Við lifum í efnisheiminum. Allt umhverfis okkur er efni. Hús, bílar og föt. Úti í náttúrunni sjáum við efni. Gróður, sand og möl. Fjöll, vötn og sjó. Sjálf erum við gerð úr efni, líkama. Til að lifa þurfum við fæðu sem er úr alls konar efnum. Fæðan sem við neytum breytist í líkama okkar og nærir hann. Í líkamanum ferðumst við um efnisheiminn til vinnu, skóla, tómstunda eða næðis hversdagsins.

Og við glímum við alls konar efni til að fá efni sem heitir peningar til að kaupa annað efni, fæðu og húsaskjól.

Maðurinn getur ekki lifað án efnis. Allt er úr efni. Efnisheimurinn er víður heimur og margslunginn. Stundum spyrja menn um upphaf þessa efnisheims og sumir svara því svo að hann sé tilviljun ein en aðrir að einhver hafi búið hann til.

En hvað með hugsunina? Er hún úr efni?

Hugsunin er dálítið dularfull. Þú hefur nóg um að hugsa, er stundum sagt. Eða: Hættu að hugsa um þetta. Hugsanir okkar eru í orðum og myndum – í tilfinningum, skýrar og fallegar, oftast, og stundum myrkar og í móðu. Ólga af gleði og þrá, eftirvæntingu, umhyggju og kærleika. Þær eru oft eins og hraðbrautir eða þröngir stígar. Allt þar á milli.

Hugsunin er ekki úr efni. En efnisheiminn skynjum við með hugsun okkar og skynfærum.

Hugsun hvers manns er sérstök og heimur út af fyrir sig, undraveröld. Vissulega er hægt að kortleggja hugsanir manna í stórum dráttum eins og markaðsfræðin gerir en það er aldrei hægt að ná algeru tangarhaldi á þeim jafnvel þótt þung hafi verið brimhvít alda föstudagsins svarta nú í vikunni. Hugsunin býr í höfðinu á okkur og margt getur haft áhrif á hana. Hún er ósýnileg þó svo endurómur hennar berist stundum í viðbrögðum okkar. Einhver móðgar þig og dimm ský skjótast yfir andlit þitt.

Stundum er talað um að hugsun manna sé efninu æðri. En aðrir segja að ekkert sé til nema það sé úr efni. Þá skauta menn fram hjá hinni efnislausu hugsun og öllu því sem henni fylgir. Horfa fram hjá því sem dvelur nær hverjum manni en nokkuð annað.

Enginn getur yfirgefið hugsun sína – hún býr í okkur og vakir jafnvel meðan við sofum.  Hugsunin getur farið um víðan völl. Hún hefur sig upp fyrir efnisheiminn enda þótt hún búi í honum, líkamanum.

Margir segja að Guð sé uppspuni og hugarfóstur hugsunarinnar. Og sumir berjast með oddi og egg gegn þeirri hugsun að til sé Guð. Setja allt sem ekki megi þreifa á í skjóðu hindurvitna. Efnishyggjan er trosnuð mælisnúra þeirra og ráðvilltur harðstjóri sem ríkja vill yfir hinni óefniskenndu hugsun. Spranga um götur og torg og hrópa hátt um að Guð sé ekki hægt að finna í efnisheiminum og þess vegna sé hann ekki til.

Á öllum öldum hafa menn fundið með hugsun sinni að Guð sé til. Skynjað það – og séð fótspor hans í lífinu. Séð hann út um eldhúsgluggann þar sem hann kemur til hversdagslegs fólks. Okkar. Og þú hefur kannski rennt kaffi í bolla hans án þess að vita hver hann var og látið vínarbrauð fylgja með. Rétt fátækum hjálparhönd. Hann er ekki endilega á ferð í þeim húsum sem hafa verið tekin sérstaklega fyrir hann. Kannski fremur í neyðarskýlum hér og þar í heiminum. Úti í hverfum borgarinnar. Húsum. Guð  bankar ekki bara upp á í þínu húsi. Hann er líka í næsta húsi. Þar er ljós í glugga. Eða hvað?

Og til er vitnisburður manna sem sáu Guð ganga um hér á jörðu í meistaranum frá Nasaret og gera gott hvar sem hann gekk um: Hugur Guðs klæddist efni í honum. Það er bæði gamall og nýr vitnisburður sem  hugsun mannsins tekur á móti og fagnar. Þá og núna.

Sá vitnisburður er sterkari en þeirra sem binda sig á klafa efnishyggju og geta litlu svarað til um óefniskennda hugsun mannsins. Þaðan af síður um fullyrðingar þeirra sem hafa fundið og séð í eigin hugsunum, lífi og trú, grunn til að standa á, kærleiksríkan skapara sem vill mannkyninu vel.

Þarf að hugsa sig um?

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Við lifum í efnisheiminum. Allt umhverfis okkur er efni. Hús, bílar og föt. Úti í náttúrunni sjáum við efni. Gróður, sand og möl. Fjöll, vötn og sjó. Sjálf erum við gerð úr efni, líkama. Til að lifa þurfum við fæðu sem er úr alls konar efnum. Fæðan sem við neytum breytist í líkama okkar og nærir hann. Í líkamanum ferðumst við um efnisheiminn til vinnu, skóla, tómstunda eða næðis hversdagsins.

Og við glímum við alls konar efni til að fá efni sem heitir peningar til að kaupa annað efni, fæðu og húsaskjól.

Maðurinn getur ekki lifað án efnis. Allt er úr efni. Efnisheimurinn er víður heimur og margslunginn. Stundum spyrja menn um upphaf þessa efnisheims og sumir svara því svo að hann sé tilviljun ein en aðrir að einhver hafi búið hann til.

En hvað með hugsunina? Er hún úr efni?

Hugsunin er dálítið dularfull. Þú hefur nóg um að hugsa, er stundum sagt. Eða: Hættu að hugsa um þetta. Hugsanir okkar eru í orðum og myndum – í tilfinningum, skýrar og fallegar, oftast, og stundum myrkar og í móðu. Ólga af gleði og þrá, eftirvæntingu, umhyggju og kærleika. Þær eru oft eins og hraðbrautir eða þröngir stígar. Allt þar á milli.

Hugsunin er ekki úr efni. En efnisheiminn skynjum við með hugsun okkar og skynfærum.

Hugsun hvers manns er sérstök og heimur út af fyrir sig, undraveröld. Vissulega er hægt að kortleggja hugsanir manna í stórum dráttum eins og markaðsfræðin gerir en það er aldrei hægt að ná algeru tangarhaldi á þeim jafnvel þótt þung hafi verið brimhvít alda föstudagsins svarta nú í vikunni. Hugsunin býr í höfðinu á okkur og margt getur haft áhrif á hana. Hún er ósýnileg þó svo endurómur hennar berist stundum í viðbrögðum okkar. Einhver móðgar þig og dimm ský skjótast yfir andlit þitt.

Stundum er talað um að hugsun manna sé efninu æðri. En aðrir segja að ekkert sé til nema það sé úr efni. Þá skauta menn fram hjá hinni efnislausu hugsun og öllu því sem henni fylgir. Horfa fram hjá því sem dvelur nær hverjum manni en nokkuð annað.

Enginn getur yfirgefið hugsun sína – hún býr í okkur og vakir jafnvel meðan við sofum.  Hugsunin getur farið um víðan völl. Hún hefur sig upp fyrir efnisheiminn enda þótt hún búi í honum, líkamanum.

Margir segja að Guð sé uppspuni og hugarfóstur hugsunarinnar. Og sumir berjast með oddi og egg gegn þeirri hugsun að til sé Guð. Setja allt sem ekki megi þreifa á í skjóðu hindurvitna. Efnishyggjan er trosnuð mælisnúra þeirra og ráðvilltur harðstjóri sem ríkja vill yfir hinni óefniskenndu hugsun. Spranga um götur og torg og hrópa hátt um að Guð sé ekki hægt að finna í efnisheiminum og þess vegna sé hann ekki til.

Á öllum öldum hafa menn fundið með hugsun sinni að Guð sé til. Skynjað það – og séð fótspor hans í lífinu. Séð hann út um eldhúsgluggann þar sem hann kemur til hversdagslegs fólks. Okkar. Og þú hefur kannski rennt kaffi í bolla hans án þess að vita hver hann var og látið vínarbrauð fylgja með. Rétt fátækum hjálparhönd. Hann er ekki endilega á ferð í þeim húsum sem hafa verið tekin sérstaklega fyrir hann. Kannski fremur í neyðarskýlum hér og þar í heiminum. Úti í hverfum borgarinnar. Húsum. Guð  bankar ekki bara upp á í þínu húsi. Hann er líka í næsta húsi. Þar er ljós í glugga. Eða hvað?

Og til er vitnisburður manna sem sáu Guð ganga um hér á jörðu í meistaranum frá Nasaret og gera gott hvar sem hann gekk um: Hugur Guðs klæddist efni í honum. Það er bæði gamall og nýr vitnisburður sem  hugsun mannsins tekur á móti og fagnar. Þá og núna.

Sá vitnisburður er sterkari en þeirra sem binda sig á klafa efnishyggju og geta litlu svarað til um óefniskennda hugsun mannsins. Þaðan af síður um fullyrðingar þeirra sem hafa fundið og séð í eigin hugsunum, lífi og trú, grunn til að standa á, kærleiksríkan skapara sem vill mannkyninu vel.

Þarf að hugsa sig um?

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir