Á undanförnum áratugum hefur Sigurbjörn Þorkelsson, rithöfundur og ljóðskáld, sent frá sér fjölda ljóðabóka, skrifað eftirtektarverðar greinar um trúarleg málefni og verið eftirsóttur prédikari.

Það eru ekki margir í hópi kirkjufólks sem geta státað sig af hátt í þrjátíu útgefnum bókum frá aldamótaárinu. Ljóðabækur hans eru flestar en hann hefur líka sent frá sér greinasöfn, skáldsögur, smásögur og barnabækur.

Skálholtsútgáfan – útgáfufélag þjóðkirkjunnar, hefur gefið út bókina Ljóð og söngvar – Kærleikur og friður – lifi lífið, eftir Sigurbjörn. Sú bók geymir bæði nýleg ljóð og eldri. Samtals 100 ljóð.

Sigurbjörn Þorkelsson varð sextugur á árinu og bókin er því gefin út af útgáfufélagi þjóðkirkjunnar honum til heiðurs.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, fylgir bókinni úr hlaði með formála. Þar segir hann meðal annars:

„Í áranna rás hef ég notið ljóða Sigurbjörns Þorkelssonar og þeirrar lífssýnar sem þar birtist. Sterkur þráður tengir þau saman. … Ljóðin eru ennþá sterkari vegna þess að við vitum af glímu Sigurbjörns við erfið veikindi, krabbamein, sem læknar og lyf hafa lengi náð að halda í skefjum.“

Og í lokin tekur forsetinn sér í munn hin kunnu einkunnarorð Sigurbjörns: „Lifi lífið!“

Trúarleg afstaða Sigurbjörns til lífsins, jákvæð og mannleg, andspænis alvarlegum veikindum, hefur veitt mörgum styrk. Þannig hefur hann sem feimnislaus baráttumaður með trúna að skildi reynst öðrum fyrirmynd og ómetanlegur styrkur:

Innra með þér
býr lítið ljós,
veikburða logi
sem þó aldrei
verður slökktur. (Bls. 88).

Ljóð hans eru svo hlý og mannleg, umfaðmandi og gefandi, að hver sem þau les getur ekki annað en hrifist og fyllst þakklæti:

Lykillinn að lífinu
er ljósið sem blásið var á
en lifnaði aftur
og logar nú blítt.

Það lýsir mér veginn,
er ljós leið minni á,
lampi sem yljar og vermir,
hönd sem leiðir,
líknar og blessar,
hjarta sem færir frið
og lætur mér líða
svo ljómandi vel.  (Bls. 82).

Tónlistarfólk hefur heillast af ljóðum hans og gert lög við mörg þeirra. Það eykur gildi bókarinnar að henni fylgja nótur við mörg ljóða Sigurbjörns en tónlistarmaðurinn Jóhann Helgason gerði lög við ljóð hans sem komu út á geisladiski fyrir tveimur árum. Tónlistarmennirnir Arnór B. Vilbergsson og Jónas Þórir hafa útsett lög Jóhanns fyrir almennan söng, einsöng og flutning blandaðra kóra. Til viðbótar eru svo önnur þrjú lög við ljóð Sigurbjörns sem þau Jónas Þórir, Helga Þórdís Guðmundsdóttir og Stefán Birkisson gerðu, og nótur þeirra fylgja einnig með. Í formála kemur fram að öllum er heimilt að ljósrita lögin og útsetningarnar, bæta þær og breyta þeim, með góðfúslegu leyfi höfunda og útsetjara.

Sigurbjörn hefur orðið vinsæll ljóðahöfundur bæði meðal trúaðs fólks og ekki síður leitandi. Í öllum ljóðum hans er einlæg trú kjarni málsins og hún er sett fram með hversdagslegum og auðskildum hætti. Ljóðin tala mildilega en þó skorinort til lesendanna og þeir átta sig strax á því um hvað þau fjalla og taka fegins hendi á móti þeim því að þau orða hugsanir þeirra sjálfra án þess að vera með einhverjar vífilengjur.

Allt í kringum mig
í tilverunni
eru englar
sem auðga veru mína.

Ekki síst
þegar skýjað er
og það þyrmir yfir. (Bls. 127)

Ekki síður hafa ljóðin aðdráttarafl fyrir þau sem eru leitandi og þar ræður mestu í ljóðunum hin einlæga trú og næmur skilningur á hvað felst í andlegri leit fólks. Höfundur er aldrei uppáþrengjandi heldur vitnar með hógværum hætti og lítillátum um trú sína án þess þó að gleyma staðfestunni. Hann hreykir sér ekki heldur upp né dæmir. Er þakklátur fyrir trú sína og vill gefa af henni til annarra með því að miðla reynslu sinni og benda á hvílíkur styrkur sé af henni þó svo að öllum spurningum lífsins sé þar með svarað í einu vetfangi. Trú er ákveðin vegferð og á þeirri ferð gerist margt.

Ljóð Sigurbjörns eru sterkur vitnisburður sem nær vel til nútímafólks og mörg þeirra hafa þegar fest sig í sessi en iðulega er vitnað í þau við ýmsar aðstæður eins og í minningargreinum.

Fegurðin býr
þar sem fyrirgefning,
réttlæti og friður
faðmast.

Fegurðin
er fingrafar
Guðs
í þessum heimi,
og þú
þar með talið. (Bls. 104).

Segja má að stuttar og hnitmiðaðar greinar Sigurbjörns í Morgunblaðinu á liðnum áratugum þar sem höfundur fjallar um trú og líf hafi gert hann þjóðkunnan. Höfundur setur mál sitt fram með skýrum hætti og hver grein er eins og lítil prédikun eða hugleiðing sem hvaða vígður þjónn kirkjunnar gæti verið ánægður með.

„Fyrir framlag hans til kirkju og kristni verður seint fullþakkað,“

segir Edda Möller, framkvæmdastjóri Skálholtsútgáfunnar – útgáfufélags þjóðkirkjunnar, í formálsorðum sínum. Það er svo sannarlega réttilega mælt.

Kirkjublaðið.is óskar Sigurbirni til hamingju með bókina sem er mikill fengur fyrir trúað fólk sem og leitandi; og allt safnaðarstarf í landinu.

Kærleikur og friður – lifi lífið – ljóð og söngvar, eftir Sigurbjörn Þorkelsson, Kirkjuhúsið – Skálholtsútgáfan, – hönnun kápu: Halla Sólveig Þorgeirsdóttir. Umbrot: Brynjólfur Ólason. Bókin er 205 bls.

Sigurbjörn Þorkelsson Mynd: Kirkjublaðið.is

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Á undanförnum áratugum hefur Sigurbjörn Þorkelsson, rithöfundur og ljóðskáld, sent frá sér fjölda ljóðabóka, skrifað eftirtektarverðar greinar um trúarleg málefni og verið eftirsóttur prédikari.

Það eru ekki margir í hópi kirkjufólks sem geta státað sig af hátt í þrjátíu útgefnum bókum frá aldamótaárinu. Ljóðabækur hans eru flestar en hann hefur líka sent frá sér greinasöfn, skáldsögur, smásögur og barnabækur.

Skálholtsútgáfan – útgáfufélag þjóðkirkjunnar, hefur gefið út bókina Ljóð og söngvar – Kærleikur og friður – lifi lífið, eftir Sigurbjörn. Sú bók geymir bæði nýleg ljóð og eldri. Samtals 100 ljóð.

Sigurbjörn Þorkelsson varð sextugur á árinu og bókin er því gefin út af útgáfufélagi þjóðkirkjunnar honum til heiðurs.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, fylgir bókinni úr hlaði með formála. Þar segir hann meðal annars:

„Í áranna rás hef ég notið ljóða Sigurbjörns Þorkelssonar og þeirrar lífssýnar sem þar birtist. Sterkur þráður tengir þau saman. … Ljóðin eru ennþá sterkari vegna þess að við vitum af glímu Sigurbjörns við erfið veikindi, krabbamein, sem læknar og lyf hafa lengi náð að halda í skefjum.“

Og í lokin tekur forsetinn sér í munn hin kunnu einkunnarorð Sigurbjörns: „Lifi lífið!“

Trúarleg afstaða Sigurbjörns til lífsins, jákvæð og mannleg, andspænis alvarlegum veikindum, hefur veitt mörgum styrk. Þannig hefur hann sem feimnislaus baráttumaður með trúna að skildi reynst öðrum fyrirmynd og ómetanlegur styrkur:

Innra með þér
býr lítið ljós,
veikburða logi
sem þó aldrei
verður slökktur. (Bls. 88).

Ljóð hans eru svo hlý og mannleg, umfaðmandi og gefandi, að hver sem þau les getur ekki annað en hrifist og fyllst þakklæti:

Lykillinn að lífinu
er ljósið sem blásið var á
en lifnaði aftur
og logar nú blítt.

Það lýsir mér veginn,
er ljós leið minni á,
lampi sem yljar og vermir,
hönd sem leiðir,
líknar og blessar,
hjarta sem færir frið
og lætur mér líða
svo ljómandi vel.  (Bls. 82).

Tónlistarfólk hefur heillast af ljóðum hans og gert lög við mörg þeirra. Það eykur gildi bókarinnar að henni fylgja nótur við mörg ljóða Sigurbjörns en tónlistarmaðurinn Jóhann Helgason gerði lög við ljóð hans sem komu út á geisladiski fyrir tveimur árum. Tónlistarmennirnir Arnór B. Vilbergsson og Jónas Þórir hafa útsett lög Jóhanns fyrir almennan söng, einsöng og flutning blandaðra kóra. Til viðbótar eru svo önnur þrjú lög við ljóð Sigurbjörns sem þau Jónas Þórir, Helga Þórdís Guðmundsdóttir og Stefán Birkisson gerðu, og nótur þeirra fylgja einnig með. Í formála kemur fram að öllum er heimilt að ljósrita lögin og útsetningarnar, bæta þær og breyta þeim, með góðfúslegu leyfi höfunda og útsetjara.

Sigurbjörn hefur orðið vinsæll ljóðahöfundur bæði meðal trúaðs fólks og ekki síður leitandi. Í öllum ljóðum hans er einlæg trú kjarni málsins og hún er sett fram með hversdagslegum og auðskildum hætti. Ljóðin tala mildilega en þó skorinort til lesendanna og þeir átta sig strax á því um hvað þau fjalla og taka fegins hendi á móti þeim því að þau orða hugsanir þeirra sjálfra án þess að vera með einhverjar vífilengjur.

Allt í kringum mig
í tilverunni
eru englar
sem auðga veru mína.

Ekki síst
þegar skýjað er
og það þyrmir yfir. (Bls. 127)

Ekki síður hafa ljóðin aðdráttarafl fyrir þau sem eru leitandi og þar ræður mestu í ljóðunum hin einlæga trú og næmur skilningur á hvað felst í andlegri leit fólks. Höfundur er aldrei uppáþrengjandi heldur vitnar með hógværum hætti og lítillátum um trú sína án þess þó að gleyma staðfestunni. Hann hreykir sér ekki heldur upp né dæmir. Er þakklátur fyrir trú sína og vill gefa af henni til annarra með því að miðla reynslu sinni og benda á hvílíkur styrkur sé af henni þó svo að öllum spurningum lífsins sé þar með svarað í einu vetfangi. Trú er ákveðin vegferð og á þeirri ferð gerist margt.

Ljóð Sigurbjörns eru sterkur vitnisburður sem nær vel til nútímafólks og mörg þeirra hafa þegar fest sig í sessi en iðulega er vitnað í þau við ýmsar aðstæður eins og í minningargreinum.

Fegurðin býr
þar sem fyrirgefning,
réttlæti og friður
faðmast.

Fegurðin
er fingrafar
Guðs
í þessum heimi,
og þú
þar með talið. (Bls. 104).

Segja má að stuttar og hnitmiðaðar greinar Sigurbjörns í Morgunblaðinu á liðnum áratugum þar sem höfundur fjallar um trú og líf hafi gert hann þjóðkunnan. Höfundur setur mál sitt fram með skýrum hætti og hver grein er eins og lítil prédikun eða hugleiðing sem hvaða vígður þjónn kirkjunnar gæti verið ánægður með.

„Fyrir framlag hans til kirkju og kristni verður seint fullþakkað,“

segir Edda Möller, framkvæmdastjóri Skálholtsútgáfunnar – útgáfufélags þjóðkirkjunnar, í formálsorðum sínum. Það er svo sannarlega réttilega mælt.

Kirkjublaðið.is óskar Sigurbirni til hamingju með bókina sem er mikill fengur fyrir trúað fólk sem og leitandi; og allt safnaðarstarf í landinu.

Kærleikur og friður – lifi lífið – ljóð og söngvar, eftir Sigurbjörn Þorkelsson, Kirkjuhúsið – Skálholtsútgáfan, – hönnun kápu: Halla Sólveig Þorgeirsdóttir. Umbrot: Brynjólfur Ólason. Bókin er 205 bls.

Sigurbjörn Þorkelsson Mynd: Kirkjublaðið.is

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir