Bókin Mótbyr í Ólafsvík – Meðbyr í Ólafsfirði, kom út í desember síðastliðnum. Höfundur hennar er Atli Rúnar Halldórsson, blaðamaður og fyrrum fréttamaður á Ríkisútvarpinu. Útgefandi bókarinnar er Svarfdælasýsl sf.
Útgáfa þessarar bókar fór ekki hátt og augljóslega ekki markmiðið að blása í lúðra frammi fyrir alþjóð um hana. Hún var auk þess ekki seld í verslunum. Kirkjublaðið.is hnaut um hana fyrir nokkru við lestur á blaði allra landsmanna. Þessi þögn um bókina gerði hana á vissan hátt spennandi og áhugaverða.
Bókin segir sögu séra Helga Árnasonar (1857-1938) og fjölskyldu hans. Einn af mörgum prestum sem löngu er sennilega flestum gleymdur nema afkomendum hans. Saga hvers manns er samofin ættingjum og vinum. Allir skilja eftir sig spor og minningar sem lifa mislengi. Fjölskyldualbúmin geyma gamlar myndir og smám saman fækkar þeim sem þekkja fólkið á myndunum. En bók af þessu tagi lyftir fólki upp úr óminnisdjúpi sögunnar og sérstaklega vegna þess að seinni hluti bókarinnar geymir niðjatal klerksins.
Presturinn var dugnaðarmaður og skyldurækinn – stólpi í sínu héraði eins og margir prestar voru á hans tíð. Örlögin fóru óblíðum höndum um hann og eiginkonur hans en hann var tvíkvæntur og þær voru systur. Sagan er rakin nokkuð skilmerkilega í stórum dráttum og ekki laust við fáeinar endurtekningar í frásögninni sem trufla í sjálfu sér ekki lesandann vegna þess að hann er efninu allsendis ókunnugur.
Séra Helgi var Snæfellingur. Fæddur á Sveinsstöðum í Neshreppi utan Ennis. Gekk í Latínuskólann og lauk guðfræðiprófi frá Prestaskólanum 1881. Síðan vígðist hann til Sandaprestakalls í Dýrafirði en staldraði þar aðeins við í tæpt ár. Nokkru fyrir prestsvígslu sína hafði hann kynnst stúlku úr Ólafsvík, Ingibjörgu Sigríði Torfadóttur Thorgrímsen (1859-1888) og gengu þau í hjónaband. Honum var veitt Nesþingaprestakall 1882 og var þar prestur í rúman aldarfjórðung. Prestakallið var umfangsmikið og prestshjónin misstu börnin sín tvö. Prestskonan lést aðeins 29 ára gömul. Hann gekk síðan að eiga mágkonu sína, Maríu Ingibjörgu Torfadóttur Thorgrímssen (1858-1939). Þau áttu fjögur börn og frumburðurinn var sá eini er upp komst, Árni Böðvar Pétur Helgason (1890-1943), læknir.
Séra Helgi hafði forystu um að kirkja yrði reist í Ólafsvík. Fróðárkirkja hafði verið tekin ofan en hún þótti ótrygg og var að auki „flóðlek og rammsnöruð.“ (Bls. 52). Prédikunarstóll og altari voru sótt í Fróðárkirkju og komið fyrir í þeirri nýju. Sóknarpresturinn vígði nýjju kirkjuna í Ólafsvík 1893 í veikindaforföllum prófastsins.
Séra Helgi sagði svo frá því í Lesbók Morgunblaðins 1926 með hvaða hætti Ólafsvíkurkirkja fékk nýja altaristöflu.
Missir barnanna setti mark sitt á prestskonurnar og séra Helga. Sami harmur blasti við mörgum á þessum tíma þegar barnadauði var mikill. Svona var lífið hjá fólki í öllum stéttum.
En það var ekki aðeins missir barna sem gekk nærri prestinum heldur og samskipti við sýslumanninn Lárus H. Bjarnason (1866-1934). Sá var kunnur úr Skúlamálinu svokallaða þegar sýslumaðurinn á Ísafirði, Skúli Thoroddsen (1859-1916), var flæmdur úr embætti með atfylgi Lárusar.
Eins og margir prestar á þessum tíma lét séra Helgi mikið að sér kveða í samfélagsmálum. Hann var brautryðjandi í skólamálum í Ólafsvík og Hellissandi. Stóð að stofnun sparisjóðs og hafði forystu um að kirkju yrði komið upp í Ólafsvík. Hann sat í sveitastjórn og var oddviti. Í bókinni kemur fram að sýslumaðurinn, Lárus H. Bjarnason, hafi lagt „hatur á hreppsnefndaroddvitann“ (bls. 71). Lagði sig eftir því að rægja prestinn og vega að mannorði hans. Höfundur bókarinnar segir að það sé ekki auðvelt að átta sig á því hvað sýslumanni hafi gengið til. Hann leggur þó fram þá tilgátu að sýslumanninum hafi mislíkað að séra Helgi lagðist gegn því að sýslunefnd Snæfells- og Hnappadalssýslu skoraði á Lárus að gefa kost á sér til Alþingis sem þingmannsefni Snæfellinga. Það hafi reyndar ekki verið af persónulegum ástæðum heldur taldi séra Helgi sýslunefndina ekki hafa umboð til slíkrar samþykktar.
Vegna þessarar úlfúðar Lárusar sýslumanns í garð séra Helga hafi sá fyrrnefndi látið bóka í fundargerð sýslunefndarinnar í mars 1903 að séra Helgi:
hefði reynst sér allt annað en góður oddviti, hann hefði sýnt af sér óhlýðni, vankunnáttu, trassaskap, er bakað hefði hreppnum tilfinnanlegan skaða og jafnvel farið með ósannindi. (Bls. 72).
Þessa fundargerð lét sýslumaðurinn prenta sérstaklega en það var ekki venja og fór hún því víða. (Bls. 76).
Prestur vildi ekki sitja undir þessum ámælum þegjandi og stefndi því sýslumanni. Kröfugerð hans hljóðaði svo:
- ummæli yrðu dæmd dauð og marklaus
- sýslumaður yrði dæmdur til hegningar fyrir ummælin
- sýslumaður yrði dæmdur til að greiða allan málskostnað (bls. 72).
Höfundur segir að biskupinn yfir Íslandi, Hallgrímur Sveinsson (1841-1909), hafi „beinlínis fyrirskipað séra Helga að höfða mál gegn sýslumanni vegna ærumeiðinga…“ (bls. 72). Fór svo að presturinn hafði betur í þessum málaferlum. Sýslumanni var gert að greiða 80 krónur í landsjóð „eða sæta 24 daga einföldu fangelsi.“ (Bls. 76). Ummæli sýslumannsins í fundargerðinni voru dæmd dauð og ómerk 6. ágúst 1906 í landsyfirrétti.
Presti liggur almennt gott orð til sóknarbarna sinna. Stundum stenst hann ekki mátið og skrifar svo í júní 1903:
Ég messaði við Hellna í fyrradag og fermdi þar þrjú börn en fékk ekki einn eyri fyrir. Hér borgar enginn neitt nema seint og síðar meir með lögtaki. (Bls. 82)
Kennsla ungmenna var honum afar hugleikin og þótti illt að sjá hana forsómaða:
Það er afturför í öllu í ár. Ég varð að skrifa til hreppsnefndarinnar kæru yfir vanræktri uppfræðslu á undir 40 börnum í Ólafsvík, þar sem flest eru með öllu ólæs þó orðin séu 8 til 10 ára. Verður nú hreppsnefndin að fara að koma þeim hingað og þangað til að læra að lesa. Miklir slóðar eru Ólsarar. (Bls. 83).
Ólsarar hafa ekki mikinn smekk fyrir söng. (Bls. 84).
Þó að séra Helgi hefði betur gegn sýslumanni í málastappinu telur höfundur að prestshjónin hafi viljað komast sem fyrst frá Ólafsvík vegna alls þess andstreymis sem þau urðu fyrir í einkalífi sínu og sömuleiðis nær réttlátara yfirvaldi „sem hefði stjórn á skapsmunum sínum.“ (Bls. 105). Kæmust í var undan mótbyrnum sem þau og fundu.
Séra Helga var veittur Kvíabekkur vorið 1908 og hófst þá meðbyrinn. Hann bjó aldrei á Kvíabekk heldur í Pálshúsum í Ólafsfjarðarþorpinu. Höfundur segir að dvölin í Ólafsfirði hafi verið með svipuðum hætti og dvölin í Ólafsvík hvað snerti afskipti af sveitarstjórnarmálum. Sömuleiðis í því sem sneri að málum kirkju og skóla; einnig kom hann að stofnun Sparisjóðs Ólafsfjarðar. Hann var þar í forystu fyrir nýrri kirkjubyggingu í Ólafsfirði – hún var vígð 19. desember 1915. Höfundur getur þess að klerkur hafi meira að segja verið kosinn í stjórn fyrsta verkalýðsfélags Ólafsfjarðar. (Bls. 156).
Það voru mikil og umskipti hjá prestshjónunum að fara til Ólafsfjarðar að mati höfundar. Hann segir að þau hjón hafi kannski geta loksins „fengið frið til að sefa sorgir sínar ef það var unnt á annað borð.“ (Bls. 119).
Höfundurinn hefur farið í gegnum ræðusafn séra Helga og vitnar stundum í það. Hann segir að séra Helgi hafi flutt „jafnan langar og trúarheitar ræður.“ (Bls. 156).
Við vígslu Ólafsfjarðarkirkju 1915 sagði hann til dæmis:
Jörðin er vor sameiginlega móðir, gröfin gerir oss alla jafna.
Hér er hlið himinsins, hér leggur ferðamaðurinn af sér hinn jarðneska hjúp til þess óhindraður og frjáls í fullkomnunar heimi að stíga frá ljósi til ljóss, frá sælu til sælu. (Bls. 156).
Það má lesa úr eftirfarandi orðum að presturinn nánast afhjúpi söfnuðinn – virðist hafa fylgst með honum eða búið yfir sálarlegu innsæi:
Það sýnist vaka fyrir mörgum að í kirkjunni séu þeir aðeins áheyrendur eða áhorfendur. Þeir líta út í hött eða setja stór augu upp á prestinn meðan hann er að bera fram bænir í stólnum eða fyrir altarinu eins og þar sé um þá athöfn að ræða sem þeim ekki komi við að öðru leyti en að horfa á eða taka eftir, gott ef ekki mætti sjá kersknifullt yfirbragð á sumum meðan hinar alvarlegustu og þörfustu bænir eru fram bornar. (Bls. 154-155).
Áður en kirkja var reist í Ólafsfirði áttu þorpsbúar kirkjusókn á Kvíabekk. Margir þeirra kvörtuðu undan því að um langan vega væri að fara í kirkjuna og sóttu hana því slaklega – sérstaklega að vetri til. Við vígslu Ólafsfjarðarkirkju skaut klerkur þessu að söfnuðinum:
Nú hafið þér ekki lengur yður til afsökunar vegalengdina og erfiðleikana að sækja guðs hús. Sýnið nú að þér hafið mætur á guðs húsi með iðulegri návist yðar og með því að hlynna að því eftir þörfum þess og kröfum tímans. (Bls. 147).
Hann vék líka að ósiðum sem söfnuðurinn hafði tamið sér eins og óstundvísi og mas á kirkjubekkjum:
Og á þann andlausa og leiðinlega hátt byrjar oft guðsþjónustan, að fólkið er með ys og þys að ryðjast til sæta sinna eða ef til vill að skeggræðast meðan kórbænin er lesin, bænin sem á að undirbúa hjörtun undir blessunarríka guðsþjónustu. Presturinn og meðhjálparinn geta ekki byrjað í réttum anda, hvað þá heldur aðrir. (Bls. 57).
Fjölmargar myndir prýða bókina. Þær eru nær allar skýrar þó að gamlar séu. Ein sterkasta myndin er á bls. 95. Sú mynd sýnir prestshjónin, séra Helga og Maríu ásamt syni sínum við grafreit tveggja sona þeirra sem dóu ungir – mynd sennilega frá 1908.
Bókin sýnist vera vel prófarkalesin. Þó er óheppileg ártalsvilla á blaðsíðu 54 þar sem vígsluár Ólafsfjarðarkirkju hefur misritast, 2015 í stað 1915 -sama villa skýst upp þegar talað er um vígslu kirkjugarðsins 1915 (bls. 151). Þá talar höfundur um að séra Helgi hafi vígst til prestakalla sem hann sótt um í stað þess að tala um að hann hafi fengið veitingu fyrir þeim. Prestur vígist aðeins einu sinni.
Niðurstaða
Einlæg og falleg frásögn úr starfsævi prestsins séra Helga Árnasonar þar sem skiptust á skin og skúrir. Textinn flæðir vel og er skýr. Séra Helgi og eiginkonur hans fengu margt að reyna en sýndu seiglu og geðfestu í mótdrægni og þakklæti í meðbyrnum. Séra Helgi er dæmi um prest sinnar kynslóðar sem var ekki aðeins prestur og sálusorgari heldur einnig umsvifamikill félagsmálamaður í sinni sveit. Sveitir landsins hrósuðu margar happi yfir því að fá heiðarlega og verkfúsa presta sem voru ákveðin kjölfesta í bændasamfélaginu. Vissulega blés stundum um þá eins og gjarnan þegar um forystufólk er að ræða.
Bókin er 240 blaðsíður í góðu og fallegu broti. Letur skýrt og fjöldi mynda prýða bókina sem sumar opna sýn inn í liðna tíð og stórmerka.
Bókin Mótbyr í Ólafsvík – Meðbyr í Ólafsfirði, kom út í desember síðastliðnum. Höfundur hennar er Atli Rúnar Halldórsson, blaðamaður og fyrrum fréttamaður á Ríkisútvarpinu. Útgefandi bókarinnar er Svarfdælasýsl sf.
Útgáfa þessarar bókar fór ekki hátt og augljóslega ekki markmiðið að blása í lúðra frammi fyrir alþjóð um hana. Hún var auk þess ekki seld í verslunum. Kirkjublaðið.is hnaut um hana fyrir nokkru við lestur á blaði allra landsmanna. Þessi þögn um bókina gerði hana á vissan hátt spennandi og áhugaverða.
Bókin segir sögu séra Helga Árnasonar (1857-1938) og fjölskyldu hans. Einn af mörgum prestum sem löngu er sennilega flestum gleymdur nema afkomendum hans. Saga hvers manns er samofin ættingjum og vinum. Allir skilja eftir sig spor og minningar sem lifa mislengi. Fjölskyldualbúmin geyma gamlar myndir og smám saman fækkar þeim sem þekkja fólkið á myndunum. En bók af þessu tagi lyftir fólki upp úr óminnisdjúpi sögunnar og sérstaklega vegna þess að seinni hluti bókarinnar geymir niðjatal klerksins.
Presturinn var dugnaðarmaður og skyldurækinn – stólpi í sínu héraði eins og margir prestar voru á hans tíð. Örlögin fóru óblíðum höndum um hann og eiginkonur hans en hann var tvíkvæntur og þær voru systur. Sagan er rakin nokkuð skilmerkilega í stórum dráttum og ekki laust við fáeinar endurtekningar í frásögninni sem trufla í sjálfu sér ekki lesandann vegna þess að hann er efninu allsendis ókunnugur.
Séra Helgi var Snæfellingur. Fæddur á Sveinsstöðum í Neshreppi utan Ennis. Gekk í Latínuskólann og lauk guðfræðiprófi frá Prestaskólanum 1881. Síðan vígðist hann til Sandaprestakalls í Dýrafirði en staldraði þar aðeins við í tæpt ár. Nokkru fyrir prestsvígslu sína hafði hann kynnst stúlku úr Ólafsvík, Ingibjörgu Sigríði Torfadóttur Thorgrímsen (1859-1888) og gengu þau í hjónaband. Honum var veitt Nesþingaprestakall 1882 og var þar prestur í rúman aldarfjórðung. Prestakallið var umfangsmikið og prestshjónin misstu börnin sín tvö. Prestskonan lést aðeins 29 ára gömul. Hann gekk síðan að eiga mágkonu sína, Maríu Ingibjörgu Torfadóttur Thorgrímssen (1858-1939). Þau áttu fjögur börn og frumburðurinn var sá eini er upp komst, Árni Böðvar Pétur Helgason (1890-1943), læknir.
Séra Helgi hafði forystu um að kirkja yrði reist í Ólafsvík. Fróðárkirkja hafði verið tekin ofan en hún þótti ótrygg og var að auki „flóðlek og rammsnöruð.“ (Bls. 52). Prédikunarstóll og altari voru sótt í Fróðárkirkju og komið fyrir í þeirri nýju. Sóknarpresturinn vígði nýjju kirkjuna í Ólafsvík 1893 í veikindaforföllum prófastsins.
Séra Helgi sagði svo frá því í Lesbók Morgunblaðins 1926 með hvaða hætti Ólafsvíkurkirkja fékk nýja altaristöflu.
Missir barnanna setti mark sitt á prestskonurnar og séra Helga. Sami harmur blasti við mörgum á þessum tíma þegar barnadauði var mikill. Svona var lífið hjá fólki í öllum stéttum.
En það var ekki aðeins missir barna sem gekk nærri prestinum heldur og samskipti við sýslumanninn Lárus H. Bjarnason (1866-1934). Sá var kunnur úr Skúlamálinu svokallaða þegar sýslumaðurinn á Ísafirði, Skúli Thoroddsen (1859-1916), var flæmdur úr embætti með atfylgi Lárusar.
Eins og margir prestar á þessum tíma lét séra Helgi mikið að sér kveða í samfélagsmálum. Hann var brautryðjandi í skólamálum í Ólafsvík og Hellissandi. Stóð að stofnun sparisjóðs og hafði forystu um að kirkju yrði komið upp í Ólafsvík. Hann sat í sveitastjórn og var oddviti. Í bókinni kemur fram að sýslumaðurinn, Lárus H. Bjarnason, hafi lagt „hatur á hreppsnefndaroddvitann“ (bls. 71). Lagði sig eftir því að rægja prestinn og vega að mannorði hans. Höfundur bókarinnar segir að það sé ekki auðvelt að átta sig á því hvað sýslumanni hafi gengið til. Hann leggur þó fram þá tilgátu að sýslumanninum hafi mislíkað að séra Helgi lagðist gegn því að sýslunefnd Snæfells- og Hnappadalssýslu skoraði á Lárus að gefa kost á sér til Alþingis sem þingmannsefni Snæfellinga. Það hafi reyndar ekki verið af persónulegum ástæðum heldur taldi séra Helgi sýslunefndina ekki hafa umboð til slíkrar samþykktar.
Vegna þessarar úlfúðar Lárusar sýslumanns í garð séra Helga hafi sá fyrrnefndi látið bóka í fundargerð sýslunefndarinnar í mars 1903 að séra Helgi:
hefði reynst sér allt annað en góður oddviti, hann hefði sýnt af sér óhlýðni, vankunnáttu, trassaskap, er bakað hefði hreppnum tilfinnanlegan skaða og jafnvel farið með ósannindi. (Bls. 72).
Þessa fundargerð lét sýslumaðurinn prenta sérstaklega en það var ekki venja og fór hún því víða. (Bls. 76).
Prestur vildi ekki sitja undir þessum ámælum þegjandi og stefndi því sýslumanni. Kröfugerð hans hljóðaði svo:
- ummæli yrðu dæmd dauð og marklaus
- sýslumaður yrði dæmdur til hegningar fyrir ummælin
- sýslumaður yrði dæmdur til að greiða allan málskostnað (bls. 72).
Höfundur segir að biskupinn yfir Íslandi, Hallgrímur Sveinsson (1841-1909), hafi „beinlínis fyrirskipað séra Helga að höfða mál gegn sýslumanni vegna ærumeiðinga…“ (bls. 72). Fór svo að presturinn hafði betur í þessum málaferlum. Sýslumanni var gert að greiða 80 krónur í landsjóð „eða sæta 24 daga einföldu fangelsi.“ (Bls. 76). Ummæli sýslumannsins í fundargerðinni voru dæmd dauð og ómerk 6. ágúst 1906 í landsyfirrétti.
Presti liggur almennt gott orð til sóknarbarna sinna. Stundum stenst hann ekki mátið og skrifar svo í júní 1903:
Ég messaði við Hellna í fyrradag og fermdi þar þrjú börn en fékk ekki einn eyri fyrir. Hér borgar enginn neitt nema seint og síðar meir með lögtaki. (Bls. 82)
Kennsla ungmenna var honum afar hugleikin og þótti illt að sjá hana forsómaða:
Það er afturför í öllu í ár. Ég varð að skrifa til hreppsnefndarinnar kæru yfir vanræktri uppfræðslu á undir 40 börnum í Ólafsvík, þar sem flest eru með öllu ólæs þó orðin séu 8 til 10 ára. Verður nú hreppsnefndin að fara að koma þeim hingað og þangað til að læra að lesa. Miklir slóðar eru Ólsarar. (Bls. 83).
Ólsarar hafa ekki mikinn smekk fyrir söng. (Bls. 84).
Þó að séra Helgi hefði betur gegn sýslumanni í málastappinu telur höfundur að prestshjónin hafi viljað komast sem fyrst frá Ólafsvík vegna alls þess andstreymis sem þau urðu fyrir í einkalífi sínu og sömuleiðis nær réttlátara yfirvaldi „sem hefði stjórn á skapsmunum sínum.“ (Bls. 105). Kæmust í var undan mótbyrnum sem þau og fundu.
Séra Helga var veittur Kvíabekkur vorið 1908 og hófst þá meðbyrinn. Hann bjó aldrei á Kvíabekk heldur í Pálshúsum í Ólafsfjarðarþorpinu. Höfundur segir að dvölin í Ólafsfirði hafi verið með svipuðum hætti og dvölin í Ólafsvík hvað snerti afskipti af sveitarstjórnarmálum. Sömuleiðis í því sem sneri að málum kirkju og skóla; einnig kom hann að stofnun Sparisjóðs Ólafsfjarðar. Hann var þar í forystu fyrir nýrri kirkjubyggingu í Ólafsfirði – hún var vígð 19. desember 1915. Höfundur getur þess að klerkur hafi meira að segja verið kosinn í stjórn fyrsta verkalýðsfélags Ólafsfjarðar. (Bls. 156).
Það voru mikil og umskipti hjá prestshjónunum að fara til Ólafsfjarðar að mati höfundar. Hann segir að þau hjón hafi kannski geta loksins „fengið frið til að sefa sorgir sínar ef það var unnt á annað borð.“ (Bls. 119).
Höfundurinn hefur farið í gegnum ræðusafn séra Helga og vitnar stundum í það. Hann segir að séra Helgi hafi flutt „jafnan langar og trúarheitar ræður.“ (Bls. 156).
Við vígslu Ólafsfjarðarkirkju 1915 sagði hann til dæmis:
Jörðin er vor sameiginlega móðir, gröfin gerir oss alla jafna.
Hér er hlið himinsins, hér leggur ferðamaðurinn af sér hinn jarðneska hjúp til þess óhindraður og frjáls í fullkomnunar heimi að stíga frá ljósi til ljóss, frá sælu til sælu. (Bls. 156).
Það má lesa úr eftirfarandi orðum að presturinn nánast afhjúpi söfnuðinn – virðist hafa fylgst með honum eða búið yfir sálarlegu innsæi:
Það sýnist vaka fyrir mörgum að í kirkjunni séu þeir aðeins áheyrendur eða áhorfendur. Þeir líta út í hött eða setja stór augu upp á prestinn meðan hann er að bera fram bænir í stólnum eða fyrir altarinu eins og þar sé um þá athöfn að ræða sem þeim ekki komi við að öðru leyti en að horfa á eða taka eftir, gott ef ekki mætti sjá kersknifullt yfirbragð á sumum meðan hinar alvarlegustu og þörfustu bænir eru fram bornar. (Bls. 154-155).
Áður en kirkja var reist í Ólafsfirði áttu þorpsbúar kirkjusókn á Kvíabekk. Margir þeirra kvörtuðu undan því að um langan vega væri að fara í kirkjuna og sóttu hana því slaklega – sérstaklega að vetri til. Við vígslu Ólafsfjarðarkirkju skaut klerkur þessu að söfnuðinum:
Nú hafið þér ekki lengur yður til afsökunar vegalengdina og erfiðleikana að sækja guðs hús. Sýnið nú að þér hafið mætur á guðs húsi með iðulegri návist yðar og með því að hlynna að því eftir þörfum þess og kröfum tímans. (Bls. 147).
Hann vék líka að ósiðum sem söfnuðurinn hafði tamið sér eins og óstundvísi og mas á kirkjubekkjum:
Og á þann andlausa og leiðinlega hátt byrjar oft guðsþjónustan, að fólkið er með ys og þys að ryðjast til sæta sinna eða ef til vill að skeggræðast meðan kórbænin er lesin, bænin sem á að undirbúa hjörtun undir blessunarríka guðsþjónustu. Presturinn og meðhjálparinn geta ekki byrjað í réttum anda, hvað þá heldur aðrir. (Bls. 57).
Fjölmargar myndir prýða bókina. Þær eru nær allar skýrar þó að gamlar séu. Ein sterkasta myndin er á bls. 95. Sú mynd sýnir prestshjónin, séra Helga og Maríu ásamt syni sínum við grafreit tveggja sona þeirra sem dóu ungir – mynd sennilega frá 1908.
Bókin sýnist vera vel prófarkalesin. Þó er óheppileg ártalsvilla á blaðsíðu 54 þar sem vígsluár Ólafsfjarðarkirkju hefur misritast, 2015 í stað 1915 -sama villa skýst upp þegar talað er um vígslu kirkjugarðsins 1915 (bls. 151). Þá talar höfundur um að séra Helgi hafi vígst til prestakalla sem hann sótt um í stað þess að tala um að hann hafi fengið veitingu fyrir þeim. Prestur vígist aðeins einu sinni.
Niðurstaða
Einlæg og falleg frásögn úr starfsævi prestsins séra Helga Árnasonar þar sem skiptust á skin og skúrir. Textinn flæðir vel og er skýr. Séra Helgi og eiginkonur hans fengu margt að reyna en sýndu seiglu og geðfestu í mótdrægni og þakklæti í meðbyrnum. Séra Helgi er dæmi um prest sinnar kynslóðar sem var ekki aðeins prestur og sálusorgari heldur einnig umsvifamikill félagsmálamaður í sinni sveit. Sveitir landsins hrósuðu margar happi yfir því að fá heiðarlega og verkfúsa presta sem voru ákveðin kjölfesta í bændasamfélaginu. Vissulega blés stundum um þá eins og gjarnan þegar um forystufólk er að ræða.
Bókin er 240 blaðsíður í góðu og fallegu broti. Letur skýrt og fjöldi mynda prýða bókina sem sumar opna sýn inn í liðna tíð og stórmerka.