Tíminn er dálítið undarlegt fyrirbæri og setur mark sitt á okkur manneskjurnar. Hann er dularfullur og stikar stórum áfram og við fáum lítið við hann ráðið. Það er eins og hann beri okkur í fangi sér, áfram, áfram, og við vitum ekki hvar sú för endar. En hann ristir okkur líka rúnum sínum og við fáum ekki undan honum komist. Stundum er sagt að við séum í fjötrum tímans: Líf okkar hleypur þennan spöl milli fæðingar og dauða; það ólgar og brýst um í sterki hönd tímans og fellur að lokum fyrir honum. Tíminn er ofurefli sem við verðum að sætta okkur við.

Tíminn er líka í huga okkar stundarfyrirbæri. Hann er eins og neisti sem hrekkur út í loftið og sýnir okkur hverfulleika lífsins og stundarinnar. Hann kemur og fer og er því ættskyldur okkur manneskjunum. Kynslóðir koma og kynslóðir fara. Allar voru og eru þær í faðmi tímans.

Mitt í þessu fári tímans skimum við eftir hamingjunni í lífinu – öllum draumunum sem þjóta fram og aftur í huga okkar á lífsleiðinni. Því sem við viljum, því sem við þráum. Oft verða einhver fótakefli á vegi okkar og allir draumar rætast ekki. Kannski síst þeir sem hringsnúast í höfðum okkar. Kannski er það bara gott þegar öllu er á botninn hvolft. Á lítilli stundu getur draumur manns horfið á braut sem reykur – hann var ekki neitt.

Þegar hamingjan heimsækir okkur fyllist brjóst okkar sælutilfinningu. Við vonum að hamingjan fari aldrei frá okkur. Af reynslu vitum við að hamingjuhjólið getur snúist við og hamingjan gengið úr greipum okkar á einu andartaki. Hamingjuna getum við fundið í öðru fólki, lífsförunautum og börnum okkar. Finnum hamingjuna þegar við skynjum að líf okkar er í jafnvægi. Hamingjan býr ekki í hlutum þó svo þeir geti verið okkur gagnlegir. Hamingjan birtist í alls konar myndum í kringum okkur og þess vegna verðum við að hafa augun opin. Tengjast öðrum tilfinningaböndum og rækta samband okkar við það sem er okkur kærast hverju sinni. Hamingjan er víðar á ferli en okkur grunar.

Kristin trú segir okkur að skapari veraldar, höfundur lífsins, hafi stigið inn í þennan ramma tímans sem við lifum og hrærumst í; hann hafi tekið á sig fjötra tímans, ok tímans, hverfulleika tímans í manninum Jesú frá Nasaret. Stundum er þetta orðað svo að hann hafi gerst bróðir okkar manna; að Guð hafi gerst maður. En hann gerði meira en að taka á sig þennan tíma sem við glímum svo oft við. Hann sigrar tímann og bendir okkur fram á veg eilífðar.

Spekingur nokkur sem glímdi við Guð og tímann komst að þessari niðurstöðu: „Allt hefur hann gert hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefur hann lagt í brjóst þeirra en maðurinn fær ekki skilið að fullu það verk sem Guð vinnur.“ (Prédikarinn 3.11). Enda hvernig í ósköpunum ættum við að skilja Guð? En eilífð er okkur gefin í trúnni á Jesú Krist.

Þegar allur tími er horfinn á braut þá skilst mannlífið sem óslitinn straumur kraftaverka; þegar neistaflug tímans lýsir upp veginn sem við mennirnir göngum sjáum við lífið sem sigurgöngu Guðs hér í heimi því að hann er við hlið okkar. Og á þessum tímans vegi sem við göngum um stund mætum við trúnni í þeim er segist vera: „upphafið og endirinn“. (Opinberunarbókin 21.6). Þar er ekkert í milli sem hrindir okkur frá honum. Þegar við sjáum þetta eða skynjum með tilfinningum okkar eða jafnvel rökhugsun sækir nýtt líf okkur heim og nýr skilningur á lífinu sem virtist vera um stund einnar nætur gisting. Við horfum auðmjúk með augum trúarinnar inn í nýjan tíma, nýjan skilning á lífinu, með eilífðina í handfarangri. Já, nýja birtu, hamingju og traust. Það eru sannarlega tímamót.

Bjartsýn tímamót og góð framtíð.

Kirkjublaðið.is óskar öllum gleðilegs árs og blessunar Guðs!

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Tíminn er dálítið undarlegt fyrirbæri og setur mark sitt á okkur manneskjurnar. Hann er dularfullur og stikar stórum áfram og við fáum lítið við hann ráðið. Það er eins og hann beri okkur í fangi sér, áfram, áfram, og við vitum ekki hvar sú för endar. En hann ristir okkur líka rúnum sínum og við fáum ekki undan honum komist. Stundum er sagt að við séum í fjötrum tímans: Líf okkar hleypur þennan spöl milli fæðingar og dauða; það ólgar og brýst um í sterki hönd tímans og fellur að lokum fyrir honum. Tíminn er ofurefli sem við verðum að sætta okkur við.

Tíminn er líka í huga okkar stundarfyrirbæri. Hann er eins og neisti sem hrekkur út í loftið og sýnir okkur hverfulleika lífsins og stundarinnar. Hann kemur og fer og er því ættskyldur okkur manneskjunum. Kynslóðir koma og kynslóðir fara. Allar voru og eru þær í faðmi tímans.

Mitt í þessu fári tímans skimum við eftir hamingjunni í lífinu – öllum draumunum sem þjóta fram og aftur í huga okkar á lífsleiðinni. Því sem við viljum, því sem við þráum. Oft verða einhver fótakefli á vegi okkar og allir draumar rætast ekki. Kannski síst þeir sem hringsnúast í höfðum okkar. Kannski er það bara gott þegar öllu er á botninn hvolft. Á lítilli stundu getur draumur manns horfið á braut sem reykur – hann var ekki neitt.

Þegar hamingjan heimsækir okkur fyllist brjóst okkar sælutilfinningu. Við vonum að hamingjan fari aldrei frá okkur. Af reynslu vitum við að hamingjuhjólið getur snúist við og hamingjan gengið úr greipum okkar á einu andartaki. Hamingjuna getum við fundið í öðru fólki, lífsförunautum og börnum okkar. Finnum hamingjuna þegar við skynjum að líf okkar er í jafnvægi. Hamingjan býr ekki í hlutum þó svo þeir geti verið okkur gagnlegir. Hamingjan birtist í alls konar myndum í kringum okkur og þess vegna verðum við að hafa augun opin. Tengjast öðrum tilfinningaböndum og rækta samband okkar við það sem er okkur kærast hverju sinni. Hamingjan er víðar á ferli en okkur grunar.

Kristin trú segir okkur að skapari veraldar, höfundur lífsins, hafi stigið inn í þennan ramma tímans sem við lifum og hrærumst í; hann hafi tekið á sig fjötra tímans, ok tímans, hverfulleika tímans í manninum Jesú frá Nasaret. Stundum er þetta orðað svo að hann hafi gerst bróðir okkar manna; að Guð hafi gerst maður. En hann gerði meira en að taka á sig þennan tíma sem við glímum svo oft við. Hann sigrar tímann og bendir okkur fram á veg eilífðar.

Spekingur nokkur sem glímdi við Guð og tímann komst að þessari niðurstöðu: „Allt hefur hann gert hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefur hann lagt í brjóst þeirra en maðurinn fær ekki skilið að fullu það verk sem Guð vinnur.“ (Prédikarinn 3.11). Enda hvernig í ósköpunum ættum við að skilja Guð? En eilífð er okkur gefin í trúnni á Jesú Krist.

Þegar allur tími er horfinn á braut þá skilst mannlífið sem óslitinn straumur kraftaverka; þegar neistaflug tímans lýsir upp veginn sem við mennirnir göngum sjáum við lífið sem sigurgöngu Guðs hér í heimi því að hann er við hlið okkar. Og á þessum tímans vegi sem við göngum um stund mætum við trúnni í þeim er segist vera: „upphafið og endirinn“. (Opinberunarbókin 21.6). Þar er ekkert í milli sem hrindir okkur frá honum. Þegar við sjáum þetta eða skynjum með tilfinningum okkar eða jafnvel rökhugsun sækir nýtt líf okkur heim og nýr skilningur á lífinu sem virtist vera um stund einnar nætur gisting. Við horfum auðmjúk með augum trúarinnar inn í nýjan tíma, nýjan skilning á lífinu, með eilífðina í handfarangri. Já, nýja birtu, hamingju og traust. Það eru sannarlega tímamót.

Bjartsýn tímamót og góð framtíð.

Kirkjublaðið.is óskar öllum gleðilegs árs og blessunar Guðs!

 

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir