyta titlinum „varabiskup“ í „vígslubiskup“ vegna þessarar þýðingar hins nýja embættis. Þeir ákváðu líka að ekki væri nóg að hafa einn vígslubiskup heldur skyldu þeir vera tveir, t.d. ef bæði biskup Íslands og annar tveggja vígslubiskupa væru ekki til taks þegar vígja skyldi nýjan biskup. Um þetta stóð reyndar meiri ágreiningur, þ.e. hvort vígslubiskuparnir ættu að vera einn eða tveir.

Vígslubiskupsembættið er þannig skilgetið afkvæmi þjóðernishyggjunnar sem var ráðandi afl í íslensku samfélagi og menningu á síðustu öld. Hún lifir enn ágætu lífi á landinu í mildri útgáfu ólíkt mörgum öðrum löndum Evrópu þar sem henni var úthýst í kjölfar síðari heimsstyrjaldar og þeirra hörmunga sem hún olli út um alla álfu. Embættið er afsprengi þeirrar hugmyndar að til sé íslensk kristni sem standa þurfi vörð um með þjóðlegri vígsluröð, að kristin trúarbrögð og íslenskt þjóðerni standi hvort öðru nærri, svo nærri að biskupsvígsla framkvæmd af íslenskum biskupi sé einhvern veginn öðruvísi en vígsla sem er framkvæmd af dönskum biskupi. Nú hefur samt margt breyst. Hin þjóðlegu rök vega ekki jafn þungt og áður. Ef svo ólíklega vill til að fráfarandi biskup er ekki til staðar til þess að vígja nýjan biskup þætti það sennilega ekki tiltökumál að kalla til biskupa úr mótmælendakirkjum erlendis til þess að annast biskupsvígslu á Íslandi. Yfirleitt eru líka biskupar annarra kirkna viðstaddir biskupsvígslu hvort eð er sem er í samræmi við samkirkjulegar áherslur sem hafa verið áberandi síðustu áratugi.

Það er áhugavert að á sama tíma og hið þjóðernislega inntak vígslubiskupsembættisins hefur fallið í skuggann, hefur umfang þess innan kirkjuskipanarinnar vaxið. Þeir kallast þó enn vígslubiskupar og reglulega heyrist vísað til þeirra þjóðerniskristilegu röksemda að viðvera biskups sé mikilvæg á hinum fornu biskupsstólum Skálholti og Hólum. Sú staðreynd að embættið hefur þanist út á síðustu fjórum áratugum er líka áhugaverð í því ljósi að einmitt á þessu sama tímabili hafa raddir um lýðræðisvæðingu innan kirkjunnar orðið sífellt háværari. Fyrir fram hefði e.t.v. mátt búast við því að viðbrögð við ákalli eftir lýðræði innan þjóðkirkjunnar hefðu verið að minnka vægi kirkjulegra embætta á borð við vígslubiskupsembættið (eins og lagt hefur verið til, t.d. á kirkjuþingi 2021-2022) eða jafnvel leggja þau alveg niður (eins og stundum heyrist líka). Í gegnum tíðina hefur biskupsembættið nefnilega ekki verið neitt sérstaklega lýðræðislegt fyrirbrigði og að því leyti haldist í hendur við tiltekna guðfræðilega hugsun sem hefur legið embættinu til grundvallar (sem hefur breyst og þróast með tímanum).

Í staðinn fyrir að lýðræðisvæða kirkjuskipan þjóðkirkjunnar með því að minnka vægi slíkra embætta hefur í staðinn verið farin sú leið að lýðræðisvæða biskupsembættið. Vígslubiskupar þurfa nú að endurnýja umboð sitt í þrepaskiptu ferli á sex ára fresti eins og sást af fréttum af tilnefningunni í síðustu viku. Þetta er áhugaverð tilraun sem hér hefur verið sett af stað en því miður þá hefur henni ekki verið fylgt úr hlaði með mikilli hugmyndafræðilegri eða guðfræðilegri umræðu. Hvaða skilningur á biskupsembættinu – í þessu tilviki vígslubiskupsembættinu – liggur til grundvallar þeim breytingum sem hér er verið að ráðast í? Hvað er það við þau forréttindi, þá ábyrgð og þær skyldur sem vígslubiskupum hlotnast samkvæmt nýjum starfsreglum um vígslubiskupa að það þurfi sérstaka biskupsvígslu til þess að sinna þeim? Meðal annarra orða: Hver er guðfræði vígslubiskupsembættis íslensku þjóðkirkjunnar?

Eitt af hlutverkum sagnfræðinnar er að setja atburði samtímans í samhengi og sýna fram á að það er ekkert sjálfsagt við það hvernig hlutirnir eru. Hún leitast við að sýna fram á að atburðir og fyrirbrigði eru almennt og yfirleitt komin fram í tilteknum sögulegum kringumstæðum en ekki dottin niður af himninum.

Vígslubiskupsembættið er eitt af þessum skrítnu fyrirbærum sem virðast stundum dottin niður af himni en það er þegar öllu er á botninn hvolft barn síns tíma. Það er til orðið í tilteknum sögulegum kringumstæðum og ef horft er til þeirra þjóðernislegu ástæðna sem lágu stofnun þess til grundvallar, þá virðast forsendur fyrir tilvist þess brostnar.

Nú hefur embættinu verið breytt í almennt tilsjónarhlutverk næstráðenda í hinu klerklega stigveldi íslensku þjóðkirkjunnar og fyrir því kunna að vera góðar og gildar ástæður. Á það skortir þó að þær séu gerðar lýðum ljósar. Það stendur upp á talsfólk kirkjunnar og sérstaklega frambjóðendur í þeim vígslubiskupskosningum sem fram undan eru að gera það með sannfærandi hætti.

(Grein uppfærð 10. maí. Í upprunalegu útgáfu stóð að vígslubiskupar þyrftu endurnýjað umboð á fimm ára fresti en hið rétt er á sex ára fresti.)

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir