Sá sem hefur verið beittur órétti telur að skaða hans eigi að bæta. Það er nefnilega tjón þegar menn verða fyrir barðinu á óréttlæti. Allir þekkja það í einhverri mynd og geta nefnt dæmi úr hversdagslegri reynslu. Óréttlætið getur verið af hendi annarra manna; ríkisins, kirkjunnar, fyrirtækja og þannig mætti lengi telja. Það getur bæði verið fjárhagslegt og snert menn andlega. Menn leita réttar síns fyrir dómstólum þegar mikið liggur við, vinna mál og tapa. Eru ýmist sáttir eða ekki. Enginn deilir við dómarann enda þótt menn kunni að hafa  ólíkar skoðanir á niðurstöðu dóms.

Margir telja sig verða fyrir óréttlæti sem þeir láta dómstóla ekki skera úr um. Það er hversdagslegt óréttlæti. Annað hvort leysa menn það í sameiningu og fara sáttir frá borði eða láta það liggja milli hluta. Þetta hversdagslega óréttlæti sem menn upplifa geta verið móðganir, ósanngjörn orð að þeirra mati, árekstrar á vinnustað og heimili, stimpingar og jafnvel áflog.

Hvernig greiða menn úr hversdagslegum flækjum og deilumálum? Það er misjafnt. Sumir láta margt yfir sig ganga áður en þeir bregðast við. Þeir þegja þunnu hljóði og telja oft að tíminn lækni öll sár. Reyna kannski að gleyma því sem þeim líkar miður og vona að aðrir geri það sama. Aðrir láta í sér heyra, reiðast og hafa jafnvel í hótunum. Heimta einhvers konar bætur fyrir þá svívirðu sem þeim var sýnd.

Menn geta líka sýnt kulda í garð þess sem gert hefur á hluta þeirra. Þú lokar kannski dyrum á hann og hreytir um leið einhverju út úr þér sem særir eða niðurlægir. Þú hrekur hann burt úr návist þinni með öllum tiltækum ráðum en samt er hann alltaf þarna. Hann situr um huga þinn því þangað var hann dreginn í fjötrum sem þú bast. Annað var ekki hægt að gera. Þú ert kominn í stríð og friður virðist ekki vera á næsta leiti. Og það er fjarri þér að friðmælast.

Þú skyggnist um í huga þínum, vegur og metur hvernig þú skulir bregðast við því þegar vegið var að sjálfsvirðingu þinni og lífi. Verk og orð sitja kannski í huga þínum svo undan svíður. En hve lengi ætlar þú að láta soga úr þér allan kraft? Láta aðra stýra tilfinningum þinum og sigla kannski skipi þínu í strand?

En það er til leið. Leið fyrirgefningarinnar: að fyrirgefa og að taka á móti fyrirgefningu. Þessa leið getur þú oftast farið því flest er hægt að fyrirgefa. Og sumir fyrirgefa ótrúlega svívirðu sem þeim hefur verið sýnd. Aðrir fyrirgefa aldrei. En fyrirgefning er engu að síður fær leið í flestum tilvikum okkar daglega lífs.

Fyrirgefning kemur ekki á færibandi ef á okkur er troðið og við fáum hana ekki heldur í snatri eins og skyndibita  ef við vinnum einhverjum miska.

Fyrirgefning byrjar eins og samtal í huganum. Samtal við okkur sjálf eða rökræða. Þar reynir á hvern mann við höfum að geyma, mannvit, þroska og trú. Við kunnum að sýna reiði í þessu samtali, við grátum og höfum jafnvel í heitingum í garð þess sem vann okkur miska. Kannski ákveðum við að fara hljóðan stíg rógsins til að ná okkur niðri á þeim sem olli okkur hugarangri. Leitum tækifæra til að vega að honum úr launsátri og skimum áköf eftir veikum hlekki hjá honum til að koma honum kné nú eða síðar meir.

Í þessu samtali við okkur sjálf kemur að því að við spyrjum hvernig okkur sjálfum líði þegar við troðum einhverjum um tær. Þegar við sjálf höfum sært aðra, meitt og hæðst að.

Viljum við kannast við það óhræsi sem spratt um stund úr sjálfum okkur? Hefur það verið okkur byrði? Höfum við þráð fyrirgefningu? Eða höfum við borið höfuðið hátt og gefið okkur hrokanum á vald?

Kannski hefur sjálfsvorkunn grafið um sig hjá okkur og ásakanir um að enginn skilji okkur. Sýni okkur ekki samúð í bágum aðstæðum sem leiddu okkur afvega í samskiptum við aðra. Manneskjan sé nú margbrotin vera og margt misjafnt leynist í djúpi fagurrar og göfugrar sálar. Við kunnum líka að finna fljótt bandamenn sem samsinna öllu því sem við segjum og hugsum. Lyndum kannski síður við þau sem velta öllum hliðum málsins fyrir sér og láta það í hendur okkar sjálfra hvernig best sé að leysa málið.

Fyrirgefning er ekki sögufölsun. Það sem gert var á þinn hluta er ekki þurrkað úr vitund þinni. Þú sættir þig kannski aldrei við það sem gerðist og olli þér sálar- og líkamstjóni. Það verður alltaf hluti af sögu þinni jafnvel þótt þú kunnir einhvern tíma að sættast við það. En þú getur oftast fyrirgefið.

Fyrirgefning er kaflaskil. Nýtt upphaf í ljósi þess sem áður gerðist. Leiðin áfram verður greiðfærari.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Sá sem hefur verið beittur órétti telur að skaða hans eigi að bæta. Það er nefnilega tjón þegar menn verða fyrir barðinu á óréttlæti. Allir þekkja það í einhverri mynd og geta nefnt dæmi úr hversdagslegri reynslu. Óréttlætið getur verið af hendi annarra manna; ríkisins, kirkjunnar, fyrirtækja og þannig mætti lengi telja. Það getur bæði verið fjárhagslegt og snert menn andlega. Menn leita réttar síns fyrir dómstólum þegar mikið liggur við, vinna mál og tapa. Eru ýmist sáttir eða ekki. Enginn deilir við dómarann enda þótt menn kunni að hafa  ólíkar skoðanir á niðurstöðu dóms.

Margir telja sig verða fyrir óréttlæti sem þeir láta dómstóla ekki skera úr um. Það er hversdagslegt óréttlæti. Annað hvort leysa menn það í sameiningu og fara sáttir frá borði eða láta það liggja milli hluta. Þetta hversdagslega óréttlæti sem menn upplifa geta verið móðganir, ósanngjörn orð að þeirra mati, árekstrar á vinnustað og heimili, stimpingar og jafnvel áflog.

Hvernig greiða menn úr hversdagslegum flækjum og deilumálum? Það er misjafnt. Sumir láta margt yfir sig ganga áður en þeir bregðast við. Þeir þegja þunnu hljóði og telja oft að tíminn lækni öll sár. Reyna kannski að gleyma því sem þeim líkar miður og vona að aðrir geri það sama. Aðrir láta í sér heyra, reiðast og hafa jafnvel í hótunum. Heimta einhvers konar bætur fyrir þá svívirðu sem þeim var sýnd.

Menn geta líka sýnt kulda í garð þess sem gert hefur á hluta þeirra. Þú lokar kannski dyrum á hann og hreytir um leið einhverju út úr þér sem særir eða niðurlægir. Þú hrekur hann burt úr návist þinni með öllum tiltækum ráðum en samt er hann alltaf þarna. Hann situr um huga þinn því þangað var hann dreginn í fjötrum sem þú bast. Annað var ekki hægt að gera. Þú ert kominn í stríð og friður virðist ekki vera á næsta leiti. Og það er fjarri þér að friðmælast.

Þú skyggnist um í huga þínum, vegur og metur hvernig þú skulir bregðast við því þegar vegið var að sjálfsvirðingu þinni og lífi. Verk og orð sitja kannski í huga þínum svo undan svíður. En hve lengi ætlar þú að láta soga úr þér allan kraft? Láta aðra stýra tilfinningum þinum og sigla kannski skipi þínu í strand?

En það er til leið. Leið fyrirgefningarinnar: að fyrirgefa og að taka á móti fyrirgefningu. Þessa leið getur þú oftast farið því flest er hægt að fyrirgefa. Og sumir fyrirgefa ótrúlega svívirðu sem þeim hefur verið sýnd. Aðrir fyrirgefa aldrei. En fyrirgefning er engu að síður fær leið í flestum tilvikum okkar daglega lífs.

Fyrirgefning kemur ekki á færibandi ef á okkur er troðið og við fáum hana ekki heldur í snatri eins og skyndibita  ef við vinnum einhverjum miska.

Fyrirgefning byrjar eins og samtal í huganum. Samtal við okkur sjálf eða rökræða. Þar reynir á hvern mann við höfum að geyma, mannvit, þroska og trú. Við kunnum að sýna reiði í þessu samtali, við grátum og höfum jafnvel í heitingum í garð þess sem vann okkur miska. Kannski ákveðum við að fara hljóðan stíg rógsins til að ná okkur niðri á þeim sem olli okkur hugarangri. Leitum tækifæra til að vega að honum úr launsátri og skimum áköf eftir veikum hlekki hjá honum til að koma honum kné nú eða síðar meir.

Í þessu samtali við okkur sjálf kemur að því að við spyrjum hvernig okkur sjálfum líði þegar við troðum einhverjum um tær. Þegar við sjálf höfum sært aðra, meitt og hæðst að.

Viljum við kannast við það óhræsi sem spratt um stund úr sjálfum okkur? Hefur það verið okkur byrði? Höfum við þráð fyrirgefningu? Eða höfum við borið höfuðið hátt og gefið okkur hrokanum á vald?

Kannski hefur sjálfsvorkunn grafið um sig hjá okkur og ásakanir um að enginn skilji okkur. Sýni okkur ekki samúð í bágum aðstæðum sem leiddu okkur afvega í samskiptum við aðra. Manneskjan sé nú margbrotin vera og margt misjafnt leynist í djúpi fagurrar og göfugrar sálar. Við kunnum líka að finna fljótt bandamenn sem samsinna öllu því sem við segjum og hugsum. Lyndum kannski síður við þau sem velta öllum hliðum málsins fyrir sér og láta það í hendur okkar sjálfra hvernig best sé að leysa málið.

Fyrirgefning er ekki sögufölsun. Það sem gert var á þinn hluta er ekki þurrkað úr vitund þinni. Þú sættir þig kannski aldrei við það sem gerðist og olli þér sálar- og líkamstjóni. Það verður alltaf hluti af sögu þinni jafnvel þótt þú kunnir einhvern tíma að sættast við það. En þú getur oftast fyrirgefið.

Fyrirgefning er kaflaskil. Nýtt upphaf í ljósi þess sem áður gerðist. Leiðin áfram verður greiðfærari.

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir