Kínverskt máltæki segir að sá sem eigi bækur og garð hafi alltaf nóg að gera og honum þurfi aldrei að leiðast.

Garður er merkilegt fyrirbæri og gæði hans fara eftir jarðvegi og hversu sólríkur hann er. Kannski eins og mannlífsgarðurinn sem margir reyna eftir fremsta megni að hirða vel um en það skiptir sköpum. Garður veitir ánægju og lífsfyllingu.

Lítil saga er til um mann sem gekk fram hjá óhirtum garði og tautaði með sjálfum sér að ekki hirti Guð mikið um garðinn. Engill hvíslaði svo að manninum að Guð hefði lánað garðinn til mannsins sem svaf á sínu græna eyra í hengirúmi undir laufhimni. Garður krefst umhirðu og þess vegna hefur lífinu stundum verið líkt við garð. Menn verða að hirða garðinn sinn annar fer margt í óefni. Hann stendur fyrir þroska, von og umhyggju

Maðurinn fer aldrei frá sjálfum sér hvar sem hann er á ferð. Hann er alltaf einhvers staðar í miðju leiksins; við erum gerendur í lífi okkar, tökum ákvarðanir um hvað gera skuli núna eða síðar. Erum leikstjórar í eigin lífi; garðyrkjumeistarar sem stöndum ábúðarfull í miðju garðsins. Dáumst að fegurð hans og dugnaði okkar. Vitum líka flest að það tjóar ekki að kenna öðrum um ef garðurinn er í óhirðu og illgresi látið fara sínu fram.

Garðar færa með sér ilm og gleði. Þeir eru fulltrúar fegurðarinnar, lífsins sem kemur og fer. Hvetja til ábyrgrar vinnusemi.

Haustið leggst yfir garðinn. Hann breytist og við fylgjumst með. Sjáum laufblöðin sópast í þyrpingar, blómin verða álút og grasið nemur staðar sláttumönnum til ómældrar gleði. Haustlægðir skipa sér í fylkingar og eru reiðubúnar til atlögu. Mörg prýði náttúrunnar býr sig undir að leggjast í dvala eftir að hafa veitt öllum ótakmarkaða ánægju yfir sumarið.

Kirkjan er nokkuð stór garður sem verður að hugsa vel um. Þar eru margir garðyrkjumenn að störfum og flestum ferst þeim starfið vel. Margt gerist í garðinum sem hefði betur ekki gerst eins og gerist í mörgum görðum. Í þessum garði er fjöldi fólks á ferli og virðir fyrir sér fegurð hans og er fúst til að leggja hönd að verki, plægja, reita og sá. Það er þakkarvert.

Þær eru margar garðveislurnar sem haldnar eru í garði kirkjunnar. Þar erum við, ég og þú, veislustjórar í umboði gestgjafans. Eða við öll. Hlý orð og umhyggja eiga að vera þar aðalsmerki ásamt því að fleyta góðmennskunni til náungans. Það eru veitingar sem seint gleymast og hitta býsna oft fyrir þau sem þarfnast þeirra. Góð orð sem menn sá í kringum sig bera ávöxt og gera allt ljúfara meðan ill orð og hörð skræla sál og bein mannsins. Þögnin er líka beitt vopn.

Og veisluföngin eru fjölbreytileg. Fugl syngur á grein, vindur strýkur um vanga og við drögum að okkar andann. Sól rís og hnígur til viðar. Fluga á vegg og stimamjúkur köttur með óútreiknanlegt augnaráð, svart kaffi í bolla, hvaðan koma baunirnar? Eggið sem spælist á pönnunni í hádeginu. Listinn getur orðið langur. Garðurinn sér okkur fyrir fæðu og réttri næringu.

Allt þetta hversdagslega sem okkur er gefið og við gleymum því harla oft. Týnum því jafnvel í garðinum og finnst ekki mikið til þess koma fyrr en okkur vantar það.

Kannski höfum við afsökun: erum önnum kafin í lífinu og teljum okkur trú um að við eigum erindi í öll horn garðsins. Þau eru mörg nauðsynjastörfin sem þarf að ganga að: skóli, starf, fjölskylda og tómstundir. Allt er rammað inn í ákveðinn tíma sem er hin stóra stundatafla hversdagsins. Menn reyna að fara eftir henni svo lífið gangi upp.

Í Biblíunni er oft talað um garða.

Sá frægasti er sennilega aldingarðurinn Eden þar sem mikið drama hófst fyrir ævalöngu og skötuhjúin bentu á hvort annað þegar í óefni var komið – og höggormurinn skreið í burt með glott á næfurþunnri vör. Kunnugleg viðbrögð manneskjunnar.

Meistarinn frá Nasaret talaði líka um garða og í einni dæmisögu gefur hann okkur gott ráð hafi einhver sáð illgresi í huga okkar og sál. Jafnvel sannfært okkur um að garðurinn eigi að vera í órækt. En sagan er þessi:

Aðra dæmisögu sagði Jesús þeim: „Líkt er um himnaríki og mann er sáði góðu sæði í akur sinn. En er menn voru í svefni kom óvinur hans, sáði illgresi meðal hveitisins og fór síðan. Þegar sæðið spratt upp og tók að bera ávöxt kom illgresið og í ljós. Þá komu þjónar húsbóndans til hans og sögðu við hann: Herra, sáðir þú ekki góðu sæði í akur þinn? Hvaðan kemur illgresið? Hann svaraði þeim: Þetta hefur einhver óvinur gert. Þjónarnir sögðu við hann: Viltu að við förum og reytum það? Hann sagði: Nei, með því að tína illgresið gætuð þið slitið upp hveitið um leið.  Látið hvort tveggja vaxa saman fram að kornskurði. Þegar komin er kornskurðartíð mun ég segja við kornskurðarmenn: Safnið fyrst illgresinu og bindið í bundin til að brenna því en hirðið hveitið í hlöðu mína.“

Matteusarguðspjall 13.24-30

Við verðum að þekkja illgresi frá því sem gott er. Þora að kannast við það. Og losa okkur við það.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Kínverskt máltæki segir að sá sem eigi bækur og garð hafi alltaf nóg að gera og honum þurfi aldrei að leiðast.

Garður er merkilegt fyrirbæri og gæði hans fara eftir jarðvegi og hversu sólríkur hann er. Kannski eins og mannlífsgarðurinn sem margir reyna eftir fremsta megni að hirða vel um en það skiptir sköpum. Garður veitir ánægju og lífsfyllingu.

Lítil saga er til um mann sem gekk fram hjá óhirtum garði og tautaði með sjálfum sér að ekki hirti Guð mikið um garðinn. Engill hvíslaði svo að manninum að Guð hefði lánað garðinn til mannsins sem svaf á sínu græna eyra í hengirúmi undir laufhimni. Garður krefst umhirðu og þess vegna hefur lífinu stundum verið líkt við garð. Menn verða að hirða garðinn sinn annar fer margt í óefni. Hann stendur fyrir þroska, von og umhyggju

Maðurinn fer aldrei frá sjálfum sér hvar sem hann er á ferð. Hann er alltaf einhvers staðar í miðju leiksins; við erum gerendur í lífi okkar, tökum ákvarðanir um hvað gera skuli núna eða síðar. Erum leikstjórar í eigin lífi; garðyrkjumeistarar sem stöndum ábúðarfull í miðju garðsins. Dáumst að fegurð hans og dugnaði okkar. Vitum líka flest að það tjóar ekki að kenna öðrum um ef garðurinn er í óhirðu og illgresi látið fara sínu fram.

Garðar færa með sér ilm og gleði. Þeir eru fulltrúar fegurðarinnar, lífsins sem kemur og fer. Hvetja til ábyrgrar vinnusemi.

Haustið leggst yfir garðinn. Hann breytist og við fylgjumst með. Sjáum laufblöðin sópast í þyrpingar, blómin verða álút og grasið nemur staðar sláttumönnum til ómældrar gleði. Haustlægðir skipa sér í fylkingar og eru reiðubúnar til atlögu. Mörg prýði náttúrunnar býr sig undir að leggjast í dvala eftir að hafa veitt öllum ótakmarkaða ánægju yfir sumarið.

Kirkjan er nokkuð stór garður sem verður að hugsa vel um. Þar eru margir garðyrkjumenn að störfum og flestum ferst þeim starfið vel. Margt gerist í garðinum sem hefði betur ekki gerst eins og gerist í mörgum görðum. Í þessum garði er fjöldi fólks á ferli og virðir fyrir sér fegurð hans og er fúst til að leggja hönd að verki, plægja, reita og sá. Það er þakkarvert.

Þær eru margar garðveislurnar sem haldnar eru í garði kirkjunnar. Þar erum við, ég og þú, veislustjórar í umboði gestgjafans. Eða við öll. Hlý orð og umhyggja eiga að vera þar aðalsmerki ásamt því að fleyta góðmennskunni til náungans. Það eru veitingar sem seint gleymast og hitta býsna oft fyrir þau sem þarfnast þeirra. Góð orð sem menn sá í kringum sig bera ávöxt og gera allt ljúfara meðan ill orð og hörð skræla sál og bein mannsins. Þögnin er líka beitt vopn.

Og veisluföngin eru fjölbreytileg. Fugl syngur á grein, vindur strýkur um vanga og við drögum að okkar andann. Sól rís og hnígur til viðar. Fluga á vegg og stimamjúkur köttur með óútreiknanlegt augnaráð, svart kaffi í bolla, hvaðan koma baunirnar? Eggið sem spælist á pönnunni í hádeginu. Listinn getur orðið langur. Garðurinn sér okkur fyrir fæðu og réttri næringu.

Allt þetta hversdagslega sem okkur er gefið og við gleymum því harla oft. Týnum því jafnvel í garðinum og finnst ekki mikið til þess koma fyrr en okkur vantar það.

Kannski höfum við afsökun: erum önnum kafin í lífinu og teljum okkur trú um að við eigum erindi í öll horn garðsins. Þau eru mörg nauðsynjastörfin sem þarf að ganga að: skóli, starf, fjölskylda og tómstundir. Allt er rammað inn í ákveðinn tíma sem er hin stóra stundatafla hversdagsins. Menn reyna að fara eftir henni svo lífið gangi upp.

Í Biblíunni er oft talað um garða.

Sá frægasti er sennilega aldingarðurinn Eden þar sem mikið drama hófst fyrir ævalöngu og skötuhjúin bentu á hvort annað þegar í óefni var komið – og höggormurinn skreið í burt með glott á næfurþunnri vör. Kunnugleg viðbrögð manneskjunnar.

Meistarinn frá Nasaret talaði líka um garða og í einni dæmisögu gefur hann okkur gott ráð hafi einhver sáð illgresi í huga okkar og sál. Jafnvel sannfært okkur um að garðurinn eigi að vera í órækt. En sagan er þessi:

Aðra dæmisögu sagði Jesús þeim: „Líkt er um himnaríki og mann er sáði góðu sæði í akur sinn. En er menn voru í svefni kom óvinur hans, sáði illgresi meðal hveitisins og fór síðan. Þegar sæðið spratt upp og tók að bera ávöxt kom illgresið og í ljós. Þá komu þjónar húsbóndans til hans og sögðu við hann: Herra, sáðir þú ekki góðu sæði í akur þinn? Hvaðan kemur illgresið? Hann svaraði þeim: Þetta hefur einhver óvinur gert. Þjónarnir sögðu við hann: Viltu að við förum og reytum það? Hann sagði: Nei, með því að tína illgresið gætuð þið slitið upp hveitið um leið.  Látið hvort tveggja vaxa saman fram að kornskurði. Þegar komin er kornskurðartíð mun ég segja við kornskurðarmenn: Safnið fyrst illgresinu og bindið í bundin til að brenna því en hirðið hveitið í hlöðu mína.“

Matteusarguðspjall 13.24-30

Við verðum að þekkja illgresi frá því sem gott er. Þora að kannast við það. Og losa okkur við það.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir