Þegar birta dagsins dvelur aðeins skamma stund og hverfur svo inn í myrkrið er eins og hugur sumra fylgi sömu leið. Þá er ráð að kveikja ljós. Eða ganga að ljósi því sem aðrir geta brugðið upp til að verma lífið og styðja þó kannski í litlu sé. Við vitum það að myrkrið á misgreiða leið að okkur mönnunum. Sumir eru viðkvæmari fyrir því en aðrir. Þau eru til sem hrjúft myrkrið virðist ekki snerta hætis hót. Svo eru þau sem virðast ætíð glöð í bragði og hress en inni býr eitthvert djúpt myrkur sem við aldrei sjáum – það er hættulegasta myrkrið. Þannig er manneskjan. Hún ber í sér ljós og myrkur.

Þegar myrkur náttúrunnar er sem þyngst kvikna ljósin eitt af öðru. Það er sem hvert nýtt ljós sem er tendrað segi: Farðu burt, myrkur! Ég vil ekki sjá kulda þinn og vonleysi. Þungur hugur getur notið þeirra birtu sem vex smám saman á þessum dögum fram til jóla. Þetta er aðventan. Ljós sem verður sterkara og sterkara eftir því sem fleiri dagar fjúka af almanakinu í desember. Og meira en það. Við horfum til nýs árs sem okkur er gefið.

Aðventa er tími undirbúnings fyrir hátíð ljóssins. Tími sem gefur tækifæri til að stilla hugann og virða fyrir okkur öll þakkarefnin sem lífið hefur gefið okkur. Sá tími þegar ljósið lætur okkur svo að segja ekki í friði. Ljós við ljós – flöktandi kertaljós sem minnir okkur á viðkvæmt lífið og kraftinn sem það felur í sér. Heitur loginn vermir og dregur okkur að sér.

Stundum er sem öfgar nái taki á manneskjunni. Það sem hún tekur sér fyrir hendur er oft gert með miklum hamagangi og ofboði. Aftur komum við að því að manneskjan er oft sem tvískipt. Annars vegar er hún mjög hávaðasöm og henni fylgir mikill gauragangur eða þá hún fer sér hægt og lætur lítið á sér bera.

Þegar ljós aðventunnar eru kveikt eitt af öðru þá er sem manneskjan ætli sér að lýsa upp allan heiminn og hún telur sig fullfæra um það. Hún hefur nefnilega oft nokkuð mikla trú á sjálfri sér og telur sig færa í flestan sjó. Og öll þekkjum við það að stundum hefur maðurinn talið sér trú um það að hann væri herra sköpunarinnar – væri guð í heiminum og allt lúti honum. Þá sögu þekkjum við þegar valdamenn hafa farið sem eldur í sinu um jörðina og talið sig eiga líf fólks og engu þyrmt.

Þó að ljósadýrð aðventunnar sé harla mikil af mannavöldum þá verður hún aldrei sterkari en ljós þess sem sagði einfaldlega: Ég er ljós heimsins. Þetta ljós heimsins reynum við að endurspegla í ljósadýrð aðventunnar. En það er til lítils að kveikja hvert ljósið á fætur öðru með alls konar tilþrifum og blæbrigðum ef menn gleyma því að öll ljósin eru ekki nema daufur geisli af ljósi heimsins. Þetta ljós heimsins vísar okkur leið náungakærleika og umhyggju. Hvert og eitt okkar hefur burði til að bregða geislum þessa ljóss inn í líf annarra sem sitja í hugarmyrkri og vanlíðan.

Þegar við göngum með geislabrot af ljósi heimsins til annarra manna vitum við að ljósið getur aldrei orðið of mikið.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Þegar birta dagsins dvelur aðeins skamma stund og hverfur svo inn í myrkrið er eins og hugur sumra fylgi sömu leið. Þá er ráð að kveikja ljós. Eða ganga að ljósi því sem aðrir geta brugðið upp til að verma lífið og styðja þó kannski í litlu sé. Við vitum það að myrkrið á misgreiða leið að okkur mönnunum. Sumir eru viðkvæmari fyrir því en aðrir. Þau eru til sem hrjúft myrkrið virðist ekki snerta hætis hót. Svo eru þau sem virðast ætíð glöð í bragði og hress en inni býr eitthvert djúpt myrkur sem við aldrei sjáum – það er hættulegasta myrkrið. Þannig er manneskjan. Hún ber í sér ljós og myrkur.

Þegar myrkur náttúrunnar er sem þyngst kvikna ljósin eitt af öðru. Það er sem hvert nýtt ljós sem er tendrað segi: Farðu burt, myrkur! Ég vil ekki sjá kulda þinn og vonleysi. Þungur hugur getur notið þeirra birtu sem vex smám saman á þessum dögum fram til jóla. Þetta er aðventan. Ljós sem verður sterkara og sterkara eftir því sem fleiri dagar fjúka af almanakinu í desember. Og meira en það. Við horfum til nýs árs sem okkur er gefið.

Aðventa er tími undirbúnings fyrir hátíð ljóssins. Tími sem gefur tækifæri til að stilla hugann og virða fyrir okkur öll þakkarefnin sem lífið hefur gefið okkur. Sá tími þegar ljósið lætur okkur svo að segja ekki í friði. Ljós við ljós – flöktandi kertaljós sem minnir okkur á viðkvæmt lífið og kraftinn sem það felur í sér. Heitur loginn vermir og dregur okkur að sér.

Stundum er sem öfgar nái taki á manneskjunni. Það sem hún tekur sér fyrir hendur er oft gert með miklum hamagangi og ofboði. Aftur komum við að því að manneskjan er oft sem tvískipt. Annars vegar er hún mjög hávaðasöm og henni fylgir mikill gauragangur eða þá hún fer sér hægt og lætur lítið á sér bera.

Þegar ljós aðventunnar eru kveikt eitt af öðru þá er sem manneskjan ætli sér að lýsa upp allan heiminn og hún telur sig fullfæra um það. Hún hefur nefnilega oft nokkuð mikla trú á sjálfri sér og telur sig færa í flestan sjó. Og öll þekkjum við það að stundum hefur maðurinn talið sér trú um það að hann væri herra sköpunarinnar – væri guð í heiminum og allt lúti honum. Þá sögu þekkjum við þegar valdamenn hafa farið sem eldur í sinu um jörðina og talið sig eiga líf fólks og engu þyrmt.

Þó að ljósadýrð aðventunnar sé harla mikil af mannavöldum þá verður hún aldrei sterkari en ljós þess sem sagði einfaldlega: Ég er ljós heimsins. Þetta ljós heimsins reynum við að endurspegla í ljósadýrð aðventunnar. En það er til lítils að kveikja hvert ljósið á fætur öðru með alls konar tilþrifum og blæbrigðum ef menn gleyma því að öll ljósin eru ekki nema daufur geisli af ljósi heimsins. Þetta ljós heimsins vísar okkur leið náungakærleika og umhyggju. Hvert og eitt okkar hefur burði til að bregða geislum þessa ljóss inn í líf annarra sem sitja í hugarmyrkri og vanlíðan.

Þegar við göngum með geislabrot af ljósi heimsins til annarra manna vitum við að ljósið getur aldrei orðið of mikið.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir