Sannarlega er það ánægjuefni að út er komin ævisaga sr. Karls Sigurbjörnssonar biskups (1947-2024), Skrifað í sand – Minningabrot. Bók sem er hátt í 500 blaðsíður og það er hann sjálfur sem skrifar. Sr. Karl var afar vel ritfær maður eins og fram kemur í þó nokkrum fjölda bóka sem gefnar hafa verið út eftir hann en hann var býsna afkastamikill á ritvellinum þrátt fyrir annasöm störf sem sóknarprestur og síðar sem biskup Íslands. Texti ævisögunnar rennur áreynslulaust eftir síðunum og heldur lesendum vel því frásögnin er lifandi og oft með gamansömum tóni því að höfundurinn var hinn ágætasti húmoristi. Ævisögur presta eru að vissu leyti hluti af kirkjusögunni og það má svo sannarlega segja um þetta verk.
Sr. Karl var miðbæjarmaður enda starfsvettvangur hans lengst af Hallgrímskirkja á Skólavörðuholti og svo biskupsembættið með biskupsgarð við Bergstaðastræti. Þá er þjónustutími hans í Vestmannaeyjum frátalinn en þangað var hann vígður í janúar 1973, tæpri viku eftir að gosið fræga hófst þar í eyjunni – þjónustan var víða við söfnuð Eyjamanna enda dreifður.
Heima á Freyjugötu 17
Í öllum minningum leitar hugurinn þangað sem ræturnar liggja og Karl fer með lesendur um æskuslóðir sínar, Freyjugötu og nærliggjandi götur á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Það er ljóðræn gönguferð þar sem sagt er frá fólki og sumt hvert er gengið á vit feðra sinna en aðrir lifandi. Gamlir vinir hans og kunningjar. Hann þræðir umhverfið með skörpu minni sínu og segir sögur af fólki og atburðum. Það er sem allt umhverfið vakni til lífs í lýsingum höfundar og þar er náttúrlega æskuheimili hans miðpunktur, með litríkum afa og ömmu sem bjuggu í húsnæðinu og fjörlegum hópi systkina.
Þegar litið er yfir ævisögu og minningabrot Karls biskups þá kemur það alls ekki á óvart að hann skyldi verða prestur og síðar biskup. Allt uppeldi hans var ofið trúarlegum þráðum og þar hafði sennilega móðir hans mest áhrif næst á eftir föðurnum sem varð snemma þjóðkunnur prédikari og áhrifamaður í menningu og kristni hér á landi. Gönguferðirnar sem þau systkinin fóru með Sigurbirni ýmist ein eða saman voru einhvers konar skóli þar sem faðirinn fræddi þau um sitthvað úr sögu og náttúru með áhrifamiklum hætti (bls. 30-35). Þetta voru á vissan hátt heilagar samverustundir. Það var ekki tilviljun að fjórir sona þeirra Sigurbjörns og Magneu urðu prestar og það í fremstu röð að öðrum ólöstuðum. „Kirkjan var ómissandi þáttur í veruleik okkar“ (bls. 71). Virðing hans og aðdáun á foreldrum sínum var líka án takmarka og eru fallegar lýsingar á því bænalífi sem móðir þeirra hafði um hönd með börnum sínum (bls. 28).
Menntandi tækifæri
Karl naut sem ungur maður ýmissa menntandi tækifæra sem hann segir frá. Hann sótti lýðháskóla í Danmörku 1962, fór sem skiptinemi til Bandaríkjanna, dvaldi í þrjár vikur í prestaskóla í Englandi 1968, síðar í Svíþjóð og aftur í Bandaríkjunum í tvígang. Fékk ásamt tveimur öðrum Íslendingum að starfa á þingi Alkirkjuráðsins í Svíþjóð 1968. Sem biskupssonur fór hann í vísitasíuferð með föður sínum og í einni slíkri ferð var borin á borð á Reykhólum bleikgrá lúðusúpa með fljótandi sveskjum. Karli leist ekki á blikuna frekar en prestinum sem sagði upphátt: „Ég hef aldrei þolað þennan fjanda“ (bls. 102). Hann fylgist með uppbyggingu Skálholts og vinnur þar um tíma. Karl tók þátt í merku starfi Tengla-hreyfingarinnar á sínum tíma (bls. 138) og margt fleira mætti tína til. Var í stjórn Prestafélags Íslands um tíma og sat á kirkjuþingi. Hann er mannúðarsinni, einlægur friðarsinni og blandar sér ekki í pólitík þó að hann sé augljóslega borgaralega þenkjandi. Karl eignast góða konu, Kristínu Þórdísi Guðjónsdóttur, og saman eignast þau þrjú börn. Hún var kletturinn í lífi hans.
Hann hóf prestsferil sinn í Vestmannaeyjum nokkru eftir gosið 1973 og þjónusta við eyjaskeggja sem dreifðir voru um hvippinn og hvappinn var ekki auðveld.
Í Hallgrímskirkju
Þjóðhátíðarárið 1974 er hann orðinn sóknarprestur í Hallgrímssókn í Reykjavík og er þar bæði farsæll í starfi og vinsæll. Hið mikla guðshús, Hallgrímskirkja, var vígt í sóknarpreststíð hans 26. október 1986. Það voru mikil tímamót og margra var minnst þegar þau gengu í garð. Það er einkar fagurt hjá Karli að minnast á fólk í minningabrotum sínum sem kom að kirkjubyggingunni með hljóðum hætti og nöfn þeirra væru löngu gleymd ef hann héldi þeim ekki á lofti í sögu sinni. Sem dæmi er sá verkamaður sem járnbatt alla Hallgrímskirkju og hafði unnið við kirkjuna frá því að fyrsta skóflustungan var tekin, Magnús Brynjólfsson. Sá ræddi persónur Íslendingasagnanna og kunni Passíusálmana (bls. 212). Fleira fólk sem unni Hallgrímskirkju og hafði sig lítt á oddi en vann fyrir kirkjuna nefnir hann af hlýju og þakklæti (t.d. bls. 238 og 239).
Sú tilfinning kom yfir lesanda þessara skrifa að þegar litið væri yfir þennan feril hafi það verið augljóst að þarna væri gott biskupsefni á ferð þegar að því kæmi. Menntun, reynsla og hæfileikar réðu þar að sjálfsögðu mestu. Enda fór það svo. Hann hlaut góða kosningu til þess embættis 1998 og gegndi því til 2012. Síðar varð hann prestur við Dómkirkjuna þar til formlegri starfsævi lauk.
Farsæll og vinsæll
Biskupsferill hans var farsæll þegar á heildina er litið en mörg erfið mál knúðu þar dyra og snerust kannski með öðrum hætti en hægt var að sjá fyrir um.
Hann var hugmyndaríkur og jákvæður prestur og biskup sem hvatti presta og söfnuði til dáða. Ýmsar nýjungar skrifast á hans nafn og kannski líka svila hans, sr. Bernharðs Guðmundssonar, eins og að koma nöfnum á aðventukertunum inn í íslenska menningu jólaföstunnar svo dæmi sé nefnt (bls. 66). Nú, þjóðkirkjumerkið sem nýlega var sett til hliðar fyrir annað nýtt, var hans hugmynd sem grafískur hönnuður útfærði svo. Kirkjudagar voru haldnir í Skólvörðuholti og voru vel sóttir. Þá var Kristnihátíðin haldin með pompi og prakt á Þingvöllum.
Kaldur skuggi
Mál Ólafs Skúlasonar áttu eftir að fylgja Karli sem kaldur skuggi. Fyrst í kirkjuráði þar sem Karl sat áður en hann varð biskup og Ólafur vildi að ráðið lýsti yfir sakleysi hans. Slíkt kom náttúrlega ekki til greina enda engar forsendur til þess (bls. 284). Þá voru haldnir fundir með konum sem höfðu ásakað Ólaf um kynferðisbrot (bls. 285). Mál voru afflutt að mati Karls (sem taldi sig vita hvaða prestar ættu þar í hlut) og lekið með ýmsum hætti til fjölmiðla. Ólafi hafi svo verið stillt upp sem sakamanni á prestastefnu 1996, hún var í Digraneskirkju, og „við prestarnir settir í stöðu kviðdóms. Það var afar ógeðfellt allt“ (bls. 286). Sá sem hér slær lyklaborð minnist vel þessa fundar og hversu hart var sótt að Ólafi. Hann stikaði stórum um gólf, rauðþrútinn í andliti og svitinn draup af honum og í eitt skipti ætlaði hann að rjúka á dyr en biskupsritari bannaði honum útgöngu. Sú saga sem þar var rakin af einum ræðumanna var allsvæsin svo ekki sé meira sagt og prestarnir sem á hlýddu vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Auk þess sem saga prestsins var höfð eftir móður hans og það gaf henni hugsanlega aukið vægi. Rétt er að þessi fundur ruglaði sennilega alla í ríminu. Líta má svo á að Ólafsmálin, sem svo voru stundum kölluð, hafi verið nokkurs konar herleiðing kirkjunnar. Þau voru alls staðar rædd í samfélaginu og bökuðu kirkjunni tjón. Fjöldi manna sagði sig úr kirkjunni. Fólk vatt sér hvar sem var að prestunum og vildi ræða málin og spyrja hvað viðkomandi héldi og þar fram eftir götunum. Sá tími var býsna einkennilegur í kirkjunni og flestir prestar voru á báðum áttum og vissu ekki hvernig ætti að taka á þessu máli. Sumir prestar töldu Ólaf sekan meðan aðrir litu á þetta sem aðför að honum. Enn aðrir vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Sjálfur neitaði Ólafur ætíð sök.
Urgur og stóryrði
Karl mat það svo á kirkjuþinginu 1998 að þeir sem beðið höfðu lægri hlut í biskupskosningu vildu láta hann „finna til tevatnsins“ (bls. 323) og að þingið hafi verið erfitt. Þá var á köflum undirbúningur Kristnihátíðar erfiður þar sem Karl fann til óvildar forsætisráðherrans, Davíðs Oddssonar í sinn garð. Karl hafði rætt í prédikun um græðgi, misskiptingu gæða og fátækt í samfélaginu sem Davíð var ósammála og svo bættist við „ólukkans smásagan“ (bls. 333) sem sr. Örn Bárður Jónsson skrifaði í Lesbók Morgunblaðsins og forsætisráðherrann taldi vera beint að sér. Karli lá þungt orð til Arnar Bárðar eftir þetta því að hann: „gerði allt sem hann gat til að afflytja mig og varð hetja í augum margra fyrir að þora að standa upp í hárinu á valdinu“ (bls. 335). Jafnréttiskærur vegna ráðninga í prestsembætti voru nokkrar í tíð Karls og sú sem hann tiltekur sérstaklega snerist um preststarf í London, þar var hann sýknaður af einum hluta málsins en fundinn sekur um jafnréttisbrot. Þetta mál var honum „þungbært“ og segir að það hafi verið rekið af „heift“ og lögmaður sækjanda og fjölmiðlar fóru „mikinn í persónulegum árásum sem voru vægast sagt af grófasta tagi“ (bls. 362).
Málefni samkynhneigðra tóku á sig ýmsar myndir. Karl segist hafa valið að taka „afstöðu með hefðinni á grunni hinnar kristnu, biblíulegu arfleifðar“ (bls. 401) en umræður í samfélaginu þróuðust í ýmsar áttir og mörg þung orð voru látin falla og sjálfur segir Kar af einlægni og heiðarlegum huga: „Ég iðrast margs sem ég sagði eða lét ósagt, gerði og lét ógert í þessum málum öllum, það veit Guð einn“ (bls. 401).
Ólund í fríkirkjum og ógleymanleg prédikun í Meðallandi
Jafnan hefur verið gott samband milli þjóðkirkjunnar og fríkirkjusafnaða. Breyting varð á því að mati Karls þegar prestar fríkirkjusafnaðanna í Reykjavík og Hafnarfirði fóru að vega að þjóðkirkjunni til að koma illu til leiðar og prestur Fríkirkjunnar í Reykjavík sagði að þjóðkirkjan væri „andkristileg og djöfulleg“ (bls. 376).
Þrátt fyrir framangreint mótlæti í starfi biskups voru ánægjustundirnar margar og eflaust fleiri þegar upp er staðið. Vel heppnaðar prestastefnur, til dæmis sú sem var Kirkjubæjarklaustri þar sem meðal annars faðir hans, sr. Sigurbjörn, flutti í Langholtskirkju í Meðallandi „prédikun sem aldrei gleymist þeim sem þar voru“ (bls. 319) sem er rétt – sá sem slær þessi orð inn var meðal hlustenda. Rómarferð, þar sem Karl og Kristín hittu Jóhannes Pál II. Kristnihátíð á Þingvöllum tókst frábærlega að mati Karls og var „ógleymanlegur atburður“ (bls. 337) enda mikill viðburður sem sr. Bernharður Guðmundsson (1937-2023) hélt um.
Hamfaraveður
Skuggi Ólafsmála átti eftir að knýja aftur dyra. Karl rekur þá atburðarás í kaflanum Hamfaraveður sem er kaflaheiti við hæfi. Hver viðburðurinn rak annan. Guðrún Ebba Ólafsdóttir sagði frá því að faðir sinn hefði misnotað hana kynferðislega, hún skrifaði svo bréf til biskups og minnisblað sem ekki var bókað „að svo stöddu þar sem það hafði að geyma mjög svo alvarlegar ásakanir á hendur látnum manni“ (bls. 393). Síðar fékk Guðrún Ebba áheyrn Kirkjuráðs en eftir það virðist sem málið hafi farið úr öllum böndum. Gífuryrði og ofstopi réðu för og má lesa úr orðum Karls að í raun hafi ekki verið ráðið neitt við neitt. Gagnrýni beindist sífellt meira að honum með auknum þunga, til dæmis var talið að hann hefði ekki svarað nægilega skýrt í Kastljósþætti hvort hann tryði konunum sem ásökuðu Ólaf, en hann sagðist ekki rengja orð þeirra og segir: „Ég vildi vera varfærinn í yfirlýsingum og dómum og taldi ekki hlutverk mitt að skera úr um sekt eða sakleysi. Ég harma það að það skuli hafa verið lögð önnur merking í viðbrögð mín. Sárast tekur það mig þó að hafa verið ásakaður um ósannindi, þöggun og óeðlileg afskipti af málum Ólafs biskups á sinni tíð“ (bls. 395). Niðurstaða í skýrslu Rannsóknarnefndar hreinsaði Karl af öllum þöggunartilburðum þótt fundið hefði verið að því að bréf Guðrúnar Ebbu hafi ekki verið skráð á sínum tíma og að dregist hafi að kalla hana til fundar.
Varnarrit biskups
Skiljanlegt er að Karl eyði þó nokkru rými í að lýsa afstöðu sinni í þessum málum og hreinsa orðspor sitt sem hann telur að hafi augljóslega laskast í allri umræðu um Ólafsmálin: „Það var þungbært að vera tortryggður, ásakaður um lygi og meingerð, skotspónn heitinga og rógburðar samþjóna sinna … Mér fannst ég standa einn og ærulaus.“ (bls. 398). Óneitanlega vaknar upp í huga lesanda sú spurning hvernig málin gátu þróast með þessum hætti? Og auðvitað er spurt: Hverjir voru þetta sem snerust gegn sr. Karli? Hrópuðu og öskruðu á hann „með heitingum og hatursorðum í nafni kærleikans“ og kröfðust afsagnar hans (bls. 398-399). Hvaða kafla í kirkjusögu var verið að skrá þarna? Biskupinn var: „andlega og líkamlega örþreyttur“ (bls. 402).
Lætur af biskupsembætti og snýr sér að öðru
Haustið 2011 kom út bók Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur þar sem hún sagði frá misnotkun föður síns. Bókin varð umtöluð og segir Karl að fjölmiðlar hafi borið áfram kröfuna um að hann viki úr biskupsembætti, Ýmsir prestar tóku undir kröfuna um afsögn hans. Málið lagðist með ofurþunga á hann og í umræðunni dugðu engin rök. Orðin sem taka saman líðan hans og þessa sögu eru beisk:
„Ég gerði þau mistök að sinna skyldu minni og gæta forms og svara af varfærni. Fyrir það var ég dæmdur og úthrópaður af samstarfsfólki, allt sem ég sagði og gerði mistúlkað og úthrópað af vinum, vígsluþegum, fólki sem ég hafði metið mikils og treyst og borið á bænarörmum“ (bls. 399).
Karl lét af biskupsembætti 2012 og þá 65 ára að aldri. Eflaust hefur hann verið feginn þó að hann hefði sennilega kosið að málum lyki með öðrum hætti. En svona var það nú einu sinni.
Hann sneri sér að öðrum málum og kom meðal annars að endurstofnun Skálholtsfélagsins hins nýja. Mestu máli skipti þó að hann tók að þjóna við Dómkirkjuna 2013 og stóð þá vakt til 2017 og segir um það: „Okkur hjónum finnst það hafa verið einhver besti tími starfsævinnar“ (bls. 417). Ritstörfin áttu sömuleiðis huga hans, hann þýddi bækur og tók saman prédikanasafn.
Alvarleg veikindi knúðu dyra hjá Karli 2017, krabbamein. Hann ræðir það af mikilli yfirvegun og visku (bls. 424–431) sem geta örugglega verið mörgum sem glíma við þennan sjúkdóm mikil hjálp og sjálfsagt að benda á þennan kafla.
Sr. Karl Sigurbjörnsson lést 12. febrúar 2024. Hann var fæddur f. febrúar 1947.
Ekkja sr. Karls, Kristín Þórdís Guðjónsdóttir, ritar lokaorð bókarinnar og þar segir meðal annars: „Það er einlæg von mín að þessi minningabrot varpi nokkru ljósi á hvað mótaði hann sjálfan og hvað hann tókst á við í lífi sínu og starfi. Ég er þakklát Guði fyrir að við áttum þessa lífsgöngu saman sem hjón, foreldrar, amma og afi“ (bls. 434).
Niðurstaða:
Hlýleg og ljóðræn ævisaga, firnavel skrifuð, þar sem farið er með gagnyrtum hætti og ákveðnum yfir allt sviðið af einlægni og ekkert dregið undan. Hann lýsir gleði sinni með lífið, fjölskylduna og kirkjuna en jafnframt vonbrigðum þegar vegið var illilega að honum af fólki innan kirkju sem utan og hann ber hönd fyrir höfuð sér og að því leyti er sagan varnarrit. Hann kemur sjónarmiðum sínum að í grafalvarlegum álitamálum í biskupstíð hans en þau voru afflutt að hans mati þegar orrahríðin gekk yfir.
Sr. Karl Sigurbjörnsson var að mörgu leyti afar vel undir það búinn að taka við biskupsembættinu og sinnti því með sóma en fyrst og fremst var hann heiðarlegur kirkjumaður og hans verður minnst sem kröftugs prédikara sem náði eyrum nútímamanna.
Sem prentgripur er bókin vel úr garði gerð. Letur er skýrt og læsilegt, fjöldi mynda styður við meginmál og svo eru litmyndir aftast í bókinni og nafnaskrá.
Karl Sigurbjörnsson, Skrifað í sand – Minningabrot, Veröld, 445 bls.
Sannarlega er það ánægjuefni að út er komin ævisaga sr. Karls Sigurbjörnssonar biskups (1947-2024), Skrifað í sand – Minningabrot. Bók sem er hátt í 500 blaðsíður og það er hann sjálfur sem skrifar. Sr. Karl var afar vel ritfær maður eins og fram kemur í þó nokkrum fjölda bóka sem gefnar hafa verið út eftir hann en hann var býsna afkastamikill á ritvellinum þrátt fyrir annasöm störf sem sóknarprestur og síðar sem biskup Íslands. Texti ævisögunnar rennur áreynslulaust eftir síðunum og heldur lesendum vel því frásögnin er lifandi og oft með gamansömum tóni því að höfundurinn var hinn ágætasti húmoristi. Ævisögur presta eru að vissu leyti hluti af kirkjusögunni og það má svo sannarlega segja um þetta verk.
Sr. Karl var miðbæjarmaður enda starfsvettvangur hans lengst af Hallgrímskirkja á Skólavörðuholti og svo biskupsembættið með biskupsgarð við Bergstaðastræti. Þá er þjónustutími hans í Vestmannaeyjum frátalinn en þangað var hann vígður í janúar 1973, tæpri viku eftir að gosið fræga hófst þar í eyjunni – þjónustan var víða við söfnuð Eyjamanna enda dreifður.
Heima á Freyjugötu 17
Í öllum minningum leitar hugurinn þangað sem ræturnar liggja og Karl fer með lesendur um æskuslóðir sínar, Freyjugötu og nærliggjandi götur á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Það er ljóðræn gönguferð þar sem sagt er frá fólki og sumt hvert er gengið á vit feðra sinna en aðrir lifandi. Gamlir vinir hans og kunningjar. Hann þræðir umhverfið með skörpu minni sínu og segir sögur af fólki og atburðum. Það er sem allt umhverfið vakni til lífs í lýsingum höfundar og þar er náttúrlega æskuheimili hans miðpunktur, með litríkum afa og ömmu sem bjuggu í húsnæðinu og fjörlegum hópi systkina.
Þegar litið er yfir ævisögu og minningabrot Karls biskups þá kemur það alls ekki á óvart að hann skyldi verða prestur og síðar biskup. Allt uppeldi hans var ofið trúarlegum þráðum og þar hafði sennilega móðir hans mest áhrif næst á eftir föðurnum sem varð snemma þjóðkunnur prédikari og áhrifamaður í menningu og kristni hér á landi. Gönguferðirnar sem þau systkinin fóru með Sigurbirni ýmist ein eða saman voru einhvers konar skóli þar sem faðirinn fræddi þau um sitthvað úr sögu og náttúru með áhrifamiklum hætti (bls. 30-35). Þetta voru á vissan hátt heilagar samverustundir. Það var ekki tilviljun að fjórir sona þeirra Sigurbjörns og Magneu urðu prestar og það í fremstu röð að öðrum ólöstuðum. „Kirkjan var ómissandi þáttur í veruleik okkar“ (bls. 71). Virðing hans og aðdáun á foreldrum sínum var líka án takmarka og eru fallegar lýsingar á því bænalífi sem móðir þeirra hafði um hönd með börnum sínum (bls. 28).
Menntandi tækifæri
Karl naut sem ungur maður ýmissa menntandi tækifæra sem hann segir frá. Hann sótti lýðháskóla í Danmörku 1962, fór sem skiptinemi til Bandaríkjanna, dvaldi í þrjár vikur í prestaskóla í Englandi 1968, síðar í Svíþjóð og aftur í Bandaríkjunum í tvígang. Fékk ásamt tveimur öðrum Íslendingum að starfa á þingi Alkirkjuráðsins í Svíþjóð 1968. Sem biskupssonur fór hann í vísitasíuferð með föður sínum og í einni slíkri ferð var borin á borð á Reykhólum bleikgrá lúðusúpa með fljótandi sveskjum. Karli leist ekki á blikuna frekar en prestinum sem sagði upphátt: „Ég hef aldrei þolað þennan fjanda“ (bls. 102). Hann fylgist með uppbyggingu Skálholts og vinnur þar um tíma. Karl tók þátt í merku starfi Tengla-hreyfingarinnar á sínum tíma (bls. 138) og margt fleira mætti tína til. Var í stjórn Prestafélags Íslands um tíma og sat á kirkjuþingi. Hann er mannúðarsinni, einlægur friðarsinni og blandar sér ekki í pólitík þó að hann sé augljóslega borgaralega þenkjandi. Karl eignast góða konu, Kristínu Þórdísi Guðjónsdóttur, og saman eignast þau þrjú börn. Hún var kletturinn í lífi hans.
Hann hóf prestsferil sinn í Vestmannaeyjum nokkru eftir gosið 1973 og þjónusta við eyjaskeggja sem dreifðir voru um hvippinn og hvappinn var ekki auðveld.
Í Hallgrímskirkju
Þjóðhátíðarárið 1974 er hann orðinn sóknarprestur í Hallgrímssókn í Reykjavík og er þar bæði farsæll í starfi og vinsæll. Hið mikla guðshús, Hallgrímskirkja, var vígt í sóknarpreststíð hans 26. október 1986. Það voru mikil tímamót og margra var minnst þegar þau gengu í garð. Það er einkar fagurt hjá Karli að minnast á fólk í minningabrotum sínum sem kom að kirkjubyggingunni með hljóðum hætti og nöfn þeirra væru löngu gleymd ef hann héldi þeim ekki á lofti í sögu sinni. Sem dæmi er sá verkamaður sem járnbatt alla Hallgrímskirkju og hafði unnið við kirkjuna frá því að fyrsta skóflustungan var tekin, Magnús Brynjólfsson. Sá ræddi persónur Íslendingasagnanna og kunni Passíusálmana (bls. 212). Fleira fólk sem unni Hallgrímskirkju og hafði sig lítt á oddi en vann fyrir kirkjuna nefnir hann af hlýju og þakklæti (t.d. bls. 238 og 239).
Sú tilfinning kom yfir lesanda þessara skrifa að þegar litið væri yfir þennan feril hafi það verið augljóst að þarna væri gott biskupsefni á ferð þegar að því kæmi. Menntun, reynsla og hæfileikar réðu þar að sjálfsögðu mestu. Enda fór það svo. Hann hlaut góða kosningu til þess embættis 1998 og gegndi því til 2012. Síðar varð hann prestur við Dómkirkjuna þar til formlegri starfsævi lauk.
Farsæll og vinsæll
Biskupsferill hans var farsæll þegar á heildina er litið en mörg erfið mál knúðu þar dyra og snerust kannski með öðrum hætti en hægt var að sjá fyrir um.
Hann var hugmyndaríkur og jákvæður prestur og biskup sem hvatti presta og söfnuði til dáða. Ýmsar nýjungar skrifast á hans nafn og kannski líka svila hans, sr. Bernharðs Guðmundssonar, eins og að koma nöfnum á aðventukertunum inn í íslenska menningu jólaföstunnar svo dæmi sé nefnt (bls. 66). Nú, þjóðkirkjumerkið sem nýlega var sett til hliðar fyrir annað nýtt, var hans hugmynd sem grafískur hönnuður útfærði svo. Kirkjudagar voru haldnir í Skólvörðuholti og voru vel sóttir. Þá var Kristnihátíðin haldin með pompi og prakt á Þingvöllum.
Kaldur skuggi
Mál Ólafs Skúlasonar áttu eftir að fylgja Karli sem kaldur skuggi. Fyrst í kirkjuráði þar sem Karl sat áður en hann varð biskup og Ólafur vildi að ráðið lýsti yfir sakleysi hans. Slíkt kom náttúrlega ekki til greina enda engar forsendur til þess (bls. 284). Þá voru haldnir fundir með konum sem höfðu ásakað Ólaf um kynferðisbrot (bls. 285). Mál voru afflutt að mati Karls (sem taldi sig vita hvaða prestar ættu þar í hlut) og lekið með ýmsum hætti til fjölmiðla. Ólafi hafi svo verið stillt upp sem sakamanni á prestastefnu 1996, hún var í Digraneskirkju, og „við prestarnir settir í stöðu kviðdóms. Það var afar ógeðfellt allt“ (bls. 286). Sá sem hér slær lyklaborð minnist vel þessa fundar og hversu hart var sótt að Ólafi. Hann stikaði stórum um gólf, rauðþrútinn í andliti og svitinn draup af honum og í eitt skipti ætlaði hann að rjúka á dyr en biskupsritari bannaði honum útgöngu. Sú saga sem þar var rakin af einum ræðumanna var allsvæsin svo ekki sé meira sagt og prestarnir sem á hlýddu vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Auk þess sem saga prestsins var höfð eftir móður hans og það gaf henni hugsanlega aukið vægi. Rétt er að þessi fundur ruglaði sennilega alla í ríminu. Líta má svo á að Ólafsmálin, sem svo voru stundum kölluð, hafi verið nokkurs konar herleiðing kirkjunnar. Þau voru alls staðar rædd í samfélaginu og bökuðu kirkjunni tjón. Fjöldi manna sagði sig úr kirkjunni. Fólk vatt sér hvar sem var að prestunum og vildi ræða málin og spyrja hvað viðkomandi héldi og þar fram eftir götunum. Sá tími var býsna einkennilegur í kirkjunni og flestir prestar voru á báðum áttum og vissu ekki hvernig ætti að taka á þessu máli. Sumir prestar töldu Ólaf sekan meðan aðrir litu á þetta sem aðför að honum. Enn aðrir vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Sjálfur neitaði Ólafur ætíð sök.
Urgur og stóryrði
Karl mat það svo á kirkjuþinginu 1998 að þeir sem beðið höfðu lægri hlut í biskupskosningu vildu láta hann „finna til tevatnsins“ (bls. 323) og að þingið hafi verið erfitt. Þá var á köflum undirbúningur Kristnihátíðar erfiður þar sem Karl fann til óvildar forsætisráðherrans, Davíðs Oddssonar í sinn garð. Karl hafði rætt í prédikun um græðgi, misskiptingu gæða og fátækt í samfélaginu sem Davíð var ósammála og svo bættist við „ólukkans smásagan“ (bls. 333) sem sr. Örn Bárður Jónsson skrifaði í Lesbók Morgunblaðsins og forsætisráðherrann taldi vera beint að sér. Karli lá þungt orð til Arnar Bárðar eftir þetta því að hann: „gerði allt sem hann gat til að afflytja mig og varð hetja í augum margra fyrir að þora að standa upp í hárinu á valdinu“ (bls. 335). Jafnréttiskærur vegna ráðninga í prestsembætti voru nokkrar í tíð Karls og sú sem hann tiltekur sérstaklega snerist um preststarf í London, þar var hann sýknaður af einum hluta málsins en fundinn sekur um jafnréttisbrot. Þetta mál var honum „þungbært“ og segir að það hafi verið rekið af „heift“ og lögmaður sækjanda og fjölmiðlar fóru „mikinn í persónulegum árásum sem voru vægast sagt af grófasta tagi“ (bls. 362).
Málefni samkynhneigðra tóku á sig ýmsar myndir. Karl segist hafa valið að taka „afstöðu með hefðinni á grunni hinnar kristnu, biblíulegu arfleifðar“ (bls. 401) en umræður í samfélaginu þróuðust í ýmsar áttir og mörg þung orð voru látin falla og sjálfur segir Kar af einlægni og heiðarlegum huga: „Ég iðrast margs sem ég sagði eða lét ósagt, gerði og lét ógert í þessum málum öllum, það veit Guð einn“ (bls. 401).
Ólund í fríkirkjum og ógleymanleg prédikun í Meðallandi
Jafnan hefur verið gott samband milli þjóðkirkjunnar og fríkirkjusafnaða. Breyting varð á því að mati Karls þegar prestar fríkirkjusafnaðanna í Reykjavík og Hafnarfirði fóru að vega að þjóðkirkjunni til að koma illu til leiðar og prestur Fríkirkjunnar í Reykjavík sagði að þjóðkirkjan væri „andkristileg og djöfulleg“ (bls. 376).
Þrátt fyrir framangreint mótlæti í starfi biskups voru ánægjustundirnar margar og eflaust fleiri þegar upp er staðið. Vel heppnaðar prestastefnur, til dæmis sú sem var Kirkjubæjarklaustri þar sem meðal annars faðir hans, sr. Sigurbjörn, flutti í Langholtskirkju í Meðallandi „prédikun sem aldrei gleymist þeim sem þar voru“ (bls. 319) sem er rétt – sá sem slær þessi orð inn var meðal hlustenda. Rómarferð, þar sem Karl og Kristín hittu Jóhannes Pál II. Kristnihátíð á Þingvöllum tókst frábærlega að mati Karls og var „ógleymanlegur atburður“ (bls. 337) enda mikill viðburður sem sr. Bernharður Guðmundsson (1937-2023) hélt um.
Hamfaraveður
Skuggi Ólafsmála átti eftir að knýja aftur dyra. Karl rekur þá atburðarás í kaflanum Hamfaraveður sem er kaflaheiti við hæfi. Hver viðburðurinn rak annan. Guðrún Ebba Ólafsdóttir sagði frá því að faðir sinn hefði misnotað hana kynferðislega, hún skrifaði svo bréf til biskups og minnisblað sem ekki var bókað „að svo stöddu þar sem það hafði að geyma mjög svo alvarlegar ásakanir á hendur látnum manni“ (bls. 393). Síðar fékk Guðrún Ebba áheyrn Kirkjuráðs en eftir það virðist sem málið hafi farið úr öllum böndum. Gífuryrði og ofstopi réðu för og má lesa úr orðum Karls að í raun hafi ekki verið ráðið neitt við neitt. Gagnrýni beindist sífellt meira að honum með auknum þunga, til dæmis var talið að hann hefði ekki svarað nægilega skýrt í Kastljósþætti hvort hann tryði konunum sem ásökuðu Ólaf, en hann sagðist ekki rengja orð þeirra og segir: „Ég vildi vera varfærinn í yfirlýsingum og dómum og taldi ekki hlutverk mitt að skera úr um sekt eða sakleysi. Ég harma það að það skuli hafa verið lögð önnur merking í viðbrögð mín. Sárast tekur það mig þó að hafa verið ásakaður um ósannindi, þöggun og óeðlileg afskipti af málum Ólafs biskups á sinni tíð“ (bls. 395). Niðurstaða í skýrslu Rannsóknarnefndar hreinsaði Karl af öllum þöggunartilburðum þótt fundið hefði verið að því að bréf Guðrúnar Ebbu hafi ekki verið skráð á sínum tíma og að dregist hafi að kalla hana til fundar.
Varnarrit biskups
Skiljanlegt er að Karl eyði þó nokkru rými í að lýsa afstöðu sinni í þessum málum og hreinsa orðspor sitt sem hann telur að hafi augljóslega laskast í allri umræðu um Ólafsmálin: „Það var þungbært að vera tortryggður, ásakaður um lygi og meingerð, skotspónn heitinga og rógburðar samþjóna sinna … Mér fannst ég standa einn og ærulaus.“ (bls. 398). Óneitanlega vaknar upp í huga lesanda sú spurning hvernig málin gátu þróast með þessum hætti? Og auðvitað er spurt: Hverjir voru þetta sem snerust gegn sr. Karli? Hrópuðu og öskruðu á hann „með heitingum og hatursorðum í nafni kærleikans“ og kröfðust afsagnar hans (bls. 398-399). Hvaða kafla í kirkjusögu var verið að skrá þarna? Biskupinn var: „andlega og líkamlega örþreyttur“ (bls. 402).
Lætur af biskupsembætti og snýr sér að öðru
Haustið 2011 kom út bók Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur þar sem hún sagði frá misnotkun föður síns. Bókin varð umtöluð og segir Karl að fjölmiðlar hafi borið áfram kröfuna um að hann viki úr biskupsembætti, Ýmsir prestar tóku undir kröfuna um afsögn hans. Málið lagðist með ofurþunga á hann og í umræðunni dugðu engin rök. Orðin sem taka saman líðan hans og þessa sögu eru beisk:
„Ég gerði þau mistök að sinna skyldu minni og gæta forms og svara af varfærni. Fyrir það var ég dæmdur og úthrópaður af samstarfsfólki, allt sem ég sagði og gerði mistúlkað og úthrópað af vinum, vígsluþegum, fólki sem ég hafði metið mikils og treyst og borið á bænarörmum“ (bls. 399).
Karl lét af biskupsembætti 2012 og þá 65 ára að aldri. Eflaust hefur hann verið feginn þó að hann hefði sennilega kosið að málum lyki með öðrum hætti. En svona var það nú einu sinni.
Hann sneri sér að öðrum málum og kom meðal annars að endurstofnun Skálholtsfélagsins hins nýja. Mestu máli skipti þó að hann tók að þjóna við Dómkirkjuna 2013 og stóð þá vakt til 2017 og segir um það: „Okkur hjónum finnst það hafa verið einhver besti tími starfsævinnar“ (bls. 417). Ritstörfin áttu sömuleiðis huga hans, hann þýddi bækur og tók saman prédikanasafn.
Alvarleg veikindi knúðu dyra hjá Karli 2017, krabbamein. Hann ræðir það af mikilli yfirvegun og visku (bls. 424–431) sem geta örugglega verið mörgum sem glíma við þennan sjúkdóm mikil hjálp og sjálfsagt að benda á þennan kafla.
Sr. Karl Sigurbjörnsson lést 12. febrúar 2024. Hann var fæddur f. febrúar 1947.
Ekkja sr. Karls, Kristín Þórdís Guðjónsdóttir, ritar lokaorð bókarinnar og þar segir meðal annars: „Það er einlæg von mín að þessi minningabrot varpi nokkru ljósi á hvað mótaði hann sjálfan og hvað hann tókst á við í lífi sínu og starfi. Ég er þakklát Guði fyrir að við áttum þessa lífsgöngu saman sem hjón, foreldrar, amma og afi“ (bls. 434).
Niðurstaða:
Hlýleg og ljóðræn ævisaga, firnavel skrifuð, þar sem farið er með gagnyrtum hætti og ákveðnum yfir allt sviðið af einlægni og ekkert dregið undan. Hann lýsir gleði sinni með lífið, fjölskylduna og kirkjuna en jafnframt vonbrigðum þegar vegið var illilega að honum af fólki innan kirkju sem utan og hann ber hönd fyrir höfuð sér og að því leyti er sagan varnarrit. Hann kemur sjónarmiðum sínum að í grafalvarlegum álitamálum í biskupstíð hans en þau voru afflutt að hans mati þegar orrahríðin gekk yfir.
Sr. Karl Sigurbjörnsson var að mörgu leyti afar vel undir það búinn að taka við biskupsembættinu og sinnti því með sóma en fyrst og fremst var hann heiðarlegur kirkjumaður og hans verður minnst sem kröftugs prédikara sem náði eyrum nútímamanna.
Sem prentgripur er bókin vel úr garði gerð. Letur er skýrt og læsilegt, fjöldi mynda styður við meginmál og svo eru litmyndir aftast í bókinni og nafnaskrá.
Karl Sigurbjörnsson, Skrifað í sand – Minningabrot, Veröld, 445 bls.





