Margir hafa það fyrir venju að koma saman og ræða mál líðandi stundir. Hvort heldur á kaffihúsi eða á vinnustöðum. Já, og í heita pottinum – eða þá bara heima við eldhúsborðið. Af nógu er að taka eins og öllum er kunnugt um.

Í einum slíkum spjallhópi fóru menn yfir málin, og stöldruðu við helstu fréttir, bæði innanlands sem  utan. Ekki þarf mörg orð um hvað helst er efst á baugi hverju sinni. Úkraína – og stríðshörmungarnar þar. Heimsmeistarakeppnin í Katar – sumir glaðir og aðrir með samviskubit. Já, Biden, hvernig hefur hann það annars? Og hvað með lekamálin? Búið að semja? Þannig mætti lengi telja. Fréttnæmt er helst það sem aflaga fer í heiminum og í lífi manna.

Þetta var orðinn nokkuð löng raunaþula hjá þessum ágætu mönnum sem spjölluðu saman – og ill tíðindi veraldar búin að skyggja fyrir sólu í sinni þeirra – enda ekki nema von þar sem þrautir heims og manns á stundum þyngri en tárum taki.

Einn mannanna sagði síðan þegar djúp þögn hvíldi yfir þunglyndislegum svip félaga hans, að hann væri samt sem áður bjartsýnismaður. Félagar hans horfðu um stund á hann, svipbrigðalausir, og virtist jafnvel að sumir hefðu ekki heyrt hvað hann sagði. Eða kannski vildu þeir ekki heyra það – gátu það jafnvel ekki.

Bjartsýnismaður. Það var og. Engin viðbrögð voru sjáanleg. Það var eins og hann hefði talað út í tómið. En þá sagði einn félaganna lágum rómi eftir drykklanga stund, svo vart heyrðist: „Hvers vegna eru augu þín þá svona áhyggjufull?“

Nú er það svo að okkur öllum er innrætt frá blautu barnsbeini nokkur bjartsýni. Hún  á að  vera eins konar mótvægi gegn öllum bölmóði veraldar sem hvarvetna getur að líta. Helst vildum við að heimurinn væri öðruvísi en hann er. Við vildum að engar væru hörmungarnar í heiminum, hvorki meðal þjóða eða einstaklinga. Við vildum í raun og veru annan heim, ekki þennan sem við lifum í. Eða þennan heim breyttan. En engu að síður viljum við leggja okkar lóð á vogarskálar friðar og samvinnu, sátta og umburðarlyndis.

Andspænis þessu getur bjartsýnn maður engu að síður haft áhyggjur og jafnvel fyllst uppgjöf. Ekki breytir hann gangi heimsmálanna? Gerir hann nóg á sínum heimavelli til að stuðla að betra lífi? Og stendur hann rétt að verki?

Sem betur fer hafa á öllum  tímum verið uppi bjartsýnismenn, sem einlæglega hafa vonað, að allt sem aflaga fer komist í lag. Fyrr eða síðar. Átt von, bjartsýni og trú. Horft fram á veg og þorað að skoða líðandi stund með gagnrýnum augum og kærleiksríkum.

Svo er það aðventan. Hún er líka í fréttunum.

Aðventa er tími bjartsýninnar og ætti kannski að vera fyrsta umræðuefni dagsins þegar myrkrið er hvað svartast. Bjartsýni getur nefnilega verið sterkari en hvaða jólaljós sem er.

Kannski ertu aðventumaður? Eða aðventukona? Aðventubarn?

Aðventa er tími bjartsýninnar vegna þess að meistarinn frá Nasaret er á leiðinni til manna með táknrænum hætti. Í kærleika og umhyggju sem hann réttir að okkur svo að við getum borið þau aðventuljós til annarra. Til þeirra sem búa við skort hvort heldur hann er nú af andlegum toga eða hversdagslegum. Líf frá einni stundu til annarrar, frá einum degi til annars.

Bjartsýn augu hans horfa til okkar í öllum þeim sem minna mega sín.

Kannski er það ég. Eða þú. Við. Ekki ósennilegt. Eitthvert okkar.

Þá er ekki ónýtt að eiga aðventuna.

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Margir hafa það fyrir venju að koma saman og ræða mál líðandi stundir. Hvort heldur á kaffihúsi eða á vinnustöðum. Já, og í heita pottinum – eða þá bara heima við eldhúsborðið. Af nógu er að taka eins og öllum er kunnugt um.

Í einum slíkum spjallhópi fóru menn yfir málin, og stöldruðu við helstu fréttir, bæði innanlands sem  utan. Ekki þarf mörg orð um hvað helst er efst á baugi hverju sinni. Úkraína – og stríðshörmungarnar þar. Heimsmeistarakeppnin í Katar – sumir glaðir og aðrir með samviskubit. Já, Biden, hvernig hefur hann það annars? Og hvað með lekamálin? Búið að semja? Þannig mætti lengi telja. Fréttnæmt er helst það sem aflaga fer í heiminum og í lífi manna.

Þetta var orðinn nokkuð löng raunaþula hjá þessum ágætu mönnum sem spjölluðu saman – og ill tíðindi veraldar búin að skyggja fyrir sólu í sinni þeirra – enda ekki nema von þar sem þrautir heims og manns á stundum þyngri en tárum taki.

Einn mannanna sagði síðan þegar djúp þögn hvíldi yfir þunglyndislegum svip félaga hans, að hann væri samt sem áður bjartsýnismaður. Félagar hans horfðu um stund á hann, svipbrigðalausir, og virtist jafnvel að sumir hefðu ekki heyrt hvað hann sagði. Eða kannski vildu þeir ekki heyra það – gátu það jafnvel ekki.

Bjartsýnismaður. Það var og. Engin viðbrögð voru sjáanleg. Það var eins og hann hefði talað út í tómið. En þá sagði einn félaganna lágum rómi eftir drykklanga stund, svo vart heyrðist: „Hvers vegna eru augu þín þá svona áhyggjufull?“

Nú er það svo að okkur öllum er innrætt frá blautu barnsbeini nokkur bjartsýni. Hún  á að  vera eins konar mótvægi gegn öllum bölmóði veraldar sem hvarvetna getur að líta. Helst vildum við að heimurinn væri öðruvísi en hann er. Við vildum að engar væru hörmungarnar í heiminum, hvorki meðal þjóða eða einstaklinga. Við vildum í raun og veru annan heim, ekki þennan sem við lifum í. Eða þennan heim breyttan. En engu að síður viljum við leggja okkar lóð á vogarskálar friðar og samvinnu, sátta og umburðarlyndis.

Andspænis þessu getur bjartsýnn maður engu að síður haft áhyggjur og jafnvel fyllst uppgjöf. Ekki breytir hann gangi heimsmálanna? Gerir hann nóg á sínum heimavelli til að stuðla að betra lífi? Og stendur hann rétt að verki?

Sem betur fer hafa á öllum  tímum verið uppi bjartsýnismenn, sem einlæglega hafa vonað, að allt sem aflaga fer komist í lag. Fyrr eða síðar. Átt von, bjartsýni og trú. Horft fram á veg og þorað að skoða líðandi stund með gagnrýnum augum og kærleiksríkum.

Svo er það aðventan. Hún er líka í fréttunum.

Aðventa er tími bjartsýninnar og ætti kannski að vera fyrsta umræðuefni dagsins þegar myrkrið er hvað svartast. Bjartsýni getur nefnilega verið sterkari en hvaða jólaljós sem er.

Kannski ertu aðventumaður? Eða aðventukona? Aðventubarn?

Aðventa er tími bjartsýninnar vegna þess að meistarinn frá Nasaret er á leiðinni til manna með táknrænum hætti. Í kærleika og umhyggju sem hann réttir að okkur svo að við getum borið þau aðventuljós til annarra. Til þeirra sem búa við skort hvort heldur hann er nú af andlegum toga eða hversdagslegum. Líf frá einni stundu til annarrar, frá einum degi til annars.

Bjartsýn augu hans horfa til okkar í öllum þeim sem minna mega sín.

Kannski er það ég. Eða þú. Við. Ekki ósennilegt. Eitthvert okkar.

Þá er ekki ónýtt að eiga aðventuna.

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?