Þegar jörð nötrar og hraun gengur fram í byggð heyrist oft sagt að vonandi fari nú allt á besta veg. Sannarlega er tekið undir það. Manneskjan geymir í hugskoti sínu vonina þegar hættur og ógnir steðja að. Vonin er merki um að ekki verði gefist upp fyrr en í fulla hnefana. Vongleði er til dæmis gott nesti þegar á móti blæs.

Vonin er bjart orð og hlýlegt. Enginn þarf að undrast þó að gripið sé til þess í hörmulegum aðstæðum eins og þeim er blasa nú við íbúum Grindavíkur.

Yfirvegun fólks og æðruleysi hefur verið aðdáunarvert. Íbúarnir hafa verið vongóðir þrátt fyrir allt enda er það oft svo að vonin er sem eldsneyti sálarinnar, já, heldur beinlínis lífi í fólki og oft jafnvel án þess að það átti sig fyllilega á því. Þó að hvert áfallið á fætur öðru dynji yfir þá horfir fólk alltaf vonarríkum augum til framtíðar sem tekur sífelldum breytingum. Því hvað sem kann að verða um kærar heimaslóðir sem fólkið syrgir þá bíða nýjar á öðrum stöðum eða breyttar slóðir í heimabyggðinni. En manneskjan er sem betur fer býsna fær í aðlögun. Hún er nefnilega ekki bara vera sem lifir hér og nú, í andránni, heldur líka í framtíðinni. Vera sem hugsar einlægt fram á við og horfir eftir veginum sem bíður í fjarska. Er á hreyfingu. Á ferð.

En hvað er von? Það eru jákvæðir straumar sem teygja anga sína frá voninni. Von er ætíð sveipuð birtu og yl; vonin er sem opinn og hjartahlýr faðmur góðrar manneskju; vonin er hönd umhyggju sem huggar og styður. Hún dregur fram allt það besta sem menn sjá fyrir sér innan skynsamlegra marka. Það er nefnilega svo að um leið og skynsemin hleypur frá voninni þá er tálvonin komin til skjalanna og hún er svikul sem refur.

Vonir geta verið misjafnar og jafnvel árstíðabundnar. Vonin er oft eins og klukkutif sálarinnar. Á þessum árstíma þökkum við fyrir að daginn er tekið að lengja þó að hann fari sér í engu óðslega. En hann bætir alltaf einhverju við sig eins og vonin sem býr í brjósti sérhvers manns.

Kristin trú ber með sér von lífsins sem er Jesús Kristur. Sjálfur sagði hann: Ég er ljós heimsins.

Mikilvægast er að horfa stöðugt til vonarinnar, til ljóssins, til Jesú Krists á lífsgöngunni og gleyma því aldrei að lífið er gjöf skaparans, á hverju sem gengur.

Vonin er listaverk sem stendur á háum stalli í Járngerðarstaðahverfi í Grindavík. Ragnar Kjartansson (1923-1988), myndhöggvari og leirlistamaður, vann listaverkið fyrir kvenfélag Grindavíkur og var það steypt í brons í London 1979.

Kvenfélagið í Grindavík hóf söfnun fyrir verkinu 1952 en tilefni hennar var hörmulegt sjóslys það ár þegar bátur fórst með fimm mönnum við Hópsnes. Ragnar lagði fram þrjár tillögur að listaverkinu á sínum tíma og voru þær sýndar í Félagsheimilinu Festi á sjómannadaginn 1977. Ein þeirra var valin og það er sú sem styttan sýnir. Grindvíkingar voru mjög ánægðir með verkið.

Listaverkið er helgað minningu drukknaðra í Grindavík.

Verk Ragnars er kröftugt og reisulegt. Það talar mjög skýrt til þess er virðir það fyrir sér. Yfir því er kyrrð og festa, þolgæði og æðruleysi. Tregafull andlit en þó er vonin enn til staðar því horft er fram. Sjómannskona einbeitt og alvörufull á svip með barn í fangi og annað sér við hlið. Hún horfir til hafs og við hægri hlið hennar er bjarghringur sem hún heldur um. Stúlkubarnið í fangi móðurinnar horfir öruggum augum til himins en drengurinn starir fram harmi lostinn og heldur á vænum fiski í vinstri hönd.

Vonin hefur ekki látið undan.

Í þolinmæði og trausti liggur styrkur Grindvíkinga.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Þegar jörð nötrar og hraun gengur fram í byggð heyrist oft sagt að vonandi fari nú allt á besta veg. Sannarlega er tekið undir það. Manneskjan geymir í hugskoti sínu vonina þegar hættur og ógnir steðja að. Vonin er merki um að ekki verði gefist upp fyrr en í fulla hnefana. Vongleði er til dæmis gott nesti þegar á móti blæs.

Vonin er bjart orð og hlýlegt. Enginn þarf að undrast þó að gripið sé til þess í hörmulegum aðstæðum eins og þeim er blasa nú við íbúum Grindavíkur.

Yfirvegun fólks og æðruleysi hefur verið aðdáunarvert. Íbúarnir hafa verið vongóðir þrátt fyrir allt enda er það oft svo að vonin er sem eldsneyti sálarinnar, já, heldur beinlínis lífi í fólki og oft jafnvel án þess að það átti sig fyllilega á því. Þó að hvert áfallið á fætur öðru dynji yfir þá horfir fólk alltaf vonarríkum augum til framtíðar sem tekur sífelldum breytingum. Því hvað sem kann að verða um kærar heimaslóðir sem fólkið syrgir þá bíða nýjar á öðrum stöðum eða breyttar slóðir í heimabyggðinni. En manneskjan er sem betur fer býsna fær í aðlögun. Hún er nefnilega ekki bara vera sem lifir hér og nú, í andránni, heldur líka í framtíðinni. Vera sem hugsar einlægt fram á við og horfir eftir veginum sem bíður í fjarska. Er á hreyfingu. Á ferð.

En hvað er von? Það eru jákvæðir straumar sem teygja anga sína frá voninni. Von er ætíð sveipuð birtu og yl; vonin er sem opinn og hjartahlýr faðmur góðrar manneskju; vonin er hönd umhyggju sem huggar og styður. Hún dregur fram allt það besta sem menn sjá fyrir sér innan skynsamlegra marka. Það er nefnilega svo að um leið og skynsemin hleypur frá voninni þá er tálvonin komin til skjalanna og hún er svikul sem refur.

Vonir geta verið misjafnar og jafnvel árstíðabundnar. Vonin er oft eins og klukkutif sálarinnar. Á þessum árstíma þökkum við fyrir að daginn er tekið að lengja þó að hann fari sér í engu óðslega. En hann bætir alltaf einhverju við sig eins og vonin sem býr í brjósti sérhvers manns.

Kristin trú ber með sér von lífsins sem er Jesús Kristur. Sjálfur sagði hann: Ég er ljós heimsins.

Mikilvægast er að horfa stöðugt til vonarinnar, til ljóssins, til Jesú Krists á lífsgöngunni og gleyma því aldrei að lífið er gjöf skaparans, á hverju sem gengur.

Vonin er listaverk sem stendur á háum stalli í Járngerðarstaðahverfi í Grindavík. Ragnar Kjartansson (1923-1988), myndhöggvari og leirlistamaður, vann listaverkið fyrir kvenfélag Grindavíkur og var það steypt í brons í London 1979.

Kvenfélagið í Grindavík hóf söfnun fyrir verkinu 1952 en tilefni hennar var hörmulegt sjóslys það ár þegar bátur fórst með fimm mönnum við Hópsnes. Ragnar lagði fram þrjár tillögur að listaverkinu á sínum tíma og voru þær sýndar í Félagsheimilinu Festi á sjómannadaginn 1977. Ein þeirra var valin og það er sú sem styttan sýnir. Grindvíkingar voru mjög ánægðir með verkið.

Listaverkið er helgað minningu drukknaðra í Grindavík.

Verk Ragnars er kröftugt og reisulegt. Það talar mjög skýrt til þess er virðir það fyrir sér. Yfir því er kyrrð og festa, þolgæði og æðruleysi. Tregafull andlit en þó er vonin enn til staðar því horft er fram. Sjómannskona einbeitt og alvörufull á svip með barn í fangi og annað sér við hlið. Hún horfir til hafs og við hægri hlið hennar er bjarghringur sem hún heldur um. Stúlkubarnið í fangi móðurinnar horfir öruggum augum til himins en drengurinn starir fram harmi lostinn og heldur á vænum fiski í vinstri hönd.

Vonin hefur ekki látið undan.

Í þolinmæði og trausti liggur styrkur Grindvíkinga.

Viltu deila þessari grein með fleirum?