Í dag verður gerð útför séra Karls Sigurbjörnssonar, biskups. Hann var fæddur í Reykjavík 5. febrúar 1947 og lést 12. febrúar sl. Hann gegndi embætti biskups Íslands árin 1998-2012.

Þjóðkirkjan sér á bak öflugum liðsmanni sem boðaði fagnaðarerindi kristinnar trúar allt til hinsta dags svo að segja.

Sr. Karl var einstaklega áheyrilegur prédikari. Þó að röddin væri eilítið hrjúf þá var hún skýr og blæbrigðarík. Segja má að hann hafi kunnað að beita rödd sinni með áhrifaríkum hætti svo að framsögn hans var eftirminnilegri fyrir vikið. Hann var aldrei eintóna frekar en það efni sem hann samdi og flutti. Prédikanir hans voru áhrifamiklar og hann hafði gott lag á því að tala inn í aðstæður þjóðarinnar og einstaklinga. Hann var óþreytandi í boðun sinni og flutti um tíma myndbandshugleiðingar á Feisbók heiman úr stofu sinni. Það voru stuttar hugleiðingar en hnitmiðaðar og náðu til mörg þúsund manna. Þær vöktu verðskulduga athygli og sýndu framsýni hans og dugnað. Þar fór kristinn maður með djúpan skilning á aðstæðum manneskjunnar og einlægan vilja til að setja sig inn í aðstæður fólks.

En hann var ekki einungis málsnjall heldur og ritfær í besta lagi. Texti hans er lipur og kjarnyrtur, auðlesinn og fallegur. Hann var mjög svo fundvís á snjöll vísdómsorð og sögur sem fóru vel í rituðu máli hans sem og mæltu. Þess vegna var ætíð ánægjulegt að hlýða á hann sem og lesa það sem hann lét frá sér fara. Lesandinn fann að þar var maður sem brann fyrir því sem honum stóð hjarta næst sem var trúin og boðskapur hennar. Þessi trúarlegi eldmóður smitaði frá sér og margir löðuðust að trúnni vegna áhrifa hans og einlægni í allri boðuninni. Sr. Karl lætur eftir sig fjölda rita sem munu varðveita nafn hans meðal kristinna safnaða um ókomin ár.

Sr. Karl var einkar ljúfmannlegur í allri framgöngu. Brosmildur og glaðvær, kíminn og velviljaður fólki.

Hann sómdi sér vel sem biskup þó að á ýmsu gengi í biskupstíð hans. Trúr allri kirkjuhefð en bryddaði þó upp á ýmsum eftirtektarverðum nýjungum enda frjór í hugsun og skapandi. Kirkjudagar sem haldnir voru í tvígang skömmu eftir aldamótin endurspegluðu vel þá kirkju sem hann fór fyrir og hina miklu bjartsýni sem einkenndi huga hans og verk.

Kirkjublaðið.is kveður sr. Karl Sigurbjörnsson með virðingu og þökk. Guð blessi minningu hans og ástvini alla.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Í dag verður gerð útför séra Karls Sigurbjörnssonar, biskups. Hann var fæddur í Reykjavík 5. febrúar 1947 og lést 12. febrúar sl. Hann gegndi embætti biskups Íslands árin 1998-2012.

Þjóðkirkjan sér á bak öflugum liðsmanni sem boðaði fagnaðarerindi kristinnar trúar allt til hinsta dags svo að segja.

Sr. Karl var einstaklega áheyrilegur prédikari. Þó að röddin væri eilítið hrjúf þá var hún skýr og blæbrigðarík. Segja má að hann hafi kunnað að beita rödd sinni með áhrifaríkum hætti svo að framsögn hans var eftirminnilegri fyrir vikið. Hann var aldrei eintóna frekar en það efni sem hann samdi og flutti. Prédikanir hans voru áhrifamiklar og hann hafði gott lag á því að tala inn í aðstæður þjóðarinnar og einstaklinga. Hann var óþreytandi í boðun sinni og flutti um tíma myndbandshugleiðingar á Feisbók heiman úr stofu sinni. Það voru stuttar hugleiðingar en hnitmiðaðar og náðu til mörg þúsund manna. Þær vöktu verðskulduga athygli og sýndu framsýni hans og dugnað. Þar fór kristinn maður með djúpan skilning á aðstæðum manneskjunnar og einlægan vilja til að setja sig inn í aðstæður fólks.

En hann var ekki einungis málsnjall heldur og ritfær í besta lagi. Texti hans er lipur og kjarnyrtur, auðlesinn og fallegur. Hann var mjög svo fundvís á snjöll vísdómsorð og sögur sem fóru vel í rituðu máli hans sem og mæltu. Þess vegna var ætíð ánægjulegt að hlýða á hann sem og lesa það sem hann lét frá sér fara. Lesandinn fann að þar var maður sem brann fyrir því sem honum stóð hjarta næst sem var trúin og boðskapur hennar. Þessi trúarlegi eldmóður smitaði frá sér og margir löðuðust að trúnni vegna áhrifa hans og einlægni í allri boðuninni. Sr. Karl lætur eftir sig fjölda rita sem munu varðveita nafn hans meðal kristinna safnaða um ókomin ár.

Sr. Karl var einkar ljúfmannlegur í allri framgöngu. Brosmildur og glaðvær, kíminn og velviljaður fólki.

Hann sómdi sér vel sem biskup þó að á ýmsu gengi í biskupstíð hans. Trúr allri kirkjuhefð en bryddaði þó upp á ýmsum eftirtektarverðum nýjungum enda frjór í hugsun og skapandi. Kirkjudagar sem haldnir voru í tvígang skömmu eftir aldamótin endurspegluðu vel þá kirkju sem hann fór fyrir og hina miklu bjartsýni sem einkenndi huga hans og verk.

Kirkjublaðið.is kveður sr. Karl Sigurbjörnsson með virðingu og þökk. Guð blessi minningu hans og ástvini alla.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir