Hvernig sem viðrar yfir sumarið hér á landi þá er næsta víst að margir bókaútgefendur stökkvi fram og auglýsi sumarsmell. Þeir smellir geta verið býsna ólíkir. Sumir eru sterkir og hljómfagrir en aðrir daufir og falskir. Enn aðrir heyrast ekki.
Á vegi Kirkjublaðsins.is varð bókin Morð og messufall eftir tvær ungar konur, Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur. Mál og menning gefur út. Hvort bókin var auglýst sem sumarsmellur eða ekki skiptir ekki máli – og er svo sem ekki vitað. Eftir að hafa lesið bókina var ljóst að ef einhver bók er sumarsmellur þá var það þessi bók.
En hvað er sumarsmellur í bókabransanum? Svarið er einfalt: Góð bók, hressilega, sem ilmar af einhverju nýju eins og sumarið, kemur lesanda til að brosa og hlæja, léttir brún en þó ekki með neinni vitleysu. Hún er jarðbundin í ferskleika sínum og sumarærslum. Vekur lesendur til umhugsunar um samfélagið og fjölbreytileika þess án þess að keyra hann í kaf. Það er sumarsmellur. Og þannig bók er Morð og messufall.
Titillinn er náttúrlega stórskemmtilegur út af fyrir sig og vekur strax athygli. Vettvangur sögunnar snýst um fólk sem starfar í kirkju í borginni og hvernig það bregst við óvenjulegum atvikum svo ekki sé meira sagt – í lífi og starfi. Það er góð hugmynd að láta söguþráðinn spinnast í kringum til þess að gera nýbyggða kirkju sem hefur verið kastað til höndunum við að reisa. Að minnsta kosti lekur hún hressilega enda kannski fátt pottþétt í nútímanum. Til starfa kemur ung kona með guðfræðipróf. Hún er einstæð móðir, rösk og úrræðagóð. Leysir vel úr samskiptum við sóknarprestinn sem er vænsti karl en durgur og vanur því að konur stjani í kringum hann. Síðan er teflt fram á taflborð hins hversdagslega lífs persónum og leikendum um leið og söguþráðurinn er spunninn af nokkrum hraða, gáska og alvöru. Já, og stundum með hugljúfum ævintýrablæ sem gengur alveg upp því að lífið er stundum – kannski alltaf? – ævintýri. Samfélagið er í raun dregið fram á sviðið í kringum kirkjuna sem er þegar öllu er á botninn hvolft hús mannlífsins: áfengisvandi, tvöfeldni, sjálfsblekking, kærleikur, metnaður til góðra verka, heiðarleiki, hin eilífa hamingjuleit, hirðuleysi í uppeldi, sjálfsvíg eða ekki sjálfsvíg, kannski bara dánaraðstoð, gamlar sorgir, og mitt í öllu stendur aðalpersónan eins og klettur, hin sterka kona í kirkjunni.
Öll þau stef sem skjóta upp kolli í bókinni eru endurspeglun á því sem gerist á vettvangi dagsins í lífi mjög margra – með ýmsum tilbrigðum. Þess vegna væri þessi bók, Morð og messufall, upplögð handa leshringjum í söfnuðum landsins. Safnaðarlíf, samskipti, kirkju og samfélag, hlutverk og stöðu kirkjunnar, er sannarlega hægt að ræða út frá efni bókarinnar. Kirkjublaðið.is skorar á söfnuði að stofna til leshringja um bókina og ræða stef hennar af hispursleysi.
Það er stórskemmtileg frásögn í lokin hvernig konan unga, guðfræðingurinn, hún Sif, verður vígð til þjónustu í Dómkirkjunni í Reykjavík. Einhverjir svartstakkar, sem svo voru eitt sinn nefndir hvort sem þeir voru og eru nú til eða ekki, fá sennilega nett áfall – eða þurfa áfallahjálp að lestri loknum. Starfandi Handbókanefnd þjóðkirkjunnar ætti að skoða þetta skyndivígsluform og skjóta því kannski inn í handbókina sem vígsluformi í viðlögum.
Niðurstaða:
Morð og messufall eftir þær Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur er margra stjörnu bók og hittir beint í mark á þessu sumri – og komandi hausti. Söguþráðurinn er rösklegur, fullur af gáska og alvöru, ýmsum uppákomum sem eru ekkert ótrúlegri en þær sem verða í lífinu sjálfu, samskiptum milli fólks sem mættu vera betri; lestur bókarinnar getur aukið á skilning í samskiptum og færni sé aðalpersóna tekin til fyrirmyndar. Bókin er hvort tveggja í senn, skemmtilesning og samfélagsspegill – höfundum tekst framúrskarandi vel að koma því til skila að lífið er dásamlegt þrátt fyrir alls konar sálfræðilegar fjallabaksleiðir ættingja og vina.
Morð og messufell, eftir Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadótturútg. Útg. Mál og menning, 304 bls.
Hvernig sem viðrar yfir sumarið hér á landi þá er næsta víst að margir bókaútgefendur stökkvi fram og auglýsi sumarsmell. Þeir smellir geta verið býsna ólíkir. Sumir eru sterkir og hljómfagrir en aðrir daufir og falskir. Enn aðrir heyrast ekki.
Á vegi Kirkjublaðsins.is varð bókin Morð og messufall eftir tvær ungar konur, Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur. Mál og menning gefur út. Hvort bókin var auglýst sem sumarsmellur eða ekki skiptir ekki máli – og er svo sem ekki vitað. Eftir að hafa lesið bókina var ljóst að ef einhver bók er sumarsmellur þá var það þessi bók.
En hvað er sumarsmellur í bókabransanum? Svarið er einfalt: Góð bók, hressilega, sem ilmar af einhverju nýju eins og sumarið, kemur lesanda til að brosa og hlæja, léttir brún en þó ekki með neinni vitleysu. Hún er jarðbundin í ferskleika sínum og sumarærslum. Vekur lesendur til umhugsunar um samfélagið og fjölbreytileika þess án þess að keyra hann í kaf. Það er sumarsmellur. Og þannig bók er Morð og messufall.
Titillinn er náttúrlega stórskemmtilegur út af fyrir sig og vekur strax athygli. Vettvangur sögunnar snýst um fólk sem starfar í kirkju í borginni og hvernig það bregst við óvenjulegum atvikum svo ekki sé meira sagt – í lífi og starfi. Það er góð hugmynd að láta söguþráðinn spinnast í kringum til þess að gera nýbyggða kirkju sem hefur verið kastað til höndunum við að reisa. Að minnsta kosti lekur hún hressilega enda kannski fátt pottþétt í nútímanum. Til starfa kemur ung kona með guðfræðipróf. Hún er einstæð móðir, rösk og úrræðagóð. Leysir vel úr samskiptum við sóknarprestinn sem er vænsti karl en durgur og vanur því að konur stjani í kringum hann. Síðan er teflt fram á taflborð hins hversdagslega lífs persónum og leikendum um leið og söguþráðurinn er spunninn af nokkrum hraða, gáska og alvöru. Já, og stundum með hugljúfum ævintýrablæ sem gengur alveg upp því að lífið er stundum – kannski alltaf? – ævintýri. Samfélagið er í raun dregið fram á sviðið í kringum kirkjuna sem er þegar öllu er á botninn hvolft hús mannlífsins: áfengisvandi, tvöfeldni, sjálfsblekking, kærleikur, metnaður til góðra verka, heiðarleiki, hin eilífa hamingjuleit, hirðuleysi í uppeldi, sjálfsvíg eða ekki sjálfsvíg, kannski bara dánaraðstoð, gamlar sorgir, og mitt í öllu stendur aðalpersónan eins og klettur, hin sterka kona í kirkjunni.
Öll þau stef sem skjóta upp kolli í bókinni eru endurspeglun á því sem gerist á vettvangi dagsins í lífi mjög margra – með ýmsum tilbrigðum. Þess vegna væri þessi bók, Morð og messufall, upplögð handa leshringjum í söfnuðum landsins. Safnaðarlíf, samskipti, kirkju og samfélag, hlutverk og stöðu kirkjunnar, er sannarlega hægt að ræða út frá efni bókarinnar. Kirkjublaðið.is skorar á söfnuði að stofna til leshringja um bókina og ræða stef hennar af hispursleysi.
Það er stórskemmtileg frásögn í lokin hvernig konan unga, guðfræðingurinn, hún Sif, verður vígð til þjónustu í Dómkirkjunni í Reykjavík. Einhverjir svartstakkar, sem svo voru eitt sinn nefndir hvort sem þeir voru og eru nú til eða ekki, fá sennilega nett áfall – eða þurfa áfallahjálp að lestri loknum. Starfandi Handbókanefnd þjóðkirkjunnar ætti að skoða þetta skyndivígsluform og skjóta því kannski inn í handbókina sem vígsluformi í viðlögum.
Niðurstaða:
Morð og messufall eftir þær Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur er margra stjörnu bók og hittir beint í mark á þessu sumri – og komandi hausti. Söguþráðurinn er rösklegur, fullur af gáska og alvöru, ýmsum uppákomum sem eru ekkert ótrúlegri en þær sem verða í lífinu sjálfu, samskiptum milli fólks sem mættu vera betri; lestur bókarinnar getur aukið á skilning í samskiptum og færni sé aðalpersóna tekin til fyrirmyndar. Bókin er hvort tveggja í senn, skemmtilesning og samfélagsspegill – höfundum tekst framúrskarandi vel að koma því til skila að lífið er dásamlegt þrátt fyrir alls konar sálfræðilegar fjallabaksleiðir ættingja og vina.
Morð og messufell, eftir Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadótturútg. Útg. Mál og menning, 304 bls.