Gamla konan sagðist hafa saknað hans. Skyldi ekki í því hvers vegna enginn hefði minnst á hann eftir páskana. Hún hefði alltaf verið að bíða eftir því. Nú væri komið langt fram í apríl og ekkert heyrðist af honum.

„Hverjum?“

„Mínum manni?“

„Og hver er hann?“

„Tómas?“

„Auðvitað postulinn og það átt þú að vita, vígður maðurinn.“

„Já, hann. Og af hverju er hann þinn maður?“

„Hann er líkastur mér því að ég þarf að þreifa á öllu til að trúa.“

„Þú ert nú ekki ein um það.“

„Þess heldur hefði ég nú búist við að heyra af honum núna eftir páskana en það er sennilega orðið útséð með það að hann skili sér hingað í hús. Meira að segja útvarpið þagði um hann.“

„Við skulum bara bæta úr því hér og nú.“

„Hvernig?“

„Líttu á þessa mynd.“

Cima da Conegliano The Incredulity of Saint Thomas c. 1502-04 294 x 199.4 cm Oil on synthetic panel, transferred from poplar The National Gallery, London

 

Þegar hún sá myndina hrópaði hún yfir sig og gleðin ljómaði af andliti hennar. Fallegri mynd hafði hún ekki séð síðan hún var í sunnudagaskóla.

„Og líkami frelsarans svo unaðsfagur,“ sagði hún full aðdáunar, „hvítur og saklaus.“ Síðan laut hún að myndinni og horfði á Tómas sem setur fingur sinn í síðusár hans og skaut sisona að í hálfum hljóðum: „Þó að Tómas sé minn maður þá hef ég aldrei skilið hvernig honum datt í hug að setja óhreinan fingur sinn í sárið.“ Sjálf hefði hún aldrei gert það heldur aðeins strokið fingri sínum ofurlaust í kringum sárið. Já, hún hefði alltaf verið efasemdarmanneskja eins og Tómas og fyndi til skyldleika með honum. Þyrfti að sjá og snerta.

„Naglaförin á höndum og fótum frelsarans eru svona nett,“ sagði hún hugsi á svip og bætti því við ánægð að sennilega hefði listmálarinn ekki viljað skyggja á síðusárið með blæðandi nagalförum. Síðan þagði hún drjúga stund og lét augu sín renna hægt yfir myndina eins og hún væri að skoða hana kafla fyrir kafla og kvað svo upp úr: „En hér er frelsarinn í öllu sínu veldi á miðri mynd. Já, fríður á svip og vinalegur. Svo sannarlega er yfir honum einhver ljómi eilífðar og annars heims fegurðar.“

„En hver skyldi nú vera hver á myndinni?“ spurði hún forvitinni röddu og fór athugulum augum sínum yfir listaverkið. Hló góðlátlega með sjálfri sér um leið og hún sagðist auðvitað sjá hvar Tómas efasemdamaðurinn vinur hennar væri. „En þessi þarna með skegghýjunginn er sennilega Jóhannes, lærisveinninn sem frelsarinn elskaði,“ sagði hún lágum rómi og bætti því við að hann hafi gerst liðsmaður frelsarans svo ungur að árum að honum hafi ekki verið farin að spretta grön. Hún velti svo fyrir sér hver lærisveinninn væri sem horfði beint út úr myndinni. „Þessi þarna annar frá vinstri horfir eiginlega á mig,“ sagði hún ögn áhyggjufull, „eins og hann eigi við mig brýnt erindi.“ Hún rýndi fast í myndina og sagði þetta vera geðugan mann að sjá. „Kannski vill hann bara segja með þessu einbeitta augnaráði að ég sé hérna líka í hópnum sem ég er náttúrlega,“ sagði hún ánægð í niðurstöðutóni. „Og Tómas horfir beint í augu frelsarans eins og ég vil gjarnan gera,“ áréttaði hún og var íhugul á svip.

Síðan reiddi hún mjúklega fram eina og eina setningu upp úr hugskoti sínu. Sagði að svona listaverk styrktu trú hennar eins og altaristaflan í gömlu kirkjunni hennar fyrir austan. Hún hefði alltaf horft á hana dolfallinn sem barn og lifað sig inn í hana. Ímyndað sér að hún væri litla stúlkan sem frelsarinn reisti við til lífsins. Það var eina prédikunin sem hún hefði skilið. „Ég er upprisukona,“ sagði hún ákveðinni röddu. „Og ég er ekkert að velta því fyrir mér hvers konar upprisa það er þó að ég vilji sjá hana svart á hvítu eins og Tómas vinur minn forðum daga.“

 

Jesús og Tómas

En einn af þeim tólf, Tómas, nefndur tvíburi, var ekki með þeim þegar Jesús kom. Hinir lærisveinarnir sögðu honum: „Við höfum séð Drottin.“
En hann svaraði: „Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa.“
Að viku liðinni voru lærisveinar hans aftur saman inni og Tómas með þeim. Dyrnar voru læstar. Þá kemur Jesús, stendur mitt á meðal þeirra og segir: „Friður sé með yður!“ Síðan segir hann við Tómas: „Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar og kom með hönd þína og legg í síðu mína og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður.“
Tómas svaraði: „Drottinn minn og Guð minn!“
Jesús segir við hann: „Þú trúir af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir sem hafa ekki séð og trúa þó.“

Jóhannesarguðspjall 20.24-29

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Gamla konan sagðist hafa saknað hans. Skyldi ekki í því hvers vegna enginn hefði minnst á hann eftir páskana. Hún hefði alltaf verið að bíða eftir því. Nú væri komið langt fram í apríl og ekkert heyrðist af honum.

„Hverjum?“

„Mínum manni?“

„Og hver er hann?“

„Tómas?“

„Auðvitað postulinn og það átt þú að vita, vígður maðurinn.“

„Já, hann. Og af hverju er hann þinn maður?“

„Hann er líkastur mér því að ég þarf að þreifa á öllu til að trúa.“

„Þú ert nú ekki ein um það.“

„Þess heldur hefði ég nú búist við að heyra af honum núna eftir páskana en það er sennilega orðið útséð með það að hann skili sér hingað í hús. Meira að segja útvarpið þagði um hann.“

„Við skulum bara bæta úr því hér og nú.“

„Hvernig?“

„Líttu á þessa mynd.“

Cima da Conegliano The Incredulity of Saint Thomas c. 1502-04 294 x 199.4 cm Oil on synthetic panel, transferred from poplar The National Gallery, London

 

Þegar hún sá myndina hrópaði hún yfir sig og gleðin ljómaði af andliti hennar. Fallegri mynd hafði hún ekki séð síðan hún var í sunnudagaskóla.

„Og líkami frelsarans svo unaðsfagur,“ sagði hún full aðdáunar, „hvítur og saklaus.“ Síðan laut hún að myndinni og horfði á Tómas sem setur fingur sinn í síðusár hans og skaut sisona að í hálfum hljóðum: „Þó að Tómas sé minn maður þá hef ég aldrei skilið hvernig honum datt í hug að setja óhreinan fingur sinn í sárið.“ Sjálf hefði hún aldrei gert það heldur aðeins strokið fingri sínum ofurlaust í kringum sárið. Já, hún hefði alltaf verið efasemdarmanneskja eins og Tómas og fyndi til skyldleika með honum. Þyrfti að sjá og snerta.

„Naglaförin á höndum og fótum frelsarans eru svona nett,“ sagði hún hugsi á svip og bætti því við ánægð að sennilega hefði listmálarinn ekki viljað skyggja á síðusárið með blæðandi nagalförum. Síðan þagði hún drjúga stund og lét augu sín renna hægt yfir myndina eins og hún væri að skoða hana kafla fyrir kafla og kvað svo upp úr: „En hér er frelsarinn í öllu sínu veldi á miðri mynd. Já, fríður á svip og vinalegur. Svo sannarlega er yfir honum einhver ljómi eilífðar og annars heims fegurðar.“

„En hver skyldi nú vera hver á myndinni?“ spurði hún forvitinni röddu og fór athugulum augum sínum yfir listaverkið. Hló góðlátlega með sjálfri sér um leið og hún sagðist auðvitað sjá hvar Tómas efasemdamaðurinn vinur hennar væri. „En þessi þarna með skegghýjunginn er sennilega Jóhannes, lærisveinninn sem frelsarinn elskaði,“ sagði hún lágum rómi og bætti því við að hann hafi gerst liðsmaður frelsarans svo ungur að árum að honum hafi ekki verið farin að spretta grön. Hún velti svo fyrir sér hver lærisveinninn væri sem horfði beint út úr myndinni. „Þessi þarna annar frá vinstri horfir eiginlega á mig,“ sagði hún ögn áhyggjufull, „eins og hann eigi við mig brýnt erindi.“ Hún rýndi fast í myndina og sagði þetta vera geðugan mann að sjá. „Kannski vill hann bara segja með þessu einbeitta augnaráði að ég sé hérna líka í hópnum sem ég er náttúrlega,“ sagði hún ánægð í niðurstöðutóni. „Og Tómas horfir beint í augu frelsarans eins og ég vil gjarnan gera,“ áréttaði hún og var íhugul á svip.

Síðan reiddi hún mjúklega fram eina og eina setningu upp úr hugskoti sínu. Sagði að svona listaverk styrktu trú hennar eins og altaristaflan í gömlu kirkjunni hennar fyrir austan. Hún hefði alltaf horft á hana dolfallinn sem barn og lifað sig inn í hana. Ímyndað sér að hún væri litla stúlkan sem frelsarinn reisti við til lífsins. Það var eina prédikunin sem hún hefði skilið. „Ég er upprisukona,“ sagði hún ákveðinni röddu. „Og ég er ekkert að velta því fyrir mér hvers konar upprisa það er þó að ég vilji sjá hana svart á hvítu eins og Tómas vinur minn forðum daga.“

 

Jesús og Tómas

En einn af þeim tólf, Tómas, nefndur tvíburi, var ekki með þeim þegar Jesús kom. Hinir lærisveinarnir sögðu honum: „Við höfum séð Drottin.“
En hann svaraði: „Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa.“
Að viku liðinni voru lærisveinar hans aftur saman inni og Tómas með þeim. Dyrnar voru læstar. Þá kemur Jesús, stendur mitt á meðal þeirra og segir: „Friður sé með yður!“ Síðan segir hann við Tómas: „Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar og kom með hönd þína og legg í síðu mína og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður.“
Tómas svaraði: „Drottinn minn og Guð minn!“
Jesús segir við hann: „Þú trúir af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir sem hafa ekki séð og trúa þó.“

Jóhannesarguðspjall 20.24-29

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir