Það er svo að sjá sem þjáning hafi ætíð fylgt mannkyninu. Hvar sem borið er niður í sögu mannkynsins má sjá þjáning af ýmsum toga. Margir segja sem svo ð þjáningin sé nánast samofin sögu mannsins. Þó nútímamenn telji sig standa framar en menn fyrri tíða þá hefur þeim ekki tekist að vinna bug á þjáningunni. Auðvitað hefur margt áunnist mannkyni til heilla eins og í læknavísindum. En þjáningin er þrátt fyrir allt ætíð einhvers staðar handan við hornið ýmist í einkalífi fólks eða í samskiptum þjóða. Skemmst er að minnast hins vitfirringslega árásarstríðs Rússa á hendur Úkraínu og þeim þjáningum sem það veldur. Meira er talað um vopnasendingar en friðarumleitanir en hvort skyldi geta dregið meira úr þjáningum? Friður? Stríð?

En það er ekki bara hjá mönnum sem þjáning ber að dyrum. Alls staðar úti í náttúrunni sjáum við þjáningu við hlið fegurðarinnar. Sjáum miskunnarleysi lífvera sem ráðast margar hver að annarri sjálfum sér til lífs og er svo að sjá að þar sé dauði eins annars líf.

Og saklaust fólk þjáist.

Náttúruhamfarir dynja yfir og enginn fær vörnum við komið. Jörð nötrar, hafið gengur á land, eldur rís úr iðrum jarðar og það hriktir í fjöllum. Fárviðri fer um borgir og lönd. Menn og dýr farast og eignaspjöll eru mikil.

Fólk leggur á flótta. Frá hörmungum, ofsóknum, styrjöldum, frá efnahagsrústum heimalanda sinni … leggur á flótta til lífs. Sumir eru heppnir og eru velkomnir. Aðrir bíða lengi milli vonar og ótta hvort þeim verði leyft að vera eða ekki. Og svo kemur nóttin – þessi ægilega nótt. Fólki er smalað saman og flutt í hasti, börn, sjúklingar og fólk í blóma lífs. Rekið á brott út í óvissuna. Út í þjáninguna.

Á öllum öldum hafa menn glímt við gátuna sem þjáningin er. Maðurinn er vera sem spyr og leitar, vera sem gefst aldrei upp í leit sinni að svörum við gátu lífsins. Og hann reynir að svara eftir bestu getu en veit þó að svörin eru ófullkomin.

Gjörðir manna hafa ýmsar afleiðingar í för með sér, það er öllum ljóst. Misvitrir þjóðarleiðtogar hafa kallað dauða og þjáningu yfir þjóðir sínar og þarf engin dæmi að nefna því til sönnunar. Þjóðir hafa líka oft verið undarlega auðblekktar af alls konar lýðskrumurum sem hafa leitt þær út í skelfilegar ógöngur. Samskipti manna í millum mótast stundum af ógnunum, svikum og lygum, einelti og óttastjórnun. Maðurinn hefur oft horfst í augu við þversögn lífsins og gömul orð vitna um það og gætu hafa verið rituð í gær en þau á postulinn Páll: „Hið góða, sem ég vil, geri ég ekki en hið vonda, sem ég vil ekki, það geri ég.“ (Rómverjabréfið 7.19.)

Guð er oft dreginn til ábyrgðar vegna þjáningar veraldar. Menn spyrja einfaldlega: Hvernig í ósköpunum gat Guð skapað svona skelfilega veröld? Er hann ekki algóður og alvitur? Hví grípur hann ekki inn í þegar allt stefnir í ógöngur? Nútímamenn taka ekki gilda skýringarfrásögnina á fyrsta þætti veraldar sem er sú að fólkið þá stund í alheimsfréttunum í Eden, þau Adam og Eva, eigi þar nokkra sök sem er ekki örgrannt um að kveða mætti fastar að – segja sumir.

Sumt trúað fólk vill ekki ræða þessi mál vegna þess að það telur ekki sæma að rétta yfir Guði né ræða hvort sköpun hans hefði getað verið með öðrum hætti en hún er. Annað fólk gerist svo djarft að halda uppi vörnum fyrir skaparann í augljóslega þröngri stöðu. Sú guðsvörn tekst misjafnlega eins og annar málarekstur. Í notalegum samræðum, jafnvel við snarkandi arineld og eðalvín í glasi og þjáningin víðs fjarri á þeirri leiftrandi gáfumannastundu, er spurt með festu: Hvers konar heimur væri það nú ef Guð væri alltaf að grípa inn í allt það sem aflaga færi? Væri heimurinn þá ekki frekar líkur einhverri vél sem gengi smurt fyrir sig heldur en lífi þar sem skiptast á skin og skúrir (lesist: dauði og eymd)? Aðrir segja: Svo skelfilega veröld hefur enginn góður Guð skapað, þess vegna er Guð ekki til. En þó menn þurrki Guð úr vitund veraldar er þar með ekki sagt að þeir eigi greiða leið að svari við vandamáli þjáningarinnar í heiminum.

Kristið fólk getur ekki talað um þjáningu heimsins öðruvísi en að leiða hugann að þjáningunni sem krossinn stendur fyrir. Þar þjáist Guð. Þjáist með heiminum. Og lofar sigri í ljósi upprisu frá dauðum. En hann skilur fólk ekki eftir aðgerðalaust: Farið og gerið það sama, vinnið miskunnarverk eins og hinn smáði útlendingur, Samverjinn sem er alltaf hjá ykkur. Rekið hann ekki úr landi.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Það er svo að sjá sem þjáning hafi ætíð fylgt mannkyninu. Hvar sem borið er niður í sögu mannkynsins má sjá þjáning af ýmsum toga. Margir segja sem svo ð þjáningin sé nánast samofin sögu mannsins. Þó nútímamenn telji sig standa framar en menn fyrri tíða þá hefur þeim ekki tekist að vinna bug á þjáningunni. Auðvitað hefur margt áunnist mannkyni til heilla eins og í læknavísindum. En þjáningin er þrátt fyrir allt ætíð einhvers staðar handan við hornið ýmist í einkalífi fólks eða í samskiptum þjóða. Skemmst er að minnast hins vitfirringslega árásarstríðs Rússa á hendur Úkraínu og þeim þjáningum sem það veldur. Meira er talað um vopnasendingar en friðarumleitanir en hvort skyldi geta dregið meira úr þjáningum? Friður? Stríð?

En það er ekki bara hjá mönnum sem þjáning ber að dyrum. Alls staðar úti í náttúrunni sjáum við þjáningu við hlið fegurðarinnar. Sjáum miskunnarleysi lífvera sem ráðast margar hver að annarri sjálfum sér til lífs og er svo að sjá að þar sé dauði eins annars líf.

Og saklaust fólk þjáist.

Náttúruhamfarir dynja yfir og enginn fær vörnum við komið. Jörð nötrar, hafið gengur á land, eldur rís úr iðrum jarðar og það hriktir í fjöllum. Fárviðri fer um borgir og lönd. Menn og dýr farast og eignaspjöll eru mikil.

Fólk leggur á flótta. Frá hörmungum, ofsóknum, styrjöldum, frá efnahagsrústum heimalanda sinni … leggur á flótta til lífs. Sumir eru heppnir og eru velkomnir. Aðrir bíða lengi milli vonar og ótta hvort þeim verði leyft að vera eða ekki. Og svo kemur nóttin – þessi ægilega nótt. Fólki er smalað saman og flutt í hasti, börn, sjúklingar og fólk í blóma lífs. Rekið á brott út í óvissuna. Út í þjáninguna.

Á öllum öldum hafa menn glímt við gátuna sem þjáningin er. Maðurinn er vera sem spyr og leitar, vera sem gefst aldrei upp í leit sinni að svörum við gátu lífsins. Og hann reynir að svara eftir bestu getu en veit þó að svörin eru ófullkomin.

Gjörðir manna hafa ýmsar afleiðingar í för með sér, það er öllum ljóst. Misvitrir þjóðarleiðtogar hafa kallað dauða og þjáningu yfir þjóðir sínar og þarf engin dæmi að nefna því til sönnunar. Þjóðir hafa líka oft verið undarlega auðblekktar af alls konar lýðskrumurum sem hafa leitt þær út í skelfilegar ógöngur. Samskipti manna í millum mótast stundum af ógnunum, svikum og lygum, einelti og óttastjórnun. Maðurinn hefur oft horfst í augu við þversögn lífsins og gömul orð vitna um það og gætu hafa verið rituð í gær en þau á postulinn Páll: „Hið góða, sem ég vil, geri ég ekki en hið vonda, sem ég vil ekki, það geri ég.“ (Rómverjabréfið 7.19.)

Guð er oft dreginn til ábyrgðar vegna þjáningar veraldar. Menn spyrja einfaldlega: Hvernig í ósköpunum gat Guð skapað svona skelfilega veröld? Er hann ekki algóður og alvitur? Hví grípur hann ekki inn í þegar allt stefnir í ógöngur? Nútímamenn taka ekki gilda skýringarfrásögnina á fyrsta þætti veraldar sem er sú að fólkið þá stund í alheimsfréttunum í Eden, þau Adam og Eva, eigi þar nokkra sök sem er ekki örgrannt um að kveða mætti fastar að – segja sumir.

Sumt trúað fólk vill ekki ræða þessi mál vegna þess að það telur ekki sæma að rétta yfir Guði né ræða hvort sköpun hans hefði getað verið með öðrum hætti en hún er. Annað fólk gerist svo djarft að halda uppi vörnum fyrir skaparann í augljóslega þröngri stöðu. Sú guðsvörn tekst misjafnlega eins og annar málarekstur. Í notalegum samræðum, jafnvel við snarkandi arineld og eðalvín í glasi og þjáningin víðs fjarri á þeirri leiftrandi gáfumannastundu, er spurt með festu: Hvers konar heimur væri það nú ef Guð væri alltaf að grípa inn í allt það sem aflaga færi? Væri heimurinn þá ekki frekar líkur einhverri vél sem gengi smurt fyrir sig heldur en lífi þar sem skiptast á skin og skúrir (lesist: dauði og eymd)? Aðrir segja: Svo skelfilega veröld hefur enginn góður Guð skapað, þess vegna er Guð ekki til. En þó menn þurrki Guð úr vitund veraldar er þar með ekki sagt að þeir eigi greiða leið að svari við vandamáli þjáningarinnar í heiminum.

Kristið fólk getur ekki talað um þjáningu heimsins öðruvísi en að leiða hugann að þjáningunni sem krossinn stendur fyrir. Þar þjáist Guð. Þjáist með heiminum. Og lofar sigri í ljósi upprisu frá dauðum. En hann skilur fólk ekki eftir aðgerðalaust: Farið og gerið það sama, vinnið miskunnarverk eins og hinn smáði útlendingur, Samverjinn sem er alltaf hjá ykkur. Rekið hann ekki úr landi.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir