Gleðilegt sumar!

Nú er sá tími kominn þegar allt vaknar. Hvert sem augað lítur nemur það staðar við líf. Grasnálin þokar sér hægt upp úr fölleitum sverði og virðist í fyrstu eiga lítið erindi út í vorsvalann. En fyrr en varir er túnið orðið grænt. Og sóley lyftir kolli sínum mót himni og sterkur fífillinn vaggar í golunni. Fugl svífur léttilega um svalan himin – fugl sem við höfum ekki séð í langan tíma eða allt frá því að hann hélt utan á síðasta hausti. Hann er kominn aftur – eða afkvæmi hans. Kominn um langan veg og ætlar að búa sér hreiður á öruggum stað og koma upp ungum.

Hvað sumarið geymir veit hann ekki. Hann veit þó að gleðin verður mikil þegar ungar brjótast úr úr eggjum – það er líka tákn um upprisu Krists í huga kristinna manna. Sumarið er upprisa alls í náttúrunni og við erum kölluð til þess fagnaðar.

Sumarstarfið bíður hans og hann hlakkar til að takast á við það. Hlakkar til þeirrar stundar þegar ungar hans fara að flögra um frá einni trjágrein til annarrar eða kútveltast milli þúfna úti í móa. Og gleðst innilega í fuglshjarta sínu yfir því þegar hann er orðinn vel fleygur og getur flogið af landi brott þegar haustar.

Og við fylgjumst með lífinu sem vaknar. Það er ekki laust við að við vöknum líka af vetrardvala. Lífskrafturinn sem streymir allt í kringum okkur er smitandi. Öll náttúran rís upp í faðm sólarljóssins bjarta og hlýja. Við fögnum sumrinu því reynslan hefur kennt okkur að það er sá tími sem fyllir huga okkar bjartsýni og krafti. Fyllir hann af gleði.

Kannski var veturinn brennimerktur kvíða og depurð sem engan endi virtist ætla að taka. En nú er kvíðinn á undanhaldi og depurðin að snúast í andhverfu sína því sumarið er komið. Sumar er sigur. Ef þú sérð sumarið þá ertu í hópi sigurvegara.

Finnurðu ilm sumarsins? Ef þú gerir það og  heyrir óm þess í golunni þá ertu á sigurbraut. Öllu því sem kann að hafa íþyngt þér á liðnum vetri verður sópað til hliðar. Sumarið í sálu þinni er gjöf Guðs. Þú getur ekki litið fram hjá því. Getur ekki lokað eyrum fyrir söngfuglum lífsins eða blóma jarðarinnar og söngnum í hjarta þínu. Öll þessi sköpun hrópar á þig: Það er tilefni til að gleðjast. Taktu þátt í fögnuði sumars. Ekkert getur kæft hann.

Fögnuður og kraftur sumarsins minnir þig á styrkleika lífsins, minnir þig á þú ert sumarbarn skaparans sem kallaði lífið fram í sumarbyrjun heimsins. Sumarbarn  sem átt hlut í sumrinu sem nú er komið og líka í því eilífa.

Aldrei skaltu gleyma því að það eru fleiri tilefni til að gleðjast en að daprast. Þú átt fleiri ánægjustundir í lífinu en hryggðarstundir. Sumarið minnir þig á allt það besta sem lífið gefur þér. Minnir þig á gleði lífsins og mikilvægi þess að geta glaðst yfir smáu sem stóru. Já, minnir á eilífðina. Það er ekki lítið.

Sumarið er bandamaður þinn. Taktu þér það til fyrirmyndar. Taktu vaxtarkipp með því! Andlegan vaxtarkipp. Láttu jarðveg sálarinnar blómgast. Reittu allt illgresi í burtu svo þú getir dafnað. Ef við sjálf reitum ekki illgresið úr sálargarði okkar þá er síður von á því að einhver komi og leggi okkur lið.

Ekkert gerist af sjálfu sér í lífi okkar. Við höfum hendur og huga til að byggja okkur upp í anda sumarsins.

Sumarið er tækifæri til að láta það gróa í brjóstum okkar sem mestu máli skiptir en það er fræ framtíðarinnar.

Sumarið bendir okkur alltaf fram á við vegna þess að allt sem það færir okkur er á ferð – er hreyfing. Það heldur áfram. Skýtur rótum, stækkar, lifnar, blómstrar. Jafnvel þótt fyrsti vísirinn sé grannur og virðist ekki standa undir sjálfum sér þá ber hann í sér kraft til að verða sterkur. Já, svo sterkur að hann getur boðið svölum haustvindi byrginn. Bognar ljúflega en brotnar ekki. Horfðu á hann og hugsaðu með þér eitt andartak að þetta sért þú. Hlúðu að honum og finndu hvernig lífið tekur sér stöðu með þér.

Gleðstu yfir því! Þinni eigin framtíð sem sumarið gefur þér.

Ekki seinna. Gleðstu núna.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Gleðilegt sumar!

Nú er sá tími kominn þegar allt vaknar. Hvert sem augað lítur nemur það staðar við líf. Grasnálin þokar sér hægt upp úr fölleitum sverði og virðist í fyrstu eiga lítið erindi út í vorsvalann. En fyrr en varir er túnið orðið grænt. Og sóley lyftir kolli sínum mót himni og sterkur fífillinn vaggar í golunni. Fugl svífur léttilega um svalan himin – fugl sem við höfum ekki séð í langan tíma eða allt frá því að hann hélt utan á síðasta hausti. Hann er kominn aftur – eða afkvæmi hans. Kominn um langan veg og ætlar að búa sér hreiður á öruggum stað og koma upp ungum.

Hvað sumarið geymir veit hann ekki. Hann veit þó að gleðin verður mikil þegar ungar brjótast úr úr eggjum – það er líka tákn um upprisu Krists í huga kristinna manna. Sumarið er upprisa alls í náttúrunni og við erum kölluð til þess fagnaðar.

Sumarstarfið bíður hans og hann hlakkar til að takast á við það. Hlakkar til þeirrar stundar þegar ungar hans fara að flögra um frá einni trjágrein til annarrar eða kútveltast milli þúfna úti í móa. Og gleðst innilega í fuglshjarta sínu yfir því þegar hann er orðinn vel fleygur og getur flogið af landi brott þegar haustar.

Og við fylgjumst með lífinu sem vaknar. Það er ekki laust við að við vöknum líka af vetrardvala. Lífskrafturinn sem streymir allt í kringum okkur er smitandi. Öll náttúran rís upp í faðm sólarljóssins bjarta og hlýja. Við fögnum sumrinu því reynslan hefur kennt okkur að það er sá tími sem fyllir huga okkar bjartsýni og krafti. Fyllir hann af gleði.

Kannski var veturinn brennimerktur kvíða og depurð sem engan endi virtist ætla að taka. En nú er kvíðinn á undanhaldi og depurðin að snúast í andhverfu sína því sumarið er komið. Sumar er sigur. Ef þú sérð sumarið þá ertu í hópi sigurvegara.

Finnurðu ilm sumarsins? Ef þú gerir það og  heyrir óm þess í golunni þá ertu á sigurbraut. Öllu því sem kann að hafa íþyngt þér á liðnum vetri verður sópað til hliðar. Sumarið í sálu þinni er gjöf Guðs. Þú getur ekki litið fram hjá því. Getur ekki lokað eyrum fyrir söngfuglum lífsins eða blóma jarðarinnar og söngnum í hjarta þínu. Öll þessi sköpun hrópar á þig: Það er tilefni til að gleðjast. Taktu þátt í fögnuði sumars. Ekkert getur kæft hann.

Fögnuður og kraftur sumarsins minnir þig á styrkleika lífsins, minnir þig á þú ert sumarbarn skaparans sem kallaði lífið fram í sumarbyrjun heimsins. Sumarbarn  sem átt hlut í sumrinu sem nú er komið og líka í því eilífa.

Aldrei skaltu gleyma því að það eru fleiri tilefni til að gleðjast en að daprast. Þú átt fleiri ánægjustundir í lífinu en hryggðarstundir. Sumarið minnir þig á allt það besta sem lífið gefur þér. Minnir þig á gleði lífsins og mikilvægi þess að geta glaðst yfir smáu sem stóru. Já, minnir á eilífðina. Það er ekki lítið.

Sumarið er bandamaður þinn. Taktu þér það til fyrirmyndar. Taktu vaxtarkipp með því! Andlegan vaxtarkipp. Láttu jarðveg sálarinnar blómgast. Reittu allt illgresi í burtu svo þú getir dafnað. Ef við sjálf reitum ekki illgresið úr sálargarði okkar þá er síður von á því að einhver komi og leggi okkur lið.

Ekkert gerist af sjálfu sér í lífi okkar. Við höfum hendur og huga til að byggja okkur upp í anda sumarsins.

Sumarið er tækifæri til að láta það gróa í brjóstum okkar sem mestu máli skiptir en það er fræ framtíðarinnar.

Sumarið bendir okkur alltaf fram á við vegna þess að allt sem það færir okkur er á ferð – er hreyfing. Það heldur áfram. Skýtur rótum, stækkar, lifnar, blómstrar. Jafnvel þótt fyrsti vísirinn sé grannur og virðist ekki standa undir sjálfum sér þá ber hann í sér kraft til að verða sterkur. Já, svo sterkur að hann getur boðið svölum haustvindi byrginn. Bognar ljúflega en brotnar ekki. Horfðu á hann og hugsaðu með þér eitt andartak að þetta sért þú. Hlúðu að honum og finndu hvernig lífið tekur sér stöðu með þér.

Gleðstu yfir því! Þinni eigin framtíð sem sumarið gefur þér.

Ekki seinna. Gleðstu núna.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir