Kirsuberjagarðurinn er eitt frægasta leikrit rússneska leikskáldsins Antons Tsjekhovs (1860-1904). Hann skrifaði það nokkru fyrir andlát sitt en berklar urðu banabein hans árið 1904, sama ár og leikritið var frumsýnt.

Garður kemur víða fyrir í menningarsögunni. Einn sá frægasti er Edensgarður sem segir skýringarsöguna af því hvernig fór fyrir íbúum hans, já og jafnvel mannkyni öllu. Sú saga hefur verið sögð í margvíslegum búningi og vekur alltaf jafnmikla athygli því að hún kveikir ýmsar spurningar um mannlegt eðli.

Allir þekkja svo sem líkinguna á milli lífsins og garðsins. Lífið er garður hvers einstakling. Engin furða að Voltaire hafi látið Birting segja í sögulokin að maður yrði að rækta garðinn sinn.[1]

Kirsuberjagarðurinn á eitthvað í öllum manneskjum. Hann stendur fyrir minningar æskunnar sem geta verið góðar og slæmar. Garðurinn er líka tákn fyrir vinnusemi, frelsi og öryggi. Tákn fyrir þrældóm og ófrelsi. Fegurðin sem allir dásama á sér samastað í honum. Kirsuberjagarðurinn er því margslungið fyrirbæri sem allir geta talað um, túlkað og skilið.

Fantagóðir leikarar

Nemendur í Listaháskóla Íslands sem eru að útskrifast af leiklistarabraut réðust í það vandasama verk og kröfuharða að setja Kirsuberjagarð Tsjekhovs á svið undir leikstjórn Eddu Bjargar Eyjólfsdóttur – leikmynd og búningar voru í höndum Maríu Th. Ólafsdóttur. Þó að ekki komið það fram í kynningu á leikritinu við hvaða texta er stuðst má ætla að það sé endurskoðuð þýðing Jónasar Kristjánssonar (1924-2014).[2]

Kirsuberjagarðurinn hefur höfðað mjög sterkt til alls leiklistarfólks, bæði atvinnuleikhúsa sem og áhugamanna. Leikritið er býsna opið fyrir ýmsum túlkunum og persónur þess eru litríkar og sumar ýktar. Höfundur segir Kirsuberjagarðinn vera gamanleik. Flestir líta reyndar á leikritið sem tragíkómedíu. Tsjekhov sýnir ýmsar hliðar á persónum sínum í spaugilegu ljósi, kosti og galla.

Kirsuberjagarðurinn hefur verið sýndur nokkrum sinnum hér á landi enda um sígilt verk að ræða. Nemendur Listaháskólans hafa oft spreytt sig á því að setja þetta verk upp. Fyrsta sýning á Kirsuberjagarðinum hér á landi var í Þjóðleikhúsinu 1957. [3]

Það sem fleytir leikriti áfram eru snjöll samtöl, listilega skrifuð. Og auðvitað góður leikur! Eðlileg samtöl sem eru í samræmi við þá persónu sem talar. Höfundur Kirsuberjagarðsins bregst ekki í þessu frekar en fyrri daginn. Textinn er lipur, ljóðrænn, fullur af kímni, stundum mjög svo beittri, gleði og bjartsýni. Hlaðinn öllum hugsanlegum tilfinningum og því mjög svo mannlegur.

Sýning  unga fólksins á leikarabraut Listaháskólans rennur firnavel, öll framvinda skilar sér á réttum hraða. Léttleiki og alvara vefjast saman í leik þeirra, sigrar og ósigrar persónanna. Sjálfu lífinu er teflt fram í öllum sínum myndum þegar eitt samfélag er að taka miklum breytingum í kjölfar þess að yfirstéttin missir tökin því að nýr tími bankar upp á. Hvergi dauður punktur. Sviðsmyndin er einföld og þarf í sjálfu sér ekki að vera hátimbruð því að texti leikritsins og persónur þess bera frásögnina uppi sem og umhverfið.

Í stuttu máli fjallar Kirsuberjagarðurinn um örlög fólks sem tengist garðinum með ýmsum hætti. Garðurinn var stolt eigenda og geymdi sál þeirra, bjarta og hamingjusama æskudaga. Auðlind sem yfirstéttarfólkið lifði á. Já, garðurinn var líka svo frægur að hans var getið í alfræðabókinni [4] Nú gaf hann ekki eins mikið af sér og áður – berin seljast ekki. Aðferðin við að rækta góð kirsuber var líka týnd og grafin. Óðalseigandinn missir kirsuberjagarðinn úr höndum sér sakir óráðsíu og fyrirhyggjuleysis en hún hefur verið á fimm ára flakki og lifað hátt. Hún lifir í núinu, er heillandi kona og gáfuð en duttlungafull. Viðfelldin heimskona og gæti verið sem áhrifavaldur í nútímanum. Allt nýst um hana. Ekki er laust við að hugtakið „þetta reddast“ hvíli í huga eigandans. En það „reddast ekki.“ Skollaeyrum var skellt við þeirri lausn að fella trén og leigja landið út undir sumarbústaði svo leigutekjur myndu greiða skuldir – ákvörðunarfælni eigandans. Garðurinn sem svo margar minningar voru bundnar við er því  seldur upp í skuldir og eigendurnir verða að hafa sig á brott. Leikritið hefst á því að þær koma eftir langa útivist. Gleði og spenna eru allsráðandi. Feginleiki að vera komin heim. Í lok leikritsins halda þau á braut, döpur í bragði og buguð á sál og sum einnig á líkama. Þó svífur vonin yfir vötnum. Von um betri tíma. Garðurinn var seldur í hendur nýs tíma, fulltrúa nýs samfélags, dugmikils athafnamanns. Persónur leikritsins eru nokkuð margar og hver þeirra ber með sér sinn heim. Þar er mikil mannlífsflóra og flestir kannast þar við einn og einn náunga. Öll segja þau lífssögu sína hvert með sínum hætti og vekja samúð með áhorfendum.

En þó að söguþráðurinn virðist í fljótu bragði vera einfaldur þá er hann það fráleitt þegar kafað er dýpra.

Bókmenntaverk er hægt að túlka á ýmsa vegu. Þekkt túlkun á Kirsuberjagarðinum er sú að hann sé sjálft Rússland í allri sinni fegurð, auðlegð og dýrð – þeirri túlkun er skotið að í öðrum þætti [5] Leikritið sýnir líka sigraðan aðal sem glataði eigum sínum með óhófi og iðjuleysi. Borgarastéttin stígur fram á sviðið og hún er snöfurmannleg því að tíminn er verðmæti og allt verður að gerast hratt öndvert við dasað tímalaust yfirbragð aðalsins.  Athafnamaðurinn Lopakhín sem kaupir Kirsuberjagarðinn er af verkafólki kominn og orðinn kapítalisti – og aðallinn hrökklast inn til borganna.

Guðfræðileg túlkun hefur líka verið sett fram í anda örlaga skötuhjúanna í Edensgarði.  Óðalseigandinn, hin lífsglaða Ljúbov Andreévna, minnist á syndina til að útskýra stöðu mála hjá sér:

„Við höfum verið mjög syndug…Ó, ég er syndug manneskja! Ég hef alltaf sóað peningum, kastað þeim út um gluggann eins og brjáluð. Og ég giftist manni sem kunni ekkert annað en að safna skuldum. Maðurinn minn dó úr Kampavíni…“ [6]

Syndin hin lævísa og lipra varð þess sem sé valdandi að þau misstu garðinn. En það er líka hin eilífa hugsun manneskjunnar um hamingjuna sem lesa má úr verkinu. Enn er það óðalseigandinn, hún Ljúbov Andreévna, sem hefur orðið og segir að hamingjan hafi vakið sig þar á hverjum morgni í kirsuberjagarðinum og segir:

„Ó garðurinn minn! Eftir myrkur og storma haustsins og kulda vetrarins ert þú orðinn ungur og hamingjusamur, englar himinsins hafa ekki yfirgefið þig….Ó að ég gæti varpað frá mér byrðinni sem hvílir á hjarta mínu! Ó að ég gæti gleymt fortíð minni!“ [7]

Í tilfinningaróti biður hún um að verða seld með garðinum verði hann seldur:

„Ég get ekki hugsað mér að lifa án kirsuberjagarðsins…“ [8]

En oft er það svo þegar einhver ósköp dynja yfir þá næst á endanum sátt. Svo má lesa úr orðum bróður Ljúbov Andreévnu, en hann var líka óðalseigandi:

„Áður en kirsuberjagarðurinn var seldur vorum við öll hrædd og þjáðumst, en þegar allt var komið á hreint, þá urðum við öll róleg og jafnvel glöð…“

Og Ljúbov systir hans svarar: „Já taugarnar eru rólegri, það er satt.“ [9]

Þegar yfirstéttarkonan og óðalseigandinn, Ljúbov, kveður garðinn í blálokin eftir mikil átök og djúpa sorg segir hún:

„Ó elsku, góði, yndislegi garðurinn minn!…Líf mitt, æska mín, hamingja mín, verið þið sæl!…Verið þið sæl!“ [10]

Kirsuberjagarðurinn segir sögu sem margur kannast eflaust við. Sögu breytinga sem skipta sköpum. En það er líka horft fram á við. Borgin bíður með sín tækifæri. Nýir tímar. Nýtt líf. Von.

Leikurum fagnað innilega í leikslok

Ekki verður fjallað um frammistöðu einstakra leikara hér enda ekki svo sem á færi þess sem hamrar lyklaborðið. Auk þess er það mikið álitaefni hvort heil brú sé í dómum um leik einstakra leikara því allt byggir á túlkun þess sem les úr leiknum og leikurinn á túlkun þess sem leikur – þar getur verið himinn og haf á milli – líka mjótt sund. Þó verður ekki annað sagt en að mikið jafnræði hafi verið í leik þessa unga fólks og þau bersýnilega lagt mikla alúð við listastörf sín. Þetta er efnisfólk sem á eftir að sjást á fjölunum og hvíta tjaldinu þegar fram í sækir. Kirkjublaðið.is óskar því góðs gengis í framtíðinni.

Kirsuberjagarðurinn er sýndur í Þjóðleikhúsinu, Kassanum. Kirkjublaðið.is sá fjórðu sýningu sem var í gær (26. maí). Þau sem eru áhugasöm ættu að krækja sér í miða á tix.is en hann kostar ekkert – það er dagsatt! Tíunda og síðasta sýning verður 1. júní.

Tilvísanir: 

[1] Voltaire, Birtingur. Ísl. þýð. Halldór Laxness, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1975. Bls. 190.

[2] Anton Tsjekhov, Kirsuberjagarðurinn, gamanleikur. Ísl. þýð. Jónas Kristjánsson (einnig Fríða Björk Ingvarsdóttir og Árni Bergmann. Reykjavík: Frú Emilía, 1994.

[3] „Kirsuberjagarðuinn,“ Morgunblaðið, 22. október 1957. Leikdómur Sigurðar Grímssonar.

[4] Anton Tsjekhov, Kirsuberjagarðurinn, gamanleikur. Ísl. þýð. Jónas Kristjánsson (einnig Fríða Björk Ingvarsdóttir og Árni Bergmann. Reykjavík: Frú Emilía, 1994. Bls. 36.

[5] Sama: Bls. 53

[6] Sama: Bls. 47.

[7] Sama: Bls. 39.

[8] Sama: Bls. 59.

[9] Sama: Bls. 69.

[10] Sama: Bls. 74.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Kirsuberjagarðurinn er eitt frægasta leikrit rússneska leikskáldsins Antons Tsjekhovs (1860-1904). Hann skrifaði það nokkru fyrir andlát sitt en berklar urðu banabein hans árið 1904, sama ár og leikritið var frumsýnt.

Garður kemur víða fyrir í menningarsögunni. Einn sá frægasti er Edensgarður sem segir skýringarsöguna af því hvernig fór fyrir íbúum hans, já og jafnvel mannkyni öllu. Sú saga hefur verið sögð í margvíslegum búningi og vekur alltaf jafnmikla athygli því að hún kveikir ýmsar spurningar um mannlegt eðli.

Allir þekkja svo sem líkinguna á milli lífsins og garðsins. Lífið er garður hvers einstakling. Engin furða að Voltaire hafi látið Birting segja í sögulokin að maður yrði að rækta garðinn sinn.[1]

Kirsuberjagarðurinn á eitthvað í öllum manneskjum. Hann stendur fyrir minningar æskunnar sem geta verið góðar og slæmar. Garðurinn er líka tákn fyrir vinnusemi, frelsi og öryggi. Tákn fyrir þrældóm og ófrelsi. Fegurðin sem allir dásama á sér samastað í honum. Kirsuberjagarðurinn er því margslungið fyrirbæri sem allir geta talað um, túlkað og skilið.

Fantagóðir leikarar

Nemendur í Listaháskóla Íslands sem eru að útskrifast af leiklistarabraut réðust í það vandasama verk og kröfuharða að setja Kirsuberjagarð Tsjekhovs á svið undir leikstjórn Eddu Bjargar Eyjólfsdóttur – leikmynd og búningar voru í höndum Maríu Th. Ólafsdóttur. Þó að ekki komið það fram í kynningu á leikritinu við hvaða texta er stuðst má ætla að það sé endurskoðuð þýðing Jónasar Kristjánssonar (1924-2014).[2]

Kirsuberjagarðurinn hefur höfðað mjög sterkt til alls leiklistarfólks, bæði atvinnuleikhúsa sem og áhugamanna. Leikritið er býsna opið fyrir ýmsum túlkunum og persónur þess eru litríkar og sumar ýktar. Höfundur segir Kirsuberjagarðinn vera gamanleik. Flestir líta reyndar á leikritið sem tragíkómedíu. Tsjekhov sýnir ýmsar hliðar á persónum sínum í spaugilegu ljósi, kosti og galla.

Kirsuberjagarðurinn hefur verið sýndur nokkrum sinnum hér á landi enda um sígilt verk að ræða. Nemendur Listaháskólans hafa oft spreytt sig á því að setja þetta verk upp. Fyrsta sýning á Kirsuberjagarðinum hér á landi var í Þjóðleikhúsinu 1957. [3]

Það sem fleytir leikriti áfram eru snjöll samtöl, listilega skrifuð. Og auðvitað góður leikur! Eðlileg samtöl sem eru í samræmi við þá persónu sem talar. Höfundur Kirsuberjagarðsins bregst ekki í þessu frekar en fyrri daginn. Textinn er lipur, ljóðrænn, fullur af kímni, stundum mjög svo beittri, gleði og bjartsýni. Hlaðinn öllum hugsanlegum tilfinningum og því mjög svo mannlegur.

Sýning  unga fólksins á leikarabraut Listaháskólans rennur firnavel, öll framvinda skilar sér á réttum hraða. Léttleiki og alvara vefjast saman í leik þeirra, sigrar og ósigrar persónanna. Sjálfu lífinu er teflt fram í öllum sínum myndum þegar eitt samfélag er að taka miklum breytingum í kjölfar þess að yfirstéttin missir tökin því að nýr tími bankar upp á. Hvergi dauður punktur. Sviðsmyndin er einföld og þarf í sjálfu sér ekki að vera hátimbruð því að texti leikritsins og persónur þess bera frásögnina uppi sem og umhverfið.

Í stuttu máli fjallar Kirsuberjagarðurinn um örlög fólks sem tengist garðinum með ýmsum hætti. Garðurinn var stolt eigenda og geymdi sál þeirra, bjarta og hamingjusama æskudaga. Auðlind sem yfirstéttarfólkið lifði á. Já, garðurinn var líka svo frægur að hans var getið í alfræðabókinni [4] Nú gaf hann ekki eins mikið af sér og áður – berin seljast ekki. Aðferðin við að rækta góð kirsuber var líka týnd og grafin. Óðalseigandinn missir kirsuberjagarðinn úr höndum sér sakir óráðsíu og fyrirhyggjuleysis en hún hefur verið á fimm ára flakki og lifað hátt. Hún lifir í núinu, er heillandi kona og gáfuð en duttlungafull. Viðfelldin heimskona og gæti verið sem áhrifavaldur í nútímanum. Allt nýst um hana. Ekki er laust við að hugtakið „þetta reddast“ hvíli í huga eigandans. En það „reddast ekki.“ Skollaeyrum var skellt við þeirri lausn að fella trén og leigja landið út undir sumarbústaði svo leigutekjur myndu greiða skuldir – ákvörðunarfælni eigandans. Garðurinn sem svo margar minningar voru bundnar við er því  seldur upp í skuldir og eigendurnir verða að hafa sig á brott. Leikritið hefst á því að þær koma eftir langa útivist. Gleði og spenna eru allsráðandi. Feginleiki að vera komin heim. Í lok leikritsins halda þau á braut, döpur í bragði og buguð á sál og sum einnig á líkama. Þó svífur vonin yfir vötnum. Von um betri tíma. Garðurinn var seldur í hendur nýs tíma, fulltrúa nýs samfélags, dugmikils athafnamanns. Persónur leikritsins eru nokkuð margar og hver þeirra ber með sér sinn heim. Þar er mikil mannlífsflóra og flestir kannast þar við einn og einn náunga. Öll segja þau lífssögu sína hvert með sínum hætti og vekja samúð með áhorfendum.

En þó að söguþráðurinn virðist í fljótu bragði vera einfaldur þá er hann það fráleitt þegar kafað er dýpra.

Bókmenntaverk er hægt að túlka á ýmsa vegu. Þekkt túlkun á Kirsuberjagarðinum er sú að hann sé sjálft Rússland í allri sinni fegurð, auðlegð og dýrð – þeirri túlkun er skotið að í öðrum þætti [5] Leikritið sýnir líka sigraðan aðal sem glataði eigum sínum með óhófi og iðjuleysi. Borgarastéttin stígur fram á sviðið og hún er snöfurmannleg því að tíminn er verðmæti og allt verður að gerast hratt öndvert við dasað tímalaust yfirbragð aðalsins.  Athafnamaðurinn Lopakhín sem kaupir Kirsuberjagarðinn er af verkafólki kominn og orðinn kapítalisti – og aðallinn hrökklast inn til borganna.

Guðfræðileg túlkun hefur líka verið sett fram í anda örlaga skötuhjúanna í Edensgarði.  Óðalseigandinn, hin lífsglaða Ljúbov Andreévna, minnist á syndina til að útskýra stöðu mála hjá sér:

„Við höfum verið mjög syndug…Ó, ég er syndug manneskja! Ég hef alltaf sóað peningum, kastað þeim út um gluggann eins og brjáluð. Og ég giftist manni sem kunni ekkert annað en að safna skuldum. Maðurinn minn dó úr Kampavíni…“ [6]

Syndin hin lævísa og lipra varð þess sem sé valdandi að þau misstu garðinn. En það er líka hin eilífa hugsun manneskjunnar um hamingjuna sem lesa má úr verkinu. Enn er það óðalseigandinn, hún Ljúbov Andreévna, sem hefur orðið og segir að hamingjan hafi vakið sig þar á hverjum morgni í kirsuberjagarðinum og segir:

„Ó garðurinn minn! Eftir myrkur og storma haustsins og kulda vetrarins ert þú orðinn ungur og hamingjusamur, englar himinsins hafa ekki yfirgefið þig….Ó að ég gæti varpað frá mér byrðinni sem hvílir á hjarta mínu! Ó að ég gæti gleymt fortíð minni!“ [7]

Í tilfinningaróti biður hún um að verða seld með garðinum verði hann seldur:

„Ég get ekki hugsað mér að lifa án kirsuberjagarðsins…“ [8]

En oft er það svo þegar einhver ósköp dynja yfir þá næst á endanum sátt. Svo má lesa úr orðum bróður Ljúbov Andreévnu, en hann var líka óðalseigandi:

„Áður en kirsuberjagarðurinn var seldur vorum við öll hrædd og þjáðumst, en þegar allt var komið á hreint, þá urðum við öll róleg og jafnvel glöð…“

Og Ljúbov systir hans svarar: „Já taugarnar eru rólegri, það er satt.“ [9]

Þegar yfirstéttarkonan og óðalseigandinn, Ljúbov, kveður garðinn í blálokin eftir mikil átök og djúpa sorg segir hún:

„Ó elsku, góði, yndislegi garðurinn minn!…Líf mitt, æska mín, hamingja mín, verið þið sæl!…Verið þið sæl!“ [10]

Kirsuberjagarðurinn segir sögu sem margur kannast eflaust við. Sögu breytinga sem skipta sköpum. En það er líka horft fram á við. Borgin bíður með sín tækifæri. Nýir tímar. Nýtt líf. Von.

Leikurum fagnað innilega í leikslok

Ekki verður fjallað um frammistöðu einstakra leikara hér enda ekki svo sem á færi þess sem hamrar lyklaborðið. Auk þess er það mikið álitaefni hvort heil brú sé í dómum um leik einstakra leikara því allt byggir á túlkun þess sem les úr leiknum og leikurinn á túlkun þess sem leikur – þar getur verið himinn og haf á milli – líka mjótt sund. Þó verður ekki annað sagt en að mikið jafnræði hafi verið í leik þessa unga fólks og þau bersýnilega lagt mikla alúð við listastörf sín. Þetta er efnisfólk sem á eftir að sjást á fjölunum og hvíta tjaldinu þegar fram í sækir. Kirkjublaðið.is óskar því góðs gengis í framtíðinni.

Kirsuberjagarðurinn er sýndur í Þjóðleikhúsinu, Kassanum. Kirkjublaðið.is sá fjórðu sýningu sem var í gær (26. maí). Þau sem eru áhugasöm ættu að krækja sér í miða á tix.is en hann kostar ekkert – það er dagsatt! Tíunda og síðasta sýning verður 1. júní.

Tilvísanir: 

[1] Voltaire, Birtingur. Ísl. þýð. Halldór Laxness, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1975. Bls. 190.

[2] Anton Tsjekhov, Kirsuberjagarðurinn, gamanleikur. Ísl. þýð. Jónas Kristjánsson (einnig Fríða Björk Ingvarsdóttir og Árni Bergmann. Reykjavík: Frú Emilía, 1994.

[3] „Kirsuberjagarðuinn,“ Morgunblaðið, 22. október 1957. Leikdómur Sigurðar Grímssonar.

[4] Anton Tsjekhov, Kirsuberjagarðurinn, gamanleikur. Ísl. þýð. Jónas Kristjánsson (einnig Fríða Björk Ingvarsdóttir og Árni Bergmann. Reykjavík: Frú Emilía, 1994. Bls. 36.

[5] Sama: Bls. 53

[6] Sama: Bls. 47.

[7] Sama: Bls. 39.

[8] Sama: Bls. 59.

[9] Sama: Bls. 69.

[10] Sama: Bls. 74.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir