Morgundagurinn og líðandi stund er sá tími sem stendur okkur næst. Við lifum og hrærumst í núinu sem endurnýjast með ógnarhraða ljóssins. Alltaf er nýtt sekúndubrot að banka upp á í lífi okkar og er vart komið fyrr en það þýtur á braut. Eitthvað hlýtur það að skilja eftir?

Stund dagsins líður hratt og morgundagurinn blasir við. Núið sem var er orðið að deginum í gær. Og gærdagarnir safnast saman í þykkan bunka sem við köllum mánuði og ár. Allir þessir dagar geyma sögu. Það er saga okkar, hvers og eins. 

Við horfum til morgundagsins oftast með gleði og tilhlökkun. Stundum kvíða og ótta. Enginn veit um allt sem nýr dagur hefur að geyma þó að hægt sé að geta sér til um eitt og annað sem hann færir okkur af gömlum vana. Oft reynum við að undirbúa okkur undir komandi dag og sérstaklega ef einhver mikilvæg verkefni bíða úrlausnar. Við viljum nefnilega helst ekki að eitthvað komi flatt upp á okkur. Viljum vera við öllu búin. 

En gærdagurinn er líka mikilvægur undirbúningstími og allir dagarnir á undan honum. Það er ekki síður mikilvægt að hafa undirbúið þá svo að dagurinn á morgun geti fært okkur gæfu og gengi í smáu sem stóru. Illa undirbúnir gærdagar geta verið eins og bálköstur sem eldur læsir sig í á morgun.  

Stundum er sagt að manneskjan þrái að hafa tök á tímanum. Hún er merkt þessum tíma og kemst ekki undan honum. Og hversu frjáls sem hún kann að vera þá er líf hennar alltaf rammað inn af því sem kallast tími.

Þetta undarlega fyrirbæri, tími, teymir manneskjuna áfram og mótar hana á ýmsa vegu. Breytir viðhorfum hennar, styrkir þau og skýtur enn styrkari stoðum undir það sem hún telur vera gott og öruggt. Tíminn lætur útlit manneskjunnar ekki fara fram hjá sér heldur tekur fullan þátt í að breyta því og setja mark sitt á það. 

Í villtustu draumum sínum hefur mannkynið dreymt um að láta tímann nema staðar. Kannski er það eilífðarþráin sem býr í brjósti hennar. Ef tíminn stöðvast þá eldist enginn. Eða hvað? Og hvað verður um þroskann? Þarf kannski ekki neitt að auka hann?

En nú ræður manneskjan ekki við tímann og járnramma hans. Hún býr með honum í lífinu og reynir að ná sátt við hann og vonandi að læra eitthvað af honum. Líðandi stund er eins og hjartsláttur manneskjunnar, sýnir að hún er lifandi.

Við hreyfumst eins og klukkuvísar milli líðandi stundar og þeirrar sem kemur. Milli þess sem er og þess sem var og þess sem verður. Þetta er gangur lífsins þar sem öll litlu tímamótin heilsa hvert öðru í hraðfleygri andránni sem virðist vera á snöggferð til fortíðar og skilur eftir framtíðina við dyrastafinn. Samskipti okkar við tímann eru einföld og flókin í senn. Full af sköpun, ærslum, umhyggju, ást, fegurð, áhyggjum og þannig mætti lengi telja. Við erum ekkert ólík klukkuvísunum sem tifa á skífunni í fangi tímans. Ganga þeirra er ekki eins tilbreytingalaus og virðist við fyrstu sýn. 

Stundum kemur það fyrir að klukkuvísir vill rífa sig lausan frá skífunni. Nennir ekki að hjakka svona áfram. Vill fara hraðar. Annar vísir tekur sér hvíld við og við því að hann er orðinn þreyttur. Svo er kannski enn annar sem nemur staðar því áhyggjur lama hann.

Sagt er að bandaríski rithöfundurinn, já og spekingurinn, Mark Twain, hafi látið þau orð falla að margir hefðu þungar áhyggjur af því sem þeir skildu ekki í Biblíunni. Hann sagðist hins vegar hafa þyngstar áhyggjur af því sem hann skildi.   

Meistarinn frá Nasaret hvatti okkur til að hafa ekki áhyggjur af morgundeginum. Hann myndi hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægði sín þjáning. Ekki heldur skyldum við hafa áhyggjur af mat og drykk. Sömuleiðis ekki af klæðnaði.  

Hugsunin var og er sú að Guð muni vel fyrir öllu sjá þrátt fyrir hvers kyns þjáningu og vanlíðan. Mannlegt líf verður aldrei laust við áhyggjur en það verður enn þyngra af áhyggjum ef við látum þær sitja um daglegt líf okkar og hræða okkur frá því að lifa lífinu. Áhyggjur koma nefnilega og þær fara. En þær hverfa aldrei. Þær eru eins og lífsförunautur okkar – eins og tíminn. Við verðum að búa við áhyggjur í sátt og samlyndi – horfast í augu við þær. Já, taka í lurginn á þeim ef þær eru að sliga okkur og derra sig um of framan í líf okkar. 

Áhyggjur eiga ekki að stýra lífi okkar. Það er bjartsýni og trúartraust sem á að vera akkerið í lífi okkar. Og raunsæið. Allt það sem telst vera jákvætt og uppbyggilegt. Í dag, núna og á morgun.  

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Morgundagurinn og líðandi stund er sá tími sem stendur okkur næst. Við lifum og hrærumst í núinu sem endurnýjast með ógnarhraða ljóssins. Alltaf er nýtt sekúndubrot að banka upp á í lífi okkar og er vart komið fyrr en það þýtur á braut. Eitthvað hlýtur það að skilja eftir?

Stund dagsins líður hratt og morgundagurinn blasir við. Núið sem var er orðið að deginum í gær. Og gærdagarnir safnast saman í þykkan bunka sem við köllum mánuði og ár. Allir þessir dagar geyma sögu. Það er saga okkar, hvers og eins. 

Við horfum til morgundagsins oftast með gleði og tilhlökkun. Stundum kvíða og ótta. Enginn veit um allt sem nýr dagur hefur að geyma þó að hægt sé að geta sér til um eitt og annað sem hann færir okkur af gömlum vana. Oft reynum við að undirbúa okkur undir komandi dag og sérstaklega ef einhver mikilvæg verkefni bíða úrlausnar. Við viljum nefnilega helst ekki að eitthvað komi flatt upp á okkur. Viljum vera við öllu búin. 

En gærdagurinn er líka mikilvægur undirbúningstími og allir dagarnir á undan honum. Það er ekki síður mikilvægt að hafa undirbúið þá svo að dagurinn á morgun geti fært okkur gæfu og gengi í smáu sem stóru. Illa undirbúnir gærdagar geta verið eins og bálköstur sem eldur læsir sig í á morgun.  

Stundum er sagt að manneskjan þrái að hafa tök á tímanum. Hún er merkt þessum tíma og kemst ekki undan honum. Og hversu frjáls sem hún kann að vera þá er líf hennar alltaf rammað inn af því sem kallast tími.

Þetta undarlega fyrirbæri, tími, teymir manneskjuna áfram og mótar hana á ýmsa vegu. Breytir viðhorfum hennar, styrkir þau og skýtur enn styrkari stoðum undir það sem hún telur vera gott og öruggt. Tíminn lætur útlit manneskjunnar ekki fara fram hjá sér heldur tekur fullan þátt í að breyta því og setja mark sitt á það. 

Í villtustu draumum sínum hefur mannkynið dreymt um að láta tímann nema staðar. Kannski er það eilífðarþráin sem býr í brjósti hennar. Ef tíminn stöðvast þá eldist enginn. Eða hvað? Og hvað verður um þroskann? Þarf kannski ekki neitt að auka hann?

En nú ræður manneskjan ekki við tímann og járnramma hans. Hún býr með honum í lífinu og reynir að ná sátt við hann og vonandi að læra eitthvað af honum. Líðandi stund er eins og hjartsláttur manneskjunnar, sýnir að hún er lifandi.

Við hreyfumst eins og klukkuvísar milli líðandi stundar og þeirrar sem kemur. Milli þess sem er og þess sem var og þess sem verður. Þetta er gangur lífsins þar sem öll litlu tímamótin heilsa hvert öðru í hraðfleygri andránni sem virðist vera á snöggferð til fortíðar og skilur eftir framtíðina við dyrastafinn. Samskipti okkar við tímann eru einföld og flókin í senn. Full af sköpun, ærslum, umhyggju, ást, fegurð, áhyggjum og þannig mætti lengi telja. Við erum ekkert ólík klukkuvísunum sem tifa á skífunni í fangi tímans. Ganga þeirra er ekki eins tilbreytingalaus og virðist við fyrstu sýn. 

Stundum kemur það fyrir að klukkuvísir vill rífa sig lausan frá skífunni. Nennir ekki að hjakka svona áfram. Vill fara hraðar. Annar vísir tekur sér hvíld við og við því að hann er orðinn þreyttur. Svo er kannski enn annar sem nemur staðar því áhyggjur lama hann.

Sagt er að bandaríski rithöfundurinn, já og spekingurinn, Mark Twain, hafi látið þau orð falla að margir hefðu þungar áhyggjur af því sem þeir skildu ekki í Biblíunni. Hann sagðist hins vegar hafa þyngstar áhyggjur af því sem hann skildi.   

Meistarinn frá Nasaret hvatti okkur til að hafa ekki áhyggjur af morgundeginum. Hann myndi hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægði sín þjáning. Ekki heldur skyldum við hafa áhyggjur af mat og drykk. Sömuleiðis ekki af klæðnaði.  

Hugsunin var og er sú að Guð muni vel fyrir öllu sjá þrátt fyrir hvers kyns þjáningu og vanlíðan. Mannlegt líf verður aldrei laust við áhyggjur en það verður enn þyngra af áhyggjum ef við látum þær sitja um daglegt líf okkar og hræða okkur frá því að lifa lífinu. Áhyggjur koma nefnilega og þær fara. En þær hverfa aldrei. Þær eru eins og lífsförunautur okkar – eins og tíminn. Við verðum að búa við áhyggjur í sátt og samlyndi – horfast í augu við þær. Já, taka í lurginn á þeim ef þær eru að sliga okkur og derra sig um of framan í líf okkar. 

Áhyggjur eiga ekki að stýra lífi okkar. Það er bjartsýni og trúartraust sem á að vera akkerið í lífi okkar. Og raunsæið. Allt það sem telst vera jákvætt og uppbyggilegt. Í dag, núna og á morgun.  

 

 

 

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir