Í nútímanum er trú hvers og eins fyrst og fremst einkamál. Fólk hugsar sitt í trúmálum og tekur afstöðu í einu og öðru sem snertir trúna án þess að hafa svo sem hátt um það. Kennivald kirkju hefur snarminnkað og hún segir fólki ekki lengur til í trúmálum eins og fyrrum – og er það vel.
Einstaklingurinn mótar trúarskoðanir sínar sjálfur. Hann sækir efnivið í þær skoðanir úr trúarlegu uppeldi hafi verið hirt um það, til samfélagslegra gilda og siða, til kirkju og í sumum tilvikum til kennimanna sem hafa skarað fram úr.
Kristin trú nútímans er sett fram með mjög svo fjölbreytilegum hætti og oft óvæntum. Einkaréttur á túlkun hennar er kirkjunni löngu glataður.
Frjálshuga nútímamanneskjan lætur helst ekki aðra stýra sér heldur aflar sér sjálf þekkingar og tekur sjálfstæðar ákvarðanir í trúmálum sem og samfélagsmálum. Margir eru ekki síður en vígðir þjónar kirkjunnar fróðir um trú og siði og því fráleitt að kalla þá leikmenn þegar kemur að þessum málum. Nefna má dæmi um áhugasamt fólk sem gúgglar texta sunnudagsins og les guðfræði hans og ritskýringu áður en hlýtt er á prédikun dagsins. Og hafa sumir jafnvel ekki síðri útleggingu en orðsins þjónn. En það er nú önnur saga. Allt er þetta kirkjufólk.
Nú er föstutími og eitt órækasta vitni um hann er Passíusálmalestur í útvarpinu. Það er orðin býsna gróin menningar- og trúarleg hefð. Fólk getur svo velt fyrir hversu mikið erindi 17. aldar guðfræði á til nútímamannsins en textinn er góður eins og sagt er og vel fluttur.
Það kannast allir við það að sé veisla á næsta leiti þá belgja menn sig ekki út af hversdagslegum mat. Halda í við sig og bíða veislunnar svo magarými sé fyrir kræsingar. Þannig er fasta. Fólk neitar sér af trúarlegum ástæðum um það hversdagslega því að í vændum eru dýrlegar kræsingar. Himneskar hersveitir og frelsarinn í lok jólaföstu og upprisan eftir lönguföstu sem hefst á öskudegi. Til að geta tekið á móti því er best að hafa ekki etið sig í þrot af pitsum eða lesið skýrslur um bankasölur til óbóta og heimtað grátbólgin á rannsóknarnefndir. Miklu frekar að vera fersk í huga og líkama til að ígrunda hinn trúarlega boðskap og setja hann í samband við nútímann.
Fasta er nokkuð sem hugnast markaðssamfélagi nútímans lítið nema þar megi finna einhverja hagnaðarvon og er ekkert athugavert við það í sjálfu sér. Hlaðborð jóla veltu sennilega jólaföstunni um koll. Fastan sem tími aðhalds í mat og drykk beið lægri hlut fyrir danskri lifrarkæfu, svínasteik og síld. Segið svo að danskurinn lumi ekki á ýmsu öðru en möðkuðu korni! Sjöviknafastan eða langafastan er varla hafin þegar mannhæðar háar stæður af páskaeggjum hlaðast upp í verslunum.
Samfélagið tekur miklum breytingum og fátt fær stöðvað þær. Orð eins og sjöviknafasta og langafasta eru flestum framandi. Kyrravika, dymbilvika er orðin páskavika í málvitund fólks. Og óska svo öðrum gleðilegra páska á föstudeginum langa – páskasigrinum þjófstartað.
Sumir segjast taka föstuna eftir sínu höfði. Syngja með Frank Sinatra: I did it my way. Einn segist taka allan sykur úr fæðunni enda sé hann óhollur, jafnvel fíkniefni. Annar tekur sér hvíld á Feisbókinni og enn annar setur sér að ganga til vinnu í stað þess að keyra. Þó nokkrir fylgjast með Passíusálmalestri í útvarpinu og fylgja textanum jafnvel í sínum bókum. Aðrir lesa sálmana sjálfir og hafa um hönd einkahelgihald. Hver og einn hefur sína föstusiði ef hann eða hún er eitthvað að velta þessum tíma fyrir sér í trúarlegu tilliti. Gaman væri að sjá niðurstöður rannsóknar á persónulegum föstusiðum landsmanna.
Fastan er einkamál. Hún er einkafasta.
Í nútímanum er trú hvers og eins fyrst og fremst einkamál. Fólk hugsar sitt í trúmálum og tekur afstöðu í einu og öðru sem snertir trúna án þess að hafa svo sem hátt um það. Kennivald kirkju hefur snarminnkað og hún segir fólki ekki lengur til í trúmálum eins og fyrrum – og er það vel.
Einstaklingurinn mótar trúarskoðanir sínar sjálfur. Hann sækir efnivið í þær skoðanir úr trúarlegu uppeldi hafi verið hirt um það, til samfélagslegra gilda og siða, til kirkju og í sumum tilvikum til kennimanna sem hafa skarað fram úr.
Kristin trú nútímans er sett fram með mjög svo fjölbreytilegum hætti og oft óvæntum. Einkaréttur á túlkun hennar er kirkjunni löngu glataður.
Frjálshuga nútímamanneskjan lætur helst ekki aðra stýra sér heldur aflar sér sjálf þekkingar og tekur sjálfstæðar ákvarðanir í trúmálum sem og samfélagsmálum. Margir eru ekki síður en vígðir þjónar kirkjunnar fróðir um trú og siði og því fráleitt að kalla þá leikmenn þegar kemur að þessum málum. Nefna má dæmi um áhugasamt fólk sem gúgglar texta sunnudagsins og les guðfræði hans og ritskýringu áður en hlýtt er á prédikun dagsins. Og hafa sumir jafnvel ekki síðri útleggingu en orðsins þjónn. En það er nú önnur saga. Allt er þetta kirkjufólk.
Nú er föstutími og eitt órækasta vitni um hann er Passíusálmalestur í útvarpinu. Það er orðin býsna gróin menningar- og trúarleg hefð. Fólk getur svo velt fyrir hversu mikið erindi 17. aldar guðfræði á til nútímamannsins en textinn er góður eins og sagt er og vel fluttur.
Það kannast allir við það að sé veisla á næsta leiti þá belgja menn sig ekki út af hversdagslegum mat. Halda í við sig og bíða veislunnar svo magarými sé fyrir kræsingar. Þannig er fasta. Fólk neitar sér af trúarlegum ástæðum um það hversdagslega því að í vændum eru dýrlegar kræsingar. Himneskar hersveitir og frelsarinn í lok jólaföstu og upprisan eftir lönguföstu sem hefst á öskudegi. Til að geta tekið á móti því er best að hafa ekki etið sig í þrot af pitsum eða lesið skýrslur um bankasölur til óbóta og heimtað grátbólgin á rannsóknarnefndir. Miklu frekar að vera fersk í huga og líkama til að ígrunda hinn trúarlega boðskap og setja hann í samband við nútímann.
Fasta er nokkuð sem hugnast markaðssamfélagi nútímans lítið nema þar megi finna einhverja hagnaðarvon og er ekkert athugavert við það í sjálfu sér. Hlaðborð jóla veltu sennilega jólaföstunni um koll. Fastan sem tími aðhalds í mat og drykk beið lægri hlut fyrir danskri lifrarkæfu, svínasteik og síld. Segið svo að danskurinn lumi ekki á ýmsu öðru en möðkuðu korni! Sjöviknafastan eða langafastan er varla hafin þegar mannhæðar háar stæður af páskaeggjum hlaðast upp í verslunum.
Samfélagið tekur miklum breytingum og fátt fær stöðvað þær. Orð eins og sjöviknafasta og langafasta eru flestum framandi. Kyrravika, dymbilvika er orðin páskavika í málvitund fólks. Og óska svo öðrum gleðilegra páska á föstudeginum langa – páskasigrinum þjófstartað.
Sumir segjast taka föstuna eftir sínu höfði. Syngja með Frank Sinatra: I did it my way. Einn segist taka allan sykur úr fæðunni enda sé hann óhollur, jafnvel fíkniefni. Annar tekur sér hvíld á Feisbókinni og enn annar setur sér að ganga til vinnu í stað þess að keyra. Þó nokkrir fylgjast með Passíusálmalestri í útvarpinu og fylgja textanum jafnvel í sínum bókum. Aðrir lesa sálmana sjálfir og hafa um hönd einkahelgihald. Hver og einn hefur sína föstusiði ef hann eða hún er eitthvað að velta þessum tíma fyrir sér í trúarlegu tilliti. Gaman væri að sjá niðurstöður rannsóknar á persónulegum föstusiðum landsmanna.
Fastan er einkamál. Hún er einkafasta.