Ófærðin í kjölfar mikillar snjókomu á síðustu dögum kom flatt upp á marga. Morgunninn sem heilsaði landanum var drifhvítur og snjórinn hafði lagst yfir af fullum þunga og gerði sér engan mannamun. Öll smáatriði lífsins riðluðust og líka þau hin sem skipta meira máli. Í loftinu lá að vetur konungur yrði kærður fyrir ósvífna aðför að samfélaginu skömmu fyrir jól.
Gott er að spyrja sig á hverjum morgni: Hvað á ég að gera við þennan dag? Hvort sem hann er snjóþungur eða snjóléttur. Það er dagur þrátt fyrir allt. Hann er dýrmætur því að þegar þessi sami dagur er að kvöldi kominn þá kemur hann aldrei aftur. Hann er farinn og allt það sem fylgdi honum verður okkur minning sem er ýmist kær eða ekki. Minning sem við bjuggum til í félagi við aðrar manneskjur. Minningar sem okkur voru gefnar.
Morgunn er nýtt upphaf – þá rís manneskjan upp oftast hvíld og endurnærð. Þessi undarlega vera með höfuð og hendur – með hugsun og vilja. Nóttin er að baki og þetta dularfulla fyrirbæri, svefninn, sem fornmenn sögðu vera bróður dauðans, hefur sleppt ljúfu taki sínu. Enn einn ferðadagur á lífsins vegi tekur við. Kannski er ganga okkar þennan dag spennandi og gefandi. Eða ganga um kletta og klungur, eftir dimmum stíg og varasömum. Vonandi er ganga okkar allra nokkuð létt í þetta sinnið – aðventuganga með uppljómuð hús og götur á báðar hendur.
Samferðamenn okkar á lífsgöngunni eru okkur oftast miklir gleðigjafar en stundum reyndar líka þolraun. Hvað er þá til ráða? Umburðarlyndi og skilningur. Aðventuhugur, þar sem hvert lítið góðverk er eins og eitthvað sem við læðumst með út í sálarglugga náungans og látum í skóinn hans.
Sjaldan vinna manneskjur stórvirki á einum degi enda ekki heldur til þess ætlast. En þær vinna hins vegar að því smáa í lífinu – og til þess er nefnilega ætlast – lífið er samsett úr aragrúa smáatriða sem gefa okkur heillega mynd þegar búið er að raða þeim saman. Hvert smáatriði er mikilvægt út af fyrir sig á sama hátt og hver og ein manneskja er mikilvæg út af fyrir sig í spilverki lífsins. Án einhvers smáatriðis væri sem eitthvað vantaði í lífið – eins og einn lágvær flaututónn úr einfaldri tréflautu getur gert eitt tónverk að ódauðlegu meistarastykki þá gildir hið sama um smáatriði lífsins. Veikburða og stakur tónn flautunnar er kannski aumur í eyrum einhverra en í samfélagi tónanna hljómar tilgangur hans. Oft viljum við horfa fram hjá þessum smáatriðum og virðum þau ekki mikils – saman komin í eina heild upplýkst tilgangur þeirra.
Hver eru þessi smáatriði lífsins sem hver dagur færir okkur að morgni? Allt þetta hversdagslega sem er hollt að hugsa til með kærleika og þakklæti – opna hugann og bjóða fram hlýjan faðminn í stað þess að saga í sundur sæstreng sálarinnar og ræsa frystikerfi hugans með einelti og óvild.
Nú er daginn tekið að lengja. Vetrarsólstöður að baki – reyndar ekki langt að baki! Dagar ljóssins og jólagleðinnar ganga í garð. Allt það hversdagslega víkur um stund. Öll smáatriði lífsins renna saman í eina stóra bjarta mynd sem þokar myrkrinu úr svörtu bjargi næturinnar. Ljósið flæðir yfir svið lífsins og kristin manneskja bindur þetta ljós við meistarann frá Nasaret sem gefur henni tilgang og bjartsýni í viðsjárverðum heimi.
Og allt þetta fólk í kringum þig, hver þeirra er sem ævintýri og veröld út af fyrir sig. Öll smæstu atriði í fari hvers og eins raðast saman í eina heild: fjölskyldu og vini. Saman er genginn einn vegur, vegur trúar og kærleika, umburðarlyndis og skilnings. Eftir þessum vegum ferðumst við svo á komandi ári til hvers annars og náungans. Aksturinn gengur yfirleitt vel – stundum lendum við úti í skurði eða förum yfir á rauðu ljósi. En við gefumst ekki upp. Og þegar snjór leggst yfir þá tökum við skóflu í hönd.
Hver dagur er gjöf. Þú átt hann. Skiptir ekki máli hvort hann er snjóþungur eða léttur.
Hvað ætlarðu að gera við hann? Og allt safn daganna sem líf býður upp? Á það ekki að vera lifandi safn?
Við þökkum fyrir daginn – hverjum?
Ófærðin í kjölfar mikillar snjókomu á síðustu dögum kom flatt upp á marga. Morgunninn sem heilsaði landanum var drifhvítur og snjórinn hafði lagst yfir af fullum þunga og gerði sér engan mannamun. Öll smáatriði lífsins riðluðust og líka þau hin sem skipta meira máli. Í loftinu lá að vetur konungur yrði kærður fyrir ósvífna aðför að samfélaginu skömmu fyrir jól.
Gott er að spyrja sig á hverjum morgni: Hvað á ég að gera við þennan dag? Hvort sem hann er snjóþungur eða snjóléttur. Það er dagur þrátt fyrir allt. Hann er dýrmætur því að þegar þessi sami dagur er að kvöldi kominn þá kemur hann aldrei aftur. Hann er farinn og allt það sem fylgdi honum verður okkur minning sem er ýmist kær eða ekki. Minning sem við bjuggum til í félagi við aðrar manneskjur. Minningar sem okkur voru gefnar.
Morgunn er nýtt upphaf – þá rís manneskjan upp oftast hvíld og endurnærð. Þessi undarlega vera með höfuð og hendur – með hugsun og vilja. Nóttin er að baki og þetta dularfulla fyrirbæri, svefninn, sem fornmenn sögðu vera bróður dauðans, hefur sleppt ljúfu taki sínu. Enn einn ferðadagur á lífsins vegi tekur við. Kannski er ganga okkar þennan dag spennandi og gefandi. Eða ganga um kletta og klungur, eftir dimmum stíg og varasömum. Vonandi er ganga okkar allra nokkuð létt í þetta sinnið – aðventuganga með uppljómuð hús og götur á báðar hendur.
Samferðamenn okkar á lífsgöngunni eru okkur oftast miklir gleðigjafar en stundum reyndar líka þolraun. Hvað er þá til ráða? Umburðarlyndi og skilningur. Aðventuhugur, þar sem hvert lítið góðverk er eins og eitthvað sem við læðumst með út í sálarglugga náungans og látum í skóinn hans.
Sjaldan vinna manneskjur stórvirki á einum degi enda ekki heldur til þess ætlast. En þær vinna hins vegar að því smáa í lífinu – og til þess er nefnilega ætlast – lífið er samsett úr aragrúa smáatriða sem gefa okkur heillega mynd þegar búið er að raða þeim saman. Hvert smáatriði er mikilvægt út af fyrir sig á sama hátt og hver og ein manneskja er mikilvæg út af fyrir sig í spilverki lífsins. Án einhvers smáatriðis væri sem eitthvað vantaði í lífið – eins og einn lágvær flaututónn úr einfaldri tréflautu getur gert eitt tónverk að ódauðlegu meistarastykki þá gildir hið sama um smáatriði lífsins. Veikburða og stakur tónn flautunnar er kannski aumur í eyrum einhverra en í samfélagi tónanna hljómar tilgangur hans. Oft viljum við horfa fram hjá þessum smáatriðum og virðum þau ekki mikils – saman komin í eina heild upplýkst tilgangur þeirra.
Hver eru þessi smáatriði lífsins sem hver dagur færir okkur að morgni? Allt þetta hversdagslega sem er hollt að hugsa til með kærleika og þakklæti – opna hugann og bjóða fram hlýjan faðminn í stað þess að saga í sundur sæstreng sálarinnar og ræsa frystikerfi hugans með einelti og óvild.
Nú er daginn tekið að lengja. Vetrarsólstöður að baki – reyndar ekki langt að baki! Dagar ljóssins og jólagleðinnar ganga í garð. Allt það hversdagslega víkur um stund. Öll smáatriði lífsins renna saman í eina stóra bjarta mynd sem þokar myrkrinu úr svörtu bjargi næturinnar. Ljósið flæðir yfir svið lífsins og kristin manneskja bindur þetta ljós við meistarann frá Nasaret sem gefur henni tilgang og bjartsýni í viðsjárverðum heimi.
Og allt þetta fólk í kringum þig, hver þeirra er sem ævintýri og veröld út af fyrir sig. Öll smæstu atriði í fari hvers og eins raðast saman í eina heild: fjölskyldu og vini. Saman er genginn einn vegur, vegur trúar og kærleika, umburðarlyndis og skilnings. Eftir þessum vegum ferðumst við svo á komandi ári til hvers annars og náungans. Aksturinn gengur yfirleitt vel – stundum lendum við úti í skurði eða förum yfir á rauðu ljósi. En við gefumst ekki upp. Og þegar snjór leggst yfir þá tökum við skóflu í hönd.
Hver dagur er gjöf. Þú átt hann. Skiptir ekki máli hvort hann er snjóþungur eða léttur.
Hvað ætlarðu að gera við hann? Og allt safn daganna sem líf býður upp? Á það ekki að vera lifandi safn?
Við þökkum fyrir daginn – hverjum?