Um þessar mundir er verið að sýna heimildakvikmynd í Bíó-Paradís um gler- og myndlistarkonuna Höllu Haraldsdóttur: Að vera kona var erfitt – Halla Har – brautryðjandi.
Tilefni sýningarinnar er að hún hefði orðið níræð 1. nóvember sl. en hún lést í fyrra.
Halla var á Siglufirði 1. nóvember 1934 og ólst þar upp til tíu ára aldurs. Hún lést 2023. Allt frá unglingsárum fékkst hún við að teikna og mála. Átján ára gömul hóf hún nám við Handíða- og myndlistaskólann í Reykjavík og lauk þaðan prófi. Aðalkennari hennar í skólanum var Erró (þá Ferró). Síðan nam hún í Danmörku hjá nokkrum listamönnum.
Það er Halla sem hefur orðið mestan tímann í heimildamyndinni. Hún rekur sögu sína í stórum dráttum og segir frá myndlistarstörfum sínum. Gengið er með listakonunni um æskuslóðir hennar á Siglufirði og verk hennar skoðuð þar í bæ sem og vinnumöppum og albúmum flett. Listakonan lítur yfir farinn veg án þess að halla orði á nokkurn mann. Halla er yfirveguð kona og telur sig vera heppna í lífinu. List hennar hafi yfirleitt verið tekið vel og hún ekki erft það hafi einhver gagnrýnt hana harðlega eins og kom fyrir. Halla endurtekur nokkrum sinnum í myndinni að það hafi verið erfitt að vera kona og stunda listastörf. Samfélagið hafi gert þær kröfur að konan væri heima við og gætti bús og barna. Sjálf gekkst hún inn á þá kröfu samfélagsins og skipulagði líf sitt svo að listin fengi rými þegar heimilinu og börnum hafði verið sinnt. Það var ekki alltaf auðvelt en Halla var mjög vinnusöm kona. Hún vann við glerlist og málun, mósaík og önnur efni.
Í Hveragerðiskirkju er hæsti steindi kirkjugluggi landsins og hann er eftir Höllu. Þá eru steindir gluggar eftir hana í Selfosskirkju, Þingeyrarkirkju, Valþjófsstaðarkirkju og Sandgerðiskirkju. Málverk eftir hana prýða kirkjur og kapellur hér heima og í útlöndum. Að sjálfsögðu á kirkja æsku hennar, Siglufjarðarkirkja, eitt verk eftir hana.
Halla segir frá því í kvikmyndinni að búið hafi verið að semja við hana um að gera steinda glugga í Vídalínskirkju á sínum tíma en síðan hafi skyndilega verið efnt til samkeppni. Þá hafi verið búið að semja við hana um að gera mikinn kross sem hanga átti í keðjum yfir kór Hallgrímskirkju í Reykjavík en frá því var skyndilega horfið. Hún var einnig búin að gera steinda glugga í Strandarkirkju samkvæmt ósk heimamanna og þeir tilbúnir til ísetningar en þegar til átti að taka var hætt við. Halla segir frá þessu með mestu rósemd og telur þetta hafa verið mótlæti sem hún mætti í lífinu en lét það ekki hafa áhrif á sig þó að súrt væri í broti. Steindu gluggunum í Strandarkirkju bregður fyrir í myndinni en annars eru þeir í traustum geymslukistum. Það var ekki laust við dramatísk tilþrif þegar þeir voru sóttir í geymsluna og nokkrir hlutar þeirra sýndir. Síðan var farið með þá aftur í geymsluna og þung voru þau spor.
Gaman væri að þessir steindu gluggar sem fara áttu í Strandarkirkju yrðu sýndir við tækifæri.
Hér heima má einnig finna marga steinda glugga og mósaíkverk eftir Höllu bæði á heimilum og í fyrirtækjum, til dæmis í Seðlabanka Íslands, Dvalarheimili aldraðra á Akureyri og Sjúkrahúsi Suðurnesja svo eitthvað sé nefnt.
Halla starfaði um áratugaskeið hjá hinu heimsfræga glerlistaverkstæði Dr. H. Oidtmann í Linnich í Þýskalandi. Fleiri íslenskar listakonur höfðu áður starfað með fyrirtækinu eins og Nína Tryggvadóttir (1913-1968), Gerður Helgadóttir (1928-1975) og Svava Björnsdóttir. Þetta samstarf listakonunnar og fyrirtækisins reyndist henni happafengur sem og fyrirtækinu. Hún vann fjölda listaverka fyrir viðskiptavini fyrirtækisins og var meðal annars valin úr stórum hópi glerlistamanna til að gera steinda glugga í Marien-kapelluna í Þýskalandi.
Það þótti miklum tíðindum sæta á sínum tíma þegar kona hélt sína fyrstu einkasýningu á Kjarvalsstöðum en það var Halla Haraldsdóttir. Hún sýndi þar 81 málverk. Dómar um þá sýningu voru afar misjafnir en Halla lét það ekki á sig fá. Þá var hún og fyrsta konan sem hélt einkasýningu á Suðurnesjum en þar bjó hún. Eitt árið var hún kjörin bæjarlistamaður Keflavíkur, fyrst kvenna. Halla hélt fjölda sýninga hér heima og í útlöndum.
Titill myndarinnar er Að vera kona var erfitt – Halla Har – brautryðjandi.
Segja má að full fast sé kveðið að þegar Halla er sögð vera brautryðjandi í glerlist. Innreið steinda glersins úr smiðjum íslenskra listkvenna í nútíma hófst með verki Gerðar Helgadóttur í kapellu Elliheimilisins Grundar í Reykjavík 1956. Síðan gerði hún glugga í Hallgrímskirkju í Saurbæ 1957 og svo gluggana í Skálholtsdómkirkju. Þá má ekki gleyma Nínu Tryggvadóttur og Valgerði Hafstað. Allar voru þessar konur eldri í listinni en Halla. Þess vegna er nær að segja að Halla hafi verið í hópi brautryðjenda í glerlist á Íslandi.
Lára Zulima Ómarsdóttir er handritshöfundur myndarinnar og leikstjóri. Hún fylgir henni um æskuslóðirnar og ræðir við hana af virðingu og elskusemi.
Tímaritið Hugur og hönd, fjallaði um listakonuna Höllu Har.
Hér er stikla úr kvikmyndinni sem sýnd er um þessar mundir í Reykjavík.
Spjallað við Höllu Haraldsdóttur á siglo.is
Kirkjublaðið.is hvetur alla til að sjá þessa kvikmynd því að hún geymir fallegar frásagnir og einlægar.
Um þessar mundir er verið að sýna heimildakvikmynd í Bíó-Paradís um gler- og myndlistarkonuna Höllu Haraldsdóttur: Að vera kona var erfitt – Halla Har – brautryðjandi.
Tilefni sýningarinnar er að hún hefði orðið níræð 1. nóvember sl. en hún lést í fyrra.
Halla var á Siglufirði 1. nóvember 1934 og ólst þar upp til tíu ára aldurs. Hún lést 2023. Allt frá unglingsárum fékkst hún við að teikna og mála. Átján ára gömul hóf hún nám við Handíða- og myndlistaskólann í Reykjavík og lauk þaðan prófi. Aðalkennari hennar í skólanum var Erró (þá Ferró). Síðan nam hún í Danmörku hjá nokkrum listamönnum.
Það er Halla sem hefur orðið mestan tímann í heimildamyndinni. Hún rekur sögu sína í stórum dráttum og segir frá myndlistarstörfum sínum. Gengið er með listakonunni um æskuslóðir hennar á Siglufirði og verk hennar skoðuð þar í bæ sem og vinnumöppum og albúmum flett. Listakonan lítur yfir farinn veg án þess að halla orði á nokkurn mann. Halla er yfirveguð kona og telur sig vera heppna í lífinu. List hennar hafi yfirleitt verið tekið vel og hún ekki erft það hafi einhver gagnrýnt hana harðlega eins og kom fyrir. Halla endurtekur nokkrum sinnum í myndinni að það hafi verið erfitt að vera kona og stunda listastörf. Samfélagið hafi gert þær kröfur að konan væri heima við og gætti bús og barna. Sjálf gekkst hún inn á þá kröfu samfélagsins og skipulagði líf sitt svo að listin fengi rými þegar heimilinu og börnum hafði verið sinnt. Það var ekki alltaf auðvelt en Halla var mjög vinnusöm kona. Hún vann við glerlist og málun, mósaík og önnur efni.
Í Hveragerðiskirkju er hæsti steindi kirkjugluggi landsins og hann er eftir Höllu. Þá eru steindir gluggar eftir hana í Selfosskirkju, Þingeyrarkirkju, Valþjófsstaðarkirkju og Sandgerðiskirkju. Málverk eftir hana prýða kirkjur og kapellur hér heima og í útlöndum. Að sjálfsögðu á kirkja æsku hennar, Siglufjarðarkirkja, eitt verk eftir hana.
Halla segir frá því í kvikmyndinni að búið hafi verið að semja við hana um að gera steinda glugga í Vídalínskirkju á sínum tíma en síðan hafi skyndilega verið efnt til samkeppni. Þá hafi verið búið að semja við hana um að gera mikinn kross sem hanga átti í keðjum yfir kór Hallgrímskirkju í Reykjavík en frá því var skyndilega horfið. Hún var einnig búin að gera steinda glugga í Strandarkirkju samkvæmt ósk heimamanna og þeir tilbúnir til ísetningar en þegar til átti að taka var hætt við. Halla segir frá þessu með mestu rósemd og telur þetta hafa verið mótlæti sem hún mætti í lífinu en lét það ekki hafa áhrif á sig þó að súrt væri í broti. Steindu gluggunum í Strandarkirkju bregður fyrir í myndinni en annars eru þeir í traustum geymslukistum. Það var ekki laust við dramatísk tilþrif þegar þeir voru sóttir í geymsluna og nokkrir hlutar þeirra sýndir. Síðan var farið með þá aftur í geymsluna og þung voru þau spor.
Gaman væri að þessir steindu gluggar sem fara áttu í Strandarkirkju yrðu sýndir við tækifæri.
Hér heima má einnig finna marga steinda glugga og mósaíkverk eftir Höllu bæði á heimilum og í fyrirtækjum, til dæmis í Seðlabanka Íslands, Dvalarheimili aldraðra á Akureyri og Sjúkrahúsi Suðurnesja svo eitthvað sé nefnt.
Halla starfaði um áratugaskeið hjá hinu heimsfræga glerlistaverkstæði Dr. H. Oidtmann í Linnich í Þýskalandi. Fleiri íslenskar listakonur höfðu áður starfað með fyrirtækinu eins og Nína Tryggvadóttir (1913-1968), Gerður Helgadóttir (1928-1975) og Svava Björnsdóttir. Þetta samstarf listakonunnar og fyrirtækisins reyndist henni happafengur sem og fyrirtækinu. Hún vann fjölda listaverka fyrir viðskiptavini fyrirtækisins og var meðal annars valin úr stórum hópi glerlistamanna til að gera steinda glugga í Marien-kapelluna í Þýskalandi.
Það þótti miklum tíðindum sæta á sínum tíma þegar kona hélt sína fyrstu einkasýningu á Kjarvalsstöðum en það var Halla Haraldsdóttir. Hún sýndi þar 81 málverk. Dómar um þá sýningu voru afar misjafnir en Halla lét það ekki á sig fá. Þá var hún og fyrsta konan sem hélt einkasýningu á Suðurnesjum en þar bjó hún. Eitt árið var hún kjörin bæjarlistamaður Keflavíkur, fyrst kvenna. Halla hélt fjölda sýninga hér heima og í útlöndum.
Titill myndarinnar er Að vera kona var erfitt – Halla Har – brautryðjandi.
Segja má að full fast sé kveðið að þegar Halla er sögð vera brautryðjandi í glerlist. Innreið steinda glersins úr smiðjum íslenskra listkvenna í nútíma hófst með verki Gerðar Helgadóttur í kapellu Elliheimilisins Grundar í Reykjavík 1956. Síðan gerði hún glugga í Hallgrímskirkju í Saurbæ 1957 og svo gluggana í Skálholtsdómkirkju. Þá má ekki gleyma Nínu Tryggvadóttur og Valgerði Hafstað. Allar voru þessar konur eldri í listinni en Halla. Þess vegna er nær að segja að Halla hafi verið í hópi brautryðjenda í glerlist á Íslandi.
Lára Zulima Ómarsdóttir er handritshöfundur myndarinnar og leikstjóri. Hún fylgir henni um æskuslóðirnar og ræðir við hana af virðingu og elskusemi.
Tímaritið Hugur og hönd, fjallaði um listakonuna Höllu Har.
Hér er stikla úr kvikmyndinni sem sýnd er um þessar mundir í Reykjavík.
Spjallað við Höllu Haraldsdóttur á siglo.is