Hver er sjálfum sér næstur, er oft sagt. Allir skilja það á svipaðan hátt og orðtakið eldurinn brennur heitast á sjálfum þér.

Hver maður skoðar oft hug sinn og sér hvort tveggja það sem vel er gert og það sem betur má gera. Sumir láta sér það kannski í léttu rúmi liggja það sem miður fer en aðrir ákveða með sjálfum sér að taka sér tak: Gera betur næst, breyta þessu eða hinu. Þetta er liður í sjálfsþekkingu sem alls ekki má vanmeta.

Sjálfsþekking sprettur ekki upp af sjálfri sér heldur verður allar stundir að bæta við hana og efla. Sá sem þekkir sjálfa/n sig býr yfir mikilli þekkingu og hún getur reynst honum/henni sem fjársjóður á lífsins göngu.

Flestir menn bregðast við áreitum á svipaðan hátt þó vissulega fari það að nokkru eftir menningarumhverfi hvers manns. Gleðitilfinning vaknar við ákveðnar aðstæður og sorg við aðrar; öfund getur brotist út við sérstakar aðstæður; óþreyja svellur í huga einhvers; kvíði grefur um sig í vissum aðstæðum og hugurinn kemst í uppnám. Sæla og unaður hríslast um við enn aðrar aðstæður. Og svona mætti lengi telja. Manneskjan er með líku sniði þegar litið er til tilfinninga hvar sem er í veröldinni – eða með orðum skáldsins: hjörtunum svipar til í Súdan og Grímsnesinu.

En margt getur komið flatt upp á manneskjuna og viðbrögð hennar verið undarleg. Ekki síður verða menn að átta sig á því hvernig þeir bregðast við hinu alls óvænta.

Hver maður býr með sjálfum sér – ef svo má að orði komast. Líkaminn er sem hús andans eða musteri eins og einn góður maður orðaði það:

Vitið þér eigi, að þér eruð musteri Guðs og að andi Guðs býr í yður?  (I.Korintubréf 3.16).

Líkaminn er fenginn svo að segja okkur til ábúðar og oft virðum við þetta musteri fyrir okkur. Við þjálfum líkamann með ýmsu móti, hlúum að musterinu á svipaðan hátt og menn halda húsi við: mála og prýða. Í þessu musteri – í þessum líkama – þessu húsi – búum við. Andi okkar, hugur býr í því. Flestir telja mikilvægt að þekkja herbergjaskipan þar sem þeir búa hverju sinni og því er ekki síður mikilvægt að þekkja hvernig hús líkamans er og þá ekki síst hvernig hugurinn starfar og bregst við.

Sjálfsskilningur er hér lykilatriði. Enginn getur skilið aðra manneskju fyrir hana sjálfa. Hér er hver og einn með hlutverk og það ræður miklu um alla gæfuríka lífsframvindu með hvaða hætti þessi sjálfsskilningur er lagður.

Þær stundir koma hjá öllum að hugurinn sem býr í líkamanum dofnar og virðist ætla að trénast upp. Slík líðan hefur áhrif á líkamann – innri líðan brýst fram á líkamanum svo sem jurtin sem er við það að skrælna því ræturnar ná hvergi í næringu. Ef hugur manns fær enga andlega næringu þá trosna hinar andlegu rætur og öll sjálfsþekking verður minni fyrir vikið.

Hvernig ræktar maðurinn huga sinn og farsælan sjálfsskilning? Ýmsar leiðir eru færar.

Kristnir menn lesa í orði Guðs, biðja og íhuga. Aðrir láta íhugun duga og enn aðrir bænina. Öll trúarbrögð horfa með sérstökum hætti til hins andlega þáttar í veru mannsins án þess þó að gleyma hinum líkamlega. Hinn andlegi kraftur er mönnum gefinn og það er lífsbrýnt að leggja rækt við hann. Hann er sem ljósið í húsinu – musterinu – ljósið sem vermir og lýsir svo við hrösum ekki um okkur sjálf eða aðra.

Við búum með sjálfum okkur – við sjálf erum nánustu sambýlingar okkar og viljum okkur vel. Þess vegna viljum við líka öðrum vel og erum því minnug hinnar gullvægu setningar:

Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. (Matteusarguðspjall 7.12).

Þetta er Gullna reglan í lífinu – gagnvart sjálfum okkur og öðrum.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Hver er sjálfum sér næstur, er oft sagt. Allir skilja það á svipaðan hátt og orðtakið eldurinn brennur heitast á sjálfum þér.

Hver maður skoðar oft hug sinn og sér hvort tveggja það sem vel er gert og það sem betur má gera. Sumir láta sér það kannski í léttu rúmi liggja það sem miður fer en aðrir ákveða með sjálfum sér að taka sér tak: Gera betur næst, breyta þessu eða hinu. Þetta er liður í sjálfsþekkingu sem alls ekki má vanmeta.

Sjálfsþekking sprettur ekki upp af sjálfri sér heldur verður allar stundir að bæta við hana og efla. Sá sem þekkir sjálfa/n sig býr yfir mikilli þekkingu og hún getur reynst honum/henni sem fjársjóður á lífsins göngu.

Flestir menn bregðast við áreitum á svipaðan hátt þó vissulega fari það að nokkru eftir menningarumhverfi hvers manns. Gleðitilfinning vaknar við ákveðnar aðstæður og sorg við aðrar; öfund getur brotist út við sérstakar aðstæður; óþreyja svellur í huga einhvers; kvíði grefur um sig í vissum aðstæðum og hugurinn kemst í uppnám. Sæla og unaður hríslast um við enn aðrar aðstæður. Og svona mætti lengi telja. Manneskjan er með líku sniði þegar litið er til tilfinninga hvar sem er í veröldinni – eða með orðum skáldsins: hjörtunum svipar til í Súdan og Grímsnesinu.

En margt getur komið flatt upp á manneskjuna og viðbrögð hennar verið undarleg. Ekki síður verða menn að átta sig á því hvernig þeir bregðast við hinu alls óvænta.

Hver maður býr með sjálfum sér – ef svo má að orði komast. Líkaminn er sem hús andans eða musteri eins og einn góður maður orðaði það:

Vitið þér eigi, að þér eruð musteri Guðs og að andi Guðs býr í yður?  (I.Korintubréf 3.16).

Líkaminn er fenginn svo að segja okkur til ábúðar og oft virðum við þetta musteri fyrir okkur. Við þjálfum líkamann með ýmsu móti, hlúum að musterinu á svipaðan hátt og menn halda húsi við: mála og prýða. Í þessu musteri – í þessum líkama – þessu húsi – búum við. Andi okkar, hugur býr í því. Flestir telja mikilvægt að þekkja herbergjaskipan þar sem þeir búa hverju sinni og því er ekki síður mikilvægt að þekkja hvernig hús líkamans er og þá ekki síst hvernig hugurinn starfar og bregst við.

Sjálfsskilningur er hér lykilatriði. Enginn getur skilið aðra manneskju fyrir hana sjálfa. Hér er hver og einn með hlutverk og það ræður miklu um alla gæfuríka lífsframvindu með hvaða hætti þessi sjálfsskilningur er lagður.

Þær stundir koma hjá öllum að hugurinn sem býr í líkamanum dofnar og virðist ætla að trénast upp. Slík líðan hefur áhrif á líkamann – innri líðan brýst fram á líkamanum svo sem jurtin sem er við það að skrælna því ræturnar ná hvergi í næringu. Ef hugur manns fær enga andlega næringu þá trosna hinar andlegu rætur og öll sjálfsþekking verður minni fyrir vikið.

Hvernig ræktar maðurinn huga sinn og farsælan sjálfsskilning? Ýmsar leiðir eru færar.

Kristnir menn lesa í orði Guðs, biðja og íhuga. Aðrir láta íhugun duga og enn aðrir bænina. Öll trúarbrögð horfa með sérstökum hætti til hins andlega þáttar í veru mannsins án þess þó að gleyma hinum líkamlega. Hinn andlegi kraftur er mönnum gefinn og það er lífsbrýnt að leggja rækt við hann. Hann er sem ljósið í húsinu – musterinu – ljósið sem vermir og lýsir svo við hrösum ekki um okkur sjálf eða aðra.

Við búum með sjálfum okkur – við sjálf erum nánustu sambýlingar okkar og viljum okkur vel. Þess vegna viljum við líka öðrum vel og erum því minnug hinnar gullvægu setningar:

Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. (Matteusarguðspjall 7.12).

Þetta er Gullna reglan í lífinu – gagnvart sjálfum okkur og öðrum.

Viltu deila þessari grein með fleirum?

Aðrar fréttir